Hoppa yfir valmynd

Nr. 491/2021 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 14. október 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 491/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21070076

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 29. júlí 2021 kærði […], kt. […], ríkisborgari Tjad (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. júlí 2021, um að synja henni um ótímabundið dvalarleyfi.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd á Íslandi hinn 17. febrúar 2017 og var veitt alþjóðleg vernd með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. maí 2017, og útgefið dvalarleyfi á grundvelli þess. Kærandi sótti um ótímabundið dvalarleyfi hinn 11. desember 2020. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. júlí 2021, var umsókninni synjað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála hinn 29. júlí 2021 en meðfylgjandi var greinargerð.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er vísað til þess að stofnunin hafi sent kæranda bréf, dags. 16. apríl 2021, þar sem óskaði hafi verið eftir gögnum sem sýndu fram á samfellda dvöl hér á landi síðustu fjögur ár en engar færslur hafi verið að finna í nafni kæranda í staðgreiðsluskrá Skattsins. Frekari gögn vegna málsins hafi borist stofnuninni dagana 4. maí 2021 og 15. júní 2021. Samkvæmt gögnum málsins hafi kærandi fætt barn í Frakklandi hinn […], barnið hafi fengið alþjóðlega vernd á Íslandi hinn […] og dvalarleyfi þar að lútandi með gildistíma til 6. september 2022. Samkvæmt framlögðu reikningsyfirliti hafi kærandi dvalist erlendis frá 5. febrúar 2018 í síðasta lagi til 24. september 2018 eða í að minnsta kosti 231 dag.

Hafi því rof myndast í samfellda dvöl kæranda á tímabilinu 5. febrúar 2018 til 24. september 2018 og reiknaðist samfelldur dvalartími frá síðastnefndri dagsetningu, sbr. til hliðsjónar úrskurðir kærunefndar nr. 170/2021 og 225/2021. Var það mat Útlendingastofnunar að undantekningarheimild 2. mgr. 13. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, ætti ekki við í máli kæranda. Væri ljóst að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga um samfellda dvöl í fjögur ár á grundvelli dvalarleyfis sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis og var umsókninni því synjað.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð er vísað til þess að kærandi hafi verið veik á meðgöngu og þess vegna hafi hún ákveðið að halda til Frakklands þar sem bræður hennar búi auk þess sem móðir hennar hafi verið stödd þar. Hafi barnið fæðst í Frakklandi og kærandi verið þar á meðan hún jafnaði sig.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Um nánari skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis er m.a. mælt fyrir um í a - e-liðum 1. mgr. 58. gr. laganna. Í undantekningartilvikum er heimilt að víkja frá skilyrðum um fjögurra ára samfellda dvöl, sbr. b-lið 2. mgr. og 3. mgr. 58. gr. Í 9. mgr. 58. gr. kemur m.a. fram að ráðherra setji í reglugerð nánari ákvæði um ótímabundið dvalarleyfi, þar á meðal um dvöl erlendis samkvæmt 7. mgr. og um námskeið í íslensku fyrir útlendinga samkvæmt 1. mgr.

Í 13. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, er fjallað um samfellda dvöl sem skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis. Segir í 1. mgr. 13. gr. að dvöl útlendings teljist samfelld hér á landi í skilningi 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga hafi hann ekki dvalist lengur erlendis en 90 daga á hverju ári á gildistíma dvalarleyfis. Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. er heimilt að víkja frá skilyrði 1. mgr. við sérstakar aðstæður hafi Útlendingastofnun veitt heimild til lengri dvalar erlendis á gildistíma tímabundins dvalarleyfis. Það sama á við hafi Útlendingastofnun ekki fellt niður tímabundið dvalarleyfi vegna of langrar dvalar erlendis og aðstæður mæla með því að öðru leyti.

Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið með dvalarleyfi á Íslandi samfellt frá 17. febrúar 2017 á grundvelli alþjóðlegrar verndar. Af framlögðu reikningsyfirliti kæranda verður ekki annað ráðið en að hún hafi dvalið erlendis á tímabilinu 5. febrúar 2018 til 24. september 2018, eða í 231 daga en kærandi gerir engan ágreining um þetta atriði í greinargerð til kærunefndar. Að mati kærunefndar getur langtímadvöl kæranda erlendis ekki fallið undir skilyrði 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga, um að dveljast hér á landi samfellt. Ljóst er að kærandi leitaðist ekki eftir heimild Útlendingastofnunar til lengri dvalar erlendis á gildistíma leyfisins, sbr. áskilnað 1. ml. 2. mgr. 13. gr. reglugerðar um útlendinga, með síðari breytingum. Að öðru leyti eru aðstæður kæranda ekki slíkar að undantekningarheimild síðastnefnds ákvæðis eigi við í máli hennar. Með vísan til þess uppfyllir kærandi ekki skilyrði 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga um samfellda dvöl í fjögur ár. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi með dvalarleyfi í gildi á grundvelli alþjóðlegrar verndar til 20. apríl 2025. Sé lagt til grundvallar að kærandi hafi dvalið samfellt á Íslandi frá 24. september 2018 mun kærandi að öllu óbreyttu uppfylla skilyrði 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga um samfellda dvöl í fjögur ár hinn 24. september 2022.

 

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta