Nr. 191/2020 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 28. maí 2020 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 191/2020
í stjórnsýslumálum nr. KNU20020055 og KNU20020056
Kæra [...],
[...] og barns þeirra
á ákvörðunum
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 25. febrúar 2020 kærðu [...], fd. [...], ríkisborgari Gana (hér eftir K) og [...], fd. [...], ríkisborgari Gana (hér eftir M) ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 3. febrúar 2020 um að synja kærendum og barni þeirra, [...], fd. [...], ríkisborgara Gana (hér eftir A), um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Kærendur krefjast þess aðallega að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að K verði veitt alþjóðleg vernd með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga en M og A verði veitt alþjóðleg vernd með vísan til 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að þeim verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að þeim verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
K sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 24. maí 2019 en M kom síðar og sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 16. júlí 2019. Kærendur komu í viðtöl hjá Útlendingastofnun m.a. dagana 26. nóvember og 12. desember 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðunum, dags. 3. febrúar 2020, synjaði Útlendingastofnun kærendum og barni þeirra um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Voru ofangreindar ákvarðanir kærðar til kærunefndar útlendingamála þann 25. febrúar 2020. Kærunefnd barst greinargerð kærenda ásamt fylgigögnum þann 20. mars 2020. Þá bárust frekari gögn dagana 4. og 15. maí 2020.
III. Ákvarðanir Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærendur byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að K sé í hættu í heimaríki sínu vegna aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi og M sé í hættu í heimaríki sínu vegna ótta við mann sem hann kveður vera frænda látins föður síns og að honum sé lögregluvernd útilokuð í landinu. Þá sé umsókn A byggð á því að foreldrar hennar eigi hættu á að sæta ofsóknum í heimalandi þeirra. Niðurstaða Útlendingastofnunar var sú að kærendur séu ekki flóttamenn og þeim skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kærendum var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.
Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli barns kærenda, kom fram að það væri svo ungt að árum að ekki yrði talið tilefni til að taka viðtal við það. Fram kom að umsókn barns kærenda væri grundvölluð á framburði foreldra þess og þeim hefði verið synjað um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Í ákvörðunum foreldra hefði jafnframt verið tekin afstaða til aðstæðna barnsins og hvernig þær aðstæður horfi við einstökum þáttum ákvörðunarinnar. Var það niðurstaða Útlendingastofnunar með vísan til niðurstöðu í máli foreldra þess, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, útlendingalaga og barnaverndarlaga, að hagsmunum barns kærenda væri ekki stefnt í hættu fylgdi það foreldrum sínum til heimaríkis. Barni kærenda var vísað frá landinu.
Kærendum var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kærendum jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kærenda
Í sameiginlegri greinargerð kærenda kemur fram að K hafi fæðst í borginni [...] en alist upp til 10 ára aldurs í þorpinu [...] í Gana. Í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi K greint frá því […] [...] og [...]. Frændi hennar hafi [...] og flúið með hana til Líbíu en skilið hana þar eina eftir. Þegar kærandi hafi verið 17 ára gömul hafi hún ákveðið að flýja til Ítalíu.
M hafi greint frá því að hafa neyðst til að flýja heimaríki sitt vegna yfirgangs og hótana föðurfjölskyldu hans. Við andlát föður M hafi hann reynt að endurheimta eignir fjölskyldunnar en án árangurs. Hann hafi að lokum gefist upp og flúið land vegna hótana um líflát. Föðurfjölskylda M sé tengd þorpshöfðingjunum auk þess sem lögreglan sé spillt og fjölskylda hans hafi því enga aðstoð geta fengið frá yfirvöldum.
Kærendur krefjast þess aðallega að hin kærða ákvörðun K verði felld úr gildi og henni verði veitt alþjóðleg vernd hér á landi á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þá krefjast kærendur þess að M og A verði veitt alþjóðleg vernd á grundvelli fjölskyldusameiningar, sbr. 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga.
Til vara er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að kærendum og barni þeirra verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Byggja kærendur á því að þau eigi öll á hættu að sæta alvarlegu líkamlegu ofbeldi, jafnvel dauða, sem og annarri ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð og refsingu verði þeim gert að fara til heimaríkis í skilningi 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Áður hafi verið vikið að stöðu K í heimaríki en hún eigi á hættu ofsóknir af hálfu fyrrnefnds manns sem hún hafi flúið frá. Vegna stöðu hennar eigi hún jafnframt á hættu að sæta ofsóknum frá öðrum í heimaríki, jafnvel stjórnvöldum. K hafi eignast barn utan hjónabands með M í óþökk fjölskyldu sinnar […] og því nyti hún ekki stuðnings fjölskyldu sinnar í heimaríki. Vegna spillingar og máttleysis yfirvalda megi M búast við ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð í heimaríki af hálfu föðurfrænda síns og jafnvel dauða. Kærendur telji að þá þurfi að gæta sérstaklega að hagsmunum A til að alast upp við öryggi og stuðning sinnar nánustu fjölskyldu og […].
Til þrautavara krefjast kærendur að þeim og barni þeirra verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili veitingu slíks dvalarleyfis þegar útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki. Kærendur vísa til athugasemda við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga. Af hálfu kærenda er byggt á því að í heimaríki þeirra viðgangist gróf mannréttindabrot. Kærendur og barn þeirra eigi á hættu að sæta ofsóknum og illri meðferð í heimaríki og að þau muni ekki geta leitað til yfirvalda eftir vernd. Kærendur telji auk þess að félagslegar aðstæður K í heimaríki séu afar erfiðar, t.a.m. muni hún ekki hafa stuðning fjölskyldu sinnar, auk þess sem hún óttist útskúfun og fordóma. Þá kveði kærendur að M muni ekki fá stuðning frá fjölskyldu sinni og væri í stöðugri hættu vegna hótana föðurfjölskyldu sinnar. Kærendur telji að framtíð A væri stefnt í hættu væri henni gert að fara til heimaríkis með foreldrum sínum og hún hefði engan félagslegan stuðning þar í landi.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Eins og fram er komið kom M hingað til lands þann 16. júlí 2019, eða um sjö vikum eftir komu K til landsins. Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 18. júlí sama ár kvaðst M eiga maka og gaf upp nafn K. Er M var spurður hvar hún væri stödd kvaðst M ekki vita hvar hún væri niður komin. Hún hafi verið á Ítalíu og hafi M reynt að hringja í hana og senda henni skilaboð á samfélagsmiðlum en hún ekki svarað. Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 29. júlí sama ár var M spurður af talsmanni sínum hvort hann vissi að K væri stödd hér á landi. Svaraði M því neitandi. Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 12. júní 2019 kvaðst K vera einhleyp en aðspurð kvað hún föður ófædds barns hennar bera nafn sem svipar mjög til nafns M.
Í 1. mgr. 112. gr. laga um útlendinga kemur fram að í málum sem sýna þarf fram á fjölskyldutengsl er Útlendingastofnun heimilt að óska eftir því við umsækjanda um alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi að hann gangist undir rannsókn á erfðaefni og töku lífsýnis í því skyni að staðfesta að um skyldleika sé að ræða ef fyrirliggjandi gögn í því efni eru ekki talin veita fullnægjandi sönnun um skyldleika sem byggt er á eða hefur vægi í málinu. Þá mælir rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað geti ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Kröfur til rannsóknar í hverju máli ráðast af lagagrundvelli málsins og einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda, þ.m.t. þeim málsástæðum sem hann beri fyrir sig.
Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun var frásögn K um atvik sem áttu sér stað í heimaríki hennar lögð til grundvallar í málinu. Lá því fyrir að hún hefði takmarkað stuðningsnet þar í landi. Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hennar var byggt á því að hún og A nytu stuðnings M, yrðu þau send til heimaríkis. Að mati kærunefndar verða fyrirliggjandi gögn málsins, einkum viðtöl við M og K hjá Útlendingastofnun, hins vegar ekki talin veita fullnægjandi sönnun um skyldleika M og A og að unnt sé að leggja til grundvallar að K og A muni njóta stuðnings M í heimaríki. Telur kærunefnd að til þess að komast að þeirri niðurstöðu, eins og atvikum er háttað í þessu máli , sé nauðsynlegt að framkvæmt sé faðernispróf á A til að eyða vafa um skyldleika hennar við M. Það er því mat kærunefndar að Útlendingastofnun hafi borið að rannsaka hvort M væri raunverulegur faðir A áður en ákvörðun var tekin í málum kærenda.
Í hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar í máli K kemur fram að fallist sé á trúverðugleika frásagnar K að öðru leyti en að hún sé í hættu á að sæta áreiti eða sérstökum fordómum sem jafna megi til ofsókna í skilningi 37. gr. útlendingalaga í heimaríki sínu. Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga skal Útlendingastofnun tryggja, eins fljótt og kostur er, að fram fari, með aðstoð viðeigandi sérfræðinga, einstaklingsbundin greining á því hvort umsækjandi teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. Teljist umsækjandi vera í slíkri stöðu skal meta hvort hann hafi vegna þessa einhverjar sérþarfir sem taka þurfi tillit til við meðferð málsins, t.d. þörf fyrir tiltekna heilbrigðisþjónustu. Útlendingastofnun lagði til grundvallar frásögn K þegar ákvörðun var tekin í málinu. Er því gengið út frá því í ákvörðuninni að frásagnir K séu sannar af þeim atburðum sem gerðust í heimaríki og Líbíu, en að mati kærunefndar eru þeir atburðir, samkvæmt frásögn hennar, sérstaklega alvarlegir þegar er litið til aldurs K þegar þeir áttu sér stað. Með hliðsjón af stöðu K, eðli þeirra atburða sem hún hefur lýst og þeim áhrifum sem ætla má að þeir hefðu haft á andlega heilsu K telur kærunefnd að Útlendingastofnun hafi borið að framkvæma sálfræðimat á K, m.a. til að varpa ljósi á getu hennar til að styðja við barn sitt verði þau send aftur til heimaríkis. Er það mat kærunefndar að með framangreindum annmörkum á málsmeðferð kærenda hjá Útlendingastofnun hafi stofnunin ekki fullnægt skyldu sinni skv. 10. gr. stjórnsýslulaga og 23. gr. laga um útlendinga.
Meginmarkmið með stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Eins og að framan greinir telur kærunefnd að annmarkar hafi verið á rannsókn Útlendingastofnunar í málum kærenda og að ekki hafi farið fram viðhlítandi mat á málum þeirra. Kærunefnd telur þá annmarka verulega og að þeir kunni að hafa haft áhrif á niðurstöðu mála þeirra. Kærunefnd telur jafnframt að ekki sé unnt að bæta úr þeim annmörkum á kærustigi og því rétt að mál kærenda hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun.
Með vísan til alls þess sem framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hinar kærðu ákvarðanir úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsóknir kærenda um alþjóðlega vernd til nýrrar meðferðar.
Úrskurðarorð
Ákvarðanir Útlendingastofnunar er felldar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kærenda og barns þeirra til meðferðar á ný.
The decisions of the Directorate of Immigration in the cases of the appellants and their child are vacated. The Directorate is instructed to re-examine their cases.
Hjörtur Bragi Sverrisson
Bjarnveig Eiríksdóttir Ívar Örn Ívarsson