Mál nr. 17/2015
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 17/2015 endurupptaka
Fimmtudaginn 17. mars 2016
A
gegn
Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Guðrún Agnes Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.
Með bréfi, mótteknu 8. janúar 2016, óskar A eftir endurupptöku máls nr. 17/2015 sem lokið var með úrskurði úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála 10. desember 2015.
Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 5. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof.
I. Málavextir og málsmeðferð
Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að kæranda var synjað um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna frá Fæðingarorlofssjóði á þeirri forsendu að hún hafi ekki verið í fullu námi samfellt í a.m.k. sex mánuði síðustu tólf mánuðina fyrir fæðingardag barns. Kærandi bar synjun Fæðingarorlofssjóðs undir úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála sem staðfesti synjun sjóðsins á sömu forsendu.
II. Málsástæður kæranda
Í beiðni kæranda um endurupptöku kemur fram að hún hafi ítrekað reynt að fá svör við spurningum sínum vegna umsóknar um fæðingarstyrk námsmanna, bæði hjá Fæðingarorlofssjóði og úrskurðarnefndinni. Hún hafi einungis fengið hráa útlistun á lögum nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof en ekki fullnægjandi svör. Því verði ekki séð að athugasemdum hennar hafi verið svarað efnislega eins og skylt er. Kærandi óskar því eftir viðunandi rökstuðningi og eftir atvikum endurskoðun á niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar og leggur fram nánar tilgreind álitaefni.
III. Niðurstaða
Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um skilyrði fyrir endurupptöku mála. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef atvik máls eru á þann veg að eitt af eftirfarandi skilyrðum sem fram koma í 1. og 2. tölul. geti átt við:
1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Kærandi byggir beiðni um endurupptöku á því að hún hafi ekki fengið fullnægjandi rökstuðning fyrir synjun Fæðingarorlofssjóðs á umsókn um fæðingarstyrk námsmanna. Samkvæmt 4. tölul. 31. gr. stjórnsýslulaga skal úrskurður æðra stjórnvalds í kærumáli hafa að geyma rökstuðning sem fullnægir þeim kröfum sem gerðar eru til rökstuðnings stjórnvaldsákvörðunar samkvæmt 22. gr. laganna. Í 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að í rökstuðningi skuli vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds er byggð á. Þá segir í ákvæðinu að þegar ákvörðun byggist á mati skuli í rökstuðningnum greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið. Þar sem ástæða er til skal einnig rekja í stuttu máli upplýsingar um málsatvik sem höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Af þessu leiðir að þegar tiltekið atriði ræður úrslitum um að ákvörðun lægra setts stjórnvalds sé ógildanleg eða lögmæt þarf í úrskurði almennt ekki að fjalla um aðrar málsástæður sem teflt hefur verið fram. Úrskurðarnefnd velferðarmála fellst ekki á að rökstuðningur úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála sé ekki fullnægjandi og telur hann vera í samræmi við 31. gr., sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga.
Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála er ekkert fram komið um að úrskurður úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála í máli nr. 17/2015 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að niðurstaða hans hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að hann var kveðinn upp. Þegar 24. gr. stjórnsýslulaga sleppir hefur úrskurðarnefnd velferðarmála eftir atvikum heimild til að endurupptaka mál á ólögfestum grundvelli. Í því tilviki sem hér um ræðir veltur skylda til slíkrar endurupptöku, að mati nefndarinnar, á því að rökstuddar vísbendingar séu um að á úrskurðum hennar séu verulegir annmarkar að lögum. Úrskurðarnefndin telur röksemdir kæranda ekki leiða í ljós slíkar vísbendingar.
Með vísan til þess sem að framan er ritað telur nefndin ekki forsendur fyrir endurupptöku á máli kæranda og er beiðninni því hafnað.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Beiðni A um endurupptöku úrskurðar í máli nr. 17/2015 er hafnað.
Guðrún A. Þorsteinsdóttir, formaður
Arnar Kristinsson
Þórhildur Líndal