Matsmál nr. 6/2019, úrskurður 10. október 2019
Fimmtudaginn 10. október 2019 var í matsnefnd eignarnámsbóta tekið fyrir matsmálið nr. 6/2019
Vegagerðin
gegn
Hjalta Egilssyni
og Eiríki Egilssyni
og kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r :
I
Skipan matsnefndar eignarnámsbóta:
Matsnefnd eignarnámsbóta er í máli þessu skipuð Valgerði Sólnes, lektor, varaformanni, ásamt þeim Magnúsi Leópoldssyni, löggiltum fasteignasala, og Vífli Oddssyni, verkfræðingi, sem varaformaður kvaddi til starfans samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.
II
Matsbeiðni, eignarnámsheimild, aðilar og matsandlag:
Með matsbeiðni 6. júní 2019 fór Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5-7, 105 Reykjavík (hér eftir eignarnemi), þess á leit við matsnefnd eignarnámsbóta að hún legði mat á bætur vegna eignarnáms á landi þriggja landspildna undir vegsvæði þjóðvegar, Hringveg um Hornafjörð, sem í beiðninni er lýst með svofelldum hætti: „[L]and undir veg vegna eignarhluta jarðanna Árnaness 1 (159454), Árnaness 2 (159456) og Árnaness 4 (159458), í fyrsta lagi í óskiptu landi í eigu jarðanna Árnaness 1, 2, 3 (159457) og 4 auk Hríseyjar (209751), í öðru lagi eignarhluta sömu jarða í óskiptu landi í eigu Árnaness 1, 2, 3 og 4 og í þriðja lagi land í eigu Árnaness 1.“
Um heimild til eignarnámsins vísar eignarnemi til VII. kafla vegalaga nr. 80/2007, sbr. lög nr. 11/1973. Eignarnámsheimildin er í 37. gr. vegalaga.
Eignarnámsþolar eru Hjalti Egilsson, [...], og Eiríkur Egilsson, [...]. Eignarnámsþolar eru hvor fyrir sitt leyti eigendur 50% hluta í Árnanesi 1, landnúmer 159454, 25% hluta í Árnanesi 2, landnúmer 159456 (á móti 50% hluta Akurnesbúsins ehf., kt. 540714-0880, Akurnesi 2, 781 Höfn í Hornafirði), og 20% hluta í Árnanesi 4, landnúmer 159458 (á móti 40% hluta Akurnesbúsins ehf. og 20% hluta Ásgeirs Núpan Ágústssonar, [...]). Um áðurgreindan eignarhluta Akurnesbúsins ehf. er fjallað í úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta í máli nr. 8/2019 og eignarhluta Ásgeirs Núpan í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 7/2019, sem kveðnir voru upp í dag. Í úrskurðunum kemur fram að eignarnámsþolar eigi 47,5% eignarhluta í Hrísey á móti jafnstórum hluta Akurnesbúsins ehf. og 5% eignarhluta Ásgeirs Núpan.
Matsandlagið samkvæmt uppfærðu tilboði eignarnema 8. október 2019 er nánar tiltekið:
1. 112.286 fermetra landspilda í óskiptu landi Árnaness 1, 2, 3 og 4 auk Hríseyjar milli vegstöðva 9390 og 12200, miðað við 40 metra breitt vegsvæði, það er 20 metra frá miðlínu til hvorrar handar.
2. 28.599 fermetra landspilda í óskiptu landi Árnaness 1, 2, 3 og 4 milli vegstöðva 12820 og 13527, miðað við 40 metra breitt vegsvæði, það er 20 metra frá miðlínu til hvorrar handar.
3. 4.015 fermetra landspilda Árnaness 1 milli vegstöðva 12480 og 12600, miðað við 40 metra breitt vegsvæði, það er 20 metra frá miðlínu til hvorrar handar.
III
Málsmeðferð:
Mál þetta var fyrst tekið fyrir þriðjudaginn 18. júní 2019. Eignarnemi lagði fram matsbeiðni ásamt 22 tölu- og stafsettum fylgiskjölum. Matsnefndin lagði fram afrit boðunarbréfa. Málinu var að því búnu frestað til vettvangsgöngu.
Þriðjudaginn 25. júní 2019 var málið tekið fyrir. Gengið var á vettvang og aðstæður skoðaðar. Af hálfu eignarnema var lögð fram bókun þar sem greinir meðal annars: „Eignarnámsþolar í ofangreindu máli vekja athygli matsnefndar eignarnámsbóta á eftirfarandi atriðum: 1. Að þeir mótmæla ákvörðun Vegagerðarinnar um eignarnám og hún verði kærð skv. heimild til ráðherra. Komi til þess að ráðherra staðfesti ákvörðunina munu eignarnámsþolar leita réttar síns fyrir dómstólum. 2. Að þeir mótmæla umráðatöku Vegagerðarinnar á landi þeirra meðan ekki hefur verið skorið endanlega úr um lögmæti ákvörðunar Vegagerðarinnar um eignarnám“ Þá var málsaðilum gefinn frestur til að leggja fram greinargerð.
Mánudaginn 26. ágúst 2019 var málið tekið fyrir. Matsnefndin lagði fram afrit fundargerðar vegna vettvangsgöngu 25. júní 2019. Þá hafði matsnefndinni borist til framlagningar greinargerð eignarnema ásamt tveimur fylgiskjölum, greinargerð eignarnámsþola ásamt 11 tölusettum fylgiskjölum og athugasemdir eignarnema við greinargerð eignarnámsþola ásamt sex tölusettum fylgiskjölum. Voru skjöl þessi lögð fram. Af hálfu eignarnámsþola var lagt fram málskostnaðaryfirlit ásamt tveimur reikningum vegna útlagðs kostnaðar, svo og tvö ný fylgiskjöl varðandi æðarvarp. Var málið að því búnu flutt munnlega fyrir matsnefndinni og eftir lögmanni eignarnámsþola bókað: „Aðspurður um það hvort lögmaður eignarnámsþola teldi frekari gagna þörf um bótakröfu hans vegna ætlaðs tjóns, taldi hann að þörf væri á því að afla tveggja gagna. Annars vegar upplýsinga frá Guðrúnu Gauksdóttur, formanni æðarræktarfélags Íslands varðandi áhrif vegalagningar á æðarvarp og hins vegar upplýsingar um skiptingu lands sem heyrir undir kaupsamning um Árnanes sem eignarnemi byggir á í málinu.“ Var málið tekið til úrskurðar að því búnu.
Matsnefnd eignarnámsbóta aflaði eftir þetta svofelldra upplýsinga í málinu:
Með tölvubréfi 2. september 2019 fór matsnefnd eignarnámsbóta þess á leit við lögmenn aðila, eftir beiðni eignarnámsþola 26. ágúst 2019, að þeir öfluðu og veittu matsnefndinni upplýsingar um skiptingu lands sem heyrði undir kaupsamning 15. desember 2014, þar sem eignarnámsþolar keyptu jörðina Árnanes 1, fastanúmer 2180034, af Ragnari Stefánssyni. Með tölvubréfi frá lögmanni eignarnámsþola 11. september 2019 bárust nefndinni upplýsingar um mælingar Sigurgeirs Skúlasonar landfræðings á Árnanesjörðunum. Með tölvubréfum 16. og 20. þess mánaðar var athugasemdum eignarnema vegna upplýsinganna komið á framfæri við nefndina og með tölvubréfi 17. sama mánaðar var athugasemdum eignarnámsþola vegna upplýsinganna sömuleiðis komið á framfæri við nefndina.
Með tölvubréfi 4. september 2019 fór matsnefnd eignarnámsbóta þess á leit við Guðrúnu Gauksdóttur, formann Æðarræktarfélags Íslands, eftir beiðni eignarnámsþola 26. ágúst 2019, að félagið veitti matsnefndinni upplýsingar um áhrif vegalagningar á æðarvarp, ef félagið byggi yfir og gæti eftir atvikum veitt slíkar upplýsingar. Með tölvubréfi formanns æðarræktarfélagsins 10. september 2019 bárust nefndinni upplýsingar um áhrif vegalagningar á æðarvarp. Með tölvubréfi 16. sama mánaðar var athugasemdum eignarnema vegna upplýsinganna komið á framfæri við nefndina og með tölvubréfi degi síðar var athugasemdum eignarnámsþola vegna upplýsinganna sömuleiðis komið á framfæri við nefndina.
Með tölvubréfi 5. september 2019 fór matsnefnd eignarnámsbóta þess á leit við lögmann eignarnema, að eignarnemi veitti matsnefndinni upplýsingar um lengdarsnið fyrirhugaðrar veglínu þjóðvegarins, Hringvegar um Hornafjörð, sem sýndi hæð vegarins og hæð landsins. Með tölvubréfi lögmanns eignarnema sama dag bárust nefndinni umbeðnar upplýsingar.
Með tölvubréfi lögmanns Akurnesbúsins ehf. 29. september 2019 til matsnefndar eignarnámsbóta gerði Akurnesbúið ehf. tilkall til lands á milli vegstöðva 12200 og 12820, að undanskilinni landspildu á milli vegstöðva 12500 og 12600, sem Akurnesbúið kvað í eigu eignarnámsþola í máli þessu. Með tölvubréfi lögmanns eignarnámsþola 4. október 2019 var upplýst að eignarnámsþolar gerðu ekki athugasemdir við þetta.
Með tölvubréfi 4. október 2019 fór matsnefnd eignarnámsbóta þess á leit við eignarnema að hann uppfærði tilboð sitt til eignarnámsþola með tilliti til breytts eignarhalds á Hrísey og á landspildu milli vegstöðva 12200 og 12820. Með tölvubréfi lögmanns eignarnema 8. október 2019 til matsnefndar barst uppfært tilboð eignarnema. Með tölvubréfi lögmanns eignarnámsþola sama dag til matsnefndar voru gerðar athugasemdir við uppfært tilboð eignarnema vegna landspildu milli vegstöðva 12200 og 12480.
IV
Sjónarmið eignarnema:
Eignarnemi telur hæfilegar eignarnámsbætur til eignarnámsþola vera 30 krónur á fermetra, eða 300.000 krónur á hektara. Þannig nemur uppfært tilboð eignarnema 8. október 2019 vegna hlutdeildar eignarnámsþola í 112.286 fermetra landspildu í óskiptu landi Árnaness 1, 2, 3 og 4 auk Hríseyjar milli vegstöðva 9390 og 12200 800.037 krónum, til hvors eignarnámsþola. Tilboð eignarnema vegna hlutdeildar eignarnámsþola í 28.599 fermetra landspildu í óskiptu landi Árnaness 1, 2, 3 og 4 milli vegstöðva 12820 og 13527 nemur 203.767 krónum til hvors þeirra. Endanlegt tilboð eignarnema vegna hlutdeildar eignarnámsþola í 4.015 fermetra landspildu Árnaness 1 milli vegstöðva 12480 og 12600 nemur 60.225 krónum til hvors þeirra.
Við mat á bótum vísar eignarnemi til þess að litið hafi verið til samninga í hliðstæðum málum og upplýsinga um verð á landi við kaup og sölu jarða. Bendir eignarnemi á að mikill meirihluti eigenda jarða í Hornafirði hafi þegar samið við eignarnema á grundvelli áðurgreinds tilboðs. Í því samhengi vísar eignarnemi til kaupsamnings 15. desember 2014, þar sem eignarnámsþolar keyptu jörðina Árnanes 1, fastanúmer 2180034, af [...]. Vísar eignarnemi til þess að talið sé að stærð þeirrar jarðar sé á milli 2000 og 3000 hektarar og að það hektaraverð sé því margfalt lægra verð en það sem tilboð eignarnema til eignarnámsþola taki mið af. Telur eignarnemi að kaupsamningurinn gefi raunhæfa mynd af jarðaverði í Hornafirði. Loks bendir eignarnemi á að eignarnámið sé framkvæmt í þágu fyrirhugaðrar vegalagningar, sem komin hafi verið í skipulag sveitarfélagsins Hornafjarðar þegar eignarnámsþolar keyptu Árnanes 1 á grundvelli kaupsamningsins 15. desember 2014. Eignarnemi hafnar skýringu eignarnámsþola þess efnis að lágt verð kaupsamningsins skýrist af því að um vinargreiða hafi verið að ræða. Þá hafnar eignarnemi því að kaupsamningur um jörðina Lindarbakka, sem liggi fyrir í máli matsnefndar eignarnámsbóta nr. 8/2019, eigi við í þessu máli, þar sem ekki sé um hliðstæð landsvæði að ræða ásamt því að þar hafi aðstaða kaupsamningsaðila verið sérstæð.
Næst vísar eignarnemi til þess að fasteignamat matsandlagsins gefi nokkra vísbendingu um verðmæti þess, sbr. 27. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Nemi fasteignamat 2019 vegna 20,3 hektara ræktaðs lands Árnaness 1 2.120.000 krónum eða 104.433 krónum á hektara, fasteignamat 16,1 hektara ræktaðs lands Árnaness 2 1.665.000 krónum eða 103.416 krónum á hektara og fasteignamat 3,3 hektara ræktaðs lands Árnaness 4 330.000 krónum eða 100.000 krónum á hektara.
Um viðmiðunarverð vísar eignarnemi einnig til úrskurðar matsnefndar eignarnámsbóta 28. júlí 2009 í máli nr. 2/2009, þar sem bætur vegna landspildu úr landi Auðshaugs í Vesturbyggð voru ákveðnar 225.000 krónur á hektara, og 14. september 2012 í máli nr. 2/2012, þar sem bætur vegna landspildu úr landi Grænaness í Strandabyggð voru ákveðnar 250.000 krónur á hektara. Þá hafnar eignarnemi því að ákvörðun um fjárhæð eignarnámsbóta í úrskurði matsnefndarinnar 22. febrúar 2017 í máli nr. 1/2016, þar sem bætur voru ákveðnar 350.000 krónur á hektara vegna landspildu úr óskiptu landi Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi, og í úrskurði nefndarinnar 6. nóvember 2018 í máli nr. 1/2017, þar sem bætur voru ákveðnar 800.000 krónur á hektara vegna landspildu úr landi Torfastaða í Bláskógabyggð, eigi við um matsandlagið líkt og eignarnámsþolar halda fram í málinu, því ekki sé um sambærilegt land að ræða.
Eignarnemi hafnar því loks að sérfræðiálit Jóns Hólm Stefánssonar, löggilts fasteignasala, sem eignarnámsþolar reisa kröfugerð sína á, verði lagt til grundvallar við úrlausn málsins. Sérfræðiálitið hafi engin einkenni hlutlægs sérfræðiálits heldur beri fremur merki um munnlegan málflutning í þágu eignarnámsþola, umfjöllunin sé að mestu leyti almenn og að niðurstöður hans um verðmat og þar með kröfugerð eignarnámsþola sé engum gögnum studdar og standist þar með enga skoðun. Er kröfum eignarnámsþola mótmælt sem fráleitum.
Um landshætti matsandlagsins vísar eignarnemi til þess að samkvæmt lýsingu á gróðurfari jarða í fyrirhugaðri veglínu, sem unnin hafi verið fyrir eignarnema í ágúst 2019, einkennist landspildur í óskiptu landi annars vegar Árnaness 1, 2, 3 og 4 auk Hríseyjar (milli vegstöðva 9390 og 12200) og hins vegar Árnaness 1, 2, 3 og 4 (milli vegstöðva 12820 og 13527) af sjávarflæðagróðri, deiglendi, mýrlendi og litlum skika af flóa. Þá einkennist landspilda í landi Árnaness 1 (milli stöðva 12200 og 12820) af graslendi. Er það álit eignarnema að matsandlagið teljist því fremur rýrt að gæðum og að ekkert bendi til þess að það land, sem eignarnámsþolar haldi eftir, muni rýrna í verði vegna staðsetningar nýja vegarins.
Loks telur eignarnemi að ekkert bendi til þess að kartöflugarðar í landi eignarnámsþola séu í hættu vegna vegalagningarinnar og að krafa eignarnámsþolans Hjalta Egilssonar vegna stórkostlegs tjóns á kartöflurækt af völdum framkvæmdarinnar sé órökstudd og fráleit. Hið sama gildi um fuglalíf og æðarvarp á landi þeirra og að kröfur eignarnámsþola vegna þessa eigi sér enga stoð í raunveruleikanum og ætlað framtíðartjón sé fráleitt. Því til stuðnings vísar eignarnemi til matsskýrslu frá því í apríl 2009 vegna mats á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar. Telur eignarnemi að fullyrðingar eignarnámsþola um neikvæð áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar á landbúnað á jörðum þeirra, einkum kartöflurækt, vegna aukinnar flóðahættu og breytinga á hitastigi, séu í ósamræmi við matsskýrsluna og minnisblað sérfræðings eignarnema 10. október 2017 um mat á flóðum, sem fyrir liggi í málinu. Í matsskýrslunni hafi fullnægjandi grein verið gerð fyrir vatnafari á svæðinu, hönnun mannvirkja miðuð við það og að þrátt fyrir aftakaflóð á svæðinu haustið 2017 hafi forsendur matsskýrslu ekki breyst. Eignarnemi hafnar einnig fullyrðingum eignarnámsþola um að framkvæmdirnar muni hafa áhrif á æðarvarp í Hrafnsey og að líklegt sé að það leggist af með öllu. Hinn nýi vegur komi til með að liggja við útjaðar Hrafnseyjar, í matsskýrslunni vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar komi meðal annars fram að engar íslenskar rannsóknir séu til um áhrif vegalagningar á fuglalíf en að ljóst sé að áhrif bílaumferðar einnar séu fremur lítil. Vísar eignarnemi og til bréfs Náttúrufræðistofnunar Íslands 22. ágúst 2019 í þessu samhengi, sem eignarnemi hafi aflað. Þá mótmælir eignarnemi fullyrðingum eignarnámsþola um fjölda hreiðra í Hrafnsey sem ósönnuðum.
Í því samhengi bendir eignarnemi á lögbundið matsferli samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum sem eignarnemi hafi uppfyllt vegna fyrirhugaðrar vegalagningar og að um sé að ræða langt og strangt ferli þar sem fjöldi sérfræðinga komi að málum og þar séu leidd í ljós þau umhverfisáhrif sem talið sé að framkvæmd muni hafa í för með sér. Vísar eignarnemi því á bug málatilbúnaði eignarnámsþola um galla á áðurgreindu ferli og að umhverfisáhrif af framkvæmdinni verði önnur og meiri en getið sé um í matsskýrslunni, sbr. t.d. úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 20. nóvember 2017 í máli nr. 1/2017, þar sem málatilbúnaði þessa efnis hafi verið hafnað, og úrskurð nefndarinnar 13. nóvember 2017 í máli nr. 77/2017, þar sem hafnað hafi verið erindi eignarnámsþola um ógildingu á þeirri ákvörðun Skipulagsstofnunar 4. júlí 2016 að vísa frá beiðni um endurskoðun áðurgreindrar matsskýrslu vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar. Telur eignarnemi að matsskýrslan frá því í apríl 2009 sé í fullu gildi.
Að síðustu telur eignarnemi óhjákvæmilegt að við ákvörðun um málskostnað til handa eignarnámsþolum taki matsnefnd eignarnámsbóta tillit til þess að lögmenn þeirra reki auk þessa máls fimm hliðstæð mál fyrir nefndinni, þar sem málatilbúnaður sé að miklu leyti sá hinn sami.
V
Sjónarmið eignarnámsþola:
Af hálfu eignarnámsþola er þess krafist að eignarnámsbætur til handa eignarnámsþolanum Eiríki Egilssyni verði ákveðnar að lágmarki 260.784.582 krónur og til handa eignarnámsþolanum Hjalta Egilssyni að lágmarki 351.784.582 krónur.
Tekur kröfugerð eignarnámsþola mið af því að greiða beri bætur fyrir hið eignarnumda land, það er matsandlagið, en einnig áhrif fyrirhugaðs vegar á verðmæti annars landssvæðis í þeirra eigu. Árétta eignarnámsþolar í því samhengi að þeim beri fullt verð fyrir hin eignarnumdu verðmæti og að ekki eigi að fullu við hefðbundin sjónarmið skaðabótaréttar varðandi sönnun á skaðabótaskyldu tjóni. Hafi eignarnámsþolar uppfyllt sönnunarkröfur með málatilbúnaði sínum, áliti löggilts fasteignasala og öðrum framlögðum gögnum. Þá sé matsnefnd eignarnámsbóta sérstaklega skipuð til að ákvarða tjón í tilefni eignarnáms og búi nefndin yfir víðtækri sérþekkingu og á henni hvíli sjálfstæð rannsóknarskylda. Er töluleg kröfugerð eignarnámsþola reist á sérfræðiáliti Jóns Hólms Stefánssonar, löggilts fasteignasala, frá því í ágúst 2019, sem eignarnámsþoli aflaði. Verðmatið ber heitið „Hringvegur um Hornafjörð - leið 2, 3 og 3b. Áhrif vegagerðar 3b á verðgildi viðkomandi jarða.“ Í álitinu segir meðal annars að skoðað hafi verið fyrirhugað vegstæði, meðal annars um eignarlönd eignarnámsþola, svonefnd leið 3b, og hver áhrif þeirrar vegalagningar myndi hafa á verðgildi jarðanna. Er kröfugerð eignarnámsþola nánar sundurliðuð á svofelldan hátt:
Í fyrsta lagi krefjast eignarnámsþolar hvor fyrir sitt leyti 18.667.548 króna fyrir landspildu í óskiptu landi Árnaness 1, 2, 3 og 4 auk Hríseyjar (milli vegstöðva 9390 og 12200), 4.754.584 króna fyrir landspildu í óskiptu landi Árnaness 1, 2, 3 og 4 (milli vegstöðva 12820 og 13527) og 8.358.700 króna vegna landspildu Árnaness 1 milli vegstöðva 12200 og 12820, eða samtals 31.780.832 krónur til hvors eignarnámsþola. Er í öllum tilvikum miðað við að greiða skuli 700 krónur fyrir hvern fermetra í samræmi við niðurstöðu sérfræðiálitsins.
Í öðru lagi krefjast eignarnámsþolar hvor fyrir sitt leyti bóta að fjárhæð 225.128.750 krónur vegna annars lands sem þeir telja að missi verð- og notagildi sitt með öllu vegna vegarins samkvæmt sérfræðiálitinu. Um ræðir þrjár landspildur sjávarmegin veglínu, það er 130 hektara landspildu í óskiptu landi Árnaness 1, 2, 3 og 4 auk Hríseyjar (milli vegstöðva 9390 og 12200), 3,1 hektara landspildu í Hrafnsey sem heyrir undir óskipt land Árnaness 1, 2, 3 og 4 (milli vegstöðva 12820 og 13527) og 1,1 hektara landspildu Árnaness 1 (milli vegstöðva 12200 og 12820). Eru stærðarútreikningar þessir reistir á útreikningum lögmanna eignarnámsþola sem framkvæmdir voru með hjálp flatarmælis vefsíðunnar map.is. Eignarnámsþolar krefjast einnig bóta vegna verðrýrnunar á landsvæði í þeirra eigu norðan fyrirhugaðrar veglínu án þess að tilgreina krónutölu í því samhengi, heldur vísa þeir til niðurstöðu sérfræðiálitsins þess efnis að verðrýrnun þessa landsvæðis nemi 3.000.000 krónum á hektara og leggja fyrir matsnefnd eignarnámsbóta að meta þetta sérstaklega.
Um tvær ofangreindar kröfur styðjast eignarnámsþolar eins og áður greinir við sérfræðiálit löggilts fasteignasala, þar sem komist sé að niðurstöðu um að greiða beri eignarnámsbætur sem nemi 700 krónum á fermetra, eða 7.000.000 krónur á hektara fyrir þær landspildur sem fara undir fyrirhugaðan veg, svo og að greiða beri bætur sömu fjárhæðar fyrir allt land sjávarmegin veglínu sem yrði lítt nothæft vega vegalagningarinnar, með röksemdum sem nánar greinir í álitinu. Verðrýrnun á landi norðan veglínu er í álitinu talið nema 300 krónum á fermetra, eða 3.000.000 krónur á hektara. Um þetta segir meðal annars í álitinu að fyrirhuguð vegalagning eigi að koma sjávarmegin og neðan við bæjarhólinn í Árnanesi og þar sé einstakt útsýni og víðsýnt. Allt land sjávarmegin vegarins yrði lítt nothæft. Neðsti hluti jarðarinnar, ásamt eyjum úti fyrir, sé sem söluvara til útivistar og búsetu, miðað við dreifða frístundabyggð, í eftirsóttum og háum verðflokki. Land ofan vegarins yrði vart nothæft til bygginga vegna umferðarhávaða og sjónmengunar, í stað kyrrðar sem nú ríki þar. Um ræði skemmd á ósnortnum náttúruperlum, sem að óbreyttu séu dýrmætar hverjum þeim sem þær eigi, og að það sé ábyrgðarhluti að skemma slíkar náttúruperlur, einkanlega þegar sátt geti verið um aðrar útfærslur sem skili svipaðri niðurstöðu. Landsvæðið sé eftirsótt búsetusvæði enda mjög vel til fallið til hvers kyns landbúnaðar og afar eftirsótt af ferðamönnum umfram mörg önnur svæði hér á landi og nánar ekkert land sé til sölu á frjálsum markaði. Fram er komið af hálfu eignarnámsþola að í sérfræðiálitinu sé að finna niðurstöðu fagmanns um verðmat á hinu eignarnumda landi og öðrum áhrifum eignarnámsins, þ. á m. á það land sem eignarnámsþolar halda eftir, svo og að álitið staðfesti meðal annars að eignarnema hafi í reynd borið að taka stærra landsvæði eignarnámi en gert hafi verið.
Til viðbótar vísa eignarnámsþolar til þess að þeir hafi reynt að afla sér upplýsinga um söluverð hliðstæðra landareigna og ekki sé mikið um þær. Þeir vísa þó til munnlegra upplýsinga um kaupverð á [...] sem seld hafi verið [...] 2017 með 10,6 hektara af ræktuðu landi og muni kaupverð hafa numið um 80.000.000 krónum. Vísa eignarnámsþolar einnig til upplýsinga sem þeir hafi um sölu jarðarinnar Lindarbakka, þar sem 4 hektarar lands hafi verið seldir á 27.000.000 krónur. Þá hafna eignarnámsþolar því að unnt sé að miða fjárhæð eignarnámsbóta við áðurgreindan kaupsamning 15. desember 2014 um Árnanes 1. Mótmæla þeir því að eignarnámsþolar hafi umrætt sinn keypt 2000 til 3000 hektara land, líkt og greini í afsali fyrir eignina og haldið sé fram af hálfu eignarnema, heldur hafi þeir fest kaup á 73 hektara séreignarlandi. Þá skýrist lágt kaupverð af gagnkvæmum hagsmunum kaupsamningsaðila umrætt sinn. Loks mótmæla eignarnámsþolar því að fjárhæð eignarnámsbóta verði ákveðin með hliðsjón af þeim gömlu úrskurðum matsnefndar eignarnámsbóta sem skírskotað sé til af hálfu eignarnema, í málum nr. 2/2009 og 2/2012, og bendir á hinn bóginn á nýlegan úrskurð matsnefndarinnar 6. nóvember 2018 í máli nr. 1/2017, þar sem bætur voru ákveðnar 800.000 krónur á hektara vegna landspildu úr landi Torfastaða í Bláskógabyggð.
Í þriðja lagi krefst eignarnámsþolinn Hjalti Egilsson 91.000.000 króna vegna fyrirsjáanlegrar eyðileggingar á atvinnuhagsmunum sínum við kartöflurækt. Hér vísa eignarnámsþolar til álitsgerðar Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins 25. apríl 2019, sem þeir hafi aflað, um hvort og þá hvaða áhrif fyrirhuguð veglína kynni að hafa á þann landbúnað sem stundaður sé á áhrifasvæði vegarins og framtíðarmöguleika til frekari landnýtingar. Í álitsgerðinni greinir meðal annars að helstu neikvæðu áhrif vegleiðarinnar verði á kartöflugarða og ræktunarlönd fyrir neðan ármót Hoffellsár og Laxár og við Dilksnes og óljós sé hve ofarlega í landinu áhrifanna kunni að gæta en alls séu um 40 hektarar ræktaðir neðan ármótanna og vestan afleggjara í Árnanes 3. Þá muni sjávarföll hafa áhrif á ræktunarland sitthvoru megin við flugvöllinn og upp að brekkunum neðan Árnaness 5 og Seljavalla. Í álitsgerðinni er einnig meðal annars fjallað um þær aðstæður sem nauðsynlegar eru til kartöfluræktar og hví land eignarnámsþola sé einstakt að þessu leyti, svo og að um 15-20% af kartöfluuppskeru landsins komi frá Hornafirði og þar af leggi eignarnámsþolar til stærstan hlut. Hafi þeir náð að skapa sér mikla sérstöðu þar sem landsvæði þeirra sé oft fyrr tilbúið til ræktunar en önnur svæði á landinu. Telja eignarnámsþolar að verði fyrirhugaður vegur að veruleika séu verulegar líkur á því að grunnvatnsstaða hækki og að breytt grunnvatnsstaða, þótt ekki sé nema um fáeina sentímetra, geti haft gríðarleg áhrif. Styðjast þeir hér við niðurstöðukafla álitsgerðarinnar, þar sem segir:
Í ljósi þess að vegleið 3b mun auka tíðni flóða yfir og við kartöflugarða, áhrif vegna setflutninga eru óljós og möguleg áhrif á hitastig og myndun jarðklaka hafa ekki verið könnuð sérstaklega, má áætla að vegleið 3b geti haft neikvæð áhrif á þá kartöflurækt og annan þann landbúnað sem nú er stundaður á áhrifasvæði vegagerðarinnar. Mikil óvissa er um líkur eða tíðni þess að áhrifin muni valda uppskerubresti eða einungis valda uppskerurýrnun eða seinkun á uppskerutíma. Fjárhagstjónið getur orðið verulegt einkum í ljósi þeirrar fjárfestingar sem kartöflurækt í atvinnuskyni útheimtir. Þá mun vegleið 3b takmarka mjög framtíðarmöguleika þess að taka gott óræktað land til nýtingar.
Eignarnámsþolar benda enn fremur á þá hættu sem hærra vatnsborð grunnvatnsstöðu hafi í för með sér fyrir fyrir kartöfluræktina, að gríðarlegir fjármunir séu bundnir í kartöfluræktinni á Seljavöllum og mikil uppbygging átt sér stað undanfarin ár og að eignarnemi hafi ekki rannsakað vatnafar á svæðinu til hlítar. Tekur krafa eignarnámsþolans Hjalta vegna fyrirséðra áhrifa framkvæmdanna á kartöfluræktun og sölu mið af því að einn mánuður tapist á ársgrundvelli með tilkomu nýs vegar, reiknað sjö ár fram í tímann. Er miðað við sölu í júlímánuði 2019 samkvæmt fyrirliggjandi birgðayfirliti að fjárhæð 13.000.000 krónur.
Í fjórða lagi krefjast eignarnámsþolar hvor fyrir sitt leyti 2.375.000 króna vegna fyrirsjáanlegrar eyðileggingar á æðarvarpi í Hrafnsey. Vísa eignarnámsþolar til ódagsetts bréfs Náttúrufræðistofnunar Íslands frá því í lok ágúst 2019 í þessu samhengi, sem þeir hafi aflað. Þeir telja sýnt að fyrirhugað vegstæði, sem liggi um Hrafnsey, muni hafa áhrif á æðarvarpið, líklega þannig að það leggist af með öllu. Ekki sé rétt að veglínan liggi nálægt varpinu í eynni heldur sé veglínan beinlínis ofan í varpinu. Æðarvarp í eynni hafi aukist undanfarin ár og 2015 hafi um 50-60 hreiður verið á svæðinu en um 100 talsins vorið 2019 og fjöldinn aukist með hverju ári. Hafi eignarnámsþolar stundað dúntekju á svæðinu til sölu og framkvæmdin muni eyðileggja þá tekjumöguleika. Að virtu magni af hreinsuðum æðardún úr eynni árin 2016, 2017 og 2018 áætla eignarnámsþolar að afla mætti um 2 kg af hreinsuðum æðardún á ársgrundvelli og tekur krafa þeirra um bætur mið af því magni til næstu 25 ára miðað við 200.000 krónur fyrir hvert kg samkvæmt upplýsingum Æðarræktarfélags Íslands um meðalverð æðardúns, sem fyrir liggja í málinu. Loks sé bent á að æðarvarp í Hrafnsey hafi ekki verið rannsakað af hálfu Náttúrufræðistofnunar Íslands, en matsnefndin hafi á hinn bóginn kannað þar vettvang og rétt sé að eignarnámsþolar njóti vafans, eftir atvikum vegna ófullnægjandi rannsóknar, í niðurstöðu um þennan kröfulið.
Í fimmta lagi krefjast eignarnámsþolar hvor fyrir sitt leyti 1.000.000 króna vegna rasks og ónæðis á framkvæmdatíma. Fyrirhuguð framkvæmd muni taka nokkur ár miðað við fyrirliggjandi upplýsingar sem ljóst megi vera að valdi miklu raski og ónæði.
Að síðustu krefjast eignarnámsþolar málskostnaðar að skaðlausu úr hendi eignarnema, sem samkvæmt fyrirliggjandi málskostnaðaryfirliti nemur 9.550.041 krónu vegna lögfræðiþjónustu að meðtöldum virðisaukaskatti, 211.730 krónum vegna öflunar álitsgerðar Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins og 98.774 krónum vegna öflunar verðmats löggilts fasteignasala, samtals að fjárhæð 9.860.545 krónur. Málskostnaðaryfirlitið tekur ósundurgreint til vinnu vegna máls eignarnámsþola og fimm annarra mála sem lögmenn eignarnámsþola hafa rekið fyrir matsnefnd eignarnámsbóta, það er mála nr. 2/2019, 3/2019, 4/2019, 5/2019 og 7/2019, annar reikningurinn tekur ósundurgreint til vinnu vegna máls eignarnámsþola og eins þessara mála og hinn reikningurinn til vinnu vegna máls eignarnámsþola og fjögurra þessara mála. Krefjast eignarnámsþolar þess að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til umfangs málsins, þar sem fyrir liggi að eignarnemi hafi staðið í málarekstri gegn eignarnámsþolum um árabil.
VI
Niðurstaða matsnefndar:
Eignarnám á landspildum eignarnámsþola er til komið á grundvelli 37. gr. vegalaga í þágu framkvæmda við nýbyggingu þjóðvegar, Hringvegar um Hornafjörð, á um 18 km löngum kafla. Um ræðir vegalagningu frá Hólmi vestan Hornafjarðarfljóts, sem liggur sunnan Stórabóls, í suðurenda Skógeyjar, í norðurhluta Hríseyjar og Hrafnseyjar, sunnan Hafnarness, að núverandi Hafnarvegi. Þaðan liggur veglínan norðan við Flóa að núverandi vegi vestan Míganda allt til Haga. Núverandi vegstæði austan Haga verður á hinn bóginn endurbyggt allt til vegmarka endurnýjaðs vegar sem liggur að göngum í Almannaskarði. Af hálfu eignarnema er fram komið að framkvæmdin sé liður í að bæta umferðaröryggi á þjóðvegi, það er Hringvegi um Hornafjörð, og að vegurinn verði 8 metra breiður með bundnu slitlagi og öryggissvæði meðfram vegi þar sem því verði við komið, en vegrið þess utan, svo og að nýjar brýr yfir Djúpá, Hornafjarðarfljót, Hoffellsá og Bergá verði 9 metrar að breidd.
Samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 verður eignarnámi ekki við komið nema almenningsþörf krefji og þurfi til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 sker matsnefnd eignarnámsbóta úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald, sem ákveða á samkvæmt lögunum.
Í réttarframkvæmd hefur sú meginregla verið talin gilda við ákvörðun fjárhæðar eignarnámsbóta að miða beri bætur við sölu- og markaðsvirði eignar, nema útreikningur á grundvelli notagildis eignar leiði á hinn bóginn til hærri niðurstöðu en ætlað sölu- eða markaðsverð, svo og að í undantekningartilvikum geti eignarnámsþoli átt rétt á bótum sem ákvarðaðar eru á grundvelli enduröflunarverðs, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar 18. október 2012 í máli nr. 233/2011 og 10. apríl 2014 í máli nr. 802/2013. Með sölu- eða markaðsvirði eignar er átt við það verð sem ætla má að fengist fyrir eignina við sölu hennar. Þegar bætur eru ákveðnar á grundvelli notagildis er leitast við að staðreyna þann líklega arð sem eignin getur gefið af sér á ársgrundvelli að teknu tilliti til endingartíma og vaxta. Þá koma bætur á grundvelli enduröflunarverðs aðeins til greina í undantekningartilvikum, t.d. þeim sjaldgæfu tilvikum þegar svo hagar til að eignarnámsþola er skylt vegna fyrirmæla í lögum að halda áfram tiltekinni starfsemi sem hann hefur stundað á þeirri eign sem hann hefur verið sviptur.
Matsnefnd eignarnámsbóta fór á vettvang 25. júní 2019 ásamt lögmönnum aðila og eignarnámsþolum og kynnti sér aðstæður. Eignarnámið tekur til áðurgreindra þriggja landspildna, þar sem um ræðir 112.286 fermetra landspildu í óskiptu landi Árnaness 1, 2, 3 og 4 auk Hríseyjar (milli vegstöðva 9390 og 12200) og 28.599 fermetra landspildu í óskiptu landi Árnaness 1, 2, 3 og 4 (milli vegstöðva 12820 og 13527), sem samkvæmt gögnum málsins einkennast báðar af sjávarflæðagróðri, deiglendi, mýrlendi og litlum skika af flóa, svo og 4.015 fermetra landspildu Árnaness 1 (milli vegstöðva 12480 og 12600) sem samkvæmt gögnum málsins einkennist af graslendi. Vettvangsathugun leiddi í ljós gróðursælt en fjölbreytt landslag fyrir landi eignarnámsþola, þ. á m. beitiland, ræktað land og eyjur.
Er stærð og hlutdeild eignarnámsþola í landspildunum þremur lýst hér á undan og óumdeild, að undanskilinni eignarhlutdeild þeirra í Hrísey. Undir meðferð málsins fyrir matsnefnd eignarnámsbóta kom upp ágreiningur um eignarhlutdeild eignarnámsþola í Hrísey. Af hálfu eignarnema var því haldið fram að eignarhald Hríseyjar væri á hendi Akurnesbúsins ehf., gegn staðhæfingum eignarnámsþola þess efnis að þeir eigi þar 47,5% eignarhluta, Akurnesbúið ehf. jafnstóran hluta og Ásgeir Núpan Ágústsson 5% eignarhluta. Í málflutningi lögmanns eignarnámsþola fyrir matsnefndinni kom meðal annars fram að lögmaður Akurnesbúsins ehf. gæti staðfest að eignarhlutföll Hríseyjar skiptust með þeim hætti sem haldið væri fram af hálfu eignarnámsþola, svo og að þetta atriði hefði ekki sjálfstæða þýðingu fyrir eignarnema því einu lögfylgjur þess væru að fjárhæð eignarnámsbóta fyrir Hrísey myndi skiptast á annan veg en eignarnemi hefði ráðgert. Eignarnemi samþykkti þetta fyrir sitt leyti, að því gefnu að unnt væri að staðfesta slíka tilhögun eignarhalds á Hrísey. Undir meðferð máls nr. 8/2019 fyrir matsnefndinni var fallist á hlutföllin svo breytt af hálfu Akurnesbúsins ehf. og verður þannig lagt til grundvallar að eignarnámsþolar eigi 47,5% eignarhlutdeild í Hrísey. Um tilkall Akurnesbúsins ehf. 29. september 2019 til lands á milli vegstöðva 12200 og 12820, að undanskilinni landspildu milli vegstöðva 12500 og 12600, sem Akurnesbúið ehf. kveður vera í eigu eignarnámsþola í máli þessu, er til þess að líta að eignarnámsþolar samþykktu svo breytta tilhögun eignarhalds með tölvubréfi 4. október 2019. Matsnefndinni barst 8. október 2019 uppfært tilboð eignarnema um bætur til handa eignarnámsþolum að teknu tilliti til áðurgreindra breytinga á eignarhaldi. Þar er miðað við, í samræmi við upplýsingar úr fasteignaskrá, að eignarnámsþolar eigi land á milli vegstöðva 12480 og 12600, en að Akurnesbúið ehf. eigi land á milli vegstöðva 12200 og 12480 og vegstöðva 12600 og 12820. Sama dag mótmæltu eignarnámsþolar á hinn bóginn eignartilkalli Akurnesbúsins ehf. til landspildu á milli vegstöðva 12200 og 12480, sem þeir kveða nú í sameign. Verður þannig lagt til grundvallar að eignarnámsþolar eigi land á milli vegstöðva 12480 og 12600. Úr ágreiningi um fjárhæð eignarnámsbóta vegna landspildu á milli vegstöðva 12200 og 12480 og vegstöðva 12600 og 12820 er á hinn bóginn leyst í úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta í máli nr. 8/2019, sem kveðinn er upp í dag.
Við úrlausn máls þessa er til þess að líta að miða ber eignarnámsbætur við sölu- og markaðsvirði eignar, nema sérstakar ástæður standi til þess að reikna bætur á grundvelli notagildis eða enduröflunarverðs. Engar slíkar röksemdir liggja fyrir í málinu, að undanskildum kröfum eignarnámsþola um bætur vegna ætlaðs tjóns á atvinnuhagsmunum þeirra í formi kartöfluræktar og æðarvarps. Með sölu- eða markaðsvirði er eins og áður greinir átt við það verð sem ætla má að fengist fyrir eignina við sölu hennar. Þótt fyrir matsnefndinni liggi upplýsingar um stöku kaupsamning á landspildum í og við Hornafjörð, þar sem land eignarnámsþola er staðsett, er það álit nefndarinnar að ekki sé fyrir að fara virkum markaði um kaup og sölu lands á svæðinu. Verður niðurstaða um eignarnámsbætur á grundvelli markaðsverðs matsandlagsins því reist á heildstæðu mati, þar sem meðal annars er höfð hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum, þeim sjónarmiðum sem greinir í 27. gr. laga nr. 6/2001 með síðari breytingum, úrskurðum matsnefndarinnar sjálfrar í hliðstæðum málum og sérþekkingu sem nefndin býr yfir.
Í fyrsta lagi þarf að ákveða fjárhæð eignarnámsbóta til handa eignarnámsþolum fyrir þær landspildur sem fara undir nýtt vegstæði. Telur matsnefndin að tilboð eignarnema, 30 krónur á fermetra, gefi ekki raunhæfa mynd af verðmæti landsins. Þá álítur matsnefndin að verðmat það sem eignarnámsþolar lögðu fram og miðar við 700 krónur á fermetra gefi heldur ekki rétta mynd af verðmæti þess. Matsnefndin telur rétt að miða við að verðmæti landsvæðis austan Hornafjarðarfljóts nemi 60 krónum á fermetra eða 600.000 krónum á hektara. Er þá til þess að líta að landsvæðið sem um ræðir er á suðausturhorni landsins, í grennd við þéttbýliskjarna á Höfn í Hornafirði, það er gróðursælt og býr yfir náttúrufegurð, ásamt því að búa orðið við aukinn fjölda ferðamanna. Þá telur nefndin rök ekki standa til þess að gera greinarmun á verðmæti einstakra landspildna austan fljótsins. Fyrir 112.286 fermetra landspildu í óskiptu landi Árnaness 1, 2, 3 og 4 auk Hríseyjar (milli vegstöðva 9390 og 12200) þykja hæfilegar eignarnámsbætur þannig vera 3.200.151 króna (112.286x0,475x60). Fyrir 28.599 fermetra landspildu í óskiptu landi Árnaness 1, 2, 3 og 4 (milli vegstöðva 12820 og 13527) þykja hæfilegar eignarnámsbætur vera 815.072 krónur (28.599x0,475x60). Fyrir 4.015 fermetra landspildu Árnaness 1 (milli vegstöðva 12480 og 12600) þykja hæfilegar eignarnámsbætur vera 240.900 krónur (4.015x60). Samtals eru eignarnámsbætur vegna þessa þáttar 4.256.123 krónur, eða 2.128.062 krónur til hvors eignarnámsþola.
Í öðru lagi er það álit matsnefndarinnar að eignarnámsþolum beri bætur fyrir þau fjárhagslegu áhrif sem nýtt vegstæði hefur á það land sem eignarnámsþolar halda eftir, það er verðrýrnun þar sem vegurinn skiptir landspildunum þannig að óhagræði hlýst af, án þess þó að til álita komi að beita heimildum 12. gr. laga nr. 11/1973. Matsnefndin telur rétt að miða verðrýrnun þessa við helming fermetraverðs vegna hins eignarnumda lands, það er 30 krónur á fermetra eða 300.000 krónur á hektara. Er það álit nefndarinnar að nýr vegur skipti landi eignarnámsþola á þann veg að verðrýrnun verði á landi sjávarmegin vegar sem nemi 130 hekturum í óskiptu landi Árnaness 1, 2, 3 og 4 auk Hríseyjar (milli vegstöðva 9390 og 12200), 3,1 hektara í óskiptu landi Árnaness 1, 2, 3 og 4 (milli vegstöðva 12820 og 13527) og 1,1 hektara í landi Árnaness 1 (milli vegstöðva 12480 og 12600). Hæfilegar eignarnámsbætur vegna áðurgreindra landspildna sjávarmegin vegar sem eignarnámsþolar halda eftir, í sömu röð og þar greinir, þykja vera 18.525.000 krónur (130x0,475x300), 441.750 krónur (3,1x0,475x300) og 330.000 krónur (1,1x300). Er stærð þessara landspildna reist á mælingum matsnefndarinnar, sem í aðalatriðum fer saman við þær mælingar lögmanna eignarnámsþola sem tilgreindar eru í kröfugerð þeirra fyrir nefndinni. Samtals eru eignarnámsbætur vegna þessa þáttar 19.296.750 krónur, eða 9.648.375 krónur til hvors eignarnámsþola. Er kröfu eignarnámsþola um bætur fyrir ætluð fjárhagsleg áhrif, sem nýtt vegstæði hefði á annað það land sem þeir halda eftir, hafnað sem tilhæfulausri.
Í þriðja lagi er það álit matsnefndarinnar að til komi rask og ónæði vegna umsvifa eignarnema á framkvæmdatíma. Bætur vegna þessa þykja hæfilega ákveðnar 1.000.000 krónur, eða 500.000 krónur til hvors eignarnámsþola.
Af hálfu eignarnámsþolans Hjalta Egilssonar er þess einnig krafist að honum verði úrskurðaðar bætur vegna fyrirsjáanlegrar eyðileggingar á atvinnuhagsmunum sínum við kartöflurækt og báðir krefjast eignarnámsþolar bóta vegna fyrirsjáanlegrar eyðileggingar á æðarvarpi í Hrafnsey.
Hvað fyrri kröfuna varðar er til þess að líta að á vegum eignarnema fór fram mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar vegaframkvæmdar í Hornafirði, þ. á m. á vatnafari. Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 13. nóvember 2017 í máli nr. 77/2017 var hafnað erindi eignarnámsþola um ógildingu á þeirri ákvörðun Skipulagsstofnunar 4. júlí 2016 að vísa frá beiðni um endurskoðun áðurgreindrar matsskýrslu vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar. Samkvæmt álitsgerð Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins 25. apríl 2019, um áhrif á ræktað og ræktanlegt land vegna fyrirhugaðrar vegleiðar í Hornafirði, sem eignarnámsþolar hafa aflað og liggur fyrir í gögnum málsins, er mikil óvissa um líkur eða tíðni þess að áætluð neikvæð áhrif vegaframkvæmdarinnar, á þá kartöflurækt og annan landbúnað sem nú er stundaður á áhrifasvæði vegleiðarinnar, muni valda uppskerubresti, uppskerurýrnun eða seinkun á uppskerutíma. Það er álit matsnefndarinnar að óvissan um áhrif vegalagningarinnar á þessa þætti sé slík að ekki sé að svo stöddu unnt að ákveða eignarnámsbætur fyrir ætlað framtíðartjón af þessum völdum, líkt og eignarnámsþolinn Hjalti Egilsson hefur krafist. Hefur matsnefndin þá meðal annars í huga heimildir 16. gr. laga nr. 11/1973 til endurupptöku bótaákvörðunar. Er þessari kröfu eignarnámsþolans því hafnað.
Hvað síðari kröfuna varðar er til þess að líta að eignarnámsþolar munu á síðustu árum hafa lagt rækt við æðarvarp í Hrafnsey, sem heyrir undir eignarhluta þeirra í landspildu í óskiptu landi Árnaness 1, 2, 3 og 4 (milli vegstöðva 12820 og 13527) með það fyrir augum að skapa sér atvinnuhagsmuni til framtíðar. Hafi æðarvarp í eynni aukist með ári hverju og hafi hreiður verið um 50-60 talsins árið 2015 en verið um 100 talsins vorið 2019. Samkvæmt gögnum málsins hafa eignarnámsþolar ekki enn haft neinar tekjur af æðarvarpinu, því þeir hafa ekki selt þann æðardún sem safnað hefur verið á liðnum árum. Hafa eignarnámsþolar á hinn bóginn lagt fram og miðað kröfu sína um eignarnámsbætur, fyrir ætlað tjón af völdum fyrirhugaðs eignarnáms á varplendið og möguleika til æðarræktar fyrir landi sínu, við meðalverð æðardúns samkvæmt upplýsingum frá Æðarræktarfélagi Íslands. Í gögnum málsins liggja fyrir álit Náttúrufræðistofnunar Íslands 22. ágúst 2019, sem eignarnemi aflaði, ódagsett álit sömu stofnunar frá því í ágúst 2019, sem eignarnámsþoli aflaði, og tölvubréf formanns Æðarræktarfélags Íslands 10. september 2019, sem matsnefnd eignarnámsbóta aflaði eftir beiðni eignarnámsþola. Í áliti náttúrufræðistofnunar 22. ágúst 2019 greinir meðal annars að fullyrða megi að fyrirhuguð vegalagning og mikil bílaumferð um nýjan veg í framtíðinni þurfi ekki að standa æðarvarpi í Hrafnsey fyrir þrifum að gefnum nánar tilgreindum forsendum, það er að girt sé milli vegar og eyjar og þannig tryggt að óviðkomandi umferð gangandi fólks sé ekki möguleg, að öll æðarvörp á fastalandi Íslands séu í nánu sambýli við manninn, að litlar líkur séu á því að vegalagningin muni hafa áhrif á æðarvarpið til hins verra sé tryggt að óviðkomandi hafi ekki greiðan aðgang að varpinu, svo og að byggja megi upp varplendi og hafa áhrif á hvar fuglar hreiðra um sig í eynni. Í áliti sömu stofnunar, sem eignarnámsþolar öfluðu, voru áðurgreint sjónarmið álitisins 22. ágúst 2019 áréttuð en jafnframt tiltekið að stofnunin hefði ekki rannsakað æðarvarp í Hrafnsey. Í bréfi æðarræktarfélagsins til matsnefndarinnar var vísað til þess að félagið hefði ekki yfir að ráða upplýsingum um áhrif vegalagningar á æðarvarp heldur almennum sjónarmiðum um áhrif umferðar á æðarfugl á varptíma og í undirbúningi varps og meðal annars tilgreint að útilokun umferðar um og við varpsvæði væri einn af þeim meginþáttum sem hefðu úrslitaáhrif á vöxt og viðgang æðarvarps og að á þessum sjónarmiðum væri byggt í reglugerð nr. 252/1996 um friðun tiltekinna villtra fuglategunda, friðlýsingu æðarvarps, fuglamerkingar, hamskurð o.fl. Þar segir einnig meðal annars að aðstæður og útfærsla framkvæmda á hverjum stað ráði miklu um þau áhrif sem vegalagning geti haft á æðarvarp, að vegalagning geti valdið tjóni á æðarvarpi en það sé líka brýnt að þar sem vegur sé lagður sé tekið tillit til varpsstöðva, t.d. með því að tryggja að áningastaðir séu ekki fyrirhugaðir í nágrenni þeirra, svo og að nýtt séu ýmis úrræði í umferðarlögum á borð við óbrotnar línur eða merki um að óheimilt sé að stöðva bíla, ásamt því að friðlýsing æðarvarpa veiti vernd. Þótt réttur eignarnámsþola til eignarnámsbóta sé ekki takmarkaður við tjón á verðmætum landgæðum sem þeir hafa þegar byrjað að hagnýta, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar 21. júní 1955 í máli nr. 51/1955 sem birtur er í dómasafni réttarins á bls. 431 og 18. október 2012 í máli nr. 233/2011, verða eignarnámsbætur einungis ákveðnar fyrir fjárhagslegt tjón eignarnámsþola á grundvelli sjónarmiða skaðabótaréttar sem í því samhengi áskilja að lágmarki sönnun um tjón, fjárhæð þess og orsakatengsl milli tjónsins og eignarnámsins. Eins og áður greinir liggja ekki fyrir fjárhagsupplýsingar um tekjur eignarnámsþola af æðarvarpi í Hrafnsey. Þá er samkvæmt upplýsingum frá Náttúrufræðistofnun Íslands og Æðarræktarfélagi Íslands ófært að fullyrða að fyrirhuguð vegalagning muni koma í veg fyrir æðarvarp í Hrafnsey og þar með valda tjóni á slíkum atvinnuhagsmunum eignarnámsþola í framtíðinni. Er þessari kröfu eignarnámsþola því einnig hafnað.
Í síðari málslið 11. gr. laga nr. 11/1973 segir að eignarnemi skuli greiða eignarnámsþola endurgjald vegna þess kostnaðar, sem eignarnámsþoli hefur haft af rekstri matsmáls og hæfilegur verður talinn. Í málinu hefur af hálfu eignarnámsþola verið lagt fram sameiginlegt málskostnaðaryfirlit vegna lögfræðiráðgjafar í þágu eignarnámsþola í þessu máli og eignarnámsþola í fimm öðrum málum sem rekin eru fyrir matsnefnd eignarnámsbóta, málum nr. 2/2019, 3/2019, 4/2019, 5/2019 og 7/2019, vegna fyrirhugaðrar vegalagningar um Hornafjörð. Af málskostnaðaryfirlitinu verður ráðið að kostnaðurinn féll að hluta til vegna ráðgjafar sem eignarnámsþolar nutu um tíma áður en til samningaviðræðna um matsandlagið og ákvörðun um eignarnám lágu fyrir, allt frá 31. mars 2016 að telja, en yfirlitið tekur t.d. til hagsmunagæslu fyrir skipulagsyfirvöldum og úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, þ. á m. vegna mats á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar vegalagningar. Þessi kostnaður eignarnámsþola verður ekki í heild sinni talinn til kostnaðar við rekstur matsmáls samkvæmt lögum nr. 11/1973, svo sem áskilið er í síðari málslið 11. gr. þeirra. Á hinn bóginn er til þess að líta að samkvæmt lögum nr. 11/1973 er það matsnefndarinnar að tryggja að réttur manna samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar verði raunhæfur og virkur. Þá er til þess að líta að samkvæmt gögnum málsins áttu fyrstu bréflegu samskipti málsaðila sér stað með bréfi eignarnema 29. febrúar 2016 til eignarnámsþola og að eignarnemi hafi fyrst boðið fram bætur til handa eignarnámsþolum með bréfi 6. júlí 2016. Verður hæfilegt endurgjald til handa eignarnámsþolum í þessu máli þannig ákveðið að álitum, þ. á m. að teknu tilliti til reikninga vegna útlags kostnaðar við öflun álitsgerðar Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins, sem aflað var sameiginlega að beiðni eignarnámsþola í þessu máli og máli nr. 3/2019 vegna Dilksness, og sérfræðiálits fasteignasala, sem aflað var sameiginlega að beiðni eignarnámsþola í þessu máli og málum nr. 3/2019, 4/2019, 5/2019 og 7/2019 vegna Dilksness, Hjarðarness, Skarðshóla og Árnaness 4, samkvæmt reikningum sem lagðir voru fram fyrir matsnefndinni 26. ágúst 2019, svo og með hliðsjón af því að lögmenn eignarnámsþola hafa samkvæmt áðurgreindu rekið fimm önnur mál fyrir matsnefnd eignarnámsbóta vegna eignarnáms á landi í þágu sömu framkvæmdar eignarnema.
Með hliðsjón af áðurgreindu þykja hæfilegar eignarnámsbætur samtals vera 24.552.873 krónur, eða 12.276.437 krónur til hvors eignarnámsþola. Eignarnemi skal greiða eignarnámsþolum óskipt 1.615.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskatt, í kostnað vegna reksturs máls þessa fyrir nefndinni eins og greinir í úrskurðarorði.
Þá skal eignarnemi greiða 1.050.000 krónur í ríkissjóð vegna starfa matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.
ÚRSKURÐARORÐ:
Eignarnemi, Vegagerðin, skal greiða 24.552.873 krónur í eignarnámsbætur í máli þessu, eða 12.276.437 krónur til hvors eignarnámsþola, og eignarnámsþolum, Hjalta Egilssyni og Eiríki Egilssyni, samtals 1.615.000 krónur í málskostnað.
Þá skal eignarnemi greiða 1.050.000 krónur í ríkissjóð vegna kostnaðar við matsnefnd eignarnámsbóta í máli þessu.