Hoppa yfir valmynd

Nr. 234/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 22. maí 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 234/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18040013

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 9. febrúar 2018 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), þá ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 30. janúar 2018, um að synja henni um dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar. Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að umsókn hennar um dvalarleyfi á grundvelli 78. gr. laga um útlendinga verði samþykkt. Til vara er þess krafist að umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 79. gr. laga um útlendinga verði samþykkt. Til þrautavara er þess krafist að málinu verði vísað aftur til Útlendingastofnunar til frekari rannsóknar.Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Í hinni kærðu ákvörðun kom fram að kærandi hafi lagt fram umsókn um dvalarleyfi sem aðstandandi Íslendings þann 25. september 2017. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 30. janúar 2018, var umsókn kæranda synjað. Ákvörðun Útlendingastofnunar var móttekin fyrir hönd kæranda hér á landi þann 1. febrúar 2018. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 9. febrúar 2018. Kærunni fylgdu athugasemdir kæranda. Þá barst viðbótargreinargerð frá kæranda þann 22. maí 2018.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að samkvæmt 1. mgr. 69. gr. laganna geti foreldrar íslensks ríkisborgara eða útlendings sem dvelst hér á landi á grundvelli nánar tilgreindra dvalarleyfa fengið dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar. Í ákvæðinu væri gerð krafa um að foreldrar hefðu náð 67 ára aldri til að geta átt rétt á dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar. Kærandi, sem væri 55 ára gömul, uppfyllti hins vegar ekki umrætt aldursskilyrði 69. gr. laga um útlendinga. Var umsókn hennar um dvalarleyfi því synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í kæru kæranda kemur fram að dóttir hennar sé búsett hér á landi ásamt eiginmanni hennar og barni þeirra. Dóttir kæranda hafi séð um framfærslu hennar og að kærandi eigi enga aðra nákomna sem búi nálægt henni í heimaríki. Þá segir að dóttir kæranda þurfi stuðning frá kæranda vegna aðstæðna fjölskyldu hennar. Fram kemur að eiginmaður dóttur kæranda sé [...]. Hann geti helst ekki verið einn og ekki farið einn um utan húss. Fram kemur að fjölskylda dóttur kæranda fái ekki nægilega aðstoð frá opinberum aðilum hér á landi vegna skorts á aðstoðarfólki í velferðarþjónustunni. Þá kemur fram að dóttir kæranda eigi [...] barn sem þarfnist mikillar umönnunar, [...]. Dóttir kæranda sé í fullri vinnu og sé undir álagi vegna aðstæðna hennar. Hún muni annast framfærslu kæranda að öllu leyti komi kærandi hingað til lands. Í kærunni óskar kærandi eftir því að henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga, eða á grundvelli lögmæts og sérstaks tilgangs, sbr. 79. gr. laganna, ef ekki verði fallist á að veita henni dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar.

Í viðbótargreinargerð byggir kærandi á því að Útlendingastofnun hafi hvorki sinnt rannsóknarskyldu eða leiðbeiningarskyldu við meðferð málsins, sbr. 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í málinu hafi legið skýrt fyrir að kærandi hafi sótt um dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar og aðstoðar vegna aðstæðna barnabarns og tengdasonar hér á landi. Hins vegar hafi Útlendingastofnun flokkað umsókn kæranda um dvalarleyfi sem umsókn vegna fjölskyldusameiningar þótt ljóst sé að kærandi uppfylli ekki ófrávíkjanlegt aldursskilyrði 69. gr. laga um útlendinga. Kærandi gerir athugasemd við að Útlendingastofnun hafi ekki tekið afstöðu til umsóknar hennar um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga. Byggir kærandi á því að hún uppfylli skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt ákvæðinu, m.a. með vísan til umönnunarsjónarmiða vegna barnabarns hennar hér á landi. Þá byggir kærandi á því að aðstæður í málinu, m.a. með vísan til langvinnra veikinda barnabarns hennar hér á landi, séu með þeim hætti að heimilt sé að beita undantekningarákvæði 79. gr. laga um útlendinga og veita henni dvalarleyfi á grundvelli lögmæts og sérstaks tilgangs.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort rétt sé að synja kæranda um dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar.

Í 69. gr. laga um útlendinga er kveðið á um skilyrði fyrir dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar. Í 1. mgr. 69. gr. segir m.a. að nánasti aðstandandi íslensks eða annars norræns ríkisborgara sem er með fasta búsetu hér á landi eða útlendings sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis skv. 61., 63., 70., 73., 74. og 78. gr. eða ótímabundins dvalarleyfis skv. 58. gr. geti með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar að fullnægðum skilyrðum 55. gr. og VIII. kafla. Til nánustu aðstandenda teljist maki, sambúðarmaki, börn viðkomandi yngri en 18 ára í forsjá hans og á framfæri og foreldrar 67 ára og eldri. Þá kemur fram í 2. mgr. 72. gr. laga um útlendinga að heimilt sé að veita útlendingi sem er 67 ára eða eldri dvalarleyfi eigi hann uppkomið barn hér á landi. Í þeim tilvikum er jafnframt heimilt að veita útlendingi undanþágu frá skilyrði um að geta framfleytt sér sjálfur, sbr. 55. gr. laganna, ef barn hans sýnir fram á að það geti tryggt framfærslu viðkomandi.

Af framangreindu er ljóst að foreldri verður aðeins veitt dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 72. gr. laga um útlendinga hafi það náð 67 ára aldri en um er að ræða ófrávíkjanlegt skilyrði. Í máli þessu liggur fyrir að kærandi hefur ekki náð þeim aldri og er því ekki heimilt að veita kæranda dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar. Verður þegar af þeirri ástæðu að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja kæranda um dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar.

Leiðbeiningarskylda 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993

Eins og áður er rakið lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi hér á landi þann 25. september 2017. Í umsókninni kemur m.a. fram að tilgangur dvalar sé að vera með dóttur hennar hér á landi, hjálpa henni og fjölskyldu hennar og aðstoða við umönnun barns dóttur hennar. Þá hyggist hún læra íslensku og taka þátt íslensku samfélagi. Í málinu liggur fyrir vottorð frá læknanema við Heilsugæsluna í [...] þar sem heilsufari dóttursonar kæranda og eiginmanns dóttur hennar er lýst, en fram kemur að vottorðið sé vegna „beiðni um undanþágu frá lögum um dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar á grundvelli 69.-72. gr. útlendingalaga nr. 80/2016“. Af ákvörðun Útlendingastofnunar verður ráðið að Útlendingastofnun hafi litið á umsókn kæranda sem umsókn um dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar, sbr. VIII. kafla laga um útlendinga.

Þótt umsókn kæranda um dvalarleyfi og framlagt læknisvottorð vegna fjölskyldu dóttur hennar beri með sér að sótt hafi verið um dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar samkvæmt VIII. kafla laga um útlendinga telur kærunefnd að atvik málsins séu þess eðlis að tilefni hefði verið til af hálfu Útlendingastofnunar að vekja athygli kæranda á þeim möguleika að leggja fram umsókn um dvalarleyfi á öðrum grundvelli, t.d. á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga, eða á grundvelli lögmæts og sérstaks tilgangs, sbr. 79. gr. laganna.

Eins og áður greinir bar umsókn kæranda um dvalarleyfi með sér að sótt væri um dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar og var hún flokkuð og afgreidd sem slík við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun. Telur kærunefnd því ekki unnt að taka afstöðu til þess hvort kærandi eigi rétt á dvalarleyfi á grundvelli 78. eða 79. gr. laga um útlendinga eins og hún hefur byggt á. Kærunefnd vekur hins vegar athygli kæranda á því að telji hún sig eiga rétt á dvalarleyfi á grundvelli síðastnefndra ákvæða laga um útlendinga geti hún lagt fram umsókn þess efnis hjá Útlendingastofnun. Kærunefnd tekur þó fram að með þessum leiðbeiningum hefur nefndin ekki tekið afstöðu til þess hvort skilyrði leyfisins séu fyrir hendi.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.Anna Tryggvadóttir Anna Valbjörg Ólafsdóttir Árni Helgason 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta