Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 24/2014

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

  

Föstudaginn 5. júní 2015 tók kærunefnd barnaverndarmála fyrir mál A  gegn barnaverndarnefnd Reykjavíkur vegna umgengni við son hennar, B, nr. 24/2014.

Kveðinn var upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R:

I. Málsmeðferð og kröfugerð

Mál þetta varðar umgengni kæranda, A, við son sinn, B. Kærður er úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 25. nóvember 2014 um umgengni kæranda við son hennar, B. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar eru svohljóðandi auk þess sem þar er bent á kæruheimild til kærunefndar barnaverndarmála:

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákveður að B, hafi umgengni við móður sína, A, fjórum sinnum á ári tvær klukkustundir í senn. Umgengni verði undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndar Reykjavíkur. Skilyrði fyrir umgengni er að móðir sé edrú í umgengni og undirgangist vímuefnapróf ef þurfa þykir.

Kærandi krefst rýmri umgengni við son sinn en greinir í hinum kærða úrskurði og að umgengnin fari fram við aðrar aðstæður. Fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur krafðist kærandi þess að umgengnin yrði einu sinni í mánuði, önnur hver jól og alltaf á jóladag og aðra hverja páska.

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Kærunefnd barnaverndarmála kallaði eftir afstöðu fósturforeldra B, þeirra D og E, til krafna kæranda varðandi umgengni hennar við drenginn. Í tölvupósti frá þeim til kærunefndarinnar 13. maí 2015 kemur fram að fósturforeldrarnir hafi aðeins haft drenginn í fóstri í u.þ.b. X. Hann hafi ekki hitt kynmóður sína á þeim tíma og þeir styðji heilshugar allt sem barninu sé fyrir bestu.

II. Málavextir

B fæddist þann X og er því X ára gamall. Kærandi er X ára gömul. Hún var svipt forsjá drengsins með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þann X. Faðir drengsins er F, tæplega X-gamall maður. B á eldri bróður, G, sem er X ára gamall. Báðir bræðurnir hafa verið vistaðir utan heimilis að mestu frá því í X vegna vanrækslu og áfengisvanda kæranda og vanhæfi föður, eins og fram kemur í gögnum málsins. Auk áfengisvanda kæranda hefur hún einnig sýnt innsæisleysi í þarfir drengjanna og verið í afneitun á vanda sinn og vanda þeirra. Hún hefur ekki tekið á áfengisvanda sínum. Faðir B glímir við líkamlegar og andlegar hamlanir. Drengurinn var vistaður í varanlegu fóstri en fósturrof varð þann X og var honum fundið nýtt fósturheimili sem hann flutti á þann X í kjölfar aðlögunar.

B er viðkvæmur og glímir við margvíslegan vanda. Hann er greindur með ADHD sem hann tekur lyf við. Fram kemur að hann þurfi manninn með sér nánast allan daginn og eigi erfitt í félagslegum samskiptum. Þá hafi hann átt erfitt með að stjórna þvaglátum og hægðum. B sé ljúfur og sjarmerandi drengur sem hafi margt til að bera. Hann hafi sýnt af sér erfiða, mótþróafulla og á tímabilum ofbeldisfulla hegðun.

Í niðurlagi forsjárhæfnimats H sálfræðings 12. maí 2014 kemur fram að drengurinn stríði við mikil frávik í þroska og hegðun og að af þeim sökum sé umönnun og uppeldi hans sérlega vandasamt og þurfi óvenju mikla hæfni til að sinna honum. Umönnun foreldra hafi árum saman verið óviðunandi og geri kærandi sér hvorki grein fyrir þroska drengsins, takmörkunum hans eða þörfum í framtíðinni og virðist ekki hafa innsæi í eða áhuga á því hvernig beri að örva drenginn og hvetja.

Í gögnum málsins er ítarlega rakið hvernig umgengni kæranda við B hefur gengið síðan hann var vistaður utan heimilis. Fram kemur að umgengnin hafi gengið misjafnlega eftir að drengurinn fór í fóstur á fósturheimili. Framan af hafi hún farið fram á heimili foreldra og verið í sex klukkustundir aðra hverja helgi. Hafi umgengnin gengið ágætlega. Eftir að tilkynning hafi borist þann X um að lögregla hafi komið á heimili kæranda þar sem hún hafi verið undir áhrifum og hafi lamið sig í höfuðið með rörabút hafi umgengni verið takmörkuð. Umgengni hafi farið fram 3. maí 2014 og gengið vel en kærandi hafi afboðað sig í umgengni sem átt hafi að fara fram 18. maí 2014 og 1. júní 2014. Fór umgengni síðan fram 14. júlí 2014 og fram kemur að hún hafi gengið ágætlega. Umgengni 2. september 2014 hafi gengið mjög illa, en bræðurnir hafi farið að rífast um spjaldtölvu og hafi foreldrunum gengið illa að ráða við þá. Loks hafi verið haft samband við fósturforeldra sem hafi komið og sótt bræðurna og hafi þeir báðir farið með fósturforeldrum sínum án þess að kvarta. Kærandi varð ósátt við áætlanir um umgengni sem átti að vera í september 2014 og hafi því verið hætt við hana. Fram kemur að umgengnin hefur verið undir eftirliti vegna þess að kærandi ræddi við drengina um óviðeigandi hluti sem haft hafi neikvæð áhrif á þá. Hafi hún meðal annars rætt um að þeir myndu flytja til hennar á ný.

Fram kemur enn fremur að starfsmenn barnaverndarnefndar Reykjavíkur hafi talið kröfur kæranda um umgengni í kjölfar forsjársviptingar óraunhæfar. Drengurinn væri viðkvæmur og nauðsynlegt væri að koma í veg fyrir að hann færi úr jafnvægi sem auki álagið á fósturforeldrana sem séu stöðugt undir miklu álagi. Þar sem ekki náðist samkomulag um umgengnina var málið tekið til úrskurðar hjá barnaverndarnefnd.

III. Afstaða B

Fram kemur í gögnum málsins að starfsmaður barnaverndarnefndar hafi nokkrum sinnum rætt við B vegna umgengni við kæranda. Drengurinn hafi verið skýr í svörum sínum með það að hann langi til þess að hitta hana.

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur fól J félagsráðgjafa að vera talsmaður drengsins 17. september 2013 og kanna viðhorf hans almennt til þess að vera í vistun utan heimilis, afstöðu til foreldra og líðan. Auk þess var henni falið að kanna afstöðu drengsins til umgengni við foreldra. Í skýrslu talsmannsins 6. október sama ár um samtal við drenginn kemur fram að hún hafi hitt hann á K 4. sama mánaðar. Hann vildi ekkert sérstaklega fá foreldrana í heimsókn á K en sagðist samt sakna þeirra aðeins. Hann vildi gjarnan heimsækja mömmu og pabba en hann vildi ekki gista hjá þeim. Sama félagsráðgjafa var falið að gerast talsmaður drengsins 3. júní 2014 og meðal annars kanna afstöðu hans til umgengni við foreldra sína. Í skýrslu talsmannsins 6. júní sama ár kemur fram að drengurinn hafi í samtali 4. sama mánaðar sagst vilja hitta foreldra sína og að honum þætti vænt um þau.

IV. Afstaða kæranda

Fram kemur af hálfu kæranda að hún hafi óskað þess fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur að fá sem mesta umgengni við drenginn eða einu sinni í mánuði, önnur hver jól og alltaf á jóladag og aðra hverja páska. Hafi þetta verið ýtrustu umgengniskröfur hennar við barn sitt eftir að hafa verið svipt forsjá þess með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur [...].

Kærandi vilji ekki una þeirri takmörkuðu umgengni sem felist í úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Telji hún að slík takmörkun muni fela í sér tilfinninga- og fjölskyldurof milli móður og barns. Markmið umgengni við barn í fóstri samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002 sé að gæta þess að ekki rofni með öllu tengsl móður og barns og sé það gert í þágu þarfa og hagsmuna barnsins með þeim rökum að eftirsóknarvert þyki að barnið þekki bakgrunn sinn og foreldri. Því sé vandséð hvaða rök standi til þess að barnið fái aðeins að umgangast kæranda í fjögur skipti á ári í tvo tíma í senn undir eftirliti og utan heimilis hennar. Megi ætla að svo strjál umgengni muni valda spennu í tilfinningalífi barnsins. Enn fremur að sú eftirvænting sem magnist vegna langrar biðar milli umgengni muni hafa truflandi áhrif á líf barnsins og raski ró þess frekar en ef umgengnin væri tíðari.

Fyrir liggi í skýrslu talsmanns drengsins að hann vilji hitta foreldra sína, þyki vænt um þá og beri taugar til þeirra.

Drengurinn hafi verið greindur með ADHD, ofvirkur með athyglisbrest og því sé enn mikilvægara að umgengni við kæranda verði regluleg og oftar en úrskurðað hafi verið. Þeirri greiningu fylgi oft almennir félagslegir erfiðleikar. Ekki síst þess vegna sé mikilvægt að persónuleg tengsl við kæranda tapist ekki með takmarkaðri umgengni.

Þau sjónarmið sem leitt hafi til forsjársviptingar kæranda eigi aðeins að nokkru leyti við þegar fjallað sé um umgengni forsjársvipts foreldris við barn í varanlegu fóstri. Með því að fallast á rétt barns og kæranda til umgengni við hvort annað, hafi barnaverndarnefnd Reykjavíkur viðurkennt að umgengnin, þótt takmörkuð sé, teljist vera í þágu þarfa og hagsmuna drengsins. Því sé vandséð hvaða rök skuli leiða til þess að takmarka umgengnina svo rækilega eins og gert sé, en með því sé verið að vinna gegn helstu markmiðum umgengni, þeim sem áður hafi verið rakin, þ.e. að tengsl milli barna og foreldra rofni ekki. Þyki veruleg hætta á að það gerist með þeirri skertu umgengni sem úrskurðuð hafi verið.

Bent sé á að kröfugerð kæranda sé þannig fram sett fyrir kærunefndinni að taka megi tillit til meiri umgengni en í hinum kærða úrskurði greini þó ekki verði fallist á ýtrustu kröfur kæranda eins og þær hafi verið settar fram fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur.

Kærandi vísar til þess að í greinargerð barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 11. mars 2015 sé fjallað um ítrekuð fósturrof drengsins, síðast [...]. Um ástæður þess sé ekki getið en þeir fósturforeldrar höfðu lagst gegn því að kærandi fengi rýmri umgengni við son sinn. Þeir hafi sagt umgengnina erfiða fyrir drenginn og að hann sýndi skýr einkenni um vanlíðan eftir umgengni í þrjá til fjóra daga. Drengurinn glímdi við mikinn vanda og til að halda stöðugleika í lífi hans væri mikilvægt að stilla umgengni í hóf. Mat fósturforeldra hafi verið að hann þyrfti frið og ró til að ná festu á fósturheimili. Skóli drengsins hefði auk þess tekið eftir því að hegðun hans væri erfiðari eftir umgengni og að hann ætti erfiðara með að stjórna sér og einbeita eftir umgengni. Umgengnin hafi verið takmörkuð með þessum rökum.

Kærandi vísar til þess að endurtekin fósturrof drengsins beri ekki vott um þann stöðugleika sem sóst hafi verið eftir. Kærandi hefði haft fregnir af því að fósturrofið þann X hafi orðið vegna þess að barnið hefði sætt barsmíðum á heimili fósturforeldra. Upplýsa þurfi fyrir kærunefndinni hverjar raunverulegar ástæður fósturrofsins voru. Því megi velta fyrir sér hvort ætluð vanlíðan eftir umgengni sem fósturforeldrar hafi lýst hafi í raun stafað af ástæðum sem rekja megi til fóstursins frekar en umgengni við kæranda. Sama megi segja um ætlaðar ástæður hegðunar drengsins í skóla. Leiða megi líkur að því að hin meintu óæskilegu áhrif kæranda á hegðun og líðan drengsins hafi ekki verið til staðar heldur hafi aðrar ástæður ráðið þar mestu um. Því sé nauðsynlegt að þetta verði upplýst.

V. Afstaða barnaverndarnefndar Reykjavíkur

Í bréfi barnaverndarnefndar Reykjavíkur til kærunefndarinnar 11. mars 2015 kemur fram að B hafi verið vistaður í varanlegu fóstri. Fósturrof hafi orðið þann X og hafi drengnum verið fundið nýtt fósturheimili og hafi hann flutt þangað þann X í kjölfar aðlögunar. Ekki sé annað fyrirséð en að hann verði vistaður utan heimilis kynforeldra til 18 ára aldurs. Þegar barni sé ráðstafað í fóstur sem ætlað sé að vara þar til það verði lögráða sé yfirleitt mjög takmörkuð umgengni. Markmið fósturs sé þá að jafnaði að barn aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu sem taki að sér uppeldi þess. Við slíkar aðstæður sé viðurkennt að hagsmunir barnsins kunni að krefjast þess að umgengni verði takmörkuð allverulega en meta þurfi hagsmuni barnsins í hverju tilviki. Af gögnum málsins sé ljóst að B sé viðkvæmur drengur sem glími við fjölþættan vanda. Mikilvægt sé að hann hafi skýran ramma og nauðsynlegt sé að koma í veg fyrir að hann fari úr jafnvægi sem auki álagið á fósturforeldrana sem séu stöðugt undir miklu álagi.

Þáverandi fósturforeldrar B hafi verið sáttir við þá tillögu sem lögð hafi verið fram á fundi barnaverndarnefndar 25. nóvember 2014 um umgengni fjórum sinnum á ári. Þeir hafi sagt að umgengni væri erfið fyrir drenginn og að hann sýndi skýr einkenni vanlíðunar eftir umgengnina og vari einkennin í þrjá til fjóra daga. Drengurinn glími við mikinn vanda og til þess að halda stöðugleika í lífi hans sé mikilvægt að umgengni verði stillt í hóf. Hafi það verið mat fósturforeldranna að hann þyrfti frið og ró til að ná festu á fósturheimilinu. Skóli drengsins hafi auk þess tekið eftir því að hegðun hans sé erfiðari eftir umgengni og hann eigi erfiðara með að stjórna sér og einbeita sér eftir umgengnina.

Í ljósi forsögu málsins og upplýsinga um líðan drengins og gengi á fósturheimilinu hafi það verið mat barnaverndarnefndar Reykjavíkur á fundi 25. nóvember 2014 að mikilvægt væri að skapa honum áframhaldandi stöðugleika og öryggi. Slíkt sé nauðsynlegt áfram til að hann fái að dafna og þroskast sem best í þeim aðstæðum sem hann búi við. Reynslan sýni að umgengni barna við kynforeldra og aðra nákomna raski í flestum tilvikum ró barna í fóstri jafnvel þótt ekki sé ágreiningur um hana. Þá hafi verið ákveðið að umgengni yrði undir eftirliti í ljósi þess að kærandi hafi verið að ræða við drenginn og bróður hans um óviðeigandi hluti sem hafi haft neikvæð áhrif á þá. Hafi hún meðal annars rætt við þá um að þeir myndu flytja til hennar aftur.

Sú staðreynd að fósturrof hafi orðið og að drengurinn sé kominn í umsjá nýrra fósturforeldra breyti ekki afstöðu nefndarinnar. Sé það mat starfsmanna að nú sem fyrr sé mikilvægt fyrir drenginn að stöðugleiki og ró náist í fóstri hans og verði því meðal annars náð með því að takmarka umgengni sem samkvæmt gögnum málsins hafi haft áhrif á drenginn með neikvæðum hætti.

VI. Afstaða fósturforeldra

Af hálfu fósturforeldra B kemur fram að drengurinn hafi aðeins verið hjá þeim í fóstri í u.þ.b. X. Þeir hafi starfað sem fósturforeldrar árum saman og hafi skrifað undir varanlegt fóstur drengsins hjá þeim. Á þeim tíma hafi hann farið eina nótt í mánuði til föðurömmu sinnar og hitti þar einnig kynföður sinn í tvær klukkustundir. Einnig hafi hann farið til X ára bróður síns og fósturfjölskyldu hans í samtals fjóra sólarhringa á þessu tímabili. Þessi umgengni hafi gengið vel.

Fram kemur að þeim hjónum hafi alltaf gengið vel varðandi samskipti við ættingja þeirra barna sem hjá þeim hafi búið og leggi þau mikla áherslu á þann þátt.

Drengurinn hafi ekki hitt kynmóður sína á þeim tíma sem hann hafi búið hjá fósturforeldrunum og því hafi þeir enga reynslu eða álit á því, á þessu stigi. Umgengni þeirra hafi verið áætluð 21. maí síðastliðinn í tvær klukkustundir í L. Miðað við framangreindar forsendur hafi fósturforeldrarnir því enga reynslu eða neitt sérstakt álit á aukinni umgengni þeirra annað en það að þeir styðji heilshugar allt sem barninu sé fyrir bestu.

VII. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að kröfum kæranda um rýmri umgengni við X ára gamlan son sinn, B, en hinn kærði úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur kveður á um. Drengurinn er í fóstri hjá fósturforeldrum en kærandi var svipt forsjá hans með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur [...] eins og áður hefur komið fram.

Í 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 er kveðið á um umgengni í fóstri. Í 1. mgr. lagagreinarinnar kemur fram að barn í fóstri eigi rétt til umgengni við foreldra og aðra sem því eru nákomnir. Með umgengni sé átt við samveru og önnur samskipti. Í 2. mgr. sömu lagagreinar kemur fram að foreldrar eigi rétt til umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skuli meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri sé ætlað að vara. Samkvæmt 4. mgr. lagagreinarinnar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að drengurinn verði væntanlega vistaður utan heimilis kynforeldra sinna til 18 ára aldurs. Mikilvægt sé að skapa honum stöðugleika í ljósi forsögu málsins og upplýsinga um líðan hans og sérþarfir. Einnig sé mikilvægt að skapa drengnum áframhaldandi stöðugleika og öryggi. Slíkt sé nauðsynlegt til að hann fái að dafna og þroskast sem best í þeim aðstæðum sem hann búi nú við. Kærunefndin telur að af þessu verði ótvírætt ráðið hver markmiðin eru sem stefnt er að með því að ráðstafa drengnum í fóstur.

Við úrlausn málsins verður að líta til þess að aðstæður drengsins hafa verið ófullnægjandi og ótryggar eins og lýst er í gögnum málsins. Það má meðal annars rekja til þess að hann hefur búið við langvarandi vanrækslu en kærandi hefur átt við alvarlegan áfengisvanda að etja og hún hefur þjáðst af þunglyndi og kvíða. Þetta hefur leitt til þess að drengurinn hefur alist upp við mjög mikið rótleysi, óstöðugleika og óöryggi. Fram kemur í gögnum málsins að drengurinn hefur verið vistaður utan heimilis meira og minna síðan í upphafi árs X en þá var hann vistaður á K vegna áfengisvanda kæranda og geðrænna erfiðleika beggja foreldra. Hann var vistaður á fósturheimili ásamt eldri bróður sínum þann X. Fram kemur í gögnum málsins að fósturforeldrarnir hafi ekki treyst sér til að hafa drengina og því hafi þeir farið aftur heim til foreldra sinna X sama ár. Þar voru drengirnir í tæpan mánuð en X voru þeir báðir vistaðir á K vegna drykkju kæranda. Bræðurnir fóru í fóstur á M þann X en vistunin gekk illa og fóru þeir þá á K X sama ár eftir að fósturforeldrarnir riftu fóstursamingi. B fór í fóstur til fósturforeldra X sama ár en það fóstur rofnaði X eins og áður hefur komið fram. Hann fór til núverandi fósturforeldra sinna X sama ár í kjölfar aðlögunar.

Kærandi vísar til þess að hún vilji ekki una þeirri takmörkuðu umgengni sem felist í hinum kærða úrskurði en slík takmörkun feli í sér tilfinninga- og fjölskyldurof milli móður og barns. Markmið umgengni sé að ekki rofni með öllu tengsl móður og barns. Því standi engin rök til þess að barnið fái aðeins að umgangast móður sína í fjögur skipti á ári í tvo tíma í senn undir eftirliti og utan heimilis foreldris. Megi ætla að svo strjál umgengni muni valda spennu í tilfinningalífi barnsins og sú eftirvænting sem magnist vegna langrar biðar milli umgengni muni hafa truflandi áhrif á líf barnsins og raska ró þess frekar en ef umgengni væri tíðari.

Þessum röksemdum kæranda hafnar kærunefndin með vísan til þess að markmiðið með þeirri fósturráðstöfun sem hér um ræðir og ætlað er að vara þar til drengurinn verður 18 ára er að skapa honum stöðugleika sem honum er nauðsynlegur vegna þess rótleysis og óöryggis sem hann hefur búið við vegna vanrækslu og vanhæfi kæranda til að annast hann og veita honum það uppeldi sem hann á rétt á samkvæmt lögum. Drengnum er mikilvægt að fá frið til að aðlagast þeirri fjölskyldu sem hefur tekið að sér uppeldi hans þar sem horfa verður til þess að drengnum er ætlað að tilheyra fósturfjölskyldunni. Þessi sjónarmið eru studd þeim lögskýringum sem fram koma í athugasemdum með 2. mgr. 74. gr. í greinargerð með frumvarpi til barnaverndarlaga. Þar segir enn fremur að meta þurfi hagsmuni og þarfir barns í hverju máli og þess verði að gæta að umgengni sé í samræmi við markmiðin með fóstri.

Kærunefndin tekur undir röksemdirnar í hinum kærða úrskurði um að mikilvægt sé að skapa drengnum áframhaldandi stöðugleika og öryggi. Til þess að því markmiði verði náð telur kærunefndin að takmarka þurfi umgengni drengsins við kæranda verulega. Kærandi var svipt forsjá drengsins með dómi héraðsdóms sem áður var vitnað til vegna þess að hún var ófær um að búa drengnum viðunandi uppeldisaðstæður.

Gögn málsins gefa ekki tilefni til ætla að upplýsa þurfi fyrir kærunefndinni hverjar raunverulegar ástæður fósturrofsins voru í X. Nægar upplýsingar þykja liggja fyrir í gögnum málsins um líðan drengsins, sérþarfir hans og það óöryggi sem hann hefur búið við. Verða þær lagðar til grundvallar við úrlausn málsins og skilgreiningar á því hverjir hagsmunir drengsins eru og hvernig þeir verða metnir þegar umgengni hans við kæranda er ákveðin.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og með tilliti til þess að drengurinn er tiltölulega nýkominn til núverandi fósturforeldra verður að meta stöðu hans þannig að hann þurfi tíma til aðlögunar. Mikilvægt er að drengurinn fái frið án þess ónæðis sem hætta er á að of tíð umgengni við kæranda geti skapað honum. Þess vegna krefjast hagmunir hans þess að umgengni hans við kæranda verði takmörkuð verulega eins og gert er með hinum kærða úrskurði. Þykir því rétt með vísan til þess að staðfesta úrskurðinn.


Úrskurðarorð

Hinn kærði úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 25. nóvember 2014 um umgengni A, við son sinn B, er staðfestur.

Sigríður Ingvarsdóttir, formaður

Hrafndís Tekla Pétursdóttir

Jón R. Kristinsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta