Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 12/2012

Föstudaginn 28. september 2012 tók kærunefnd barnaverndarmála fyrir mál A vegna barna hans, B og C, nr. 12/2012.

 

Kveðinn var upp svofelldur

 

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

 

I.

Málsmeðferð og kröfugerð

 

Mál þetta varðar umgengni kæranda, A, við börn sín, þau B og C, bæði fædd 23. apríl 2006. Börnin lúta sameiginlegri forsjá foreldra sinna, þeirra A og D, en þau slitu samvistum árið 2008.

 

Samkvæmt úrskurði barnaverndarnefndar E frá 29. maí 2012 er umgengni barnanna við kæranda með eftirfarandi hætti:

 

              Fyrstu helgi, annan hvern mánuð frá kl. 12.00 á laugardegi til kl. 16.00 á sunnudegi.

              Fósturforeldrar sjá um að keyra börnin í umgengni og sækja að umgengni lokinni.

              Eftirlit verði við upphaf og lok umgengni af hálfu Barnaverndar E.

              Óboðað eftirlit verður með umgengni.

Komi fyrsta helgi mánaðar upp á stórhátíðardegi, verður umgengni næstu helgi á eftir.

              Símtöl eru ekki heimiluð.

 

Kærandi krefst þess að hann fái börnin fyrstu helgi hvers mánaðar kl. 17.00 á föstudegi og börnin verði svo sótt til hans kl. 17.00 á sunnudegi. Til vara krefst hann þess að fá börnin fyrstu helgi hvers mánaðar kl. 12.00 á laugardegi og börnin verði svo sótt til hans kl. 17.00 á sunnudegi. Í báðum tilvikum er óskað eftir því að kærandi og kona hans fái að hringja í börnin og tala við þau í síma einu sinni í viku á fyrirfram ákveðnum tíma eða í það minnsta hálfsmánaðarlega.

 

Með tilliti til stöðu málsins óskar kærandi flýtimeðferðar í því.

 

Barnaverndarnefnd E krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

 

Fósturforeldrar barnanna eru andvígir frekari umgengni.

 

 

II.

Málavextir

 

Börnin, Br og C, hafa verið vistuð utan heimilis, fyrst í samræmi við úrskurð barnaverndarnefndar E frá 21. september 2010 og dómsátt, dags. 8. desember 2010. Foreldrar barnanna, þau A og D, fara sameiginlega með forsjá þeirra. Hinn 22. mars 2011 úrskurðaði barnaverndarnefnd E um áframhaldandi vistun barnanna utan heimilis, þar sem faðir samþykkti ekki áframhaldandi vistun barnanna, en móðir þeirra var því samþykk. Héraðsdómur E kvað upp úrskurð 25. maí 2011 um að vistun barnanna utan heimilis stæði til 22. september 2011. Var úrskurðurinn staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands 22. júní 2011.

 

Umgengni fór fram samkvæmt úrskurði barnaverndarnefndar E frá 5. apríl 2011 og til september 2011. Á fundi barnaverndarnefndar E 4. október 2011 var kveðinn upp úrskurður um áframhaldandi vistun barnanna utan heimilis skv. a-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga. Enn fremur var á fundinum ákveðið að fela borgarlögmanni að krefjast þess fyrir dómi að foreldrar barnanna yrðu sviptir forsjá þeirra á grundvelli a- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga.

 

Á meðferðarfundi barnaverndarnefndar E 12. október 2011 var málið tekið fyrir að nýju og lagt til að umgengni barnanna yrði eina helgi annan hvern mánuð við móður og eina helgi annan hvern mánuð við föður, með nánar tilgreindum hætti. Bókun fundarins var kynnt föður barnanna og undirritaði hann samning um umgengnina 14. október 2011.

 

Málið var síðan tekið fyrir á fundi starfsmanna barnaverndarnefndar E 30. nóvember 2011 í kjölfar beiðni lögmanns kæranda um rýmri umgengni við börnin. Fram kemur í bókun frá fundinum að faðir hafi afturkallað samþykki sitt fyrir umgengni og telji hann umgengnina vera of litla og verða til þess að rjúfa tengsl barnanna við hann og eiginkonu hans.

 

Málið var enn tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar E 13. desember 2011. Af hálfu kæranda kom fram að hann hefði ekki dregið samþykki sitt fyrir núverandi umgengni til baka, hann hafi aðeins lagt fram ósk um rýmri umgengni. Kærandi skaut þessum ágreiningi til kærunefndar barnaverndarmála sem vísaði málinu til nýrrar meðferðar barnaverndarnefndar E og lagði fyrir nefndina að kveða upp úrskurð um umgengni kæranda við börn sín með úrskurði uppkveðnum 16. apríl 2012.

 

Barnaverndarnefnd E kvað í kjölfarið upp hinn kærða úrskurð um umgengni barnanna við föður sinn 29. maí 2012.

 

Í greinargerð F hjá Barnavernd E, dags. 21. maí 2012, kemur fram að frá því að málið hafi verið lagt fyrir fund barnaverndarnefndar í desember 2011 hafi börnin farið í umgengni til föður síns í tvígang. Hafi þau gist hjá honum eina nótt, fyrstu helgi febrúarmánaðar og tvær nætur fyrstu helgi aprílmánaðar. Að sögn fósturforeldra hafi umgengni gengið vel en börnin hafi verið afar þreytt eftir umgengnina hjá föður og eiginkonu hans og hafi sofið í 14 klukkustundir eftir umgengnina. Hafi þau tjáð fósturforeldrum sínum að þau vaki lengi fram eftir á kvöldin í umgengni hjá föður. Frá því málið var lagt fram síðast hafi starfsmenn heimsótt börnin til G. Þau hafi látið vel af sér. Í síðustu heimsókn starfsmanna hafi börnin verið nýbúin að vera í umgengni hjá föður síðan og hafi verið ánægð. Haldið hafi verið upp á afmæli þeirra.

 



III.

Afstaða kæranda

 

Af hálfu kæranda kemur fram að börnunum stafi engin hætta af neinu á sínu eigin heimili og að í raun séu engin skilyrði fyrir forsjásviptingu eða vistun barnanna utan heimilis. Lesa megi út úr hinum kærða úrskurði að börnin vilji vera hjá föður sínum, að öðrum kosti væri varla neinum erfiðleikum bundið að ná börnunum úr umgengni. Fram kemur að ekkert í máli þessu segi að aukin umgengni barnanna við föður sinn muni raska ró þeirra eða stefna hinum svokallaða stöðugleika í hættu. Börnunum stafi engin hætta af umgengni við föður sinn og það sé ekkert sem bendi til annars en að faðir barnanna bjóði upp á þroskavænlegar aðstæður fyrir börnin.

 

Gera verði þær kröfur til barnaverndarnefndar að hún taki mið af hverju máli fyrir sig á hverjum tíma fyrir sig. Í þessu máli virðist sem ávallt sé horft til þess ástands sem verið hafi er faðir barnanna hafi verið giftur móður barnanna, D, í stað þess að miða við núverandi stöðu aðila. Í dag sé kærandi kvæntur á ný og bendi ekkert til annars en að börnunum sé óhætt í umsjá föðurins og eiginkonu hans. Því sé ekkert sem bendi til þess að umgengni barnanna við þau sé andstæð hagsmunum barnanna.

 

Það sé heldur ekkert sem bendi til þess að börnin geti ekki rætt við föður og eiginkonu hans í síma. Bent er á að börnin hafi rætt við þau í síma yfir jólin og hafi þau haft gaman af því.

 

 

IV.

Afstaða fósturforeldra

 

Af hálfu fósturforeldra B og C kemur fram að í byrjun fóstursins í október 2010 hafi umgengni verið aðra hverja helgi. Sú helgi hafi skipst að hluta á milli foreldra og hafi umgengni byrjað og endað hjá föður og hafi þetta fyrirkomulag komið mjög illa niður á börnunum. Þau hafi komið þreytt, illa fyrirkölluð og í mjög miklu ójafnvægi úr umgengninni. Sérstaklega hafi B kviðið fyrir umgengninni. Síðar hafi fyrirkomulaginu verið breytt og börnin hafi dvalið frá föstudegi til sunnudags hjá foreldrum hvort sína helgina í mánuði. Þegar þau hafi vitað að þau ættu að fara í umgengni hafi þau breyst í háttum, B hafi farið að verða vælinn og kvíðinn og C hafi breyst úr kurteisu og glöðu barni í að vera dónaleg, með hroka og yfirgang. Börnunum hafi nær undantekningarlaust verið skilað allt of seint. Þau hafi oftast verið sofandi er þau komu úr umgengni og hafi verið vakin á hlaðinu hjá fósturforeldrunum, eða þau hafi komið þreytt og pirruð og í ójafnvægi. B hafi verið sem límdur við fósturmóður í þó nokkurn tíma á eftir. Yfirleitt hafi það tekið nokkra daga að koma börnunum í jafnvægi eftir umgengni hjá föður sínum.

 

Þegar fóstursamningur hafi verið framlengdur að ári liðnu hafi það verið eindregin ósk fósturforeldranna að umgengni yrði breytt. Kveða fósturforeldrar að sú breyting sem gerð var sé börnunum til góðs.

 

Fósturforeldrar segja að það valdi þeim áhyggjum hversu þreytt og útkeyrð börnin séu eftir umgengnina frá föður.

 

Þá kveða fósturforeldrar að það sé mat þeirra að fastir símatímar trufli börnin og séu þeim ekki til ánægju.

 

 

 

V.

Afstaða barnaverndarnefndar E

 

Af hálfu barnaverndarnefndar E kemur fram að fóstur barnanna hafi gengið vel og að þeim líði vel í fóstri og taki miklum framförum. Í ljósi þess að stefnt sé að því að börnin búi til frambúðar á núverandi fósturheimili telji barnaverndarnefnd E ekki forsendur fyrir því að umgengni verði rýmkuð með þeim hætti sem faðir hafi óskað eftir. Lögð sé áhersla á að börnin upplifi öryggi og ró á fósturheimilinu en þau hafi nú umgengni við móður sína eina helgi í mánuði, annan hvern mánuð og föður sinn eina helgi í mánuði, annan hvern mánuð. Reynslan hafi sýnt að umgengni barna í fóstri við kynforeldra raski í flestum tilfellum ró þeirra, jafnvel þótt sátt ríki um umgengnina. Meta verði umgengni með hliðsjón af hagsmunum barnanna og telji nefndin að rýmri umgengni en verið hafi geti raskað ró barnanna enn frekar og stefnt í hættu þeim stöðugleika sem reynt hafi verið að tryggja þeim á fósturheimilinu.

 

Það sé niðurstaða barnaverndarnefndar E að hæfilegt sé að umgengni verði með þeim hætti sem samningur við föður frá 14. október 2011 kveði á um, eða fyrstu helgi, annan hvern mánuð frá kl. 12.00 á laugardegi til kl. 16.00 á sunnudegi.

 

 

VI.

Niðurstaða

 

Mál þetta lýtur að kröfu föður um rýmri umgengni við tvö sex ára gömul börn sín en hinn kærði úrskurður kveður á um. Börnin eru vistuð hjá fósturforeldrum og hefur barnaverndarnefnd E falið borgarlögmanni að gera kröfu fyrir dómi um að foreldrar barnanna verði sviptir forsjá þeirra.

 

Börnin hófu grunnskólanám nú í haust. Þau hafa verið í fóstri frá því í september 2010, þar sem þau hafa náð góðu jafnvægi og tekið miklum framförum. Þau hafa aðlagast vel og fóstrið hefur gengið vel. Eins og að framan er rakið er umgengni barnanna við föður sinn annan hvern mánuð frá laugardegi til sunnudags. Umgengnin er því fremur rúm, þegar litið er til þess að um er að ræða fóstur sem ætlað er að vara til sjálfræðisaldurs barnanna, nái krafa barnaverndarnefndar E um forsjársviptingu foreldra þeirra fram að ganga. Það er mat kærunefndar barnaverndarmála að sú umgengni sem ákveðin hefur verið þjóni hagsmunum þeirra best og að meiri umgengni geti stefnt í hættu þeim stöðugleika sem að er stefnt í uppeldi þeirra og fóstri.

 

Með hliðsjón af framangreindu, gögnum málsins og með vísan til 74. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, er hinn kærði úrskurður barnaverndarnefndar E frá 29. maí 2012 staðfestur.

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Hinn kærði úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 29. maí 2012 um umgengni A við börn sín, B og C, er staðfestur.

 

 

 

Ingveldur Einarsdóttir, formaður

Gunnar Sandholt

Jón R. Kristinsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta