Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 1/2011

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

Föstudaginn 13. maí 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir eftirfarandi mál nr. 1/2011:

A

gegn

Félagsþjónustu Kópavogs

og kveðinn upp svohljóðandi

  

ÚRSKURÐUR

 

Með bréfi B., til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 10. janúar 2011, kemur fram að til hans hafi leitað C, fyrir hönd sonar síns, A. Með bréfi lögmannsins var skotið til úrskurðarnefndarinnar synjun Félagsþjónustu Kópavogs frá 14. desember 2010 þess efnis að veita A, hér eftir nefndur kærandi, akstur með leigubifreið á strætisvagnafargjaldi.

Hinni kærðu ákvörðun Félagsþjónustu Kópavogs var ekki skotið til félagsmálaráðs Kópavogs heldur beint til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, en kærandi telur það óþarft skv. 5. gr. a laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks, sbr. lög um breytingu á þeim lögum nr. 152/2010 sem tóku gildi 1. janúar 2011. Af hálfu Félagsþjónustu Kópavogs er þess krafist að hafnað verði að taka kæru þessa til meðferðar fyrr en félagsmálaráð Kópavogs hefur fjallað um álitaefnið.

Kærandi er tæplega átján ára gamall blindur maður. Krafa hans er sú að Kópavogsbær útvegi honum mánaðarlega allt að 60 ferðir með leigubifreið á strætisvagnafargjaldi. Kæranda stendur hins vegar til boða að fá 60 ferðir á mánuði með ferðaþjónustu Kópavogs. Félagsþjónusta Kópavogs heldur því fram að sú akstursþjónusta sem í boði sé í sveitarfélaginu uppfylli skilyrði laga um málefni fatlaðs fólks um ferðaþjónustu.

 

I. Málavextir.

Kærandi er blindur ungur maður sem ekki getur nýtt sér almenningsfarartæki og þarfnast því aðstoðar við að komast ferða sinna. Hann stundar fullt nám við Flensborgarskóla, er enn fremur í vinnu og leggur stund á tómstundir. Honum stendur til boða 60 ferðir á mánuði með akstursþjónustu Félagsþjónustu Kópavogs en hann hefur farið þess á leit við Kópavogsbæ að fá 60 ferðir á mánuði með leigubifreið á strætisvagnafargjaldi.

Kærandi lagði fram kröfu til Kópavogsbæjar, dags. 23. nóvember 2010, og krafðist þess að bæjarfélagið veitti honum ferðaþjónustu sem gerði honum kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda með sama hætti og ófatlaðir einstaklingar. Félagsþjónusta Kópavogs hafnaði þessari beiðni með bréfi, dags. 15. desember 2010. Félagsþjónustan bauð kæranda almenna akstursþjónustu félagsþjónustunnar en sú þjónusta er framkvæmd af fyrirtækinu Smartbílum. Almenn akstursþjónusta er með þeim hætti að fatlaðir einstaklingar panta sér far með ferðaþjónustunni með a.m.k. sólarhringsfyrirvara. Verktakafyrirtækið Smartbílar sér um framkvæmd þjónustunnar. Hinn fatlaði einstaklingur er svo sóttur á fyrirfram ákveðnum tíma á sérútbúnum bíl fyrir hjólastólanotendur. Í einni ferð eru alla jafna fleiri en einn fatlaður einstaklingur sóttur, og ferðin því samnýtt.

  

II. Málsástæður kæranda.

Af hálfu kæranda kemur fram að hann sé blindur og þarfnist aðstoðar við að komast ferða sinna svo að hann geti stundað atvinnu, nám og notið tómstunda með sama hætti og ófatlaðir. Kærði sé skuldbundinn, skv. 1. mgr. 35. gr. laga um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, til að veita kæranda slíka þjónustu. Hann hafi lagt fram kröfu þann 23. nóvember 2010 þess efnis að kærði veitti kæranda ferðaþjónustu sem tæki mið af þörfum hans og miðaði að því að gera hann eins settan og ófatlaðan einstakling í sömu eða sambærilegri stöðu. Kærði hafi með ákvörðun frá 14. desember 2010 synjað þessari beiðni kæranda. Þess í stað hafi kærði boðið kæranda staðlaða ferðaþjónustu sem ekki hafi tekið mið af þörfum hans og ekki hafi verið til þess fallin að gera honum kleift að stunda atvinnu, nám og njóta tómstunda með sama hætti og ófatlaðir. Kærandi telur að hin kærða ákvörðun sé efnislega röng auk þess sem kærði hafi ekki gætt að formreglum stjórnsýsluréttar við töku hennar. Hann krefst þess fyrir úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála að nefndin fjalli um efnislegt lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar og málsmeðferð Kópavogsbæjar við töku hennar. Kærandi krefst þess að úrskurðarnefndin beini því til kærða að veita kæranda mánaðarlega allt að 60 ferðir með leigubifreið á strætisvagnafargjaldi. Til vara er þess krafist að úrskurðarnefndin beini því til kærða að veita kæranda ferðaþjónustu sem taki mið af einstaklingsbundnum þörfum hans og sé til þess fallin að gera hann eins settan og ófatlaðan einstakling í sömu eða sambærilegri stöðu. Loks er þess krafist að úrskurðarnefndin beini því til kærða að rétta hlut kæranda vegna þess fjárhagslega tjóns sem hann hafi orðið fyrir vegna framangreindrar sniðgöngu kærða á lögbundinni skyldu sinni.

Kærandi bendir á að skv. 1. mgr. 1. gr. laga um málefni fatlaðs fólks sé markmið þeirra laga að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Í samræmi við þetta markmið komi fram í 1. mgr. 35. gr. að sú skylda sé lögð á sveitarfélög að veita fötluðum ferðaþjónustu. Þá vitnar kærandi til þess að í 2. mgr. 1. gr. laganna komi fram að við framkvæmd laganna skuli tekið mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafi gengist undir, einkum samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þar sé í 20. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðra fjallað um ferilmál einstaklinga og þar kom eftirfarandi fram:

Aðildarríkin skulu gera árangursríkar ráðstafanir til þess að tryggja að einstaklingum sé gert kleift að fara allra sinna ferða og tryggja sjálfstæði fatlaðra í þeim efnum, eftir því sem frekast er unnt, m.a. með því: a) að greiða fyrir því að fatlaðir geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem, og þegar, þeim hentar og gegn viðráðanlegu gjaldi.

Þá er þess getið að skv. 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, sbr. 14. gr. stjórnskipunarlaga, nr. 97/1995, skuli öllum, sem þess þurfi, tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.

Kærandi bendir á, varðandi framkvæmd annarra sveitarfélaga, að samkvæmt tölum frá Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga séu um 470 einstaklingar búsettir á höfuðborgarsvæðinu sem skilgreindur séu lögblindir. Af þessum lögblindu einstaklingum sem búsettir séu á höfuðborgarsvæðinu eigi 411 kost á akstursþjónustu með leigubílum, samkvæmt samningum milli Blindrafélagsins og viðkomandi sveitarfélags, sem sérstaklega séu sniðnir að þörfum blindra og sjónskertra einstaklinga. Af þeim 59 sem ekki eigi kost á þess konar akstursþjónustu, sé 51 búsettur í Kópavogi.

Fram kemur af hálfu kæranda að af jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga og 65. gr. stjórnarskrárinnar leiði óhjákvæmilega til þess að sambærileg mál hljóti sambærilega meðferð hjá stjórnvaldi. Eins og fram hafi komið hafi einstaklingum í sambærilegri stöðu og kærandi verið veitt umbeðin ferðaþjónusta með leigubifreið. Það veki því ákveðnar efasemdir að kærði úrskurði nú á annan veg í sambærilegu máli og þrátt fyrir að fyrir liggi skýr fordæmi hafi kærði kosið að víkja frá lögmætri og viðurkenndri stjórnsýsluframkvæmd. Stjórnsýslufordæmi séu bindandi fyrir viðkomandi stjórnvald en stjórnvöldum beri ávallt að gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Þegar stjórnvald hafi byggt ákvörðun um tiltekið atriði á ákveðnum sjónarmiðum leiði jafnræðisregla stjórnsýslulaganna til þess að almennt, þegar sambærileg mál séu til úrlausnar hjá samskonar stjórnvaldi, beri að leysa úr þeim á grundvelli sömu sjónarmiða og með sömu áherslum og gert hafi verið við úrlausn hinna eldri mála. Verði aukinheldur rík krafa gerð til fordæmisgildi umræddra úrskurðar sökum þeirra krafna sem gerðar séu til úrskurðar sem varði mikilsverð réttindi aðila, svo sem þau mannréttindi sem hér um ræði.

Kærandi telur, með vísan til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga, að Kópavogsbæ hafi borið að kanna til hlítar aðstöðu og þarfir kæranda og meta hvaða þjónustu hann hafi þurft á að halda áður en ákvörðun um málefni hans hafi verið tekin. Sé Kópavogsbæ óheimilt að synja beiðni fatlaðs einstaklings um ferðaþjónustu með því einu að vísa til vinnureglu bæjarins. Það sé því ljóst að Kópavogsbær hafi sniðgengið þá skyldu sína að sjá til þess að atvik máls væru nægilega upplýst áður en ákvörðun var tekin. Kærði hafi látið við það eitt sitja að afgreiða mál þetta með kerfisbundinni neitun sem hafi byggt á almennum vinnureglum en ekki lögbundnum forsendum. Slík úrlausn geti ekki talist lögmæt.

Loks kemur fram af hálfu kæranda að réttur hans til andmæla skv. 13. gr. stjórnsýslulaga hafi verið brotinn. Hafi málum verið þannig háttað að aflað hafi verið gagna um þarfir kæranda og stöðu sé ljóst að honum hafi ekki verið veitt tækifæri til að tjá sig um þau gögn. Honum hafi heldur ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um röksemdafærslu kærða eða þær forsendur sem ákvörðun hans byggi á.

 

III. Málsástæður kærða, Kópavogsbæjar.

Af hálfu Félagsþjónustu Kópavogs kemur fram að ágreiningur í máli þessu lúti að framkvæmd ferðaþjónustunnar. Fötluðu fólki í Kópavogi standi til boða ferðaþjónusta samkvæmt samningi sem bæjarfélagið hafi við ferðaþjónustuaðila. Sá aðili hafi yfir að ráða sérútbúnum bílum en jafnframt sé stuðst við leigubifreiðir á annatímum. Hámarksfjöldi ferða sé 68 ferðir í mánuði og sé gjald fyrir hverja ferð helmingur af fargjaldi almenningsvagna. Kæranda hafi verið úthlutað 60 ferðum með umræddri ferðaþjónustu, en kærandi haldi því fram að sú akstursþjónusta sem félagsþjónustan hafi yfir að ráða og standi honum til boða, mæti ekki þörfum hans. Þjónustan sé svifasein, óáreiðanleg og í fullkomnu ósamræmi við þarfir hans. Þá segi hann að núverandi fyrirkomulag útiloki hann frá eðlilegri þátttöku í námi, atvinnu og tómstundum í stað þess að greiða fyrir henni. Honum sé nauðsynlegt að fá ferðaþjónustu sem sniðin sé að daglegum þörfum sínum og sé sveigjanlegri, en akstursþjónusta á vegum Blindrafélagsins fullnægi þeim þörfum hans. Félagsþjónusta Kópavogs hafi ekki gert samning við Blindrafélagið um akstursþjónustu við lögblinda.

Það er hins vegar álit Félagsþjónustunnar að sú akstursþjónusta sem boðið sé upp á af hálfu hennar sé með þeim hætti að hún uppfylli skilyrði laga um málefni fatlaðs fólks um ferðaþjónustu. Þjónustusvæðið sé höfuðborgarsvæðið og aksturstími sé frá kl. 07:00 til 24:00 alla daga. Pantanir þurfi að berast degi áður en geti borist samdægurs fyrir kl. 16:00 vegna kvöldferða. Farþegi þurfi að gefa sér eðlilegan tíma til að komast á milli staða með tilliti til umferðar og vegalengdar. Lögð sé áhersla á að hafa viðveru í bílum sem stysta og gert sé ráð fyrir að ferðatími sé svipaður og hjá almenningsvögnum. Eins og um aðra almenna akstursþjónustu, svo sem almenningsvagna Strætó bs., sé þjónustan ekki sérsniðin að þörfum hvers farþega.

Fram kemur að framkvæmd ferðaþjónustu fatlaðra sé mismunandi á milli sveitarfélaga, enda sé þeim falið að setja reglur um þjónustuna á grundvelli 35. gr. laga um málefni fatlaðs fólks. Kópavogsbær hafi sett sér slíkar reglur og sinni lagaskyldu sinni sem sé að gefa fötluðu fólki kost á ferðaþjónustu sem hafi það að markmiði að gera þeim sem ekki geti nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda.

Kærði bendir á að ein af málsástæðum kæranda sé sú að Félagsþjónusta Kópavogs hafi brotið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga og vísi þar til þess að fjórir, þar af tveir lögblindir, íbúar í Kópavogi hafi fengið akstursþjónustu með leigubifreiðum. Í þessum fjórum tilvikum hafi verið um mjög sérstakar aðstæður að ræða og málefnaleg sjónarmið hafi legið fyrir því að undantekning hafi verið heimiluð frá hinni almennu reglu. Þar hafi háttað þannig til hjá umsækjendum að þeim hafi verið alls kostar ómögulegt að nýta sér þá almennu akstursþjónustu sem hafi verið í boði. Undanþágurnar hafi verið veittar tímabundið vegna hinna sérstöku aðstæðna og séu slíkar undanþágur að jafnaði bornar undir félagsmálaráð Kópavogs til staðfestingar. Ofangreind sjónarmið eigi hins vegar ekki við um kæranda.

Félagsþjónusta Kópavogs mótmælir því að andmæla- og rannsóknarreglu hafi ekki verið gætt við ákvarðanatöku í málinu. Kærandi hafi skilað mjög ítarlegri umsókn til sveitarfélagsins þar sem fram hafi komið afstaða hans og rökstuðningur. Að mati Félagsþjónustunnar hafi allar upplýsingar legið fyrir þegar hin kærða ákvörðun var tekin.

Við meðferð málsins óskaði úrskurðarnefndin sérstaklega eftir upplýsingum um þá einstaklinga sem hefðu fengið undanþágu frá reglum Kópavogsbæjar, og notið aksturs með leigubifreiðum. Bárust sjónarmið Kópavogsbæjar úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 5. maí 2011, og var bréf Kópavogsbæjar kynnt kæranda þann sama dag. Var þess sérstaklega óskað af hálfu Kópavogsbæjar að þær upplýsingar sem gætu talist vera persónugreinanlegar yrðu ekki raktar í úrskurði nefndarinnar. Í ljósi þess að þessar upplýsingar hafa verið kynntar kæranda verður fallist á þá ósk kærða og verður almennt vísað til þeirra í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar.

 

VI. Niðurstaða.

 Málskotsheimild kæranda er reist á 5. gr. a laga um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, en 1. mgr. greinarinnar hljóðar svona:

Fötluðum einstaklingi er heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir um þjónustu sem teknar eru á grundvelli laga þessarar til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, sbr. XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Í máli þessu er ágreiningur um það hvort Félagsþjónustu Kópavogs beri að veita kæranda akstursþjónustu í leigubifreiðum gegn greiðslu gjalds sem svarar til strætisvagnafargjalds í stað þess að honum beri að nýta þá ferðaþjónustu fatlaðra sem boðið er upp á af hálfu Kópavogsbæjar.

Í málinu hefur Kópavogsbær krafist frávísunar málsins, þar sem Félagsþjónusta Kópavogs tók hina kærðu ákvörðun á fundi sínum þann 14. desember 2010, en kærandi kærði þá ákvörðun beint til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála án þess að kæra hana fyrst til félagsmálaráðs Kópavogs. Á því hefur hann einn forræði.

Í 5. mgr. 5. gr. a laga um málefni fatlaðs fólks kemur fram að um málsmeðferð fari skv. XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og stjórnsýslulögum, en í 1. mgr. 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga segir að málsaðili geti skotið ákvörðun félagsmálanefndar til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, sbr. 64. gr. laganna. Settar voru reglur um ferðaþjónustu í Kópavogi skv. XI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og 35. gr. laga um málefni fatlaðra og voru þær samþykktar í bæjarráði Kópavogs þann 31. maí 2007. Í 3. gr. reglnanna segir að senda skuli umsókn um ferðaþjónustu til Félagsþjónustu Kópavogs og gerð nánari grein fyrir því hvað fylgja skuli umsóknum. Fram kemur í greininni að umsóknir skuli lagðar fyrir deildarfundi þjónustudeildar fatlaðra að jafnaði sjö dögum eftir að umsókn og gögn hafa borist. Í 23. gr. a. í samþykkt fyrir félagsmálaráð Kópavogs sem tók gildi 7. janúar 2010 segir að yfirmaður þjónustudeildar fatlaðra afgreiði án staðfestingar félagsmálaráðs umsóknir um ferðaþjónustu skv. reglum um ferðaþjónustu í Kópavogi sem samþykktar voru í bæjarráði Kópavogs þann 31. maí 2007.

Þegar litið er til þess hvernig Kópavogsbær hefur sett sér reglur um meðferð þeirra umsókna sem kærðar hafa verið til úrskurðarnefndarinnar, verður á það fallist eins og hér stendur á, að ekki hafi verið þörf á því fyrir kæranda að skjóta hinni kærðu ákvörðun til félagsmálaráðs Kópavogs. Verður hún því tekin til efnislegrar meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Fjallað er um réttindi fatlaðra í lögum nr. 59/1992, með síðari breytingum. Markmið laganna er að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Er tekið fram að við framkvæmd þeirra skuli tekið mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá skulu stjórnvöld tryggja heildarsamtökum fatlaðs fólks og aðildarfélögum þeirra áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni fatlaðs fólks. Í 4. gr. laganna kemur fram að sveitarfélög beri ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, þar með talið gæðum þjónustunnar, sem og kostnaði vegna hennar samkvæmt lögum þessum nema annað sé tekið fram eða leiði af öðrum lögum. Þá hafa sveitarfélögin með höndum innra eftirlit með framkvæmd þjónustunnar, þar á meðal með framkvæmd samninga sem sveitarfélögin gera við rekstrar- eða þjónustuaðila um framkvæmd þjónustunnar.

Í 8. gr. laga nr. 59/1992 kemur fram að veita skuli fötluðu fólki þjónustu sem miði að því að gera því kleift að lifa og starfa í eðlilegu samfélagi við aðra, svokallaða stoðþjónustu. Stoðþjónustu á að veita á hverju svæði með þeim hætti sem best hentar á hverjum stað og á hún að miðast við þarfir fatlaðs fólks, m.a. miðað við þarfir til hæfingar, endurhæfingar og atvinnu sem m.a. felast í því að það geti séð sér farborða og tekið virkan þátt í samfélaginu. Þá er tekið fram í 35. gr. laganna að sveitarfélag skuli gefa fötluðu fólki kost á ferðaþjónustu, en markmið ferðaþjónustu fatlaðs fólks sé að gera þeim sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda.

Lög nr. 59/1992 veita sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita fötluðu fólki í samræmi við fyrrgreind markmið laganna og þær kröfur sem gerðar eru til aðgengis fatlaðra einstaklinga að þeirri þjónustu. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir undir eftirliti ráðherra. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í málinu er ágreiningur um þau réttindi sem felast í 35. gr. laga um málefni fatlaðs fólks, eins og henni var breytt með lögum nr. 152/2010. Þar er fjallað um rétt fatlaðra til ferðaþjónustu, en þar segir að sveitarfélög skuli gefa fötluðu fólki kost á ferðaþjónustu og skuli markmið hennar að gera þeim sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu og nám og að njóta tómstunda. Þá kemur einnig fram að fatlað fólk skuli eiga rétt á ferðaþjónustu á vegum sveitarfélaga vegna aksturs á þjónustustofnanir og vegna annarrar sértækrar þjónustu sem því er veitt sérstaklega. Er hér um að tefla skyldu sveitarfélaga sem byggð er á jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar svo sem kærandi hefur haldið fram, og deila aðilar um hversu víðtæk sú skylda eigi að vera. Hefur kærandi byggt á því að hann eigi að vera jafnsettur og ófatlaður einstaklingur, þannig að hann eigi að fá ferðaþjónustu sem taki mið af þörfum hans og geri hann eins settan og ófatlaðan einstakling í sömu eða sambærilegri stöðu.

Við meðferð málsins hefur komið fram að framkvæmd ferðaþjónustu fatlaðs fólks er háttað með mismunandi hætti eftir sveitarfélögum, m.a. innan sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Í málinu hefur kærandi hins vegar krafist þess að kærði veitti honum sambærilega þjónustu og veitt er blindum einstaklingum í sömu stöðu og hann í þeim sveitarfélögum sem gert hafa samning við Blindrafélagið um akstursþjónustu. Það augljósa hagræði er af þeirri þjónustu, að sá sem nýtur hennar ferðast einn í leigubifreið og getur óskað eftir henni með tiltölulega stuttum fyrirvara. Það eigi ekki við um þá þjónustu sem í boði er hjá kærða.

Þegar afstaða er tekin til þeirrar kröfu kæranda ber að hafa í huga að kærandi hefur kost á því að fá 60 ferðir á mánuði með ferðaþjónustu fatlaðra. Hann á hins vegar ekki kost á því að þær ferðir verði með leigubifreiðum, líkt og hann hefur farið fram á, heldur með tilteknu ferðaþjónustufyrirtæki, Smartbílum. Ferðirnar þarf að panta með tilteknum fyrirvara og telur kærandi að af því hljótist óhagræði, enda taki ferðirnar langan tíma og miðist ekki við þarfir hans og þeirrar fötlunar sem hann glímir við.

Þegar metið er hvort kærandi skuli eiga rétt til ferða með leigubifreið, líkt og hann hefur farið fram á, verður að áliti úrskurðarnefndar litið til þessa að í lögum um málefni fatlaðs fólks kemur fram að sveitarfélög skuli gefa fötluðu fólki kost á ferðaþjónustu og að markmið hennar sé að gera þeim sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu og nám og að njóta tómstunda. Eru það þær almennu kröfur sem lögin gera til þeirrar þjónustu sem krafist er af sveitarfélögum, sem þeim hefur verið falið að útfæra nánar í þeim reglum sem settar eru um framkvæmd þjónustunnar.

Þegar metið er hvort sú þjónusta sem deilt er um í málinu uppfylli kröfur laga nr. 59/1992 verður að líta til þess að af hálfu kæranda hefur verið boðið upp á akstursþjónustu sem hefur veitt kæranda rétt til 60 mánaðarlegra ferða. Þá hefur kærði mótað almennar reglur um framkvæmd þjónustunnar, en hefur við framkvæmd hennar ekki gert greinarmun á milli þess við hvaða fötlun þeir einstaklingar glíma sem eftir henni sækjast.

Þótt óhagræði kunni að vera af því að þurfa að samnýta þá þjónustu sem í boði er hjá kærða og jafnvel þótt hún kunni að þarfnast skipulagningar og að vera tímafrekari en ferðir með leigubifreið, verður ekki á það fallist að sú þjónustu sem kærði hefur boðið fram brjóti gegn fyrrgreindum reglum laganna. Er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að með fyrrgreindum reglum hafi kærandi notið ferðaþjónustu, þannig að hann hafi sem mest getað staðið jafnfætis ófötluðum einstaklingum sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki, sbr. 35. gr. laganna og dóm Hæstaréttar frá 4. febrúar 1999 í máli nr. 177/1998.

Kærandi hefur jafnframt vísað til þess að í einhverjum tilvikum hafi einstaklingar í sömu stöðu og hann fengið aðra og betri þjónustu, án þess að skýring hafi komið fram á því hvers vegna hann hafi ekki fengið notið sambærilegrar þjónustu. Hefur kærandi byggt á því að við meðferð málsins hafi málsmeðferðarreglur stjórnsýsluréttar verið brotnar, m.a. rannsóknarregla stjórnsýsluréttar og meðalhófsregla. Við meðferð málsins kallaði úrskurðarnefnd eftir frekari upplýsingum frá kærða um hvort aðrir í sambærilegri stöðu og kærandi hefðu notið annarrar og betri þjónustu og ef svo væri hver ástæða þess væri, en ekki verður séð að slíka undanþágu sé að finna í reglum um ferðaþjónustu í Kópavogi. Voru þær upplýsingar veittar munnlega og vísað til þess að í þeim tilvikum sem þar um ræddi hefði staðið sérstaklega á um þá fötluðu einstaklinga sem þar nutu tímabundið þess að geta ferðast með leigubifreiðum.

Svo sem að framan greinir óskaði úrskurðarnefndin eftir skriflegum upplýsingum frá kærða um þau tilvik sem kærandi vísar til í kæru sinni. Þær upplýsingar bárust með bréfi þann 5. maí 2011 og voru þær kynntar kæranda samdægurs. Úrskurðarnefndin telur að í öðru þeirra tilvika þar sem kona fékk slíka þjónustu verði ekki jafnað saman við aðstæður kæranda. Þá verður að telja að hitt tilvikið sem vísað er til, þar sem karlmaður fékk slíka þjónustu, ekki sambærilegt enda um tímabundnar aðstæður þess einstaklings að ræða sem ekki eru sambærilegar aðstæðum kærða. Verður því ekki talið að brotið hafi verið gegn málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga við meðferð málsins og verður málið ekki ógilt af þeim sökum.

Samkvæmt framansögðu er því ákvörðun Kópavogsbæjar frá 14. desember 2010 í máli A staðfest.

Úrskurð þennan kváðu upp Ása Ólafsdóttir formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn. 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Félagsþjónustu Kópavogs frá 14. desember 2010 í máli A er staðfest.

  

Ása Ólafsdóttir,

formaður 

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                                          Gunnar Eydal

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta