Hoppa yfir valmynd

Nr. 506/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 21. október 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 506/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21060067

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 29. júní 2019 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fædd […], og vera ríkisborgari Sómalíu (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. júní 2021, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hennar um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa henni frá landinu.

Þess er krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, aðallega með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 en til vara með vísan til 42. gr. sömu laga, sbr. 3. mgr. 36. gr. laganna.

Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi hinn 10. apríl 2021. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, hinn 16. apríl 2021, kom í ljós að fingraför hennar höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Frakklandi. Hinn 27. apríl 2021 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hennar um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Frakklandi, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá frönskum yfirvöldum, dags. 8. maí 2021, samþykktu þau viðtöku kæranda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað hinn 10. júní 2021 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að henni skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda hinn 15. júní 2021 og kærði kærandi ákvörðunina hinn 29. júní 2021 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 6. júlí 2021 ásamt fylgigögnum.

III.      Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að frönsk stjórnvöld beri ábyrgð á meðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Umsóknin yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Frakklands ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá taldi Útlendingastofnun að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hún fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hún flutt til Frakklands.

IV.      Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð sinni vísar kærandi m.a. til viðtals hennar hjá Útlendingastofnun og annarra gagna málsins hvað málsatvik varðar. Í umræddu viðtali hafi kærandi m.a. greint frá því að hafa dvalið í Frakklandi í u.þ.b. eitt ár þar sem aðstæður hennar hafi verið slæmar. Til að byrja með hafi hún búið á götunni áður en hún hafi fengið pláss í móttökumiðstöð þar sem hún hafi dvalið ásamt fleirum. Hún hafi yfirgefið móttökumiðstöðina sökum mikils hávaða. Kærandi kvaðst hafa verið rænd tvívegis í Frakklandi. Í Frakklandi hafi kærandi ekki haft aðgang að heilbrigðiskerfinu auk þess sem hún hafi ekki notið gjaldfrjálsrar lögfræðiaðstoðar vegna umsóknar hennar um alþjóðlega vernd þar í landi. Aðspurð um heilsufar kvaðst kærandi glíma við stöðugan höfuðverk og svefnerfiðleika. Enn fremur greindi kærandi frá andlegri vanlíðan vegna hugsana um dauða móður hennar og börn sín sem væru í heimaríki. Þá hafi kærandi greint talsmanni sínum frá því að hún sé þolandi kynferðisofbeldi sem hafi átt sér stað í Grikklandi þegar hún hafi dvalið þar.

Kærandi gerir athugasemdir við mat Útlendingastofnunar á aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd í Frakklandi. Kærandi vísar til umfjöllunar í greinargerð til Útlendingastofnunar þar sem hún hafi m.a. greint frá því að umsækjendur um alþjóðlega vernd sæti gífurlegum hindrunum við aðgengi að móttökuþjónustu, nauðsynlegri heilbrigðis- og félagsþjónustu, húsnæði og atvinnu. Staða umrædds hóps hafi versnað vegna Covid-19 faraldursins og áhrifa hans á aðbúnað og réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd þar í landi. Þá gerir kærandi athugasemd við mat Útlendingastofnunar á einstaklingsbundinni stöðu hennar en stofnunin hafi m.a. ekki metið hana sem einstakling í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga og að rökstuðningi stofnunarinnar fyrir því mati hafi verið áfátt. Kærandi telur að hún sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga en hún sé ung kona á flótta sem sé þolandi líkamlegs og kynferðisofbeldis ásamt því sem hún glími við líkamlega og andlega erfiðleika.

Kærandi byggir aðalkröfu sína á því að sérstakar ástæður séu uppi í máli hennar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sem leggi þá skyldu á íslensk stjórnvöld að taka umsókn hennar um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi. Í 32. gr. a og b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 með síðari breytingum sé að finna viðmið um hvenær sérstakar ástæður teljist vera fyrir hendi, s.s. ef umsækjandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar. Með vísan til umfjöllunar um aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd í Frakklandi og eigin frásagnar telur kærandi að hún uppfylli umrædd viðmið. Kærandi bendir að auki á að talsmenn Rauða kross Íslands hafi áður gert athugasemdir vegna skorts á lagastoð reglugerðar um útlendinga þar sem skilyrði hennar gangi lengra en ákvæði laga um útlendinga og í raun gegn vilja löggjafans. Þá sé í reglugerð um útlendinga aðeins að finna viðmið um hvenær sérstakar ástæður séu fyrir hendi en ekki tæmandi talningu á slíkum tilvikum. Geta umrædd viðmið þar með ekki komið í veg fyrir því að framkvæmt sé heildarmat á einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda.

Kærandi byggir aðalkröfu sína til vara á því að hún muni standa fyrir ómannúðlegum aðstæðum í Frakklandi líkt og framangreind umfjöllun beri með sér. Með endursendingu myndu íslensk stjórnvöld því gerast brotleg gagnvart grundvallarreglu þjóðaréttar um bann við endursendingu (non-refoulement), auk samsvarandi ákvæða íslenskra laga og mannréttindasamninga sem Ísland á aðild að, þ.e. 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. 42. gr. sömu laga, 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá vísar kærandi til dóms stjórnsýsludómstóls í Þýskalandi þar sem komist var að því að endursending mæðgna til Frakklands hafi falið í sér brot gegn 3. gr. MSE, m.a. vegna erfiðleika við að fá umsókn um alþjóðlega vernd skráða í kerfið þar í landi.

Kærandi byggir varakröfu sína á því að mat Útlendingastofnunar á raunverulegum aðstæðum hennar í Frakklandi hafi byggst á ófullnægjandi upplýsingum auk þess sem ekki hafi farið fram einstaklingsbundið mat á stöðu hennar sem sómalskrar konu á flótta sem sé fórnarlamb líkamlegs og kynferðislegs ofbeldis og glími við líkamlega og andlega erfiðleika af þeim sökum. Hafi Útlendingastofnun þar með ekki fullnægt rannsóknarskyldu sinni. Beri því að ógilda hin kærðu ákvörðun og senda umsókn kæranda til nýrrar meðferðar hjá stofnuninni, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda. Í samræmi við samning ráðs Evrópusambandsins og Íslands og Noregs um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna samþykkti Ísland áðurnefnda Dyflinnarreglugerð, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/2014.

Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Ábyrgð Frakklands á umsókn kæranda er byggð á b-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem kærandi sé með umsókn um alþjóðlega vernd til meðferðar þar í landi. Samkvæmt framansögðu er heimilt að krefja frönsk stjórnvöld um að taka við kæranda, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Aðstæður í Frakklandi

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd í Frakklandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • 2020 Country Reports on Human Rights Practices – France (United States Department of State, 30. mars 2021),

  • 4th quarterly activity report 2016 by Nils Muižnieks, Council of Europe Commissioner for Human Rights (1 October to 31 December 2016) (Council of Europe, 22. febrúar 2017),
  • Amnesty International Report 2020/21 – France (7. apríl 2021),
  • Annual Report 2020 (International Committee of the Red Cross (ICRC), 1. júlí 2021),

  • Applying for asylum in France (Groupe d‘information et de soutien des immigrés, http://www.gisti.org. Síðast uppfært 17. nóvember 2020),
  • Asylum Information Database, Country Report – France (European Council on Refugees and Exiles, mars 2021),
  • France - Country report - Non-discrimination (European Commission, 24. september 2020),
  • First Steps for Demanding Asylum (Dom‘Asile, nóvember 2015),
  • Freedom in the World 2021 – France (Freedom House, 3. mars 2021),

  • Guide for Asylum Seekers in France (Ministry of the Interior, General Directorate for Foreign Nationals in France, 1. nóvember 2015),
  • Stjórnarskrá Frakklands (aðgengileg á ensku á vefsíðu stjórnlagaráðs Frakklands, http://www.conseil-constitutionnel.fr/),
  • Universal Periodic Review. National report submitted in accordance with paragraph 5 of the annex to Human Rights Council resolution 16/21 – France (United Nations Human Rights Council, 13. nóvember 2017),

  • Upplýsingasíða Johns Hopkins háskólans (https://coronavirus.jhu.edu/map.html, sótt 21. október 2021),
  • Upplýsingasíða Sóttvarnarstofnunar Evrópu (https://www.ecdc.europa.eu/en/cases-2019-ncov-eueea, sótt 21. október 2021),

     

  • Upplýsingar af vefsíðu heilbrigðisráðuneytis Frakklands (www.solidarites-sante.gouv.fr),
  • Upplýsingar af vefsíðu utanríkisráðuneytis Frakklands (www.diplomatie.gouv.fr),

  • Vefsíða innanríkisráðuneytis Frakklands (https://www.police-nationale.interieur.gouv.fr) og
  • World Report 2021 – European Union (Human Rights Watch, 13. janúar 2021).

Í framangreindri skýrslu European Council on Refugees and Exciles (ECRE) frá því í mars 2021 kemur fram að þegar umsækjendur um alþjóðlega vernd séu sendir til Frakklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar fái umsókn þeirra hefðbundna meðferð í hæliskerfi landsins. Umsækjendur geti sótt um alþjóðlega vernd hjá stjórnsýslustofnun (f. Préfecture) eða þar til bærum undirstofnunum. Umsækjendur um alþjóðlega vernd eigi rétt á viðtali hjá sérstakri stofnun (f. Office français de l’immigration et de l’intégration (OFII)) þar sem fram fari greining á því hvort umsækjandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu eða hafi sérstakar þarfir. Samkvæmt frönsku útlendingalöggjöfinni (f. Code de l‘entreée et du séjour des étrangers et du roit d‘asile) séu tilteknir hópar nefndir í dæmaskyni sem séu í sérstaklega viðkvæmri stöðu, þ. á m. einstæðir foreldrar með ung börn á framfæri sínu, einstaklingar sem eiga við alvarleg veikindi að stríða, einstaklingar sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi og þolendur mansals. Önnur stjórnsýslustofnun, OFPRA (f. Office français de protection des réfugiés et des apatrides), taki svo efnisákvörðun í málinu.

Umsækjendur sem hafi fengið synjun á umsókn sinni hjá OFPRA geti kært niðurstöðuna til sérstaks stjórnsýsludómstóls (f. Cour nationale du droit d’asile (CNDA)). Kæra til dómstólsins fresti almennt réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar, en dómstóllinn endurskoði bæði málsástæður og lagarök í hverju máli. Niðurstöðu CNDA sé hægt að áfrýja til héraðsdómstóls (f. Conseil d’Etat) þar sem fram fari formleg endurskoðun. Þeir umsækjendur sem synjað hafi verið um alþjóðlega vernd eigi möguleika á því að leggja fram viðbótarumsókn um alþjóðlega vernd. Ef nýjar upplýsingar eða gögn liggi fyrir í máli umsækjenda geti skilyrði viðbótarumsóknar verið uppfyllt. Þá eigi umsækjendur þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun samkvæmt 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á umsókn um alþjóðlega vernd hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem brjóti í bága við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu.

Umsækjendur um alþjóðlega vernd í Frakklandi eigi almennt ekki rétt á lögfræðiaðstoð við að leggja fram umsókn sína en það fari þó eftir því í hvaða móttökumiðstöð þeir séu vistaðir. Þegar umsókn hafi verið lögð fram geti þeir þó óskað eftir gjaldfrjálsri lögfræðilegri aðstoð á grundvelli efnahags, en slíka beiðni skuli leggja fram hjá þar til bærri skrifstofu hjá stjórnsýsludómstól. Umsækjendur geti einnig leitað aðstoðar hjá frjálsum félagasamtökum sem veiti lögfræðilega aðstoð, þ. á m. í viðtölum umsækjenda hjá OFII og OFPRA. Þá eigi umsækjendur um alþjóðlega vernd einnig rétt á lögfræðiaðstoð við áfrýjun neikvæðrar niðurstöðu þeirra til CNDA stjórnsýsludómstólsins, en slík aðstoð sé í mörgum tilvikum gjaldfrjáls. Umsækjendur um alþjóðlega vernd eigi einnig rétt á að því að hafa túlk viðstaddan málsmeðferðina.

Í framangreindri skýrslu ECRE kemur fram að umsækjendur eigi möguleika á að fá húsaskjól í hefðbundnum móttökumiðstöðvum, CADA (f. Centre d‘accueil de demandeurs d‘asile) eða í tímabundnum móttökumiðstöðvum, PRADHA (f. d’accueil et d’hébergement des demandeurs d’asile) eða HUDA (f. hébergement d‘urgence dédié aux demandeurs d‘asile). Þeir sem séu endursendir til Frakklands njóti sömu réttinda til húsnæðis og þeir umsækjendur sem sæti hefðbundinni málsmeðferð. Árið 2017 hafi einnig verið komið á fót tímabundnum úrræðum, CAES (f. centres d‘accueil et d‘examen de situation administrative), þar sem einstaklingar geti verið á meðan beðið sé eftir úthlutun á gistirými í hefðbundnum móttökumiðstöðvum. Sökum mikils álags á hæliskerfinu í Frakklandi hafi þó reynst nokkur bið á því að umsækjendur komist að í móttökumiðstöðvum. Umsækjendur sem fái úthlutað gistirými í þessum miðstöðvum fái gefin út vottorð um búsetu (f. attestation de domiciliation) sem gildi í eitt ár, en slíkt vottorð geri umsækjendum m.a. kleift að stofna bankareikning og fá greiðslukort. Fái umsækjendur ekki pláss í framangreindum miðstöðvum geti þeir leitað til frjálsra félagasamtaka sem bjóða m.a. upp á lögfræðiaðstoð í tengslum við umsóknir um alþjóðlega vernd, líkt og áður hefur komið fram.

Í skýrslunni kemur einnig fram að umsækjendum um alþjóðlega vernd þar í landi sé tryggður aðgangur að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu í frönskum lögum. Umsækjendur sem sæti hefðbundinni málsmeðferð hafi aðgang að heilbrigðisþjónustu á grundvelli sjúkratryggingakerfisins þar í landi (f. Protection Universelle Maladie (PUMA)) en þeir þurfi þó að sækja um aðgang að kerfinu og að hafa dvalið í Frakklandi í þrjá mánuði. Jafnvel þótt umsækjendur séu ekki komnir með aðgang að sjúkratryggingakerfinu geti þeir engu að síður leitað til opinberra heilsugæslustöðva (f. Permanence d’accès aux soins de santé (PASS)) sem séu til staðar á öllum opinberum spítölum og fengið þar aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Þá geti umsækjendur sem hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd nýtt sér aðgang að sjúkratryggingakerfinu í ákveðinn tíma eftir synjun og í framhaldi af því hafi þeir aðgang að ríkisaðstoð (f. Aide médicale d‘Etat (AME)) sem geri þeim kleift að fá ókeypis meðferð á sjúkrahúsum sem og á læknastofum. Á grundvelli PUMA eigi umsækjendur um alþjóðlega vernd í Frakklandi einnig rétt á nauðsynlegri geðheilbrigðisþjónustu en í skýrslum komi þó fram að dæmi séu um að læknar neiti að veita einstaklingum sem ekki tali frönsku þjónustu. Í umsóknarferlinu sé skimað eftir einstaklingum sem séu í viðkvæmri stöðu m.a. vegna alvarlegra veikinda og hafi sérþarfir vegna þess.

Þá kemur fram að heimilt sé að setja umsækjendur um alþjóðlega vernd í varðhald í Frakklandi en einungis að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, t.d. ef þeir hafa fengið synjun á umsókn sinni og talin sé hætta á að þeir muni koma sér undan brottvísun. Landamæralögreglan hafi umsjón með varðhaldsmiðstöðvum og sé vistun í varðhaldsmiðstöð stjórnvaldsákvörðun. Þá séu umsækjendur um alþjóðlega vernd sem settir séu í varðhald aldrei vistaðir með almennum föngum. Þá benda framangreind gögn, m.a. skýrsla bandaríska utanríkisráðuneytisins frá mars 2021, jafnframt til þess að löggæsluyfirvöld í Frakklandi hafi yfir að ráða fullnægjandi úrræðum til að veita m.a. umsækjendum um alþjóðlega vernd aðstoð og vernd gegn einstaklingum sem þeir óttist.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skuli taka hana til efnismeðferðar. Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga verður því aðeins beitt ef stjórnvöld telja, á grundvelli hlutlægra og trúverðugra upplýsinga sem eru nægilega nákvæmar og uppfærðar eftir því sem við á, að skilyrði þess séu uppfyllt. Ákvæði 2. mgr. 36. gr. er til viðbótar þeirri vernd sem 3. mgr. 36. gr. veitir umsækjendum um alþjóðlega vernd.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með „aðild Íslands að Dyflinnarsamstarfinu hefur ríkið skuldbundið sig til að fylgja og virða þær reglur sem felast í Dyflinnarreglugerðinni“ og að „íslensk stjórnvöld sem starfa að útlendingamálum [beiti] ákvæðum reglugerðarinnar við mat á því hvaða ríki beri ábyrgð á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd sem lagðar eru fram hér á landi.“ Ákvæði 1. málsl. 2. mgr. 36. gr. byggir á heimild í 1. mgr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og felur í sér frávik frá þeirri meginreglu reglugerðarinnar um að ákvarða skuli hvaða ríki beri ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd á grundvelli þeirra viðmiða sem fram koma í reglugerðinni. Ákvæðinu verður því aðeins beitt ef stjórnvöld telja, á grundvelli hlutlægra, trúverðugra, nægilega nákvæmra og uppfærðra upplýsinga, að skilyrði þess séu uppfyllt. Ákvæði 2. mgr. 36. gr. er til viðbótar þeirri vernd sem 3. mgr. 36. gr. veitir umsækjendum um alþjóðlega vernd.

Á grundvelli 4. mgr. 36. gr. laga um útlendinga setti ráðherra reglugerð nr. 276/2018 um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, en með henni bættust tvær greinar, 32. gr. a og 32. gr. b, við reglugerðina. Í 32. gr. a reglugerðarinnar kemur fram að með sérstökum ástæðum samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga sé átt við einstaklingsbundnar ástæður er varða umsækjanda sjálfan. Þá eru í ákvæðinu jafnframt talin upp viðmið í dæmaskyni sem leggja skuli til grundvallar við mat á því hvort sérstakar ástæður séu fyrir hendi en þau viðmið varða aðallega alvarlega mismunun eða alvarleg veikindi. Þar sem tilvikin eru talin upp í dæmaskyni geta aðrar aðstæður, sambærilegar í eðli sínu og af svipuðu alvarleikastigi, haft vægi við ákvörðun um hvort sérstakar ástæður séu til að taka mál umsækjanda til efnismeðferðar hér á landi, svo framarlega sem slíkar aðstæður séu ekki sérstaklega undanskildar, sbr. 3. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar.

Samkvæmt 2. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar skal líta til þess hvort umsækjandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, svo sem ef ríkið útilokar viðkomandi frá menntun, nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, nauðsynlegri þjónustu vegna fötlunar, eða atvinnuþátttöku á grundvelli kynhneigðar, kynþáttar eða kyns eða ef umsækjandi getur vænst þess að staða hans, í ljósi framangreindra ástæðna, verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki. Kærunefnd telur að orðalagið „muni eiga“ feli ekki í sér kröfu um afdráttarlausa sönnun þess að umsækjandi verði fyrir alvarlegri mismunun sem leiði til þess að hann muni eiga erfitt uppdráttar. Orðalagið gerir þó kröfu um að tilteknar líkur verði að vera á alvarlegri mismunun, þ.e. að sýna verður fram á að umsækjandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir mismunun af þeim toga, með þeim afleiðingum, og af því alvarleikastigi sem ákvæðið lýsir en að ekki sé nægilegt að aðeins sé um að ræða möguleika á slíkri mismunun. Af því leiðir að þó svo að dæmi séu um að einstaklingar í sambærilegri stöðu og umsækjandi í viðtökuríki hafi orðið fyrir alvarlegri mismunun af þeim toga sem 32. gr. a reglugerðar um útlendinga mælir fyrir um telst umsækjandi ekki sjálfkrafa eiga slíkt á hættu heldur þarf að sýna fram að verulegar ástæður séu til að ætla að umsækjandi, eða einstaklingur í sambærilegri stöðu og umsækjandi, verði fyrir slíkri meðferð. 

Þá skal líta til þess hvort umsækjandi glími við mikil og alvarleg veikindi, s.s. skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm og meðferð við honum er aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki. Í reglugerðinni kemur fram að meðferð teljist, að öllu jöfnu, ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur sé átt við þau tilvik þar sem meðferð er til í viðtökuríkinu en umsækjanda muni ekki standa hún til boða. Við mat á því hvort umsækjandi glími við mikil og alvarleg veikindi lítur kærunefnd m.a. til heilsufarsgagna málsins og hlutlægra og trúverðugra gagna um hvort sú heilbrigðisþjónusta sem hann þarfnast sé honum aðgengileg í viðtökuríki.

Af 3. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar má jafnframt ráða að heilsufar umsækjanda hafi takmarkað vægi umfram það sem leiðir af 2. mgr. 32. gr. a, nema það teljist til ástæðna sem séu svo einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki verði fram hjá þeim litið. Þá tekur 3. mgr. 32. gr. a af tvímæli um það að efnahagslegar ástæður geta ekki talist til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Slíkar aðstæður gætu þó fallið undir 3. mgr. 36. gr. nái þær því alvarleikastigi sem við á, sbr. umfjöllun hér í framhaldinu. 

Kærandi er kona á […]. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hún ætti við glímdi við stöðugan höfuðverk og svefnerfiðleika. Þá ætti kærandi við andlega vanlíðan að stríða. Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi hafi greint talsmanni frá því að hún sé þolandi kynferðisofbeldis. Í heilbrigðisgögnum frá Göngudeild sóttvarna, dags. 29. apríl til 4. maí 2021, kemur m.a. fram að kærandi sé almennt heilbrigð en að það hafi reynst erfitt að fá svör frá henni við spurningum heilbrigðisstarfsmanns. Í heilbrigðisgögnum frá heilsugæslunni í Árbæ, dags. 28. maí 2021, kemur fram að kærandi hafi leitað sér aðstoðar og greint frá því að hún hafi glímt við höfuðverk í eitt ár sem læknir hafi veitt henni ráðleggingar við. Þá liggur fyrir skimunarlisti um andlega líðan kæranda.

Kæranda var leiðbeint í viðtali hjá Útlendingastofnun, þann 11. maí 2021, um mikilvægi öflunar gagna um heilsufar, sem kærandi teldi hafa þýðingu fyrir mál sitt, og um að afla skriflegra upplýsinga og leggja fram við meðferð máls hennar hjá Útlendingastofnun. Þá var kæranda, sem nýtur aðstoðar löglærðs talsmanns á vegum Rauða kross Íslands, jafnframt leiðbeint með tölvubréfi kærunefndar, dags. 1. júlí 2021, um framlagningu frekari gagna í málinu. Bárust frekari gögn um heilsufar þann 7. júlí 2021. Með vísan til fyrrgreindrar málsmeðferðar og þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu telur kærunefnd að mál kæranda sé nægjanlega upplýst hvað varðar heilsufar kæranda og aðra þætti varðandi einstaklingsbundnar aðstæður hennar. Þá er ekkert sem bendir til þess að frekari gögn um heilsufar hennar geti haft áhrif á niðurstöðu málsins.

Kærunefnd telur að gögn málsins beri ekki með sér að heilsufar kæranda sé með þeim hætti að hún teljist glíma við mikil og alvarleg veikindi, s.s. skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm og meðferð við honum er aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki, eins og segir í 2. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður í Frakklandi verður ráðið að kærandi hafi aðgang að grunnheilbrigðisþjónustu þar í landi en eins og áður hefur verið rakið eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd rétt á heilbrigðisþjónustu. Telur kærunefnd því að aðstæður kæranda tengdar heilsufari séu ekki þess eðlis að þær teljist til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eða samkvæmt þeim viðmiðum sem talin eru upp í dæmaskyni í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Þá telur nefndin að heilbrigðisaðstæður kæranda geti ekki talist til ástæðna sem séu svo einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki verði framhjá þeim litið, sbr. 3. mgr. sömu greinar.

Kærandi hefur greint frá því að hún hafi orðið fyrir aðkasti í Frakklandi og að hún telji sig vera í hættu þar. Kærunefnd telur að gögn málsins, að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda, beri ekki með sér að kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar eða að hún geti af sömu ástæðu vænst þess að staða hennar verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki, sbr. áðurnefnd viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér benda m.a. til þess að telji kærandi sér mismunað eða óttist hún um öryggi sitt að einhverju leyti geti hún leitað aðstoðar hjá þar til bærum stjórnvöldum. Þá ber kærandi fyrir sig að hún muni standa frammi fyrir mismunun í Frakklandi, m.a. þar sem hún muni ekki njóta gjaldfrjálsrar lögfræðiaðstoðar og hún muni standi frammi fyrir því að þurfa að hafast við á götunni. Í framangreindum gögnum kemur fram að umsækjendur um alþjóðlega vernd sem hafi ekki fengið lögfræðiaðstoð á fyrsta stigi geti óskað eftir gjaldfrjálsri lögfræðiaðstoð á grundvelli efnahags auk þess sem þeir geti leitað aðstoðar hjá frjálsum félagasamtökum sem veiti lögfræðilega aðstoð. Enn fremur kemur fram að umsækjendur um alþjóðlega vernd eigi rétt á lögfræðiaðstoð við áfrýjun neikvæðrar niðurstöðu þeirra til CNDA stjórnsýsludómstólsins sem sé í mörgum tilvikum gjaldfrjáls. Að mati kærunefndar muni lögfræðiaðstoð því standa kæranda til boða. Hvað varðar búsetuúrræði þá telur kærunefnd ljóst að kæranda muni einnig standa slík úrræði til boða. Í því sambandi lítur kærunefnd til framangreindra heimilda og frásagnar kæranda þar sem kærandi kvaðst hafa haft afnot af búsetuúrræði en yfirgefið það af sjálfsdáðum síðar meir.

Við mat á því hvort sérstakar ástæður mæli með því að umsókn kæranda hljóti efnismeðferð hér á landi hefur kærunefnd litið til þeirra aðstæðna sem skapast hafa vegna Covid-19 faraldursins. Fjölmörg ríki hafa gripið til umfangsmikilla aðgerða til þess að sporna gegn útbreiðslu veirunnar. Hafa aðgerðirnar m.a. falist í ferðatakmörkunum og ferðabönnum. Í því sambandi hafa mörg aðildarríki Dyflinnarsamstarfsins á einhverjum tímapunkti lokað fyrir endursendingar einstaklinga á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Var það m.a. gert hér á landi yfir ákveðið tímabil en óvissa ríkir um það hvenær framkvæmd endursendinga verði komin í sama horf og áður en Covid-19 faraldurinn skall á. Yfirvöld í Frakklandi hafa gripið til umfangsmikilla aðgerða til þess að sporna við útbreiðslu veirunnar, m.a. með takmörkunum á ferðum til landsins, útgöngubanni og takmörkunum á samkomum. Samkvæmt upplýsingasíðu Johns Hopkins háskólans í Bandaríkjunum og vefsíðu Sóttvarnarstofnunar Evrópu hefur nýgengni Covid-19 smita í Frakklandi sveiflast nokkuð en hefur að undanförnu farið fækkandi. Kærunefnd telur ekki forsendur til annars en að líta svo á að þær takmarkanir sem eru við lýði vegna Covid-19 faraldursins séu tímabundnar og komi ekki til með að hafa teljandi áhrif á stöðu kæranda þar í landi þegar takmörkunum hefur verið aflétt. Þá er bólusetning langt á veg komin í flestum aðildarríkjum Evrópusambandsins, þ.m.t. viðtökuríkinu.

Af skýrslum er ljóst að viðtökuríkið býr við stöðuga stjórnarhætti og sterka innviði. Að mati kærunefndar er því ekkert sem bendir til þess að það tímabundna ástand sem nú ríki komi til með að hafa teljandi áhrif á getu eða vilja viðtökuríkisins til að taka á móti kæranda þar í landi þegar takmörkunum verður aflétt og veita henni nauðsynlegan stuðning og viðeigandi aðbúnað.

Í því sambandi er rétt að árétta að Dyflinnarreglugerðin gerir ráð fyrir því að samstarfsríkin hafi almennt sex mánuði frá því að lokaákvörðun er tekin um kæru umsækjenda um alþjóðlega vernd til að flytja umsækjanda til viðtökuríkisins, sbr. 1. mgr. 29. gr. reglugerðarinnar.

Þá lítur kærunefnd einnig til þess að samkvæmt 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga er Útlendingastofnun heimilt að fresta flutningi á umsækjanda ef það telst nauðsynlegt vegna sérstakra aðstæðna hans eða ómögulegt er að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.

Er það mat kærunefndar að tímabundnar takmarkanir sem kunni að vera í gildi á endursendingum til Frakklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar geti ekki, eins og hér stendur á, leitt til þess að sérstakar ástæður mæli með því að umsókn kæranda verði tekin til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í því sambandi hefur kærunefnd sérstaklega litið til sterkra innviða viðtökuríkis og þess frests sem aðildarríki Dyflinnarsamstarfsins hafa til að endursenda umsækjendur til viðtökuríkis og fjallar var um hér að framan.

Það er jafnframt mat kærunefndar að málsástæður kæranda að öðru leyti verði ekki taldar til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda og á grundvelli heildarmats á áhrifum Covid-19 faraldursins á aðstæður hennar er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hennar verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun hinn 11. maí 2021 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hún lagði fram umsókn sína þann 10. apríl 2021.

Ákvæði 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því ríki sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Við túlkun á inntaki 42. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd jafnframt að líta verði til þess að ákvörðun um brottvísun eða frávísun sem setur einstakling í raunverulega hættu á að verða fyrir pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu er í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. jafnframt 68. gr. stjórnarskrárinnar.

Við túlkun 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga lítur kærunefnd til dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu varðandi túlkun hans á 3. gr. sáttmálans. Þá hefur kærunefnd talið að til að stuðla að einsleitinni framkvæmd Dyflinnarreglugerðarinnar á meðal aðildarríkja Dyflinnarsamstarfsins sé rétt að líta til dóma Evrópudómstólsins í málum sem tengjast framkvæmd reglugerðarinnar.

Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu er vísað til þeirrar meginreglu að með fyrirvara um alþjóðlegar skuldbindingar hafi ríki rétt til að stjórna hverjir ferðist yfir landamæri þeirra, hverjir dvelji á landsvæði þeirra og hvort útlendingi skuli vísað úr landi, sbr. m.a. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli F.G. gegn Svíþjóð (nr. 43611/11) frá 23. mars 2016, 111. mgr., ákvörðun Samsam Mohammed Hussein o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (nr. 27725/10) frá 2. apríl 2013, 65. mgr., og dóm Üner gegn Hollandi (nr. 46410/99) frá 18. október 2006, 54. mgr. Dómstóllinn hefur engu að síður talið að flutningur einstaklings til annars ríkis geti leitt til brots á 3. gr. mannréttindasáttmálans ef viðkomandi einstaklingur geti á viðhlítandi hátt sýnt fram á að veruleg ástæða sé til að ætla, verði hann fluttur úr landi, að hann sé í raunverulegri hættu á að sæta meðferð sem sé andstæð 3. gr. sáttmálans, sbr. m.a. F.G. gegn Svíþjóð, 111. - 113. mgr. Í dómaframkvæmd dómstólsins er jafnframt byggt á því að annmarkar á meðferð viðtökuríkis á umsækjanda og aðbúnaði hans þurfi að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi (e. „must attain a minimum level of severity“ sbr. m.a. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi (nr. 30696/09) frá 21. janúar 2011, 219. mgr.) til að ákvörðun um brottvísun eða frávísun hans verði talin brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans. Horfa verði til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar auk stöðu einstaklings hverju sinni, svo sem kyns, aldurs og heilsufars, sbr. m.a. M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi, 219. mgr. Í því sambandi hefur dómstóllinn lagt ákveðna áherslu á að umsækjendur um alþjóðlega vernd tilheyri jaðarsettum og viðkvæmum þjóðfélagshóp sem þurfi sérstaka vernd, sbr. t.d. M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi, 251. mgr., og dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Tarakhel gegn Sviss (nr. 29217/12) frá 4. nóvember 2012, 97. mgr.

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur talið ómannlega meðferð vera m.a. þá sem beitt er að yfirlögðu ráði, í margar klukkustundir í senn og veldur annað hvort líkamlegu tjóni eða alvarlegum andlegum eða líkamlegum þjáningum, sbr. t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Kudła gegn Póllandi (nr. 30210/96) frá 26. október 2000, 92. mgr., og M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi, 220. mgr. Þá hefur dómstóllinn talið meðferð vera vanvirðandi í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmálans þegar meðferðin niðurlægir eða lítillækkar einstakling, sýnir skort á virðingu fyrir eða gerir lítið úr mannlegri reisn hans, eða skapar ótta, angist eða vanmátt, sem er til þess fallin að brjóta niður líkamlegt eða andlegt mótstöðuafl viðkomandi, sbr. t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Pretty gegn Bretlandi (nr. 2346/02) frá 29. apríl 2002, 52. mgr., og M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi, 220. mgr. Dómurinn hefur talið að þó að líta verði til þess hvort meðferðin sé veitt af ásetningi sé það ekki að öllu leyti útilokað að hún teljist brot á 3. gr. þó svo hafi ekki verið, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Peers gegn Grikklandi (nr. 28524/95) frá 19. apríl 2001, 74. mgr.

Dómstóllinn hefur talið að 3. gr. mannréttindasáttmálans verði ekki túlkuð á þann hátt að í greininni felist skylda aðildarríkja til að sjá umsækjendum um alþjóðlega vernd fyrir húsnæði eða fjárhagsaðstoð sem geri þeim kleift að viðhalda ákveðnum lífskjörum, sbr. M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi, 249. mgr.

Í dómaframkvæmd Evrópudómstólsins er vísað til þess að framkvæmd Dyflinnarreglugerðarinnar verði að vera í samræmi við sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi og er þar fyrst og fremst vísað til 4. gr. sáttmálans sem, í þeim atriðum sem máli skipta, er sambærileg 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Samkvæmt dómaframkvæmd Evrópudómstólsins eru lög Evrópusambandsins byggð á þeirri grundvallarforsendu að aðildarríki þess deila þeim sameiginlegu gildum sem Evrópusambandið byggist á. Sú forsenda leggur grunn að gagnkvæmu trausti um að þessi gildi séu viðurkennd, að lög Evrópusambandsins verði virt og að réttarkerfi aðildarríkjanna geti veitt sambærilega og virka vernd þeirra grundvallarréttinda sem sáttmáli Evrópusambandsins um grundvallarréttindi mælir fyrir um, sbr. t.d. dóma Evrópudómstólsins í Jawo, C-163/17, frá 19. mars 2019, 80. mgr., og Minister for Justice and Equality (Deficiencies in the system of justice), C-216/18 PPU, frá 25. júlí 2018, 35.-37. mgr. Dyflinnarreglugerðin er byggð á nefndri meginreglu um gagnkvæmt traust og miðar að því að hraða og straumlínulaga afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd til hagsbóta fyrir umsækjendur og aðildarríki samstarfsins. Því verði að gera ráð fyrir því að meðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd í aðildarríkjum Dyflinnarsamstarfsins samrýmist þeim kröfum sem sáttmáli Evrópusambandsins um grundvallarréttindi, flóttamannasáttmálinn og Mannréttindasáttmáli Evrópu gera, sbr. dóm Evrópudómstólsins í N. S. o.fl., C-411/10 og C-493/1021, frá 21. desember 2011, 78.-80. mgr. Það er hins vegar ekki útilokað að viðtökuríki kunni að glíma við meiriháttar erfiðleika við framkvæmd reglugerðarinnar sem gæti skapað verulega hættu á að umsækjandi sæti meðferð sem samrýmist ekki sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi, sbr. áðurnefndan dóm í máli N. S. o.fl., 81. mgr. Af þeim sökum verður ekki byggt á því skilyrðislaust að aðildarríki Evrópusambandsins tryggi grundvallarmannréttindi, svo sem samkvæmt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 4. gr. sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi, sbr. N. S. o.fl., 99., 100. og 105. mgr., og Ibrahim o.fl., 87. mgr. Evrópudómstóllinn hefur talið, m.a. í Jawo, 85. mgr., að ekki megi flytja umsækjanda um alþjóðlega vernd til viðtökuríkis ef veigamikil rök standa til þess að raunveruleg hætta sé á að hann sæti ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í skilningi 4. gr. sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi, verði hann fluttur til viðtökuríkis. Þeir annmarkar sem eru á meðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd verða hins vegar að ná sérstaklega háu alvarleikastigi til að endursending á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar teljist andstæð 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 4. gr. sáttmálans um grundvallarréttindi. Þessu alvarleikastigi er náð þegar sinnuleysi stjórnvalda aðildarríkis Dyflinnarsamstarfsins hefur þær afleiðingar að einstaklingur sem að öllu leyti er háður stuðningi ríkisins, t.d. vegna sérstaklega viðkvæmrar stöðu, verður í slíkri stöðu sárafátæktar að hann geti ekki mætt grundvallarþörfum sínum, og sem grefur undan líkamlegri og andlegri heilsu hans eða setur hann í aðstöðu sem er ósamrýmanleg mannlegri reisn, sbr. M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi, 252.-263. mgr., og Jawo, 92. og 95. mgr., og Ibrahim o.fl., 90. mgr.

Hátt stig óöryggis eða veruleg hnignun lífsskilyrða viðkomandi umsækjanda myndi þar af leiðandi ekki ná þessu alvarleikastigi nema framangreindar aðstæður efnislegrar sárafátæktar séu fyrir hendi. Sama á við þó að umsækjanda skorti það félagslega stuðningsnet, eins og t.d. fjölskyldutengsl, sem vegur á móti afleiðingum ófullnægjandi félagslegs kerfis aðildarríkis, sbr. Jawo, 93. og 94. mgr. Ennfremur, það eitt að lífsskilyrði séu ákjósanlegri í endursendingarríki en í viðtökuríki getur heldur ekki leitt til þess að um brot á 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sé að ræða, sbr. til hliðsjónar Jawo, 97. mgr.

Eins og ráða má af ofangreindu þurfa annmarkar á meðferð viðtökuríkis á umsækjanda og aðbúnaði hans að ná mjög háu alvarleikastigi til að endursending teljist brot á 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og tekur beiting 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga mið af því. 

Til að endursending geti talist brot á 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu þarf að sýna fram á, með vísan til hlutlægra og trúverðugra upplýsinga sem eru nægilega nákvæmar og uppfærðar, að umsækjandi sé í raunverulegri hættu á að sæta meðferð sem sé ósamrýmanleg ákvæðinu, sbr. fyrri umfjöllun. Ekki er nægilegt að aðeins sé um að ræða möguleika á slíkri meðferð, sbr. Vilvarajah o.fl. gegn Bretlandi (mál nr. 13163/87; 13164/87; 13165/87; 13447/87; 13448/87) frá 30. október 1991, 111. mgr., N. gegn Finnlandi (mál nr. 38885/02) frá 26. júlí 2005, 167. mgr., og NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008, 109.-110. mgr.

Að mati kærunefndar bera gögn málsins jafnframt með sér að í viðtökuríki sé veitt raunhæf vernd gegn því að fólki sé vísað brott eða það endursent til ríkja þar sem einstaklingar eiga á hættu að verða fyrir ofsóknum eða þar sem lífi þeirra og frelsi er ógnað. Í því sambandi hefur kærunefnd einkum litið til þess að gögnin benda til þess að meðferð stjórnvalda viðtökuríkis á umsóknum um alþjóðlega vernd sé með þeim hætti að lagt sé einstaklingsbundið mat á aðstæður einstaklinga. Telur kærunefnd að gögn málsins gefi ekki til kynna að endursending kæranda til viðtökuríkis sé í andstöðu við 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. mgr. ákvæðisins.

Þá benda öll gögn til þess að kærandi hafi raunhæf úrræði í Frakklandi, bæði að landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. jafnframt 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem tryggja að hún verði ekki send áfram til annars ríkis þar sem líf hennar eða frelsi kann að vera í hættu, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til framangreindra viðmiða, umfjöllunar um aðstæður og móttökuskilyrði umsækjenda um alþjóðlega vernd í Frakklandi og einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda, er það niðurstaða kærunefndar að ekki hafi verið sýnt fram á að kærandi eigi á hættu meðferð sem gangi gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd og flutningur hennar til viðtökuríkis leiðir því ekki til brots gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Samkvæmt framansögðu verður mál kæranda ekki tekið til efnismeðferðar á grundvelli 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Athugasemdir kæranda við hina kærðu ákvörðun

Svo sem fram hefur komið gerir kærandi ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar, þ. á m. við mat stofnunarinnar á aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd í Frakklandi, mat á stöðu kæranda og við lagastoð reglugerðar um útlendinga.

Eins og að framan greinir hefur kærunefnd lagt einstaklingsbundið mat á umsókn kæranda og komist að niðurstöðu um að synja henni um efnismeðferð með vísan til ákvæða laga um útlendinga eins og þau hafa verið útfærð í reglugerð um útlendinga. Er niðurstaða í málinu byggð á túlkun kærunefndar á framangreindum ákvæðum og sjónarmiðum sem nefndin telur málefnaleg en áður hefur komið fram í úrskurðum kærunefndar að reglugerðina skorti ekki lagastoð. Þá kemur fram í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-8252/2020 frá 14. júlí 2021 að umrædda reglugerð skorti ekki lagastoð og að viðmið í 32. gr. a reglugerðarinnar veiti stjórnvöldum greinargóða leiðsögn við mat á því hvort skilyrði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt.

Kærandi gerir athugasemd við mat á sérstaklega viðkvæmri stöðu hennar, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Af þessu tilefni vill kærunefnd árétta að ákvörðun um hvort umsækjandi sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga snýst um það hvort þörf sé á sérstökum stuðningi við umsækjanda í gegnum umsóknarferlið og á meðan á dvöl hans stendur hér á landi. Í 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur m.a. fram að við meðferð umsóknar um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun tryggja, eins fljótt og kostur er, að fram fari, með aðstoð viðeigandi sérfræðinga, einstaklingsbundin greining á því hvort umsækjandi teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Sé hann í slíkri stöðu skal stofnunin meta hvort hann hafi einhverjar sérþarfir, t.d. þörf á tiltekinni heilbrigðisþjónustu. Þá er tekið fram í 2. mgr. sama ákvæðis að ákvæði IV., V. og VII. kafla stjórnsýslulaga um andmælarétt, um birtingu ákvörðunar, rökstuðning o.fl. og um stjórnsýslukæru og viðeigandi ákvæði I. og IX. kafla laga um útlendinga gilda ekki um ákvörðun um sérstaklega viðkvæma stöðu samkvæmt 1. mgr. Skilgreining á stöðu samkvæmt 1. mgr. hafi ekki önnur réttaráhrif en þau sem sérstaklega er getið í lögum eða reglugerð. Kærunefnd telur því ljóst að mat samkvæmt 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga fari fram hjá Útlendingastofnun, sé ekki kæranlegt til kærunefndar og hafi ekki önnur réttaráhrif en sérstaklega er getið um í lögum eða reglugerð. Kærunefnd leggur þannig áherslu á að ákvörðun um hvort umsækjandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu er annað en mat á einstaklingsbundnum aðstæðum umsækjanda þó svo að þessi hugtök skarist nokkuð. Að því er varðar mat Útlendingastofnunar á einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda tekur kærunefnd fram að kæranda var leiðbeint um framlagningu heilsufarsgagna við málsmeðferð hjá Útlendingastofnun, en í viðtali hennar var henni leiðbeint um mikilvægi öflunar gagna um heilsufar, sem hún teldi hafa þýðingu fyrir mál sitt, og um að afla skriflegra upplýsinga og leggja fram við meðferð máls hennar hjá Útlendingastofnun. Við meðferð málsins hjá kærunefnd hefur kærandi auk þess fengið tækifæri til framlagningu frekari heilsufarsgagna í málinu og er það mat kærunefndar að mál kæranda hafi verið nægjanlega upplýst er varðar heilsufar kæranda og aðra þætti varðandi einstaklingsbundnar aðstæður hennar. Þegar litið er til þeirra viðmiða sem 32. gr. a reglugerðar um útlendinga setur fram er ljóst að þau gögn sem liggja fyrir í málinu benda ekki til þess að frekari gagnaöflun geti haft áhrif á niðurstöðu. Kærunefnd telur ekki ástæðu til að gera athugasemdir við mat Útlendingastofnunar á þeim einstaklingsbundnu aðstæðum kæranda sem áhrif gætu haft á mat á því hvort rétt sé að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar hér á landi. Þá hefur kærunefnd endurskoðað aðra þætti hina kærðu ákvörðunar og fellst ekki á varakröfu kæranda um að rannsókn Útlendingastofnunar hafi verið ábótavant.

Kærunefnd hefur farið yfir hina kærðu ákvörðun og telur ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við hana.

Frávísun

Kærandi kom hingað til lands hinn 10. apríl 2021 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hennar um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð og hefur hún því ekki tilskilin leyfi til dvalar. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. gr. laganna, enda hafði hún verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hennar hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi skal flutt til Frakklands eins fljótt og unnt er nema ákveðið verði að fresta réttaráhrifum úrskurðar þessa að kröfu kæranda, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Í máli þessu hafa frönsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hennar um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Frakklands með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð:

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                          Sandra Hlíf Ocares

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta