Hoppa yfir valmynd

Nr. 123/2018 - Úrskurður

Mál nr. 123/2018

Miðvikudaginn 20. júní 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Jón Baldursson læknir og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags. 26. mars 2018, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, synjun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 13. mars 2018, á umsókn hans um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna (foreldragreiðslur).

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 15. nóvember 2017, sótti kærandi um foreldragreiðslur hjá Tryggingastofnun ríkisins, ótímabundið frá 1. janúar 2018, vegna sonar síns sem fæddist í X 2017. Umsókn kæranda var synjað með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 13. mars 2018, á þeirri forsendu að sonur hans félli ekki undir þau sjúkdóms- og fötlunarstig sem tilgreind væru í 26. og 27. gr. laga nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 26. mars 2018.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 26. mars 2018. Með bréfi, dags. 5. apríl 2018, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 18. apríl 2018, og með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

 

 

II. Málsástæður kæranda

Kærandi greinir frá því að sonur hans sé í áhættuhópi sýkist hann af öndunarfæravírus á fyrsta æviári og því sé mælt gegn því að hann fari í almenna dagvistun. Þar af leiðandi hafi annað foreldrið þurft að vera heima til að annast hann með tilheyrandi tekjuleysi. Kærandi tekur fram að það hafi verið skipun frá lækni að annað foreldrið yrði heima með barnið, þau hafi því ekki haft neitt val. Foreldrarnir séu með mjög viðkvæmt barn í höndunum og því hafi þau ekki véfengt fyrirmæli læknisins. Kærandi bendir á að þau viti ekki í hvaða sporum þau væru hefði sonur þeirra farið til dagmömmu. Það sé alls ekki víst að hann væri heilsuhraustur. Kærandi gerir athugasemd við afgreiðslu Tryggingastofnunar í kjölfar umsóknar um foreldragreiðslur en foreldrarnir hafi ítrekað þurft að ýta á eftir svari.    

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að í 19. gr. laga nr. 22/2006 sé kveðið á um heimild til almennrar fjárhagsaðstoðar til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Í ákvæðinu sé mælt fyrir um að veikindi eða fötlun barns þurfi að falla undir 1. eða 2. sjúkdóms- eða fötlunarstig til þess að foreldri geti átt rétt á greiðslum. Í 26. gr. laganna sé skilgreining á sjúkdómsstigum. Þar komi fram að börn sem þurfi langvarandi vistun á sjúkrahúsi eða hjúkrun í heimahúsi og yfirsetu foreldris vegna alvarlegra og langvinnra sjúkdóma, til dæmis börn með illkynja sjúkdóma, falli undir 1. sjúkdómsstig. Börn með tíðar sjúkrahúsinnlagnir og meðferð í heimahúsi vegna alvarlegra og langvinnra sjúkdóma, til dæmis alvarlegra hjartasjúkdóma og alvarlegra nýrna-, lungna- eða lifrarsjúkdóma, sem krefjist ónæmisbælandi meðferðar miðist við 2. sjúkdómsstig. Í 27. gr. laganna sé skilgreining á fötlunarstigum. Þar komi fram að börn sem vegna alvarlegrar fötlunar séu algjörlega háð öðrum um hreyfifærni eða flestar athafnir daglegs lífs miðist við 1. fötlunarstig. Börn sem vegna alvarlegrar fötlunar þurfi mjög víðtæka aðstoð og nær stöðuga gæslu í daglegu lífi, til dæmis vegna alvarlegrar þroskahömlunar eða alvarlegrar einhverfu, miðist við 2. fötlunarstig.

Tryggingastofnun tekur fram að kærandi hafi sótt um almenna fjárhagsaðstoð, grunngreiðslur, ótímabundið frá janúar 2018. Í umsókninni komi fram að kærandi hafi hætt í námi í febrúar 2017 og að hann komist ekki á vinnumarkað í febrúar 2018. Einnig hafi stofnuninni borist staðfesting frá Háskólanum í Reykjavík þess efnis að kærandi hafi stundað nám þar á haustönn 2017 og muni útskrifast í febrúar 2018. Stofnunin vísar til þess að gerð hafi verið tvö möt á rétti kæranda til foreldragreiðslna. Í fyrra matinu hafi kærandi fengið samþykkta almenna fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. júní til 31. júlí 2017 þar sem hann hafi þá lokið töku fæðingarorlofs og lagt niður nám en byrjað aftur í námi í ágúst 2018. Á þeim tíma hafi sonur kæranda verið nærður í gegnum sondu og enn þurft súrefnisstuðning. Í seinna matinu hafi kæranda verið synjað um foreldragreiðslur á grundvelli þess að skilyrði fyrir greiðslum væru ekki uppfyllt. Tryggingastofnun hafi yfirfarið þau gögn sem hafi legið til grundvallar í málinu en af þeim sé ljóst að barnið þurfi umönnun, eftirlit og stuðning sem kærandi veiti honum. Hins vegar telji stofnunin að ekki sé um að ræða svo alvarlegan sjúkdóm eða fötlun að unnt sé að fella erfiðleika barnsins undir 1. eða 2. sjúkdóms- eða fötlunarstig sem tilgreind séu í 26. og 27. gr. laga nr. 22/2006. Því sé ekki til staðar réttur til almennrar fjárhagsaðstoðar samkvæmt 19. gr. laganna.

IV. Niðurstaða

Kærð er synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um foreldragreiðslur á grundvelli laga nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna.

Með lögum nr. 22/2006 er kveðið á um réttindi foreldra til fjárhagsaðstoðar þegar þeir geta hvorki stundað vinnu né nám vegna sérstakrar umönnunar barna sinna sem hafa greinst með alvarlega og langvinna sjúkdóma eða alvarlega fötlun, sbr. 1. gr. laganna. Í 2. mgr. 19. gr. laganna er nánar kveðið á um þau skilyrði sem þarf að uppfylla til þess að foreldri geti átt rétt á grunngreiðslum samkvæmt ákvæðinu. Skilyrði greiðslnanna er að barn hafi greinst með mjög alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða mjög alvarlega fötlun sem fellur undir 1. og 2. sjúkdóms- eða fötlunarstig samkvæmt 26. og 27. gr. laganna, samkvæmt vottorði sérfræðings þeirrar sérhæfðu greiningar- og meðferðarstofnunar sem veitir barninu þjónustu. Þá eru önnur skilyrði ákvæðisins þau að barn þarfnist sérstakrar umönnunar foreldris, svo sem vegna innlagnar á sjúkrahús og/eða meðferðar í heimahúsi, enda verði ekki annarri vistunarþjónustu á vegum opinberra aðila við komið, foreldri geti hvorki sinnt störfum utan heimilis né námi vegna verulegrar umönnunar barnsins og foreldri og barn eigi lögheimili hér á landi þann tíma sem greiðslur séu inntar af hendi. Þessi skilyrði eru í senn ströng og óundanþæg og miða í raun við að foreldri sé að fullu bundið yfir barni.

Í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 22/2006 segir að undir 1. sjúkdómsstig falli börn sem þurfi langvarandi vistun á sjúkrahúsi eða hjúkrun í heimahúsi og yfirsetu foreldris vegna alvarlegra og langvinnra sjúkdóma, til dæmis börn með illkynja sjúkdóma. Undir 2. sjúkdómsstig falli börn sem þurfi tíðar sjúkrahúsinnlagnir og meðferð í heimahúsi vegna alvarlegra og langvinnra sjúkdóma, til dæmis alvarlegra hjartasjúkdóma og alvarlegra nýrna-, lungna- eða lifrarsjúkdóma, sem krefjist ónæmisbælandi meðferðar. Undir 3. stig falli hins vegar börn sem þurfi innlagnir á sjúkrahús og meðferð í heimahúsi vegna alvarlegra og langvinnra sjúkdóma, til dæmis börn með alvarlega bæklunarsjúkdóma, innkirtla- og efnaskiptasjúkdóma, meltingarfærasjúkdóma og geðsjúkdóma.

Samkvæmt gögnum málsins fæddist sonur kæranda fyrir tímann eftir X vikna meðgöngu og hefur átt við lungnavandamál að stríða. Í læknisvottorði B, dags. 27. febrúar 2018, er heilsufars- og sjúkrasögu barnsins lýst á eftirfarandi hátt:

„C er X gamall drengur þar sem greindist í móðurkvið vökvasöfnun í brjóstholi beggja vegna. Fæddist við X meðgönguvikur og lá á Vökudeildinni fyrstu 3 mánuði ævi sinnar. Afskaplega veikur til að byrja með í lungunum vegna lungna hypoplasíu. Gat útskrifast X ennþá bæði með súrefni og sondu. Það hefur gengið prýðilega með drenginn hann hefur spjarað sig vel og er núna bæði súrefnis- og sondulaus. Vegna hans grunnsjúkdóms sem er lungna hypoplasia er hann í há-áhættuhóp að lenda í verulegum vandræðum ef hann sýkist af öndunarfæravírus á fyrsta æviári. Það er því mat okkar á Vökudeildinni að drengurinn eigi ekki að vera í almennri dagvistun fyrr en eftir fyrsta veturinn sinn þ.e.a.s. frá og með n.k. sumri. Faðir hefur því verið heima með drenginn og sótt er um fjárhagsaðstoð vegna þess.“

Í gögnum málsins liggur fyrir greinargerð félagsráðgjafa, dags. 11. desember 2017, þar sem greint er frá aðstæðum kæranda. Þar segir meðal annars:

„A er faðir C X mánaðar gamals fyrirbura sem hefur glímt við nokkur vandkvæði vegna fyrirburaskapar. C er með alvarlegan lungnasjúkdóm sökum fyrirburaskapar og er því ráðlagt frá allri daggæslu. Foreldrum er einnig samkvæmt lækni ráðlagt að takmarka heimsóknir vegna aukinnar hættu á sýkingum þar sem staða lungna er slök. C var töluvert súrefnisháður við útskrift og eins sondumataður. Í dag er hann laus við bæði súrefni og sondu, hann er að dafna ágætlega í dag. Þó er foreldrum ekki ætlað að fara með C í daggæslu eða í margmenni.“

Að mati úrskurðarnefndar á lýsing 26. gr. á 1. og 2. sjúkdómsstigi, um að barn þurfi annars vegar langvarandi vistun á sjúkrahúsi eða hjúkrun í heimahúsi og hins vegar tíðar sjúkrahúsinnlagnir og meðferð í heimahúsi, ekki við um þann sjúkdóm sem barn kæranda hefur greinst með samkvæmt fyrirliggjandi gögnum.

Þar sem sjúkdómur barns kæranda fellur ekki innan 1. eða 2. sjúkdómsstigs 2. mgr. 26. gr. laganna er ljóst að kærandi uppfyllir ekki skilyrði til greiðslna samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laganna. Þá er ekkert í lögskýringargögnum með þessum ákvæðum sem bendir til þess að mati úrskurðarnefndarinnar að hægt sé að fella ástand barns kæranda undir tilgreind lagaákvæði. Að því virtu er hin kærða ákvörðun staðfest.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 13. mars 2018, um að synja umsókn A, um foreldragreiðslur er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 Kári Gunndórsson

 

 

 

                                                                    

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta