Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 165/2012

Fimmtudaginn 13. nóvember 2014

 A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 27. ágúst 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 10. ágúst 2012 þar sem umsókn kærenda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar var synjað.

Með bréfi 29. ágúst 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 1. október 2012.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 2. október 2012 og var þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust.

 I. Málsatvik

Kærendur er fædd 1947 og 1948. Þau eru gift og búa í eigin 354,4 fermetra íbúð að C götu nr. 14 í sveitarfélaginu D. Kærandi B hefur verið sjúklingur í mörg ár. Hún er atvinnulaus og fær greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Kærandi A starfar hjá Y en kærendur eiga félagið X ehf. sem rekið hefur fyrrnefnda matvöruverslun frá mars 2008. Núverandi mánaðarlegar tekjur þeirra eru 378.778 krónur vegna launa og greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins.

Helstu ástæður skuldasöfnunar að mati kærenda eru ábyrgðarskuldbindingar, bygging á íbúðarhúsnæði ásamt því sem fyrri fasteign þeirra hafi ekki selst. Árið 2005 hafi kærendur keypt lóð til byggingarframkvæmda. Þau hafi ætlað að byggja hús á lóðinni og selja stærri eign sína í kjölfarið. Þeim hafi ekki tekist að klára húsið og eldri eign þeirra hafi verið á sölu síðan eftir bankahrunið en ekki selst. Þá reki kærendur matvöruverslun og eftir hrunið hafi tekjur af rekstrinum minnkað mjög. Loks hafi kærendur tekið lán fyrir fjölskylduvin til að fjármagna bílakaup hans en endurselja átti bílana. Síðar hafi komið í ljós að nefndur fjölskylduvinur hafi verið afar óreglusamur og hafi lánin öll farið í vanskil.

Samkvæmt gögnum málsins eru heildarskuldir kærenda 137.448.188 krónur og falla þær allar innan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Umboðsmaður skuldara greinir frá því að skuldir kærenda séu að miklu leyti vegna fyrirtækjarekstrar. Til helstu skulda var stofnað á árunum 2004 til 2008.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 30. júní 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 10. ágúst 2012 var umsókn þeirra hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til c- og e-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

 II. Sjónarmið kærenda

Kærendur fara fram á að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði endurmetin. Skilja verður það svo að þess sé krafist að kærunefndin felli synjun umboðsmanns skuldara úr gildi og málið fái meðferð á ný.

Kærendur telja umboðsmann skuldara leggja of mikla áherslu á rekstur þeirra og skuldir vegna hans. Þá telja þau fjárhæðir bílasamninga ekki réttar þar sem um ólögmæt gengistryggð lán sé að ræða og fjárhæðir lánanna liggi ekki enn fyrir.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara er vísað til þess að í lge. komi fram að markmið laganna sé að gera einstaklingum í greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Í greinargerð með frumvarpi til lge. komi fram að ákvæði 6. gr. frumvarpsins geti girt fyrir það að einstaklingur í atvinnurekstri fái greiðsluaðlögun hafi hann hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans eða tekist á hendur fjárskuldbindingar sem hann var greinilega ófær um að standa við þegar hann stofnaði til þeirra.

Við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana.

Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Samkvæmt e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara er gerð grein fyrir persónulegum skuldum kærenda sem séu annars vegar vegna atvinnurekstrar og hins vegar vegna bílasamninga.

Kærendur hafi tekið lán hjá Íslandsbanka 30. mars 2005 að fjárhæð 26.000.000 króna. Samkvæmt gögnum málsins hafi það verið tekið vegna E götu nr. 76 og með veði í þeirri eign. Umrædd eign sé verslunarhúsnæði sem hafi fyrst verið í nafni kærenda, síðan hafi eignin verið færð yfir til X ehf. og síðan til Z ehf. Þrátt fyrir að fasteignin hafi verið færð yfir til einkahlutafélags hvíli lánið enn á kærendum persónulega.

Þá hafi kærendur tekið lán hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna 14. október 2008, sem hafi upphaflega verið að fjárhæð 15.000.000 króna, og yfirdráttarlán hjá Íslandsbanka sem nú nemi 26.159.479 krónum. Samkvæmt upplýsingum frá kærendum hafi lánin að mestu leyti verið nýtt til rekstrar fyrirtækis þeirra.

Kærendur hafi tekist á hendur umtalsverðar skuldir vegna bílasamninga sem samkvæmt fyrirliggjandi gögnum séu vegna bílaviðskipta annars manns. Um sé að ræða sex bílasamninga sem hafi verið gerðir á tímabilinu 24. ágúst 2007 til 21. júlí 2008. Upphafleg fjárhæð samninganna hafi alls numið 25.637.220 krónum. Af fyrirliggjandi gögnum megi ráða að samanlögð mánaðarleg greiðslubyrði samninganna hafi ekki verið minni en 422.404 krónur. Samkvæmt upplýsingum úr skattframtali kærenda 2008 vegna ársins 2007 hafi uppgefnar tekjur þeirra verið að meðaltali 200.112 krónur á mánuði. Tekjur þeirra samkvæmt skattframtali ársins 2009 vegna tekna ársins 2008 hafi að meðaltali verið 211.634 krónur á mánuði. Samkvæmt framfærsluviðmiði Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna í janúar 2007 hafi mánaðarlegur framfærslukostnaður hjóna með bifreið verið 94.544 krónur það ár. Þessi kostnaður hafi verið 103.900 krónur árið 2008.

Samkvæmt málsgögnum hafi tekjur kærenda ekki verið nægilega háar þessi ár til að þau gætu staðið undir eigin skuldum vegna rekstrar, skuldum vegna bílaviðskipta og kostnaði við eigin framfærslu. Því sé það mat umboðsmanns skuldara að kærendur hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma er til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað.

Í 134. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 (gþl.) sé kveðið á um að krefjast megi riftunar á greiðslu skulda sem hafi verið greiddar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd fjárhæð sem hafi skert greiðslugetu þrotamannsins verulega nema greiðsla hafi virst venjuleg eftir atvikum. Samkvæmt 2. mgr. 134. gr., sbr. 1. mgr. 194. gr. gþl., sbr. 1. gr. laga nr. 31/2010, megi krefjast riftunar slíkrar greiðslu til nákominna sex til fjörutíu og átta mánuðum fyrir frestdag nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir greiðsluna. Með nákomnum í skilningi laganna sé meðal annars átt við tengdason þrotamanns, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. gþl.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. gþl. teljist frestdagur vera sá dagur sem héraðsdómara berst beiðni um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings eða berst krafa um gjaldþrotaskiptisvo og dánardagur manns ef farið er með dánarbú hans eftir reglum laga um gjaldþrotaskipti. Samkvæmt þessu þyki rétt að líta svo á að við beitingu e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. beri að jafna móttökudegi umsóknar um greiðsluaðlögun samkvæmt lge. við frestdag í skilningi gþl. Frestdagur í máli kærenda sé samkvæmt því 30. júní 2011 þegar umsókn um greiðsluaðlögun hafi verið móttekin hjá umboðsmanni skuldara.

Kærendur hafi kveðið fasteign sína að G götu nr. 1 hafa verið fokhelda þegar henni hafi verið afsalað til tengdasonar þeirra F 2. febrúar 2009. Samkvæmt yfirliti yfir símgreiðslur tengdasonar kærenda inn á reikning í eigu kæranda A hafi samtals verið lagðar inn 42.942.790 krónur á tímabilinu 19. mars 2007 til 30. apríl 2009 en kærendur kveði þessar greiðslur hafa verið lán. Kærendur hafi afsalað eigninni til tengdasonar síns með afsali útgefnu 2. apríl 2009 og þannig hafi eignin gengið upp í skuld við fyrrgreindan F . Þrátt fyrir að líta megi svo á að full greiðsla hafi komið fyrir fasteignina verði ekki hjá því komist að líta til þess að í 134. gr., sbr. 194. gr. gþl., sé kveðið á um heimild til að krefjast riftunar á greiðslu skuldar til nákominna síðustu fjörutíu og átta mánuði fyrir frestdag nema í ljós sé leitt að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir greiðsluna.

Samkvæmt skattframtali ársins 2011 vegna tekjuársins 2010 hafi kæranda B tæmst arfur. Um hafi verið að ræða fimmtungshluta fasteignar að H götu nr. 12. Við sölu eignarinnar hafi 3.403.120 krónur komið í hlut kæranda B. Greiddur erfðafjárskattur hafi verið 160.156 krónur. Fjárhæðin hafi verið greidd dóttur kærenda og vegna fyrrgreindrar skuldar. Telji umboðsmaður að hér eigi einnig við regla 134. gr., sbr. 194. gr. gþl. Falli slík háttsemi undir þau tilvik sem nefnd séu í e-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Telja verði samkvæmt framangreindu að ráðstöfun kærenda á umræddum eignum sé riftanleg í skilningi e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sbr. 2. mgr. 134. gr., sbr. 1. mgr. 194. gr. gþl., enda verði ekki séð að undantekningarnar eigi við.

Af fyrirliggjandi gögnum verði ráðið að greiðsluerfiðleikar kærenda séu að stórum hluta vegna skulda sem stofnað hafi verið til í tengslum við atvinnurekstur. Með úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 56/2011 hafi ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. verið staðfest. Í niðurstöðu úrskurðarins komi meðal annars fram eftirfarandi rökstuðningur:

 „Þá er þess enn fremur að gæta að tæplega 70% af skuldbindingum kærenda stafa frá skuldum vegna atvinnurekstrar. Samkvæmt núgildandi lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga girða skuldir vegna atvinnurekstrar ekki fyrir heimild til greiðsluaðlögunar en takmörkun af því tagi var í 2. mgr. 63. gr. a gþl. sem felld var úr gildi með lögum nr. 101/2010. Þar kom fram að ákvæði laganna um nauðasamning til greiðsluaðlögunar næði ekki til einstaklinga sem undangengin þrjú ár hefðu borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hefðu lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra, nema því aðeins að atvinnurekstri hefði verið hætt og þær skuldir sem stöfuðu frá atvinnurekstrinum væru tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum þeirra. Hins vegar bendir umfjöllun í greinargerð með frumvarpi til núgildandi laga til þess að tilgangur þess að fella slíkar takmarkanir úr gildi hafi fyrst og fremst verið sá að greiða fyrir greiðsluaðlögun þeirra einstaklinga sem eru með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri. Segir í greinargerð með lögunum að það sé ekki ætlun löggjafans að þeir sem eigi í greiðsluerfiðleikum fyrst og fremst vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði og jafnframt bent á að líta megi til ákvæða í 2. mgr. 6. gr. lge. varðandi fjárhagslega áhættu í þessu sambandi.“

Telja verði samkvæmt þessu rétt að horfa til þess, við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar, að meiri hluti skulda kærenda, eða 56,7%, verði rakinn til atvinnurekstrar. Þyki þetta sjónarmið styðja þá niðurstöðu að óhæfilegt sé að veita kærendum heimild til að leita greiðsluaðlögunar.

Kærendur hafi talið að of mikið sé litið til rekstrar þeirra og skulda vegna hans. Svo sem fram komi í frumvarpi því sem varð að lge. sé lögunum fyrst og fremst ætlað að ná til heimilisrekstrar einstaklinga. Þá segi að ekki sé vilji löggjafans að einstaklingar sem fyrst og fremst eigi í vanda vegna atvinnurekstrar nýti sér greiðsluaðlögunarúrræðið.

Kærendur hafi greint frá því að fjárhæðir bílasamninga þeirra séu ekki réttar enda sé um að ræða erlend lán sem ekki hafi verið endurútreiknuð. Þegar umboðsmaður taki ákvörðun sé litið til fjárhagslegra aðstæðna kærenda þegar til fjárskuldbindinga var stofnað en ekki núverandi stöðu skuldanna, sbr. úrskurð kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 18/2011.

Af framangreindu virtu og að teknu sérstöku tilliti til c- og e-liða 2. mgr. 6. gr. lge. sé það mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar.

Fer umboðsmaður skuldara fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að synjun um heimild til að leita greiðsluaðlögunar byggist á c- og e-liðum 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Samkvæmt e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef skuldari hefur efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar.

Af skattframtölum og öðrum gögnum málsins má sjá að fjárhagsstaða kærenda var eftirfarandi árin 2005 til 2010 í krónum:

  2005 2006 2007 2008 2009 2010
Meðaltekjur á mánuði (nettó) 135.791 184.696 183.903 194.371 288.185 225.681
Eignir alls 59.553.655 69.836.195 106.157.695 125.189.728 76.683.402 72.229.498
· Fasteignir 49.315.880 57.850.000 86.775.391 91.380.000 58.600.000 55.020.000
· Ökutæki 3.990.285 3.591.256 5.832.130 5.248.916 1.821.661 1.639.494
· Verðbréf og kröfur 4.771.629 7.093.359 12.230.015 27.244.697 14.598.868 13.880.857
· Hlutir í félögum 1.452.461 1.258.426 1.258.426 1.258.426 1.500.131 1.500.037
· Bankainnstæður 23.400 43.154 61.733 57.689 162.742 189.110
Skuldir 27.790.458 39.550.608 69.415.903 109.567.356 83.221.500 84.943.484
Nettóeignastaða 31.763.197 30.285.587 36.741.792 15.622.372 -6.538.098 -12.713.986

Samkvæmt gögnum málsins eru skuldir kærenda eftirtaldar í krónum:

Kröfuhafi Ár Tegund Upphafleg Staða Vanskil
      fjárhæð 2012 frá
Íslandsbanki 2004 Veðskuldabréf 21.000.000 30.255.751 2010
Íslandsbanki 2005 Veðskuldabréf 26.000.000 31.568.074 2010
Landsbankinn 2007 Bílasamningur 5.538.462 8.459.930 2009
Landsbankinn 2007 Bílasamningur 2.256.410 2.447.789 2011
Landsbankinn 2008 Bílasamningur 3.434.675 2.996.656 2008
Landsbankinn 2008 Bílasamningur 4.805.000 6.503.759 2009
Íslandsbanki 2008 Bílasamningur 4.667.500 5.290.491 2009
Íslandsbanki 2008 Bílasamningur 4.919.648 3.333.333 2008
Lífeyrissjóður verzlunarmanna 2008 Veðskuldabréf 15.000.000 20.218.241 2011
Íslandsbanki 2010 Yfirdráttur 20.932.626 26.159.479 2010
Ýmsir 2011–2012 Reikningar 101.460 214.685  
    Alls 108.655.781 137.448.188

Við mat á því hvort beita skuli c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. í máli kærenda ber að líta til samspils tekna og skuldasöfnunar á því tímabili sem til skoðunar er, einkum áranna 2007 og 2008, en kærendur stofnuðu til talsverðra skuldbindinga á þessum árum. Árið 2007 voru nettótekjur kærenda 183.903 krónur að meðaltali á mánuði og framfærslukostnaður 94.544 krónur á mánuði. Samkvæmt því höfðu þau tæpar 90.000 krónur til að mæta afborgunum skulda. Þrátt fyrir það tókust þau á hendur skuldir að fjárhæð 7.794.872 krónur vegna bifreiðakaupa, til viðbótar við eldri skuldir. Greiðslubyrði þessara skulda var um 136.000 krónur á ári. Í lok ársins voru skuldir þeirra alls 69.415.903 krónur. Árið 2008 voru nettótekjur kærenda 194.371 króna á mánuði og framfærslukostnaður 103.900 krónur. Að teknu tilliti til framfærslukostnaðar höfðu kærendur aflögu rúmar 90.000 krónur á mánuði. Á árinu 2008 tókust þau á hendur nýjar skuldir að fjárhæð 32.826.823 krónur, þar af voru 17.826.823 krónur vegna bílalána og 15.000.000 króna veðskuldabréf. Þar með var mánaðarleg greiðslubyrði kærenda vegna bílalána rúmlega 430.000 krónur á mánuði. Auk þess þurftu þau að standa í skilum með aðrar skuldir en í lok ársins námu skuldir þeirra 109.567.356 krónum. Var þannig augljóst að kærendur tókust á hendur skuldbindingar langt umfram það sem þau gátu staðið við á árunum 2007 og 2008.

Að því er varðar c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. má vísa til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 198/2010 en þar skýrði rétturinn ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 63. gr. d gþl. sem er sambærilegt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í því máli leit Hæstiréttur meðal annars til þess hvernig eignastöðu var háttað þegar til skuldbindinganna var stofnað, hafnaði heimild til greiðsluaðlögunar og taldi ljóst að skuldari hefði tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma þegar til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað.

Á árinu 2007 var eignastaða kærenda samkvæmt skattframtali 36.741.792 krónur umfram skuldir. Af eignum þeirra voru 12.230.015 krónur vegna kröfu kærenda á eigið félag, X ehf. Er því raunveruleg eignastaða þeirra í lok árs 2007 óljós. Á árinu 2008 var eignastaða kærenda samkvæmt skattframtali 15.622.327 krónur umfram skuldir. Af eignum þeirra voru 27.244.697 krónur vegna kröfu kærenda á eigið félag, X ehf. Á skattframtölum þessara ára er ekki gerð grein fyrir hinum meintu lánum frá tengdasyni þeirra. Raunveruleg eignastaða kærenda í lok árs 2008 liggur því ekki fyrir. Miðað við framangreint, og það sem kærendur hafa sagt um að rekstur þeirra hafi ekki gengið mjög vel, verður að telja að eignastaða þeirra hafi verið töluvert lakari en skattframtöl gefa tilefni til að ætla.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er það mat kærunefndarinnar að skuldbindingar þær sem kærendur tókust á hendur á árunum 2007 og 2008 hafi verið það miklar að líta verði svo á að þær hafi verið í ósamræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma er til þeirra var stofnað. Við mat á því hvort beita skuli c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. ber að líta til samspils tekna og skuldasöfnunar á því tímabili sem til skoðunar er, sbr. það sem greinir hér að ofan. Þá verður einnig að líta til þess að á þeim tíma er hér skiptir máli tókust kærendur að eigin sögn á hendur bílalán fyrir þriðja mann, en fjárhæð þessara lána nam alls 25.621.695 krónum og greiðslubyrði lánanna var alls ríflega 430.000 krónur á mánuði. Verður að telja það sérstaklega mikla áhættu að taka lán í eigin nafni fyrir aðra nema fyrir hendi sé fjárhagslegt bolmagn til að greiða af lánunum auk þess að standa við eigin skuldbindingar. Getu til þess höfðu kærendur ekki.

Samkvæmt öllu framansögðu er það mat kærunefndarinnar að kærendur hafi hagað fjármálum sínum á þann hátt að c-liður 2. mgr. 6. gr. lge. eigi við í máli þeirra.

Regla e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. vísar um efni sitt til riftunarreglna gjaldþrotaréttar en þær eru í XX. kafla gþl. Varða þau sjónarmið sem þar eru að baki jafnræði kröfuhafa en eitt af þeim skilyrðum sem eru fyrir riftun er að möguleiki kröfuhafa á fullnustu á kröfum sínum aukist við endurgreiðslu í kjölfar riftunar. Með öðrum orðum þarf hin riftanlega ráðstöfun að hafa orðið þrotabúi (hér kröfuhöfum kærenda) til tjóns.

Við úrlausn málsins ber að líta til 134. gr. gþl., en hún varðar riftun á óvenjulegum greiðslum þrotamanns. Krefjast má riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem hefur skert greiðslugetu þrotamannsins verulega nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum. Samkvæmt 134. gr., sbr. 194. gr. gþl., sbr. 1. gr. laga nr. 31/2010, má krefjast riftunar slíkrar greiðslu til nákominna sex til fjörutíu og átta mánuðum fyrir frestdag nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir greiðsluna. Í þessu tilviki verður að miða við að frestdagur sé sá dagur sem umsókn um greiðsluaðlögun er lögð fram.

Í 134. gr. eru tiltekin þrjú skilyrði þess að rifta megi óvenjulegum greiðslum á skuld. Skilyrðin eru hvert um sig sjálfstæð og nægir að eitt þeirra sé fyrir hendi til að rifta megi greiðslu nema greiðslan teljist venjuleg eftir atvikum. Almennt er hægt að segja að 134. gr. eigi við um greiðslur sem inntar eru af hendi með öðrum hætti eða við aðrar aðstæður en gert var ráð fyrir. Ekki skiptir máli hvað þessar ráðstafanir eru kallaðar eða í hvaða formi þær eru. Almennt hefur verið talið að greiðsla á peningakröfu með fasteign teljist vera óvenjulegur greiðslueyrir nema sannað sé að um það hafi verið samið í upphafi.

Að því er varðar skilyrðið um ógjaldfærni er átt við vangetu skuldara til að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Það getur komið fram á ýmsan hátt en í gþl. er einkum miðað við að hann sé ógreiðslufær og geti ekki staðið í skilum þegar kröfur á hendur honum falli í gjalddaga.

Í málinu liggur fyrir að kærendur afsöluðu tengdasyni sínum fasteigninni að G götu nr. 1 í sveitarfélaginu D 2. febrúar 2009 eða tæpum tveimur árum og fimm mánuðum áður en þau óskuðu greiðsluaðlögunar. Stærstur hluti kaupverðsins skyldi greiddur með því að kærendur greiddu upp skuld við tengdason sinn að fjárhæð 300.000 sterlingspund eða sem svaraði 48.750.000 krónum á þeim tíma. Kaupandi skyldi einnig yfirtaka áhvílandi veðlán við Reykjavíkurborg frá 2005, upphaflega að fjárhæð 4.302.000 krónur. Verður ekki annað séð af kaupsamningi og afsali um eignina en að hún hafi verið veðbandalaus að öðru leyti.

Engin gögn liggja fyrir um upphaf skuldar við tengdasoninn, skilmála hennar eða endurgreiðslu. Ekki var gerð grein fyrir þessari skuld á skattframtölum kærenda. Á hinn bóginn má sjá af yfirlitum yfir tékkareikning kæranda A að hann hefur fengið eftirtaldar greiðslur símsendar á tékkareikning sinn hjá Íslandsbanka:

Dags. Fjárhæð í krónum
19.3.2007 13.029.700
16.8.2007 6.465.200
21.8.2007 6.624.700
18.7.2008 7.480.000
25.9.2008 8.275.000
7.4.2009 1.068.190
Samtals 42.942.790

Fóru ofangreindar fjárhæðir í öllum tilvikum til lækkunar á yfirdráttarskuld kæranda á nefndum tékkareikningi. Verður þannig ekki séð að kærendur hafi haft þessa fjármuni til ráðstöfunar til eignamyndunar eða til að greiða af öðrum skuldum.

Þegar framaritað er virt er það mat kærunefndarinnar að með því að afsala fasteigninni að G götu nr. 1 til tengdasonar síns hafi kærendur greitt meinta skuld með óvenjulegum greiðslueyri á þeim tíma er þau voru ekki fær um að standa í skilum með aðrar skuldir og þannig ógjaldfær. Samkvæmt 134. gr., sbr. 194. gr. gþl., sbr. 1. gr. laga nr. 31/2010, er slík ráðstöfun riftanleg að mati kærunefndarinnar og á því e-liður 2. mgr. 6. gr. lge. við í málinu.

Að öllu ofangreindu virtu telur kærunefndin að A og B hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til c- og e-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta