Mál nr. 26/2002
Föstudaginn, 15. nóvember 2002
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Úrskurður
Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Ósk Ingvarsdóttir læknir og Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri.
Þann 18. apríl 2002 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsettu sama dag.
Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldris í minna en 25% starfi, með bréfi dagsettu 20. febrúar 2002.
Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:
"Í fyrsta lagi vil ég taka fram að ég sótti aldrei um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði og skil því ekki hvers vegna er verið að taka það fram og synja mér um þær greiðslur.
Í öðru lagi var ég með lögheimili á Íslandi við fæðingu dóttur minnar en þar sem hún fæddist erlendis flutti Hagstofan lögheimilið afturvirkt á fæðingardag hennar - samkvæmt einhverjum vinnureglum?
Þetta hlýtur að segja mér að engin íslensk kona sem eignast barn erlendis getur átt rétt á greiðslum ekki satt.... og jafnvel þótt hún fari eingöngu í skamman tíma til að eignast barn sitt hjá maka sínum - þá missir hún allan rétt!! Og þá skil ég ekki hvers vegna það tók allan þennan tíma að svara umsókn minni en mér var ítrekað sagt að ég væri á "mörkunum" og verið væri að vinna í máli mínu.
Athugið einnig að með þessum vinnureglum Hagstofu er algjörlega verið að líta framhjá tveimur atriðum lögheimilislaga sem segja til um það að ekki þurfi að flytja lögheimili fyrr en eftir ákveðinn tíma og að ef hjón búi í sitt hvoru landinu skuli hafa lögheimili hjá því foreldri sem hefur börnin!!
Í þriðja lagi vil ég benda enn og aftur á þá staðreynd að ég starfaði á Íslandi fram að fæðingu barns (í 20% starfi og greiddi af því skatta og gjöld) og kem til með að hefja störf að nýju 1. júlí n.k. að loknu 6 mánaða fæðingarorlofi - hjá öðrum aðila - en ég flyt til Íslands aftur 16. maí n.k.
Svo það er ansi hart að vera gerð réttlaus þegar ég starfa og greiði mína skatta á Íslandi bæði fyrir og eftir fæðingarorlof.... en eignaðist barnið erlendis í millitíðinni.
Aðalkæra mín felst hins vegar í vísan í EES samninginn, útflutningsreglu, þar sem segir að greiða skuli bætur almannatrygginga hvar sem er innan svæðisins og að sá tryggði tapi ekki bótum þótt hann flytji til annars lands innan svæðisins (sjá meðfylgjandi útprentun af vef TR). Samkvæmt 29. grein laga um Evrópska efnahagssvæðið, 1993 nr. 2, segir orðrétt: "Til að veita launþegum og sjálfstætt starfandi einstaklingum frelsi til flutninga skulu samningsaðilar á sviði almannatrygginga, í samræmi við VI. viðauka, einkum tryggja launþegum og sjálfstætt starfandi einstaklingum og þeim sem þeir framfæra að
a. Lögð verði saman öll tímabili sem taka ber til greina samkvæmt lögum hinna ýmsu landa til að öðlast og viðhalda bótarétti, svo og reikna fjárhæð til bóta;
b. Bætur séu greiddar fólki sem er búsett á yfirráðasvæðum samningsaðila".
Auk þess segir í lögum um fæðingar- og foreldraorlof, 2000 nr. 95, að við framkvæmd þeirra laga skuli tekið tillit til milliríkjasamninga á sviði almannatrygginga og félagsmála sem Ísland er aðili að. (sjá meðfylgjandi blað).
Í ljósi þessa og þeirrar staðreyndar að enginn fæðingarstyrkur er greiddur hér í B til heimavinnandi húsmæðra - einungis þeirra sem eru starfandi - sem ég var reyndar - en á Íslandi, kæri ég þennan úrskurð Tryggingastofnunar frá 20. febrúar sl."
Með bréfi, dags. 22. apríl 2002, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.
Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 1. ágúst 2002. Í greinargerðinni segir:
"Kærð er synjun á fæðingarstyrk foreldris utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi vegna búsetu erlendis.
Með umsókn dags. 1. desember 2001 sótti kærandi um fæðingarstyrk frá febrúar 2002 vegna áætlaðrar fæðingar barns þann 29. desember. Í umsókninni var tekið fram að foreldrar hefðu verið búsettir í B á síðustu 14 mánuðum fyrir áætlaða fæðingu. Með umsókninni fylgdi einnig bréf þar sem hún gerði grein fyrir því að hún hafi verið búsett í B á síðustu mánuðum fyrir áætlaða fæðingu vegna starfs eiginmanns en hún hafi starfað fyrir íslenskt fyrirtæki á meðan (D ehf.) í ca. 20% starfi (starf E) og greitt sína skatta og gjöld á Íslandi. Tekið var fram að þau séu með og hafi alltaf haft lögheimili á Íslandi og að þau eigi engan rétt á fæðingarorlofsgreiðslum í B.
Tryggingastofnun ríkisins fékk sent afrit af bréfi þjóðskrár Hagstofu Íslands til kæranda dags. 15. janúar 2002 í tilefni þess að borist hafði fæðingarvottorð dóttur hennar þar sem fram kom að hún fæddist erlendis. Kæranda var gefinn mánaðarfrestur til þess að færa sönnur á hún ætti rétt til skráningar lögheimilis á Íslandi. Lögheimili kæranda og fjölskyldu hennar var síðan strax þann 30. janúar 2002 flutt til B miðað við fæðingardag dóttur hennar þann 30. desember 2001. Það mun vera vinnuregla hjá þjóðskrá í slíkum tilvikum, að ef því er synjað að fyrir sé réttur á að hafa skráð lögheimili á Íslandi og ekki liggja fyrir staðfest gögn um frá hvaða tíma hefur verið um búsetu erlendis að ræða, er breytingu á lögheimili skráð miðað við fæðingardag barns. Að auki bendir það að lögheimili þeirra var flutt þegar frestur kæranda var aðeins hálfnaður að þjóðskrá hafi fengið upplýsingar frá kæranda um búsetu hennar erlendis.
Kærandi var með bréfi dags. 20. febrúar synjað um greiðslur þar sem hún uppfyllti hvorki það skilyrði fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði að hafa verið samfellt á vinnumarkaði í sex mánuði í minnst 25% starfi fyrir fæðingu barns né það skilyrði fyrir greiðslu fæðingarstyrks að vera búsett á Íslandi við fæðingu barns. Ástæða þess að í bréfinu kemur bæði fram synjun á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og fæðingarstyrks er sú að verið er að gera það ljóst að ekki er fyrir hendi réttur á neinum greiðslum vegna fæðingarinnar hér á landi.
Í 18. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) er kveðið á um greiðslur til foreldra utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi, þ.e. foreldra sem ekki uppfylla skilyrði 1. mgr. 13. gr. um starf á innlendum vinnumarkaði fyrir því að eiga rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þar segir í 2. ml. 2. mgr. að foreldri skuli að jafnaði eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir fæðingardag.
Um lögheimilisskilyrði í 18. gr. laganna er nánar fjallað í 12. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000. Þar er kveðið á um að skilyrðið um lögheimili er í samræmi við búsetuskilyrði sem sett er fyrir rétti til að teljast tryggður samkvæmt lögum um almannatryggingar. Þegar um greiðslur vegna fæðingar er að ræða eru þessi skilyrði búseta hér á landi við fæðingu barns og síðustu 12 mánuði á undan eða hafi verið um að ræða búsetu í öðru EES-ríki á síðustu 12 mánuðum á undan að framvísað sé staðfestri yfirlýsingu (E 104) um tryggingatímabil sem lokið er í öðru EES-ríki fyrir þann tíma sem upp á vantar.
Það að tekin séu til greina tryggingatímabil sem lokið er í öðru EES-ríki á síðustu mánuðunum fyrir fæðingu barns er í samræmi við ákvæði 29. gr. samnings um Evrópskt efnahagssvæði, sbr. lög nr. 2/1993.
Að lokum er rétt að geta þess að Tryggingastofnun ríkisins hefur borist E 104 vottorð frá B dags. 30. maí 2002 fyrir kæranda og börn hennar þar sem staðfest er búseta þeirra þar á tímabilinu 17. maí 2000-16. maí 2002, þ.e. í tvö ár. Samkvæmt því var kærandi búsett í B við fæðingu barnsins og hafði verið búsett þar í 1 ár og rúmlega 7 mánuði fyrir fæðingu.
Samkvæmt ofangreindu er ljóst að kærandi var búsett og tryggð í B við fæðingu barns síns og að ef hún átti einhvers staðar rétt á fæðingarorlofsgreiðslum þá var það þar. Það hafði ekki í för með sér að hún eigi rétt á greiðslum á Íslandi að hún kveðst ekki hafa átt rétt á fæðingarorlofsgreiðslum í B þar sem enginn fæðingarstyrkur sé greiddur til heimavinnandi húsmæðra þar enda fer það eftir löggjöf þess lands þar sem viðkomandi er tryggður hver skilyrði fyrir slíkum greiðslum eru."
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 6. ágúst 2002, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.
Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dags. 24. ágúst 2002, þar sem áður er lýst áður fram komnum sjónarmiðum kæranda.
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:
Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á greiðslu fæðingarstyrks til kæranda sem foreldris í minna en 25% starfi eða utan vinnumarkaðar vegna búsetu erlendis.
Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.
Kærandi ól barn 30. desember 2001. Samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá Hagstofu Íslands var hún á þeim tíma með búsetu og lögheimili á B.
Samkvæmt reglum í II. bálki reglugerðar (ESB) 1408/71 um lagaskil giltu B lög um rétt kæranda til fæðingarorlofs. Samkvæmt þeim reglum sbr. 1. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar er meginreglan sú að einstaklingur falli aðeins undir löggjöf eins aðildarríkis á hverjum tíma.
Kemur þá til skoðunar hvernig íslensk löggjöf tekur á tilvikum sem þessu. Álitaefnið er hvort kærandi eigi rétt til greiðslu fæðingarstyrks samkvæmt ffl. sem foreldri utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi.
Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. ffl. eiga foreldrar utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar barns. Í 2. mgr. sömu greinar er kveðið á um að foreldri skuli að jafnaði eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu tólf mánuði fyrir fæðingardag, sbr. og 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.
Um lögheimilisskilyrði 18. gr. er nánar fjallað í 12. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks og um undanþágur frá lögheimilisskilyrði í 13. gr. sömu reglugerðar.
Í athugasemdum með 18. gr. frumvarps til laga nr. 95/2000 segir að skilyrði fyrir rétti til fæðingarstyrks sé að foreldri eigi lögheimili hér á landi við fæðingu barns. Átt sé við lögheimili í skilningi lögheimilislaga nr. 21/1990. Skilyrði um lögheimili hér á landi sé í samræmi við það búsetuskilyrði sem sett sé fyrir rétti til almannatrygginga.
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili er lögheimili manns sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar telst maður hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika.
Ekki er í ffl. né reglugerð nr. 909/2000 að finna heimild til að víkja frá lögheimilisskilyrði 2. mgr. 18. gr. ffl. hvað varðar rétt foreldris utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi til greiðslu fæðingarstyrks.
Samkvæmt gögnum málsins hafði kærandi verið búsett á B frá 17. maí 2000, en síðan er hún skráð með lögheimili í því landi frá 30. desember 2001. Hún uppfyllir því ekki skilyrði 2. mgr. 18. gr. ffl og 12. gr. reglugerðarinnar nr. 909/2000 um lögheimili hér á landi við fæðingu barnsins.
Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar er heimilt að taka til greina búsetu í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins á þeim tíma sem um ræðir í 1. mgr. Það skilyrði er sett að foreldri afhendi Tryggingastofnun ríkisins staðfesta yfirlýsingu (E-104) sem sýnir tryggingatímabil er foreldri hefur lokið samkvæmt þeirri löggjöf sem það heyrir undir. Umrætt ákvæði er í samræmi við 29. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, þ.e. að einstaklingar öðlist og viðhaldi bótarétti sínum.
Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum uppfyllir kærandi ekki skilyrði þess að fá greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á greiðslu fæðingarstyrks er staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ:
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A í fæðingarorlofi er staðfest.
Guðný Björnsdóttir
Gylfi Kristinsson
Ósk Ingvarsdóttir