Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 458/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 458/2019

Þriðjudaginn 28. janúar 2020

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 1. nóvember 2019, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 31. október 2019, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar á grundvelli 46. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 23. apríl 2019. Með umsókn, dags. 8. maí 2019, sótti kærandi um útgáfu á U2-vottorði til að fá greiddar atvinnuleysisbætur í B á meðan hún leitaði sér að atvinnu þar. Umsókn kæranda var samþykkt og vottorð gefið út 15. maí 2019 með þriggja mánaða gildistíma frá 26. maí til 25. ágúst 2019. Þann 20. ágúst 2019 var kæranda greint frá því að hún þyrfti að tilkynna Vinnumálastofnun um heimkomu innan sjö virkra daga frá lokadegi U2-vottorðsins. Athygli var vakin á því að ef tilkynning um heimkomu bærist ekki myndi réttur hennar til atvinnuleysisbóta falla niður. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 31. október 2019, var kæranda tilkynnt að greiðslur atvinnuleysisbóta hefðu verið stöðvaðar þar sem hún tilkynnti ekki heimkomu sína innan lögboðins frests, sbr. 46. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 1. nóvember 2019. Með bréfi, dags. 5. nóvember 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 3. desember 2019, og með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún sé að berjast við að fá aftur greiddar atvinnuleysisbætur en án árangurs. Hún hafi verið í B í þrjá mánuði með U2-vottorð og komið aftur til Íslands samkvæmt því samkomulagi. Kærandi hafi ekki vitað að hún þyrfti að tilkynna um heimkomu en síma hennar hafi verið stolið og því hafi hún hvorki haft aðgang að gamla tölvupóstfanginu sínu né neinum gögnum. Kærandi hafi síðar skilað farmiða sem staðfesti að hún hafi komið aftur 19. ágúst, en þrátt fyrir það hafi Vinnumálastofnun stöðvað greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar. Kærandi hafi verið tekjulaus á landinu í tvo mánuði og semji illa við Vinnumálastofnun. Stofnunin villi um fyrir fólki á fundum sínum, segi eitt og geri annað.

III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar er vísað til þess að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Í c-lið 1. mgr. 13. gr. laganna sé mælt fyrir um að umsækjandi um greiðslur atvinnuleysistrygginga þurfi að vera búsettur og staddur hér á landi til að teljast tryggður samkvæmt lögunum. Í VIII. kafla laganna sé að finna undanþágu frá framangreindri meginreglu. Í kaflanum sé að finna ákvæði er lúti að atvinnuleit eða atvinnu í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum. Samkvæmt 42. gr. laganna sé Vinnumálastofnun heimilt að greiða atvinnuleysisbætur til atvinnuleitanda sem sé í atvinnuleit í öðru EES-ríki ef hann uppfylli tiltekin skilyrði. Í 3. mgr. 42. gr. segi að Vinnumálastofnun gefi út viðeigandi vottorð til staðfestingar á rétti hins tryggða samkvæmt ákvæðinu. Í ákvæði 1. mgr. 43. gr. laganna komi skýrt fram að það tímabil sem Vinnumálastofnun sé heimilt að greiða atvinnuleysisbætur til umsækjanda í atvinnuleit erlendis, hefjist á brottfarardegi viðkomandi. Vinnumálastofnun sé því ekki heimilt að greiða atvinnuleysisbætur til einstaklings lengur en í þrjá mánuði frá brottfarardegi.   

Í 46. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir svo:

„Hinn tryggði sem hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur skv. 42. gr. og snýr aftur til landsins til að halda áfram atvinnuleit sinni á innlendum vinnumarkaði skal tilkynna um það skriflega til Vinnumálastofnunar innan sjö virkra daga frá því að tímabili skv. 43. gr. lauk eða komudegi hafi hinn tryggði komið til landsins áður en tímabilinu lauk. Atvinnuleysistrygging hans er þá sú sama og hún var áður en hann fór utan í atvinnuleit nema annað leiði af lögum þessum.

Láti hinn tryggði hjá líða að tilkynna um áframhaldandi atvinnuleit hér á landi innan tímamarka 1. mgr. falla greiðslur atvinnuleysisbóta niður frá og með þeim degi er tímabili skv. 43. gr. lauk eða hann hætti atvinnuleit í öðru aðildarríki hafi hann sannanlega hætt leitinni áður en tímabilinu lauk. Skal hinn tryggði þá sækja um atvinnuleysisbætur að nýju skv. 9. gr.“

Vakin sé athygli á ofangreindu á heimasíðu stofnunarinnar þar sem umsóknarferli U2 sé útlistað. Upplýsingar um tilkynningu um heimkomu sé einnig að finna í upplýsingablaði sem fylgi með U2-vottorði. Þar segi meðal annars að atvinnuleitendur hafi 7 virka daga eftir gildistíma vottorðsins til þess að skrá sig eftir komu til Íslands. Ef viðkomandi skrái sig ekki hjá vinnumiðlun innan þess tíma missi hann rétt til atvinnuleysisbóta.

Í máli þessu hafi verið útgefið U2-vottorð til kæranda með gildistíma frá 26. maí til 25. ágúst 2019. Síðasti dagur kæranda til að tilkynna um heimkomu hafi verið sjö virkir dagar frá lokadegi vottorðs, eða 2. september 2019. Óumdeilt sé að kærandi hafi ekki tilkynnt um heimkomu fyrr en 19. september. Samkvæmt farseðlum hafi kærandi átt flug frá B þann dag. Í ljósi 2. mgr. 46. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi borið að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda og hún þurfi að sækja um atvinnuleysisbætur að nýju. Vinnumálastofnun bendir á að í tilfellum sem þessum sé stofnuninni ekki heimilt að horfa á tilvik sem leiði til þess atvinnuleysisbætur geymist, sbr. V. kafli laga um atvinnuleysistryggingar, þegar sótt sé um atvinnuleysisbætur, enda eigi ákvæði kaflans ekki við um þá sem fái greiddar atvinnuleysisbætur í öðrum ríkjum eða samkvæmt ákvæðum VIII. kafla fyrir sama tímabil. Við mat á bótarétti einstaklinga sem hafi ekki tilkynnt um heimkomu innan lögbundins frests sé Vinnumálastofnun því einungis heimilt að horfa til síðustu tólf mánaða á ávinnslutímabil samkvæmt 15. gr. laganna. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi ekki starfað á innlendum vinnumarkaði á síðustu tólf mánuðum.

Í kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar og í skýringum sínum til stofnunarinnar hafi komið fram að síma kæranda hafi verið stolið og að hún hafi ekki aðgang að tölvupóstum sínum. Vinnumálastofnun fallist ekki á að atvik í máli kæranda hafi áhrif á lögbundinn lokafrest til að tilkynna um heimkomu samkvæmt 46. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Líkt og áður segi séu allir umsækjendur um U2-vottorð upplýstir um helstu réttindi og skyldur sem lúti að útgáfu U-vottorðs. Kærandi hafi fyllt út og skilað umsókn um U2-vottorð þann 8. maí 2019. Á þeirri umsókn haki kærandi við að hafa fengið afhent upplýsingablað um þær reglur sem gildi um flutning atvinnuleysisbóta á milli EES-landa. Þá fylgi öllum U2-vottorðum upplýsingabæklingur þar sem vakin sé athygli á mikilvægi þess að tilkynna um heimkomu. Með vísan til ofangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að stöðva beri greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda.

IV. Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á grundvelli 46. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 13. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum. Eitt af þeim skilyrðum er að vera búsettur og staddur hér á landi, sbr. c-lið 1. mgr. ákvæðisins. Í VIII. kafla laganna er að finna undanþágu frá framangreindri meginreglu um búsetu á Íslandi. Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laganna er heimilt að greiða atvinnuleysisbætur til þess sem telst tryggður samkvæmt lögunum og er í atvinnuleit í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum að tilteknum skilyrðum uppfylltum.

Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laga nr. 54/2006 er Vinnumálastofnun heimilt að greiða atvinnuleysisbætur samkvæmt 42. gr. laganna í allt að þrjá mánuði frá brottfarardegi hins tryggða, en þó aldrei í lengri tíma en sem eftir er af tímabili atvinnuleysisbóta samkvæmt 29. gr. laganna. Í 46. gr. laganna er kveðið á um tilkynningarskyldu um heimkomu. Þar segir:

„Hinn tryggði sem hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur skv. 42. gr. og snýr aftur til landsins til að halda áfram atvinnuleit sinni á innlendum vinnumarkaði skal tilkynna um það skriflega til Vinnumálastofnunar innan sjö virkra daga frá því að tímabili skv. 43. gr. lauk eða komudegi hafi hinn tryggði komið til landsins áður en tímabilinu lauk. Atvinnuleysistrygging hans er þá sú sama og hún var áður en hann fór utan í atvinnuleit nema annað leiði af lögum þessum.

Láti hinn tryggði hjá líða að tilkynna um áframhaldandi atvinnuleit hér á landi innan tímamarka 1. mgr. falla greiðslur atvinnuleysisbóta niður frá og með þeim degi er tímabili skv. 43. gr. lauk eða hann hætti atvinnuleit í öðru aðildarríki hafi hann sannanlega hætt leitinni áður en tímabilinu lauk. Skal hinn tryggði þá sækja um atvinnuleysisbætur að nýju skv. 9. gr.“

Kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur við atvinnuleit í B á grundvelli U2-vottorðs með gildistíma frá 26. maí til 25. ágúst 2019. Samkvæmt gögnum málsins sneri kærandi aftur til Íslands 19. ágúst 2019, en tilkynnti Vinnumálastofnun það ekki fyrr en 19. september 2019. Af hálfu kæranda hefur komið fram að hún hafi ekki vitað að hún þyrfti að tilkynna um heimkomu. Þá hefur kærandi vísað til þess að farsíma hennar hafi verið stolið og því hafi hún hvorki haft aðgang að gamla tölvupóstfanginu sínu né neinum gögnum.

Í umsókn um U2-vottorð, dags. 8. maí 2019, staðfesti kærandi að hafa fengið afhent upplýsingablað um þær reglur sem gilda um flutning atvinnuleysisbóta á milli EES-landa. Framangreint upplýsingablað liggur fyrir í gögnum málsins og þar kemur skýrt fram að atvinnuleitandi verði að muna eftir því að afskrá sig af vinnumiðlun í öðru EES-ríki áður en hann komi aftur til Íslands. Atvinnuleitandi geti ávallt komið til baka til Íslands innan vottorðstímabilsins og eigi rétt til dagpeninga á Íslandi frá þeim degi þegar viðkomandi hafi tilkynnt sig hjá vinnumiðlun á Íslandi, ef skilyrði séu að öðru leyti uppfyllt. Til þess að geta fengið aftur rétt til dagpeninga á Íslandi verði atvinnuleitandi að koma á vinnumiðlun á Íslandi áður en vottorðstíminn renni út. Þá kemur fram að atvinnuleitandi hafi sjö daga eftir gildistíma vottorðsins til þess að skrá sig eftir komu til Íslands, eins og við brottför. Ef viðkomandi geri það ekki missi hann rétt til dagpeninga þegar hann komi aftur til Íslands. Atvinnuleitandi geti fyrst fengið dagpeninga þegar hann hafi unnið á Íslandi í minnst þrjá mánuði í að minnsta kosti 25% vinnu. Á heimasíðu Vinnumálastofnunar er einnig að finna ítarlegar upplýsingar um atvinnuleit í Evrópu með U2-vottorð. Samkvæmt fyrirliggjandi samskiptasögu kæranda við Vinnumálastofnun var hún einnig minnt á að hún þyrfti að tilkynna Vinnumálastofnun um heimkomu innan sjö virkra daga frá lokadegi U2-vottorðsins. Athygli var vakin á því að ef tilkynning um heimkomu bærist ekki myndi réttur hennar til atvinnuleysisbóta falla niður. Kæranda hefði því átt að vera ljóst að henni bæri skylda til að tilkynna um heimkomu.

Það er fortakslaust skilyrði samkvæmt 46. gr. laga nr. 54/2006 að atvinnuleitandi tilkynni Vinnumálastofnun um heimkomu hyggist viðkomandi halda áfram atvinnuleit sinni á innlendum vinnumarkaði. Kærandi gerði það ekki og því bar Vinnumálastofnun að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 31. október 2019, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til handa A er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta