Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 10/2006

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 10/2006:

A

gegn

Fjölskyldu- og styrktarsjóði BHM, BSRB og KÍ

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 18. desember 2006 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I.

Inngangur

Með kæru, dags. 31. maí 2006, óskaði kærandi, A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort synjun Fjölskyldu- og styrktarsjóðs BHM, BSRB og KÍ á umsókn hans um greiðslu úr sjóðnum í fæðingarorlofi bryti í bága við ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt Fjölskyldu- og styrktarsjóði BHM, BSRB og KÍ með bréfi, dags. 8. júní 2006. Umsögn Fjölskyldu- og styrktarsjóðsins barst með bréfi, dags. 22. júní sl., og var kæranda gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum við hana á framfæri. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 13. júlí sl., og hafa þær verið kynntar Fjölskyldu- og styrktarsjóðnum. Engar frekari athugasemdir hafa borist frá aðilum.

Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

 

II.

Málavextir

Samkvæmt reglugerð nr. 410/1989, um barnsburðarleyfi starfsmanna ríkisins, var fastráðnum konum sem starfað höfðu í þjónustu ríkisins samfellt í sex mánuði fyrir barnsburð veittur réttur til launaðs leyfis í sex mánuði sem skiptist þannig að greidd voru dagvinnulaun og yfirvinnulaun fyrstu þrjá mánuði fæðingarorlofsins og dagvinnulaun síðari þrjá mánuði fæðingarorlofsins. Með lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, var meðal annars svo fyrir mælt að samið skyldi um laun í fæðingarorlofi í kjarasamningum en á meðan skyldi ofannefnd reglugerð gilda.

Með samkomulagi BHM, BSRB og KÍ við fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, Reykjavíkurborgar og Launanefndar sveitarfélaga, dags. 24. október 2000, var í grein 3.1 stofnaður sérstakur sjóður, Fjölskyldu- og styrktarsjóður, sem hafði meðal annars það hlutverk „að taka við umsóknum, ákvarða og annast greiðslur til félagsmanna í fæðingarorlofi“. Í kjarasamningi stéttarfélags lögfræðinga og Reykjavíkurborgar sem gilti frá 1. apríl 2001 til 30. nóvember 2005 er einnig mælt fyrir um stofnun sérstaks sjóðs, Fjölskyldu- og styrktarsjóðs, og var hlutverk hans að taka við iðgjöldum launagreiðanda og annast greiðslur til félagsmanna í fæðingarorlofi, samanber nánar grein 14.1.1 í kjarasamningnum. Í grein 14.1.2 segir jafnframt orðrétt: „Vegna þess mismunar sem er á greiðslum sem taka mið af reglugerð nr. 410/1989 annars vegar og skv. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof hins vegar fer hluti af iðgjaldi launagreiðanda í fjölskyldu- og styrktarsjóð til að greiða þann mismun. Fyrri réttindi sem taka mið af reglugerð nr. 410/1989 teljast að fullu bætt með greiðslum launagreiðanda í sjóðinn.“

Kærandi er lögfræðingur að mennt og starfar sem deildarstjóri X og fer um ráðningarkjör hans eftir framangreindum kjarasamningi stéttarfélags lögfræðinga og Reykjavíkurborgar. Hann eignaðist barn þann 17. apríl 2005 og sótti um greiðslu launa úr Fjölskyldu- og styrktarsjóði BHM, BSRB og KÍ vegna fyrirhugaðs fæðingarorlofs. Umsókn kæranda, dags. 23. mars 2005, var hafnað með bréfi sjóðsins, dags. 29. júní 2005, á grundvelli þess að ekki hafi verið í gildi samningur um fæðingarorlof karla milli stéttarfélags lögfræðinga og Reykjavíkurborgar fyrir gildistöku laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof. Var í rökstuðningi sjóðsins vísað til þess að hlutverk Fjölskyldu- og styrktarsjóðsins væri einungis að þessu leyti að bæta sjóðfélögum það tjón sem þeir hefðu orðið fyrir við gildistöku nýrra reglna um greiðslu launa í fæðingaorlofi, en eldri reglur hefðu aðeins náð til fæðingaorlofs kvenna. Af þeim ástæðum hafi ekki verið unnt að fallast á umsókn kæranda.

 

III.

Sjónarmið kæranda

Af hálfu kæranda er á því byggt að synjun umsóknar hans um greiðslu úr Fjölskyldu- og styrktarsjóði BHM, BSRB og KÍ vegna fæðingarorlofs hans brjóti í bága við ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000 sem og ákvæði 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 3. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995.

Í lögum nr. 96/2000 sé ítarlega fjallað um bann við mismunun á grundvelli kynferðis. Þannig sé í 22. gr. mælt fyrir um að hvers kyns mismunun eftir kynferði, hvort heldur bein eða óbein, sé óheimil. Markmið jafnréttislaga sé meðal annars að tryggja rétt foreldra til fæðingarorlofs, en tilgangur löggjafans með fæðingarorlofi sé annars vegar að gefa konum tækifæri til að ná sér eftir barnsburð og hins vegar að veita báðum foreldrum tækifæri til að annast barn sitt fyrstu mánuði ævi þess. Samkvæmt 23. gr. laganna skuli konum og körlum greidd jöfn laun og þau njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Með „launum“ sé átt við venjulegt grunn- eða lágmarkskaup og hvers konar frekari þóknun, beina eða óbeina, hvort heldur með hlunnindagreiðslum eða öðrum hætti. Með „kjörum“ í skilningi ákvæðisins sé átt við lífeyris-, orlofs- og veikindarétt og hvers kyns önnur samningsréttindi.

Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 208/1997 hafi verið fjallað um tengsl laga og reglna á sviði jafnréttismála við greiðslu launa í fæðingarorlofi Er á því byggt af hálfu kærða að enginn munur eigi að vera á túlkun reglnanna fyrir eða eftir gildistöku laga nr. 95/2000, og eigi karlar því að njóta samsvarandi réttar og konur til greiðslu launa í fæðingarorlofi. Hins vegar líti Fjölskyldu- og styrktarsjóðurinn á hlutverk sitt sem ígildi tryggingafélags og miðli bótum til þeirra sem hafi orðið fyrir skerðingu við setningu laga nr. 95/2000. Fyrir liggi að karlar njóti ekki sömu kjara og konur hjá sjóðnum og er kærandi þar ekki undanskilinn, þótt hann greiði iðgjöld til sjóðsins. Kærandi hafi því gert kröfu til sjóðsstjórnar um að fá greidda fjárhæð úr sjóðnum sem svaraði til sambærilegra réttinda og konu sem hafi fengið greitt úr sjóðnum í fæðingarorlofi.

Þá hafi Fjölskyldu- og styrktarsjóðurinn ekki fjallað um erindi kæranda hjá kærunefndinni heldur kosið þess í stað að senda kærunefndinni bréf sem hafi verið sent Jafnréttisstofu í nóvember 2005. Þá tekur kærandi fram að í bókun stjórnar Fjölskyldu- og styrktarsjóðsins frá 25. maí 2005 komi fram að álit kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 10/2003 orki tvímælis og væri þar að auki ekki bindandi, en ef niðurstaða dómstóla yrði á sama veg og álit nefndarinnar yrði að sjálfsögðu farið að henni. Bendir kærandi á að niðurstaða Hæstaréttar Íslands frá 5. febrúar 1998 í máli nr. 208/1997 og niðurstaða kærunefndar í máli nr. 10/2003 séu efnislega samhljóða. Kærandi sjái því ekki hvernig stjórn sjóðsins geti rökstutt höfnun á styrkumsókn hans til sjóðsins. Þá er jafnframt til þess vísað af hálfu kæranda að í dómum Hæstaréttar Íslands hafi ítrekað komið fram að kjarasamningar hafi ekki stöðu laga og verði að víkja þegar þeir eru ekki samrýmanlegir lögum. Sem dæmi megi nefna dóm Hæstaréttar frá 31. maí 2000, í máli nr. 11/2000. Samningsumboð stéttarfélaga takmarkist því af gildandi lögum í landinu og þar séu jafnréttislög nr. 96/2000 ekki undanskilin.

Af hálfu Fjölskyldu- og styrktarsjóðsins sé jafnframt byggt á því að verði samþykkt að karlar njóti sömu réttinda og konur hjá sjóðnum, muni það leiða til skerðingar réttinda kvenna í sjóðnum. Þessi fullyrðing hafi hins vegar ekki verið rökstudd og þá hafi engir útreikningar um iðgjaldaskil, kostnað vegna skrifstofuhalds eða aðrar tölulegar staðreyndir verið lagðar fram henni til sönnunar.

Að mati kæranda er synjun Fjölskyldu- og styrktarsjóðsins því brot á jafnréttislögum, þar sem hún viðhaldi ólíkum kjörum karla og kvenna við greiðslu launa í fæðingarorlofi.

 

IV.

Sjónarmið Fjölskyldu- og styrktarsjóðs BHM, BSRB og KÍ

Af hálfu Fjölskyldu- og styrktarsjóðs BHM, BSRB og KÍ er byggt á þeirri afstöðu sem fram kom í bréfi sjóðsins til Jafnréttisstofu, dags. 9. nóvember 2005. Þar kemur fram að upp úr 1990 hafi karlar farið að huga að því að sækja rétt til fæðingarorlofs og hafi sú barátta almennt verið studd af stéttarfélögum. Árið 1997 hafi verið kveðinn upp dómur Hæstaréttar í máli nr. 208/1997, þar sem viðurkenndur var réttur föður til greiðslu launa í fæðingarorlofi. Í framhaldi af því hafi hafist vinna við gerð frumvarps til fæðingarorlofslaga þar sem áhersla hafi verið lögð á að jafna rétt kynjanna á þessu sviði. Með tilkomu fæðingarorlofslaga nr. 95/2000 hafi stéttarfélögin litið svo á að hlutur feðra hefði verið réttur til samræmis við niðurstöðu fyrrnefnds dóms Hæstaréttar og því hafi stéttarfélögin talið sig hafa fulla heimild til þess að semja um tiltekin umframréttindi til kvenna á grundvelli 3. mgr. 22. gr. jafnréttislaga nr. 96/2000.

Færi svo að dómstólar kæmust að þeirri niðurstöðu að stéttarfélögin hafi ekki frjálsan rétt til þess að semja á þessum forsendum og að taka um það sjálfstæða ákvörðun að viðhalda þessu fyrirkomulagi, kæmi hins vegar til álita að breyta úthlutunarreglum fæðingarorlofsgreiðslna á þann veg að þær gengju til móður sem eins konar fæðingarstyrkur vegna þungunar eða barnsburðar. Um þetta hafi þó engin ákvörðun verið tekin, en það sé álit Fjölskyldu- og styrktarsjóðsins að mikilvægt sé að taka sérstakt tillit til kvenna vegna þungunar eða barnsburðar og sé það í samræmi við 2. mgr. 22. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, og dóm Hæstaréttar í máli. 208/1997. Líta beri til þess að konur fá mismikið greitt úr Fjölskyldu- og styrktarsjóði. Í sumum tilvikum fái þær engar greiðslur og í mörgum tilvikum sé um óverulega fjárhæð að ræða. Greiðslurnar ráðist af því hve há laun þær hafi haft og hve mikla yfirvinnu þær hafi unnið. Því hærri laun og því meiri yfirvinna sem þær hafi unnið fyrir barnsburð, því hærri greiðslur fái þær úr sjóðnum. Færi svo að skerða yrði greiðslur til kvenna í fæðingarorlofi, kæmi til álita að endurskoða kerfið frá grunni á fyrrgreindum forsendum.

 

V.

Niðurstaða

Kærandi hefur óskað eftir því að kærunefnd jafnréttismála taki afstöðu til þess hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, við synjun á umsókn hans um greiðslu úr Fjölskyldu- og styrktarsjóði BHM, BSRB og KÍ vegna töku fæðingarorlofs.

Í grein 14.1.1 í kjarasamningi stéttarfélags lögfræðinga og Reykjavíkurborgar sem gilti frá 1. apríl 2001 til 30. nóvember 2005 var mælt fyrir um stofnun sérstaks sjóðs, Fjölskyldu- og styrktarsjóðs, sem hefði það hlutverk meðal annars að taka við umsóknum, ákvarða og annast greiðslur til félagsmanna í fæðingarorlofi. Í grein 14.1.2 í framangreindum kjarasamningi kemur fram að hluti af iðgjaldi launagreiðanda í sjóðinn verði notað til að greiða þann mismun sem er á greiðslum úr fæðingarorlofssjóði annars vegar og greiðslum sem tóku mið af þágildandi reglugerð nr. 410/1989 hins vegar, en óumdeilt er að einungis konur áttu rétt á greiðslum vegna barnsburðarleyfis samkvæmt þeirri reglugerð. Með greiðslum vinnuveitenda til sjóðsins var talið að réttindi á grundvelli reglugerðar nr. 410/1989 væru að fullu bætt, samanber niðurlag greinar 14.1.2 í kjarasamningnum.

Samkvæmt grein 14.1.1 er hlutverk Fjölskyldu- og styrktarsjóðs að taka við umsóknum, ákvarða og annast greiðslur til félagsmanna í fæðingarorlofi. Þrátt fyrir framangreint orðalag greinar 14.1.1, sem vísar til félagsmanna almennt, má skilja málatilbúnað Fjölskyldu- og styrktarsjóðsins þannig að sjóðnum sé einungis að þessu leyti ætlað það hlutverk að bæta þann mismun sem er á greiðslum úr fæðingarorlofssjóði annars vegar og réttindum samkvæmt reglugerð nr. 410/1989, samanber grein 14.1.2, hins vegar, en einungis konur áttu rétt á greiðslum samkvæmt þeirri reglugerð. Í samræmi við þetta liggur fyrir að Fjölskyldu- og styrktarsjóðurinn hefur einungis tekið til meðferðar umsóknir kvenna um greiðslur í fæðingarorlofi en ekki karla.

Samkvæmt 14. gr. laga nr. 96/2000 skulu konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda greidd jöfn laun og skulu þau njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf og er í greinargerð með 14. gr. laganna sérstaklega tekið fram að ákvæðið nái til þeirra kjara sem starfsmenn njóta í fæðingarorlofi. Þá er í 23. gr. laga nr. 96/2000 mælt fyrir um að hvers kyns mismunun launa og annarra kjara á grundvelli kynferðis sé óheimil.

Samkvæmt framansögðu eiga einungis konur rétt á greiðslu úr Fjölskyldu- og styrktarsjóðnum. Kærunefnd jafnréttismála telur að synjun sem byggir á þeim sjónarmiðum eingöngu fari gegn framangreindum ákvæðum jafnréttislaga enda verður ekki séð að styrkur sá sem um er að ræða verði réttlættur með hlutlægum sjónarmiðum, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 22. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Þá er það álit kærunefndar jafnréttismála að þau sjónarmið sem vísað hefur verið til af hálfu styrktarsjóðsins og lúta að mismunun sem rekja má til viðhalds réttinda sem leiddu af reglugerð nr. 410/1989 fái heldur ekki samrýmst ákvæðum laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sbr. 2. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar, og til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 208/1997. Um þetta má einnig vísa til álits kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 10/2003.

Fyrir liggur að kærandi sendi Fjölskyldu- og styrktarsjóði umsókn um greiðslu styrks með bréfi, dags. 23. mars 2005. Í bréfi Fjölskyldu- og styrktarsjóðs til kæranda, dags. 29. júní 2005, kemur fram að umsókn hans hafi verið hafnað þar sem ekki hafi verið í gildi samningur um fæðingarorlof karla milli stéttarfélags hans og vinnuveitanda fyrir gildistöku laga um fæðingarorlofssjóð. Jafnframt kemur fram í bréfi sjóðsins til kæranda að stjórn sjóðsins leggi til grundvallar ákvörðunum sínum að sjóðurinn bæti þá skerðingu sem umsækjandi hafi orðið fyrir ef sjóðnum hefði ekki verið komið á fót með tilvísuðu samkomulagi frá 24. október 2000. Í þessu felist að bótahlutverk sjóðsins sé að bæta tjón sem orðið hafi vegna breyttra reglna varðandi greiðslu fæðingarorlofs.

Svo sem áður er rakið er það álit kærunefndar jafnréttismála að umrædd mismunun verði ekki réttlætt á grundvelli hlutlægra sjónarmiða sem lúta að fæðingarorlofi kvenna sérstaklega. Af tilvísuðum dómi Hæstaréttar í máli nr. 208/1997 má ráða að fyrirkomulag það sem mælt var fyrir um í reglugerð nr. 410/1989 hafi farið gegn grunnreglum stjórnarskrárinnar um jafnrétti kynjanna. Af því leiðir jafnframt að ákvarðanir stjórnar Fjölskyldu- og styrktarsjóðsins sem takmarka greiðslur úr sjóðnum með framangreindum hætti fara að mati kærunefndar jafnréttismála gegn ákvæðum jafnréttislaga nr. 96/2000.

Kærunefnd jafnréttismála beinir því þeim tilmælum til Fjölskyldu- og styrktarsjóðs BHM, BSRB og KÍ að umsókn kæranda verði tekin til afgreiðslu, og að séð verði til þess að kæranda sé ekki mismunað á grundvelli kynferðis síns í samræmi við framangreint.

 

 

Andri Árnason

Ragna Árnadóttir

Ása Ólafsdóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta