Mál nr. 71/2008
Fimmtudaginn 19. febrúar 2009
A
gegn
Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.
Þann 11. desember 2008 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 9. desember 2008.
Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 15. september 2008 um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.
Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:
„Ég átti barn í apríl 2007 og fékk þá reiknað út að ég uppfyllti skilyrði fyrir greiðslum úr fæðingarorlofssjóði að fjárhæð X kr á mánuði miðað við 100% orlof. Þeir útreikningar miðuðust við almanaksárin 2005 og 2006. Ég dreifði greiðslunum í síðasta orlofi þannig að 6 mánaða greiðslur voru dreifðar á 12 mánuði. Ég var þannig í fæðingarorlofi frá apríl 2007-apríl 2008. Mitt annað barn fæddist Y. október 2008 og miðað við þá dagsetningu ættu útreikningar fyrir það fæðingarorlof að miðast við laun frá apríl 2007-apríl 2008 sem eru akkúrat þeir mánuðir sem að ég var í fæðingarorlofi vegna fyrra barns. Ég fékk núna reiknað út að ég uppfylli skilyrði fyrir greiðslum úr fæðingarorlofssjóði að fjárhæð X kr. miðað við 100% orlof. Ég er í sömu vinnu, í sama starfshlutfalli og engar forsendur ættu að hafa breyst. Ég tel því að ég ætti að uppfylla a.m.k. skilyrði fyrir sömu greiðslum úr fæðingarorlofssjóði og reiknað var út í mars 2007.“
Með bréfi, dagsettu 15. desember 2008, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.
Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 18. desember 2008. Í greinargerðinni segir:
„Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 15. september 2008, var henni tilkynnt að umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið samþykkt og að mánaðarleg greiðsla yrði X kr. á mánuði miðað við 100% orlof. Þann 18. desember 2008 var kæranda send greiðsluáætlun með nýjum útreikningum.
Í 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, er kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkra- og slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna, sbr. a – e liði 2. mgr. 13. gr. a. Þegar um er að ræða greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkrasjóði stéttarfélags, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna á viðmiðunartímabili skal taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur miðuðust við og skal aldrei taka mið af hærri fjárhæð en nemur þeim viðmiðunartekjum enda þótt foreldri hafi fengið mismuninn milli þessara greiðslna og viðmiðunartekna bættan samhliða greiðslunum. Í 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof segir enn fremur að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a.
Í 1. mgr. 13. gr. a. ffl. segir að þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi. Í 2. mgr. er síðan talið upp í fimm stafliðum hvað teljist enn fremur til þátttöku á vinnumarkaði:
Til þátttöku á vinnumarkaði telst enn fremur:
a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,
b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar.
c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt gildandi lögum um almannatryggingar, eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,
d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa,
e. sá tími er foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins.
Í 3. mgr. 15. gr. ffl. er kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Þar segir jafnframt að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna viðmiðunartímabila skv. 2. og 5. mgr. 13. gr. laganna.
Fæðingardagur barns kæranda er Y. október 2008 og skal því, samkvæmt framangreindum lagaákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hennar mánuðina apríl 2007 – mars 2008 enda taldist kærandi samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hafa verið á innlendum vinnumarkaði þann tíma, sbr. 2. mgr. 13. gr. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl.
Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hefur kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram kemur í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra um tekjur hennar á framangreindu viðmiðunartímabili og telur Fæðingarorlofssjóður að þar með liggi fyrir staðfesting á að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda. Alla mánuði tímabilsins var kærandi í 50% fæðingarorlofi með eldra barni og ber því að uppreikna greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði á því tímabili, sbr. 2. mgr. 13. gr. ffl. í X kr. úr X kr. Kærandi fékk að auki greiðslur frá Ríkissjóði Íslands í apríl – maí og nóvember 2007 sem hafðar eru með við útreikninginn. Greiðslur sem kærandi fékk frá B frá júní 2007 – mars 2008 eru undanskyldar þar sem ekki er greitt af þeim tryggingagjald. Við launakeyrslu í janúar 2008 datt kærandi úr greiðslu en fékk í staðin tvöfalda greiðslu í mars 2008 eins og kemur fram á greiðsluáætlun, dags. 18. desember 2008. Í október 2007 fékk kærandi 100% greiðslu (X kr.) en átti að fá 50% greiðslu (X kr. uppreiknað í X kr.) til samræmis við tilhögun fæðingarorlofs. Hefur sú greiðsla verið leiðrétt nú með greiðsluáætlun dags. 18. desember 2008.
Með vísan til framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að greiðsluáætlun til kæranda, dags. 18. desember 2008, beri með sér réttan útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.“
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 12. janúar 2009, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dagsettu 21. janúar 2009, þar sem segir meðal annars:
„Í þeim lögum sem vísað er til í greinargerðinni frá vinnumálastofnun-fæðingarorlofssjóði kemur m.a. fram að þegar um er að ræða greiðslur úr fæðingarorlofssjóði skal taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem greiðslur miðuðust við.
Á þeim tíma sem greiðslur miðast við þ.e. 18 mánuðum fyrir fæðingu barns til 6 mánuðum fyrir fæðingu barns þá var ég í fæðingarorlofi vegna eldra barns. Ég var í 50% orlofi og því á 40% launum frá fæðingarorlofssjóði. Viðmiðunartekjurnar sem þær (þ.e. þessi 40%) greiðslur miðuðust við eru X kr. skv. Fæðingarorlofssjóði. Ætti þá ekki að taka mið af þeirri upphæð?
Ég óska eftir að fá sundurliðað hvernig útreikningar eru gerðir og hvernig fjárhæðin er uppreiknuð úr X kr. í X kr.
Er svo litið á að ég hafi í fæðingarorlofi vegna eldra barns verið í hlutastarfi?“
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um útreikning greiðslna til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 15. september 2008. Kæranda var sendur nýr útreikningur dagsettur 18. desember 2008.
Samkvæmt ákvæði 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.), sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns, sbr. 2. mgr. 7. gr., í fæðingaorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkra- og slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sbr. a–e-liði 2. mgr. 13. gr. a. Þegar um er að ræða greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkrasjóði stéttarfélags, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna á viðmiðunartímabili skal taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur miðuðust við og skal aldrei taka mið af hærri fjárhæð en nemur þeim viðmiðunartekjum enda þótt foreldri hafi fengið mismuninn milli þessara greiðslna og viðmiðunartekna bættan samhliða greiðslunum. Einungis skal miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði.
Í 1. mgr. 13. gr. a. ffl., sbr. 9. gr. laga nr. 74/2008, segir að þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi. Fullt starf miðist við 172 vinnustundir á mánuði, en þó skuli jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljast fullt starf.
Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. a telst enn fremur til þátttöku á vinnumarkaði:
Ágreiningur er um aðferðir Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs við útreikning meðaltals heildarlauna kæranda og greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.
Fæðingardagur barns kæranda var Y. október 2008. Samkvæmt því er viðmiðunartímabil útreiknings meðaltals heildarlauna hennar tímabilið apríl 2007 til mars 2008. Á þessu tímabili var kærandi í fæðingarorlofi vegna eldra barns og telst hún því allt tímabilið hafa verið á vinnumarkaði, sbr. 2. mgr. 13. gr. a. ffl. Samkvæmt ákvæði 2. mgr. 13. gr. ffl. skal mánaðarleg greiðsla til starfsmanns nema 80% af meðaltali heildarlauna á viðmiðunartímabilinu. Samkvæmt ákvæðinu teljast greiðslur úr Fæðingaorlofssjóði til launa og skulu greiðslurnar taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur miðuðust við og aldrei skuli taka mið af hærri fjárhæð en sem nemur þeim viðmiðunartekjum enda þótt foreldri hafi fengið mismuninn milli greiðslna og viðmiðunartekna bættan samhliða greiðslunum. Að mati úrskurðarnefndar felst í ákvæðinu að uppreikna skuli greiðslur sem foreldri fær úr Fæðingarorlofssjóði miðað við að þær séu 80% launa (greiðsla x 100/80) sem er í samræmi við aðferð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs. Telur nefndin að hvorki 2. mgr. 13. gr. ffl. né önnur ákvæði ffl. heimili frekari uppreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Ekki er ágreiningur um að laun sem kærandi fékk greidd á viðmiðunartímabilinu samtals X kr. teljist til launa við útreikning meðaltals heildarlauna hennar. Greiðslur sem kærandi fékk úr B teljast hins vegar ekki til launa skv. 2. mgr. 13. gr. ffl. og er þeim því réttilega sleppt við útreikning heildarlauna kæranda.
Með hliðsjón af framanrituðu er staðfest ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um útreikning meðaltals heildarlauna kæranda og greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.
ÚRSKURÐARORÐ:
Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um útreikning meðaltals heildarlauna og greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði til A er staðfest.
Guðný Björnsdóttir
Heiða Gestsdóttir
Gunnlaugur Sigurjónsson