Mál nr. 479/2023-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 479/2023
Fimmtudaginn 15. febrúar 2024
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 5. október 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 4. október 2023, um að synja umsókn fyrirtækisins um ráðningarstyrk.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Í apríl 2023 voru skráðar tvær starfsauglýsingar hjá Vinnumálastofnun vegna starfa hjá kæranda, annars vegar vegna starfs verkamanns og hins vegar smiðs, og óskað var eftir styrk úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna ráðninga starfsmanna. Þann 30. júní 2023 var Vinnumálastofnun tilkynnt um ráðningu í bæði störfin. Kæranda var þann 4. júlí 2023 tilkynnt að senda þyrfti útfyllta og undirritaða ráðningarsamninga vegna starfsmannanna eigi síðar en viku eftir að þeir hefðu störf hjá fyrirtækinu. Þann 17. júlí 2023 var kæranda tilkynnt að störfunum hefði verið lokað þar sem óafgreiddum tillögum að starfsfólki hefði ekki verið svarað né hafi borist ráðningarsamningar. Þann 23. ágúst 2023 sendi kærandi Vinnumálastofnun ráðningarsamninga vegna starfanna ásamt launaseðlum. Í kjölfar athugasemda Vinnumálastofnunar sendi kærandi þann 30. ágúst 2023 lagfærðan ráðningarsamning vegna annars starfsmannsins og tilkynnti jafnframt að starfsmaðurinn hefði hafið störf hjá fyrirtækinu 9. maí 2023. Þann 1. september 2023 var óskað eftir uppfærðum ráðningarsamningi í samræmi við nýjar athugasemdir Vinnumálastofnunar. Umsókn kæranda um ráðningarstyrk vegna starfsmannanna tveggja var synjað með erindi Vinnumálastofnunar, dags. 4. október 2023, með vísan til þess að þeir uppfylltu ekki skilyrði ráðningarstyrks. Tekið var fram að ráðningarsamningar ættu að berast áður en viðkomandi hefði störf eða að minnsta kosti innan við viku eftir að viðkomandi hefði störf.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 5. október 2023. Með bréfi, dags. 12. október 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð með erindum úrskurðarnefndar 22. nóvember og 17. desember 2023. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 11. janúar 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. janúar 2024. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála kemur fram að fyrirtækið hafi ráðið tvo starfsmenn í vinnu á styrk frá Vinnumálastofnun en svo hafi ekki verið greitt með þeim.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að fyrirtækið A hafi í apríl 2023 skráð starfsauglýsingar hjá Vinnumálastofnun. Óskað hafi verið eftir styrk frá Vinnumálastofnun til að ráða atvinnuleitanda til starfa á grundvelli 9. gr. reglugerðar nr. 918/2020. Kærandi hafi auglýst eftir smiði til starfa sem og almennum verkamanni. Umsóknarfrestur í starf verkamanns hafi upphaflega verið til 20. maí en svo lengdur til 20. júní að beiðni atvinnurekanda. Umsóknarfrestur starfs smiðs hafi verið til 30. júní. Í framhaldinu hafi atvinnuleitendum verið miðlað í starf atvinnurekanda. Alls hafi 40 atvinnuleitendum verið miðlað í starf verkamanns og 22 miðlað í starf smiðs. Með erindi, dags. 20. júní 2023, hafi verið leitað eftir upplýsingum frá kæranda um árangur starfsauglýsingar. Þá segi í erindi Vinnumálastofnunar: „Ef af ráðningu varð og ætlun er að nýta ráðningarstyrk vegna starfsins vinsamlegast skilið útfylltum og undirrituðum ráðningarsamningi innan 7 daga.“ Svar hafi borist frá kæranda þann 30. júní þar sem fram hafi komið að B og C hefðu verið ráðnir til starfa hjá fyrirtækinu.
Þann 4. júlí hafi verið send fyrirspurn á kæranda. Upplýst hafi verið að ef til stæði að nýta ráðningarstyrk þyrfti að senda Vinnumálastofnun undirritaðan ráðningarsamning eigi síðar en viku eftir að atvinnuleitandi hefði störf hjá fyrirtækinu. Ítrekaðar tilraunir hafi verið gerðar til að hafa samband við fyrirtækið, án árangurs. Þann 17. júlí 2023 hafi kæranda verið send tilkynning þess efnis að þar sem óafgreiddum tillögum að starfsfólki vegna starfsauglýsingar hefði ekki verið svarað og ráðningarsamningar hefðu ekki borist væri málinu lokið að hálfu stofnunarinnar. Enginn samningur um ráðningarstyrk vegna starfsins hafi verið gerður að hálfu Vinnumálastofnunar og engar greiðslur hafi verið inntar af hendi vegna ráðningar atvinnuleitanda hjá fyrirtækinu.
Þann 23. ágúst 2023 hafi kærandi haft samband við Vinnumálastofnun. Þá hafi komið fram að fyrirtækið hefði ráðið fyrrgreinda atvinnuleitendur til starfa. Meðfylgjandi erindi kæranda hafi verið ráðningarsamningar og launaseðlar. Í ráðningarsamningum komi fram að fyrsti starfsdagur starfsmanna sé 1. júní. Vinnumálastofnun hafi gert athugasemdir við launakjör starfsmanna og því óskað eftir því að fyrirtækið upplýsti um það hvenær starfsmenn hefðu hafið störf hjá fyrirtækinu. Þann 1. september hafi borist nýr ráðningarsamningur milli kæranda og B þar sem fram komi að hann hefði byrjað störf hjá fyrirtækinu 9. maí eða tæpum tveimur mánuðum áður en umsóknarfrestur starfsauglýsingar hafi verið liðinn.
Fyrirtækið hafi haft samband við Vinnumálastofnun 4. október og óskað eftir að fá greiddan ráðningarstyrk. Beiðni kæranda um ráðningarstyrk hafi verið synjað sama dag. Í erindi Vinnumálstofnunar komi fram að ítrekað hafi verið óskað eftir ráðningarsamningum en ráðningarsamningar eiga að berast áður en viðkomandi hefji störf hjá fyrirtæki eða að minnsta kosti innan við viku eftir að viðkomandi hefji störf. Kæranda hafi jafnframt verið bent á heimild sína til að kæra ákvörðun stofnunarinnar til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. 16. gr. reglugerðar nr. 918/2020, sbr. 9. gr. laga nr. 55/2006 um vinnumarkaðsaðgerðir.
Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Þá gildi lög nr. 55/2006 um vinnumarkaðsaðgerðir um vinnumiðlun og skipulag úrræða til að auka vinnufærni atvinnuleitanda. Mál þetta varði þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að hafna því að gera samning um ráðningarstyrk við A.
Í reglugerð nr. 918/2020 séu settar nánari reglur um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um greiðslu styrkja úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Reglugerðin sé sett samkvæmt heimild í 62. og 64. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og 5. mgr. 12. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir að fenginni umsögn stjórnar Vinnumálstofnunar.
Í 9. gr. reglugerðar nr. 918/2020 sé fjallað um vinnumarkaðsúrræðið ,,ráðning með styrk“. Í úrræðinu felist að Vinnumálastofnun sé heimilt að gera samning við fyrirtæki, stofnun eða frjáls félagasamtök um ráðningu atvinnuleitanda sem teljist tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins í starfsþjálfun hjá fyrirtækinu, stofnuninni eða félagasamtökunum, enda teljist ráðningin vinnumarkaðsúrræði samkvæmt b. lið 1. mgr. 12. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, með síðari breytingum, að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar. Markmiðið sé að atvinnuleitandinn fái tækifæri til að þjálfa sig í þeirri starfsgrein sem fyrirtækið, stofnunin eða félagasamtökin starfi innan til að auka hæfni sína til slíkra starfa á vinnumarkaði, enda sé hann reiðubúinn að ráða sig til framtíðarstarfa innan starfsgreinarinnar.
Meðal skilyrða fyrir greiðslu styrks úr Atvinnuleysistryggingasjóði á grundvelli samnings samkvæmt 1. mgr. séu að viðkomandi atvinnurekandi greiði laun samkvæmt ákvæðum gildandi kjarasamnings. Eðli máls samkvæmt þurfi atvinnurekandi að sækja um ráðningarstyrk, afhenda afrit af ráðningarsamning og skrá upphaf starfs áður en starfsmaður hefji störf fyrir atvinnurekanda ef til standi að fá greiddan styrk frá Vinnumálastofnun. Til að tryggja að skilyrði fyrir styrkgreiðslum séu uppfyllt séu ráðningarsamningar því kannaðir, með tilliti til launakjara og vinnutíma, áður en styrksamningar séu undirritaðir. Þegar ráðningarsamningur hafi borist stofnuninni sé fyrst ljóst hvort skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt.
Í tilfelli kæranda hafi starfsmaður hafið vinnu hjá fyrirtækinu áður en Vinnumálastofnun hafi verið upplýst um ráðningu hjá fyrirtækinu. Vinnumálastofnun, atvinnuleitandi og atvinnurekandi hafi ekki undirritað samning um ráðningu með styrk, enda hafi stofnunin ekki getað staðreynt að skilyrði fyrir styrk væru uppfyllt. Þá liggi fyrir að báðir starfsmenn sem mál þetta varði hafi hafið störf hjá fyrirtækinu áður en umsóknarfrestur starfsauglýsingar hafi verið liðinn og áður en Vinnumálastofnun hafi verið upplýst um ráðningu.
Í ljósi framangreindra skilyrða og atvika í máli þessu sé það afstaða Vinnumálastofnunar að ekki sé heimilt að veita kæranda afturvirkan styrk á grundvelli 9. gr. reglugerðar nr. 918/2020, enda hafi þríhliða samningur þess efnis ekki verið undirritaður.
Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að hafna skuli kröfum kæranda.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja umsókn kæranda um ráðningarstyrk samkvæmt reglugerð nr. 918/2020 um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um greiðslu styrkja úr Atvinnuleysistryggingasjóði.
Úrskurðarnefndin telur ástæðu til að átelja þann mikla drátt sem varð hjá Vinnumálastofnun á því að skila greinargerð og gögnum til nefndarinnar. Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal nefndin kveða upp úrskurði svo fljótt sem kostur er og að jafnaði innan þriggja mánaða eftir að henni berst mál, nema sérstakar ástæður hamli. Forsenda þess að úrskurðarnefndin geti fylgt þeirri reglu er að fullnægjandi gögn liggi fyrir tímanlega en ljóst er að svo var ekki í máli þessu. Úrskurðarnefndin brýnir fyrir Vinnumálastofnun að virða framvegis þau tímamörk sem sett eru vegna kærumála hjá nefndinni.
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gilda lögin um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 62. gr. laga laganna er kveðið á um styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna einstaklinga. Samkvæmt 2. mgr. 62. gr. greiðast styrkir á grundvelli reglugerðar sem ráðherra setur.
Samkvæmt 9. gr. reglugerðar nr. 918/2020 er Vinnumálastofnun heimilt að gera samning við fyrirtæki, stofnun eða frjáls félagasamtök um ráðningu atvinnuleitanda sem tryggður er innan atvinnuleysistryggingakerfisins, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Vinnumálastofnun, hlutaðeigandi fyrirtæki, stofnun eða félagasamtök og viðkomandi atvinnuleitandi skulu undirrita samninginn. Með undirritun sinni skuldbindur viðkomandi atvinnuleitandi sig til að taka þátt í þeirri starfsþjálfun sem honum ber á grundvelli samningsins. Jafnframt skuldbindur Vinnumálastofnun sig með undirritun sinni til að greiða styrk úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt 2. eða 3. mgr. til hlutaðeigandi fyrirtækis, stofnunar eða félagasamtaka. Þá skuldbinda hlutaðeigandi fyrirtæki, stofnun eða félagasamtök sig með undirritun sinni til að greiða viðkomandi atvinnuleitanda laun samkvæmt ákvæðum gildandi kjarasamnings. Markmiðið er að atvinnuleitandinn fái tækifæri til að þjálfa sig í þeirri starfsgrein sem fyrirtækið, stofnunin eða félagasamtökin starfa innan til að auka hæfni sína til slíkra starfa á vinnumarkaði, enda sé hann reiðubúinn að ráða sig til framtíðarstarfa innan starfsgreinarinnar.
Samkvæmt framangreindu þarf að fara fram ákveðið mat á því hvort fyrirtæki eigi rétt á ráðningarstyrk áður en atvinnuleitandi hefur störf og til þess að svo sé unnt þurfa viðeigandi gögn að berast Vinnumálastofnun fyrir það tímamark. Þá fyrst getur stofnunin lagt mat á hvort skilyrði til greiðslu styrksins séu uppfyllt og eftir atvikum gengið frá þríhliða samningi eins og kveðið er á um í 9. gr. reglugerðar nr. 918/2020.
Í máli þessu háttar svo til að starfsmennirnir tveir sem kærandi hefur tilgreint hófu störf hjá fyrirtækinu áður en Vinnumálastofnun var upplýst um ráðninguna. Að því virtu var skilyrði til greiðslu ráðningarstyrks vegna þeirra ekki uppfyllt. Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja umsókn kæranda um ráðningarstyrk er því staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 4. október 2023, um að synja umsókn A, um ráðningarstyrk, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir