Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 15/2014.  Úrskurður kærunefndar útboðsmála:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 8. desember 2014

í máli nr. 15/2014:

Atlantsolía ehf.

gegn

Akureyrarbæ           

Með kæru 16. september 2014 kærir Atlantsolía ehf. útboð Akureyrarbæjar á eldsneyti fyrir bæinn. Kröfur kæranda eru að nefndin leggi fyrir varnaraðila að fella niður eftirfarandi skilmála í útboðslýsingu: „Akureyrarbær hefur ákveðið að taka einu tilboði í allar diselolíur og bensín í þessu útboði. Bjóða verður í allar tegundir þessara vörutegunda“. Þá er þess krafist að varnaraðila verði gert að bjóða innkaupin út að nýju. Hafi varnaraðili tekið ákvörðun um val á tilboði krefst kærandi þess að sú ákvörðun verði felld úr gildi. Hann krefst einnig málskostnaðar. Varnaraðila var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við kæruna og bárust þær 22. september 2014. Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Kærandi gerði athugasemdir við greinargerð varnaraðila 30. október 2014.

Með ákvörðun kærunefndar útboðsmála 3. október 2014 var kröfu kæranda um stöðvun innkaupanna hafnað.

Í byrjun september 2014 auglýsti varnaraðili útboð á eldsneyti og tengdum vörum fyrir allar stofnanir og deildir bæjarins. Í útboðsgögnum segir m.a. eftirfarandi: „Akureyrarbær hefur ákveðið að taka aðeins einu tilboði í allar diselolíur og bensín í þessu útboði. Bjóða verður í allar tegundir þessara vörutegunda.“

Kærandi byggir á því að varnaraðila sé ekki heimilt að setja skilyrði um að einungis verði samið við einn bjóðanda um allar diselolíur og bensín. Kærandi segist áður hafa tekið þátt í útboðum á vegum varnaraðila og þá hafi verið hægt að gera tilboð í einstaka liði útboðsins. Kærandi telur að skilyrðið um að taka einu tilboði sé sett með það í huga að útiloka flesta bjóðendur. Skilyrðið feli í sér ólögmæta hindrun sem stuðli að fákeppni og brjóti gegn meginreglum laga um opinber innkaup um jafnræði og hagkvæmni í opinberum innkaupum. Með skilyrðinu sé kærandi, sem bjóði upp á mikinn meirihluta þeirra vöruflokka sem óskað sé eftir, útilokaður frá þátttöku og varnaraðili muni ekki geta tekið lægsta tilboði í hverjum flokki. Kærandi hafnar því að það skapi óhagræði og hættu á ruglingi að skipta við fleiri en einn aðila.

Varnaraðili segir að markmiðið með því að bjóða saman út díselolíur og bensín vera skýrt og málefnalegt. Sér hafi verið heimilt að gera þær kröfur í útboðinu sem samrýmist þörfum bæjarins. Varnaraðili telur að kröfur útboðsgagna séu skýrar og gagnsæjar og í samræmi  við almenna útboðsskilmála samkvæmt 38. gr. laga um opinber innkaup. Að mati varnaraðila er það meginregla laga um opinber innkaup að tilboð skuli miðast við heild hinna fyrirhuguðu innkaupa og það sé undantekning að heimila boð í einstaka hluta. Varnaraðili kveður sér fólgið hagræði í því að fá umræddar vörur frá sama aðila og reynslan hafi sýnt að annað fyrirkomulag leiði af sér óhagræði og rugling. Auk þess leiði það af viðskiptum við einn aðila að minni hætta sé á mistökum við töku eldsneytis og þannig aukist öryggi og skilvirkni.

Niðurstaða

Ekki liggur annað fyrir en að umrætt útboð hafi verið yfir viðmiðunarfjárhæðum 78. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup og verður þannig að ganga út frá því að innkaupin falli undir þriðja þátt laganna.

Með hinu kærða útboði er ætlunin að koma á samningi um eldsneytiskaup og tengdar vörur fyrir stofnanir og deildir varnaraðila. Útboðsskilmálar bera með sér að varnaraðili hefur nýtt sér heimild sína til þess að skipta innkaupunum upp í sjálfstæða hluta með því að greina á milli eldsneytis og annarrar bílavöru, sbr. n-lið 1. mgr. 38. gr. laga um opinber innkaup. Hins vegar hefur varnaraðili ákveðið að eldsneyti, þ.e. díselolíur og bensín, teljist einn hluti sem bjóða skal í óskipt.

Það er meginregla við opinber innkaup að kaupandi hafi forræði á því að skilgreina lögmætar þarfir sínar í útboðsgögnum og ákveða þannig hvaða eiginleikum boðin þjónusta, verk eða vara skal búa yfir. Tilgreining þessara eiginleika í útboðsgögnum verður þó að byggja á málefnalegum sjónarmiðum auk þess sem gæta verður meginreglna um jafnræði og gagnsæi. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að varnaraðili hafi tengt saman ólíkar vörur eða með öðrum ómálefnalegum hætti hagað skilmálum útboðsins þannig að þeir yrðu sérstaklega sniðnir að einum eða fleiri þátttakendum. Þannig er ekkert fram komið um að skilyrðið um að fyrrgreindar vörur verði keyptar af einum þátttakanda brjóti gegn jafnræði fyrirtækja eða öðrum reglum um opinber innkaup. Með vísan til framangreinds er öllum kröfum kæranda hafnað.

Úrskurðarorð:

Öllum kröfum kæranda, Atlantsolíu ehf., vegna útboðs varnaraðila, Akureyrarbæjar, á eldsneyti fyrir bæinn, er hafnað. 

                                                                                                 Reykjavík, 8. desember 2014.

                                                                                                 Skúli Magnússon

                                                                                                 Ásgerður Ragnarsdóttir

                                                                                                 Stanley Pálsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta