Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 525/2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 28. september 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 525/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17080021

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 15. ágúst 2017 kærði, [...], f.d. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 27. júlí 2017, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Frakklands.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar með vísan til í 1. mgr. 36 gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. einnig 2. mgr. 36. gr. sömu laga. Til vara krefst kærandi þess að Útlendingastofnun verði gert að taka mál hans til meðferðar að nýju með vísun til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 17. júní 2017. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann sama dag, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Frakklandi. Þann 23. júní 2017 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Frakklandi, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Þann 4. júlí 2017 barst svar frá frönskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 27. júlí 2017 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Frakklands. Kærandi kærði ákvörðunina þann 15. ágúst 2017 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 25. ágúst 2017.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Frakklands. Lagt var til grundvallar að Frakkland virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Frakklands ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat stofnunarinnar að sérstakar aðstæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga væru ekki til staðar í málinu. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Frakklands, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinagerð kæranda kemur fram að hann hafi, í viðtali hjá Útlendingastofnun, greint frá því að hann vilji ekki fara aftur til Frakklands. Kærandi kveðst hafa verið í rúmlega fjóra mánuði í Frakklandi þar sem aðstæður hans verið erfiðar, hann hafi sofið á götunni og ekki fengið fjárhagslega aðstoð. Kærandi hafi haft aðgang að heilbrigðiskerfinu en ekki fengið lögfræðiaðstoð. Kærandi eigi við vandamál að stríða í heimaríki sínu, [...], þar sem bróðir hans hafi sært annan mann. Þá sé kærandi hræddur í Frakklandi þar sem hann hafi fengið hótanir í gegnum síma þegar hann dvaldi þar vegna framangreindra vandræða bróður hans. Þá sé af hálfu kæranda gerð athugasemd við framkvæmd og efni viðtals kæranda hjá Útlendingastofnun þar sem engar spurningar hafi varðað ástæður flótta hans frá heimaríki. Í ljósi þess að samþykki franskra stjórnvalda sé á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar telji talsmaður kæranda vinnubrögð Útlendingastofnunar ekki vera í samræmi við rannsóknarreglu íslenskra stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að þessu leyti.

Aðalkrafa kæranda er sú að mál hans verði tekið til efnislegrar meðferðar hér á landi þar sem sérstakar ástæður mæli með því sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í greinargerð er í því sambandi fjallað um aðstæður og réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd í Frakklandi. Meðal annars kemur fram að álag á hæliskerfi Frakklands sé mikið. Vegna mikils fjölda einstaklinga sem sæki þar um vernd séu búsetuúrræðin ófullnægjandi, stjórnvöld geti ekki séð öllum fyrir húsnæði og hafist margir við í ólöglegum flóttamannabúðum. Þá eigi umsækjendur um alþjóðlega vernd erfitt með að komast inn í kerfið í Frakklandi og sé þeim mismunað eftir búsetu þegar kemur að aðstoð við framlagningu umsóknar um alþjóðlega vernd og lögfræðiaðstoð á fyrsta stjórnsýslustigi. Nýleg skýrsla frjálsra félagasamtaka greini frá miklu lögregluofbeldi í garð umsækjenda um alþjóðlega vernd, slæmum aðstæðum þeirra og hörðum lífsskilyrðum. Þá búi innflytjendur í Frakklandi við mismunun og ofbeldi sökum uppruna síns. Fordómar í garð múslima hafi aukist í kjölfar nýlegra hryðjuverkaárása auk þess sem skipun svartrar konu sem dómsmálaráðherra ríkisins hafi vakið upp hörð viðbrögð ákveðinna hópa í samfélaginu.

Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld út gildi og að útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda.

Fyrir liggur í máli þessu að frönsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Frakklands er byggt á því að kærandi hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd þar í landi. Eru skilyrði c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga uppfyllt.

Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á því hvort senda eigi umsækjanda um alþjóðlega vernd til ríkis, sem hefur samþykkt að taka við honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, ber stjórnvöldum að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður þar brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem kveður á um að enginn maður skuli sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið lagt til grundvallar að sú meðferð, sem einstaklingur eigi von á, verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til þess að falla undir 3. gr. sáttmálans. Við það mat verði að horfa til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar og í einhverjum tilvikum kyns, aldurs og heilsufars viðkomandi. Þá ber stjórnvöldum að leggja mat á hvort málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd tryggi umsækjendum raunhæfa leið til að ná fram rétti sínum, sbr. 13. gr. sáttmálans. Í samræmi við framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu skal mat á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd og móttöku og aðbúnaði umsækjenda í viðtökuríki taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum í hverju máli.

Kærandi er ungur karlmaður sem kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun vera við góða líkamlega og andlega heilsu. Það er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga sem taka þurfi tillit til við meðferð málsins.

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Frakklandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

· Asylum Information Database, Country Report – France (European Council on Refugees and Exiles, febrúar 2017),

· Guide for Asylum Seekers in France (Ministry of the Interior, General Directorate for Foreign Nationals in France, 1. nóvember 2015),

· France 2016 Human Rights Report (United States Department of State, 3. mars 2017),

· Dublin II Regulation & Asylum in France – Guide for Asylum Seekers – 2012 (Forum réfugiés, European Refugee Fund, 2012),

· Amnesty International Report 2016/17 – France (Amnesty International, 21. febrúar 2017),

· Freedom in the World 2016 – France (Freedom House, 15. apríl 2017),

· First Steps for Demanding Asylum (Dom‘Asile, nóvember 2015),

· Report of Human Rights Commissioner of the Council of Europe following his visit to France from 22 to 26 september 2014 (Commissioner for Human Rights, Council of Europe, 17. febrúar 2015).

Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd í Frakklandi má ráða að umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga rétt á viðtali áður en ákvörðun er tekin í máli þeirra hjá frönsku útlendingastofnuninni (f. Office Français sur l’Immigration et l’Intégration). Umsækjendur sem fengið hafa synjun á umsókn sinni geta kært niðurstöðuna til stjórnsýsludómstóls (f. Cour nationale du droit d’asile). Þeir umsækjendur sem fengið hafa neikvæða niðurstöðu í máli sínu eiga jafnframt möguleika á því að leggja fram viðbótarumsókn um alþjóðlega vernd. Ef nýjar upplýsingar eða gögn liggja fyrir í máli kæranda geta skilyrði viðbótarumsóknar verið uppfyllt. Þá eiga umsækjendur þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á umsókn um alþjóðlega vernd hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem brýtur í bága við ákvæði mannréttindasáttmálans.

Kærandi kveðst m.a. ekki hafa fengið lögfræðiþjónustu í Frakklandi. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér er ljóst að frönsk stjórnvöld uppfylla skyldur sínar varðandi lögfræðiaðstoð við umsækjendur um alþjóðlega vernd skv. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 32/2013 um málsmeðferð við veitingu og afturköllun alþjóðlegrar verndar, sbr. 19. og 20. gr. hennar.

[...] er á lista franskra stjórnvalda yfir örugg upprunaríki (e. safe country of origin). Mál umsækjenda um alþjóðlega vernd sem eru ríkisborgarar öruggra upprunaríkja kunna að sæta flýtimeðferð í Frakklandi. Í flýtimeðferð felst að málsmeðferðin eigi að taka um 15 daga en í raun er hann þó almennt töluvert lengri. Árið 2015 var meðalmálsferðartíminn 97 dagar. Reglur varðandi einstaklingsviðtöl, kærurétt og lögfræðiaðstoð eru áþekkar þeim sem gilda í hefðbundinni málsmeðferð.

Gögn málsins benda til þess að umsækjendur um alþjóðlega vernd í Frakklandi eigi möguleika á því að fá annaðhvort húsaskjól í hefðbundnum móttökumiðsstöðvum eða í tímabundnum gistiskýlum á vegum stjórnvalda á meðan þeir eru á biðlista eftir plássi í móttökumiðstöð. Í fyrrgreindum skýrslum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður og aðbúnað umsækjenda í Frakklandi kemur fram að umsækjendum um alþjóðlega vernd þar í landi er tryggður aðgangur að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu í frönskum lögum, sbr. m.a. skýrsla Asylum Information Database, Country Report: France (European Council on Refugees and Exiles, 31. desember 2016). Þá fer í öllum tilvikum fram mat á því hvort umsækjandi teljist vera einstaklingur í viðkvæmri stöðu.

Kærandi hefur einnig greint frá því að hann sé hræddur við að vera í Frakklandi vegna þess að hann hafi fengið hótanir í síma vegna vandamála hans í heimaríki. Kærunefnd skilur áhyggjur kæranda fyrst og fremst þannig að hann óttist að vera sendur til heimaríkis þar sem hann kunni að vera í hættu. Að mati kærunefndar bera gögn málsins það með sér að í Frakklandi sé almennt veitt fullnægjandi vernd gegn brottvísun umsækjenda um alþjóðlega vernd til landa þar sem einstaklingar eiga á hættu að verða fyrir ofsóknum og lífi þeirra og frelsi ógnað. Er þá sérstaklega litið til þess að þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér benda eindregið til þess að málsmeðferð franskra yfirvalda sé fullnægjandi og veiti umsækjendum um alþjóðlega vernd viðunandi úrræði til að tryggja að réttur sé ekki á þeim brotinn og að einstaklingsbundið mat verði lagt á aðstæður þeirra. Þá er Frakkland bundið að þjóðarétti til að fylgja reglunni um að mönnum skuli ekki vísað brott þangað sem líf þeirra eða frelsi kann að vera í hættu (non-refoulement). Telji kærandi framangreind réttindi sín vera brotin getur hann leitað réttar síns fyrir frönskum dómstólum og Mannréttindadómstól Evrópu. Þá er það mat kærunefndar, af gögnum málsins, að kærandi geti leitað sér verndar franskra stjórnvalda óttist hann að á honum verði brotið þar í landi.

Athugun kærunefndar á aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd í Frakklandi hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði þeirra þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending kæranda þangað brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá benda öll gögn til þess að kæranda séu tryggð úrræði til að leita réttar síns í Frakklandi bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Ennfremur er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til Frakklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það jafnframt mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 13. júlí 2017 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 17. júní 2017.

Í máli þessu hafa frönsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Frakklands með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við meðferð umsóknar um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun tryggja, eins fljótt og kostur er, að fram fari, með aðstoð viðeigandi sérfræðinga, einstaklingsbundin greining á því hvort umsækjandi teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. jafnframt 6. tölul. 3. gr. sömu laga. Áður en Útlendingastofnun tekur ákvörðun í máli sem varðar umsókn um alþjóðlega vernd þarf því að liggja fyrir mat um það hvort einstaklingur sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga. Þótt mat á því hvort einstaklingur sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga, sé ekki hið sama og hvort fyrir hendi séu sérstakar ástæður, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, kann mat á þessum þáttum að einhverju leyti að vera byggt á sömu upplýsingum eða gögnum. Mat á því hvort umsækjandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu er því eitt af þeim meginsjónarmiðum sem koma til skoðunar við mat á því hvort sérstakar ástæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga séu fyrir hendi í máli.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var það niðurstaða stofnunarinnar að ekki væru uppi sérstakar ástæður í máli kæranda, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í hinni kærðu ákvörðun er hins vegar ekki að finna umfjöllun um mat á því hvort kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu skv. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd telur að skort hafi á að gerð væri grein fyrir einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda í rökstuðningi ákvörðunarinnar, þ.m.t. hvort kærandi væri einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Kærunefnd telur því að í rökstuðningi ákvörðunarinnar hafi hvorki verið gerð grein fyrir þeim meginsjónarmiðum sem voru ráðandi við mat á því hvort sérstakar ástæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga væru fyrir hendi í málinu né málsatvikum sem höfðu verulega þýðingu fyrir úrlausn þess. Kærunefnd gerir athugasemdir við þessa framkvæmd Útlendingastofnunar og telur að rökstuðningur stofnunarinnar í málinu hafi ekki verið í samræmi við 1. og 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Meginmarkmið með stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Eins og að framan greinir telur kærunefnd að annmarkar hafi verið á rökstuðningi ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda. Í ljósi niðurstöðu kærunefndar í máli kæranda telur kærunefnd ljóst að framangreindir annmarkar á rökstuðningi ákvörðunarinnar hafi ekki haft áhrif á efnislega niðurstöðu ákvörðunar Útlendingastofnunar. Með hliðsjón af því telur kærunefnd að þessi ágalli sé ekki svo verulegur að fella beri ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi.

Vegna athugasemdar í greinargerð kæranda varðandi rannsókn málsins tekur kærunefnd fram að rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Við töku ákvörðunar í máli kæranda hjá Útlendingastofnun byggði stofnunin niðurstöðu sína á gögnum sem aflað var við rekstur málsins og nýjustu tiltæku skýrslum um aðstæður og aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd í Frakklandi. Kærunefndin fær ekki séð að skort hafi á rannsókn máls kæranda hjá Útlendingastofnun og getur því ekki fallist á það með kæranda að stofnunin hafi brugðist rannsóknarskyldu sinni samkvæmt stjórnsýslulögum og lögum um útlendinga. Kærunefnd hefur farið yfir hina kærðu ákvörðun og málsmeðferð stofnunarinnar og telur ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við hana, að öðru leyti en hér hefur komið fram. Það er því mat kærunefndar að málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli kæranda hafi að þessu leyti verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga. Varakröfu kæranda er því hafnað.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.


Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Hjörtur Bragi Sverrisson

Anna Tryggvadóttir Pétur Dam Leifsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta