Nr. 332/2019 - Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 4. júlí 2019 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 332/2019
í stjórnsýslumáli nr. KNU19040116
Kæra […]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 30. apríl 2019 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. apríl 2019, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.Þess er krafist að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar á grundvelli 1.-3. mgr. 36. gr., sbr. 42. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsmeðferð
Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 31. ágúst 2018. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann sama dag, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Svíþjóð. Þann 31. október 2018 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Svíþjóð, sbr. d-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá sænskum yfirvöldum, dags. 19. nóvember 2018, samþykktu þau viðtöku kæranda á grundvelli 2. mgr. 25. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 15. apríl 2019 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 17. apríl 2019 og kærði kærandi ákvörðunina þann 30. apríl 2019 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 10. maí 2019 ásamt fylgigögnum.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að sænsk stjórnvöld bæru ábyrgð á meðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Umsóknin yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Svíþjóðar ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá hefði kærandi ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður væru fyrir hendi þannig að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hann fluttur til Svíþjóðar.
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom m.a. fram að kærandi hafi kvaðst vera fæddur […]. Þá hefði kærandi lagt fram […] vegabréf og auðkennisvottorð þar sem fram kæmi að hann væri fæddur þann dag. Samkvæmt niðurstöðum aldursgreiningar í Svíþjóð var kærandi hins vegar skráður með fæðingardag þann […] og því eldri en 18 ára. Þá var það einnig mat Útlendingastofnunar að framburður kæranda í viðtölum hjá stofnuninni hefði ekki verið til þess fallinn að auka trúverðugleika frásagnar hans. Það var niðurstaða Útlendingastofnunar um þann þátt málsins að fyrir lægi heildstætt og einstaklingsbundið mat á aldri hans sem leitt hefði í ljós að hann væri eldri en 18 ára og hefði verið það við framlagningu umsóknar sinnar um alþjóðlega vernd hér á landi.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda kemur fram að við komuna hingað til lands hafi hann framvísað […] vegabréfi sem hafi gefið til kynna að hann sé fæddur […]. Þá er í greinargerð kæranda vísað til endurrita af viðtölum hans hjá Útlendingastofnun en þar komi fram að kæranda hafi verið gerð grein fyrir misræmi sem að mati stofnunarinnar hafi komið fram í gögnum málsins og varðað aldur hans. Kæranda hafi verið veitt tækifæri til að gefa skýringar á misræmi á ákvörðuðum fæðingardegi í viðtökuríki og þeim fæðingardegi sem fram hafi komið í áðurnefndu vegabréfi. Kærandi hafi framvísað […] auðkennisvottorði til stuðnings frásögn sinni um fæðingardag auk andmæla en ákvörðun Útlendingastofnunar hafi verið sú að fara skyldi með mál kæranda sem fullorðins einstaklings. Hafi sú niðurstaða m.a. verið byggð á upplýsingum sem legið hafi fyrir um kæranda í viðtökuríki. Þá komi fram að kærandi hafi mótmælt því að framangreind skilríki hafi ekki verið lögð til grundvallar ákvörðun í máli hans auk þess sem málsmeðferðin hafi tekið langan tíma. Þá komi fram að aðstæður kæranda í viðtökuríki hafi versnað í kjölfar lokasynjunar á umsókn hans um alþjóðlega vernd þar í landi. Hann hafi misst fast húsaskjól og þá hafi hann upplifað kynþáttafordóma.
Í greinargerð kæranda koma fram nokkrar athugasemdir við hina kærðu ákvörðun. Í fyrsta lagi geri kærandi athugasemd við þá staðhæfingu Útlendingastofnunar að ósamræmis hafi gætt í frásögn hans hvað varði aldur. Hann hafi staðfastlega haldið því fram að fæðingardagur hans sé […] og fái sú frásögn stoð í þeim gögnum sem hann hafi lagt fram. Í öðru lagi geri kærandi athugasemd við mat Útlendingastofnunar á aldri hans. Kærandi kveði að vafi um niðurstöðu aldursgreiningar skuli metinn umsækjanda í hag, sbr. 113. gr. laga um útlendinga. Telji kærandi að hann hafi hvorki verið látinn njóta þess vafa sem sannarlega leiki á aldri hans, né hafi hagsmunir hans verið hafðir að leiðarljósi í málinu. Í málinu liggi fyrir gilt og ófalsað vegabréf útgefið af fullvalda ríki sem og auðkennisvottorð sem staðfesti frásögn kæranda um fæðingardag. Kærandi telji að Útlendingastofnun sé óheimilt að ákvarða aldur hans aðeins út frá gögnum frá viðtökuríki, án þess að heildstætt mat hafi verið lagt á aðstæður hans og frásögn. Gerir kærandi því þá kröfu að aldur hans verði endurmetinn. Kærandi geri í þriðja lagi athugasemd við þá niðurstöðu Útlendingastofnunar að kærandi sé ekki einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Kærandi kveði að ungur aldur hans, sú staðreynd að hann tilheyri minnihlutahópi og það alvarlega líkamlega og andlega ofbeldi sem hann hafi orðið fyrir beri með sér að hann teljist vera einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi ákvæðisins. Í fjórða lagi geri kærandi athugasemd við málsmeðferð Útlendingastofnunar. Kærandi bendi á að ríflega sjö mánuðir hafi liðið frá því að kærandi hafi sótt um alþjóðlega vernd hér á landi þar til hann hafi verið boðaður til viðtals vegna umsóknarinnar. Kærandi vísi til úrskurðar kærunefndar til stuðnings þeirri fullyrðingu að málið hafi dregist verulega og telji að með drættinum hafi Útlendingastofnun brotið gegn málshraðareglu 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi fari þess á leit við kærunefnd að hún bæti úr ágöllum á hinni kærðu ákvörðun og geri Útlendingastofnun að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar.
Í greinargerð kæranda er vísað til umfjöllunar í greinargerð hans til Útlendingastofnunar, dags. 27. mars 2019, varðandi aðstæður og réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd í Svíþjóð. Þá kemur fram lýsing á öryggisástandinu í heimaríki, einkum aðstæðum […] þar í landi m.a. með vísan til skýrslna alþjóðlegra stofnana og frjálsra félagasamtaka.
Krafa kæranda um efnismeðferð er í fyrsta lagi byggð á því að fyrir hendi séu sérstakar ástæður í máli hans, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í þeim efnum fjallar kærandi almennt um og gerir grein fyrir inntaki og túlkun á ákvæðinu, m.a. með hliðsjón af lögskýringargögnum og fyrri úrskurðum kærunefndar útlendingamála. Kærandi fjallar auk þess um reglugerð 276/2018, sem breytti reglugerð um útlendinga nr. 540/2017. Þar sé að finna ákvæði sem gangi lengra en ákvæði laga um útlendinga og gangi í sumum tilvikum gegn vilja löggjafans. Þá vísar kærandi m.a. til úrskurðar kærunefndar útlendingamála nr. 126/2019 frá 9. apríl 2019 en þar hafi kærunefnd metið kæranda sem barn við komuna til Íslands og hafi niðurstaðan verið byggð á því mati, þrátt fyrir að hann hafi verið orðinn fullorðinn á úrskurðardegi. Í því máli hafi kærunefnd byggt niðurstöðu sína á túlkun á 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga með hliðsjón af sérviðmiði er varði börn í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Kærandi byggi á því, með vísan til viðkvæmrar stöðu hans, ungs aldurs, erfiðrar reynslu og umdeildrar stefnu sænskra yfirvalda hvað varði endursendingar […] umsækjenda um alþjóðlega vernd til heimaríkis, að fyrir hendi séu sérstakar ástæður í máli hans, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Krafa kæranda er í öðru lagi byggð á 3. mgr. 36. gr., sbr. 42. gr. laga um útlendinga, enda myndi endursending hans til viðtökuríkis fela í sér að hann yrði endursendur til heimaríkis þar sem líf hans og frelsi myndi vera í hættu. Þá geri kærandi grein fyrir inntaki meginreglunnar um non-refoulement sem lögfest sé í 42. gr. laga um útlendinga. Kærandi kveði að þar sem hann hafi þegar fengið lokasynjun á umsókn sinni í viðtökuríki muni íslensk stjórnvöld, með endursendingu, greiða leið sænskra yfirvalda til að senda hann til heimaríkis með ófyrirséðum afleiðingum. Í ljósi framangreindrar stöðu sinnar sé kærandi því í raunverulegri hættu á að verða þolandi ómannúðlegrar og vanvirðandi meðferðar við endursendingu til viðtökuríkis, í skilningi 42. gr. laga um útlendinga, og því beri íslenskum stjórnvöldum að taka mál hans til efnismeðferðar, sbr. 3. mgr. 36. gr. laganna.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Mat á aldri, sbr. 113. gr. laga um útlendinga
Í 3. mgr. 26. gr. laga um útlendinga segir m.a. að ef grunur vaknar um að umsækjandi sem segist vera fylgdarlaust barn sé lögráða, og ekki er hægt að staðfesta það á óyggjandi hátt, skuli gerð, eins fljótt og kostur er, aldursgreining skv. 113. gr. laganna. Í 1. mgr. 113. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ef grunur leiki á að umsækjandi um alþjóðlega vernd eða umsækjandi um dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar villi á sér heimildir við meðferð máls eða segi rangt til um aldur við meðferð máls geti viðkomandi stjórnvald lagt fyrir útlending að hann gangist undir líkamsrannsókn til þess að ákvarða aldur hans. Niðurstaða úr slíkri líkamsrannsókn skuli metin í samhengi við önnur atriði málsins og vafi metinn umsækjanda í hag. Í 1. mgr. 40. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, sbr. 3. mgr. 113. gr. laga um útlendinga, kemur jafnframt fram að við ákvörðun á aldri skuli fara fram heildstætt mat á aðstæðum einstaklings og frásagnar af ævi hans en auk þess megi beita líkamsrannsókn til greiningar á aldri. Leiki grunur á að umsækjandi segi rangt til um aldur skuli framkvæma líkamsrannsókn til greiningar.
Samkvæmt framansögðu hefur löggjafinn ákveðið að stjórnvöld á sviði útlendingamála skuli beita tilteknum rannsóknaraðferðum þegar upplýsa þarf um aldur umsækjanda um alþjóðlega vernd. Þá hefur löggjafinn jafnframt ákveðið að mat á aldri skuli vera heildstætt og vera byggt, eftir atvikum, á fleiri gögnum en líkamsrannsókn. Þá hefur löggjafinn enn fremur ákveðið að aldursgreining, skv. 113. gr. laga um útlendinga skuli fara fram eins fljótt og kostur er.
Við meðferð málsins hefur kærandi haldið því fram að fæðingardagur hans sé […] og hefur hann lagt fram tvenn skilríki til stuðnings þeim framburði sínum, annars vegar […] vegabréf og hins vegar þarlent auðkennisvottorð. Í niðurstöðum skilríkjasérfræðinga lögreglunnar varðandi framangreint auðkennisvottorð kom fram að ekki væri að sjá neitt sem benti til fölsunar. Kom auk þess fram að ekkert væri hægt að segja til um þau gögn eða upplýsingar sem lægju vottorðinu til grundvallar. Þá liggja fyrir gögn frá sænskum stjórnvöldum um að kærandi hafi undirgengist aldursgreiningu þar í landi. Hafi niðurstaða rannsóknarinnar gefið til kynna að yfirgnæfandi líkur væru á því að kærandi væri eldri en 18 ára. Var fæðingardagur kæranda ákvarðaður […] en niðurstaða umsóknar hans um alþjóðlega vernd var birt kæranda þann […].
Líkt og að framan greinir kemur fram í 3. mgr. 26. gr. laga um útlendinga að vakni grunur um að umsækjandi sem segist vera fylgdarlaust barn sé lögráða og ekki sé hægt að staðfesta það á óyggjandi hátt, skuli gerð, eins fljótt og kostur sé, aldursgreining skv. 113. gr. laganna. Þegar litið er með heildstæðum hætti til gagna málsins, einkum þeirra gagna sem kærandi lagði fram við umsókn sína hér á landi og gagna frá viðtökuríki er það mat kærunefndar að aðstæður hafi verið slíkar að boða hefði þurft kæranda í aldursgreiningu eins fljótt og kostur hafi verið skv. 113. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 26. gr. laganna. Er það því niðurstaða nefndarinnar að fella ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda úr gildi og leggja fyrir stofnunina að taka málið til nýrrar meðferðar, enda hafi framangreindur lagaáskilnaður ekki verið uppfylltur í málinu.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til meðferðar á ný.
The decision of the Directorate of Immigration in the case of the appellant is vacated. The Directorate of Immigration shall reexamine his application for asylum in Iceland.
Hjörtur Bragi Sverrisson
Hilmar Magnússon Þorbjörg Inga Jónsdóttir