Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 182/2015

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann dags. 26. nóvember 2015 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 182/2015

í stjórnsýslumáli nr. KNU15090002

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru , dags. 31. ágúst 2015, kærði […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. ágúst 2015 um að synja henni um hæli ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga nr. 96/2002 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að henni verði veitt hæli sem flóttamaður hér á landi samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002 sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna eða viðbótarvernd samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að henni verði veitt dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi kom hingað til lands 23. febrúar 2015 og sótti um hæli sama dag. Hún var bókuð í viðtal hjá Útlendingastofnun 27. mars 2015 ásamt löglærðum talsmanni sínum. Ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. ágúst 2015, um að synja kæranda um hæli var birt henni, þann 31. ágúst 2015. Kærandi kærði ákvörðunina við birtingu. Gögn og kæra í málinu bárust kærunefnd útlendingamála 2. september 2015. Sama dag var talsmanni kæranda veittur frestur til 16. september 2015 til að leggja fram greinargerð í tilefni kærumálsins. Greinargerð vegna kæru barst kærunefnd útlendingamála þann 12. október 2015. Útlendingastofnun sendi athugasemdir við greinargerð talsmanns þann sama dag. Þann 12. nóvember s.á. var kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri skriflegum andmælum vegna athugasemdanna. Svar barst kærunefnd útlendingamála þann 16. nóvember 2015.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggði umsókn sína um hæli hér á landi á því að hún hafi ríka þörf á vernd í ljósi þess að par á vegum hryðjuverkasamtaka hafi verið á eftir henni og hygðist innlima hana í hryðjuverkasamtök þeirra og hafi henni verið hótað vegna þessa. Kæranda væri einnig mismunað á grundvelli […] trúar sinnar en […]. Kærandi nyti þ.a.l. ekki mannréttinda í […], ætti erfitt með að fá vinnu og væri víða úthýst af þeim sökum.

Í ákvörðun sinni fjallar Útlendingastofnun um almennt ástand í […] og stöðu trúmála. Þar greinir m.a. að […]. Ekki væri unnt að rekja mismunun á milli borgara þar í landi til trúarbragða og bæri samfélagið í heild sinni almennt mikla virðingu fyrir mismunandi trúarbrögðum, trúflokkum og fjölbreytni þeirra. Í viðtali við Útlendingastofnun kom fram að kærandi hafi starfað sem aðstoðarmaður vel þekkts lögmanns í heimalandi. Ekki væri því að sjá að trú kæranda hafi valdið henni erfiðleikum við að fá vinnu og væri frásögn hennar þversagnakennd að því leyti. Taldi Útlendingastofnun frásögn kæranda um mismunun á grundvelli trúar sinnar því ótrúverðuga en að öðru leyti var framburður kæranda talinn trúverðugur og lagður til grundvallar.

Kærandi lýsti því að meginástæðu flótta hennar hafi verið hótanir og hugsanleg tilraun pars til að ginna hana út í aðstæður sem gætu leitt til þess að hún yrði gegn sínum vilja þátttakandi í hryðjuverkastarfsemi. Útlendingastofnun taldi líklegra, í ljósi aðstæðna í […], að ætlun parsins hafi verið að selja kæranda í mansal og vændi. Kærandi bar því ekki við að vera mögulegt fórnarlamb mansals. Útlendingastofnun fjallaði almennt um aðgerðir stjórnvalda í […] gegn mansali.

Taldi Útlendingastofnun að kærandi ætti raunhæfa möguleika á að leita aðstoðar yfirvalda í […] teldi hún sig eiga á hættu að verða fyrir áreiti og ofsóknum af hálfu aðila á vegum hryðjuverkahópa eða vegna hótana af hálfu aðila sem þeim tengjast.

Niðurstaða Útlendingastofnunar var að synja kæranda um hæli hér á landi sem flóttamanni, sbr. 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga og taldi stofnunin aðstæður í máli hennar ekki falla undir 2. mgr. 44. gr. eða 1. mgr. 45. gr. sömu laga.

Útlendingastofnun tók til skoðunar, í samræmi við 8. mgr. 46. gr. útlendingalaga hvort aðstæður kæranda féllu undir 12. gr. f sömu laga. Ekki var talið að kærandi ætti rétt á dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða vegna almennra aðstæðna í heimaríki, vegna heilbrigðisástæðna eða erfiðra félagslegra aðstæðna. Þá var ekki talið að kærandi ætti rétt á dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða vegna annarra atvika sem ekki mætti með réttu gera henni að bera ábyrgð á. Í viðtali kæranda hjá Útlendingastofnun kom fram að kærandi hefði engin sérstök tengsl við Ísland.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er á því byggt að meginástæða flótta kæranda frá […] megi rekja til hótana sem tiltekið par hafði í við hana eftir að hún hafnaði starfstilboði sem þau höfðu boðið henni. Í greinargerðinni segir að miklar líkur séu á því að parið tilheyri glæpahópum í […] sem séu tengdir hryðjuverkastarfsemi og/eða mansali.

Í greinargerð kæranda er Útlendingastofnun sögð hafa brotið gegn rannsóknarreglu skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 3. og 4. mgr. 50. gr. útlendingalaga. Annars vegar með því að fjalla aðeins með almennum hætti um ástand mannréttindamála í […] og lítið um einstaklingsbundna stöðu kæranda. Sem dæmi væri enga umfjöllun að finna í ákvörðun stofnunarinnar um þær hótanir sem kærandi kveðst hafa orðið fyrir og hugsanleg tengsl ofsækjenda hennar við hryðjuverkahópa og mansal. Hinsvegar er á því byggt að Útlendingastofnun hafi láðst að fjalla um þann grundvöll umsóknar kæranda um hæli að hún sé mögulegt fórnarlamb mansals í […], einungis hafi verið fjallað um möguleikann á því að hún væri fórnarlamb mansals á Íslandi.

Í greinargerðinni kemur einnig fram að barátta yfirvalda gegn mansali hafi mjög takmörkuðum árangri skilað og ástæðuna mætti meðal annars rekja til þess að […]. Til dæmis hafi […]. Einnig sé ofbeldi gegn konum í […] vandamál og tilraunir stjórnvalda til að veita vernd gegn slíku ofbeldi hafi ekki skilað tilætluðum árangri. […]. Mansal teljist til kynbundinna ofsókna og kynbundnar ofsóknir geti skapað grundvöll réttar til verndar samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laga um útlendinga sbr. A-lið 1. gr. Flóttamannasamningsins.

Kærandi kveðst tilheyra minnihlutahópi […]. Í greinargerð hennar er vísað til […].

Þá er í greinargerðinni á því byggt að mikil spilling ríki í […] og að réttarkerfið standi þar höllum fæti. Ekki væri unnt að ganga út frá því að yfirvöld væru fær um að veita þegnum sínum fullnægjandi vernd með vísan til þess eins að stjórnvöld vinni markvisst að því að uppræta mansalsvandann og spillingu innan stjórnsýslunnar og dómskerfisins, þegar fyrir liggi að slíkar tilraunir stjórnvalda hafi ekki skilað tilætluðum árangri. Öll gögn bendi til þess að spilling, mútuþægni, skortur á gagnsæi og mansal sé landlægt vandamál sem veikt réttar- og löggæslukerfi […] sé ekki í stakk búið til að takast á við eða að veita þegnum sínum viðeigandi vernd.

Því sé til lítils að ætlast til þess að kærandi geti leitað ásjár […] yfirvalda og hlotið þar vernd. Viðvarandi spilling í löggæslu-og dómskerfinu í […] sýni að stjórnvöld þar í landi hafi hvorki getu né vilja til að veita kæranda þá vernd sem hún þarfnast. Talsmaður kæranda gerir athugasemd við þá mótsögn í ákvörðun Útlendingastofnunar þar sem frásögn kæranda var metin trúverðug en talið að hún geti leitað til yfirvalda í […], en fyrir liggur að hún hafi flúið […] einmitt vegna þess að hún taldi yfirvöld ekki hafa getu eða vilja til að aðstoða sig.

Ennfremur myndi flutningur innan […] ekki veita kæranda öryggi þar sem […] hafi ítök um allt. Ofsækjendur kæranda hefðu hótað henni tvisvar sinnum og í annað skiptið endaði hún á spítala vegna […]. Allt bendi til þess að parið sé hluti af stærri samtökum og starfi ekki ein. Andleg líðan kæranda hafi ekki farið varhluta af þessum ofsóknum og kærandi kveðst hafa átt erfitt með svefn og glími við mikinn kvíða.

Byggt er á því að kærandi sé „utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsótt“ vegna kyns og trúarbragða, „og geti ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta“ færa sér í nyt vernd lands síns. Falli staða hennar því að skilgreiningu flóttamannahugtaksins, sbr. 44. gr. laga um útlendinga og samsvarandi alþjóðlegra reglna og beri íslenskum stjórnvöldum skv. 1. mgr. 46. gr. laga um útlendinga að veita henni hæli hér á landi.

Einnig er á því byggt að kærandi eigi í yfirvofandi hættu að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í heimalandi sínu. Myndu íslensk stjórnvöld því brjóta gegn 1. mgr. 45. gr. útlendingalaga, 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna með endursendingu kæranda til […]. Með vísan til aðstæðna í […] og efasemda kæranda um vilja og getu stjórnvalda til þess að veita henni vernd og andlegrar líðan hennar væri ljóst að kærandi uppfylli að minnsta kosti skilyrði um dvalarleyfi af mannúðarástæðum skv. 12. gr. f laga um útlendinga.

Athugasemdir Útlendingastofnunar vegna greinargerðar kæranda

Þann 12. október 2015 bárust kærunefnd útlendingamála athugasemdir Útlendingastofnunar vegna greinargerðar kæranda. Þar segir að talsmaður kæranda fjallaði í greinargerð sinni um að mansal teldist til kynbundinna ofsókna og að slíkar ofsóknir geti skapað grundvöll réttar til verndar samkvæmt 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga. […]. Í ákvörðun sinni hafi Útlendingastofnun ekki metið aðstæður kæranda með þeim hætti að unnt væri að heimfæra þær undir kynbundnar ofsóknir. Auk þess benti Útlendingastofnun á að skv. 12. gr. h útlendingalaga væri Útlendingastofnun skylt að veita fórnarlambi mansals dvalarleyfi hér á landi til sex mánaða eftir umsókn þar um og að fenginni umsögn lögreglu. Umsögn lögreglu hafi verið fengin að lokinni rannsókn sérhæfðs rannsóknarlögreglumanns í mansalsmálum hér á landi sem leiddi til þess að ekki þótti ástæða til að veita slíkt leyfi.

Útlendingastofnun sá sig knúna til að árétta að kærandi neitaði ítrekað að vera fórnarlamb mansals. Talsmaður kæranda byggi greinargerð sína hins vegar að meginstefnu á því að kærandi sé fórnarlamb mansals. Í ljósi þessa er það mat Útlendingastofnunar að málatilbúnaður og greinargerð talsmanns kæranda, í máli hennar fyrir kærunefnd útlendingamála, fari í berhögg við frásögn og vilja kæranda að mati stofnunarinnar.

Svar talsmanns kæranda við athugasemdum Útlendingastofnunar

Þann 12. nóvember var kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri skriflegum andmælum vegna athugasemda Útlendingastofnunar. Svar barst kærunefnd útlendingamála þann 16. nóvember 2015. Talsmaður kæranda sagði meginatriði svars Útlendingastofnunar hafa verið að talsmaður kæranda hafi hagað málatilbúnaði á nýjan veg, í trássi við frásögn og vilja kæranda. Þar taldi talsmaður um tvíþættan misskilning að ræða, varðandi málflutning talsmanns annars vegar og um lagaumhverfið þegar um hugsanlegt fórnarlamb mansals væri að ræða hins vegar.

Rétt væri að gera greinarmun á því þegar sótt væri um dvalarleyfi fyrir fórnarlömb mansals annars vegar og þegar sótt væri um hæli sem flóttamaður á grundvelli hugsanlegs mansals í heimalandi hins vegar. Kærandi hafi neitað því að hún hafi verið flutt hingað til lands sem fórnarlamb mansals. Hún hafi komið hingað á eigin vegum, en hins vegar ætti það vera alveg ljóst að það var í þeim tilgangi að flýja einstaklinga eða samtök í heimalandi hennar sem mögulega höfðu í huga að neyða hana í mansal. Eins og fram hafi komið í hælisviðtali kæranda hafi hún ekki vitað fyrir víst hvað fólkið hafði í hyggju, en ljóst mætti vera að það hefði verið gegn vilja hennar, hvað sem það var, hvort sem það var vændi, hryðjuverkastarfsemi eða annað.

Talsmaður kæranda rakti ummæli kæranda í hælisviðtali hjá Útlendingastofnun þar sem kom fram að kæranda hafi haldið að starfstilboð frá umræddu pari hafi verið í þeim tilgangi að selja hana í mansal eða innlima hana í hryðjuverkastarfsemi. Talsmaður kæranda kvað framburðinn í fullkomnu samræmi við umfjöllun, málsástæður og lagarök í greinargerð með kæru. Þar hafi verið fjallað um kynbundnar ofsóknir og hugsanlega vernd á þeim grundvelli, en öll önnur umfjöllun, svo sem um almenna mannréttindavernd í […], um vilja og getu stjórnvalda til þess að veita borgurum sínum vernd auk möguleika á flótta innanlands, ætti jafnt við hvort sem það væri mansal eða hryðjuverkastarfsemi, eða hvaða aðra nauðungarvinna eða ánauð sem væri, sem ofsækjendur hennar í heimalandinu hefðu í huga.

Varðandi þann fullyrðingu Útlendingastofnunar að þessi framsetning á málinu væri í trássi við afstöðu kæranda sjálfrar þótti rétt að nefna að greinargerðin var unnin í fullu samráði við kæranda, hún hafi fengið hana þýdda svo hún gæti lesið hana yfir áður en henni var skilað. Væri ljóst að upplýsingar þær sem kæmu í greinargerð væru hvorki nýjar, né væri þar að finna nýjar málsástæður í málinu, eins og haldið hafi verið fram í svari Útlendingastofnunar. Að lokum ítrekaði talsmaður kæranda málflutning í greinargerð, dags. 9. október 2015.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagarammi

Í máli þessu gilda ákvæði laga nr. 96/2002 um útlendinga, reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga með áorðnum breytingum, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að þegar kærandi sótti um hæli á Íslandi hafi hún framvísað […] vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé […] ríkisborgari.

Landaupplýsingar

[…] er lýðræðisríki með um […] íbúa og eru mannréttindi almennt virt af stjórnvöldum þar í landi. […].

Kærunefnd útlendingamála hefur skoðað skýrslur og gögn um aðstæður í […] sbr. m.a. […] .

Í ofangreindum gögnum kemur fram að […] stjórnvöld hafa tekið mikilvæg skref til að auka vernd borgara sinna í mansalsmálum með […]. Þó að vandinn sé enn til staðar þá hafa […]stjórnvöld lagt mikla vinnu í að uppræta mansal í landinu og miði málaflokknum í rétta átt. Þá benda gögnin ekki til annars en að trúfrelsi sé almennt virt í landinu og að umburðarlyndi ríki þar gagnvart mismunandi trúarbrögðum fólks. Í ofangreindum gögnum kemur einnig fram að […] hafi miðað áfram í málefnum er snerta réttarkerfið, frelsi og öryggi og á undanförnum árum hefur talsvert verið unnið að því að uppræta spillingu í löggæslunni og dómsvaldinu.

A. Aðalkrafa kæranda

Kærandi óskaði eftir því að henni yrði veitt réttarstaða flóttamanns þann 23. febrúar 2015, hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga, sbr. flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna, eða 2. mgr. 44. gr. sömu laga. Kærandi byggir kröfu sína á að hún þurfi vernd hér á landi vegna ofsókna sem hún varð fyrir af hendi einstaklinga sem mögulega tengjast mansali og að stjórnvöld í […] hafi hvorki vilja né getu til að veita henni vernd.

Í 1. mgr. 44. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og viðauka við samninginn frá 31. janúar 1967. Um skilyrði þess að teljast flóttamaður er frekar mælt í 44. gr. a.

Almennt ber að telja ótta umsækjanda ástæðuríkan ef hann getur á nægilega skýran hátt sýnt fram á að áframhaldandi dvöl í heimalandi sé honum óbærileg af ástæðum sem tilgreindar eru í ákvæðinu, eða yrði óbærileg af sömu ástæðum ef hann sneri aftur. Þessi sjónarmið þurfa jafnframt ekki endilega að byggjast á persónulegri reynslu umsækjanda, heldur geta ofsóknir sem vinir hans eða ættingjar eða aðrir sem tilheyra sama þjóðfélagshópi hafa orðið fyrir, gefið til kynna að ótti hans við að verða fyrr eða síðar fórnarlamb ofsókna sé ástæðuríkur.

Í 44. gr. a útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir, á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggt og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Til þess að um sé að ræða ofsóknir skv. 1. mgr. 44. gr. verður að vera um að ræða athafnir sem í eðli sínu, eða vegna þess að þær eru endurteknar, fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samansafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 3. mgr. 44. gr. a eru taldir upp þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þar segir að:

Þeir sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eru:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess, og

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið þessarar málsgreinar, þar með talið alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 44. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Þótt fallist sé á að einstaklingur í þessari aðstöðu skuli njóta vafans upp að ákveðnu marki, verður kærandi a.m.k. að sýna fram á að líkur séu á að hans bíði ofsóknir í heimalandi. Samkvæmt meginreglum um túlkun flóttamannahugtaksins sem fram koma í handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, er m.a. miðað við það að viðkomandi þurfi almennt að sýna fram á að góðar ástæður liggi til grundvallar ótta við ofsóknir og að hugarástand flóttamannsins skipti ekki eitt máli heldur verði yfirlýsing hans einnig að fá stuðning í hlutlægum og staðreynanlegum aðstæðum (Handbók um réttarstöðu flóttamanna. Um málsmeðferð og skilyrði samkvæmt flóttamannasamningnum frá 1951 og bókun frá 1967 um réttarstöðu flóttamanna (Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Reykjavík 2008)).

Kærandi hefur borið fyrir sig ofsóknir vegna trúarbragða og kyns. Ennfremur hefur hún staðhæft að hún sé í hættu vegna hótana glæpamanna í heimalandi sínu. Kærandi hefur ekki borið fyrir sig ofsóknir af hálfu […] stjórnvalda eða aðilum tengdum þeim. Í ofangreindum skýrslum og gögnum sem kærunefndin hafði til skoðunar benti ekkert til þess að kærandi ætti á hættu ofsóknir vegna trúarbragða og ef svo væri sýndu gögn ekki annað en að hún gæti fengið fullnægjandi vernd í heimalandi sínu. Til að geta sótt um hæli vegna kynbundinna ofsókna, í þessu tilfelli að viðkomandi er fórnarlamb mansals eða á hættu að verða fórnarlamb mansals verður viðkomandi að sýna fram á að stjórnvöld geti eða vilji ekki veita viðkomandi vernd. Af gögnum og skýrslum sem kærunefndin fjallaði um hér að framan, verður ekki ráðið að stjórnvöld gætu ekki veitt kæranda vernd ef hún teldi sig vera í hættu á að vera seld mansali. Er það mat kærunefndar að þó svo kærandi ætti raunverulega á hættu illa meðferð í heimalandi sínu, af hálfu þeirra aðila sem hún hefur nefnt, þá hafi hún raunhæfan möguleika á að leita sér ásjár stjórnvalda þar. Styðja heimildir ekki þá staðhæfingu kæranda að […] stjórnvöld skorti vilja eða getu til að veita kæranda fullnægjandi vernd óski hún eftir henni við þau. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga fyrir veitingu réttarstöðu flóttamanns.

Í 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga er kveðið á um að flóttamaður samkvæmt útlendingalögum telst einnig útlendingur sem telst ekki flóttamaður samkvæmt ákvæði A-liðar 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna ef raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimalands. Er hér um að ræða svokallaða viðbótarvernd sem kom inn í útlendingalögin með lögum nr. 115/2010 um breytingar á útlendingalögum. Þeir sem teljast falla undir þessa málsgrein fá stöðu sína viðurkennda eftir málsmeðferðarreglum sem eru sambærilegar að öllu leyti við ákvörðun á því hvort um flóttamann skv. 1. mgr. 44. gr. laganna er að ræða.

Í ljósi þess sem að framan er rakið telur kærunefndin að aðstæður kæranda í heimalandi hennar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 44. gr. laganna. Þá telur kærunefndin ekkert fram komið sem bendir til þess að hætt sé við því að kærandi sæti ómannúðlegri og/eða vanvirðandi meðferð við heimkomuna, sbr. 2. mgr. 44. og 1. mgr. 45 gr. laganna.

Kærandi byggir aðalkröfu sína í öðru lagi á því að Útlendingastofnun hafi brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með því að fjalla aðeins með almennum hætti um ástand mannréttindamála í […] og lítið um einstaklingsbundna stöðu kæranda. Þá hafi Útlendingastofnun láðst að fjalla um þann grundvöll umsóknar kæranda um hæli að hún sé mögulegt fórnarlamb mansals í […], einungis hafi verið fjallað um möguleikann á því að hún væri fórnarlamb mansals á Íslandi. Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald sjá til þess, að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í málinu. Um frekari afmörkun á hversu ítarlega beri að rannsaka mál, ber m.a. að líta til þess hversu mikilvægt það er. Því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun er, þeim mun strangari kröfur verður að gera til rannsóknar á þeim atvikum sem leiða til niðurstöðunnar. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Í þeim tilvikum þegar ákvörðun stjórnvalds byggist á mati verður að afla þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru svo hægt sé að beita þeim sjónarmiðum sem ætlun er að byggja stjórnvaldsákvörðun á. Að auki ef deilt er um málsatvik sem hafa verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins ber stjórnvöldum að leggja áherslu á að rannsaka þann þátt þess.

Kærunefndin getur ekki fallist á það með kæranda að slíkur ágalli hafi verið á rannsókn málsins að ógilda beri ákvörðun Útlendingastofnunar. Ljóst er að stofnunin kynnti sér aðstæður mansalsmála í […] og aðgerðir stjórnvalda í málaflokknum. Þó svo að Útlendingastofnun hefði mátt fjalla ítarlegar um mansalsvandann í […] og aðgerðir stjórnvalda í þeim efnum, verður það ekki talið hafa leitt til rangrar efnislegrar niðurstöðu. Gögn og skýrslur sem kærunefndin hefur kynnt sér benda til þess að kærandi geti fengið fullnægjandi vernd stjórnvalda í heimalandi sínu.

Að framangreindu virtu er kröfu kæranda um að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og stofnuninni falið að taka umsókn kæranda til nýrrar efnismeðferðar því hafnað.

B. Varakrafa kæranda

Til vara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli mannúðarsjónarmiða sbr. 12. gr. f laga um útlendinga.

Samkvæmt 12. gr. f er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt skilyrðum sé annars ekki fullnægt, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendingsins við landið. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að veita má dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum, eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til eða vegna annarra atvika sem ekki má með réttu gera honum að bera ábyrgð á. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.

Kærunefndin hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga og teljist því ekki flóttamaður. Þegar framburður kæranda er virtur í heild sinni ásamt gögnum málsins er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi heldur ekki sýnt fram á ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 12. gr. f útlendingalaga og að engin sérstök mannúðarsjónarmið standi til þess að henni verði veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum hér á landi. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í […] séu ekki með þeim hætti að rík mannúðarsjónarmið standi til þess að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarástæðna skv. 12. gr. f útlendingalaga.

Jafnframt telur kærunefndin kæranda ekki uppfylla skilyrði 12. gr. f útlendingalaga um sérstök tengsl við landið. Eins og fram kemur í gögnum málsins hefur kærandi aðeins dvalið á Íslandi í tengslum við hælisumsókn sína og aðeins í skamman tíma.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar frá 19. ágúst 2015.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 33. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá því að beiðni um það er synjað. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því ákvörðun var tekin.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The Directorate of Immigration‘s decision is affirmed.

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

Vigdís Þóra Sigfúsdóttir Pétur Dam Leifsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta