Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 20/2014

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

 

Úrskurður er kveðinn upp þriðjudaginn 31. mars 2015 í máli kærunefndar barnaverndarmála nr. 20/2014: A gegn barnaverndarnefnd Reykjavíkur vegna barna kæranda, B og C. Á fundi kærunefndarinnar 4. mars síðast­liðinn var ákveðið að formaður nefndarinnar skyldi fara einn með málið og kveða upp úrskurð í því samkvæmt 2. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Kærð er ákvörðun barnaverndarnefndar Reykjavíkur, sbr. bréf 18. nóvember 2014, um styrk til að greiða fyrir lögmannskostnað vegna aðstoðar D hdl. við kæranda í barnaverndarmáli.

Kveðinn var upp svohljóðandi

             

Ú R S K U R Ð U R


I. Málavextir og kröfugerð

Mál þetta varðar ágreining um greiðslu lögmannskostnaðar í tengslum við barnaverndarmál A, vegna tveggja barna hennar, B, og C. Faðir barnanna er E en hann og kærandi voru í sambúð en slitu samvistum árið 2011. Börnin lúta forsjár beggja foreldra sinna en eiga lögheimili hjá kæranda.

Barnaverndarmálið sem hér um ræðir var tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur 14. október 2014. Var það gert í tilefni af því að með bréfi barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar 21. júlí sama ár var tilkynnt að börn kæranda, B og C, hefðu ásamt kæranda flutt úr F til Reykjavíkur en málefni barnanna hefði verið til meðferðar hjá barnaverndarnefndinni frá því í október 2012. Kærandi hefði í maí 2014 flutt lögheimili sitt og barnanna til Reykjavíkur. Í samræmi við það og 15. gr. barnaverndarlaga verði málið flutt til Reykjavíkur til áframhaldandi meðferðar.

Í greinargerð starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur 8. október 2014 kemur fram að mál barnanna hafi verið flutt frá Barnavernd F, þar sem það hafi verið til vinnslu frá árinu 2012, til Barnaverndar Reykjavíkur í júlí 2014. Þar áður hafi málið verið unnið í G og H frá árinu 2008. Ástæður barnaverndarafskiptanna hafi verið þær að alvarlegar áhyggjur hafi verið af uppeldisaðstæðum þeirra og hafi börnin m.a. verið vistuð utan heimilis frá vori 2013, ýmist með eða án samþykkis kæranda. Barnaverndarnefnd F hafi úrskurðað 30. maí 2014 um áframhaldandi vistun barnanna utan heimilis til tveggja mánaða og falið starfsmönnum sínum að gera kröfu fyrir Héraðsdómi G um að kærandi yrði svipt forsjá barnanna en faðir þeirra hafi verið samþykkur varanlegu fóstri. Kærandi hafi kært úrskurð barnaverndarnefndarinnar til Héraðsdóms G og hafi dómstóllinn komist að þeirri niðurstöðu með úrskurði [...] 2014 að þar sem kærandi hefði flutt lögheimili sitt til Reykjavíkur hefði barnaverndarnefnd F ekki haft heimild til að úrskurða í málinu. Úrskurður nefndarinnar um tveggja mánaða vistun barnanna hafi því verið felldur úr gildi.

Í áður tilvitnaðri greinargerð Barnaverndar Reykjavíkur kemur einnig fram að starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur hafi í kjölfar flutnings málsins til Reykjavíkur talið mikilvægt að halda vinnslu þess áfram og kanna hvort kærandi og stjúpfaðir barnanna, I, byggju yfir nægilegri getu til þess að tryggja aðstæður og velferð barnanna í hvívetna. Í greinargerðinni er lagt  til að gerð verði meðferðaráætlun samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga með móður og stjúpföður þar sem fram komi að þau undirgangist forsjárhæfnismat og fari í greiningar- og leiðbeiningarvistun á Vistheimili barna með börnin. Einnig var lagt til að líðan og staða barnanna verði skoðuð af sálfræðingi. Verði kærandi og stjúpfaðir ekki til samvinnu um þessar tillögur er lagt til að úrskurðað verði um vistun barnanna utan heimilis samkvæmt 27. gr. barnaverndarlaga á meðan þess verði freistað að þau undirgangist forsjárhæfnismat.

Greinargerðin var lögð fyrir framangreindan fund barnaverndarnefndar Reykjavíkur 14. október 2014. Í fundargerð barnaverndarnefndarinnar kemur fram að nefndin telji mikilvægt að vinnslu málsins verði haldið áfram. Þar er því enn fremur lýst að kærandi hafi verið tilbúin að þiggja Greiningu og ráðgjöf heim ásamt því að þiggja sálfræðiaðstoð fyrir sig og börn sín. Barnaverndarnefndin fól starfsmönnum sínum að gera áætlun um meðferð málsins í samvinnu við móður samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga til tveggja mánaða um fyrrgreint. Þá verði áfram fylgst með börnunum í gegnum skóla.

Í gögnum málsins kemur fram að ekki hafi náðst samvinna við kæranda um vinnslu málsins og kvað barnaverndarnefnd Reykjavíkur upp úrskurð um tveggja mánaða vistun barnanna 9. desember 2014 en ekki hafi tekist að framfylgja þeim úrskurði.

Kæra D hdl., fyrir hönd A, er dagsett 17. desember 2014 og var móttekin hjá kærunefnd barnaverndarmála samdægurs. Þar er kærð ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur frá 18. nóvember 2014 varðandi greiðslu styrks fyrir lögmannsaðstoð samkvæmt 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Hin kærða ákvörðun var í samræmi við reglurnar tekin í umboði barnaverndarnefndarinnar þar semeftirfarandi kemur fram:

Barnavernd Reykjavíkur hefur borist bréf lögmannsstofunnar dags. 26. október 2014 þar sem óskað er eftir styrk til greiðslu lögmannsaðstoðar f.h. umbjóðanda stofunnar, A. Um er að ræða vinnuframlag lögmanns vegna vinnu við mál barna A í tengslum við fyrirlögn máls þeirra á fundi Barnaverndarnefndar Reykjavíkur þann 14. október 2014, samtals 24 klst. Samkvæmt tímaskýrslu er um að ræða undirbúning fyrir fund nefndarinnar, greinargerðarskrif og mætingu á fundina.

Í bréfi lögmanns er óskað eftir styrk vegna 16 klst. vegna lesturs greinargerðar og gagna. Bent er á að skv. gögnum málsins fór lögmaður með fyrirsvar f.h. móður vegna vinnslu máls barna hennar hjá Barnaverndarnefnd F skv. umboði dags. í maí 2014. Þá mætti lögmaður með móður á fund Barnaverndarnefndar F þann 13. maí 2014 og ennfremur kærði lögmaður úrskurð nefndarinnar þann dag til Héraðsdóms G og flutti málið fyrir hana. Er því ljóst að gögn málsins voru lögmanni ekki ókunn og verður því að teljast hæfilegt að veittur sé styrkur vegna 4 klst. vegna lesturs gagna og greinargerðar. Þá er veittur styrkur vegna undirbúnings og funda með móður samtals 3 klst. Vegna ritunar greinar 1 klst. Vegna fundar með Barnaverndarnefnd Reykjavíkur 1 klst. og vegna móttöku bókunar og kynningar hennar fyrir móður 1 klst.

Að lokinni athugun á tímaskýrslu lögmannsstofunnar, umfangi málsins og gagna þess, hefur því verið ákveðið að veita A styrk til greiðslu lögmannskostnaðar sem nemur 10 klst. eða samtals kr. 125.500.-.“

Samþykkt var hjá Barnavernd Reykjavíkur að veita styrk sem nemur 4 klukkustundum í stað 16 klukkustunda samkvæmt tímaskýrslu lögmannsins vegna lesturs gagna. Var það mat meðal annars byggt á því að fyrir hafi legið að lögmaður kæranda hafi verið vel kunnugur málinu og gögn þess honum ekki ókunn.

Þá var samþykkt hjá Barnavernd Reykjavíkur að veita styrk til greiðslu lögmannskostnaðar sem nemur þremur klukkustundum í samræmi við tímaskýrslu lögmannsins vegna undirbúnings og funda með kæranda þar sem farið var yfir gögnin.

Samþykkt var að greiða styrk samkvæmt tímaskýrslu lögmanns kæranda fyrir greinargerðaskrif í eina klukkustund.

Enn fremur var samþykkt að greiða styrk samkvæmt tímaskýrslu lögmanns kæranda eina klukkustund vegna mætingar á fund barnaverndarnefndar Reykjavíkur 14. október 2014.

Loks var samþykkt að greiða styrk samkvæmt tímaskýrslu lögmanns kæranda vegna móttöku bókunar barnaverndarnefndar og kynningu á henni fyrir kæranda í eina klukkustund.

Ekki var samþykkt að veita styrk vegna lögmannskostnaðar vegna móttöku á greinargerð og gögnum með tölvupósti og prentað eintak gagna sótt til Barnaverndar Reykjavíkur og gögnum komið til kæranda í tvær klukkustundir.

Samkvæmt tímaskýrslu lögmannsins 26. október 2014 fóru samtals 24 klukkustundir í vinnu við mál kæranda á umræddu tímabili.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Barnavernd Reykjavíkur verði gert að leggja til grundvallar tímaskýrslu lögmanns hennar við ákvörðun lögmannskostnaðar.

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur krefst þess að samþykktur styrkur í bréfi 18. nóvember 2014 verði staðfestur af hálfu kærunefndarinnar.

II. Sjónarmið kæranda

Af hálfu kæranda kemur fram að kærð sé sú ákvörðun að barnaverndarnefnd Reykjavíkur veiti aðeins styrk til að greiða fyrir tíu klukkustundir vegna lögfræðiþjónustu við kæranda vegna fundar barnaverndarnefndarinnar 14. október 2014 um málefni barna kæranda. Kærandi vísar til þess að kærunni fylgi þau gögn sem lögmanni hennar hafi verið send með tölvupósti og eftir ítrekaða beiðni um aukaeintak útprentað í einu eintaki fyrir fundinn. Gögn þessi séu meira en 400 blaðsíður og 17 MB í tölvu. Lögmaðurinn hafi ekki getað prentað út slíkan blaðsíðufjölda úr prentara sínum og hafi því þurft að ljósrita annað eintak fyrir kæranda. Að sjálfsögðu hefði lögmaðurinn þurft að lesa hverja blaðsíður fyrir fundinn og breyti þar engu um þó lögmaðurinn hafi séð eitthvað af gögnum áður. Skylda lögmanns sé að fara nákvæmlega yfir öll gögn og kynna þau fyrir umbjóðanda sínum og gefa honum kost á að koma fram með sín andmæli.

Kærandi mótmæli því alfarið að barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafni því að greiða styrk fyrir tvær klukkustundir fyrir að sækja gögn, reyna að prenta þau út og ljósrita síðan gögnin fyrir kæranda og koma þeim til umbjóðanda síns. Einnig mótmæli kærandi því að aðeins hafi verið fallist á að greiða fyrir fjórar klukkustundir fyrir að lesa gögnin yfir, en lögmaðurinn hafi verið samtals meira en 16 klukkustundir að því. Lögmanni beri skylda til að lesa slík gögn vel yfir.

III. Sjónarmið barnaverndarnefndar Reykjavíkur

Í bréfi Barnaverndar Reykjavíkur 9. janúar 2015 til kærunefndar barnaverndarmála kemur fram afstaða barnaverndarnefndarinnar til krafna kæranda fyrir kærunefndinni um greiðslu fjárstyrks vegna lögmannsaðstoðar. Bent er á að ákveðið hafi verið, að lokinni athugun á tímaskýrslu lögmannsstofunnar, umfangi málsins og gögnum þess, í samræmi við reglur um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannskostnaðar samkvæmt 47. gr. barnaverndarlaga, að veita kæranda styrk til greiðslu lögmannskostnaðar sem nemi tíu klukkustundum.

Styrkur hafi verið veittur vegna fjögurra klukkustunda lesturs gagna. Í bréfi lögmannsins hafi verið óskað eftir styrk fyrir 16 klukkustundir vegna lesturs greinargerðar starfsmanna og gagna sem henni hafi fylgt. Matið hafi verið byggt á því að fyrir hafi legið að lögmaður kæranda hafi verið vel kunnugur málinu og gögn málsins honum ekki ókunn. Í bréfi Barnaverndar Reykjavíkur til lögmannsins 18. nóvember 2014 hefði verið bent á að lögmaðurinn hefði farið með fyrirsvar fyrir hönd kæranda vegna vinnslu máls barna hennar hjá barnaverndarnefnd F 13. maí 2014. Enn fremur hefði lögmaðurinn kært úrskurð nefndarinnar frá 30. maí 2014 til Héraðsdóms G og flutt málið fyrir hana þar. Því sé ljóst að gögn málsins og forsaga þess hafi ekki verið lögmanni kæranda ókunn.

Fram komi í sundurliðaðri tímaskýrslu lögmannsins, sem lögð hafi verið fram í Héraðsdómi G [...] 2014, að [...] 2014 hafi úrskurður barnaverndarnefndar F verið lesinn og farið yfir hann með kæranda, samtals þrjár klukkustundir. Gögn málsins hafi verið lesin 7. júlí 2014, samtals 8 klukkustundir, og 12. júlí 2014 hafi gögn varnaraðila verið lesin betur og málsmeðferð undirbúin, samtals sex klukkustundir. Í úrskurði Héraðsdóms G [...] 2014 komi fram að gjafsóknarkostnaður kæranda hafi verið greiddur úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns hennar.

Í samræmi við tímaskýrslu lögmannsins hafi verið veittur styrkur vegna undirbúnings og funda lögmannsins með kæranda þar sem farið hafi verið yfir gögnin í samtals þrjár klukkustundir. Þá hafi verið samþykkt að veita styrk samkvæmt tímaskýrslu lögmannsins fyrir greinargerðaskrif í eina klukkustund.

Veittur hafi verið styrkur í eina klukkustund vegna mætingar lögmanns á fund barnaverndarnefndar Reykjavíkur 14. október 2014 í samræmi við tímaskýrslu lögmanns.

Í samræmi við tímaskýrslu lögmanns hafi verið veittur styrkur fyrir eina klukkustund vegna móttöku bókunar nefndarinnar og kynningu á henni fyrir kæranda.

Ekki hafi verið veittur styrkur vegna móttöku á greinargerð og gögnum og prentað eintak sótt til Barnaverndar Reykjavíkur og gögnum komið til kæranda. Í tímaskýrslu lögmanns kæranda komi fram að óskað sé eftir styrk sem nemi tveimur klukkustundum vegna móttöku á greinargerð og gögnum með tölvupósti og prentað eintak sótt til Barnaverndar Reykjavíkur og gögnum komið til kæranda. Ekki hafi verið samþykktur styrkur vegna þessa enda samræmdist það ekki reglum um veitingu styrks til greiðslu lögmannskostnaðar.

Greinargerð og gögn málsins hafi verið send lögmanninum með rafrænum hætti 8. október 2014. Lögmaðurinn hafi krafist þess með tölvupósti 10. október 2014 að greinargerð og gögn yrðu afhent í tvíriti. Með tölvupósti sem sendur hafi verið samdægurs hafi lögmanninum verið svarað og bent á 18. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 þar sem fram komi að eftir því sem við verði komið skuli veita aðgang að gögnum á því formi eða sniði sem þau séu varðveitt á nema þau séu þegar aðgengileg almenningi. Þegar gögn séu eingöngu varðveitt á rafrænu formi, eins og átt hafi við í þessu tilfelli, geti aðili valið á milli þess að fá þau á því formi og enn fremur hafi starfsmenn boðist til að prenta út greinargerð og fylgiskjöl í einriti. Í kjölfarið hafi lögmanninum verið afhent greinargerð og gögnin útprentuð í einriti og hafi hann óskað eftir að sækja þau í afgreiðslu Reykjavíkurborgar að Borgartúni 12-14 í Reykjavík.

Fram kemur af hálfu barnaverndarnefndar Reykjavíkur að skylda til styrkveitingar samkvæmt 47. gr. barnaverndarlaga sé bundin við málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd áður en nefndin kveði upp úrskurð og einnig í tengslum við málsmeðferð fyrir kærunefnd barnaverndarmála eftir reglum sem nefndin setji sér. Þótt um sé að ræða skyldu til styrkveitingar sé hvergi í lögum kveðið á um að barnaverndarnefndum sé skylt að greiða reikninga lögmanna án athugasemda enda sé um styrk að ræða. Þvert á móti sé gert ráð fyrir í frumvarpi því sem varð að barnaverndarlögum að barnaverndarnefnd setji sér reglur þar sem meðal annars skuli taka tillit til efnahags foreldra og eðlis og umfangs málsins. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafi samþykkt slíkar reglur 14. október 2014 sem leyst hafi reglur frá 28. maí 2008 af hólmi. Þá beri að hafa í huga að barnaverndarnefnd Reykjavíkur skuli gæta jafnræðis við ákvörðunartöku við styrkveitingar og hafi í þessu máli verið veittur styrkur til samræmis við önnur sambærileg mál.

IV. Forsendur og niðurstaða

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur frá 18. nóvember 2014 um greiðslu styrks vegna lögmannskostnaðar verði felld úr gildi og barnaverndarnefnd verði gert að leggja til grundvallar tímaskýrslu lögmanns kæranda við ákvörðun lögmannskostnaðar.

Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga skulu aðilar barnaverndarmáls eiga þess kosta að tjá sig munnlega eða skriflega, þar með talið með aðstoð lögmanns, um efni máls og annað sem lýtur að málsmeðferðinni áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð. Skal barnaverndarnefndin veita foreldrum fjárstyrk samkvæmt 2. mgr. lagagreinarinnar til að greiða fyrir lögmannsaðstoð samkvæmt 1. mgr. og í tengslum við rekstur máls fyrir kærunefnd barnaverndarmála eftir reglum sem nefndin setur. Samkvæmt reglum barnaverndarnefndarinnar frá 14. október 2014 um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannsaðstoðar, sbr. 47. gr. barnaverndarlaga, er veittur fjárstyrkur vegna fyrirtöku á fundi barnaverndarnefndarinnar, þ.e. vinnuframlag til undirbúnings og mætingar á fundi nefndarinnar, þegar til greina kemur að beita þvingunarúrræðum samkvæmt barnaverndarlögum, eins og fram kemur í 1. gr. reglnanna. Þar kemur enn fremur fram að eftir atvikum skuli jafnframt veita styrk til kynningar á niðurstöðum nefndarinnar. Samkvæmt 5. gr. reglnanna skal með beiðni um fjárstyrk fylgja tímaskýrsla lögmanns. Fjárhæð styrks skuli metin með hliðsjón af eðli og umfangi málsins og skuli tekið tillit til efnahags styrkbeiðanda þegar ákvörðun um fjárstyrk er tekin. Ákvörðun um fjárhæð styrks er kæranleg til kærunefndar barnaverndarmála samkvæmt 6. gr. reglnanna en þar er jafnframt vísað til 6. gr. barnaverndarlaga um kæruheimild. Telja verður að kröfugerð kæranda um að tímaskýrsla lögmanns hennar verði lögð til grundvallar við ákvörðun á greiðslu fyrir lögmannsaðstoð rúmist innan kæruheimildar. Samkvæmt 4. mgr. 51. gr. sömu laga getur kærunefnd barnaverndar­mála staðfest niðurstöðu kærðrar ákvörðunar eða hrundið henni að nokkru eða öllu leyti.

Lögmaður kæranda hefur fyrir hennar hönd krafist þess að tímaskýrsla lögmannsins verði lögð til grundvallar við ákvörðun greiðslu fyrir lögmannsaðstoð, eins og þegar hefur komið fram, vegna kröfu barnaverndarnefndarinnar um greiningar- og kennsluvistun á Vistheimili barna og forsjárhæfnismat á móður vegna afskipta barnaverndaryfirvalda af aðbúnaði og uppeldi barna hennar og fundar nefndarinnar 14. október 2014.  

Af hálfu kæranda er vísað til þess að unnir hafi verið samtals 24 klukkustundir vegna málsins en það sé einstaklega umfangsmikið. Tímaskýrslan er sundurliðuð og af henni verður ráðið að undirbúningur fundarins hafi verið 22 klukkustundir, þar af tvær klukkustundir fyrir móttöku greinargerðar og gagna með tölvupósti, prentað eintak sótt til barnaverndar og gögnum komið til kæranda, 16 klukkustundir vegna lesturs greinargerðar og gagna, þrjár klukkustundir við að fara yfir gögnin með kæranda og ein klukkustund fyrir ritun greinargerðar. Telja verður að þarna sé um vinnuframlag lögmannsins að ræða við undirbúning fundarins sem ber að greiða fyrir samkvæmt 1. gr. reglnanna um veitingu fjárskyrks sem áður er vísað til. Eins og áður er komið fram skal fjárhæð styrks metin með hliðsjón af eðli og umfangi málsins samkvæmt 5. gr. reglnanna. Með vísan til þessa þykir hæfilegt að greitt sé fyrir lestur greinargerðar og gagna vegna tíu klukkustunda vinnu en að öðru leyti eins og í tímaskýrslu segir. Samkvæmt því þykir rétt að barnaverndarnefnd Reykjavíkur greiði lögmannskostnað stefnanda fyrir samtals 16 klukkustunda vinnu vegna undirbúnings fundarins. Óumdeilt er að barnaverndarnefndinni beri að greiða kæranda fyrir einnar klukkustundar vinnu vegna fundarins 14. október 2014 og fyrir eina klukkustund vegna vinnu við móttöku á bókun nefndarinnar og kynningu hennar fyrir kæranda. Ber að taka tímaskýrslu lögmanns til greina í samræmi við þetta og að greiða skuli fyrir samtals 18 klukkustunda vinnu vegna fundarins með barnaverndarnefndinni 14. október 2014.

Samkvæmt ofangreindu ber með vísan til 4. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga að hrinda hinum kærða úrskurði að því leyti að telja verður að barnaverndarnefnd Reykjavíkur beri að leggja til grundvallar við ákvörðun fjárstyrks til kæranda til að greiða fyrir lögmannskostnað samkvæmt 2. mgr. 47. gr. sömu laga vegna fundarins 14. október 2014 að unnar hafi verið samtals 18 klukkustundir. 

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Ákvörðun barnaverndarnefndar Reykjavíkur um að greiða kæranda, A, styrk vegna lögmannsaðstoðar er hrundið að því leyti að leggja skal til grundvallar við ákvörðun styrksins að unnar hafi verið samtals 18 klukkustundir vegna fundarins 14. október 2014.


Sigríður Ingvarsdóttir, formaður


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta