Hoppa yfir valmynd

Nr. 675/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 15. nóvember 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 675/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23080067

 

Kæra [...] á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 25. ágúst 2023 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Venesúela og Kólumbíu ( hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. ágúst 2023, um að synja umsókn hennar um dvalarleyfi, sbr. 4. mgr. 51. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og henni verði veitt dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við landið, sbr. 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 51. gr. sömu laga. Kærandi krefst þess jafnframt að endurkomubann hennar verði fellt úr gildi, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi 15. nóvember 2021. Með ákvörðun, dags. 7. júní 2022, synjaði Útlendingastofnun umsókn kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Hinn 23. júní 2022 var kæranda veitt bráðabirgðadvalarleyfi með gildistíma til 5. nóvember 2022. Með úrskurði kærunefndar nr. 295/2022, dags. 18. ágúst 2022, var ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun á umsókn kæranda um alþjóðlega vernd staðfest. Kæranda var veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið. Kærandi yfirgaf ekki landið innan veitts frests og var beiðni um flutning send til stoðdeildar Ríkislögreglustjóra 20. september 2022. Hinn 12. september 2022 lagði kærandi aftur fram umsókn um bráðabirgðadvalarleyfi. Hinn 21. desember 2022 var kæranda veitt bráðabirgðadvalarleyfi með gildistíma til 6. nóvember 2023. Þá lagði kærandi inn umsókn um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla, sbr. 78. gr. laga um útlendinga, 3. ágúst 2022. Hinn 23. september 2022 lagði kærandi fram umsókn hjá Útlendingastofnun um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki. Með bréfi Útlendingastofnunar, dags. 2. mars 2023, var kæranda tilkynnt að hún uppfyllti ekki skilyrði 1. og 2. mgr. 51. gr. laga um útlendinga og var henni veitt færi á að leggja fram andmæli. Með ákvörðun, dags. 11. apríl 2023, var umsókn kæranda um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki synjað. Með úrskurði kærunefndar nr. 327/2023, dags. 7. júní 2023, var ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

Með hinni kærðu ákvörðun, dags. 11. ágúst 2023, var umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið synjað. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að með úrskurði kærunefndar í máli kæranda, dags. 18. ágúst 2022, hafi henni verið veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið. Kærandi uppfylli því ekki skilyrði 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga. Þá kemur fram að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. og 2. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Kærandi sé með bráðabirgðadvalarleyfi til 6. nóvember 2023 en slíkt dvalarleyfi veiti ekki sjálfstæðan grundvöll til dvalar hér á landi auk þess sem kærunefnd hafi nú þegar komist að þeirri niðurstöðu að endursending kæranda til Kólumbíu sé ekki í andstöðu við 1. og 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Þá hafi ekkert bent til þess að umönnunarsjónarmið eða aðrar ástæður hafi verið til staðar til þess að ósanngjarnt væri að beita ekki undanþáguákvæði 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Hafi það því verið mat Útlendingastofnunar að ekki væru fyrir hendi ríkar sanngirnisástæður í skilningi 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Umsókn kæranda hafi því verið hafnað með vísan til 4. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var kæranda jafnframt brottvísað, sbr. 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, og ákvarðað endurkomubann í tvö ár.  

Hinn 25. ágúst 2023 barst kærunefnd kæra kæranda á ákvörðun Útlendingastofnunar. Greinargerð kæranda ásamt fylgiskjali barst nefndinni 6. september 2023.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð sinni til kærunefndar gerir kærandi athugasemdir við niðurstöðu Útlendingastofnunar um að aðstæður hennar falli hvorki undir 1. né 2. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi komið til landsins í lögmætum tilgangi ásamt fjölskyldu sinni sem ungmenni, þ.e. til að sækja um alþjóðlega vernd. Líta verði til þess að vilji löggjafans virðist vera til þess að skýrari afstaða sé tekin til þess hver áhrif fyrri ákvarðana stjórnvalda hafi á 2. mgr. 51. gr., t.d. ef umsækjanda hafi áður verið synjað um alþjóðlega vernd líkt og í máli kæranda. Slíkt megi sjá af athugasemdum við 4. gr. breytingarlaga nr. 233/149 þar sem fram komi að framkvæmd á 2. mgr. 51. gr. laga um útlendinga hafi verið háð óvissu sem þörf sé á að skýra en ráðherra sé heimilt að taka afstöðu til undanþáguheimilda í bæði 1. og 3. mgr. sömu greinar og þá einkum vegna áhrifa fyrri ákvarðana stjórnvalda. Í nefndaráliti meirihluta með breytingartillögunni sé sérstaklega vikið að áhrifum fyrri dvalar og fyrri ákvarðana stjórnvalda í tengslum við reglugerðarheimildina þar sem áréttað sé að við beitingu undanþáguheimilda hvað varðar áhrif fyrri dvalar verði að taka ríkt tillit til sanngirnis- og mannúðarsjónarmiða. Að lokum hafi verið vakin athygli á ósamræmi skilyrða 2. og 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga í úrskurðarframkvæmd, sbr. m.a. úrskurður kærunefndar útlendingamála nr. 127/2022.

Kærandi gerir jafnframt athugasemdir við þá niðurstöðu Útlendingastofnunar að ekki eigi að beita 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Eins og fram hafi komið í andmælabréfi kæranda, dags. 19. júlí 2023, séu gríðarlega ríkar sanngirnisástæður fyrir hendi sem beintengdar séu því að tryggja samvistir kæranda við fjölskyldu sína hérlendis. Þá gerir kærandi athugasemdir við reifun Útlendingastofnunar á dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Slivenko gegn Lettlandi í máli nr. 4832 frá 9. október 2003. Í hinni kærðu ákvörðun sé vísað til þess að fjölskyldulíf samkvæmt 8. gr. sé túlkað á þá leið að um sé að ræða fjölskyldulíf sem stofnað sé til í lögmætri dvöl útlendings í viðkomandi landi. Í sama dómi sé vísað til þess að dómstóllinn hafi í sumum tilvikum komist að þeirri niðurstöðu að einstaklingar sem hafi dvalist í landi ólöglega til lengri tíma hafi fallið undir 8. gr. mannréttindasáttmálans. Í þeim tilvikum hafi það haft mikið vægi í málinu að hve miklu leyti einstaklingarnir hafi aðlagast samfélaginu. Kærandi hafi aðlagast samfélaginu hér á landi sérstaklega vel enda hafi hún dvalið hér síðan hún var ungmenni. Kærandi gerir þá jafnframt athugasemd við það að hugtakið eining fjölskyldunnar nái ekki til systur hennar og móður, eingöngu á þeim forsendum að hún sé fullorðin. Ekki sé hægt að beita svo þrengjandi túlkun á 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sérstaklega í ljósi þess að kærandi hafi komið til landsins sem flóttamaður með kjarnafjölskyldu sinni sem ungmenni. Af þeirri ástæðu liggi fyrir að tilfinningaleg tengsl vegi óumdeilanlega þyngra á milli hennar og móður hennar og systkina sem deili sömu flóttasögu og hafi eingöngu hvert annað. Þessu til rökstuðnings vísar kærandi til túlkunar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um mikilvægi fjölskyldueiningarinnar hjá flóttafólki.

Kærandi telji að mun meiri hagsmunir séu fyrir undanþágu um dvöl hérlendis við afgreiðslu umsóknar kæranda heldur en hagsmunir stjórnvalda af því að hún hverfi af landi brott. Byggir kærandi því á því að aðstæður hennar séu með þeim hætti að ákvæði 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga skuli beitt í hennar tilviki. Þá bendir kærandi á að hún hafði verði í samskiptum við Útlendingastofnun og IOM (International Organization for Migration) áður en hin kærða ákvörðun hafi verið tekin. Hjá IOM hafi hún fengið þau svör að erfitt væri að aðstoða við heimför til Venesúela þar sem afar margir einstaklingar hafi óskað eftir slíku.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Umsókn um dvalarleyfi

Í 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga kemur fram sú meginregla að útlendingur sem sækir um dvalarleyfi í fyrsta skipti skuli sækja um leyfið áður en hann kemur til landsins og er honum óheimilt að koma til landsins fyrr en umsóknin hefur verið samþykkt. Frá því skilyrði er heimilt að víkja ef umsækjandi um dvalarleyfi er undanþeginn áritunarskyldu eða hann er staddur hér á landi og aðstæður hans falla undir a-c-lið 1. mgr. 51. gr. Varða stafliðirnir þær aðstæður þar sem umsækjandi er maki eða sambúðarmaki íslensks eða norræns ríkisborgara eða útlendings sem dvelst löglega í landinu samkvæmt ótímabundnu dvalarleyfi eða dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, sbr. a-lið, barn íslensks eða norræns ríkisborgara eða útlendings sem dvelst eða fær að dveljast löglega í landinu samkvæmt ótímabundnu dvalarleyfi eða dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, þegar barnið er yngra en 18 ára, sbr. b-lið, eða þegar sótt er um dvalarleyfi á grundvelli 61., 63. eða 64. gr. laga um útlendinga.

Í 2. mgr. 51. gr. laga um útlendinga segir að heimild til dvalar þegar umsækjandi sé undanþeginn áritunarskyldu gildi þar til umsækjandi hafi dvalið í 90 daga á Schengen-svæðinu. Undantekningar a-c-liðar 1. mgr. gildi meðan umsækjandi hafi heimild til dvalar á grundvelli gildrar vegabréfsáritunar eða á grundvelli dvalar án áritunar. Útlendingastofnun geti veitt umsækjendum á grundvelli a- og b-liðar 1. mgr. heimild til lengri dvalar meðan umsókn sé í vinnslu.

Kærandi byggir umsókn sína um dvalarleyfi á sérstökum tengslum við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga, en móðir hennar og systir dvelji hér á landi á grundvelli dvalarleyfis. Kærandi hefur aldrei haft dvalarleyfi hér á landi. Samkvæmt gögnum málsins uppfyllir kærandi ekki skilyrði 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga og þá liggur fyrir að þegar hún lagði fram dvalarleyfisumsókn sína hér á landi var dvöl hennar hvorki á grundvelli gildrar vegabréfsáritunar né á grundvelli dvalar án áritunar, sbr. 2. mgr. 51. gr. laga um útlendinga, en hún kom hingað til lands 15. nóvember 2021.

Kærandi er með bráðabirgðadvalarleyfi hér á landi á grundvelli 77. gr. laga um útlendinga með gildistíma til 6. nóvember 2023. Bráðabirgðadvalarleyfi veitir ekki sjálfstæðan grundvöll til dvalar hér á landi, enda gildir það alla jafna þar til ákvörðun stjórnvalda um synjun á alþjóðlegri vernd kemur til framkvæmda.

Í 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að heimilt sé að víkja frá 1. mgr. 51. gr. í öðrum tilvikum en þar eru upp talin ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því. Ákvæði 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga er matskennt lagaákvæði en hugtakið „ríkar sanngirnisástæður“ er ekki útfært nánar í lögunum eða í reglugerð um útlendinga, líkt og ráðherra hefur heimild til. Eru einu leiðbeiningarnar sem stjórnvöld hafa við beitingu ákvæðisins þau sjónarmið sem fram koma í greinargerð í frumvarpi því sem varð að lögum um útlendinga, en þar segir m.a. um 3. mgr. að ætlunin sé að ákvæðinu sé beitt þegar tryggja þarf samvistir fjölskyldna eða þegar miklir hagsmunir séu í húfi.

Kærandi telur að ríkar sanngirnisástæður séu fyrir hendi í máli hennar en hún eigi móður og systur sem dvelji hér á landi á grundvelli dvalarleyfis, kærandi sé í vinnu hér á landi, hafi einbeitt sér að því að læra íslensku og hafi stundað ýmis félagsstörf. Kærandi eigi enga ættingja í Kólumbíu, hafi engan félagslegan stuðning þar og óttist um líf sitt þar í landi. Kærandi hafi aðlagast samfélaginu hér á landi sérstaklega vel enda hafi hún dvalið hér á landi síðan hún var ungmenni. Þá gagnrýnir kærandi það mat Útlendingastofnunar að hugtakið eining fjölskyldunnar nái ekki til systur kæranda og móður.

Samkvæmt gögnum málsins kom kærandi hingað til lands 15. nóvember 2021 og lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd sama dag. Með úrskurði kærunefndar nr. 295/2022, dags. 18. ágúst 2022, rúmlega níu mánuðum eftir að kærandi kom til landsins, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja kæranda um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Þá var kæranda vísað frá landinu og gefinn 30 daga frestur til að yfirgefa landið. Með úrskurði kærunefndar nr. 327/2023, dags. 7. júní 2023, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja umsókn kæranda um dvalarleyfi hér á landi vegna skorts á starfsfólki. Ítrekaði kærunefnd þar fyrri leiðbeiningar til kæranda um að yfirgefa landið annars kynni það að leiða til brottvísunar og endurkomubanns. Gögn málsins benda ekki til þess að kærandi hafi yfirgefið landið. Hefur kærandi eingöngu dvalið hér á landi í tengslum við umsókn sína um alþjóðlega vernd og í kjölfar synjunar hennar dvalið ólöglega hér á landi eftir ítrekaðar leiðbeiningar stjórnvalda um að henni beri að yfirgefa landið. Þrátt fyrir að móðir kæranda og systir búi hér á landi er það mat kærunefndar að ríkar sanngirnisástæður séu ekki fyrir hendi í máli kæranda. Við það mat lítur nefndin til þess að kærandi er lögráða einstaklingur og kom hingað til lands [...] ára gömul. Þá geti kærandi á grundvelli áritunarfrelsis venesúelskra ríkisborgara ferðast hingað til lands og dvalið hér á landi í 90 daga á hverju 180 daga tímabili yfirgefi hún landið innan veitts frests.

Samkvæmt framansögðu er ljóst að kærandi uppfyllir ekki skilyrði 1. og 2. mgr. 51. gr. laga um útlendinga um að sækja um dvalarleyfi áður en komið er til landsins og þá eiga undantekningar ákvæðisins ekki við. Ber því að hafna umsókn kæranda á þeim grundvelli, sbr. 4. mgr. 51. gr. laganna.

Að öllu framangreindu virtu verður staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun á umsókn kæranda um dvalarleyfi.

Kærunefnd bendir kæranda á að hún getur lagt fram aðra dvalarleyfisumsókn á sama grundvelli eftir að hún yfirgefur Ísland. Kæranda er leiðbeint um að endurkomubann hennar kunni að hafa áhrif á slíka umsókn, sbr. d-lið 1. mgr. 55. gr. sbr. e-lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Með þessum leiðbeiningum er kærunefnd þó ekki að taka afstöðu til þess hvernig slík umsókn verði afgreidd eða hvort kærandi uppfylli önnur skilyrði laga um útlendinga til útgáfu dvalarleyfis.

Brottvísun og endurkomubann

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var kæranda brottvísað og henni ákvarðað endurkomubann til landsins í tvö ár.

Í 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga segir að svo framarlega sem 102. gr. eigi ekki við skuli vísa útlendingi úr landi sem dvelst ólöglega í landinu eða þegar tekin hefur verið ákvörðun sem bindur enda á heimild útlendings til dvalar í landinu. Í úrskurði kærunefndar nr. 295/2022 var umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi synjað. Var kæranda gert að yfirgefa landið og hefur kærandi verið í ólögmætri dvöl hér á landi síðan. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. ágúst 2023, var kæranda brottvísað og henni ákvarðað endurkomubann í tvö ár. Þegar Útlendingastofnun tók ákvörðun sína 11. ágúst 2023 dvaldi kærandi enn hér á landi. Var skilyrðum 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga því fullnægt þegar hin kærða ákvörðun var tekin og birt kæranda. Kæra frestaði ekki réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar og lagði kærandi ekki fram beiðni um slíkt til kærunefndar.

Í 102. gr. laga um útlendinga er kveðið á um vernd gegn frávísun og brottvísun og takmarkanir á ákvörðun um brottvísun. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. skal ekki ákveða brottvísun ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn eða nánasta aðstandanda barns er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun. Með bréfi, dags. 18. júlí 2023, var kæranda leiðbeint um að henni kynni að verða ákvörðuð brottvísun og endurkomubann hingað til lands og gefið færi á að koma að andmælum hvað það varðar. Kærandi sendi Útlendingastofnun andmælabréf, dags. 19. júlí 2023. Þar kemur fram að kærandi hafi afar sterk tengsl við Schengen-svæðið þar sem öll nánasta fjölskylda hennar sé stödd. Kærandi dvelji nú þriðja ár sitt hér á landi, að mestu vegna tafa á málsmeðferð af hálfu stjórnvalda, og hafi óneitanlega ræktað sterk tengsl hér á landi. Endurkomubann hefði gríðarlega slæm og íþyngjandi áhrif á fjölskylduna alla og þau tengsl sem kærandi hafi ræktað hér á landi síðastliðin þrjú ár. Ákvörðunin myndi gera það að verkum að fjölskyldu kæranda yrði endanlega sundrað. Stjórnvöldum sé skylt að velja vægasta úrræðið við úrlausn máls, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga. Við mat á brottvísun verði að líta á málið út frá kæranda og nánustu aðstandendum hennar m.t.t. 71. gr. stjórnarskrár Íslands og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu.

Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið litið svo á að brottvísun og endurkomubann geti skert rétt einstaklinga til friðhelgi einkalífs og fjölskyldu. Þó geti slíkar ákvarðanir verið í samræmi við lög og tilgangur þeirra geti verið að framfylgja lögmætum markmiðum, t.a.m. þeim markmiðum sem sett eru í lögum um útlendinga, sbr. t.d dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í málum Alleleh og fl. gegn Noregi (nr. 569/20) frá 23. júní 2022 og (Üner gegn Hollandi nr. 464210/99). Í máli kæranda lítur nefndin til þess sem hér að framan hefur verið rakið, þ.e. að kærandi hafi komið hingað til lands [...] ára gömul, hún hafi einungis dvalið hér á landi í tengslum við umsókn sína um alþjóðlega vernd og ítrekað fengið leiðbeiningar frá yfirvöldum um að yfirgefa landið. Kærandi hafi því mátt gera sér grein fyrir því að dvöl hennar hér á landi væri ólögmæt og að líta megi svo á í ljósi þess skamma tíma sem kærandi hefur dvalið hér á landi að tengsl hennar við heimaríki séu enn sterk. Þá geti kærandi ferðast hingað til lands á grundvelli áritunarfrelsis venesúelskra ríkisborgara og dvalið hér á landi í 90 daga á hverju 180 daga tímabili.

Að mati kærunefndar benda gögn málsins ekki til þess að brottvísun kæranda feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart henni eða nánustu aðstandendum hennar, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Er það niðurstaða kærunefndar að ákvörðun um brottvísun og endurkomubann kæranda sé í samræmi við lög og er tilgangur hennar að framfylgja lögmætum markmiðum laga um útlendinga. Með úrskurðum kærunefndar útlendingamála hefur kæranda í tvígang verið gert að yfirgefa landið og verið veittar upplýsingar um að annað gæti leitt til brottvísunar og endurkomubanns. Gögn málsins benda ekki til þess að kærandi hafi yfirgefið landið í samræmi við fyrirmæli íslenskra stjórnvalda og telur kærunefnd ákvörðun um brottvísun og endurkomubann því í samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. 

Samkvæmt framansögðu verður staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun kæranda með vísan til 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, enda dvaldi hún ólöglega í landinu þegar ákvörðunin var tekin. Þá verður ákvörðun Útlendingastofnunar um tveggja ára endurkomubann, sbr. 2. mgr. 101. gr. laganna, jafnframt staðfest.

Gögn málsins bera með sér að kærandi sé enn stödd hér á landi. Tekur endurkomubann hennar því gildi þann dag er hún yfirgefur landið, sbr. 4. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir því að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

Valgerður María Sigurðardóttir

 

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta