Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 427/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 427/2016

Mánudaginn 27. febrúar 2017

A

gegn

Barnaverndarnefnd C

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Hrafndís Tekla Pétursdóttir sálfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Með bréfi 31. október 2016 kærði B hrl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar C frá 26. september 2016 vegna umgengni kæranda við dóttur sína, D. Er þess krafist að úrskurði barnaverndarnefndarinnar verði hrundið og að umgengni kæranda við stúlkuna verði sex sinnum á ári í sex klukkustundir í senn án eftirlits.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan A er fædd árið X og lýtur forsjá Barnaverndarnefndar C. Kærandi, sem er móðir stúlkunnar, var svipt forsjá hennar og X systkina hennar með dómi Héraðsdóms Reykjaness X 2014 sem staðfestur var í Hæstarétti X 2015. Faðir stúlkunnar er E.

Stúlkan hefur verið í fóstri hjá sömu fósturforeldrum frá því að hún var vistuð utan heimilis í X 2014. Hún hefur verið í varanlegu fóstri hjá þeim síðan í X 2015.

Frá því að stúlkan var vistuð utan heimilis hefur hún verið í reglulegri umgengni við kæranda, föður, móðurömmu og móðurafa og föðurömmu og föðurafa. Í upphafi náðist samkomulag um umgengni en síðar varð ágreiningur um umgengnina og var málið lagt fyrir barnaverndarnefndina bæði árið 2014 og árið 2015. Barnaverndarnefndin úrskurðaði um umgengni við kæranda 29. júní 2015. Var þar ákveðið að umgengni yrði tvisvar á ári í þrjár klukkustundir í senn undir eftirliti. Kærunefnd barnaverndarmála (nú úrskurðarnefnd velferðarmála) staðfesti úrskurðinn 12. nóvember 2015.

Í tilefni af forsjársviptingarmáli á hendur kæranda fyrir Hæstarétti Íslands var gert sálfræðimat á henni. Matsmenn fylgdust með umgengni kæranda við börn sín og töldu að kæranda skorti ákveðni, reglufestu og hvatningu í samskiptum við þau. Í matsgerðinni kemur fram að umgengni hafi ekki alltaf gengið sem skyldi, kærandi hafi virt bæði samkomulag um umgengni og úrskurð barnaverndarnefndarinnar að vettugi svo sem varðandi tímamörk og hverjir mættu vera viðstaddir umgengni. Stúlkan hafi sýnt merki um vanlíðan eftir umgengni og umhirðu hennar hafi verið ábótavant. Í matsgerðinni kemur einnig fram að stúlkan hafi tekið miklum framförum eftir að hún kom á fósturheimilið. Einnig hafi starfsmenn á leikskóla tekið eftir verulegum breytingum á þroska, hegðun og almennum mannasiðum hennar. Eftir umgengni við kæranda hafi leikskólastarfsmenn orðið varir við að stúlkan væri vansæl, vælin og pirruð.

Þar sem ekki náðist samkomulag um umgengni í varanlegu fóstri var úrskurðað um hana á grundvelli 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.). Umgengni kæranda við stúlkuna var með úrskurði Barnaverndarnefndar C 26. september 2016 ákveðin tvisvar sinnum á ári í þrjár klukkustundir í senn undir eftirliti starfsmanns barnaverndarnefndar. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

Barnaverndarnefnd C kveður á um að umgengni D, við móður sína, A, verði tvisvar sinnum á ári, í maí og í desember, 3 klukkustundir í senn undir eftirliti barnaverndarstarfsmanns.“

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að úrskurði Barnaverndarnefndar C verði hrundið og breytt á þá leið að umgengni verði ákveðin sex sinnum á ári í sex klukkustundir í senn án eftirlits.

Kærandi telur að það sé stúlkunni fyrir bestu að umgengni við sig verði verulega aukin. Gríðarlegar breytingar til batnaðar hafi átt sér stað hjá kæranda eftir að hún var svipt forsjá barna sinna og hafi barnaverndaryfirvöld í Reykjavík staðfest það. Í því ljósi sé nær óskiljanlegt að umgengni hafi ekki verið aukin.

Í hinum kærða úrskurði blasi við að ólögmæt sjónarmið hafi ráðið niðurstöðu. Þar komi meðal annars fram að starfsmenn telji mikilvægt að stúlkan fái að njóta þess stöðugleika og öryggis sem hún hafi á fósturheimilinu. Til að svo megi verða sé nauðsynlegt að takmarka umgengni við ættingja stúlkunnar verulega, „sér í lagi þar sem ekki hefur ríkt samkomulag við F og G um umgengni og ráðstöfun barnsins í fóstur“. Hér virðist á ferðinni ruglingur á nöfnum fósturforeldra en fósturforeldrar stúlkunnar heiti H og J. F og G séu foreldrar kæranda. Þá telur kærandi það vera stúlkunni fyrir bestu að vera áfram í fóstrinu en hún hyggist ekki reyna að hnekkja þeirri ráðstöfun fyrir dómi.

Í hinum kærða úrskurði komi fram það sjónarmið að mikilvægt sé að stúlkan verði fyrir sem minnstum „truflunum og utanaðkomandi áreiti eða togstreitu hinna fullorðnu sem eiga hlut að máli“. Í málinu sé hvorki togstreita né ágreiningur við fósturforeldra stúlkunnar en kærandi telur þá hugsa vel um stúlkuna. Barnaverndarnefnd hafi ekki getað réttlætt þetta ólögmæta sjónarmið jafnvel þó að nefndin bendi á önnur lögmæt sjónarmið sem hún segi hafa legið til grundvallar.

Þá segir í hinum kærða úrskurði að barnaverndarnefnd telji að kærandi „hafi sýnt vilja til að bæta aðstæður sínar“. Kærandi furði sig á því að nefndin geti ekki einfaldlega sagt að kærandi „hafi“ bætt aðstæður sínar eins og gögn málsins sýni. Telur kærandi að í þessu kristallist afstaða barnaverndarnefndarinnar til sín og sjónarmiða sinna. Álítur kærandi að hún hafi ekki notið sannmælis í málinu og að engin rök séu fyrir því að horfa fram hjá betri stöðu hennar nú.

Kærandi telur engin lagaskilyrði vera fyrir hinni kærðu ákvörðun. Hún sé efnislega röng og andstæð hagsmunum barnsins. Ekki hafi með neinum hætti verið sýnt fram á að það samræmist ekki hagsmunum stúlkunnar að umgengni verði líkt og hjá öðrum börnum kæranda en hún hafi umgengni við þau sex sinnum á ári í sex klukkustundir í senn, eins og hér sé krafist. Ekki hafi heldur verið sýnt fram á að nauðsynlegt sé að hafa umgengni svo takmarkaða sem raunin sé. Af þessum ástæðum telur kærandi úrskurð barnaverndarnefndar ekki í samræmi við meginreglur barnaverndarlaga um meðalhóf, sbr. 7. mgr. 4. gr. bvl. Málið sé heldur ekki nægilega vel unnið eða rannsakað til að hægt sé að hafna kröfu kæranda.

Blasi því við að fallast beri á kröfu kæranda.

III. Afstaða Barnaverndarnefndar C

Í greinargerð Barnaverndarnefndar C til úrskurðarnefndarinnar 14. nóvember 2016 kemur fram að þess sé krafist að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Byggt er á því að hinn kærði úrskurður hafi fengið lögformlega málsmeðferð og ákvörðunin byggi á málefnalegum sjónarmiðum.

Með dómi Hæstaréttar Íslands X 2015 hafi kærandi verið svipt forsjá X barna sinna, þar á meðal stúlkunnar er þetta mál varðar. Barnaverndarnefnd C hafi kveðið upp úrskurð 29. júní 2015 um að umgengni kæranda við stúlkuna skyldi vera tvisvar sinnum á ári, í byrjun maí og byrjun desember. Kveðið hafi verið á um að frekari tímasetningar og dagsetningar yrðu ákveðnar í samráði við kæranda og fósturforeldra stúlkunnar. Umgengnin skyldi vera undir eftirliti barnaverndarstarfsmanna. Þennan úrskurð hafi kærandi kært til kærunefndar barnaverndarmála (nú úrskurðarnefnd velferðarmála) sem hafi staðfest úrskurðinn 11. nóvember 2015.

Með bréfi lögmanns kæranda til barnaverndarnefndarinnar 12. júlí 2016 hafi þess meðal annars verið krafist að umgengni kæranda við stúlkuna yrði aukin verulega og yrði að minnsta kosti sex sinnum á ári í sex klukkustundir í senn. Beiðni kæranda hafi verið tekin fyrir á fundi barnaverndarnefndarinnar 26. september 2016. Með úrskurði nefndarinnar hafi verið ákveðið að umgengnin yrði tvisvar sinnum á ári, í maí og desember, í þrjár klukkustundir í senn undir eftirliti barnaverndarstarfsmanns.

Barnaverndarnefndin mótmælir því sérstaklega að ólögmæt sjónarmið hafi ráðið niðurstöðu málsins. Hinn kærði úrskurður sé í fullu samræmi við tilgang og markmið bvl. og beitt hafi verið þeirri ráðstöfun sem stúlkunni hafi verið fyrir bestu, sbr. 4. gr. bvl. Það þjóni hagsmunum stúlkunnar best að umgengni hennar við kæranda verði takmörkuð með þeim hætti sem ákveðið hafi verið í hinum kærða úrskurði.

Kærandi hafi verið svipt forsjá barna sinna með dómi Hæstaréttar Íslands. Niðurstaða réttarins hafi verið reist á því að kærandi væri óhæf til að fara með forsjá barna sinna. Þá hafi önnur og vægari úrræði ekki skilað viðunandi árangri. Í kæru komi fram að kærandi álíti stúlkunni fyrir bestu að vera áfram í fóstrinu og hún hyggist ekki reyna að hnekkja þeirri ráðstöfun fyrir dómi.

Eins og fram komi í hinum kærða úrskurði hafi kærandi undanfarið sýnt vilja til að bæta aðstæður sínar. Vissulega sé það jákvætt en á hinn bóginn hafi það tímabil varað stutt í samanburði við þann langa tíma sem kærandi hafi gerst sek um margháttaða vanrækslu gagnvart börnum sínum og leitt hafi til þess að hún var svipt forsjá þeirra. Undir þessum kringumstæðum sé ekki réttlætanlegt að auka umgengni, enda eigi hún að þjóna hagsmunum barnsins en hvorki vera á forsendum kæranda né þjóna hagsmunum hennar. Með vísan til þessa sé einnig mikilvægt að umgengnin fari fram undir eftirliti þannig að unnt sé að tryggja öryggi stúlkunnar og að grunnþörfum hennar sé sinnt.

Eins og atvikum sé háttað í málinu sé mikilvægt að stúlkan aðlagist fósturfjölskyldunni sem tekið hafi að sér uppeldi hennar. Markmið fóstursins sé þannig að stúlkan tilheyri fósturfjölskyldunni. Við slíkar aðstæður sé viðurkennt að hagsmunir barna kunni að krefjast þess að umgengni verði takmörkuð all verulega.

Ákvörðun um hina takmörkuðu umgengni sé reist á grundvelli framangreindra sjónarmiða. Byggt sé á því að rýmri umgengni sé andstæð hagsmunum stúlkunnar og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem að sé stefnt með ráðstöfun hennar í fóstur. Í þessu sambandi sé rétt að benda á að stúlkan sé X ára gömul og hafi verið í fóstri frá því að hún var X mánaða. Með því að ráðstafa henni í varanlegt fóstur sé markmiðið að búa henni nýja fjölskyldu til framtíðar en ekki séu áform um að barnið tilheyri fleiri en einni fjölskyldu. Mikilvægt sé að stúlkan fái að mynda góð tengsl við fósturforeldrana í friði og ró.

Barnaverndarnefndin vísar til bréfs fósturforeldra stúlkunnar 22. september 2016. Þar komi meðal annars fram að stúlkan hafi sýnt gríðarlegar framfarir frá því að hún kom til þeirra. Afstaða fósturforeldra sé sú að aukin umgengni stúlkunnar við kæranda sé ekki til þess fallin að styrkja stúlkuna né sé aukin umgengni henni í hag heldur miklu frekar fallin til þess að valda henni tjóni. Í bréfinu komi einnig fram að fósturforeldrar séu algerlega mótfallnir því að umgengnin verði aukin en muni sem áður tryggja að barnið þekki uppruna sinn.

Að mati Barnaverndarnefndar C sé hinn kærði úrskurður í fullu samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Með því að umgengni verði takmörkuð með þeim hætti sem ákveðið hefur verið sé dregið úr þeim neikvæðu áhrifum sem kærandi hafi á stúlkuna og líf hennar. Þá sé umgengnin í samræmi við það markmið að stúlkan aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldunni.

Með vísan til gagna málsins og þess sem rakið hefur verið telji barnaverndarnefndin að rýmri umgengnisréttur en ákveðinn hafi verið í hinum kærða úrskurði sé ósamrýmanlegur þeim markmiðum sem stefnt hafi verið að með ráðstöfun stúlkunnar í fóstur. Með hliðsjón af hinum djúpstæða og langvarandi vanda, sem kærandi hafi glímt við, sé það mat barnaverndar-nefndarinnar að ekki sé grundvöllur fyrir tíðari umgengni kæranda við stúlkuna að svo stöddu.

Barnaverndarnefndin mótmælir athugasemd kæranda um að engin haldbær rök hafi verið færð fram um að kærandi eigi að njóta minni umgengni við stúlkuna en önnur börn sín. Þvert á móti sé bent á það í hinum kærða úrskurði að markmiðið með því að ráðstafa svo ungu barni í fóstur sé að búa barninu nýja fjölskyldu til frambúðar og mikilvægt sé að skapa aðstæður svo að stúlkan geti tengst sem best nýjum foreldrum. Ekki séu áform uppi um að stúlkan tilheyri fleiri en einni fjölskyldu en hún þekki ekki aðra sem foreldra sína en fósturforeldrana. Önnur börn kæranda hafi verið eldri er þau voru vistuð utan heimilis og hafi þess vegna meiri tengsl við kæranda.

Barnaverndarnefnd C gerir þá kröfu að hinn kærði úrskurður verði staðfestur, enda hafi málið fengið lögformlega málsmeðferð og ákvörðunin byggi á málaefnalegum sjónarmiðum.

IV. Afstaða fósturforeldra

Í tölvupósti frá fósturforeldrum stúlkunnar til úrskurðarnefndarinnar 21. febrúar 2017 segir að stúlkan hafi verið fjarlægð úr umsjá kæranda vegna gífurlegrar og endurtekinnar vanrækslu. Barnaverndarnefnd C hafi talið að hagsmunum stúlkunnar til framtíðar væri best borgið með því að kærandi yrði varanlega svipt forsjá hennar og hafi Hæstiréttur Íslands staðfest rök og ákvörðun barnaverndarnefndarinnar í málinu.

Í ákvörðun Barnaverndarnefndar C um að stúlkan skuli vera varanlega hjá fósturforeldrum felist að hún alist upp sem dóttir fósturforeldra í það minnsta til 18 ára aldurs. Í uppeldinu skapi fósturforeldrar trygg fjölskyldutengsl og tengslanet fyrir stúlkuna sem sýnt hafi mikil einkenni tengslaröskunar við komu til fósturforeldra. Öll reynsla stúlkunnar hafi bein áhrif á sjálfsmynd hennar og samband við aðra. Til að styðja stúlkuna í þessu þurfi hún að búa við reglusemi og öryggi í daglegu umhverfi sínu þar sem fjölskyldan sé til staðar frá degi til dags. Fósturforeldrar hafi búið henni þannig aðstæður. Það er mat fósturforeldra að það geti ekki talist hagsmunir stúlkunnar að trufla þá reglusemi, umgjörð og uppeldisaðstæður sem hún búi við með því að gera henni að hitta móður sína oftar eða lengur en mælt sé fyrir um í ákvörðun Barnaverndarnefndar C og hafna fósturforeldrar breytingum á ákvörðuninni. Það sé grundvallarregla í íslenskum barnarétti, og komi einnig fram í þeim alþjóðlegu sáttmálum sem Ísland er aðili að, að það teljist til mannréttinda barna að njóta forsvaranlegra uppeldisskilyrða. Þegar hagsmunir barns og foreldra vegist á eigi hagsmunir barnsins að ráða.

Það liggi í hlutarins eðli, sbr. gildandi lög, að stúlkan þurfi að þekkja uppruna sinn. Fósturforeldrar hafi alltaf tryggt að svo sé og hafi skapað umræðu um fjölskyldu og ramma um þá umgengni sem ákvörðuð hafi verið af Barnaverndarnefnd C. Í þessu felist jafnframt að fósturforeldrar búi stúlkuna undir það að hún geti síðar á lífsleiðinni, þegar hún hafi þroska til og óski þess sjálf, hitt móður sína oftar án þess að það skaði tilfinningar hennar og sálarlíf frekar en þegar sé orðið.

V. Niðurstaða

D er rúmlega X ára stúlka og hefur verið hjá fósturforeldrum sínum frá því í X 2014. Stúlkan var í umsjá móður sinnar þar til í X 2014 er hún var tæplega X, en afskipti barnaverndaryfirvalda af aðstæðum hennar hófust í X 2013 er hún var aðeins X mánaða gömul.

Með dómi Hæstaréttar X 2015 var staðfestur dómur Héraðsdóms Reykjaness frá X 2014 um að kærandi skyldi svipt forsjá X barna sinna, þar á meðal stúlkunnar sem um er fjallað í þessu máli. Í dómi héraðsdóms kemur fram með afdráttarlausum hætti að kærandi var talin vanhæf til að fara með forsjá barna sinna. Um eins árs skeið hafi kæranda verið veittur margvíslegur stuðningur við uppeldið en án árangurs. Í dóminum kemur fram að kærandi sé flöt og fálát gagnvart börnum sínum, hún sæki í að losna við þau af heimilinu og reyni að fá frið frá þeim. Öll samskipti við börnin séu neikvæð og skilyrt. Kærandi hafi hugsað illa um börnin, þau hafi verið illa hirt og nærð og allt eftirlit og umönnun slakt. Yngri börnin hafi ekki átt viðeigandi fatnað og föt þeirra hafi verið óhrein og illa lyktandi. Börnin séu öll grannvaxin og hafi þau lýst því að ekki hafi verið til peningar fyrir mat. Heilsuvernd barnanna, þar á meðal tannvernd, hafi verið illa sinnt. Kærandi kenni börnum sínum hvorki hegðun, mannasiði né samskipti.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að starfsmenn barnaverndarnefndarinnar telji mikilvægt að litið sé til þess að stúlkan hafi verið á fósturheimilinu frá því að hún var rúmlega X gömul. Starfsmenn telji hagsmuni stúlkunnar ótvírætt þá að hún fái frið og ró til að aðlagast fósturfjölskyldunni og tengjast henni án áreitis. Þá telji starfsmenn mikilvægt að stúlkan fái að njóta þess stöðugleika og öryggis sem hún njóti á fósturheimilinu en til að svo megi verða sé nauðsynlegt að takmarka umgengni við ættingja hennar verulega.

Í hinum kærða úrskurði kemur einnig fram að með því að ráðstafa svo ungu barni í varanlegt fóstur sé markmiðið að búa barninu nýja fjölskyldu til frambúðar. Mikilvægt sé að skapa aðstæður svo að stúlkan geti tengst sem best nýjum foreldrum. Barnaverndarnefndin telur einnig mikilvægt að hafa í huga að umgengni barns við foreldra og aðra nákomna þurfi að þjóna hagsmunum barnsins en ekki vera á forsendum fullorðinna eða þjóna þeirra hagsmunum. Telur barnaverndarnefndin mikilvægt fyrir þroska og heilbrigði stúlkunnar að hún geti verið í friði og ró í fóstrinu og að hún verði fyrir sem minnstum truflunum og utanaðkomandi áreiti. Einnig telur nefndin sérlega mikilvægt fyrir stúlkuna að mynda góð tengsl við fósturforeldra sína. Þeirri tengslamyndun megi ekki raska umfram það sem nauðsyn krefji. Ekki séu áform um að vinna að því að barnið tilheyri fleiri en einni fjölskyldu.

Í greinargerð starfsmanna barnaverndarnefndarinnar 22. september 2016 kemur fram að stúlkan hafi sýnt miklar framfarir varðandi hegðun, líðan og almenna mannasiði þann tíma sem fóstrið hafi varað. Fósturforeldrar hennar hafi tekið að sér það vandasama verkefni að ala dóttur kæranda upp, búa hennisem bestan hag og sjá til þess að þörfum hennar væri sinnt á þann hátt sem þjónaði hagsmunum hennar. Starfmenn lögðu því til að umgengni stúlkunnar við kæranda yrði áfram með sama hætti og áður.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Samkvæmt því sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum ber að leysa úr kröfu kæranda um að umgengni hennar við barnið verði aukin með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum barnsins best. Umgengni kæranda við barnið þarf að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt var að með ráðstöfun barnsins í varanlegt fóstur. Í því tilliti ber sérstaklega að horfa til þess að tryggja þarf að friður, ró og stöðugleiki ríki í lífi barnsins í hinu varanlega fóstri hjá fósturforeldrunum. Verði það ekki gert ber að líta svo á að þess hafi ekki verið nægilega gætt að umgengnin þjóni hagsmunum barnsins best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl. Við mat á þessu breytir í sjálfu sér ekki þótt kærandi hafi með ýmsu móti bætt forsjárhæfni sína. Þar sem stúlkan er nú í varanlegu fóstri er mikilvægt að hún fái frið til að aðlagast fósturfjölskyldunni og mynda við hana tengsl.

Fósturforeldrar hafa lýst afstöðu sinni varðandi umgengni í tölvupósti til úrskurðarnefndarinnar 21. febrúar 2017. Þar kemur meðal annars fram að öll reynsla stúlkunnar hafi bein áhrif á sjálfsmynd hennar og samband við aðra. Til að styðja stúlkuna í þessu þurfi hún að búa við reglusemi og öryggi í daglegu umhverfi sínu þar sem fjölskyldan sé til staðar frá degi til dags. Leggjast fósturforeldrar gegn því að umgengni kæranda við stúlkuna verði aukin, meðal annars vegna þess að það geti ekki talist hagsmunir stúlkunnar að trufla þá reglusemi, umgjörð og uppeldisaðstæður sem hún búi við með því að gera henni að hitta móður sína oftar eða lengur en mælt sé fyrir um í hinni kærðu ákvörðun. Í tölvupósti 29. desember 2016 til úrskurðarnefndarinnar vísar kærandi til þess að fósturforeldrar séu jákvæðir fyrir því að auka umgengni. Þetta fær ekki stoð í gögnum málsins.

Úrskurðarnefndin tekur undir þau sjónarmið sem koma fram í hinum kærða úrskurði og rakin hafa verið. Með því að takmarka umgengni kæranda við stúlkuna eins og gert er með hinum kærða úrskurði er stefnt að því að hún fái frið til að aðlagast fósturfjölskyldunni, án þeirrar truflunar sem umgengni við kæranda er fallin til að valda henni. Markmiðið með því er að tryggja hagsmuni stúlkunnar, öryggi hennar og þroskamöguleika. Einnig ber að líta til þess að með umgengni kæranda við stúlkuna er ekki verið að reyna að styrkja tengsl mæðgnanna frekar heldur viðhalda þeim tengslum sem þegar eru fyrir hendi, ekki síst í þeim tilgangi að barnið þekki uppruna sinn. Ber að haga ákvörðun um umgengni með tilliti til þessara sjónarmiða.

Með hliðsjón af því, sem rakið hefur verið, verður að telja að umgengnin hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. þegar umgengni barns í fóstri við foreldra er ákveðin og að gætt hafi verið meðalhófs við úrlausn málsins. Að því er varðar rannsókn málsins bera gögn þess með sér að bæði aðstæður kæranda og stúlkunnar hafi verið kannaðar með viðhlítandi hætti. Af hálfu kæranda er vísað til þess að ekki hafi verið sýnt fram á að það samrýmist ekki hagsmunum stúlkunnar að umgengni verði aukin eða að nauðsynlegt sé að hafa umgengni svo takmarkaða sem ákveðið var í hinum kærða úrskurði. Úrskurðarnefndin telur að barnaverndarnefndin hafi lagt mat á málið út frá hagsmunum stúlkunnar. Þá vísar kærandi einnig til þess að í hinum kærða úrskurði virðist koma fram ruglingur á nöfnum fósturforeldra. Úrskurðarnefndin sér ekki að nokkur ruglingur hafi orðið á nöfnum.

Með vísan til þess er að framan greinir og 2. og 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga þykir umgengni kæranda við stúlkuna hæfilega ákveðin með hinum kærða úrskurði. Samkvæmt því ber að staðfesta úrskurðinn.

Úrskurðarorð

Úrskurður Barnaverndarnefndar C frá 26. september 2016 varðandi umgengni A við dóttur hennar, D, er staðfestur.

Lára Sverrisdóttir

Hrafndís Tekla Pétursdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta