Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 23/2002

Þriðjudaginn, 12. nóvember 2002

A

gegn

Holtaskóla

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Ósk Ingvarsdóttir læknir og Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri.

Þann 8. apríl 2002 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 18. febrúar 2002. Kærunefnd jafnréttismála framsendi kæru kæranda til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Kærð var ákvörðun Holtaskóla í Reykjanesbæ um að synja kæranda um áframhaldandi stöðu sem leiðbeinandi við skólann í framhaldi að tilkynningu kæranda um töku fæðingarorlofs.

Með bréfi frá skólastjóra Holtaskóla, dags. 9. júlí 2001 er kæranda tjáð að hún verði ekki ráðin sem leiðbeinandi til tónmenntakennslu þar sem tónmenntakennari hafi verið ráðinn við Holtaskóla.

Í framhaldi af því sendi kærandi skólastjóra Holtaskóla bréf dags. 17. júlí 2001, þar sem óskað er eftir frekari rökstuðningi. Með bréfi dags. 14. september 2001 berst kæranda síðan svar frá skólastjóra Holtaskóla.

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

"Undirrituð vann sem leiðbeinandi við Holtaskóla í Reykjanesbæ 1999-2001. Í apríl árið 2001 óska skólastjórnendur eftir staðfestingu á því hverjir hafi hugsað sér að starfa áfram við skólann. Þegar ég tilkynni um væntanlegt fæðingarorlof tjáir B mér að ég hafi engan rétt til töku fæðingarorlofs þar sem ég sé einungis leiðbeinandi við skólann. Því eigi ég engan rétt á áframhaldandi ráðningarsamningi þar sem tímasetning mín sé mjög slæm og ég muni ekki nýtast til kennslu sem skyldi. Þar sem fyrirhugaður fæðingardagur sé í október muni ég eyðileggja báðar annirnar og því yrði hann að ráða 2 kennara til kennslu á einni bekkjareiningu.

Ég bið B um að útbúa bréf sem feli í sér ástæður þess að ég fái ekki áframhaldandi ráðningu og meðmælabréf samkvæmt ráðleggingum frá Kennarasambandinu þar sem þeir gætu ekki byrjað að vinna í máli fyrr en þeir fengju ástæður skólastjóra. Á þessu tímabili er fullt af fólki með minni menntun og minni starfsreynslu búið að skrifa undir ráðningasamning fyrir næsta skólaár."

Með bréfi, dags. 13. maí 2002, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Holtaskóla í Reykjanesbæ.

Greinargerð Holtaskóla er dagsett 17. maí 2002. Í greinargerðinni segir m.a. að kærandi hafi verið ráðinn að Holtaskóla samkvæmt ráðningarsamningi til eins árs að undangenginni umsókn um heimild til undanþágunefndar grunnskóla. Í framhaldi af því var umsókninni hafnað og að lokum hafi skólinn fengið heimild frá ráðherra til að ráða kæranda sem leiðbeinanda í eitt ár. Fram kemur að vegna frammistöðu kæranda skólaárið 2000-2001 þá hafi ekki komið til greina að sækja um undanþágu fyrir hana sem leiðbeinanda eitt ár til viðbót."

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 24. maí 2002, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dagsett 29. maí 2002, þar segir m.a. að kærandi hafi ítrekað beðið um skriflegar skýringar frá skólastjórnendum um meðferð umsóknar sinnar.

Í greinargerð kæranda segir jafnframt:

"Ég geri mér fulla grein fyrir því að ég skrifaði undir ráðningasamning til eins árs í senn skv. lögum nr. 86/1998 en ég tel mig ekki enn hafa fengið skriflegan rökstuðning á því af hverju mín umsókn kom ekki til greina og fór aldrei inn á borð hjá undanþágunefnd fyrir skólaárið 2001-2002. Í hverju bréfi frá skólastjóra koma fram nýjar ástæður en sú ástæða sem skólastjóri gaf mér í upphafi hefur enn ekki komið fram í svörum hans."

Með bréfi dagsett 16. september 2002 óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð frá Kennarasambandi Íslands um málið. Sérstaklega var óskað eftir svörum við eftirtöldum spurningum:

1. Hver er réttur leiðbeinanda við grunnskóla til endurráðningar að hausti þegar ekki fæst réttindakennari til starfa.

2. Hver er réttur kæranda sem leiðbeinanda við Holtaskóla til endurráðningar og töku fæðingarorlofs, með hliðsjón af kjarasamningi.

3. Hver er réttarstaða kæranda þegar skólastjórnendur í Holtaskóla ákveða að óska eftir því við undanþágunefnd að hún veiti öðrum leiðbeinendum það starf sem kærandi gegndi áður. Leiðbeinendum sem ekki hafa starfað áður við skólann.

Greinargerðin er dagsett 15. október 2002. Í greinargerðinni segir m.a.:

"Hér á eftir verður reynt að svara þeim spurningum sem fram eru settar í bréfi úrskurðarnefndarinnar frá 16. september sl.

1. Almennt gildir sú regla um endurráðningu þeirra sem gegnt hafa tímabundnum störfum leiðbeinenda að þegar ráðning rennur út á viðkomandi ekki sjálfkrafa rétt á því að fá áframhaldandi ráðningu. Samkvæmt lögum ber að auglýsa allar slíkar stöður og jafnframt að sækja um undanþágu til undanþágunefndar. Kennarasambandið lítur svo á að þegar fleiri en einn leiðbeinandi sækir um sama starf sé ekki óeðlilegt að sömu reglur séu hafðar til hliðsjónar og gilda um val milli tveggja grunnskólakennara sem sækja um sama starf. Þær reglur er að finna í 8. gr. laga nr. 86/1998 um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra. Í 8. grein segir m.a.

"Sæki fleiri en einn kennari um sama starf og uppfylli allir umsækjendur þær kröfur sem gerðar eru skal við veitingu starfsins m.a. taka tillit til menntunar, kennsluferils, starfsaldurs, starfsreynslu og umsagna um starfshæfni umsækjenda."

Rétt er að benda á að ekki er að finna skýr lagaákvæði um þetta efni svo hér er frekar um sjónarmið að ræða en tilvitnun í lög.

2. Í kjarasamningi er ekki að finna ákvæði þess efnis að kona sem er barnshafandi eða í fæðingarorlofi eigi rétt á því að vera endurráðin eftir að tímabundin ráðning rennur út. Það hefur hins vegar verið grundvallarsjónarmið Kennarasambandsins að konur séu ekki látnar gjalda þess að vera barnshafandi eða í fæðingarorlofi þegar ráðning rennur út og þær ekki endurráðnar vegna þess. Þetta sjónarmið Kennarasambandsins hefur verið virt hingað til af vinnuveitendum enda telst það vart málefnaleg ástæða að hafna því að endurráða konu eingöngu vegna þess að hún er í eða á leið í fæðingarorlof.

3. Ef sú ákvörðun skólastjóra byggir á málefnalegum ástæðum sbr. 8. gr. laga nr. 86/1998 stenst sú ákvörðun að mati Kennarasambandsins en ef ekki er hægt að rökstyðja valið á nýjum leiðbeinandanum á málefnalegan hátt með vísan í lagagreinina er ákvörðunin vafasöm."

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun stjórnenda við Holtaskóla í Reykjanesbæ að hafna umsókn kæranda um áframhaldandi starf leiðbeinanda við skólann, eftir að hún tilkynnti um töku fæðingarorlofs.

Mál þetta var tekið fyrir hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála þrátt fyrir að kærufrestur væri liðinn, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlofsmála (ffl.) Afsakanlegt þótti að málið hefði ekki komið fyrr til nefndarinnar, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 37/1993. Þá var einnig litið til hagsmuna aðila málsins þar sem það taldist geta haft þýðingarmikið fordæmisgildi, sbr. 2. tölul. sömu greinar.

Kærandi var ráðinn til kennslu sem leiðbeinandi veturinn 2000-2001 við Holtaskóla í Reykjanesbæ. Hún tilkynnti vorið 2001 að hún ætti von á barni en hefði hug á áframhaldandi kennslu við skólann. Kærandi sótti um áframhaldandi starf við skólann með bréfi dagsettu í maí 2001. Stjórnendur Holtaskóla hafna starfsumsókn hennar.

Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. ffl. er hlutverk úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Ágreiningur í máli þessu varðar rétt kæranda til endurráðningar við Holtaskóla eftir að tímabundnum ráðningarsamningi hennar lauk og heimild stjórnenda skólans til að hafna umsókn hennar um endurráðningu.

Í 29. gr. ffl. er fjallað um rétt starfsmanns til áframhaldandi starfs hjá vinnuveitanda og í 30. gr. ffl. um vernd starfsmanns gegn uppsögn.

Samkvæmt 1. mgr. 29. gr. ffl. helst ráðningarsamband milli starfsmanns og vinnuveitanda óbreytt í fæðingarorlofi. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar skal starfsmaður eiga rétt á að hverfa aftur að starfi sínu að loknu fæðingarorlofi, sé þess ekki kostur skal hann eiga rétt á sambærilegu starfi hjá vinnuveitanda í samræmi við ráðningarsamning.

Í 30. gr. ffl. er kveðið á um að óheimilt sé að segja starfsmanni upp störfum vegna þess að hann hefur tilkynnt um fyrirhugaða töku fæðingarorlofs, nema gildar ástæður séu fyrir hendi og skal þá skriflegur rökstuðningur fylgja uppsögninni.

Kærandi ól barn þann 17. október 2001. Milli kæranda og Holtaskóla var í gildi tímabundinn ráðningarsamningur skólaárið 2000-2001. Eru því eigi forsendur til að 29. gr. ffl. komi til álita við úrlausn ágreinings í máli þessu þar sem greinin gildir eingöngu um þau tilvik þegar ráðningarsamband er milli vinnuveitanda og starfsmanns í fæðingarorlofi. Þá kemur 30. gr. ffl. um vernd gegn uppsögnum eigi heldur til álita þar sem um tímabundinn ráðningarsamning var að ræða sem féll úr gildi án uppsagnar. Önnur ákvæði ffl. koma heldur ekki til álita. Af þessu leiðir að eigi verður úrskurðað um ágreiningsefni máls þess á grundvelli laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof.

Málinu er vísað frá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála þar sem það fellur utan valdsviðs nefndarinnar að úrskurða um ágreiningsefnið.

ÚRSKURÐARORÐ:

Málinu er vísað frá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála þar sem það fellur utan valdsviðs nefndarinnar að úrskurða um ágreiningsefnið.

Guðný Björnsdóttir hdl.

Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri

Ósk Ingvarsdóttir læknir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta