Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 574/2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 19. október 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 574/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17090057

Beiðni […] og barns hennar um endurupptöku

I. Málsatvik

Þann 15. júní 2017 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvarðanir Útlendingastofnunar frá 24. mars 2017 um að synja umsóknum […], fd. […], ríkisborgara […] (hér eftir nefnd kærandi), og barni hennar, […], fd. […], um alþjóðlega vernd hér á landi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 19. júní 2017. Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar þann 20. júní 2017. Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa var synjað af kærunefnd þann 30. júní 2017. Þann 25. júlí 2017 óskaði kærandi eftir endurupptöku málsins. Með úrskurði kærunefndar, dags. 24. ágúst 2017, var kröfu kæranda um endurupptöku á máli hennar og barns hennar hafnað.

Þann 29. september 2017 óskaði kærandi að nýju eftir endurupptöku málsins.

II. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á ákvæði II til bráðabirgða í lögum um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Í endurupptökubeiðni kæranda er m.a. að finna umfjöllun um ákvæðið og bent á að í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 81/2017 segi um ákvæðið að það sé almennt eðlilegt að veita foreldrum sem fara með forsjá barnsins, og eftir atvikum systkinum, dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. útlendingalaga til að tryggja einingu fjölskyldunnar, að uppfylltum öðrum skilyrðum. Í því sambandi vísar kærandi í úrskurð kærunefndar útlendingamála nr. 483/2017. Með vísan til ummæla í greinargerð og þessa úrskurðar kærunefndar sé þess óskað að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli sjónarmiða um fjölskyldueiningu.

Kærandi telur að ljóst sé af gögnum málsins að kærandi og barn hennar uppfylli öll skilyrði í stafliðum a- til d-liðar í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Afrit af vegabréfum kæranda og barns hennar liggi fyrir í gögnum málsins og því óumdeilt hverjar þær séu. Kærandi bendir á að við mat á því hvort skilyrði 2. mgr. 74. gr. fyrir veitingu dvalarleyfis séu uppfyllt, um að tekin hafi verið skýrsla af umsækjanda um alþjóðlega vernd og að viðkomandi hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls, verði að hafa hliðsjón af ungum aldri barnsins. Skýrslur hafi verið teknar af foreldrum barnsins við meðferð málsins hjá stjórnvöldum.

Kærandi fer því fram á að mál kæranda og barns hennar verði tekið upp að nýju og að þeim verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. útlendingalaga.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku m.a. á því að hún og dóttir hennar uppfylli skilyrði nýsamþykktra laga nr. 81/2017 um lög um breytingu á lögum um útlendinga.

Í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur m.a. fram að veita megi útlendingi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ef hann getur sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum, vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða almennra aðstæðna í heimaríki. Í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur fram að útlendingur sem sótt hefur um alþjóðlega vernd hér á landi en ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustígi innan 18 mánaða skuli veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þá segir í ákvæðinu að því verði ekki beitt nema skorið hafi verið úr því að útlendingur uppfylli ekki skilyrði 37. og 39. gr. laga um útlendinga.

Þann 29. september 2017 tóku gildi lög nr. 81/2017 sem bættu tveimur ákvæðum til bráðabirgða við lög um útlendinga nr. 80/2016. Í ákvæði II til bráðabirgða segir að þrátt fyrir 1. máls. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga skuli miða við 15 mánuði í stað 18 mánaða ef um barn sé að ræða og umsókn þess um alþjóðlega vernd hafi fyrst borist íslenskum stjórnvöldum fyrir gildistöku laga þessara, enda hafi umsækjandi ekki þegar yfirgefið landið.

Í ákvæði II til bráðabirgða kemur jafnframt fram að umsækjandi sem öðlast rétt samkvæmt ákvæði þessu geti innan fjórtán daga frá gildistöku laga þessara farið fram á endurupptöku á úrskurði kærunefndar útlendingamála um að umsókn skuli synjað. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því er varð að lögunum segir að með ákvæðinu sé börnum, sem þegar hafa sótt um alþjóðlega vernd hérlendis en fengið synjun með úrskurði kærunefndar útlendingamála, tryggður réttur til endurupptöku á málum sínum. Að mati kærunefndar leiðir af ákvæðinu að umræddar lagabreytingar geti verið sjálfstæður grundvöllur endurupptöku í þeim tilvikum þegar umsækjandi hefur ekki þegar yfirgefið landið og öðlast rétt samkvæmt ákvæðinu.

Kærandi og barn hennar lögðu fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 25. febrúar 2016. Niðurstaða kærunefndar var að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. mars 2017, um að synja þeim um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Úrskurður kærunefndar var birtur þeim þann 19. júní 2017. Í tengslum við þá endurupptökubeiðni sem hér er til umfjöllunar hafa ekki komið fram röksemdir eða gögn sem raska niðurstöðu um alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla í fyrri úrskurði nefndarinnar.

Þegar ofangreindur úrskurður kærunefndar var birtur hafði mál kæranda og barns hennar verið í málsmeðferð hjá stjórnvöldum í tæpa 16 mánuði. Barn kæranda telst því ekki hafa fengið niðurstöðu í mál sitt innan þeirra tímamarka sem getið er í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, sbr. ákvæði II til bráðabirgða við lögin. Beiðni um endurupptöku á grundvelli bráðabirgðaákvæðisins barst kærunefndinni þann 29. september 2017. Breytingalögin voru birt í stjórnartíðindum þann sama dag. Því er ljóst að beiðni um endurupptöku barst kærunefnd innan 14 daga frá gildistöku laganna. Samkvæmt framansögðu öðlast barn kæranda rétt samkvæmt ákvæðinu. Skilyrði endurupptöku á máli barns kæranda eru því fyrir hendi, enda hafa kærandi og barn hennar ekki yfirgefið landið.

Með vísan til meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar verður mál kæranda jafnframt endurupptekið.

Samkvæmt a-lið 2. mgr. 74. gr. verður dvalarleyfi samkvæmt 2. mgr. ekki veitt nema skýrsla hafi verið tekin af umsækjanda um alþjóðlega vernd. Þá er ljóst að undanþáguheimild 4. mgr. 74. gr. laga um útlendinga nær aðeins til skilyrða 3. mgr. en ekki skilyrða 2. mgr. 74. gr. Nefndin telur þó engu að síður að rétt sé að túlka skilyrði a-liðar 2. mgr. í samræmi við 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga sem mælir fyrir um að barni sem myndað getur eigin skoðanir skal tryggður réttur til að tjá sig í máli sem það varðar og að tillit skuli tekið til skoðana þess í samræmi við aldur og þroska. Að mati kærunefndar er […] það ung að árum að ekki sé raunhæft að ætla að hún hafi myndað sér skoðun sem þýðingu gæti haft í þessu máli. Af þeim sökum er óraunhæft að ætlast til að tekin hafi verið skýrsla af henni. Nefndin telur því með vísan til framangreinds að ákvæði a-liðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir því að […] sé veitt dvalarleyfi á grundvelli málsgreinarinnar. Að mati kærunefndar uppfyllir barn kæranda því skilyrði a- til d-liðar 2. mgr. 74. gr. útlendingalaga. Það er enn fremur mat kærunefndar að ekkert hafi komið fram í málinu sem gefi til kynna að ákvæði 2. mgr. 74. gr. gildi ekki um barn kæranda af ástæðum sem raktar eru í a- til d-lið 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Með vísan til athugasemda með frumvarpi því er varð að lögum nr. 81/2017 um breytingu á lögum um útlendinga verður barni kæranda veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar og með vísan til athugasemda með framangreindu frumvarpi verður kæranda einnig veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndarinnar að veita beri kæranda og barni hennar dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Úrskurðarorð

Fallist er á beiðni kæranda og barns hennar um endurupptöku á máli þeirra.

Lagt er fyrir stofnunina að veita kæranda og barni hennar dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Ákvarðanir Útlendingastofnunar í máli kæranda og barns hennar varðandi umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla eru staðfestar.

The appellant‘s and her child’s request for re-examination of their cases is granted.

The Directorate is instructed to issue residence permits for the appellant and her child based on Article 74 of the Act on Foreigners. The decisions of the Directorate of Immigration in the cases of the appellant and her child related to their applications for international protection and residence permit on the grounds of special connection with Iceland are affirmed.

Hjörtur Bragi Sverrisson

Þorbjörg Inga Jónsdóttir Pétur Dam Leifsson



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta