Mál nr. 12/2015
Kærunefnd barnaverndarmála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík
Föstudaginn 7. ágúst 2015 tók kærunefnd barnaverndarmála fyrir mál A, gegn barnaverndarnefnd B vegna umgengni við dóttur hennar, C, nr. 12/2015.
Kveðinn var upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R:
Með bréfi 26. maí 2015 skaut D hdl., fyrir hönd A, úrskurði barnaverndarnefndar B frá 27. apríl 2015, vegna umgengni kæranda við dóttur sína, C, til kærunefndar barnaverndarmála. Samkvæmt hinum kærða úrskurði er umgengni C við kæranda einu sinni í mánuði í átta klukkustundir í senn, en engin umgengni verði frá 1. júní 2015 til 15. júlí 2015 vegna sumarleyfa stúlkunnar og fósturmóður hennar. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar eru svohljóðandi auk þess sem þar er bent á kæruheimild til kærunefndar barnaverndarmála:
„Barnaverndarnefnd B kveður á um að umgengni verði einu sinni í mánuði, 8 klukkustundir í senn, frá kl. 10:00 – 18:00. Engin umgengni verði frá 01.06.2015 – 15.07.2015 vegna sumarleyfa stúlkunnar og fósturmóður. Starfsmönnum barnaverndarnefndar er falið að fylgjast með líðan stúlkunnar í tengslum við umgengni og málið verður tekið fyrir að nýju á fundi nefndarinnar í september 2015.“
Kærandi krefst þess að umgengni verði aukin frekar en minnkuð og að stúlkan C fái að vera yfir nótt hjá kæranda.
Af hálfu barnaverndarnefndar B er þess krafist að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Af hálfu fósturmóður stúlkunnar kemur fram í tölvupósti 14. júlí 2015 til kærunefndarinnar að hennar afstaða sé sú að C hafi ekki gott af umgengni við kæranda og vilji helst stuttar heimsóknir einu sinni á ári undir eftirliti, að hámarki fjóra tíma í senn.
I. Málavextir
Mál C hefur verið í vinnslu hjá barnaverndarnefnd B frá árinu 2008. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að barnaverndarnefnd B hafi ítrekað borist tilkynningar vegna vanrækslu, til dæmis mikinn óþrifnað á heimilinu, að skólasókn væri ábótavant og heimanámi illa sinnt. Í febrúar 2011 var C tímabundið vistuð utan heimilis og hefur hún frá þeim tíma verið í fóstri hjá E.
Barnaverndarnefnd B krafðist þess fyrir Héraðsdómi B þann X að kærandi yrði svipt forsjá stúlkunnar og var krafan tekin til greina með dómi X. Dómurinn var staðfestur með dómi Hæstaréttar X.
Samkvæmt gögnum málsins var umgengni upphaflega þannig háttað að C skyldi vera eina helgi og einn föstudag í mánuði hjá kæranda. Þann 15. október 2012 úrskurðaði barnaverndarnefnd B um umgengni og var hún ákveðin annan hvern laugardag í tíu klukkustundir í senn. Með úrskurði 24. nóvember 2014 tók barnaverndarnefndin ákvörðun um breytta umgengni í kjölfar beiðni fósturmóður um endurskoðun, þar sem umgengni hafði ekki gengið sem skyldi. Var umgengnin ákveðin þannig að hún skyldi vera einn laugardag í mánuði í fimm klukkustundir í senn. Kærandi kærði þann úrskurð barnaverndarnefndarinnar til kærunefndar barnaverndarmála. Kærunefndin kvað upp úrskurð í málinu 18. mars 2015 en með honum var úrskurðurinn felldur úr gildi og málinu vísað til barnaverndarnefndar B til meðferðar að nýju þar sem málið hafði ekki verið rannsakað nægilega hvað varðar líðan stúlkunnar.
Málið var í framhaldi af því tekið aftur til meðferðar hjá barnaverndarnefnd B. Fór þá að nýju fram rannsókn af hálfu starfsmanna nefndarinnar. Var F sálfræðingur auk þess fengin til að meta líðan stúlkunnar í þeim aðstæðum sem hún býr við og líðan hennar í tengslum við umgengni hennar við kæranda. Hinn 27. apríl 2015 kvað barnaverndarnefnd B upp hinn kærða úrskurð.
II. Afstaða kæranda
Í kærunni kemur fram að kærunefnd barnaverndarmála hafi nýlega fellt úrskurð barnaverndarnefndar B úr gildi og hafi málið verið tekið aftur til úrskurðar og umgengni minnkuð. Telja verði að sú umgengni sé ekki í samræmi við það sem stúlkunni sé fyrir bestu, en kærandi segir stúlkuna alltaf vera ánægða hjá sér í umgengni og að hún komi og fari glöð frá sér. Alfarið sé mótmælt þeirri stefnu barnaverndaryfirvalda að takmarka sem mest umgengni barna í fóstri við foreldra sína og krefst kærandi þess að umgengni verði aukin frekar en minnkuð og að stúlkan fái að vera yfir nótt hjá sér.
Í hinum kærða úrskurði kemur fram að kærandi hefði mætt á fund barnaverndarnefndar B þar sem hún hafi mótmælt tillögu starfsmanna Barnaverndar. Hún hafi jafnframt gert athugasemdir við þau ummæli að stúlkan væri svöng í umgengni og að umhirðu væri ábótavant. Stúlkan væri ekki svöng og að ekki væri hægt að neyða mat ofan í hana. Kærandi hafi greint frá því að C hefði sjálf sagt að hún vildi hafa umgengnina tvisvar í mánuði, tíu klukkustundir í senn. Kærandi hafi því óskað eftir því að umgengni yrði aukin og að stúlkan fengi að gista hjá sér yfir nótt. Fram hafi komið að kærandi gæti sæst á að hafa umgengni til skiptis sex og tíu klukkustundir en þá væri hægt að sjá marktækan mun á líðan barnsins í umgengni og að kærandi fengi tækifæri til þess að ráða bót á því sem betur mætti fara í umgengni.
III. Afstaða C
Í bréfi F sálfræðings 16. apríl 2015 til Barnaverndar B kemur fram að hún hafi hitt C í tvö skipti, 14. og 15. apríl 2015, að beiðni starfsmanns Barnaverndar B og lagt fyrir stúlkuna sjálfsmatslista til að meta líðan hennar. Samkvæmt því sem þar kemur fram bendi niðurstöður matslista ekki til marktækra frávika á þeim þáttum sem listinn nái til, sem eru sjálfsmat, kvíði, þunglyndi, reiði og truflandi hegðun. Þessar niðurstöður gefi til kynna að líðan C sé góð eins og aðstæður séu nú. Matslistinn taki aðeins mið af núverandi líðan en ekki hafi verið lagður fyrir matslisti til samanburðar áður en umgengni var breytt. Í viðtali hafi C hins vegar greint frá betri líðan eftir að umgengni við móður var breytt, svo sem minni spennu fyrir heimsóknir og meira jafnvægi eftir þær, til dæmis geti hún betur einbeitt sér að heimanámi.
Í greinargerð félagsráðgjafa fjölskyldu og félagsþjónustu B 27. apríl 2015 kemur fram að ráðgjafinn hafi rætt við stúlkuna eftir að kærunefnd barnaverndarmála hafði fellt úrskurð barnaverndarnefndarinnar frá 24. nóvember 2014 úr gildi en umgengni hafði þá verið í eitt skipti samkvæmt fyrri úrskurði, þ.e. tíu klukkustundir. Stúlkan hefði sagt að umgengnin hefði gengið mun betur eftir fyrri úrskurð nefndarinnar þegar ákveðið var að umgengnin yrði fimm klukkustundir. Þá hefði móðir hennar sinnt sér betur, þær hefðu átt betri tíma saman og sér leiddist síður. Hún hafi ekki verið eins kvíðin fyrir því að fara í umgengnina.
IV. Afstaða barnaverndarnefndar B
Í greinargerð barnaverndarnefndar B 5. júní 2015 til kærunefndarinnar er því lýst að krafa barnaverndarnefndarinnar sé byggð á því að hinn kærði úrskurður sé réttmætur að öllu leyti og hafi fengið lögformlega málsmeðferð. Öllum röksemdum kæranda fyrir því gagnstæða sé hafnað.
Af hálfu nefndarinnar sé á því byggt að hinn kærði úrskurður sé í fullu samræmi við tilgang og markmið barnaverndarlaga og beitt hafi verið þeirri ráðstöfun sem sé C fyrir bestu, með hagsmuni kæranda og stúlkunnar í huga, sbr. 4. gr. barnaverndarlaga. Nefndin byggi á því að það þjóni hagsmunum stúlkunnar best að umgengni kæranda við hana verði takmörkuð með þeim hætti sem ákveðið hafi verið í hinum kærða úrskurði. Í því samhengi vísi barnaverndarnefndin til forsendna hins kærða úrskurðar.
Barnaverndarnefnd B telur að hinn kærði úrskurður sé í fullu samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Með því að umgengni verði takmörkuð með þeim hætti sem ákveðið hafi verið sé dregið úr þeim neikvæðu áhrifum sem kærandi hafi á dóttur sína og líf hennar. Hinn kærði úrskurður sé einnig í fullu samræmi við ákvæði 70. og 74. gr. barnaverndarlaga. Af hálfu barnaverndarnefndarinnar sé á því byggt að rýmri umgengnisréttur en ákveðinn hafi verið sé bersýnilega andstæður hagsmunum og þörfum C, að teknu tilliti til hagsmuna og sjónarmiða allra aðila.
Það sé niðurstaða ítarlegrar rannsóknar barnaverndarnefndarinnar á líðan stúlkunnar að umgengni gangi betur eftir að hún hafi verið minnkuð í fimm klukkustundir einu sinni í mánuði og að líðan stúlkunnar sé betri. Þannig hafi C greint frá því við starfsmann barnaverndarnefndar B að þegar umgengni hafi verið fimm klukkustundir í stað tíu klukkustunda hafi kærandi sinnt sér betur, þær hafi átt betri tíma saman og sér hafi síður leiðst. Jafnframt hafi hún ekki verið eins kvíðin fyrir því að fara í umgengni. Eftir að umgengni hafi verið breytt aftur í tíu klukkustundir, þ.e. eftir að kærunefnd barnaverndarmála hafði fellt úr gildi úrskurð barnaverndarnefndar B, hafi henni hins vegar leiðst meira.
Fósturmóðir C hafi jafnframt greint frá því að líðan stúlkunnar hefði verið mun betri á því tímabili þegar umgengni hafi varað í fimm klukkustundir. Þannig hafi C ekki verið eins stressuð og það tæki ekki jafn langan tíma að fá hana aftur í jafnvægi eftir umgengni.
Starfsmenn barnaverndarnefndar B hafi farið þess á leit við F sálfræðing að hún myndi meta líðan C í umgengni og leggja fyrir hana þar til gerð próf. Í frásögn sálfræðingsins af því tilefni komi fram að C hafi í viðtali þeirra greint frá því að sér liði betur eftir að umgengni við kæranda hafi verið breytt, minni spenna væri fyrir heimsóknir og meira jafnvægi eftir þær. Þá hafi niðurstöðurnar bent til þess að líðan stúlkunnar væri góð eins og aðstæður væru nú.
Markmiðið sem stefnt sé fyrst og fremst að sé það að stúlkan aðlagist og tilheyri fósturmóður sinni og þar með sé dregið úr neikvæðum áhrifum kæranda á stúlkuna, sem víða megi sjá stað í gögnum málsins og vísað hafi verið til í fyrri umfjöllun barnaverndarnefndar Bvið meðferð málsins hjá kærunefnd barnaverndarmála. Við þær aðstæður sem þar hafi verið lýst verði að telja að hagsmunir C krefjist þess að umgengni verði takmörkuð með þeim hætti sem hinn kærði úrskurður kveði á um. Gögn málsins sýni svo ekki verði um villst að jákvæðar breytingar hefðu orðið á líðan og hegðun stúlkunnar eftir að umgengni hafi verið takmörkuð. Barnaverndarnefnd B telur mikilvægt að skapa C áframhaldandi stöðugleika og öryggi en það sé nauðsynlegt svo hún fái að dafna og þroskast sem best í þeim aðstæðum sem hún búi nú við. Þá liggi fyrir að upplifun stúlkunnar af umgengni sem sé styttri og sjaldnar veiti henni jákvæðari upplifun af samveru við móður sína en lengri umgengni hafi valdið henni vanlíðan og óöryggi. Þannig fari hagsmunir stúlkunnar saman við þann tilgang og markmið sem stefnt sé að með umgengni hennar við kæranda.
Með vísan til alls þess sem hafi verið rakið og gagna málsins telur barnaverndarnefnd B að rýmri umgengnisréttur en ákveðinn hafi verið í hinum kærða úrskurði sé ósamrýmanlegur þeim markmiðum sem að sé stefnt með ráðstöfun C í fóstur og því beri að staðfesta hinn kærða úrskurð.
V. Afstaða fósturmóður
Í tölvupósti frá fósturmóður C 14. júlí 2015 til kærunefndarinnar kemur fram að C hafi oft og tíðum komið úr umgengni í uppnámi og að umgengni sé henni þungbær. Fósturmóðir segir afstöðu sína vera þá að C hafi ekki gott af því að umgangast kæranda nema í stuttum heimsóknum, helst einu sinni á ári, jafnvel tvisvar, undir eftirliti og þá hámark fjóra tíma í senn meðan stúlkan sé enn ung. Nú sé C ekki búin að hitta kæranda í einn og hálfan mánuð, þ.e. frá byrjun júní 2015 til 14. júlí 2015, og finnst henni stúlkan vera bjartari og hressari og þurfi ekki að vera með áhyggjur af því að hitta kæranda.
VI. Niðurstaða
C er X ára gömul stúlka og hefur verið hjá fósturmóður sinni, E, frá því í febrúar 2011 en kærandi var svipt forsjá hennar með dómi sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar X eins og áður hefur komið fram. Með hinum kærða úrskurði barnaverndarnefndar B frá 27. apríl 2015 var umgengni stúlkunnar við kæranda ákveðin einu sinni í mánuði í átta klukkustundir í senn, en engin umgengni skyldi fara fram frá byrjun júní fram í miðjan júlí vegna sumarleyfa stúlkunnar og fósturmóður hennar. Kærandi krefst aukinnar umgengni og að stúlkan fái að vera yfir nótt hjá sér.
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.
Samkvæmt meginreglu 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga skal taka mið af því hvað þjónar hagsmunum barns best þegar tekin er afstaða til umgengni við barn í fóstri. Samkvæmt 2. mgr. 46. gr. sömu laga skal taka réttmætt tillit til skoðana barns við úrlausn máls. Eins og málið liggur fyrir verður að telja að fram hafi komið ótvíræður vilji stúlkunnar þess efnis að þurfa ekki að kvíða því að hafa umgengni við kæranda. Í gögnum málsins kemur fram að stúlkunni líður betur þegar umgengi varir aðeins í fáar klukkustundir í senn í stað tíu klukkustunda og þegar hæfilegur tími líður á milli umgengnistíma þannig að umgengnin fari ekki fram of oft. Kærunefndin telur því ekki koma til greina að lengja þann tíma sem umgengni hefur verið ákveðin. Verður þess vegna ekki fallist á þá kröfu kæranda, þar með talið þá kröfu að stúlkan fái að vera hjá kæranda yfir nótt. Þrátt fyrir þá niðurstöðu barnaverndarnefndar B þess efnis að umgengni verði einu sinni í mánuði í átta klukkustundir í senn, verður að telja að fyrir því skorti haldbær rök þegar tekið er tillit til vilja, líðanar og hagsmuna stúlkunnar. Einnig verður að líta til þess að besta reynslan var á umgengninni þegar hún var í fimm klukkustundir í senn. Ber með vísan til þess og til 4. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga að ákveða að umgengni stúlkunnar við kæranda verði einu sinni í mánuði í fimm klukkustundir í senn. Að öðru leyti verður umgengni eins og segir í hinum kærða úrskurði.
Úrskurðarorð
Úrskurður barnaverndarnefndar B frá 27. apríl 2015 varðandi umgengni A við dóttur sína, C, er felldur úr gildi að hluta til, þannig að umgengni verði einu sinni í mánuði í fimm klukkustundir í senn. Að öðru leyti verður umgengni eins og segir í hinum kærða úrskurði.
Sigríður Ingvarsdóttir, formaður
Guðfinna Eydal
Jón R. Kristinsson