1167/2023. Úrskurður frá 20. desember 2023
Hinn 20. desember 2023 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1167/2023 í máli ÚNU 23110002.
Kæra og málsatvik
Hinn 1. nóvember 2023 barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæra frá A, blaðamanni hjá DV, vegna afgreiðslu fjármála- og efnahagsráðuneytis á beiðni um gögn.
Kærandi óskaði með erindi, dags. 27. september 2023, eftir upplýsingum um þann arf sem hefði tæmst til ríkissjóðs á grundvelli 55. gr. erfðalaga, nr. 8/1962, undanfarin fimm ár. Þá var jafnframt óskað eftir sundurliðun sem sýndi hversu marga arfleifendur um ræddi, hversu miklar innistæður á bankareikningum eða beina peninga væri um að ræða, hversu margar fasteignir eða eignarhluta í fasteignum og annars konar verðmæti sem við gæti átt, svo sem listmuni, innbú, hlutabréf, ökutæki og svo framvegis. Þá óskaði kærandi eftir upplýsingum um hvernig færi með erfðafjárskatt í slíkum tilvikum.
Erindi kæranda var ítrekað nokkrum sinnum. Hinn 27. október 2023 barst kæranda svar frá ráðuneytinu þar sem fram kom að málið hefði verið kannað. Ekki væri haldið utan um umbeðnar upplýsingar kerfisbundið með þeirri sundurliðun sem óskað væri eftir. Því væru ekki tiltæk gögn til þess að svara fyrirspurninni.
Í kæru til úrskurðarnefndarinnar tiltekur kærandi að til vara sé farið fram á upplýsingar um fjölda arfleifenda á tilgreindu tímabili ásamt heildarfjárhæðum sem runnu í ríkissjóð og eftir atvikum upplýsingar um verðmæti sem ekki hafi verið komið í verð. Til þrautavara sé óskað eftir upplýsingum sem varði fjármuni sem renni í ríkissjóð á grundvelli 55. gr. erfðalaga, t.d. um verkferla við viðtöku slíks erfðafjár, um verðmatsferlið eða annað sem varpað geti ljósi á afdrif fjórðu erfðarinnar.
Kærandi telur að ráðuneytið, sem fari með yfirstjórn opinberra fjár- og efnahagsmála, hafi upplýsingar um tekjur og eignir hins opinbera, sem og um uppruna þeirra. Því liggi í hlutarins eðli að beiðni kæranda hefði verið hægt að svara, að minnsta kosti að hluta til. Þá sé minnt á leiðbeiningarskyldu stjórnvalda sem og ákvæði 15. gr. upplýsingalaga um að stjórnvald skuli gefa beiðanda færi á að afmarka beiðni sína nánar áður en henni er vísað frá. Kærandi vísar til úrskurðarframkvæmdar úrskurðarnefndarinnar þess efnis að gögn geti talist fyrirliggjandi í skilningi upplýsingalaga þótt það þurfi að afmarka þau eða taka saman, sbr. úrskurði nefndarinnar nr. 1073/2022 og 918/2020, þar sem nefndin hafi rakið að upplýsingar sem vistaðar væru í gagnagrunnum gætu talist fyrirliggjandi ef unnt væri að kalla þær fram með einföldum hætti.
Málsmeðferð
Kæran var kynnt fjármála- og efnahagsráðuneyti með erindi, dags. 8. nóvember 2023, og ráðuneytinu veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að ráðuneytið léti úrskurðarnefnd um upplýsingamál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að. Þá tiltók nefndin að æskilegt væri að í umsögninni væri því svarað hvort í ráðuneytinu lægju fyrir upplýsingar eða gögn um eigur sem runnið hafa í ríkissjóð á grundvelli 55. gr. erfðalaga síðastliðin fimm ár frá 27. september 2023, þótt ekki væri haldið utan um þau með kerfisbundnum hætti. Væru upplýsingarnar til óskaði nefndin eftir svörum við eftirfarandi atriðum:
- Með hvaða hætti þau væru vistuð í ráðuneytinu, þ.e. hvort þær væri að finna í málaskrá eða öðru kerfi eða gagnagrunni á vegum ráðuneytisins.
- Hvort þau væru sundurliðuð með þeim hætti sem fram kæmi í beiðni kæranda frá 27. september 2023.
- Hversu mikla vinnu það myndi útheimta að taka upplýsingarnar eða gögnin saman í samræmi við beiðni kæranda frá 27. september 2023. Æskilegt væri að ráðuneytið lýsti því með eins ítarlegum hætti og unnt væri, svo sem með lýsingu á fjölda aðgerða til að taka þau saman og hve langan tíma það tæki.
Umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytis barst úrskurðarnefndinni sama dag. Þar kom fram að þessar upplýsingar lægju ekki fyrir í ráðuneytinu og því væri ekki hægt að verða við fyrirspurninni. Nefndin sendi ráðuneytinu annað bréf hinn 10. nóvember 2023 og óskaði upplýsinga um hvort ráðuneytið hygðist skila frekari umsögn til nefndarinnar en fram hefði komið í svari ráðuneytisins frá 8. nóvember 2023. Í svari ráðuneytisins, dags. 17. nóvember 2023, kom fram að ítrekað væri að þessar upplýsingar væru ekki fyrirliggjandi í ráðuneytinu.
Umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytis var kynnt kæranda með bréfi, dags. 17. nóvember 2023, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Frekari athugasemdir kæranda bárust ekki.
Niðurstaða
Í máli þessu hefur kærandi óskað eftir upplýsingum í tengslum við 55. gr. erfðalaga, en í ákvæðinu kemur fram að eigi maður engan erfingja renni eigur hans í ríkissjóð. Þá hefur kærandi óskað eftir tiltekinni sundurliðun upplýsinga, svo sem um heildarverðmæti, fjölda arfleifenda og sundurliðun verðmæta eftir tegund þeirra.
Réttur almennings til aðgangs að gögnum tekur samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, til fyrirliggjandi gagna sem varða tiltekið mál, og tiltekinna fyrirliggjandi gagna. Samkvæmt 20. gr. sömu laga er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun beiðni um að veita aðgang að gögnum samkvæmt upplýsingalögum. Hið sama gildir um synjun beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er.
Fjármála- og efnahagsráðuneyti kveður þær upplýsingar sem óskað er eftir ekki liggja fyrir í ráðuneytinu. Úrskurðarnefndin fór þess sérstaklega á leit við ráðuneytið að það veitti henni upplýsingar um það hvort upplýsingar um einhver þau atriði sem kærandi tiltók í beiðni sinni lægju fyrir hjá ráðuneytinu, til að gera nefndinni kleift að leggja mat á það hvort ráðuneytinu kynni að vera skylt að taka upplýsingarnar saman. Svör ráðuneytisins við þessu voru afdráttarlaus um það að þær upplýsingar væru ekki fyrirliggjandi. Nefndin hefur ekki forsendur til að draga þá staðhæfingu ráðuneytisins í efa. Með vísan til þess liggur ekki fyrir synjun á afhendingu gagna í skilningi 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga. Verður ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytis því staðfest.
Í kæru til úrskurðarnefndarinnar fer kærandi fram á upplýsingar umfram það sem fram kom í upphaflegri beiðni til ráðuneytisins, sbr. vara- og þrautavarakröfur. Af þessu tilefni tekur úrskurðarnefndin fram að úrskurðurinn varðar aðeins þá beiðni sem kærandi setti fram við ráðuneytið og tekin var afstaða til í hinni kærðu ákvörðun.
Úrskurðarorð
Ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytis, dags. 27. október 2023, er staðfest.
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir