Mál nr. 18/2006. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:
Úrskurður kærunefndar útboðsmála 12. febrúar 2007
í máli nr. 18/2006:
Tindaborgir ehf.
gegn
Húsnæðissamvinnufélagi Elliða hsf.
Með bréfi dagsettu 13. júlí 2006, sem barst kærunefnd útboðsmála sama dag, kæra Tindaborgir ehf. ákvörðun Húsnæðissamvinnufélags Elliða hsf. að hafna verktilboði hans í útboði fyrir byggingu íbúða aldraðra að Mánabraut 1-16 Þorlákshöfn og semja við og skrifa undir samning við Trésmiðju Sæmundar ehf.
Kærandi gerir eftirfarandi kröfur í málinu:
1. Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála úrskurði að ákvörðun kærða um að hafna tilboði kæranda verði ógild.
2. Kærandi krefst þess jafnframt að kærunefnd útboðsmála tjái sig um bótaskyldu kærða og grundvöll skaðabóta.
3. Loks krefst kærandi þess að kærða verði gert að greiða kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi.
Kærði gerir þá kröfu að kæru kæranda verði vísað frá kærunefnd útboðsmála. Þá krefst kærði þess að kæranda verði gert að greiða kærða málskostnað við að verjast tilefnislausri kæru.
I.
Í apríl 2006 óskaði kærði eftir tilboðum í byggingu leiguíbúða fyrir aldraða á lóðunum Mánabraut 1-16 í Þorlákshöfn. Um var að ræða opið útboð. Verktaki skyldi byggja 16 leiguíbúðir fyrir aldraða er rísa skyldu á lóðunum og skila lóðunum fullfrágengnum með snjóbræðslu og malbikuðu yfirborði fyrir bílastæði og hellulögn.
Gögn málsins bera með sér að kærandi hafi skilað inn lægsta tilboði í verkið eða að fjárhæð kr. 364.706.168,-. Kærði tók þá ákvörðun að ganga til samninga við Trésmiðju Sæmundar ehf. sem skilaði inn tilboði að fjárhæð kr. 378.744.881,-. Kotsnaðaráætlun kærða var kr. 370.051.672,-.
Lögmaður kæranda gerði athugasemdir við þá ákvörðun kærða að ganga til samninga við Trésmiðju Sæmundar ehf. með símskeyti 23. maí 2006. Með bréfi, dags. 16. júní 2006, mótmælti kærði athugasemdum kæranda. Lögmaður kæranda ítrekaði f.h. kæranda athugasemdir með bréfi, dags. 19. júní 2006, en lögmaður kærða svaraði með bréfi, dags. 10. júlí 2006, og hafði uppi andmæli við framkomnar athugasemdir kæranda.
II.
Kærandi byggir á því að krafa hans eigi undir gildissvið laga nr. 94/2001 um opinber innkaup þar sem kærði falli undir skilgreiningu II. kafla laganna um að teljast opinber aðili. Félagið sé stofnað að tilstuðlan sveitarfélagsins Ölfuss og sé stjórn þess skipuð aðilum frá sveitarfélaginu, s.s. sveitarstjóra og sveitarstjórnarmönnum. Lögheimili félagsins sé í ráðhúsi sveitarfélagsins og framkvæmdastjóri félagsins janframt félagsmálastjóri Ölfuss. Óumdeilt hljóti því að vera að til félagsins hafi verið stofnað í því skyni að þjóna almannahagsmunum, en tilgangur félagsins samkvæmt félagssamþykktum sé m.a. að byggja, kaupa, eiga og reka húsnæði sem tengist starfsemi félagsins, s.s. þjónustu og dvalarhúsnæði.
Kærandi byggir kröfur sínar á því að félagið hafi verið með lægsta tilboð í hinu kærða útboði. Kærði hafi hins vegar tekið tilboði aðila sem skilaði hærra tilboði í útboðinu.
Þá geri kærandi athugasemdir við það með hvaða hætti staðið hafi verið að yfirferð útboða og breytingu á röðun tilboðsgjafa. Einingaverðum virðist hafa verið breytt eftir að tilboðin hafi verið opnuð. Slíkt sé í andstöðu við 9. kafla ÍST 30.
Kærandi bendir á VIII. kafla laga um opinber innkaup en þar komi fram þau lagaskilyrði sem liggja eigi til grundvallar þegar metið sé hvaða tilboði skuli tekið í opinberum útboðum. Vísar kærandi sérstaklega til 50. gr. laganna.
Kærandi bendir á að hann telji sig uppfylla öll skilyrði útboðsgagna. Þó að fyrirtækið sé ungt þá hafi stjórnendur þess og starfsmenn mikla reynslu. Hafi fyrirtækið alla burði til að sinna tilgreindum verkefnum á grundvelli þess.
III.
Kærði bendir á að félagið hafi verið stofnað af 15 einstaklingum árið 2004. Í stjórn félagsins hafi verið kosnir fjórir einstaklingar. Markmið félagsins samkvæmt samþykktum þess sé að byggja, kaupa, eiga og hafa yfirumsjón með rekstri íbúðarhúsnæðis sem félagsmönnum sé látið í té sem íbúðir með búsetturétti. Samkvæmt samþykktum félagsins afli félagið sér fjár með inntökugjöldum félagsmanna, félagsgjaldi í rekstrarsjóð, með gjöldum fyrir veitta þjónustu við félagsmenn og með lánum úr íbúðalánasjóði.
Kærði telur að félagið teljist ekki opinber aðili í skilningi laga nr. 94/2001 um opinber innkaup. Vísi kærði einkum til 3. gr. laganna. Starfsemi félagsins lúti ekki yfirstjórn opinberra aðila, þó að í stjórn félagsins sitji einhverjir einstaklingar sem eigi eða hafi átt sæti í bæjarstjórn Ölfuss.
IV.
Í máli þessu liggur fyrir að kærði tók tilboði Trésmiðju Sæmundar ehf. um framkvæmd byggingar leiguíbúða fyrir aldraða á lóðum fyrir parhús við Mánabraut í Þorlákshöfn. Tilboð téðrar trésmiðju hljóðaði upp á kr. 378.744.881,-. Kærandi telur að brotinn hafi verið á sér réttur við þá ákvörðun að taka því tilboði. Tilboð kæranda í verkið var kr. 364.706.168,-. Kostnaðaráætlun var kr. 370.051.672,-.
Samkvæmt reglugerð um viðmiðunarfjárhæðir vegna opinberra kaupa á Evrópska efnahagssvæðinu og samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um opinber innkaup nr. 1012/2003, sbr. einnig breytingar á þeirri reglugerð sem gerð var með reglugerð nr. 429/2004, eru viðmiðunarfjárhæðir vegna skyldu til útboðs á Evrópska efnahagssvæðinu samkvæmt 1. mgr. 56. gr. laga um opinber innkaup kr. 435.750.000,- þegar um er að ræða verkkaup. Hið kærða útboð varðar verkkaup í skilningi laga um opinber innkaup. Með vísan til þess sem að framan er rakið um fjárhæðir tilboða kæranda og þess aðila sem valinn var sem samningsaðili á grundvelli útboðsins, sem og með vísan til kostnaðaráætlunar, er það mat kærunefndar útboðsmála að hið kærða útboð hafi ekki verið útboðsskylt á hinu Evrópska efnahagssvæði á grundvelli 1. mgr. 56. gr. laganna, sbr. tilgreindar reglugerðir um viðmiðunarfjárhæðir.
Aðilar máls þessa deila um það hvort kærði geti fallið undir lög um opinber innkaup. Kærandi telur að kærði sé opinber aðili í skilningi 3. gr. laga um opinber innkaup nr. 94/2001 þar eð stjórnarmenn félagsins séu tengdir sveitarfélaginu Ölfusi með einum eða öðrum hætti. Gögn málsins taka ekki tvímæli af þessu álitaefni. Telur kærunefnd útboðsmála að það ekki breyta efnislegri niðurstöðu málsins. Um opinber innkaup undir viðmiðunarfjárhæðum gilda ákvæði 2. þáttar laga um opinber innkaup. Ákvæði þess þáttar tekur samkvæmt 10. gr. laganna ekki til innkaupa sveitarfélaga, stofnana þeirra, annarra opinberra aðila á þeirra vegum, sbr. 2. mgr. 3. gr. laganna, eða samtaka sem þessir aðilar kunna að hafa með sér. Með vísan til ákvæðis 10. gr. laganna telur kærunefnd útboðsmála að kærði sé undanskilinn 2. þætti laga um opinber innkaup.
Samkvæmt framansögðu telur kærunefnd útboðsmála að kærði sé hvorki útboðsskyldur á Evrópska efnahagssvæðinu á grundvelli þeirra viðmiðunarfjárhæða sem gilda samkvæmt 1. mgr. 56. gr. laga um opinber innkaup og reglugerð nr. 1012/2003, sbr. reglugerð nr. 429/2004, né á grundvelli 2. þáttar laga um opinber innkaup. Verður því þegar af þessari ástæðu að hafna kröfum kæranda í máli þessu.
Kærði krefst þess að úrskurðað verði að kæranda beri að greiða kærða málskostnað við að verjast tilefnislausri kæru kæranda. Samkvæmt 3. mgr. 81. gr. laga um opinber innkaup getur kærunefnd útboðsmála úrskurðað kæranda til að greiða málskostnað sem renni í ríkissjóð ef kæra er bersýnilega tilefnislaus eða höfð uppi í þeim tilgangi að tefja fyrir framangangi opinberra innkaupa. Krafa kærða um að málskostnaður renni til félagsins er án lagastoðar og verður því að hafna henni.
Uppkvaðning úrskurðar hefur dregist umfram frest samkvæmt 4. gr. 79. gr. laga um opinber innkaup. Er beðist velvirðingar á því.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfum kæranda vegna útboðs Húsnæðissamvinnufélagsins Elliða hsf. á byggingu íbúðar aldraðra að Mánabraut 1-16 Þorlákshöfn
Kröfu kærða um að kærandi greiði kærða málskostnað er hafnað.
Reykjavík, 12. febrúar 2007.
Páll Sigurðsson
Sigfús Jónsson
Stanley Pálsson
Rétt endurrit staðfestir,
Reykjavík, 12. febrúar 2007.