Hoppa yfir valmynd

Nr. 126/2018 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 22. mars 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 126/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18020047

 

Beiðni […] um endurupptöku

I.             Málsatvik

Þann 20. júlí 2017 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. apríl 2017, um að synja […], sem kveðst fæddur […] og vera ríkisborgari Marokkó (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd hér á landi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Úrskurður kærunefndar var birtur fyrir kæranda þann 4. september 2017. Þann 11. september 2017 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar en þeirri beiðni var synjað af kærunefnd þann 23. september 2017. Þann 5. október 2017 óskaði kærandi eftir endurupptöku málsins. Með úrskurði sínum, dags. 2. nóvember 2017, komst kærunefnd að þeirri niðurstöðu að fallast ekki á beiðni kæranda um endurupptöku málsins. Þann 15. nóvember 2017 óskaði kærandi eftir endurupptöku málsins öðru sinni. Með úrskurði sínum, dags. 23. nóvember 2017, komst kærunefnd að þeirri niðurstöðu að fallast ekki á beiðni kæranda um endurupptöku málsins. Þann 15. febrúar 2018 óskaði kærandi eftir endurupptöku málsins að nýju. Frekari gögn bárust frá kæranda þann 21. febrúar 2018.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Kærandi óskar eftir endurupptöku á máli sínu hjá kærunefnd á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá óskar kærandi eftir því að réttaráhrifum úrskurðarins verði frestað á meðan málið sé til meðferðar hjá kærunefndinni með vísan til 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga.

Í beiðni kæranda er tekið fram að kærandi hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald í nóvember sl. vegna ítrekaðra tilrauna til þess að smygla sér úr landi. Í fyrstu hafi kærandi verið vistaður í fangelsinu á Hólmsheiði en skömmu eftir jól hafi hann verið færður á Litla Hraun. Stuttu eftir að hann hafi komið þangað hafi verið ráðist á hann með barsmíðum í klefa hans. Kærandi hafi í kjölfarið óskað eftir því að verða fluttur aftur á Hólmsheiði þar sem hann hafi óttast um öryggi sitt. Beiðni hans um flutning hafi verið hafnað. Í janúar hafi kærandi orðið fyrir annarri árás á Litla Hrauni. Sú árás hafi verið fólskuleg og alvarleg en samfangar hans hafi beitt hann ofbeldi þar til hann hafi misst meðvitund. Í kjölfarið hafi hann verið fluttur í fangelsið á Hólmsheiði þar sem hann dvelji núna. Afleiðingar líkamsárásanna hafi haft verulega neikvæð áhrif á andlega heilsu kæranda. Af hálfu kæranda er því haldið fram að geðheilbrigðiskerfið í heimaríki kæranda sé ekki nægilega öflugt til þess að unnt sé að tryggja að kærandi fái nauðsynlega geðheilbrigðisþjónustu við komuna til landsins.

Kærandi telur að sé tekið tillit til þeirra áfalla sem hann hafi orðið fyrir sé ekki hægt að líta framhjá þeirri staðreynd að málsatvik hafi breyst verulega frá því að úrskurður var kveðinn upp í máli hans. Nauðsynlegt sé að framkvæmt verði sálfræðilegt mat á andlegri heilsu hans og málið endurupptekið. Verði niðurstaða sálfræðimatsins sú að hann þurfi á meðferð að halda í geðheilbrigðiskerfinu byggi kærandi á því að slíka meðferð sé ekki mögulegt fyrir hann að fá í heimaríki og því beri að veita honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, vegna heilbrigðisástæðna. Með hliðsjón af framangreindu sé það mat kæranda að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hafi byggst á atvikum sem hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Þann 21. febrúar 2018 skilaði kærandi inn bréfi frá […]sálfræðingi, dags. 19. febrúar 2018, en umræddur sálfræðingur hafði heimsótt kæranda nokkrum sinnum og veitt honum sálrænan stuðning í kjölfar ofangreindrar árásar. Í bréfinu kemur m.a. fram að kærandi glími enn við afleiðingar þess áfalls sem hann hafi orðið fyrir við árásina í fangelsinu á Litla Hrauni. Hann hugsi enn um atburðina þótt hann vilji ekki leiða hugann að því. Athygli og einbeiting hans sé skert og hann leiði hugann að árásinni daglega að einhverju marki. Hann kenni ennþá sársauka í höfði og sé þar enn bólginn. Hann glími við svefntruflanir og eigi erfitt með að festa svefn. Hvað þunglyndiseinkenni varðar þá liti árásin það mat nokkuð. Hann hafi verið athafnalítill og áhugalaus fyrst eftir árásina en áhugi og athafnir hafi aukist eitthvað. Hann finni fyrir þreytu og hafi litla matarlyst. Hann hafi litlar vonir um eigin stöðu til framtíðar og þar séu merkjanleg depurðareinkenni. Erfitt sé að segja til um hvort þau komi til vegna stöðu hans eða hafi verið fyrir. Kvíðaeinkenni séu minni en þunglyndiseinkenni. Þau séu þó merkjanleg en erfitt sé að meta hvort þau stafi af núverandi aðstæðum eða séu almennt til staðar. Heildarmat sé að kærandi hafi einkenni áfallastreitu og þunglyndis auk þess að vera með afmörkuð kvíðaeinkenni. Það sé mat sálfræðingsins að kærandi þurfi frekari sálræna aðstoð.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum kemur fram:

Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. á aðili máls rétt á því að mál verði tekið til meðferðar á ný ef stjórnvaldsákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Hér verður því að vera um að ræða upplýsingar sem byggt var á við ákvörðun málsins en ekki rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um atvik sem mjög litla þýðingu höfðu við úrlausn þess.

Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. á aðili rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef íþyngjandi ákvörðun um viðvarandi boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því ákvörðun var tekin. Ef atvik þau, sem talin voru réttlæta slíka ákvörðun, hafa breyst verulega er eðlilegt að aðili eigi rétt á því að málið sé tekið til meðferðar á ný og athugað hvort skilyrði séu fyrir því að fella ákvörðunina niður eða milda hana. Ákvæði þetta hefur náin tengsl við meðalhófsregluna í 12. gr.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda þann 20. júlí 2017. Hafði kærandi þá borið fyrir sig að hann hefði yfirgefið heimaríki sitt í leit að betri framtíð. Hann óttaðist yfirvöld í heimaríki og það sem gæti hent hann ef hann myndi snúa aftur. Þá hafði kærandi jafnframt borið fyrir sig að hann óttaðist hóp sem hafi haft í hótunum við hann og aðra vegna ósættis. Lagt var til grundvallar að kæranda væri ungur einstæður karlmaður við góða líkamlega heilsu sem væri haldinn kvíða um framtíð sína.

Kærunefnd komst að þeirri niðurstöðu í úrskurði sínum að kærandi hefði ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum af hálfu marokkóskra yfirvalda eða annarra aðila í Marokkó sem hefðu eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá taldi kærunefnd önnur gögn málsins ekki benda til þess að slíkar ofsóknir hefðu átt sér stað eða að kærandi ætti þær á hættu. Kærandi var talinn hafa raunhæfan möguleika á því að leita sér ásjár yfirvalda í heimaríki, ef hann teldi sig þurfa á aðstoð þeirra að halda og uppfyllti því ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi. Kærunefnd komst jafnframt að þeirri niðurstöðu að aðstæður kæranda féllu ekki undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þá var það niðurstaða nefndarinnar að kærandi hefði ekki sýnt fram á aðstæður sem næðu því alvarleikastigi að hann teldist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Auk þess var það niðurstaða nefndarinnar að endursending kæranda til heimaríkis væri ekki í andstöðu við 42. gr. laga um útlendinga. 

Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði nefndarinnar frá 20. júlí sl. ásamt þeim fylgigögnum sem bárust kærunefndinni. Eins og komið hefur fram ber kærandi nú fyrir sig að hann hafi orðið fyrir líkamsárás hér á landi sem hafi haft verulega neikvæð áhrif á andlega heilsu hans. Geðheilbrigðiskerfið í heimaríki kæranda sé ekki nægilega öflugt til þess að unnt sé að tryggja að hann fái nauðsynlega geðheilbrigðisþjónustu við komuna til landsins.

Engin gögn um andlegt eða líkamlegt heilsufar kæranda fylgdu með beiðni kæranda um endurupptöku málsins. Var kæranda því veittur frestur til þess að skila inn frekari gögnum í málinu sem gæfu til kynna breytt atvik í máli kæranda. Af hálfu kæranda var í kjölfarið ítrekuð sú beiðni að aflað yrði sálfræðilegs mats á andlegri heilsu kæranda. Þann 21. febrúar sl. lagði kærandi fram bréf undirrituðu af sálfræðingi sem hitt hafði kæranda nokkrum sinnum í kjölfar ofangreindrar líkamsárásar. Í bréfinu, dags. 19. febrúar 2018, kemur m.a. fram að kærandi hafi einkenni áfallastreitu og þunglyndis auk þess að vera með afmörkuð kvíðaeinkenni. Að mati sálfræðingsins þurfi kærandi frekari sálræna aðstoð.

Frekari gögn hafa ekki verið lögð framhjá kærunefnd varðandi heilsufar kæranda en samkvæmt talsmanni kæranda hefur hann nú verið fluttur úr landi og til heimaríkis síns. Í ljósi framangreinds telur kærunefnd að þrátt fyrir að andlegt ástand kæranda hafi tekið einhverjum breytingum síðan að úrskurður var kveðinn upp í máli hans þá sé ekki hægt að fallast á að atvik máls hafi breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar frá 20. júlí 2017 var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kröfu kæranda um endurupptöku máls hans hjá kærunefnd er því hafnað.

 

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda er hafnað.

 

The request of the appellant is denied.

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

 

Anna Tryggvadóttir                                                                  Pétur Dam Leifsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta