Mál nr. 39/2003. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:
Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 9. janúar 2004
í máli nr.
39/2003:
Hoffell
gegn
Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar
Með bréfi 23. desember 2003 kærir Hoffell útboð Innkaupastofnunar Reykjavíkurborgar nr. 913, auðkennt „3 FOOTBALL PITCHES – 2 SCHOOL PITCHES – ARTIFICIAL TURF SURFACE", nánar tiltekið þá ákvörðun að hafna tilboði kæranda við opnun tilboða hinn 4. desember 2003.
Kærandi krefst þess aðallega að hið kærða útboð og gerð samnings á grundvelli þess verði stöðvuð þar til leyst verður efnislega úr kæru hans. Jafnframt krefst kærandi þess að innkaupin sem boðin voru út í hinu kærða útboði verði boðin út að nýju. Loks krefst kærandi þess að nefndin láti upp álit sitt á skaðabótaskyldu kærða. Þá er krafist kærumálskostnaðar fyrir nefndinni samkvæmt mati nefndarinnar.
Kærði krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað.
Eins og málið liggur fyrir telur nefndin rétt að taka afstöðu til kröfu kæranda um stöðvun útboðsins þegar í stað. Frekari gagnaöflun og úrlausn um kröfur kæranda að öðru leyti bíður hins vegar endanlegs úrskurðar.
I.
Með hinu kærða útboði bauð kærði út verk vegna lagningar gervigrass á þrjá knattspyrnuvelli og tvo skólavelli í Reykjavík. Samkvæmt lið 1.4 í útboðslýsingu átti að skila inn tilboðum eigi síðar en kl. 10.00 fimmtudaginn 4. desember 2003 („No later than at 10.00 hours local time on the 4th of December 2003"), en þá skyldu tilboð opnuð .
Aðila greinir umtalsvert á um málsatvik. Kærandi greinir svo frá að fyrirsvarsmaður kæranda hafi hringt til kærða í byrjun desember 2003 og spurt hvenær skila ætti inn tilboði. Hafi hann fengið þau svör að það yrði að gera fyrir kl. 11.00 hinn 4. desember 2003. Fyrirsvarsmaður kæranda hafi komið í höfuðstöðvar kærða klukkan 10.30 hinn 4. desember 2003, en opnunarfundurinn hafði hafist kl. 10.00. Fulltrúa kæranda hafi verið hleypt inn í fundarsalinn. Opnun tilboða var þá hafin, en henni ekki lokið. Fyrirsvarsmaður kæranda hafi afhent lokað umslag með tilboði kæranda. Fundarstjóri hafi þá spurt hvort fundargestir gerðu athugasemdir við það að tilboð kæranda kæmist að. Einn fundargesta hafi gert athugasemdir og því hafi fundarstjóri tekið þá ákvörðun að hafna viðtöku á tilboði kæranda. Kærandi hafi gert athugasemdir við þetta háttalag kærða, en engin efnisleg ákvörðun verið tekin þrátt fyrir mótmælin og ekkert verið bókað.
Kærði mótmælir málsatvikalýsingu kæranda sem rangri. Kærandi hafi fengið réttar upplýsingar frá kærða um stund og stað opnunarfundar. Fulltrúi kæranda hafi mætt á opnunarfundinn um kl. 10.45, þ.e. 45 mínútum of seint og afgreiðslufulltrúi því bannað honum að fara inn í fundarherbergið. Bannið hafi fulltrúi kæranda haft að engu og ruðst inn í fundarherbergið. Hann hafi strax verið beðinn um að fara út, en ekki sinnt því og krafist þess að fá að leggja tilboð sitt fram. Því hafi verið neitað og hann aftur beðinn um að fara út. Hann hafi þá enn haldið uppi kröfu sinni og því að opnunartími ætti að vera kl. 11:00. Starfsmaður kærða hafi þá óskað eftir afstöðu fundarmanna sem hafi mótmælt. Fyrirsvarsmaður kæranda hafi að lokum farið út og ekki óskað eftir bókun um brottvísun eða annað.
Með bréfi til Innkauparáðs Reykjavíkurborgar, dags. 4. desember 2003, færði kærandi fram kvörtun vegna umrædds atviks. Í bókun innkauparáðs vegna bréfsins, á fundi 5. desember 2003, var kæranda bent á heimild til að bera málið undir kærunefnd útboðsmála. Með bréfi til kærða, dags. 9. desember 2003, óskaði lögmaður kæranda eftir svörum við nánar tilgreindum spurningum. Bréfinu svaraði kærði með bréfi, dags. 17. desember 2003.
II.
Krafa kæranda um stöðvun útboðsins um stundarsakir er reist á 80. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup. Telur kærandi að höfnun kærða á tilboði sínu hafi verið ólögmæt. Vísar kærandi einkum til eftirfarandi atriða til stuðnings því að efni séu til að beita 80. gr. laga nr. 94/2001:
Ástæða þess að kærandi hafi mætt rúmlega hálfri klukkustund of seint þegar opna átti tilboðin hafi verið rangar upplýsingar frá kærða sjálfum. Röng leiðbeining kærða um það hvenær opna ætti tilboðin sé á ábyrgð kærða og kærandi verði ekki látinn bera hallann af henni. Almenn sjónarmið stjórnsýsluréttar um rangar leiðbeiningar og umsóknarfresti og þess háttar leiði til þess að umsóknarfrestum verði ekki beitt um þann sem óskar upplýsinga.
Í grein 1.4 komi fram að tilboð skyldu opnuð ekki síðar en kl. 10.00 hinn 4. desember 2003. Þegar kærandi hafi komið á vettvang hafi verið búið að opna hluta af tilboðunum en ekki öll og ljóst sé að sum tilboð hafi verið opnuð eftir kl. 10.00. Þau tilboð sem opnuð voru eftir kl. 10.00 hafi ekki átt að komast að ef hafna átti tilboði kæranda á grundvelli liðar 1.4 í útboðsskilmálum, þar sem skýrlega sé tekið fram í ákvæðinu að öll tilboð skyldu opnuð kl. 10.00. Höfnun á tilboði kæranda sé í brýnni andstöðu við jafnræðisreglur sem allt regluverk útboðsréttar og lög um opinber innkaup byggi á, sbr. m.a. 11. gr. laga nr. 94/2001. Ákvæði 2. mgr. 47. gr. laga nr. 94/2001 eigi ekki við þar sem tilboð kæranda hafi borist áður en búið var að opna öll tilboð. Fyrst að kærði hafi sjálfur tekið þá ákvörðun að fara ekki eftir grein 1.4 og opna tilboð eftir kl. 10.00 verði að minnsta kosti að gilda það sama um kæranda og aðra. Algjört ósamræmi sé á milli framkvæmdar kærða á ákvæðinu og þeim skilningi sem lagður sé í það eftir á af hálfu kærða.
Það eigi sér enga lagastoð að hafa leitað eftir afstöðu fundargesta áður en tekin var ákvörðun um að hafna tilboði kæranda. Þátttakendur í útboðum hafi engan rétt til ákvarðanatöku á opnunarfundum, né heldur hafi þeir tillögurétt. Kærði sé stjórnvald og allar ákvarðanir stjórnvalda verði að eiga sér stoð í lögum. Þar sem lagastoð skorti í þessu tilviki sé bersýnilegt að ákvörðunin sé í bága við lög um opinber innkaup. Hefði athugasemd eins fundargestanna ekki komið fram sé öruggt að tilboð kæranda hefði komist að.
Um lagarök vísar kærandi til meginreglna stjórnsýsluréttar, þ. á m. lögmætisreglunnar og reglunnar um leiðbeiningarskyldu stjórnvalda, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ennfremur til laga nr. 94/2001 um opinber innkaup og meginreglna útboðsréttar.
III.
Kærði byggir sem fyrr segir á því að kærandi hafi fengið réttar upplýsingar frá kærða um stund og stað opnunarfundar. Tilboðsfresturinn, kl. 10.00 að staðartíma 4. desember 2003, sé skýrlega tiltekinn í grein 1.4 í útboðsgögnum, bæði feitletraður og undirstrikaður. Að auki hafi þessi tímasetning komið fram í útboðsauglýsingum í dagblöðum og Stjórnartíðindum ESB. Það sé alfarið á ábyrgð kæranda að kynna sér tilskilda fresti í útboðsgögnum. Kærandi hafi engar sönnur fært fyrir því að hann hafi fengið aðrar upplýsingar frá kærða, enda ljóst að ekki sé heimilt að beita öðrum tímafresti en tilgreindur sé í útboðsgögnum. Kærði vísar og til þess að í bréfi kæranda til Innkauparáðs, dags. 4. desember 2003, hafi fulltrúi kæranda viðurkennt að vegna eigin mannlegra mistaka hafi hann ranglega talið að fresturinn hefði runnið út kl. 11.00 en ekki 10.00.
Kærði mótmælir fullyrðingum kæranda um að almenn sjónarmið stjórnsýsluréttarins um leiðbeiningar um umsóknarfresti eigi við um útboðið, enda eigi stjórnsýslulögin ekki við um ákvarðanir stjórnvalda sem séu einkaréttarlegs eðlis. Þá mótmælir kærði þeirri fullyrðingu kæranda að 2. mgr. 47. gr. laga nr. 94/2001 eigi ekki við. Í lið 1.4 í útboðslýsingu hafi skýrt verið tekið fram að tilboð skyldu berast eigi síðar en kl. 10.00 og með vísan til 47. gr. laga nr. 94/2001 sé kærða óheimilt að veita mótttöku tilboðum sem berist eftir að tilboðsfrestur rennur út. Þessi áskilnaður laganna sé fortakslaus og því ekki þörf á frekari rökstuðningi fyrir því að taka ekki við tilboði sem berst eftir lok tilboðsfrests. Það sé ekki gilt tilboð. Kærði tekur jafnframt fram að ákvæðið endurspegli meginreglu útboðsréttar um jafnræði bjóðenda er fram komi í 11. gr. laga nr. 94/2001. Það væri brot á þessari meginreglu að samþykkja tilboð sem of seint sé fram komið.
Kærði telur þann skilning kærða á lið 1.4 í útboðslýsingu, að öll tilboð skuli opnast á nákvæmlega sama tíma, ekki standast. Eðli málsins samkvæmt sé opnun tilboða ferli sem hefjist á tilgreindum tíma en geti tekið nokkurn tíma, allt eftir fjölda og umfangi tilboða. Ef heimilað væri að skila inn tilboðum eftir að þetta ferli hefst væri bjóðendum í lófa lagið að breyta tilboðum sínum í samræmi við tilboð sem þegar hefðu verið opnuð og kunngerð. Slíkt teldist skýlaust brot á jafnræðisreglunni.
IV.
Í 80. gr. laga nr. 94/2001 er nefndinni veitt heimild til að stöðva útboð þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru. Í ákvæðinu sjálfu, sbr. og athugasemdir við ákvæðið í því frumvarpi sem varð að lögum nr. 94/2001, er skýrlega tekið fram að skilyrði fyrir beitingu heimildarinnar sé að verulegar líkur séu á því að brotið hafi verið gegn lögunum eða reglum settum samkvæmt þeim. Miðað við fyrirliggjandi gögn og upplýsingar verður ekki talið að svo verulegar líkur liggi fyrir um brot gegn útboðslögum eða útboðsreglum að skilyrði séu til stöðvunar útboðsins. Því verður að hafna kröfu kæranda þess efnis.
Ákvörðunarorð :
Kröfu kæranda, Hoffells, um að útboð Innkaupastofnunar Reykjavíkurborgar nr. 913, auðkennt „3 FOOTBALL PITCHES – 2 SCHOOL PITCHES – ARTIFICIAL TURF SURFACE", og gerð samnings á grundvelli þess verði stöðvuð, er hafnað.
Reykjavík, 9. janúar 2004.
Páll Sigurðsson
Stanley Pálsson
Sigfús Jónsson
Rétt endurrit staðfestir.
09.01.04