Hoppa yfir valmynd

Nr. 484/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 13. nóvember 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 484/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18090037

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 21. september 2018 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 27. ágúst 2018, um að synja honum um endurnýjun á dvalarleyfi fyrir námsmenn.

Kærandi setti ekki fram kröfur eða lagði fram greinargerð til kærunefndar útlendingamála. Kærunefnd lítur svo á að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og dvalarleyfi hans endurnýjað.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi hér á landi fyrir námsmenn þann 8. september 2017 með gildistíma til 15. júlí 2018. Kærandi sótti um endurnýjun á dvalarleyfi fyrir námsmenn þann 4. júní 2018. Með hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar var umsókn kæranda synjað. Kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 21. september 2018 og sama dag kærði hann ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. Þann dag var kæranda veittur frestur til að leggja fram greinargerð í málinu. Með tölvupósti 2. október 2018 óskaði umboðsmaður kæranda eftir frekari fresti til að leggja fram greinargerð og var frestur veittur til 12. október 2018. Með tölvupósti frá kærunefnd 24. október 2018 var athygli kæranda vakin á því engin greinargerð hefði borist. Þar var kæranda jafnframt leiðbeint um framlagningu tiltekinna gagna til stuðnings máli sínu og veittur frestur til framlagningar gagna eða greinargerðar til 29. október 2018. Með tölvupósti sama daga óskaði umboðsmaður kæranda eftir frekari fresti og var kæranda á ný veittur frestur til 5. nóvember 2018 til að leggja fram gögn. Hvorki hafa borist gögn né greinargerð frá kæranda.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að samkvæmt 6. mgr. 65. gr. laga um útlendinga væri heimilt að endurnýja dvalarleyfi samkvæmt ákvæðinu á námstíma ef útlendingur fullnægði áfram skilyrðum 1. og 2. mgr. og geti sýnt fram á viðunandi námsárangur þar sem þess sé krafist. Við fyrstu endurnýjun teljist námsárangur fullnægjandi hafi útlendingur lokið samanlagt a.m.k. 75% af fullu námi á námsárinu. Heimilt sé að víkja frá kröfunni um viðunandi námsárangur ef um sé að ræða óviðráðanlegar ytri aðstæður, svo sem slys eða alvarleg veikindi.

Samkvæmt námsferilsyfirliti kæranda, dags. 1. júní 2018, hefði kærandi lokið 10 ECTS-einingum af 30 vorið 2018, eða með um 33% námsárangri. Samkvæmt framangreindu uppfyllti kærandi því ekki skilyrði 6. mgr. 65. gr. laga um útlendinga þar sem áskilnaður væri um 75% námsárangur.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærunefnd barst ekki greinargerð frá kæranda.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 65. gr. laga um útlendinga er fjallað um dvalarleyfi vegna náms. Samkvæmt 6. mgr. ákvæðisins er heimilt að endurnýja dvalarleyfi skv. ákvæðinu á námstíma ef útlendingur fullnægir áfram skilyrðum 1. og 2. mgr. og getur sýnt fram á viðunandi námsárangur, þar sem þess er krafist. Við fyrstu endurnýjun dvalarleyfis telst námsárangur viðunandi hafi útlendingur lokið samanlagt a.m.k. 75% af fullu námi á námsárinu. Heimilt er að víkja frá kröfunni um viðunandi námsárangur ef um er að ræða óviðráðanlegar ytri aðstæður, svo sem slys eða alvarleg veikindi. Í athugasemdum við 65. gr. í frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a. að heimilt sé að endurnýja dvalarleyfi ef óviðráðanlegar ástæður valdi því að fullnægjandi námsárangri hafi ekki verið náð. Þurfa ástæðurnar að hafa verið óviðráðanlegar fyrir námsmanninn, svo sem alvarleg veikindi eða ef nauðsynleg námskeið falla niður. Við endurnýjun dvalarleyfis þurfi umsækjandi að sýna fram á fullnægjandi námsárangur en með því sé átt við að útlendingur hafi staðist samanlagt 75% af heildareiningarfjölda tveggja anna og sé nóg að leyfishafi nái t.d. 50% af heildareiningarfjölda fyrstu annar ef hann nær a.m.k. 100% á næstu önn.

Kærandi fékk útgefið dvalarleyfi fyrir námsmenn þann 8. september 2017 með gildistíma til 15. júlí 2018. Þannig er ljóst að við mat á því hvort hann hafi náð viðunandi námsárangri ber að miða við skólaárið 2017-2018. Samkvæmt gögnum málsins lauk kærandi 10 ECTS- einingum á tímabilinu en fullt nám tveggja anna er 60 ECTS-einingar. Kærandi uppfyllir því ekki skilyrði 6. mgr. 65. gr. laga um útlendinga um viðunandi námsárangur. Kemur þá næst til skoðunar hvort um óviðráðanlegar ytri aðstæður sé að ræða hjá kæranda í skilningi 3. málsl. 6. mgr. 65. gr. laganna. Kærandi hefur ekki lagt fram greinargerð eða gögn sem benda til þess að skilyrðum síðastnefnds ákvæðis sé fullnægt þrátt fyrir leiðbeiningar kærunefndar um þýðingu þess að leggja fram slík gögn. Samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu uppfyllir kærandi ekki skilyrði 6. mgr. 65. gr. laga um útlendinga. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.

Samkvæmt framangreindu hefur kærandi ekki dvalarleyfi hér á landi. Kæranda er því ekki heimil áframhaldandi dvöl hér á landi og ber honum að yfirgefa landið innan 15 daga frá móttöku úrskurðarins. Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frestsins kann að vera heimilt að brottvísa honum, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Anna Tryggvadóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                   Anna Valbjörg Ólafsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta