Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 220/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 220/2016

Miðvikudaginn 22. febrúar 2017

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 13. júní 2016, kærði B hrl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 14. mars 2016 um varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem hún varð fyrir á leið til vinnu 29. október 2013.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi varð fyrir slysi á leið til vinnu 29. október 2013 þegar hún rann í hálku og datt. Slysið var tilkynnt til Sjúkratrygginga Íslands og bótaskylda samþykkt en með bréfi, dags. 14. mars 2016, tilkynnti stofnunin kæranda að varanleg slysaörorka hennar hafi verið metin 0%.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 13. júní 2016. Með bréfi, dags. 14. júní 2016, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 11. júlí 2016, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt lögmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að úrskurðarnefnd velferðarmála endurskoði mat á varanlegum afleiðingum slyssins sem átti sér stað 29. október 2013 og að tekið verði mið af matsgerð C læknis, dags. 24. júní 2015.

Í kæru segir að atvik málsins séu þau að kærandi hafi verið að ganga […] á leið til vinnu X þegar hún hafi runnið í snjó og hálku með þeim afleiðingum að hún hafi dottið og lent illa, en hún hafi borið fyrir sig hægri hendi. Hún hafi leitað á slysadeild Landspítala í kjölfar slyssins og kvartað undan verkjum í hægri ökkla og í vinstri stórutá.

Þann X hafi kærandi leitað til heimilislæknis og kvartað undan verkjum frá hægri öxl. Hún hafi svo leitað alloft eftir það til heimilislæknis vegna áframhaldandi einkenna frá hægri öxl og meðal annars fengið sprautu. Þá hafi hún verið í meðferð hjá sjúkraþjálfara.

Kæranda hafi svo verið vísað til D bæklunarlæknis en í vottorði hans, dags. 3. apríl 2014 segi: „Í kjölfar slyssins vaxandi verkir og nú er hún með frosna öxl við skoðun, smá kölkun í subacrominal bursunni, ekki að sjá neina sinaáverka og enga aðra beináverka.“ Í kjölfarið hafi kærandi gengist undir aðgerð X. Ástand hennar frá öxlinni hafi hins vegar ekki lagast og hún fundið til mikilla einkenna þaðan.

Kærandi hafi gengist undir mat á afleiðingum slyssins hjá C lækni 12. maí 2015. Á matsfundi kvaðst kærandi aðallega kenna til í hægri öxl, en hún finni fyrir verkjum um leið og hún beiti handleggnum til einhverra verka. Einnig kvaðst hún ekki geta beitt handleggnum til erfiðisvinnu, svo sem til að lyfta þungu eða vinna fram fyrir sig eða upp fyrir sig. Vegna þessa geti hún ekki unnið viss heimilisstörf og treysti sér ekki í fulla vinnu. Hún hafi verið með talsvert skertar og sárar hreyfingar í hægri öxl.

C matsmaður telji að kærandi hafi hlotið tognunaráverka á vinstri ökkla og hægri öxl og að um sé að ræða daglegan áreynsluverk í öxlinni með hreyfiskerðingu, virkri lyftu og fráfærslu í allt að 90°. Hann telji að varanleg læknisfræðileg örorka kæranda vegna afleiðinga slyssins sé hæfilega metin 12%.

Kærandi telji að varanlegar afleiðingar slyssins hafi verið vanmetnar af Sjúkratryggingum Íslands og leggja beri til grundvallar forsendur og niðurstöður sem komi fram í matsgerð C læknis.

Kærandi hafi lent í öðru slysi í Y þar sem hún hafi fallið á vinstri öxl. Síðan þá hafi hún einnig verið að glíma við einkenni frá vinstri öxl og hafi á þeim tímapunkti, sem matið fór fram hjá Sjúkratryggingum Íslands, verið með meiri og verri einkenni frá vinstri öxl. Hins vegar finni hún enn fyrir einkennum frá hægri öxl þótt þau séu ekki eins slæm og frá þeirri vinstri í dag.

Miðað við einkenni sem kærandi hafi verið með á matsfundi C og einkenni sem hún hafi glímt við frá því að slysið átti sér stað og fram að þeim tíma, verði að teljast afar ólíklegt að hún hafi jafnað sig að fullu í öxlinni og að öll þau einkenni hafi gengið til baka á aðeins nokkrum mánuðum. Þess beri að geta að einkenni frá vinstri öxl vegna afleiðinga slyssins í Y hafi verið ríkjandi þegar matið á vegum Sjúkratrygginga Íslands fór fram, en það sé ekki þar með sagt að einkenni frá hægri öxl hafi verið horfin. Á það beri að benda að kærandi tali ekki góða íslensku og líklegt að einhver misskilningur hafi átt sér stað varðandi einkenni frá hægri öxl.

Að gefnu tilefni árétti kærandi það sem komi fram í matsgerð C en þar segi: „Í gögnum málsins kemur fram að hún hafi kvartað um óþægindi frá hægri öxl fyrir vinnuslysið í X en hún telur það misskilning og hér hafi verið um að ræða vinstri öxl og hafi hún ekki áður orðið fyrir áverka á hægri öxl fyrr en hún slasaðist í X.“ Í þessu sambandi sé einnig bent á að fyrir umrætt slys hafði kærandi ekki leitað til læknis vegna einkenna frá hægri öxl, sbr. læknisvottorð, dags. 7. janúar 2015, og að hún hafi fyrst orðið óvinnufær vegna einkenna frá hægri öxl í kjölfar slyssins X, eða frá X. Þá sé einnig bent á að í vottorði D læknis, dags. 11. janúar 2015, komi fram að það sé þekkt að frosin öxl komi í kjölfar vægrar tognunar og telur hann að um orsakasamband sé að ræða.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að bætur úr slysatryggingu almannatryggingalaga séu sjúkrahjálp, dagpeningar, örorkubætur og dánarbætur, sbr. 31. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum.

Ákvörðun stofnunarinnar um varanlega læknisfræðilega örorku sé sjálfstætt mat sem henni sé falið að gera lögum samkvæmt, sbr. 2. gr. laga um almannatryggingar. Stofnunin byggi ákvörðun sína á fyrirliggjandi gögnum þegar litið sé svo á að mál sé að fullu upplýst og stofnunin sé ekki bundin af niðurstöðu annarra sérfræðinga. Þá taki stofnunin sjálfstæða ákvörðun um hvort orsakatengsl séu á milli einkenna og hins tilkynnta slyss.

Örorka sú sem metin sé samkvæmt IV. kafla almannatryggingalaga, með síðari breytingum, sé læknisfræðileg þar sem metin sé skerðing á líkamlegri og eftir atvikum andlegri færni hjá einstaklingum sem orðið hafa fyrir líkamstjóni. Við matið sé stuðst við miskatöflur örorkunefndar þar sem ýmsar tegundir líkamsáverka séu metnar til ákveðins miskastigs í hundraðshlutum án tillits til starfs eða menntunar tjónþola og án þess að líta til þess hvaða áhrif örorkan hafi á getu til öflunar atvinnutekna.

Í hinni kærðu ákvörðun hafi varanleg læknisfræðileg örorka verið talin engin vera. Við ákvörðunina hafi verið stuðst við fyrirliggjandi gögn, þar á meðal tillögu sem unnin hafi verið af E, CIME, sérfræðings í bæklunarskurðlækningum og mati á líkamstjónum, dags. 11. janúar 2016.

Um umfjöllun um atvik málsins og rökstuðning niðurstöðu vísist til hinnar kærðu ákvörðunar og þeirra gagna sem hún sé byggð á.

Samkvæmt því sem fram komi í kæru snúist ágreiningur um mat á afleiðingum slyssins en fyrirliggjandi séu tvær matsgerðir. Annars vegar C læknis, dags. 24. júní 2015, og hins vegar E, dags. 11. janúar 2016. Framkvæmd hafi verið skoðun á kæranda við vinnslu þeirra beggja en rúmir sjö mánuðir liðu á milli matsfunda. Læknisfræðileg örorka hafi verið metin 12% í fyrra mati (hægri öxl og vinstri ökkli) en engin í því síðara.

Kærandi telji að stofnunin hefði átt að styðjast við fyrra matið. Máli sínu til stuðnings vísi hún til þess að afar ólíklegt sé að hún hafi jafnað sig að fullu í öxlinni frá því að hið fyrra mat fór fram. Einnig tali hún ekki góða íslensku og líklegt sé að einhver misskilningur hafi átt sér stað á milli hennar og E varðandi einkenni frá hægri öxl. Byggi rökstuðningur málskotsins því í raun einungis á því að um misskilning hafi verið að ræða á milli kæranda og matslæknis.

Miðað við orðalag matsgerðar E séu ekki efni til að draga þá ályktun að tungumálaörðugleikar hafi getað haft áhrif á niðurstöðu matsins. Sé heilsufarssaga kæranda þannig byggð á samtali við hana á matsfundi. Á matsfundi hafi komið fram að núverandi einkenni væru að mestu frá vinstri öxl en þau einkenni tengdust ekki því slysi sem meta ætti nú. Tiltaki kærandi að hægri öxl hafi jafnað sig vel og lítil sem engin óþægindi séu frá henni. Núverandi einkenni frá hægri ökkla eða vinstri stórutá séu engin.

Eins og fram komi í fyrirliggjandi matsgerðum hafi kærandi gengist undir læknisskoðun á báðum matsfundum. Þeir annmarkar á hreyfigetu og líðan við skoðun sem lýst sé í matsgerð Júlíusar komi ekki fram í þeirri síðari. Þannig séu hreyfiferlar á hægri öxl metnir eðlilegir og tiltekið að óveruleg óþægindi fylgi skoðuninni. Það sama eigi við um skoðun á ökklum og grunnlið stórutáar beggja vegna.

Ljóst sé því að niðurstaða hins síðara mats byggi bæði á frásögn kæranda og læknisskoðun. Eðlileg hreyfigeta hjá sjúklingi geti vart komið fram vegna tungumálaörðugleika á milli sjúklings og læknis, búi sjúklingur við talsvert skertar og sárar hreyfingar.

Þar sem byggt sé á því að kærandi tali ekki góða íslensku sé rétt að fram komi að stofnunin greiði alla jafna fyrir þjónustu túlks á matsfundum sé eftir því óskað. Ekkert í gögnum málsins bendi til þess að kærandi eða lögmaður hennar hafi óskað eftir þjónustu túlks á matsfundi sem fór fram 30. desember 2015 og sé grundvöllur seinni matsgerðar.

Hvað varði bata kæranda á milli matsfunda þá geti þær afleiðingar (frosin öxl) sem hún hafi búið við eftir slysið gengið til baka á einum til þremur mánuðum og sé því ekki hægt að fullyrða að afar ólíklegt sé að einkenni hennar hafi ekki breyst á því sjö mánaða tímabili sem liðu á milli matsfunda. Eigi það við jafnvel þó að hún hafi átt við einkennin að etja í nokkurn tíma.

Að mati stofnunarinnar hafi ekkert komið fram í máli þessu sem gefi tilefni til að víkja frá hinni kærðu ákvörðun. Að öllu virtu beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun um varanlega læknisfræðilegu örorku.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ágreining um varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem kærandi varð fyrir á leið til vinnu X. Sjúkratryggingar Íslands mátu varanlega slysaöroku kæranda 0%.

Í áverkavottorði F læknis, dags. 26. maí 2014, vegna slyssins segir svo:

„Datt í morgun verkur í hæ. ökkla og stórutá.

Var á leið í vinnu í morgun, vinnur á G. Snéri sig á hæ ökkla og datt fram fyrir sig. Verkir í stóru tá vi fótar og í ökkla hæ fótar.“

Niðurstöðu skoðunar á slysdegi var lýst svo:

„HÆ. KKLI: Beináverkar greinast ekki.

VI. STÓRATÁ: lítil afrifa tibialt og basalt á nærkjúkunni, þarf ekki að vera ný. Svolítill corticalis defect tibialt í merkingunni rétt distalt við miðju. Virðist vera sakleysisleg beincysta. Annað greinist ekki athugavert.“

Kærandi fékk eftirfarandi greiningu á slysdegi: Sprain and strain of ankle.

Í örorkumatsgerð E læknis, dags. 11. janúar 2016, sem unnin var að beiðni Sjúkratrygginga Íslands, er skoðun á kæranda 30. desember 2015 lýst svo:

„A kveðst vera X cm og X kg. Hún notar fatla vegna vinstri handar og er með teygjusokk frá vinstri úlnlið upp á upphandlegg og hreyfir vinstri handlegg lítið. Hreyfiferlar á hægri öxl eru metnir eðlilegir. Fráfæra er 160. Framfæra er 160. Styrkur við hreyfingar mót álagi er metinn eðlilegur og ekki er um að ræða grun um slit á sinum. Það eru óveruleg óþægindi við þessa skoðun. Skoðun á ökklum er þannig að ökklaliðir eru metnir eðlilegir, eins hægri og vinstri og sama er að segja um grunnlið stórutáar beggja vegna.“

Niðurstaða E var 0% varanleg læknisfræðileg örorka og kemur eftirfarandi fram í útskýringu hans:

„Samkvæmt vottorði Slysadeildar er um að ræða tognunaráverka á hægri ökkla og vinstri stórutá í slysinu. Það eru engar kvartanir um axlavandamál. A sjálf lýsir því að hún hafi einum til tveimur vikum eftir slys fengið versnandi verki og einkenni frá axlarsvæði og hafa meðferðaraðilar talið þetta beina afleiðingu slyssins, þ.e. frosna öxl. A gekkst undir aðgerð þar sem rýmkað var um axlarhylkissinar og hefur nú jafnað sig að fullu í öxlinni. Það er ekki um að ræða nein vandamál í ökkla eða stórutá þar sem lýst var áverkum slysdaginn og því þegar tekið er tillit til allra þátta ekki um að ræða varanlega miska vegna slyssins. Einnig ver að líta til þess að í vottorði heilsugæslulæknis er skráð viðtal á Heilsugæslu þann X eða þremur vikum eftir slys og er þá lýsing læknis þannig: „Hefur verið með verki lengi í hægri öxl, hefur samt versnað mikið s.l. 5 mánuði, verkurinn er yfir alla hægri öxlina, á erfitt með að segja námkvæmlega hvar verkurinn er verstur. Finnur einnig fyrir leiðniverk niður í hægri handlegg og stundum straum sem fer niður í löngutöng og baugfingur. Vinnur hjá G og segir að það sé orðið erfitt fyrir hana að vinna vegna verkja. Læknirinn pantar hér röntgenmynd og ómskoðun af hægri axlarlið.“

Næst er skráning: Viðtal á síðdegisvaktinni á Heilsugæslunni þann X: „Slæm í hægri öxl og treystir sér ekki til vinnu. Grætur, ekki unnið síðan í gær. Við skoðun er verulega skert hreyfing í öxlinni, sérstaklega abt og rot. Löng saga sem ég penetrera ekki nánar en gef tíma hjá hennar heimilislækni.“

Það eru fleiri skoðanir og viðtöl á Heilsugæslunni í janúar 2014, í febrúar 2014 og mars 2014 og hvergi er minnt á tengingu axlarvandamáls við slysið sem varð í X og verður því að teljast spurningamerki með orsakasamband. Samt sem áður ef orsakasamband er til staðar verður að teljast ljóst að einkenni eru í dag engin og því ekki um að ræða varanlegan miska í þessu vinnuslysi.“

Kærandi hefur lagt fram örorkumat C læknis, dags. 24. júní 2015, en þar var læknisfræðileg örorka kæranda talin vera 12%. Í matsgerðinni er skoðun á kæranda 12. maí 2015, lýst svo:

„Það eru talsvert skertar og sárar hreyfingar í hægri öxl og eru hreyfiferlar eins og hér segir: Framsveifla 110°, útsveifla 80°, aftursveifla 30° og útsnúningur 40°, innsnúningur 30°. Taugaskoðun hægri griplims er eðlileg. Það eru talsverð þreifieymsli bæði framan og hliðlægt yfir axlarliðnum einkum yfir festum tvíhöfða (m. biceps) og ofankambsvöðva (m. supraspinatus) sinanna. Einnig eru talsverð eymsli og þroti í sjalvöðvanum hægra megin. Hreyfingar í hálsliðum eru eðlilegar. Sinaviðbrögð í griplimum eru eðlileg en kraftar eru skertir í gripi og við hreyfingar í hægri öxl. Við skoðun á ökklum koma fram eðlilegar hreyfingar en það smávægilegur þroti umhverfis ytri ökklahnútuna vinstra megin (malleoulus medialis sin) og eymsli þar yfir en ökklaliðurinn sjálfur er stöðugur.“

Í samantekt og niðurstöðu matsins segir meðal annars:

„Undirritaður telur að A hafi í vinnuslysinu hlotið tognunaráverka á vinstri ökkla og tognunaráverka á hægri öxl. Hér er um að ræða daglegan áreynsluverk í öxlinni með hreyfiskerðingu, virkri lyftu og fráfærslu í allt að 90 gráður. Einkenni frá öxlinni hafa orðið þrálát en einnig eru enn til staðar viss einkenni frá vinstra ökkla með bólgu og verkjum við álag, sem rekja má til tognunaráverka í slysinu. Gögn málsins hvað varðar fyrri einkenni A frá hægri öxl fyrir slysið eru misvísandi en það kann að stafa af tungumálaerfiðleikum þar sem hún á erfitt með að tjá sig á öðrum tungumálum en á sínu móðurmáli. Ekkert kemur fram í hennar sögu sem bendir til þess að hún hafi áður hlotið áverka á hægri öxl eða gengist undir rannsóknir og/eða meðferð vegna axlarmeins hægra megin. Hins vegar hefur hún að eigin sögn haft einkenni áður frá vinstri öxl.“

Ákvörðun slysaörorku samkvæmt IV. kafla laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, nú laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga, er eingöngu læknisfræðileg þar sem tilteknir líkamsáverkar eru metnir til ákveðins örorkustigs. Félagslegir þættir, svo sem vinnufærni og áhrif örorku á getu til tekjuöflunar, koma ekki til álita. Við læknisfræðilegt mat er stuðst við örorkumatsskrár/miskatöflur örorkunefndar frá árinu 2006 þar sem ýmsar tegundir líkamsáverka eru metnar til ákveðins miskastigs í hundraðshlutum, án tillits til starfs eða menntunar tjónþola.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á örorku kæranda og byggir mat sitt á fyrirliggjandi gögnum sem hún telur nægileg. Við matið hefur úrskurðarnefnd hliðsjón af miskatöflum örorkunefndar frá árinu 2006. Samkvæmt gögnum málsins datt kærandi í hálku þar sem hún sneri sig á hægri ökkla og datt fram fyrir sig. Samkvæmt fyrrgreindri tillögu E læknis að örorkumati var afleiðing slyssins talin vera tognun á ökkla. Samkvæmt örorkumati C læknis voru afleiðingar slyssins taldar vera tognunaráverki á vinstri ökkla og tognunaráverki á hægri öxl.

Ágreiningur í máli þessu snýst annars vegar um einkenni kæranda í hægri öxl og hins vegar í hægri ökkla.

Eftirfarandi var bókað í sjúkraskrá vegna komu kæranda á Heilsugæsluna H þann X: „Hefur verið með verki lengi í hægri öxl. Hefur samt versnað mikið sl 5 mánuði. Verkurinn er yfir alla hægri öxlina, á erfitt með að segja nákvæmlega hvar verkurinn er verstur.“ Eftirfarandi álit D bæklunarskurðlæknis á orsakatengslum á milli slyssins og einkenna kæranda í hægri öxl kemur fram í vottorði hans, dags. 11. janúar 2015: „Hún fellur í slysinu og meiðist á fæti teknar röntgen myndir en strax í upp hafi ekki verkir í öxlinni. Eins og hún lýsir sjálf vaxandi stirðleiki og verkir og þekkt að frosin öxl geti komið í kjölfar vægrar tognunar. Ástand telst vera eftir tognunaráverka sem veldur frosinni öxl.“

Tekin var röntgenmynd af hægri öxl kæranda X þar sem úrlestur var eftirfarandi: „Það er ekki að sjá merki um slitbreytingar í humeroscapular lið né í AC liðnum. Það er 7 mm stór ávöl kölkun aðlægt tuberculum majus. Acromion formið er af Bigliani typu II.“ Ómskoðun sama dag var lýst svo: „Biceps sinin er heil og situr í sulcus. Vökvi sést aðlægt sininni. Subscapularis sinin er heil. Það er kölkun í infraspinatus sininni við sinafestuna. Það eru tendinosis breytingar í supra- og infraspinatus sinum. Ekki sjást merki um rifur. Þroti er í bursa subacromialis. Ekki var unnt að meta hvort impingement var til staðar þar sem sjúklingur átti mjög erfitt með allar hreyfingar í axlarlið.“

Fyrir liggur að kærandi lýsti ekki einkennum frá hægri öxl á slysdegi. Samkvæmt gögnum málsins lýsti hún fyrst slíkum einkennum í komu til læknis á heilsugæslu X eða um þremur vikum eftir slysið. Í komunótu þann dag kemur ekki fram tenging við slysið heldur segir að einkenni hafi verið til staðar í langan tíma en versnað mikið síðastliðna fimm mánuði. C læknir byggir á því í matsgerð sinni að kærandi hafi hlotið tognunaráverka á hægri öxl sem hafi leitt til þrálátra einkenna og ekki sé saga um aðra áverka á hægri öxl. D læknir hefur bent á að frosin öxl geti orsakast af vægri tognun. Þá er í vottorði J læknis, dags. 28. apríl 2014, lýst áverkum eftir slysið og segir síðan: „Lengri saga um verk í hægri öxl en versnaði við fallið.“ Ekki kemur þó fram í sjúkrasögu, hvorki á slysdegi né við komu á heilsugæslu þremur vikum síðar, að þau einkenni hafi ýfst upp við fallið X. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur því vafa leika á um orsakasamhengi á milli þess óhapps sem kærandi varð fyrir og þeirra meinsemda sem sannanlega greindust síðar í hægri öxl hennar.

Nokkuð ber á milli í lýsingu skoðunarmanna á ástandi kæranda. Við skoðun C 12. maí 2015 greindi hann eymsli og skerta hreyfigetu í hægri axlarlið og væg einkenni frá vinstri ökkla. Við skoðun E 30. desember 2015 komu aðeins fram óveruleg óþægindi frá hægri öxl en hreyfingar um axlarlið voru óhindraðar. Úrskurðarnefnd telur rök hníga að því að síðari skoðunin sé líklegri til að gefa mynd af varanlegu ástandi kæranda þar sem þá var lengra liðið frá slysinu. Þá telur úrskurðarnefndin ekkert benda til þess að tungumálaerfiðleikar hafi haft áhrif á niðurstöðu skoðunarinnar. Í miskatöflum örorkunefndar frá 2006 fjalla liðir VII.A.a. um afleiðingar áverka á öxl og upphandlegg. Varanleg einkenni kæranda eru of væg til að falla undir nokkurn þeirra liða og telst því varanlegur miski kæranda vegna einkenna frá hægri öxl rétt metinn 0%.

Kemur þá til álita hvort áverki á hægri ökkla kæranda hafi leitt til varanlegrar læknisfræðilegrar örorku. Í töflum örorkunefndar er í kafla VII. fjallað um útlimaáverka. Undir staflið B er fjallað um ganglimi og c-liður í kafla B fjallar um áverka á ökkla. Samkvæmt skoðun C læknis voru eðlilegar hreyfingar í ökklanum og ökklaliður stöðugur en smávægilegur þroti umhverfis ytri ökklahnútu vinstra megin. Skoðun E fór fram sjö mánuðum eftir skoðun C og var hún eðlileg. Úrskurðarnefnd telur að hvorki verði ráðið af framangreindu né öðrum læknisfræðilegum gögnum málsins að áverki á ökkla kæranda hafi valdið varanlegri læknisfræðilegri örorku.

Það er mat úrskurðarnefndar velferðarmála að samkvæmt læknisfræðilegum gögnum málsins sé varanleg læknisfræðileg örorka kæranda vegna slyssins X réttilega metin í hinu kærða örorkumati, þ.e. 0%. Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um örorkumat kæranda er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um 0% örorkumat vegna slyss sem A, varð fyrir X er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta