Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 414/2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 11. júlí 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 414/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17020074

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 28. febrúar 2017 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 14. febrúar 2017, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Svíþjóðar.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar, sbr. 1., 2. og 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 4. september 2016. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann sama dag, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Svíþjóð og Finnlandi. Þann 6. september 2016 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Svíþjóð, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Þann 16. september 2016 barst svar frá sænskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 14. febrúar 2017 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Svíþjóðar. Kærandi kærði ákvörðunina þann 28. febrúar 2017 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda, ásamt fylgigögnum, barst kærunefnd 21. mars 2017. Í greinargerð óskaði kærandi eftir að fá að tjá sig við nefndina um efni málsins. Kærandi kom í viðtal hjá kærunefnd útlendingamála þann 8. júní 2017 og gerði grein fyrir máli sínu, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga. Viðstaddur var talsmaður kæranda en túlkað var í gegnum síma.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Svíþjóðar. Lagt var til grundvallar að Svíþjóð virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Svíþjóðar ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun mat aðstæður kæranda slíkar að hann væri í sérstaklega viðkvæmri stöðu skv. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga þar sem hann sé [...]. Það var hins vegar mat stofnunarinnar, að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda, að sérstakar ástæður væru ekki til staðar í málinu, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Svíþjóðar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Við meðferð máls kæranda hjá Útlendingastofnun bar hann fyrir sig að verulegur vafi léki á hver aldur hans væri og bæri að túlka þann vafa honum í hag og líta svo á að hann væri barn að aldri. Þá hafi kærandi gert athugasemd við það að Útlendingastofnun hafi ekki haft samband við stjórnvöld í heimalandi kæranda til að kanna gildi vegabréfs hans þrátt fyrir að hann hafi veitt samþykki sitt fyrir því. Í ákvörðun Útlendingastofnunar er tekið fram að í 113. gr. laga um útlendinga segi að niðurstaða úr aldursgreiningu skuli metin í samhengi við önnur atriði málsins og vafi metinn kæranda í hag. Í ljósi þessa hafi Útlendingastofnun lagt mat m.a. á vegabréf kæranda, gögn frá sænskum yfirvöldum og rannsókn tannfræðilegra gagna vegna aldursgreiningar á kæranda. Að þessum gögnum gættum sé það mat Útlendingastofnunar að það sé hafið yfir verulegan vafa að kærandi hafi verið að minnsta kosti 18 ára þegar hann sótti um alþjóðlega vernd á Íslandi. Útlendingastofnun taki einnig fram að stofnunin sjái enga ástæðu til að draga í efa þær aðferðir sem beitt hafi verið við aldursgreiningu á kæranda eða að rökstuðningur hafi ekki verið fullnægjandi í þeim samskiptum sem áttu sér stað milli talsmanns kæranda og starfsmanns stofnunarinnar.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að [...] kæranda hafi komist í samband við mann í [...] í þeim tilgangi að koma kæranda úr landi fyrir rúmlega fjórum árum síðan. Í kjölfarið hafi [...]. Kærandi telji að hann hafi komið til Íslands frá Belgíu.

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann byggi á því að ekki megi senda hann til Svíþjóðar annars vegar vegna ákvæða 4. mgr. 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og hins vegar vegna sérstakra ástæðna þar sem hann sé ungur að árum og [...]. Kærandi bendi á að samkvæmt 4. mgr. 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar skuli aðildarríki þar sem fylgdarlaust, ólögráða barn leggi fram umsókn um alþjóðlega vernd, bera ábyrgð á meðferð umsóknarinnar, að því tilskyldu að barnið eigi ekki aðstandendur í öðru aðildarríki og að slíkt samræmist hagsmunum barnsins.

Fram kemur í greinargerð að kærandi þekki ekki nákvæman fæðingardag sinn en við komuna til landsins hafi hann framvísað [...] vegabréfi þar sem skráður fæðingardagur sé [...]. Vegabréfið hafi verið rannsakað af tveimur skilríkjafræðingum lögreglu. Rannsóknin hafi leitt í ljós að vegabréfið sé ófalsað en grunsemdir hafi vaknað um að vegabréfið hafi mögulega verið gefið út á ólögmætan hátt eða á grundvelli annars skilríkis sem gefið hafi verið út á ólögmætan hátt. Á grundvelli þeirra gagna sem legið hafi fyrir sé þó ekki hægt að fullyrða með óyggjandi hætti hvort vegabréfið sé ólöglega útgefið eður ei. Kærandi hafi óskað eftir því við íslensk stjórnvöld að þau hefðu samband við yfirvöld í [...] til þess að fá aldur hans staðfestan. Kærandi bendi á að 3. mgr. 28. gr., sbr. 2. mgr. 15. gr., laga um útlendinga komi ekki í veg fyrir að Útlendingastofnun afli umræddra upplýsinga enda sé kærandi samþykkur upplýsingaöfluninni og óttist ekki yfirvöld í heimalandi sínu. Útlendingastofnun hafi hins vegar látið það ógert að afla þessara gagna og hafi byggt niðurstöðu sína alfarið á niðurstöðu tanngreiningar, gegn framburði kæranda og í andstöðu við þau gögn sem lögð hafi verið fram máli hans til stuðnings. Kærandi telji að Útlendingastofnun hafi þar með vanrækt rannsóknarskyldu sína í málinu. Þá hafi kærandi gefið trúverðugar ástæður fyrir því hvers vegna upplýsingar um aldur hans frá Svíþjóð stangist á við skráðan aldur í vegabréfi. Kærandi hafi greint frá því að hann hafi verið [...].

Þá kemur fram í greinargerð kæranda að við greiningu á aldri kæranda hafi niðurstöður úr þremur mismunandi aðferðum við tanngreiningu sýnt að hann sé eldri en 18 ára. Kærandi bendi á að í greiningunni sé ekki sé að finna meðaltal reiknað út frá þessum þremur aðferðum líkt og hafi verið gert hingað til í sambærilegum rannsóknum. Kærandi vísar máli sínu til stuðnings til þriggja sambærilegra mála þar sem niðurstöður úr þessum þremur aðferðum voru nákvæmlega þær sömu og hjá kæranda. Í þeim málum hafi rannsakendur þó tekið saman meðaltal úr rannsóknunum þremur og Útlendingastofnun ákveðið að fara skyldi með mál einstaklinganna eins og þeir væru yngri en 18 ára. Kærandi hafi óskað eftir skýringum Útlendingastofnunar á því hvers vegna ekki hafi verið farið með hans mál eins og hinna einstaklinganna. Í svari Útlendingastofnunar hafi verið vísað í svar [...], tannlæknis sem hafi framkvæmt tanngreiningarnar, þar sem fram komi að [...] leggi áherslu á að hverja skýrslu verði að skoða í heild sinni en þær séu byggðar á sameiginlegu mati á sjúkrasögu, klínískri skoðun, aldursútreikningum og mati á röntgenmyndum. Þá hafi [...] einungis breytt framsetningu aldursgreininga, en ekki aðferðafræði, og túlkun þeirra á tölfræðinni sé ennþá sú sama. Kærandi bendir á að hann telji ofangreind svör Útlendingastofnunar ekki uppfylla kröfur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um efni og form rökstuðnings stjórnvaldsákvarðana, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga. Svör stofnunarinnar skýri ekki hvers vegna niðurstaða í máli kæranda sé önnur en í máli þriggja annarra drengja sem áður hafi verið vísað til. Þá telji kærandi að breytt framsetning aldursgreininga hafi leitt til þess að niðurstaðan hafi verið önnur í tilviki kæranda en aðferðafræðin og niðurstaðan hafi verið sú sama og því hefði átt að fara eins með mál kæranda og hinna drengjanna þriggja. Annað sé brot á jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar sem lögfest sé í 11. gr. stjórnsýslulaga en brot á reglunni feli í sér efnisannmarka og leiði yfirleitt til þess að ákvörðun teljist ógildanleg.

Þá vísar kærandi m.a. til skýrslu Evrópsku stuðningsskrifstofunnar í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd (e. European Asylum Support Office), frá árinu 2013, og skýrslu Asylum Information Database (AIDA), frá árinu 2015, varðandi aldursgreiningar. Í skýrslunum komi m.a. fram að nýleg rannsókn hafi sýnt fram á að töluverð ónákvæmni sé falin í því að nota rannsókn á endajöxlum til þess að reikna út aldur og að viðkomandi verði að fá að njóta vafans við slíka rannsókn. Þá komi fram að ekki skuli leggja tannskoðun eina og sér til grundvallar aldursgreiningum og hafa skuli hagsmuni barnsins að leiðarljósi við framkvæmd og mat á niðurstöðum aldursgreininga. Kærandi bendi á að ofangreindum sjónarmiðum hafi ekki verið fylgt í máli hans en hvorki vegabréf né niðurstöður tanngreiningar staðfesti að hann sé eldri en 18 ára. Kærandi vísi einnig til leiðbeininga Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, frá árinu 2016, um framkvæmd aldursgreininga. Þar komi fram að líkamsrannsóknir til greiningar á aldri séu afar umdeildar og háðar mikilli óvissu. Kærandi telji því að ekki sé unnt að byggja aldur á niðurstöðum tanngreiningar, sér í lagi þegar byggja eigi íþyngjandi ákvörðun á niðurstöðu tanngreiningar.

Kærandi bendir á að ljóst sé að vafi leiki á um aldur hans og verði því ekki slegið föstu að hann sé eldri en 18 ára, sér í lagi þegar litið sé til þess að vegabréf sem hann framvísaði sé ekki ólöglegt. Þá megi setja spurningamerki við heimild Útlendingastofnunar til að ákvarða aldur kæranda á annan hátt en gert hafi verið í málum þar sem niðurstaða tanngreiningar hafi verið sú sama. Þá hafi kærandi gefið trúverðugar skýringar á því að gögn sem lágu frammi í málinu í Svíþjóð sýni annað fæðingarár. Kærandi bendi á að samkvæmt 113. gr. laga um útlendinga skuli meta niðurstöður úr líkamsrannsókn í samhengi við önnur atriði málsins og vafi metinn umsækjanda í hag. Samkvæmt ofangreindu ákvæði beri að meta vafa á aldri kæranda honum í hag og fara með mál hans líkt og hann sé yngri en 18 ára. Kærandi telji að hann hafi hvorki verið látinn njóta þess vafa sem leiki á um aldur hans, né að hagsmunir hans hafi verið hafðir að leiðarljósi í málinu. Kærandi telji að hann eigi að meðhöndla eins og hann sé fæddur í [...], líkt og fram komi í vegabréfi hans, og taka eigi umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi í samræmi við 4. mgr. 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Kærandi byggir á því að hann sé [...]. Útlendingastofnun hafi fallist á að kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Kærandi vísi einnig til leiðbeininga Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna [...]. Kærandi hafi greint frá því í viðtali að [...]. Kærandi bendi á að varhugavert sé að senda hann til Svíþjóðar þar sem honum hafi verið synjað um alþjóðlega vernd þar í landi og hann verði að öllum líkindum sendur til heimaríkis við komuna þangað. Líkurnar á því að kærandi lendi þar í [...].

Þá er í greinargerð vísað til c-liðar 1. mgr. og 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og lögskýringargagna að baki þeim. Vísað er til þess að ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kveði á um heimild til að synja um efnismeðferð en ekki skyldu og að 2. mgr. ákvæðisins geri kröfu um að mat fari fram í hverju tilviki fyrir sig varðandi hvort sérstakar ástæður mæli með því að umsókn verði tekin til efnismeðferðar. Þá er vísað til þess að ákvæði 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kveði á um að ef beiting 1. mgr. 36. gr. laganna leiði til þess að brotið sé gegn 42. gr. sömu laga skuli taka mál til efnismeðferðar hér á landi. Kærandi vísar máli sínu til stuðnings í þrjú önnur mál sem séu sambærileg máli hans þar sem umsóknir umsækjenda um alþjóðlega vernd hafi verið teknar til efnislegrar meðferðar hér á landi jafnvel þótt Ísland hafi ekki borið ábyrgð á slíkri meðferð samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni.

Kærandi byggir kröfur sínar jafnframt á því að með ákvörðun sinni hafi Útlendingastofnun brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins sem lögfest sé í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem hin kærða ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli ófullnægjandi upplýsinga. Kærandi telji að Útlendingastofnun hafi ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga um að við ákvörðun skuli stjórnvald rannsaka mál í þaula. Útlendingastofnun hafi ekki fallist á þá beiðni kæranda að hafa samband við stjórnvöld í heimaríki hans til þess að ganga úr skugga um aldur hans, sbr. 2. mgr. 15. gr. og 3. mgr. 28. gr. laga um útlendinga. Rannsóknarreglan sé öryggisregla og leiði brot á henni alla jafna til ógildingar stjórnvaldsákvörðunar.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Fyrir liggur í máli þessu að sænsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Svíþjóðar er byggt á því að kærandi hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd.

Í c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að umsókn um alþjóðlega vernd skv. 37. gr. skuli tekin til efnismeðferðar nema heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda. Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því.

Heilsufar er einn þeirra þátta sem stjórnvöldum ber að líta til við mat á því hvort aðstæður umsækjanda um alþjóðlega vernd teljist sérstakar í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og mæli þannig með því að umsókn hans verði tekin til efnismeðferðar. Fara þarf fram heildstætt mat á aðstæðum umsækjanda þar sem litið er til heilsufarsupplýsinga og upplýsinga um þær aðstæður sem bíða kæranda í viðtökuríki, þ.m.t. hvort sú heilbrigðisþjónusta sem umsækjandi hefur aðgang að í viðtökuríki sé fullnægjandi. Kærunefnd leggur áherslu á að mat á því hvort heilsufar umsækjanda teljist sérstakar ástæður er ekki bundið við skoðun á heilbrigðiskerfi móttökuríkis heldur þarf matið að fara fram á einstaklingsgrundvelli með hliðsjón af atvikum máls. Meðal þeirra atvika sem sérstaklega þarf að líta til eru áhrif flutnings til viðtökuríkis á heilsufar umsækjanda að teknu tilliti til aðstæðna við flutning, sbr. einkum 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Verði niðurstaða heildstæðs mats á atvikum málsins sú að gögn málsins bendi eindregið til þess að framkvæmd synjunar á efnismeðferð umsóknar komi til með að hafa verulegar og óafturkræfar neikvæðar afleiðingar á andlega eða líkamlega heilsu umsækjanda telur kærunefnd að taka beri slíkar umsóknir til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda sé þá öruggt að einstaklingur verði ekki fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð við framkvæmd slíkrar ákvörðunar, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 68. gr. stjórnarskrárinnar.

Þá segir í 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga að við meðferð umsóknar um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun tryggja, eins fljótt og kostur er, að fram fari, með aðstoð viðeigandi sérfræðinga, einstaklingsbundin greining á því hvort umsækjandi teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. sömu laga. Í athugasemdum við 25. gr. frumvarps til laga um útlendinga kemur fram að með ákvæðinu sé tryggt að snemma í málsmeðferð fari fram heildstætt mat á stöðu umsækjanda í þessu tilliti en jafnframt lögð sú skylda á yfirvöld að einskorða ekki slíkt mat við einn tímapunkt og taka tillit til þess ef frekari upplýsingar koma fram á öðrum stigum máls. Samkvæmt 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga teljast einstaklingar vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu ef þeir, vegna tiltekinna persónulegra eiginleika eða aðstæðna hafa sérþarfir sem taka þarf tillit til við meðferð máls eða þeir geta ekki að fullu eða með engu móti nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögum þessum án aðstoðar eða sérstaks tillits. Sem dæmi um einstaklinga í sérstaklega viðkvæmri stöðu nefnir ákvæðið t.d. fólk með geðraskanir eða geðfötlun, fórnarlömb mansals, alvarlega veika einstaklinga og einstaklinga sem hafa orðið fyrir nauðgun eða öðru alvarlegu andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi.

Áður en ákvörðun Útlendingastofnunar er tekin þarf því að liggja fyrir mat um það hvort einstaklingur sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga. Þá þarf að leggja mat á hvort fyrir hendi í málinu séu sérstakar ástæður sem leiða til þess að umsóknin sé tekin til efnismeðferðar sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Grundvöllur slíks mats er að fullnægjandi upplýsingar liggi fyrir, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Um frekari afmörkun á hversu ítarlega beri að rannsaka mál er litið til eðlis og atvika málsins. Kröfur til rannsóknarinnar ráðast þannig m.a. af því hvers konar upplýsingar liggja þegar fyrir í málinu og þá hvort með tilliti til eðlis málsins sé rétt að afla frekari gagna. Í því sambandi áréttar kærunefnd að rannsókn getur bæði farið fram með upplýsingaöflun af hálfu stjórnvalds en jafnframt er við vissar aðstæður fullnægjandi að aðila sé leiðbeint um að leggja fram frekari gögn um tiltekið atriði, sbr. jafnframt 7. gr. stjórnsýslulaga.

Kærunefnd leggur áherslu á að þótt mat á því hvort einstaklingur sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga, er ekki hið sama og hvort fyrir hendi séu sérstakar ástæður, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, þótt mat á þessum þáttum kunni að einhverju leyti að vera byggt á sömu upplýsingum eða gögnum. Þótt lagt sé til grundvallar að umsækjandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu kann að þurfa að afla frekari gagna til að leggja mat á hvort 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi við í málinu.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 21. september 2016 lýsti kærandi því að hann sé [...]. Í áðurnefndu viðtali greindi kærandi frá því að [...].

Í niðurstöðu ákvörðunar Útlendingastofnunar, varðandi það hvort 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi við í málinu, kemur fram að [...] og sé því í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Útlendingastofnun bendir á að [...]. Þá er í niðurstöðu ákvörðunar Útlendingastofnunar hvergi fjallað um [...] heilsu kæranda þrátt fyrir það sem fram kom í áðurnefndu viðtali við hann hjá Útlendingastofnun þann 21. september 2016.

Í greinargerð talsmanns kæranda kemur m.a. fram að kærandi hafi ítrekað óskað eftir [...] en að Útlendingastofnun hafi ekki orðið við þeirri beiðni. Þá lagði kærandi fram hjá kærunefnd afrit af samskiptum talsmanns og starfsmanna Rauða krossins við starfsmenn Útlendingastofnunar þar sem m.a. kemur fram að kærandi hafi ítrekað óskað eftir [...] hjá Útlendingastofnun. Í gögnum frá Útlendingastofnun kemur fram að stofnunin hafi pantað tíma fyrir kæranda hjá [...] en að kærandi hafi ekki mætt í þann tíma. Af framangreindum samskiptum má ráða að stofnunin hafi ekki viljað greiða sérstaklega kostnað við ferðir frá [...], þar sem kærandi býr, og til [...]. Framangreind samskipti bera jafnframt með sér að ýmsar hugmyndir hafi komið fram í samskiptum Rauða krossins og Útlendingastofnunar nánar um hvernig mætti koma [...] í kring en þeim hugmyndum hafi ekki verið hrint í framkvæmd.

Kærunefnd óskaði jafnframt eftir frekari upplýsingum frá Útlendingastofnun þann 28. júní sl. varðandi rannsókn og mat stofnunarinnar á [...] heilsu kæranda. Enn fremur óskaði kærunefnd eftir upplýsingum um samskipti Útlendingastofnunar við [...]. Þá óskaði kærunefnd eftir upplýsingum um á hvaða lagagrundvelli stofnunin hafi synjað kæranda um framfærslu og farareyri. Í svari frá Útlendingastofnun þann 3. júlí sl. kemur fram að stofnunin hafi lagt mat á [...] heilsu kæranda út frá viðtölum við hann og hafi frásögn hans verið lögð til grundvallar og hann metinn trúverðugur hvað [...] heilsu varðar. Þá hafi kærandi verið metinn sem einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu og hafi ákvörðun verið tekin með það að leiðarljósi. Stofnunin hafi talið að [...] gæti ekki breytt niðurstöðu ákvörðunar í máli þessu þar sem frásögn hans hafi verið lögð til grundvallar og hann metinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Þá hafi samskipti Útlendingastofnunar [...]. Þá var fyrirspurn kærunefndar varðandi á hvaða lagagrundvelli kæranda var synjað um þjónustu ekki svarað þar sem málsmeðferð og þjónusta séu aðgreind hjá stofnuninni. Þá hafi komið fram að þeir lögfræðingar sem vinni mál umsækjenda um alþjóðlega vernd séu mjög lítið inni í þjónustuþættinum enda hafi þjónusta við umsækjendur engin áhrif á niðurstöðu máls hjá Útlendingastofnun.

Þann 28. júní sl. óskaði kærunefnd jafnframt eftir frekari upplýsingum frá [...].

Eins og að framan hefur verið rakið hefur kærandi lýst atvikum sem gætu verið þess eðlis að sérstakar ástæður séu fyrir hendi í máli hans, bæði m.t.t. [...] heilsufars sem slíks og [...]. Í því sambandi tekur kærunefnd fram að nefndin hefur ítrekað í úrskurðum sínum lagt áherslu á að mat á því hvort heilsufar umsækjanda teljist sérstakar ástæður sé ekki bundið við skoðun á heilbrigðiskerfi móttökuríkis heldur þurfi matið að fara fram á einstaklingsgrundvelli með hliðsjón af atvikum máls auk þess sem fara þarf fram heildstætt mat á aðstæðum umsækjanda þar sem litið er til heilsufarsupplýsinga og upplýsinga um þær aðstæður sem bíða kæranda í viðtökuríki. Í ákvörðun Útlendingastofnunar er hvergi tekin afstaða til heilsufars kæranda né [...] eða hvort framkvæmd synjunar á efnismeðferð umsóknar komi til með að hafa verulegar og óafturkræfar neikvæðar afleiðingar á [...] heilsu hans.

Að mati kærunefndar voru lýsingar kæranda á alvarlegum einkennum [...] veikinda, auk þess sem fyrir lá hjá Útlendingastofnun að kærandi hefði ítrekað óskað eftir aðstoð [...], þess eðlis með hliðsjón af grundvelli málsins að rétt hefði verið af hálfu Útlendingastofnunar að hlutast til um að frekari gögn varðandi [...] heilsu kæranda bættust við málið. Í því sambandi tekur kærunefnd fram að gögn málsins benda ekki til þess að Útlendingastofnun hafi brugðist með fullnægjandi hætti við beiðnum kæranda um heilbrigðisþjónustu. Þar með hafi stofnunin torveldað að kærandi gæti sjálfur aflað upplýsinga varðandi [...] heilsufar sitt sem kynnu að hafa þýðingu fyrir mat stjórnvalda á því hvort fyrir hendi væru sérstakar ástæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þó er þess að geta að talsmaður kæranda virðist ekki hafa haldið til streitu óskum kæranda um [...] og þá ekki heldur séð til þess að kærandi gæti sótt sér nauðsynlega þjónustu og aflað gagna sem gætu styrkt kröfur hans hjá stjórnvöldum.

Þá er það afstaða kærunefndar að frekari gögn hefðu þurft að liggja fyrir hjá Útlendingastofnun varðandi [...]. Eins og að framan greinir lágu engin gögn fyrir hjá Útlendingastofnun til grundvallar þeirri fullyrðingu sem fram kemur í ákvörðun stofnunarinnar að [...]. Í því sambandi áréttar kærunefnd að við rannsókn mála er stjórnvaldi heimilt að afla munnlegra upplýsinga um málsatvik en að því leyti sem upplýsingarnar hafa þýðingu fyrir málið og er ekki að finna í öðrum gögnum þess ber að skrá þær og varðveita, sbr. 1. mgr. 27. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Kærunefnd tekur líka fram að mat Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála á því hvort [...].

Rannsókn Útlendingastofnunar hvað þessi atriði varðar er því verulega ábótavant. Að mati kærunefndar þurfa frekari gögn að liggja fyrir svo hægt sé að leggja mat á frásögn kæranda varðandi heilsufar hans, þ.m.t. hvort [...] veikindi kæranda hafi áhrif á niðurstöðu í máli hans, svo og hvort hann sé [...].

Ljóst er að meginmarkmiðið með kæruheimildum er að tryggja réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Eins og að framan greinir telur kærunefnd að annmarkar hafi verið á rannsókn máls í máli kæranda. Það er jafnframt afstaða nefndarinnar að þegar rökstuðningurinn og gögn málsins eru virt í heild verði ekki lagt til grundvallar af hálfu nefndarinnar að farið hafi fram viðhlítandi mat á hagsmunum kæranda varðandi endursendingu til Svíþjóðar í ljósi þeirra sjónarmiða sem að lögum er skylt að líta til. Nefndin telur að ekki sé sannanlegt að þessir annmarkar hafi í raun ekki haft áhrif á efni ákvörðunarinnar. Verður því ekki, eins og hér stendur á, hjá því komist að fella ákvörðun í máli kæranda úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda aftur til meðferðar.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar, í máli [...], er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til meðferðar á ný.

The decisions of the Directorate of Immigration in the case of the appellant is vacated. The Directorate of Immigration shall reexamine his applications for asylum in Iceland.

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

Anna Tryggvadóttir Erna Kristín Blöndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta