Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 192/2012

Fimmtudaginn 13. nóvember 2014

 A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 15. október 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda sem tilkynnt var með bréfi 27. september 2012.

Með bréfi 19. október 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 2. janúar 2013.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 10. janúar 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust með tölvupósti 22. janúar 2013. Voru þær sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 29. janúar 2013 og óskað eftir afstöðu embættisins. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1978 og 1979. Þau eru gift og búa ásamt tveimur börnum sínum í eigin íbúð að C götu nr. 78 í sveitarfélaginu D.

Kærandi B starfar hjá X ehf. og kærandi A starfar sem skrifstofu- og ræstitæknir í 75% starfi hjá Y ehf. en fær jafnframt greiddar 25% atvinnuleysisbætur. Nettótekjur kærenda eru 443.676 krónur á mánuði. Þær eru vegna launa, atvinnuleysisbóta, barnabóta, vaxtabóta og sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu.

Að mati kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til ársins 2005 er þau fóru í utanlandsferð. Á þeim tíma hafi kærandi B fengið seint útborgað og hafi þau því notað greiðslukort til að ná endum saman. Hafi ferðin reynst mjög kostnaðarsöm og hafi þau á endanum tekið lán til að greiða skammtímaskuldir. Árið 2005 hafi kærendur einnig keypt íbúð fyrir 14.800.000 krónur og hafi tekið til þess 90% lán að fjárhæð 13.320.000 krónur. Árið 2007 hafi kærendur keypt sér bíl með bílaláni. Á því ári hafi einnig fallið á þau skuld sem þau hafi verið í ábyrgð fyrir og hafi þau tekið lán fyrir ábyrgðarskuldinni. Afborganir lána hafi hækkað og hafi kærandi A fengið sér kvöldvinnu til að ná endum saman. Þegar hún hafi orðið að hætta þeirri vinnu hafi farið að halla undan fæti. Kærandi B hafi um tíma verið atvinnulaus en hafi svo fengið starf þar sem laun hans hafi verið umtalsvert lægri en í fyrra starfi. Til að létta greiðslubyrði hafi kærendur fengið lán sín fryst en þegar frystingu lauk hafi staða þeirra verið enn verri en áður.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt upplýsingum umboðsmanns skuldara eru 41.432.836 krónur og eru þær allar innan samnings um greiðsluaðlögun samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Kærendur stofnuðu til helstu skuldbindinga sinna á árunum 2005 til 2008.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 24. febrúar 2011 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. lge.

Umsjónarmaður gerði tillögu að frumvarpi til greiðsluaðlögunar og lagði fyrir kröfuhafa 17. febrúar 2012. Íslandsbanki hafnaði frumvarpinu með vísan til a-liðar 12. gr. lge. enda hafi kærendur einungis lagt til hliðar 50.000 krónur á þeim tíma sem frestun greiðslna stóð yfir, eða í svonefndu greiðsluskjóli. Hafi kærendur þá lagt fram gögn um óvæntan kostnað vegna tannlækninga að fjárhæð 500.000 krónur. Að sögn umsjónarmanns hafi Íslandsbanka verið kynntar skýringar kærenda er frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun hafi verið lagt fram öðru sinni. Hafi bankinn talið skýringar kærenda ófullnægjandi og hafnað frumvarpi að nýju.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 13. júní 2012 tilkynnti umsjónarmaður að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil þar sem kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að láta hjá líða að leggja til hliðar fjármuni á meðan þau leituðu greiðsluaðlögunar. Teldi hann því rétt að greiðsluaðlögunarumleitanir yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Í bréfi umsjónarmanns kom fram að stærsti kröfuhafi kærenda, Íslandsbanki, hefði tvívegis lagst gegn frumvarpi kærenda um samning til greiðsluaðlögunar. Bankinn væri eigandi 92% þeirra krafna sem lýst hefði verið vegna greiðsluaðlögunarumleitana kærenda. Ástæða synjunar bankans væru sú að bankinn teldi að kærendur hefðu ekki lagt til hliðar nægilega fjármuni samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. á tímabili greiðsluskjóls.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 18. júní 2012 þar sem þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunarumleitana. Í málinu hefur komið fram að umboðsmanni skuldara hafi borist andmæli kærenda bréflega. Hafi þau borið því við að hafa þurft að standa straum af nauðsynlegum tannviðgerðum að fjárhæð 500.000 krónur. Einnig hafi heimilisrekstur þeirra verið dýrari en framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara geri ráð fyrir. Loks hafi tekjur þeirra lækkað umtalsvert.

Með bréfi til kærenda 27. september 2012 felldi umboðsmaður skuldara niður ákvörðun sína frá 24. febrúar 2011 um heimild kærenda til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

 II. Sjónarmið kærenda

Kærendur fara fram á að neitun um greiðsluaðlögun verði endurskoðuð eða fundin önnur lausn. Skilja verður það svo að þau krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærendur segjast ekki átta sig á þeim tekjum sem umboðsmaður skuldara telji þau hafa; 495.720 krónur á mánuði. Þó heildartalan sé kannski rétt gefi þessi fjárhæð ekki rétta mynd af tekjum þeirra þar sem umboðsmaður taki árstekjur og deili niður á tólf mánuði auk þess sem embættið bæti við barnabótum, orlofsuppbót og desemberuppbót, sem ekki séu greiddar út mánaðarlega.

Kærendur kveða framfærslukostnað sinn nema 384.217 krónum á mánuði. Umboðsmaður skuldara telji framfærslukostnað þeirra 288.451 krónu á mánuði en þar sé ekki gert ráð fyrir öllum kostnaði. Til viðbótar greiði kærendur 19.000 krónur á mánuði í rafmagn, hita og hússjóð, 13.000 krónur í fasteignagjöld, 20.000 krónur í tryggingar og 60.000 krónur í skóla og dagvistun. Þegar tillit hafi verið tekið til þeirra útgjalda sé meðalgreiðslugeta þeirra um 95.269 krónur á mánuði. Af því leiði að kærendur hafi átt að geta lagt fyrir 2.095.918 krónur en ekki 4.559.918 krónur eins og umboðsmaður skuldara hafi gert ráð fyrir. Ef þau taki tillit til þess að þau hafi rekið tvo bíla, hækki mánaðarlegur kostnaður um 25.000 krónur sem geri alls 550.000 krónur fyrir tímabil greiðsluskjóls. Samkvæmt því lækki mögulegur sparnaður í 1.545.918 krónur. Þegar tannlæknakostnaði að fjárhæð 500.000 krónur sé bætt við hafi kærendur átt að geta lagt til hliðar 1.045.918 krónur. Kærendur kveðast hvorki hafa gögn né kvittanir fyrir óvæntum útgjöldum sínum eða þeim útgjaldaliðum sem hafi verið hærri en þau hafi gert ráð fyrir.

Kærendur hafi ekki kvittanir fyrir auknum framfærslukostnaði en allir viti að matur hafi hækkað í verði og einnig hafi skattar og gjöld hækkað. Sama sé að segja um lækniskostnað, lyf, fjarskipti, samgöngur og fleira.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í 1. mgr. 15. gr. lge. segi að ef fram komi upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. komi fram að ef umsjónarmaður telji skuldara hafa brugðist skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. 12. gr. lge. skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. laganna.

Kærendur hafi lagt fram umsókn um greiðsluaðlögun 11. ágúst 2010. Frumvarp til laga um breytingu á lge. varð að lögum nr. 128/2010 og tók lagabreytingin gildi 15. október 2010. Þann dag hafi frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. lge. hafist gagnvart kærendum. Umboðsmaður hafi sent öllum þeim sem nutu greiðsluskjóls bréf 8. apríl 2011 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. Enn fremur hafi upplýsingarnar verið að finna á heimasíðu embættisins. Að auki séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og umsækjenda. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. fylgt með ákvörðun umboðsmanns skuldara um samþykki greiðsluaðlögunar 24. febrúar 2011 sem borist hafi kærendum með ábyrgðarbréfi. Hafi kærendum því mátt vera ljóst frá upphafi að þeim bæri skylda til að leggja til hliðar þá fjármuni sem þau hefðu aflögu í lok hvers mánaðar.

Frá byrjun nóvember 2010 og fram til loka ágúst 2012 hafi kærendur haft 9.880.703 krónur í heildartekjur að frádregnum skatti samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum. Árið 2011 hafi kærendur fengið 190.704 krónur í barnabætur, 549.786 krónur í vaxtabætur og 144.288 krónur í sérstaka vaxtaniðurgreiðslu. Árið 2012 séu áætlaðar barnabætur þeirra 194.374 krónur. Verði því lagt til grundvallar að kærendur hafi haft alls 10.905.859 krónur, eða 495.720 krónur á mánuði, í tekjur hið minnsta frá því að þau komust í greiðsluskjól um miðjan október 2010 eða í 22 mánuði. Hafi áætluð heildarútgjöld þeirra verið 288.451 króna á mánuði miðað við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara. Samkvæmt því sé gengið út frá því að kærendur hefðu átt að geta lagt fyrir um 4.559.918 krónur á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðalgreiðslugetu 207.269 krónur á mánuði í 22 mánuði. Við þessa útreikninga hafi verið tekið tillit til breytilegra tekna kærenda á tímabilinu en miðað sé við meðaltal heildartekna.

Kærendur hafi lagt fram reikninga til umsjónarmanns vegna tannlæknakostnaðar að fjárhæð um 500.000 krónur. Hafi þau einnig borið því við að heimiliskostnaður þeirra hafi almennt verið hærri en neysluviðmið umboðsmanns skuldara segi til um, en það hafi kærendur ekki stutt með gögnum.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Umsjónarmanni sé almennt óheimilt að miða við annan og hærri framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir umsækjanda með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara séu tengd vísitölu og byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar. Þegar metið sé hvort umsækjandi hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna standi sé jafnan gert ráð fyrir nokkru svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum í hverjum mánuði. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og umsækjendur geti sýnt fram á með haldbærum gögnum.

Samkvæmt framangreindu sé hér miðað við að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi verið um 288.451 króna á meðan þau nutu greiðsluskjóls og sé gert ráð fyrir óvæntum útgjöldum í þeirri tölu. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið í því skyni að kærendum sé veitt svigrúm til að bregðast við óvæntum, minni háttar útgjöldum, enda liggi fyrir að heildarfjárhæð útgjalda hafi verið eitthvað minni þegar frestun greiðslna hófst. Miðað sé við framfærslukostnað septembermánaðar 2012 fyrir tvo fullorðna og tvö börn.

Kærendur hafi ekki lagt fram gögn sem veitt gætu tæmandi skýringar á því hvers vegna þau hafi ekki lagt til hliðar fé í námunda við 4.559.918 krónur í greiðsluskjólinu að frátöldum tannviðgerðum að fjárhæð 500.000 krónur, sem telja mætti til nauðsynlegra heimilisútgjalda samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Sé tekið tillit til tannviðgerða hefðu kærendur átt að getað lagt fyrir allt að 4.059.918 krónur í greiðsluskjóli. Útskýringar kærenda skýra því aðeins að hluta hvers vegna þau hafi ekki lagt til hliðar hærri fjárhæð.

Við töku stjórnvaldsákvörðunar sé ekki fært að byggja á öðru en því sem fyrir liggi í málinu. Við meðferð málsins hjá umboðsmanni skuldara hafi kærendum gefist færi á að láta álit sitt í ljós og leggja fram gögn. Þar með hafi andmælaréttur kærenda verið virtur. Kærendur hafi lagt fyrir kærunefnd greiðsluaðlögunarmála upplýsingar og gögn varðandi framfærslukostnað sem ekki hafi legið fyrir í málinu við töku ákvörðunar umboðsmanns skuldara. Þar sem þessi gögn hafi ekki legið fyrir þegar ákvörðun var tekin, geti þau ekki leitt til ógildingar hennar.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi umboðsmaður talið að kærendur hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge. og hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Eins og fyrr getur lagði umsjónarmaður það til með bréfi til umboðsmanns skuldara 13. júní 2012 að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærendur hafi ekki lagt til hliðar þá fjármuni sem þeim hafi verið unnt að leggja til hliðar á því tímabili sem þau nutu greiðsluskjóls eða frá miðjum október 2010 þar til í júlí 2012.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II í þeim lögum hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. 15. október 2010. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kærendum því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna frá 15. október 2010 en þann dag tók bráðabirgðaákvæði II í lge. gildi. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýst um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafa kærendur lagt til hliðar 50.000 krónur á tímabili greiðsluskjóls. Að mati umboðsmanns skuldara hafi sú fjárhæð átt að nema 4.059.918 krónum en þá hefur verið tekið tillit til tannviðgerða að fjárhæð 500.000 krónur. Kærendur hefðu átt að leggja til hliðar fjármuni samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. frá miðjum október 2010 þar til í júlí 2012, eins og áður er komið fram, eða í 22 mánuði alls.

Í frumvarpi umsjónarmanns til greiðsluaðlögunarsamnings frá 11. apríl 2012 kemur fram að heildarráðstöfunartekjur kærenda séu 472.930 krónur á mánuði og framfærslukostnaður þeirra 384.217 krónur á mánuði. Samkvæmt því sé greiðslugeta þeirra áætluð 88.713 krónur á mánuði. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild til greiðsluaðlögunar kemur fram að greiðslugeta kærenda ætti að vera um 207.269 krónur á mánuði að meðaltali. Kærendur kveðast hafa til ráðstöfunar 95.269 krónur á mánuði en ekki 207.269 krónur eins og umboðsmaður skuldara gerði ráð fyrir í útreikningum sínum.

Í 4. mgr. 6. gr. lge. segir að notast skuli við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Í greiðsluáætlun umboðsmanns skuldara frá 27. september 2012 er að finna yfirlit yfir framfærslukostnað kærenda. Þar er ekki gert ráð fyrir kostnaði við vátryggingar, rafmagn, hita, hússjóð, fasteignagjöld, skóla eða dagvistun sem kærendur telja 106.400 krónur á mánuði. Þar sem framangreind atriði eru hluti af framfærslukostnaði er nauðsynlegt að taka tillit til þeirra í greiðsluáætlun. Af þessum sökum er ekki unnt að miða við að kærendur hafi átt að leggja fyrir þá fjárhæð sem umboðsmaður skuldara gerir ráð fyrir, eða 207.269 krónur á mánuði í 22 mánuði eða alls 4.559.918 krónur. Kærendur hafa á hinn bóginn ekki lagt fram gögn sem réttlæta að miðað sé að öðru leyti við hærri framfærslu í þeirra tilviki. Verður því samkvæmt framangreindu að miða við þá fjárhæð og þau framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara byggði ákvörðun sína á, 207.269 krónur, að frádregnum 106.400 krónum. Samkvæmt því var mánaðarleg greiðslugeta kærenda 100.869 krónur á mánuði í 22 mánuði, eða alls 2.219.118 krónur á tímabili greiðsluskjóls. Framlagðir tannlæknareikningar að fjárhæð 500.000 krónur eru að mestu leyti frá árunum 2008 og 2009, þ.e. áður en kærendur komust í greiðsluskjól, og er því ekki unnt að taka tillit til þeirra í málinu.

Samkvæmt þessu og miðað við gögn málsins telur kærunefndin ekki hjá því komist að miða við að kærendur hefðu átt að geta lagt til hliðar að minnsta kosti 2.219.118 krónur í greiðsluskjóli. Það er mat kærunefndarinnar að kærendum hafi mátt vera það ljóst, með vísan til skriflegra leiðbeininga umboðsmanns skuldara, að þeim hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabilinu eins og að framan er lýst. Fellst kærunefndin því á sjónarmið umboðsmanns skuldara um að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að kærendur hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara þar um er því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta