Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 516/2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 22. september 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 516/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17080036

Beiðni [...] og barna hennar um endurupptöku á úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 23. mars 2017

I. Málsatvik

Þann 23. mars 2017 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar frá 16. nóvember 2016 um að synja […], fd. […], ríkisborgara […], og börnum hennar, […] um alþjóðlega vernd hér á landi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar þann 3. apríl 2017 og þann 21. apríl 2017 barst greinargerð kæranda ásamt læknisvottorð frá Landspítalanum, dags. 11. apríl 2017. Þann 7. júlí 2017 barst kærunefndinni með tölvupósti álit sálfræðings, dags. 2. júlí 2017. Þann 31. júlí 2017 leiðbeindi kærunefnd kæranda um að þau gögn sem hefðu borist nefndinni hafi ekki legið fyrir þegar úrskurður í máli kæranda hafi verið kveðinn upp og að fyrir hendi kynnu að vera aðstæður sem gætu verið grundvöllur endurupptöku málsins, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði hennar og barna hennar barst kærunefnd þann 3. ágúst 2017 og barst kærunefnd greinargerð aðila þann 28. ágúst 2017. Frekari skýringar frá kæranda bárust kærunefnd með tölvupósti þann 31. ágúst 2017.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hennar og barna hennar er byggð á 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem aðstæður kæranda og barna hennar hafi breyst verulega frá því að úrskurðað var í máli þeirra. Við mat á aðstæðum kæranda við ákvörðunartöku í máli hennar hafi ekki verið tekið nægjanlegt tillit til […] hennar, en kærandi hafi verið […] þann 1. apríl sl.

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku m.a. á því að hún hafi verið […].

Í ljósi alls framangreinds telji kærandi tilefni til þess að mál hennar og fjölskyldu hennar verði tekið upp að nýju og að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem íþyngjandi ákvörðun hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því ákvörðun var tekin. Er því farið fram á að mál kæranda og barna hennar verði tekið upp að nýju og að þeim verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. útlendingalaga.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Um endurupptöku stjórnsýslumáls

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Í 2. mgr. 24. gr. sömu laga kemur fram að mál verði ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Kærandi byggir beiðni um endurupptöku á því að úrskurður í máli hennar hafi verið byggður á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun hafi verið tekin og er í því sambandi vísað til […] kæranda. Kærandi hefur jafnframt lagt fram ný gögn í málinu. Í […].

Í ljósi þessara nýju upplýsinga sem fram hafa komið frá því að úrskurður kærunefndar var kveðinn upp þann 23. mars sl. er það mat nefndarinnar, þegar litið er heildstætt á málsatvik og þær upplýsingar sem lágu fyrir þegar upphaflegur úrskurður féll í máli kæranda, að líta verði svo á að atvik málsins hafi breyst verulega. Kærunefnd fellst því á beiðni kæranda um endurupptöku málsins á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Ákvæði 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Til viðbótar við skýrslur sem vitnað var til í úrskurði kærunefndar útlendingamála frá 23. mars 2017 hefur kærunefnd lagt mat á aðstæður í […] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

Í ofangreindum gögnum kemur m.a. fram að þrátt fyrir að […] stjórnvöld séu treg til að veita […] í landinu fjármagn þá sé hún til staðar. […] . Þrátt fyrir að það hafi færst í aukana að einstaklingar með […] leiti sér aðstoðar á sjúkrastofnunum þá sé algengt að slíkir einstaklingar séu vistaðir, að ósk fjölskyldumeðlima, á […]. Mikil þörf hafi verið á eftirliti stjórnvalda með […] í landinu og þá aðallega þeirri aðstöðu sem veikum einstaklingum hafi verið boðin upp á á þessum […] sem sé að finna víðast hvar í landinu. Árið 2012 hafi lög um […] verið samþykkt, sem geri ráð fyrir því að ríkisstjórn […] setji upp svæðisbundnar […] sem beri ábyrgð á eftirliti með […] í landinu. Í […] séu starfsrækt þrjú stór […] sem taki við einstaklingum með […]. Einnig séu til bæði einkarekin og ríkisrekin sjúkrahús með […] þar sem einstaklingar með […] geti leitað sér aðstoðar. Þrátt fyrir einhverja bið og tiltekinn lágmarkskostnað þá sé þjónustan í boði fyrir þá sem óski eftir meðferð við veikindum sínum. Lyf séu almennt fáanleg í höfuðborgum og á þéttbýlissvæðum erfiðara geti þó verið að nálgast lyf á dreifbýlli svæðum. Þá kemur fram í gögnum sem kærunefnd hefur skoðað að heilbrigðisþjónustan hafi veitt einstaklingum nauðsynleg […] og að dagsskammtur af ódýru […] kosti um 30% af daglegum lágmarkslaunum.

Í úrskurði kærunefndar útlendingamála í máli kæranda og barna hennar frá 23. mars 2017 byggði kærandi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hún og fjölskylda hennar búi við afar bágar efnahagslegar aðstæður í […] og fái ekki aðstoð frá stjórnvöldum. Að mati kærunefndar hafa þau gögn sem kærandi hefur lagt fram hjá kærunefnd varðandi […] sín, og skýrslur sem gefnar hafa verið út frá því að úrskurður kærunefndar frá 23. mars sl. var kveðinn upp, ekki breytt fyrra mati kærunefndar á þeim þáttum sem máli skipta vegna umsóknar um alþjóðlega vernd. Kærunefnd telur því að kærandi og börn hennar hafi ekki ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Við þetta mat hefur kærunefnd, í samræmi við 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, litið sérstaklega til hagsmuna barna kæranda og telur að öryggi þeirra, velferð og félagslegum þroska sé ekki búin hætta fylgi þau móður sinni til heimaríkis.

Þá er ekkert fram komið í málinu og þeim gögnum sem liggja fyrir um heimaríki kæranda sem bendir til þess að aðstæður kæranda og barna hennar þar falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016.

Telur kærunefndin því ljóst að kærandi og börn hennar uppfylli ekki skilyrði 1. og 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga nr. 80/2016 fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við 74. gr. frumvarps til laga um útlendinga kemur fram að í samræmi við ákvæði alþjóðlegra skuldbindinga og almennra laga sé lagt til að tekið sé sérstakt tillit til barna, hvort sem um er að ræða fylgdarlaus börn eða önnur börn. Í því ljósi og með hliðsjón af meginreglunni um að það sem barni er fyrir bestu skuli hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess, sbr. jafnframt 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga nr. 80/2016, telur kærunefnd að við mat á því hvort skilyrði 1. mgr. 74. gr. laganna séu fyrir hendi skuli taka sérstakt tillit til þess ef um barn er að ræða og skuli það sem er barni fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimalandi viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimalandinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Almennt er viðurkennt að bið umsækjenda um alþjóðlega vernd eftir niðurstöðu mála sinna geti reynst mörgum mjög erfið. Ef niðurstaðan er neikvæð og einstaklingi er gert að snúa aftur til heimaríkis kann álag vegna yfirvofandi brottflutnings að valda kvíða, þunglyndi eða annars konar andlegum kvillum. Ljóst er að þær miklu breytingar sem felast í þvinguðum brottflutningi leiða til þess að einstaklingar í þessari stöðu eru örvæntingarfullir og fyllast jafnvel vonleysi. Gögn málsins gefa til kynna að […] kæranda tengist fyrst og fremst synjun stjórnvalda á umsókn hennar um alþjóðlega vernd hér á landi og fyrirhuguðum brottflutningi. Þá benda gögn málsins ekki til þess að kærandi hafi fyrri […].

Kærunefnd óskaði eftir nýjum upplýsingum um heilsufar kæranda með tölvupósti dags. 28. ágúst sl., en læknisvottorð kæranda er barst með beiðni kæranda er frá 11. apríl 2017 eða tæplega fimm mánaða gamalt. Þann 31. ágúst 2017 barst kærunefnd tölvupóstur þess efnis að kærandi hyggist ekki skila inn frekari gögnum í málinu. Verður kærunefnd því að meta stöðu kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna og í ljósi orðalags ákvæðis 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, þar sem fram kemur að umsækjandi þurfi að sýna fram á ríka þörf á vernd. Samkvæmt framansögðu er það mat kærunefndar að gögn málsins beri það ekki með sér að kærandi sé í yfirvofandi […] og er þá m.a. litið til þess að samkvæmt gögnunum dvelur hún á heimili fjölskyldunnar og hefur mætt […] með um tveggja mánaða millibili. Þá er ljóst af ofangreindum gögnum að kæranda stendur til boða […] í […] vegna […] hennar, reynist þau fyrir hendi eftir heimkomu. Samkvæmt framansögðu er það mat kærunefndar að aðstæður kæranda nái ekki því alvarleikastigi að til greina komi að veita henni dvalarleyfi samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga á þeim grundvelli.

Þann […] fæddist kæranda sonur. Af gögnum sem liggja fyrir í málinu, þar sem kærandi hafi verið barnshafandi og verið í […], má ráða að hæfni hennar til að sjá um börnin sé háð takmörkunum vegna […]. Með vísan til þess að kærandi sé gift heilsuhraustum manni sem geti aðstoðað hana við uppeldi barna þeirra og að […] sé til staðar í […] er það mat kærunefndar að þær aðstæður sem bíða fjölskyldunnar í heimaríki nái ekki því alvarleikastigi að sýnt hafi verið fram á að börn hennar hafi ríka þörf á vernd hér á landi. Við þetta mat hefur kærunefnd litið til öryggis barna kæranda, velferðar þeirra og félagslegs þroska.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild, með hliðsjón af aðstæðum kæranda og barna hennar í heimaríki, er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að kærandi og börn hennar teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því telur kærunefnd, að teknu tilliti til hagsmuna barnanna, að aðstæður þeirra í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda og börnum hennar dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærunefnd telur með vísan til atvika máls að rétt sé að vísa kæranda frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Með vísan til atvika málsins og 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd rétt að veita kæranda og börnum hennar 15 daga frest til að yfirgefa landið.

Samantekt

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fallast á beiðni kæranda og barna hennar um endurupptöku málsins. Niðurstaða kærunefndar er að staðfesta beri ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kæranda og barna hennar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Úrskurðarorð

Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hennar og barna hennar.

Ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kæranda og barna hennar er varða umsóknir um alþjóðlega vernd, dvalarleyfi og frávísun eru staðfestar. Lagt er fyrir kæranda og börn hennar að hverfa af landi brott innan 30 daga frá birtingu þessa úrskurðar.

The appellant’s request for re-examination of her and her children’s case is granted.

The decisions of the Directorate of Immigration in the cases of the appellant and her children regarding the application for international protection, residence permit on humanitarian grounds and denial of entry are affirmed. The appellant and her children shall leave Iceland within 30 days of the notification of this decision.

Hjörtur Bragi Sverrisson

Pétur Dam Leifsson Anna Tryggvadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta