Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 392/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 392/2016

Mánudaginn 13. febrúar 2017

A

gegn

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Með bréfi 12. október 2016 kærði B hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndar-nefndar Reykjavíkur frá 15. september 2016 vegna umgengni kæranda við son sinn, C. Gerð er krafa um að úrskurðurinn verði felldur úr gildi.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Drengurinn C er fæddur árið X og lýtur forsjá Barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Kærandi, sem er móðir drengsins, var svipt forsjá hans og X systkina hans með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur X 2016 sem staðfestur var í Hæstarétti X 2016. Kærandi er nú búsett í D. Faðir drengsins er E.

Samkvæmt gögnum málsins hafa barnaverndaryfirvöld haft afskipti af högum drengsins frá árinu X. Drengurinn var fyrst vistaður utan heimilis X en þá dvaldi hann á heimili á vegum barnaverndarnefndar. Hann hefur verið í styrktu fóstri hjá núverandi fósturforeldrum frá X.

Í fyrrnefndum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur er greint frá því að fram komi í niðurstöðum og ályktunum dómkvaddra matsmanna að kærandi hafi átt við geðræn vandamál að stríða frá árinu X. Í dóminum kemur jafnframt fram að barnaverndaryfirvöld hafi samkvæmt gögnum málsins haft málefni barna kæranda til meðferðar allt frá árinu X. Á þeim tíma hafi borist fjöldi tilkynninga um gróft ofbeldi á heimili kæranda sem meðal annars hafi beinst að börnunum. Kæranda hafi verið veittur margvíslegur stuðningur og hjálp af hálfu barnaverndarnefndar í þeim tilgangi að vinna bug á skaðlegum aðstæðum barnanna í hennar umsjá en án árangurs. Var það niðurstaða dómsins að almenn úrræði til stuðnings kæranda hefðu verið fullreynd. Í dóminum kemur einnig fram með afdráttarlausum hætti að forsjárhæfni kæranda var talin verulega skert og hún því ófær um að sinna umönnun og uppeldi barna sinni. Taldi dómurinn fullvíst að andlegri og líkamlegri heilsu barnanna og þroska þeirra væri hætta búin færi kærandi áfram með forsjá þeirra. Hafi þá einnig verið litið til persónuleikavanda kæranda sem teldist verulegur og langvarandi að mati geðlækna og sálfræðinga.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur X 2016 var kærandi dæmd til 18 mánaða fangelsisvistar og til að greiða börnum sínum miskabætur. Talið var sannað að kærandi hefði sýnt börnum sínum vanvirðandi háttsemi. Vísað er til þess í dóminum að börnin hafi átt erfitt uppdráttar og búið við mikla vanlíðan. Þau hafi öll að einhverju marki sýnt af sér óeðlilega hegðun. X drengirnir séu til meðferðar í Barnahúsi en systir þeirra gangi til sálfræðings. Að því er varðar [...] elstu börnin var kærandi sakfelld fyrir að hafa í nokkur skipti sparkað í þau, slegið, hrint, togað í hár þeirra eða slegið utan í veggi og hluti, tekið þau kverkataki og kastað hlutum í þau. Kærandi var einnig sakfelld fyrir að hafa haft í hótunum við börnin og kallað þau öllum illum nöfnum.

Frá því að drengurinn fór í fóstur hefur umgengni verið við kæranda undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndar Reykjavíkur. Á tímabilinu maí til nóvember 2015 var umgengni einu sinni í mánuði í tvær klukkustundir í senn. Umgengnin þótti hafa neikvæð áhrif á líðan og hegðun drengsins og þótti að því leyti ganga til baka sá árangur sem hann hafði náð með aðstoð fósturforeldra. Með úrskurði Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 24. nóvember 2015 var ákveðið að drengurinn hefði umgengni við kæranda á sex vikna frest í tvo tíma í senn. Hafi það meðal annars verið gert í ljósi þess að ekki hafi verið stefnt að því að hann færi í umsjá kæranda að nýju.

Þar sem ekki náðist samkomulag á milli kæranda og Barnaverndar Reykjavíkur um umgengni eftir að kærandi var með dómi svipt forsjá drengsins var úrskurðað um umgengni á grundvelli 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.). Umgengni kæranda við drenginn var með úrskurði Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 15. september 2016 ákveðin tvisvar á ári í tvær klukkustundir í senn undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndar Reykjavíkur. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákveður að C, hafi umgengni við móður sína, A, [tvisvar sinnum] á ári í tvær klukkustundir í senn. Umgengni fari fram undir eftirliti í húsnæði Barnaverndar Reykjavíkur.“

II. Sjónarmið kæranda og kröfur

Kærandi krefst þess að úrskurður Barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 15. september 2016 verði felldur úr gildi. Því til stuðnings vísar kærandi til meginreglna barnaverndarlaga og meginreglna stjórnsýsluréttar, aðallega 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá er vísað til 70. gr., sbr. 74. gr. bvl., svo og 7. mgr. 4. gr. laganna. Einnig er vísað til meginreglna barnaréttar, meðal annars 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2013 og 3. gr. laga um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins nr. 19/2013. Loks er vísað til 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög 62/1994.

Af hálfu kæranda er vísað til þess að 24. nóvember 2015 hafi Barnaverndarnefnd Reykjavíkur úrskurðað um umgengni kæranda við drenginn. Niðurstaðan hafi verið sú að umgengni skyldi vera í tvær klukkustundir í senn á sex vikna fresti undir eftirliti í húsnæði á vegum barnaverndar. Þá hafi kæranda verið meinað að eiga samskipti við drenginn í gegnum síma eða net. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur X 2016 hafi kærandi verið svipt forsjá barna sinna. Í kjölfar dómsins hafi verið gengið frá varanlegu fóstri drengsins hjá fósturforeldrum. Þann 15. september 2016 hafi Barnaverndarnefnd Reykjavíkur úrskurðað aftur um umgengni kæranda við drenginn. Úrskurðurinn hafi verið þess efnis að kærandi skyldi hafa umgengni við drenginn tvisvar á ári í tvær klukkustundir í senn undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndar Reykjavíkur. Úrskurðarorðin hafi verið í samræmi við tillögu starfsmanna barnaverndar en rökin fyrir svo takmarkaðri umgengni hafi verið þau að drengurinn hefði sýnt vanlíðan fyrir og eftir umgengni. Það eitt og sér þurfi þó ekki að þýða að það þjóni ekki hagsmunum hans að vera í reglulegri umgengni við kæranda. Mætti öllu heldur túlka það á þann veg að drengurinn sé að venjast því að vera í fóstri frá móður sinni og eðlilega taki tíma fyrir barn að venjast slíku. Enda sé tekið fram í greinargerð starfsmanna barnaverndar að með tímanum virtist umgengni ekki hafa eins mikil áhrif á drenginn og í upphafi.

Stjórnvöldum beri ávallt að líta til meðalhófsreglunnar þegar þau standi frammi fyrir því að taka íþyngjandi ákvörðun. Telur kærandi að tillaga starfsmanna barnaverndar sé í andstöðu við þá reglu en samkvæmt 7. mgr. 4. gr. bvl. beri barnavernd að beita vægustu ráðstöfunum sem mögulegt sé til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Meðalhófsreglan sé einnig lögfest í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Álítur kærandi að umgengni kynforeldris við barn sitt tvisvar sinnum á ári hljóti að teljast svo takmörkuð að úrskurðurinn brjóti í bága við meðalhófsreglu.

Samkvæmt 9. gr. laga um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins nr. 19/2013 skulu aðildarríki virða rétt barns, sem skilið hefur verið frá foreldrum, til að halda persónulegum tengslum og beinu sambandi við foreldra með reglubundnum hætti, sé það ekki andstætt hagsmunum þess. Kveðið sé á um réttindi barns í fóstri á umgengni við foreldra eða aðra nákomna í 70. gr. bvl. Sýna þurfi fram á að umgengni kynforeldris við barn sé bersýnilega andstæð þörfum barnsins ef neita á um umgengnisrétt eða takmarka hann verulega, sbr. 2. mgr. 74. gr. bvl.

Réttur foreldra til að umgangast börn sín, þrátt fyrir að vera ekki með forsjá þeirra, sé tryggður í 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu sem hafi verið lögfestur hér á landi með lögum nr. 62/1994. Ákvæðið fjalli um friðhelgi einkalífs og sé sambærilegt við 1. mgr. 71. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Feli það meðal annars í sér friðhelgi fjölskyldulífs en talið er að fjölskyldulíf hefjist við fæðingu barns, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í málinu Keegan gegn Írlandi (16969/90), og haldist óháð forsjá. Hafi meðal annars verið talið felast í friðhelgi einkalífs að þekkja uppruna sinn, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í málinu Odievre gegn Frakklandi (42326/98).

Samkvæmt dómum Mannréttindadómstóls Evrópu geti það talist brot á 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu að koma í veg fyrir umgengni og hamla þannig foreldrum og börnum að rækta fjölskyldutengsl og þekkja uppruna sinn. Í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í málinu T gegn Tékklandi (19315/11) hafi verið talið brot á 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu þegar ríki komi í veg fyrir að barn sem væri í fóstri fengi að hitta föður sinn og þar með viðhalda fjölskyldutengslum þeirra. Sömu niðurstöðu sé að finna í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í málinu Bondavalli gegn Ítalíu (35532/12). Þrátt fyrir að atvik hafi verið þannig í þeim dómum Mannréttindadómstólsins, sem hér hafi verið vísað til, að umgengni hafi verið bönnuð verði að telja að svo takmörkuð umgengni sem hinn kærði úrskurður feli í sér hafi svipuð áhrif á börn og móður og væri umgengnin engin.

Umboðsmaður barna hafi gagnrýnt það hversu takmörkuð umgengni fósturbarna við kynforeldra hafi alla tíð verið hér á landi, þ.e. einu sinni til tvisvar á ári í eina til tvær klukkustundir í senn. Hafi hann meðal annars bent á að slík tilhögun fari í bága við 3. mgr. 37. gr. Barnasáttmálans. Umboðsmaðurinn telji að þrátt fyrir að barn hafi búið við slæmar aðstæður hjá kynforeldrum og þeir taldir vanhæfir sem uppalendur sé almennt byggt á því að það þjóni hagsmunum barns að umgangast kynforeldra sína og þá jafnvel í þeim tilvikum sem þeir hafi verið sviptir forsjá. Mikilvægt sé fyrir börn að halda tengslum við kynforeldra sína, ekki einungis með tilliti til tilfinningalegra tengsla þeirra á milli heldur einnig svo að barn fái tilfinningu fyrir samfellu í lífi sínu. Það geti haft gríðarleg og óafturkræf áhrif á barn að taka það úr umsjá móður og veita því svo takmarkaða umgengni við hana sem tillaga starfsmanna barnaverndar feli í sér. Barn geti upplifað mikla sorg og geti umgengni barns dregið úr þeim sorgarviðbrögðum.

Samkvæmt greinargerð starfsmanna barnaverndar hafi umgengni farið fram 7. júlí 2016. Fram komi að sú umgengni hafi gengið vel. Engar athugasemdir hafi verið gerðar en að venju hafi umgengnin verið undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndar Reykjavíkur. Því sé ekkert sem gefi til kynna að umgengni sé svo andstæð hagsmunum drengsins að það réttlæti þessa takmörkuðu umgengni.

Með vísan til þess, sem komið hafi fram hér að framan, sé þess krafist að úrskurðarnefnd velferðarmála felli úr gildi hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar Reykjavíkur.

III. Afstaða Barnaverndarnefndar Reykjavíkur

Í greinargerð Barnaverndarnefndar Reykjavíkur til úrskurðarnefndarinnar 4. nóvember 2016 er vísað til þess að stefnt sé að því að drengurinn verði vistaður í varanlegu fóstri til 18 ára aldurs. Markmiðið með varanlegu fóstri sé að barn aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu eins og um eigið barn fjölskyldunnar væri að ræða. Umgengni við kynforeldra taki mið af þessu, sbr. 65. og 74. gr. bvl. og reglugerð um fóstur nr. 804/2004. Barn eigi rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem séu því nákomnir samkvæmt 74. gr. bvl. Samkvæmt sömu lagagrein eigi kynforeldrar rétt til umgengni við barn í fóstri, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með fóstrinu. Taka skuli mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best og hve lengi fóstri sé ætlað að vara.

Drengurinn hafi ekki verið í umsjá kæranda frá því í X er hann, ásamt systkinum sínum, hafi verið tekinn úr umsjá hennar vegna óviðunandi uppeldisaðstæðna. Drengurinn sé í mikilli þörf fyrir stöðugleika og öryggi í umhverfi sínu eftir áfallasama æsku sem lituð hafi verið af ofbeldi og vanrækslu móður. Fyrir liggi mat sérfróðra matsmanna þar sem komi fram að tengsl drengsins við upprunafjölskyldu, þar með talið móður, séu ekki sterk. Umgengni við móður hafi haft slæm áhrif á líðan drengsins og hegðun. Hann sé talinn hafa orðið fyrir skaða á tengslum í uppeldinu sem erfitt sé að vinna með og megi telja að muni há honum um ókomna framtíð. Það sé hlutverk barnaverndarnefndar að beita þeim úrræðum sem best séu til þess fallin hverju sinni að tryggja hagsmuni og velferð drengsins. Af gögnum málsins sé ljóst að umgengni drengsins við kæranda hafi ekki verið honum til hagsbóta eða til þess fallin að stuðla að góðri líðan hans, heldur þvert á móti virðist umgengni valda honum vanlíðan. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur telur það ótvíræða hagsmunir drengsins að umgengni hans við kæranda verði í lágmarki, en með þeim hætti séu hagsmunir hans best hafðir að leiðarljósi.

Einnig beri að hafa í huga að frá því að úrskurður Barnaverndarnefndar Reykjavíkur lá fyrir 15. september 2016 hafi Héraðsdómur Reykjavíkur dæmt kæranda í 18 mánaða fangelsi vegna andlegs og líkamlegs ofbeldis í garð barna sinna. Styðji niðurstaða dómsins framangreint mat nefndarinnar og verði að telja ljóst að gífurlega mikilvægt sé að umgengni barnanna við kæranda verið bæði takmörkuð og undir eftirliti svo að hægt sé að tryggja hagsmuni þeirra, velferð og öryggi.

Í ljósi þessa, allra gagna málsins og með hagsmuni drengsins að leiðarljósi gerir Barnaverndarnefnd Reykjavíkur þá kröfu að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

IV. Afstaða C

Í skýrslu löglærðs talsmanns drengsins 13. september 2016 kemur fram að miklar breytingar séu sjáanlegar á drengnum frá því að þeir hittust síðast 23. nóvember 2015. Nú hafi drengurinn verið hinn kátasti og talað mikið um veru sína hjá fósturforeldrum sem honum virtist líka ákaflega vel. Drengurinn hafi á hinn bóginn verið lítið spenntur fyrir því að ræða um kæranda og samskipti við hana. Hann hafi þó greint frá því að kærandi hefði sagt honum frá því í gegnum facebook að hún væri flutt til D til að fá frið fyrir barnavernd og lögreglu. Þegar borið hafi verið undir hann tillaga þess efnis að umgengni við kæranda yrði tvisvar á ári hafi hann yppt öxlum og sagt „ok“ en ekki viljað ræða það frekar. Að mati talsmanns hafi drengurinn ekki virst sérstaklega spenntur fyrir umgengni almennt og þegar reynt hafi verið að ræða um kæranda á einhvern hátt hafi hann verið fljótur að skipta um umræðuefni. Að mati talsmanns sé ekkert sem mæli gegn þeirri tillögu sem starfsmenn barnaverndar hafi sett fram og hún sé eftir því sem best verði séð í samræmi við vilja drengsins.

V. Niðurstaða

C er tæplega X ára. Hann var í umsjá móður sinnar til X er hann var X ára en hefur frá þeim degi dvalið utan heimilis og hjá núveranndi fósturforeldrum frá X. Samkvæmt gögnum málsins hafa barnaverndaryfirvöld haft afskipti af högum drengsins mest alla ævi hans.

Með dómi Hæstaréttar X 2016 var sem fyrr segir staðfestur dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá X 2016 um að kærandi skyldi svipt forsjá X barna sinna, þeirra á meðal C. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur er greint frá því að Barnaverndaryfirvöld hafi haft málefni barna kæranda til meðferðar allt frá árinu X. Borist hafi fjöldi tilkynninga um gróft ofbeldi á heimili kæranda sem meðal annars hafi beinst að börnunum. Kæranda hafi verið veittur margvíslegur stuðningur og hjálp af hálfu barnaverndarnefndar í þeim tilgangi að vinna bug á skaðlegum aðstæðum barnanna í hennar umsjá en án árangurs. Var það niðurstaða dómsins að almenn úrræði til stuðnings kæranda hefðu verið fullreynd. Í dóminum kemur einnig fram með afdráttarlausum hætti að forsjárhæfni kæranda sé verulega skert og að andlegri og líkamlegri heilsu barnanna og þroska þeirra væri hætta búin færi kærandi áfram með forsjá þeirra.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur X 2016 var kærandi dæmd til 18 mánaða fangelsisvistar og til að greiða börnum sínum miskabætur vegna háttsemi hennar í garð þeirra frá árinu X til X.

Frá því að drengurinn fór í styrkt fóstur hefur umgengni hans við kæranda verið undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndar Reykjavíkur. Með hinum kærða úrskurði frá 15. september 2016 var umgengnin ákveðin tvisvar sinnum á ári í tvær klukkustundir í senn, undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndar Reykjavíkur.

Kærandi gerir ekki umgengniskröfu fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála, en krefst þess að hinn kærði úrskurður Barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 15. september 2016 verði felldur úr gildi. Þessa kröfu styður kærandi þeim rökum að brotin hafi verið meðalhófsregla við úrlausn málsins hjá barnaverndarnefnd. Telur kærandi að hinn kærði úrskurður Barnaverndarnefndar Reykjavíkur sé í andstöðu við þá reglu að beita skuli vægustu ráðstöfunum sem mögulegt er til að ná þeim markmiðum sem stefnt sé að. Jafnframt byggir kærandi á því að með hinum kærða úrskurði hafi verið brotinn réttur á kæranda samkvæmt Mannréttindasáttmála Evrópu og sömuleiðis á drengnum samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem tryggi þeim rétt til friðhelgi fjölskyldulífs. Ólögmætt sé að takmarka verulega, eins og gert hafi verið með hinum kærða úrskurði, umgengni kæranda við drenginn nema sýnt hafi verið fram á að umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum hans. Þá beri að taka tillit til vilja drengsins en það hafi ekki verið gert.

Kærandi byggir einnig á því að mikilvægt sé fyrir börn að halda tengslum við kynforeldra sína, ekki einungis með tilliti til tilfinningalegra tengsla þeirra á milli heldur einnig svo að barn fái tilfinningu fyrir samfellu í lífi sínu. Það geti haft gríðarleg og óafturkræf áhrif á barn að taka það úr umsjá móður og veita því svo takmarkaða umgengni við hana sem tillaga starfsmanna barnaverndar feli í sér. Barn geti upplifað mikla sorg og geti umgengni barns dregið úr þeim sorgarviðbrögðum.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns, sem ráðstafað er í fóstur, við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Samkvæmt því sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum ber að leysa úr málinu með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum drengsins best. Umgengni kæranda við drenginn þarf að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt var að með ráðstöfun hans í styrkt fóstur, og í framhaldinu varanlegt fóstur, en markmið fósturs er að jafnaði að barn aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu. Í því tilliti ber sérstaklega að horfa til þess að tryggja þarf að friður, ró og stöðugleiki ríki í lífi barnsins í fóstrinu. Verði það ekki gert ber að líta svo á að þess hafi ekki verið nægilega gætt að umgengnin þjóni hagsmunum barnsins best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Samkvæmt 2. mgr. 46. gr. bvl. skal gefa barni kost á að tjá sig um mál er það varðar í samræmi við aldur og þroska og taka réttmætt tillit til skoðana þess við úrlausn máls. Í skýrslu talsmanns drengsins frá 13. september 2016 kemur fram að miklar breytingar séu sjáanlegar á drengnum frá því að þeir hittust síðast 23. nóvember 2015. Drengurinn hafi verið hinn kátasti og talað mikið um veru sína hjá fósturforeldrum sem honum virtist líka ákaflega vel. Drengurinn hafi á hinn bóginn verið lítið spenntur fyrir því að ræða um kæranda og samskipti við hana. Þegar borið hafi verið undir hann tillaga þess efnis að umgengni við kæranda yrði tvisvar á ári hafi hann yppt öxlum og sagt „ok“ en ekki viljað ræða það frekar. Að mati talsmanns hafi drengurinn ekki virst sérstaklega spenntur fyrir umgengni almennt og þegar reynt hafi verið að ræða um kæranda á einhvern hátt hafi hann verið fljótur að skipta um umræðuefni.

Úrskurðarnefndin vísar til þess að drengurinn hefur búið við vanrækslu og ofbeldi af hálfu kæranda mest alla ævi svo sem rakið er í dómum Héraðsdóms Reykjavíkur, annars vegar varðandi forsjársviptingu kæranda og hins vegar þá refsingu sem henni hefur verið gert að sæta vegna ofbeldis í garð barna sinna. Samkvæmt upplýsingum frá BUGL hefur drengurinn verið greindur með svörunartengslaröskun í bernsku, ódæmigerða einhverfu og ofvirknihegðun. Að mati BUGL er tengslaröskun drengsins alvarleg og tengist grunnvandi hans þeirri röskun. Telja megi að þetta muni há honum um ókomna framtíð. Samkvæmt upplýsingum frá skóla drengsins hefur gengið á ýmsu þann tíma sem hann hefur sótt skólann. Hann hefur mikinn stuðning í skólanum og hefur aðlagaða stundarskrá.

C er í mikilli þörf fyrir stöðugleika og öryggi í lífinu og fram kemur í hinum kærða úrskurði Barnaverndarnefndar Reykjavíkur að mál drengsins sé þess eðlis að rétt sé að umgengni hans við kæranda sé í algjöru lágmarki. Virtist þetta í samræmi við vilja drengsins. Fyrir liggi mat sérfróðra matsmanna á því að tengsl drengsins við upprunafjölskyldu og þar með talið kæranda séu ekki sterk. Af gögnum málsins megi sjá að umgengni drengsins við kæranda hafi ekki verið honum til hagsbóta eða til þess fallin að stuðla að góðri líðan hans heldur þvert á móti virtist umgengni valda honum vanlíðan.

Úrskurðarnefndin fellst á þetta mat barnaverndarnefndarinnar og telur í ljósi ofangreindra atriða að nauðsyn beri til að takmarka umgengni kæranda við drenginn og að tryggja þurfi að virt verði þau mörk sem um hana gilda. Með því verði hagsmunir og þarfir drengsins best virtir. Að mati úrskurðarnefndarinnar er framangreind niðurstaða í fullu samræmi við ákvæði 9. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Jafnframt verður að telja að við úrlausn málsins hafi verið tekið tillit til vilja drengsins til að hagsmunir hans verði tryggðir á þann hátt sem mælt er fyrir um í lögum. Er í því sambandi jafnframt litið til þess að telja verður að þeir dómar Mannréttindadómstóls Evrópu sem kærandi vísar til hafi ekki fordæmisgildi í málinu.

Hér þarf enn fremur að hafa í huga að með umgengni kæranda við drenginn er ekki verið að reyna að styrkja eða viðhalda tengslum hans við kæranda heldur miðar umgengnin fremur að því að drengurinn þekki uppruna sinn. Kærandi byggir á því að þegar barn er tekið úr umsjá móður geti það „upplifað mikla sorg og geti umgengni barns við kynforeldri dregið úr þeim sorgarviðbrögðum“. Þetta útskýrir kærandi ekki frekar. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að drengurinn hafi upplifað sorg við það að hafa verið tekinn úr umsjá kæranda. Eins og rakið hefur verið hefur umgengni við kæranda valdið drengnum vanlíðan, enda hefur verið dregið úr henni til að tryggja hagsmuni hans sem best.

Kærandi telur enn fremur að sú vanlíðan, sem drengurinn hafi sýnt fyrir og eftir umgengni, megi túlka á þann veg að drengurinn sé að venjast því að vera í fóstri frá móður sinni og eðlilega taki tíma fyrir barn að venjast slíku, enda komi fram í greinargerð starfsmanna barnaverndar að með tímanum virtist umgengni ekki hafa eins mikil áhrif á drenginn og í upphafi. Úrskurðarnefndin getur ekki tekið undir þetta mat kæranda. Í bókun, sem gerð var á meðferðarfundi Barnaverndar Reykjavíkur 14. júní 2016, kemur fram það mat starfsmanna að drengnum hafi liðið vel á fósturheimilinu og tengst fósturforeldrum vel. Umönnunarþörf drengsins hafi verið veruleg en fósturforeldrar hafi í hvívetna mætt þörfum hans. Gerðar hafi verið miklar kröfur til fósturforeldra þar sem raskanir drengsins krefðust sérstakrar hæfni og mikillar vinnu af hendi þeirra í samvinnu við Barnavernd og BUGL. Í málinu liggur fyrir ítarleg matsgerð dómkvaddra matsmanna, þeirra F sálfræðings og G geðlæknis frá 3. mars 2016, en matsins var aflað vegna forsjársviptingarmáls á hendur kæranda. Í matsgerðinni segir meðal annars að samskipti kæranda og drengsins séu neikvæð og lítt gefandi og tengsl drengsins við kæranda séu ekki sterk.

Þá telur kærandi að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meðalhófsreglu 7. mgr. 4. gr. bvl. með því að takmarka umgengni hennar á þann hátt sem gert var með hinum kærða úrskurði, en samkvæmt reglunni eigi að beita vægustu úrræðum sem möguleg eru til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Eins og rakið hefur verið hlaut kærandi dóm fyrir að beita X börn sín, þeirra á meðal drenginn sem um ræðir í máli þessu, vanvirðandi háttsemi. Vísað er til þess að börnin hafi átt erfitt uppdráttar og búið við mikla vanlíðan. Þau hafi öll að einhverju marki sýnt af sér óeðlilega hegðun. Kærandi var svipt forsjá barna sinna. Umgengni við kæranda hefur reynst drengnum erfið. Með tilliti til þessa verður að telja að meðalhófsreglunnar hafi verið gætt við úrlausn málsins hjá Barnaverndarnefnd Reykjavíkur.

Með vísan til þess er að framan greinir svo og 2. og 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga þykir umgengni kæranda við drenginn hæfilega ákveðin með hinum kærða úrskurði. Samkvæmt því ber að staðfesta úrskurðinn.

Úrskurðarorð

Úrskurður Barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 15. september 2016 varðandi umgengni A við son hennar, C, er staðfestur.

Lára Sverrisdóttir

Guðfinna Eydal

Sigríður Ingvarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta