Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 28/2009

Fimmtudaginn 1. október 2009

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 23. júlí 2009 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 16. júní 2009.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 15. júní 2009 um útreikning á greiðslum til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði.

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Ég var við nám hjá B-skóla frá sept 2007 til apríl 2008, þetta nám var frá 8:30 til 13:00 alla virka daga vikunar, ég hafði ekki rétt á atvinnuleysisbótum á þessum tíma vegna þess að ég var í skóla og fór sem sagt í samráði við heimilislæknis á endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun til að komast aftur á almennan vinnumarkað, enda bauðst mér vinna eftir þetta nám. Vegna þess að ég var á endurhæfingarlífeyri á þeim tíma sem greiðsluáætlun Fæðingarorlofssjóðs var reiknuð skerðast tekjur mínar töluvert, og ég sem einstæð móðir með tvö börn má ekki mikið við því, var mér þá bent á að reyna að fá þann tíma sem ég var í námi felldan út úr greiðsluáætluninni, ég hef bæði sent einkannir og alþjóðlegt prófskírteini, einnig staðfestingu frá Vinnumálastofnun að ég hafa ekki mátt vera á bótum meðan ég var í námi, mér var sagt að Menntamálaráðuneytið þyrfti að samþykkja skólann og hef ég hringt þangað og fengið þau svör að ástæða þess að hann sé ekki samþykktur þar eigi ekki að hafa áhrif á ákvörðun fæðingarorlofsjóðs, að þetta flokkaðist sem gilt nám. Ástæða þess að ég fór á endurhæfingarlífeyri en ekki að vinna með skólanum er sú að mín andlega hlið var mjög veik á þessum tíma, eftir erfiða reynslu með fyrrum barnsföður, og að aðstæður heima fyrir buðu ekki upp á það, dóttir mín er með ADHD og þurfti ég að sinna henni eftir skóla, gat þess vegna ekki unnið seinni parts dag og á kvöldin. Það mundi hjálpa mér mikið á þessum erfiðu tímum að fá tekjulægstu mánuðina á greiðsluáætluninni minni frá Fæðingarorlofsjóði fellda út vegna þess að skólaganga mín var mín fulla vinna, miðað við að vera einstæð móðir með barn sem þarf sérstaka athygli. Ég sé ekki fram á að geta séð fyrir tveim börnum á þessum tekjum í 8 mánuði. “

 

Með bréfi, dagsettu 28. júlí 2009, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 25. ágúst 2009. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn, dags. 13. apríl 2009, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 6 mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar 24. maí 2009.

Auk umsóknar kæranda barst vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 14. apríl 2009, tilkynning um tilhögun fæðingarorlofs, dags. 13. apríl 2009, launaseðlar frá D fyrir febrúar og mars 2009, greiðslusaga frá Vinnumálastofnun–Greiðslustofu, dags. 17. apríl 2009, vottorð um viðmiðunartekjur atvinnuleysistrygginga, dags. 29. apríl 2009, bréf frá Vinnumálastofnun–Greiðslustofu, dags. 18. nóvember 2008, tölvupóstur frá Vinnumálastofnun–Greiðslustofu, dags. 28. apríl 2009, greiðsluáætlanir frá TR vegna áranna 2007 – 2009, bréf frá B-skóla, dags. 30. október 2008 og ódagsett yfirlit einkunna frá sama skóla. Enn fremur lágu fyrir upplýsingar úr skrám ríkisskattstjóra og þjóðskrá Hagstofu Íslands.

Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 15. júní 2009, var henni tilkynnt að umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið samþykkt og að mánaðarleg greiðsla yrði X kr. á mánuði miðað við 100% orlof. Þann 25. ágúst 2009 var kæranda send leiðrétt greiðsluáætlun og við það hækka mánaðarlegar greiðslur til kæranda í X kr. á mánuði miðað við 100% orlof.

Í 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, er kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkra- og slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna, sbr. a – e liði 2. mgr. 13. gr. a. Þegar um er að ræða greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkrasjóði stéttarfélags, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna á viðmiðunartímabili skal taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur miðuðust við og skal aldrei taka mið af hærri fjárhæð en nemur þeim viðmiðunartekjum enda þótt foreldri hafi fengið mismuninn milli þessara greiðslna og viðmiðunartekna bættan samhliða greiðslunum. Í 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof segir enn fremur að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a. Í athugasemdum við 8. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 74/2008 kemur fram að átt sé við almanaksmánuði.

Í 1. mgr. 13. gr. a. ffl. segir að þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi. Í 2. mgr. er síðan talið upp í fimm stafliðum hvað teljist enn fremur til þátttöku á vinnumarkaði:

Til þátttöku á vinnumarkaði telst enn fremur:

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar.

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt gildandi lögum um almannatryggingar, eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa,

e. sá tími er foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins.

Í 3. mgr. 15. gr. ffl. er kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Þar segir jafnframt að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna viðmiðunartímabila skv. 2. og 5. mgr. 13. gr. laganna.

Með kæru óskar kærandi eftir að felldir verði út við útreikning á meðaltali heildarlauna þeir mánuðir sem hún stundaði nám við B-skóla. Í gögnum málsins er jafnframt að finna bréf frá Vinnumálastofnun–Greiðslustofu, dags. 18. nóvember 2008, þar sem fram kemur að kærandi eigi ekki rétt til atvinnuleysistrygginga frá sept/okt 2007 til mars/apríl 2008 þar sem að hennar sögn hafi hún verið í fullu námi við B-skóla. Ekki virðist það hafa verið kannað neitt frekar af Vinnumálastofnun–Greiðslustofu eða staða hennar að öðru leyti.

Í 4. mgr. 7. gr. ffl. kemur fram að fullt nám skv. lögum þessum sé 75 – 100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við 75 – 100% nám á háskólastigi og annað nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.

Við meðferð málsins á kærustigi kallaði Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður eftir upplýsingum frá menntamálaráðuneyti og Tryggingastofnun ríkisins. Þann 17. ágúst 2009 barst tölvupóstur frá menntamálaráðuneytinu þar sem staðfest er að B-skóli hafi ekki sótt um viðurkenningu til ráðuneytisins. Nám sem kærandi hefur stundað við B-skóla uppfyllir því ekki skilyrði 4. mgr. 7. gr. ffl. að teljast fullt nám við viðurkennda menntastofnun.

Með tölvupóstum frá TR, dags. 20., 24. og 25. ágúst 2009 var staðfest að kærandi þáði greiðslu sjúkradagpeninga; X kr. í nóvember 2007, X kr. í desember 2007 og X kr. í janúar 2008. Aðrar greiðslur sem kærandi fékk frá TR á viðmiðunartímabili 2. mgr. 13. gr. ffl. og koma fram í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra eru endurhæfingarlífeyrir og uppsöfnuð greiðsla sjúkradagpeninga í nóvember 2007 vegna fyrri mánaða. Í janúar 2008 fær kærandi lægri greiðslu sjúkradagpeninga en hún hefði átt að fá vegna skuldar við TR. Er sú upphæð uppreiknuð af Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði úr X kr. í X  kr.

Af framangreindu verður ekki annað ráðið en kærandi hafi verið á innlendum vinnumarkaði í skilningi 2. mgr. 13. gr. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl. og þegið greiðslu sjúkradagpeninga mánuðina nóvember og desember 2007 og janúar 2008. Aðra mánuði viðmiðunartímabilsins var kærandi einnig á innlendum vinnumarkaði.

Fæðingardagur barns kæranda er Y. maí 2009 og skal því, samkvæmt framangreindum lagaákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hennar mánuðina nóvember 2007 – október 2008 enda taldist kærandi samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hafa verið á innlendum vinnumarkaði þann tíma, sbr. 2. mgr. 13. gr., 1. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hefur kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram kemur í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra um tekjur hennar á framangreindu viðmiðunartímabili og telur Fæðingarorlofssjóður að þar með liggi fyrir staðfesting á að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda.

Kærandi var starfandi hjá D og þáði laun frá janúar 2008 – október 2008 og ber að hafa þær greiðslur með við útreikning á meðaltali heildarlauna. Í nóvember og desember 2007 og janúar 2008 þáði kærandi greiðslu sjúkradagpeninga frá TR sem ber að hafa með við útreikning á meðaltali heildarlauna, sbr. 2. mgr. 13. gr. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl., sbr. og tölvupóstur frá TR, dags. 24. ágúst 2009, þar sem fram kemur hversu há upphæð greiðsla sjúkradagpeninga var pr. mánuð. Í nóvember og desember 2007 þáði kærandi greiðslu frá Vinnumálastofnun–Greiðslustofu vegna tímabilsins 18. – 23. október 2007. Ber að undanskilja þær greiðslur við útreikning á meðaltali heildarlauna þar sem þær eru ekki tilkomnar vegna mánaða sem falla innan viðmiðunartímabils 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. útprentanir frá Vinnumálastofnun–Greiðslustofu. Kærandi þáði styrk frá Velferðarsviði Reykjavíkur frá nóvember 2007 – febrúar 2008 og ber að undanskilja þær greiðslur þar sem ekki er greitt af þeim tryggingagjald, sbr. lög nr. 113/1990, og þær falla ekki undir tilvik sem tilgreind eru í stafliðum a – e í 2. mgr. 13. gr. a. ffl. Kærandi þáði svo greiðslu endurhæfingarlífeyris frá TR í desember 2007 og febrúar, mars, apríl, júní og júlí 2008 sem ber að undanskilja við útreikning á meðaltali heildarlauna þar sem ekki er greitt tryggingagjald af endurhæfingarlífeyri, sbr. 1. tl. 9. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald og greiðslurnar falla heldur ekki undir tilvik sem tilgreind eru í stafliðum a – e í 2. mgr. 13. gr. a. ffl.

Með vísan til framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að leiðrétt greiðsluáætlun til kæranda, dags. 25. ágúst 2009, beri með sér réttan útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 28. ágúst 2009, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um útreikning greiðslna til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði.

Með greiðsluáætlun dagsettri 25. ágúst 2009 breytti stofnunin fyrri ákvörðun sinni um útreikning samkvæmt greiðsluáætlun 15. júní 2009 sem kærð hafði verið. Í breyttri greiðsluáætlun voru greiðslur til kæranda, miðaðar við 100% fæðingarorlof, hækkaðar um X kr. á mánuði. Skýringin er sú að tekið er tillit til greiðslu sjúkradagpeninga frá Tryggingastofnun ríkisins, sem kærandi þáði á tímabilinu nóvember 2007 til janúar 2008, við útreikning á meðaltali heildarlauna kæranda.

Í kærubréfi kemur fram ósk kæranda um að sá tími sem kærandi stundaði nám við B-skóla verði ekki reiknaður með við meðaltalsútreikning á meðallaunum og greiðslum til kæranda en samkvæmt vottorði frá skólanum dagsettu 30. október 2008, stundaði kærandi nám við skólann á tímabilinu 15. september 2007 fram í um miðjan mars 2008. Samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er kærandi talinn hafa verið á vinnumarkaði allt tímabilið nóvember 2007 til október 2008.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl), sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns, sbr. 2. mgr. 7. gr., í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkra- og slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sbr. a-e-liði 2. mgr. 13. gr. a. Þegar um er að ræða greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkrasjóði stéttarfélags, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna á viðmiðunartímabili skal taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur miðuðust við og skal aldrei taka mið af hærri fjárhæð en nemur þeim viðmiðunartekjum enda þótt foreldri hafi fengið mismuninn milli þessara greiðslna og viðmiðunartekna bættan samhliða greiðslunum. Einungis skal miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hefur verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a. Aldrei skal þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Í 13. gr. a ffl. er skilgreint hvað felist í því að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi fæðingar- og foreldraorlofslaga. Þar segir í 1. mgr. að þátttaka á innlendum vinnumarkaði feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Í 2. mgr. 13. gr. a ffl. segir að til þátttöku á vinnumarkaði teljist enn fremur:

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt gildandi lögum um almannatryggingar, eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa,

e. sá tími er foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins.

Fæðingardagur barns kæranda er Y. maí 2009 og því er viðmiðunartímabil útreiknings meðaltals heildarlauna kæranda skv. 2. mgr. 13. gr. ffl. tímabilið nóvember 2008 til október 2008 að uppfylltu því skilyrði að kærandi hafi alla þá mánuði verið á vinnumarkaði. Eins og áður kom fram stundaði kærandi nám við B-skóla frá 15. september 2007 fram í miðjan mars 2008. Samkvæmt 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008, er fullt nám skv. ffl. 75 – 100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Ennfremur er átt við 75 – 100% nám á háskólastigi og annað nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms. Fyrir liggur að B-skóli hefur ekki hlotið viðurkenningu menntamálaráðuneytisins og telst því ekki viðurkennd menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í skilningi ffl. Með hliðsjón af því verður ekki fallist að nám kæranda við þann skóla leiði til þess að námstíminn þar skuli ekki reiknaður með við útreikning meðaltals heildarlauna hennar. Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greidda sjúkradagpeninga frá Tryggingastofnun ríkisins fyrir nóvember og desember 2007 og janúar 2008. Jafnframt kemur fram að kærandi fékk greiddan endurhæfingarlífeyri á viðmiðunartímabilinu frá febrúar til október 2008. Greiðsla endurhæfingarlífeyrisins var afturvirk frá 1. nóvember 2007. Staðfest er að greiðslur sjúkradagpeninga vegna mánuðanna nóvember og desember 2007 og janúar 2008 voru dregnar frá greiðslu endurhæfingarlífeyrisins í febrúar 2008 þar sem sá sem fær greiðslu endurhæfingarlífeyri getur ekki átt rétt til sjúkradagpeninga vegna sama tímabils sbr. 1. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007. Samkvæmt því telst kærandi ekki hafa verið á innlendum vinnumarkaði í nóvember og desember 2007 í skilningi fæðingar- og foreldraorlofslaga sbr. 13. gr. a.

Endurhæfingarlífeyrir er undanþeginn greiðslu tryggingagjalds, sbr. 1. tl. 9. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald og fellur ekki undir tilvik sem tilgreind eru í stafliðum a.-e. í 2. mgr. 13. gr. a ffl. Með vísan til þess skulu þær greiðslur endurhæfingarlífeyris sem kærandi fékk á viðmiðunartímabilinu ekki reiknaðar með við útreikning meðaltals heildarlauna kæranda.

Kærandi fékk frá janúar til október 2008, greidd laun sem tryggingagjald var greitt af þegar hún vann hjá D. Með hliðsjón af ofangreindu og skilgreiningu 1. og 2. mgr. 13. gr. a ffl. á því hvað felst að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi ffl. var kærandi einungis á innlendum vinnumarkaði frá janúar til október 2008. Hinni kærðu ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er því hrundið. Við útreikning meðaltals heildarlauna kæranda á viðmiðunartímabilinu og greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði miðað við mánuðina janúar til og með október 2008.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um greiðslu til A í fæðingarorlofi er hrundið. Við útreiknings meðaltals heildarlauna kæranda og greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skal miðað við mánuðina janúar til og með október 2008.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta