Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 23/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 1. október 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 23/2009.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að kærandi, A, sótti um atvinnuleysisbætur með umsóknum dags. 20. október 2008 og 24. nóvember 2008. Tekin var afstaða til fyrri umsóknar hans á þeim grundvelli að hann væri launamaður en síðari umsóknin var afgreidd á þeim grundvelli að hann væri sjálfstætt starfandi einstaklingur. Með bréfi, dags. 15. desember 2008, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að stofnunin hefði hafnað umsókn hans um atvinnuleysisbætur frá 24. nóvember 2008 og með bréfi, dags. 16. mars 2009, hafnaði Vinnumálastofnun umsókn kæranda frá 20. október 2008. Kærandi kærði fyrri ákvörðun Vinnumálastofnunar með kæru sem barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 3. mars 2009 og síðari ákvörðun Vinnumálastofnunar kærði kærandi til úrskurðarnefndarinnar með bréfi sem barst með tölvupósti 12. maí 2009. Kærandi krefst þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur frá því að hann sótti um atvinnuleysisbætur í hvoru tilviki fyrir sig en Vinnumálastofnun krefst þess að hinar kærðu ákvarðanir standi.

Kærandi starfaði fyrir og sat í stjórn byggingafélagsins X ehf. frá 1. janúar 2005 til 31. desember 2007. Hann lét af störfum vegna gjaldþrots fyrirtækisins. Vottorð vinnuveitanda er undirritað af kæranda sjálfum og dagsett 24. janúar 2008 en það var móttekið af hálfu Vinnumálastofnunar 4. desember 2008. Kærandi sótti fyrst um bætur þann 20. október 2008. Hann kveðst ekki hafa verið á neinum launum frá 1. janúar 2008 þar sem rekstur X ehf. hafi legið niðri sökum fjárhagserfiðleika og hafi gert það frá seinni hluta ársins 2007. Hann hafi heldur ekki fengið greidd laun fyrir árið 2007 og muni ekki fá þau greidd frá Ábyrgðarsjóði launa þar sem hann hafi átt 25% hlut í X ehf.

Kæranda var með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 25. nóvember 2008, tilkynnt að stofnunin hafi ákveðið, þann 21. nóvember 2008, að hafna umsókn hans um atvinnuleysisbætur frá 20. október 2008 þar sem umbeðin gögn um lokun eigin rekstrar hafi ekki borist. Þegar kærandi lagði fram frekari gögn vegna umsóknar sinnar frá 20. október 2008 tók Vinnumálastofnun nýja ákvörðun í máli hans sem tilkynnt var með bréfi, dags. 16. mars 2009. Þar var honum tilkynnt að umsókn hans um atvinnuleysisbætur hefði verið hafnað þar sem ekki hefði verið greitt tryggingagjald vegna hans og hann uppfyllti því ekki 1. mgr. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um ávinnslu launamanns, sbr. 3. gr. laganna. Þessa ákvörðun kærði kærandi til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 8. maí 2009, sem barst með tölvupósti þann 12. maí 2009.

Með bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 15. desember 2008, var honum tilkynnt að umsókn hans um atvinnuleysisbætur frá 24. nóvember 2008 hafi verið hafnað þar sem hann uppfyllti ekki skilyrði 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um ávinnslu sjálfstætt starfandi einstaklings. Þessa ákvörðun kærði kærandi til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 30. janúar 2009. Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndarinnar er vísað til þess að skv. 1. mgr. 19. gr. þágildandi laga um atvinnuleysistryggingar hafi sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. b-lið 3. gr. laganna, talist að fullu tryggður samkvæmt lögunum eftir að hafa starfað samfellt á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en sótt er um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum. Eitt af almennum skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga sé skv. h-lið 1. mgr. 18. gr. þágildandi laga um atvinnuleysistryggingar að viðkomandi einstaklingur hafi staðið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda. Samkvæmt b-lið 3. gr. þágildandi laga um atvinnuleysistryggingar hafi sá, sem greiddi staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi einu sinni á ári, ekki talist vera sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi laganna. Það sé ljóst að þegar umsókn kæranda frá 24. nóvember 2008 hafi verið tekin til skoðunar hafi ekki verið staðið skil á mánaðarlegri staðgreiðslu af sjálfstæðum atvinnurekstri. Í desember 2007 hafi borist eingreiðsla vegna starfsemi X ehf. en þar sem sá er skilaði staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi einu sinni á ári taldist ekki sjálfstætt starfandi gat kærandi ekki talist vera sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi 3. gr. laganna.

Vegna umsóknar kæranda frá 20. október 2008 hafi Vinnumálastofnun einnig kannað rétt kæranda sem launamanns skv. a-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þá hafi komið í ljós að hann hafi ekki heldur átt rétt sem slíkur þar sem hann hafði ekki verið í 25% starfshlutfalli í tólf mánuði fyrir umsóknardag ásamt því að ekki hafi verið greitt fyrir hann tryggingargjald.

 

2.

Niðurstaða

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 20. október 2008 og 24. nóvember 2008. Tekin var afstaða til fyrri umsóknar hans á þeim grundvelli að hann væri launamaður en síðari umsóknin var afgreidd á þeim grundvelli að hann væri sjálfstætt starfandi einstaklingur. Vinnumálastofnun hafnaði báðum umsóknum kæranda, þeirri síðari með bréfi dagsettu 15. desember 2008 og þeirri fyrri með bréfi dagsettu 16. mars 2009.

Engin gögn hafa verið lögð fram í málinu sem benda til þess að kærandi hafi með reglulegu millibili skilað staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingargjaldi sem sjálfstætt starfandi einstaklingur. Skilyrði fyrri málsliðar þágildandi b-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er því ekki uppfyllt. Samkvæmt yfirliti frá Skattstjóranum í Z greiddi félag sem hann átti fjórðungshlut í, X ehf., honum laun í desember 2007 að fjárhæð Y kr. Þegar kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 24. nóvember 2008 þá gilti sú regla að sá sem greiðir staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi einu sinni á ári teldist ekki vera sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi laganna, sbr. þágildandi síðari málslið b-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þegar af þessum ástæðum ber að staðfesta ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 15. desember 2008.

Þegar tekin er afstaða til umsóknar kæranda frá 20. október 2008 verður að horfa til gagna frá skattyfirvöldum um raunveruleg skattskil kæranda. Samkvæmt þeim gögnum fékk kærandi áðurnefnda launagreiðslu í desember 2007 frá X ehf. og 161.468 kr. greiðslu frá Tryggingastofnun ríkisins í ágúst 2008. Það er hugtaksskilgreining á launamanni að greitt hafi verið tryggingargjald vegna starfs samkvæmt lögum um tryggingagjald ásamt því að launamaður hafi unnið launað starf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði, sbr. a-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Af framlögðum gögnum er ljóst að kærandi uppfyllti hvorugt skilyrðið þegar hann sótti um atvinnuleysisbætur 20. október 2008. Þegar af þessum ástæðum ber að staðfesta ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 16. mars 2009.

 

Úr­skurðar­orð

Ákvarðanir Vinnumálastofnunar frá 15. desember 2008 og 16. mars 2009, um að hafna bótarétti A, eru staðfestar.

 

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta