Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 3/2003

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 3/2003

 

A

gegn

Veitingahúsinu Austurvelli ehf. vegna Veitingahússins Óðals,

Jóhannesi B. Skúlasyni og

Frétt ehf. vegna Fréttablaðsins

 

----------------------------------------------

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 16. janúar 2004 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

I

Inngangur

Með bréfi, dags. 17. mars 2003, sem barst kærunefnd jafnréttismála 21. mars sama ár, óskaði kærandi, A, eftir því að kærunefnd jafnréttismála kannaði og tæki afstöðu til þess hvort auglýsing Veitingahússins Austurvallar ehf., vegna Veitingahússins Óðals, 551096-2389, sem hönnuð var af Jóhannesi B. Skúlasyni, kt. 121170-4189, Vesturgötu 26a, Reykjavík, og birtist í Fréttablaðinu þann 6. mars 2003, hafi brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna, nr. 96/2000.

Kæran var kynnt Veitingahúsinu Óðali með bréfi, dags. 22. apríl 2003. Með vísan til 3. mgr. 6. gr. laga nr. 96/2000 var óskað upplýsinga um afstöðu fyrirtækisins til málsins og enn fremur var spurt hver hafi hannað viðkomandi auglýsingu. Með bréfi, dags. 5. júní 2003, kom Veitingahúsið Óðal á framfæri sjónarmiðum sínum vegna erindis kæranda, auk þess sem veittar voru umbeðnar upplýsingar um þann sem hannað hafði viðkomandi auglýsingu.

Með bréfi, dags. 18. júní 2003, var kæranda kynnt umsögn Veitingahússins Óðals, dags. 5. júní 2003,  og óskað eftir athugasemdum, sem bárust með bréfi  dags. 10. júlí 2003. Veitingahúsinu Óðali var með bréfi, dags. 17. júlí 2003, gefinn kostur á að tjá sig um athugasemdir kæranda, en frekari athugasemdir bárust ekki.

Með bréfi, dags. 24. júní 2003, var hönnuði auglýsingarinnar, Jóhannesi B. Skúlasyni, gefinn kostur á að tjá sig um kæruefnið, en engar athugasemdir hafa borist til kærunefndarinnar.

Með bréfi dags. 4. desember sl. var Frétt ehf., útgáfufélagi Fréttablaðsins, send fyrirliggjandi gögn málsins, og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um kærunefnið,  auk þess sem óskað var eftir tilteknum upplýsingum varðandi auglýsinguna og upplag blaðsins á þeim tíma sem um ræðir. Umbeðnar upplýsingar voru veittar með bréfi dags. 5. janúar 2004. Af hálfu Fréttablaðsins var ekki talin ástæða til að koma að sérstökum athugasemdum að öðru leyti varðandi kvörtun kæranda.

  

II

Málavextir

Veitingahúsið Óðal fékk birta í Fréttablaðinu, fimmtudaginn 6. mars 2003, auglýsingu sem bar yfirskriftina „Hjúkkukvöld í kvöld“. Í auglýsingunni er birt mynd af tveimur konum í fatnaði sem líkist, eða ætla má að líkist, einkennisbúningi hjúkrunarfræðinga. Fram kemur í auglýsingunni  að auglýsandi sé Óðal „Gentlemen’s Club“. Með kæru til kærunefndar jafnréttismála dags. 17. mars 2003 óskaði A eftir því að kærunefnd jafnréttismála tæki afstöðu til þess hvort auglýsingin bryti í bága við 18. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. A taldi að auglýsingin og tilefni hennar, þ.e. svokallað hjúkkukvöld, hafi verið niðurlægjandi fyrir hjúkrunarfræðinga og afskræming á hlutverki þeirra. Taldi kærandi að auglýsandinn væri að hlutgera konur í einstakri starfsstétt, í þessu tilviki hjúkrunarstétt og kynna þær sem kynlífsleikföng kvenna. Veitingahúsið Óðal vísaði m.a. til þess að um sé að ræða næturklúbb þar sem aðaláhersla sé lögð á áfengisveitingar og nektardans í atvinnuskyni. Það sé meginþáttur í starfsemi staðarins að bjóða gestum upp á nektardans og að nauðsynlegt hafi verið að auglýsa þá starfsemi sem um ræðir, þ.m.t. svokölluð þemakvöld, sem veitingahúsið hafi staðið fyrir. Taldi Veitingahúsið Óðal að auglýsingin væri ekki öðru kyninu til minnkunar eða lítilsvirðingar í skilningi jafnréttislaga.

Hönnuður auglýsingarinnar og sá sem birti auglýsinguna hafa ekki látið málið til sín taka sérstaklega.

Upplýst er að umrædd auglýsing, sem birtist í Fréttablaðinu, hinn 6. mars 2003, var þriggja dálka auglýsing, 15 cm á hæð.  Upplag blaðsins á þessum tíma er talið hafa verið um 86 þúsund eintök.

   

III

Sjónarmið kæranda

Af hálfu kæranda er á því byggt að auglýsing Veitingahússins Óðals og tilefni hennar, þ.e. svokallað hjúkkukvöld í nektarklúbbi, sé niðurlægjandi fyrir hjúkrunarfræðinga og afskræming á hlutverki þeirra. 

Kærandi telur kærða hlutgera konur í hjúkrunarstétt og kynna þær sem kynlífsleikföng karla. Auglýsingar sem birti myndir af heilum starfsstéttum sem kynlífsleikföngum karla hafi víðtæk áhrif og megi þar meðal annars nefna kynferðislega áreitni sem A telur vera óásættanlegt. Kærandi telur að konur hafi verið „söluvara“ í umræddri auglýsingu. Um 99% félagsmanna í A séu konur og með orðinu „hjúkka“ sé því fyrst og fremst verið að tala um hóp kvenna, á sama hátt feli heiti staðarins „Óðal gentlemen’s club“ í sér að staðurinn eigi fyrst og fremst að höfða til karla. Í erindi kæranda er m.a. vísað til siðareglna SÍA um auglýsingar. 

Kærandi telur að 18. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, hafi í þessu tilfelli verið brotin.

   

IV

Sjónarmið kærða

Í greinargerð Halldórs H. Backman hdl., lögmanns kærða Veitingahússins Óðals, dags. 5. júní 2003, kemur m.a. fram, að það heyri ekki undir kærunefnd jafnréttismála að fjalla um siðareglur auglýsenda og því miðist svör hans eingöngu við það álitaefni hvort umrædd auglýsing hafi brotið í bága við ákvæði 18. gr. laga nr. 96/2000.

Bent er á að Veitingahúsið Óðal reki næturklúbb og hafi til þess leyfi samkvæmt lögum nr. 67/1985. Í i-lið 9. gr. laganna sé starfsemi næturklúbbs skilgreind á þann hátt að aðaláhersla sé lögð á áfengisveitingar og nektardans í atvinnuskyni. Það sé því meginþáttur í starfsemi staðarins að bjóða gestum upp á nektardans sem framkvæmdur er bæði af körlum og konum, þó konur séu þar í miklum meirihluta.

Kærði byggir jafnframt á því að óhjákvæmilegt sé að auglýsa starfsemina í því skyni að tryggja viðskipti. Með auglýsingunni hafi verið vakin athygli á tilteknu þemakvöldi hjá veitingastaðnum. Kærði álítur að svo hátti til, bæði hérlendis og víðast hvar í heiminum, að einkennisbúningar tiltekinna starfsstétta hafi verið tengdir við erótíska starfsemi í því skyni að „svala ákveðnum þorsta“ tiltekins hóps neytenda. Sem dæmi eru nefndir búningar lögreglumanna, slökkviliðsmanna, flugmanna, flugþjóna, lækna og hjúkrunarfræðinga. Hafi búningarnir verið tengdir við erótíska starfsemi um víða veröld árum og áratugum saman. Kærði telur slíka tengingu vera án tjóns eða minnkunar fyrir viðkomandi starfsstéttir og hafa viðgengist án sérstakra athugasemda, enda megi ætla að neytendur á þessu sviði geri sér almennt grein fyrir því að um leik sé að ræða.

Kærði fellst ekki á að auglýsingin hafi falið í sér minnkun eða lítilsvirðingu í garð kvenna, hvað þá að auglýsingin hafi strítt gegn jafnréttisreglum.  Þvert á móti hafi verið reynt að höfða til ákveðins hóps neytenda sem áhuga hafi á notkun einkennisbúninga í erótískum tilgangi og megininntak auglýsingarinnar hafi verið tilvísun í ákveðna starfsstétt fremur en annað.

Kærði bendir á að 18. gr. laga nr. 96/2000 fjalli ekki á nokkurn hátt um vernd tiltekinna starfsstétta. Notkun einkennisbúninga í erótískum tilgangi sé ekki bundin við konur eingöngu og alkunna sé að til hjúkrunarfræðinga teljist bæði karlar og konur. Orðið „hjúkkur“ geti þannig hvort heldur sem er átt við um karlkyns eða kvenkyns hjúkrunarfræðinga. Kærði heldur því fram að af þessu leiði að jafnvel þótt talið yrði að tenging kærða við tiltekna starfsstétt í auglýsingunni væri óheppileg eða óæskileg fælist ekki í henni brot á ákvæði 18. gr. laga nr. 96/2000.

    

V

Niðurstaða

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skal auglýsandi og sá sem hannar eða birtir auglýsingu sjá til þess að auglýsingin sé öðru kyninu ekki til minnkunar, lítilsvirðingar eða stríði gegn jafnri stöðu og jafnrétti kynjanna á nokkurn hátt.

Af 18. gr. laga nr. 96/2000 leiðir að auglýsandi og sá sem hannar eða birtir auglýsingu beri ábyrgð á efni hennar. Í máli því sem hér um ræðir er Veitingahúsið Austurvöllur ehf. auglýsandi í skilningi ákvæðisins. Af tilvísuðu ákvæði verður að auki ráðið, að með auglýsanda skuli jafnframt annað hvort sá sem hannar auglýsingu eða birtir hana bera ábyrgð á auglýsingunni. Með vísan til meginreglna laga um prentrétt, nr. 57/1956, og til atvika máls þessa að öðru leyti, þykir ekki rétt að láta álit þetta taka til hönnuðar auglýsingarinnar.

Telja verður að þó svo að ákvæði 18. gr. laga nr. 96/2000 lúti ekki að verndun einstakra starfsstétta sérstaklega, geti auglýsing, sem veit að kynbundinni starfsstétt, undir vissum kringumstæðum verið því kyni til minnkunar og lítilsvirðingar í skilningi ákvæðisins. Í þessum efnum er á það að líta, að upplýst er að 99% félagsmanna kæranda, A, eru konur. Stéttin er jafnframt ein fjölmennasta og þekktasta starfsstétt kvenna hér á landi og hefur verið um árabil.

Með vísan til þessa og að öðru leyti til atvika máls þessa telst kærandi því eiga rétt á að leita álits kærunefndar jafnréttismála á því hvort ákvæði laganna hafi verið brotin, í samræmi við 4. og 5. gr. laga nr. 96/2000.

Við mat á því hvort auglýsing teljist öðru kyninu til minnkunar eða lítilsvirðingar, eða hvort auglýsing brjóti á annan  hátt í bága við ákvæði jafnréttislaga, þykir verða að líta til ýmissa atriða, svo sem samhengis við það sem verið er að auglýsa, heildarútlits auglýsingar og þess hvar hún birtist, svo og annarra hlutlægra atriða. Jafnframt er óhjákvæmilegt að leggja að nokkru huglægt mat á efnisinnihald auglýsingar og birtingarmáta hennar.

Auglýsing sú sem hér um ræðir sýndi tvær konur klæddar í búning sem ætlað var að líkjast vinnufatnaði hjúkrunarfræðinga, en þó telst yfirbragð myndanna og þær stellingar sem konurnar eru í á engan hátt einkennandi fyrir starfsstéttina. Í texta auglýsingarinnar er vakin athygli á því sem kallað er „hjúkkukvöld“, án nánari tilgreiningar. Með orðinu „hjúkka“ í þessu samhengi telst óumdeilanlega vísað til kvenkyns hjúkrunarfræðinga, en ekkert er komið fram um að þeirri stétt hafi verið ætlað þar nokkurt hlutverk. Ef litið er á texta auglýsingarinnar og myndmál hennar í samhengi og til þess að um er að ræða auglýsingu frá stað þar sem nektardans er leyfilegur verður ekki annað ráðið en að markmið auglýsingarinnar hafi verið að vekja athygli á þeirri starfsemi sem um ræðir og hún tengd tiltekinni starfsstétt, sem að mestu er starfsstétt kvenna, án nokkurs sæmilegs samhengis. Verður sérstaklega að hafa í huga, að auglýsingin birtist á áberandi stað í fréttamiðli sem dreift er ókeypis og óumbeðið inn á mörg heimili í landinu. Af því leiðir að sjónarmið kærða, Veitingahússins Óðals, um umrædda búninganotkun og hugðarefni tiltekins hóps neytenda í því sambandi, teljast með öllu óviðeigandi.

Að teknu tilliti til þess sem að framan er rakið varðandi birtingu umræddrar auglýsingar í fréttamiðli, sem dreift er án sérstakra takmarkana, og þess að í auglýsingunni er tiltekin starfsstétt, sem er að langstærstum hluta skipuð konum, tengd starfsemi nektardansstaðar með óviðeigandi myndbirtingu og auglýsingatexta, er það álit kærunefndar jafnréttismála að umrædd auglýsing hafi verið konum til lítilsvirðingar í skilningi 18. gr. laga nr. 96/2000. 

Það er því álit kærunefndar jafnréttismála að auglýsing Veitingahússins Austurvallar ehf., vegna Veitingahússins Óðals, sem birtist í Fréttablaðinu undir heitinu „Hjúkkukvöld í kvöld“, hinn 6. mars 2003, hafi brotið gegn 18. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. 

   

    

Andri Árnason

Ragnheiður Thorlacius

Ása Ólafsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta