Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 17/2010. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 9. ágúst 2010

í máli nr. 17/2010:

Sæmundur Sigmundsson ehf.

gegn

Borgarbyggð

Hinn 30. júlí 2010 kærði Sæmundur Sigmundsson ehf. ákvörðun Borgarbyggðar um val á tilboði á leið 8 í útboðinu „Útboð á skólaakstri við grunnskóla í Borgarbyggð 2010-2012“. Í kæru voru kröfur kæranda orðaðar með eftirfarandi hætti:

„Aðalkröfur:

1.      Að kærunefnd útboðsmála stöðvi samningsgerð kærða við Sigurgeir Sindra Sigurgeirsson um leið 8 þar til endanlega hefur verið leyst úr kæru kæranda.

2.      Að kærunefnd útboðsmála ógildi ákvörðun kærða um að ganga til samninga við Sigurgeir Sindra Sigurgeirsson um leið 8.

 

Varakrafa:

Að kærunefnd útboðsmála láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu kærðu gagnvart kæranda.

 

Í öllum tilvikum er þess krafist að kærunefnd útboðsmála ákveði að kærði greiði kæranda kostnað við að hafa kæru þessa uppi að skaðlausu samkvæmt mati nefndarinnar eða framlögðu málskostnaðaryfirliti.“

 

Kærða var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir og koma að frekari rökstuðningi fyrir vali á tilboði. Sérstaklega var óskað eftir athugasemdum kærða vegna kröfu kæranda um stöðvun á gerð samnings. Athugasemdir kærða bárust nefndinni 9. ágúst 2010.

 

Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála til skoðunar hvort rétt þyki að stöðva gerð samnings.Endanlega verður leyst úr öðrum kröfum kærunnar síðar.

 

 

 

I.

Hinn 2. júní 2010 auglýsti kærði „Útboð á skólaakstri við grunnskóla í Borgarbyggð 2010-2012“. Í útboðinu var óskað eftir tilboðum í 16 akstursleiðir í grunnskólana í Borgarnesi, á Varmalandi, á Kleppjárnsreykjum og á Hvanneyri. Kafli 1.1.4 í útboðinu nefnist „Gerð og frágangur tilboða“ og í honum segir m.a.:

„Tilboð skulu sett fram á meðfylgjandi tilboðsblöðum eða á sambærilegan hátt. Í einingarverðum tilboðsskrár skal innifalinn allur kostnaður við verkið.

Heimilt er að bjóða í einstakar akstursleiðir eða fleiri en eina en bjóða skal í alla verkþætti þeirrar leiðar sem boðið er í“.

 

Kafli 1.2.1 í útboðinu nefnist „Taka tilboða“ og í honum segir:

„Borgarbyggð mun taka lægsta tilboði í hverja akstursleið að því gefnu að lægstbjóðandi uppfylli þær kröfur sem gerðar eru skv. útboði þessu.

Verkkaupa er einnig heimilt að hafna öllum tilboðum“.

 

Í kafla 2.2.4. kom fram að áætlaður fjöldi nemenda á leið 8 veturinn 2010-2011 sé 7. Það sama kom fram í kafla 2.3.8. en þar var einnig tekið fram að nemendafjöldi og akstursleið gæti breyst.

Kærandi var meðal bjóðenda í útboðinu og hinn 2. júlí 2010 tilkynnti kærði að ekki yrði samið við kæranda um akstur á leið nr. 8 enda væri tilboð Sigurgeirs Sindra Sigurgeirssonar lægsta tilboðið miðað við þann fjölda sem líklegast yrði á leiðinni á útboðstímabilinu.

           

II.

Kærandi segir að vegna samtala við skólastjóra grunnskólans á Varmalandi hafi hann vitað að á leið 8 yrðu 9-10 nemendur á skólaárinu 2010-2011 og að öllum líkindum einnig skólaárið 2011-2012. Kærandi segir að sú staðreynd hafi verið öllum hlutaðeigandi ljós á meðan á útboðsferlinu stóð. Kærandi segist því hafa miðað sitt besta tilboð við það að 9-12 nemendur yrðu á leiðinni. Kærandi segist hafa átt lægsta tilboð í akstur þegar um var að ræða 9-12 farþega á leið nr. 8 en þrátt fyrir það hafi kærði ekki ætlað að semja við kæranda um akstur við kæranda á þeirri leið enda hafi við valið verið miðað við 7 börn á leiðinni.

            Kærandi telur að mat tilboða hafi ekki tekið mið af raunverulegum fjölda nemenda eins og gert var þegar leiðin var boðin út árið 2004 en þá hafi nemendafjöldi á akstursleiðinni verið 13 börn. Kærandi telur að kærði hafi vitað frá upphafi að nemendur á leiðinni yrðu fleiri en 7 og því hafi kærði ekki valið það tilboð sem miðist við þann fjölda barna sem líklegast yrðu á akstursleiðinni. Kærandi segir jafnframt að útboðsgögn hafi verið samin út frá röngum forsendum þar sem kærði vissi að nemendur á leiðinni yrðu fleiri en gert var ráð fyrir í útboðslýsingu. Þá segir kærandi að útboðslýsingu hafi verið ábótavant þar sem forsendur fyrir vali tilboðs hafi ekki verið tilgreindar eins nákvæmlega og framast var unnt og þannig hafi verið brotið gegn 45. gr. laga nr. 84/2007. Útboðsgögn hafi eingöngu tekið fram að lægsta tilboði yrði tekið og ekki hafi komið fram hver fjárhæð útboðanna hafi verið samtals.

           

III.

Kærði heldur því fram að vísa eigi málinu frá þar sem kærandi sé Sæmundur Sigmundsson ehf. en að Sæmundur Sigmundsson hafi boðið í leið 8 í eigin nafni en félagið hafi ekki boðið í skólaaksturinn.

            Kærði segir að í útboðsgögnum hefði verið áætlað að 7 börn yrðu á leið nr. 8 á næsta skólaári en sú áætlun hefði tekið mið af þeim börnum sem ættu lögheimili á leiðinni eins og hún var skilgreind í útboðsgögnum. Þegar útboðsgögn hafi verið gerð hafi ekki legið fyrir um skólavist fyrir önnur börn sem myndu vera á bæjum á þessari leið. Aftur á móti hafi verið tekið fram í útboðsgögnum að fjöldi farþega réðist af þeim fjölda nemenda sem þyrftu á þjónustunni að halda hverju sinni. Þá sagði að börnum gæti fjölgað eða fækkað á bæjunum og því yrði að bregðast við eins og kostur væri og kærði hyggðist ekki breyta afstöðu sinni til töku tilboð í leið nr. 8.

 

IV.

Ákvörðun um stöðvunarkröfu samkvæmt 96. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, er bráðabirgðaákvörðun, sem tekin er með skömmum fyrirvara og oft án þess að kærunefnd útboðsmála hafi borist öll gögn sem nauðsynleg eru. Af þeirri ástæðu verður ekki tekin afstaða til frávísunarkröfu kærða fyrr en í endanlegum úrskurði í málinu.

            Sú skylda er lögð á kaupendur í opinberum innkaupum að þeir tilgreini með eins nákvæmum hætti og unnt er hvaða forsendur verða lagðar til grundvallar vali á tilboðum. Mikilvægt er að bjóðendur geti áttað sig á því fyrirfram hvernig staðið verður að mati á hagkvæmasta tilboði og hagað boðum sínum í samræmi við það. Forsendur fyrir vali tilboða verða þannig að koma skýrlega fram í útboðsgögnum og bjóðendum ber sömuleiðis að haga tilboðum sínum eftir þeim forsendum sem þar koma fram.

Í útboðsgögnum hins kærða útboðs kemur skýrlega fram að á leið 8 var gert ráð fyrir 7 nemendum. Kærða var þannig rétt að velja það tilboð sem var hagstæðast miðað við 7 nemendur.

Með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum telur kærunefnd útboðsmála ekki verulegar líkur á því að brotið hafi verið gegn lögum nr. 84/2007, um opinber innkaup. Þannig er skilyrði 1. mgr. 96. gr. laganna ekki fullnægt og því verður að hafna kröfu um stöðvun samningsgerðar.

 

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda um að stöðvuð verði samningsgerð kærða, Borgarbyggðar, við Sigurgeir Sindra Sigurgeirsson um leið 8 í útboði á skólaakstri við grunnskóla í Borgarbyggð 2010-2012, er hafnað.

 

 

Reykjavík, 9. ágúst 2010.

Páll Sigurðsson

Auður Finnbogadóttir

Stanley Pálsson

                                                              

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík,                      2010.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta