Hoppa yfir valmynd

Nr. 45/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 6. febrúar 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 45/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU19100041

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 15. október 2019 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Marokkó (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. september 2019, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Útlendingastofnun verði gert að taka málið til nýrrar meðferðar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 25. október 2018. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 5. september 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 24. september 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 15. október 2019. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 29. október 2019.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna almennra aðstæðna í landinu.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi hafi dvalarleyfi í Grikklandi sem sé í gildi til ársins 2025. Kærandi hafi yfirgefið heimaríki sitt, Marokkó, fyrir átján árum vegna takmarkaðra atvinnumöguleika í landinu. Kærandi hafi greint frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann hafi yfirgefið heimaríki sitt þegar hann hafi verið 22 ára og búið í Grikklandi síðan. Þar hafi hann starfað sem járnsmiður til ársins 2017, en þá hafi hann lent í vinnuslysi og [...]. Í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi kærandi greint frá því að hann hafi eytt öllum sparnaði sínum í læknisþjónustu í þeirri von [...] án árangurs. Kærandi hafi ekki aðgang að vinnumarkaði né heilbrigðiskerfi í Grikklandi og fái ekki félagslega aðstoð sem atvinnulaus einstaklingur þar í landi.

Í greinargerð kæranda er fjallað almennt um ástand mannréttindamála í Marokkó og vísað í alþjóðlegar skýrslur um landið.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Frásögn hans fái stuðning í landaupplýsingum um heimaríki hans. Kærandi hafi yfirgefið heimaríki sitt vegna erfiðra félaglegra aðstæðna fyrir mörgum árum. Foreldrar kæranda séu aldraðir og hann hafi engan félagslegan stuðning í heimaríki. Í Grikklandi hafi hann þurft að eyða öllu sparifé sínu í læknisþjónustu enda hafi hann ekki haft aðgang að heilbrigðiskerfinu í Grikklandi. Ljóst sé að verði kæranda vísað frá landi muni hann búa við afar erfiðar félagslegar aðstæður, hvort sem er í Grikklandi eða Marokkó.

Kærandi gerir þá kröfu til vara að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Útlendingastofnun verði gert að taka mál hans til meðferðar á ný. Að mati kæranda hafi ákvörðun í máli hans verið haldin annmarka. Kærandi sé viðurkenndur flóttamaður í Grikklandi þar sem hann hafi búið síðastliðin ár og hann sé með gilt dvalarleyfi þar í landi. Útlendingastofnun hafi í ákvörðun sinni ekki rannsakað félagslegar aðstæður kæranda í Marokkó eins og þær séu í dag. Ljóst sé að kærandi hafi misst baklandið sitt í Marokkó þar sem hann hafi ekki búið í landinu árum saman. Þá verði ekki séð að stofnunin hafi rannsakað áhrif fyrirhugaðs flutnings á líkamlega og andlega heilsu kæranda. Því séu annmarkar svo miklir að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi og gera Útlendingastofnun að taka mál hans til meðferðar að nýju.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað marokkósku vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé marokkóskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Marokkó m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2018 Country Reports on Human Rights Practices – Morocco (U.S. Department of State, 13. mars. 2019);
  • New Country Partnership Framework between the Kingdom of Morocco and the World Bank Group- 2019-2024 (upplýsingar af vefsíðu Alþjóðabankans (e. The World Bank), vefslóð: https://www.worldbank.org/en/news/factsheet/2019/02/19/morocco-new-country-partnership-framework-2019-2024);
  • World Report 2020 (Human Rights Watch, 15. janúar 2020);
  • Amnesty International Report 2017/18 – Morocco/Western Sahara (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Social Security Programs Throughout the World: Africa (Social Security, september 2019);
  • Country Cooperation Strategy. Morocco (WHO, uppfært maí 2018);
  • The Morocco Case Study: Positive Practice Environments (The Global Health Workforce Alliance, 2010);
  • Summary of stakeholders´ submissions on Morocco (UN Human Rights Council, 20. febrúar 2017) og
  • The World Factbook. Morocco (Central Intelligence Agency, 28. janúar 2020).

Marokkó er konungsríki með um 35 milljónir íbúa, þar sem konungurinn, Mohammed VI., fer með yfirstjórn ríkisins. Árið 1956 gerðist Marokkó aðili að Sameinuðu þjóðunum. Árið 1976 gerðist ríkið aðili að bæði alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Marokkó gerðist aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1987 og samþykkti barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna árið 1990.

Samkvæmt vefsíðu bandarísku velferðarstofnunarinnar er almannatryggingakerfi við lýði í Marokkó. Þá eigi íbúar landsins m.a. rétt á atvinnuleysisbótum, fæðingarorlofi og barnabótum. Þá kemur fram í skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá 2019 að stjórnarskrá ríkisins tryggi borgurum þess rétt til heilbrigðisþjónustu. Heilbrigðiskerfi landsins sé bæði ríkis- og einkarekið. Almannatryggingakerfið veitir fátækum og bágstöddum gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu hins opinbera. Þá sé lögbundin heilbrigðistrygging hjá opinberum aðilum og einkaaðilum. Marokkó, í samstarfi við Alþjóðabankann, hefur sett rammaáætlun fyrir árin 2019-2024 með það að markmiði að styðja við þróun atvinnumála í landinu og m.a. að bæta stöðu þeirra sem eru fátækir og standa höllum fæti í samfélaginu. Meðal verkefna eru þróun og að styrka innviði í velferðarkerfi, bæta skráningar og aðgengi að þjónustu.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Eins og áður er rakið lagði kærandi fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi þann 25. október 2018. Kærandi var boðaður til viðtals hjá Útlendingastofnun þann 5. september 2019. Í viðtalinu lýsti kærandi því að hann hafi yfirgefið heimaríki sitt vegna bágs atvinnuástands í landinu og farið til Grikklands og starfað þar síðastliðin átján ár. Í kjölfar vinnuslyss hafi kærandi [...] og hafi hann þá haft takmarkaðan aðgang að læknisþjónustu í Grikklandi. Kærandi hefur borið fyrir sig erfiðar efnahagslegar og heilsufarslegar aðstæður og hann telji að hann muni hvorki geta fengið aðstoð vegna bágrar fjárhagsstöðu sinnar í Grikklandi né í heimaríki. Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að hann óttist ofsóknir af hálfu marokkóskra stjórnvalda eða annarra aðila í Marokkó sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kann að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm er að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Í viðtali kæranda hjá Útlendingastofnun þann 5. september 2019 greindi kærandi frá því að hann hafi lent í vinnuslysi í Grikklandi. Heilbrigðisyfirvöld hafi brugðist rangt við og því sé [...]. Kærandi kveðst hafa fengið læknisþjónustu í Grikklandi, þar sem hann hafi verið búsettur, en þurft að greiða fyrir hana. Í heilsufarsgögnum frá Göngudeild sóttvarna kemur fram að það hafi verið gerð aðgerð [...] árið 2015 í Marokkó sem hafi gengið vel og að kærandi hafi [...] um tíma. Ljóst er því að kærandi hefur haft aðgang að heilbrigðisþjónustu í heimaríki. Í þeim gögnum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar um heimaríki kæranda kemur einnig fram að íbúum landsins standi heilbrigðisþjónusta til boða.

Kærandi hefur auk þess greint frá erfiðum efnahagslegum aðstæðum. Hann hafi átt erfitt með að afla tekna í heimaríki þegar hann hafi búið þar fyrir átján árum og að hann sjái ekki fram á að geta framfleytt sér þar í landi. Þá séu atvinnumöguleikar hans enn takmarkaðri eftir framangreint vinnuslys [...]. Eins og fjallað hefur verið um hér að framan stendur kæranda til boða heilbrigðisþjónusta í heimaríki. Auk þess hafa stjórnvöld á undanförnum árum efnt til átaks í landinu með það að markmiði að bæta atvinnumöguleika í landinu og fjölga störfum. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga kemur fram að ákvæðið um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða yrði að jafnaði ekki talið ná til neyðar af efnahagslegum rótum, svo sem fátæktar, hungursneyðar eða húsnæðisskorts. Við meðferð málsins hafa ekki komið fram gögn sem kalla á að vikið sé frá þeim meginsjónarmiðum sem fram koma í þessum athugasemdum.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 24. október 2018 og sótti um alþjóðlega vernd þann 25. október 2018. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 7 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 7 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 7 days to leave the country voluntarily.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                              Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta