Hoppa yfir valmynd

Nr. 316/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 24. september 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 316/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20060038

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 24. júní 2020 kærði […], fd. […], ríkisborgari Sómalíu (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. júní 2020, um að synja kæranda um fjölskyldusameiningu á grundvelli 3. mgr. 45. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir Útlendingastofnun að taka mál hennar til nýrrar meðferðar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins var […] (hér eftir M) veitt alþjóðleg vernd hér á landi þann […]. Kærandi lagði fram umsókn um dvalarleyfi þann [...] en í umsókninni kom fram að hún leitaðist eftir því að sameinast M hér á landi. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. júní 2020, var umsókn kæranda synjað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála, þann 24. júní 2020, og barst kærunefnd greinargerð kæranda þann 9. júlí 2020.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að samkvæmt 3. mgr. 45. gr. laga um útlendinga eigi foreldrar barns yngra en 18 ára sem nýtur alþjóðlegrar verndar jafnframt rétt til verndar. Þá njóti þessa réttar systkini barnsins sem eru yngri en 18 ára. Ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja kæranda um fjölskyldusameiningu var byggð á því að kærandi hafi verið orðin 18 ára þegar umsókn hennar um fjölskyldusameiningu hafi borist stofnuninni. Af þeim sökum eigi M ekki rétt á fjölskyldusameiningu samkvæmt ákvæðinu.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að [...], M, hafi verið birt ákvörðun Útlendingastofnunar um veitingu alþjóðlegrar verndar hér á landi þann [...]. Þá hafi M lagt fram umsókn um fjölskyldusameiningu fyrir kæranda, móður þeirra og systkini þann [...], daginn sem [...] kærandi hafi náð 18 ára aldri. Krafa kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar sé byggð á því að hún sé í andstöðu við tilgang og markmið 2. mgr. 4. gr. laga um útlendinga. Þá hafi málsmeðferðartími í máli M dregist úr hófi fram og Útlendingastofnun ekki fylgt ákvæðum 29. gr. laga um útlendinga. Byggir kærandi jafnframt á því að í hinni kærðu ákvörðun felist brot á meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sem lögfest sé í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, auk þess sem stjórnvöld hafi ekki fullnægt leiðbeiningarskyldu sinni við vinnslu málsins, sbr. 7 gr. stjórnsýslulaga.

Kærandi gerir í greinargerð athugasemd við lengd málsmeðferðar M og vísar m.a. til þess að þrátt fyrir að Útlendingastofnun hafi komist að þeirri niðurstöðu að hann væri yngri en 18 ára hafi mál hans ekki verið fært í forgangsmeðferð, sbr. a-lið 1. mgr. 29. gr. laga um útlendinga. M hafi sótt um alþjóðlega vernd þann 9. ágúst 2019 og þann 11. og 17. september s.á. hafi talsmanni M borist tölvupóstar þar sem fram hafi komið niðurstaða stofnunarinnar um mat á aldri hans og að málið færi í efnismeðferð. Þann 21. janúar 2020 hafi talsmaður M óskað eftir því að birtingu í máli hans yrði flýtt þar sem hann hefði fundið móður sína og fjölskyldu og legði mikla áherslu á að sækja um fjölskyldusameiningu áður en hann yrði 18 ára. Telur kærandi að ekki verði séð hvers vegna afgreiðsla umsóknar M hafi tekið rúma sex mánuði, einkum þegar litið sé til þess að einungis mánuði eftir að M hafi sótt um alþjóðlega vernd hafi niðurstaða stofnunarinnar legið fyrir um aldur hans. Þá telji kærandi að aldrei hafi komið til skoðunar hjá Útlendingastofnun að synja M um alþjóðlega vernd og ekki hafi verið talið þörf á að talsmaður M skilaði inn greinargerð eða frekari gögnum umsókninni til stuðnings.

Í greinargerð kæranda kemur fram að eftir að ákvörðun Útlendingastofnunar um að veita M alþjóðlega vernd hafi verið birt honum hafi talsmaður hans átt samtal við fulltrúa stofnunarinnar varðandi umsókn um fjölskyldusameiningu. Hafi fulltrúinn fullvissað talsmann um að jafnvel þó að umsóknin bærist eftir að M yrði 18 ára kæmi það ekki að sök og hafi hann vísað til úrskurðar kærunefndar útlendingamála nr. 24/2020, frá 23. janúar 2020 í stjórnsýslumáli KNU19100037. Telur kærandi að af úrskurðinum verði ekki annað ráðið en að réttur til fjölskyldusameiningar miðist við það tímamark þegar fylgdarlausu barni sé veitt alþjóðleg vernd. Óumdeilt sé í málinu að þann [...] hafi [...] kærandi [...] verið yngri en 18 ára og hafi því átt rétt á fjölskyldusameiningu þrátt fyrir að umsóknin hafi verið lögð fram á 18 ára afmælisdegi [...]. Hafi [...] ekki verið leiðbeint um réttaráhrif þess að umsókn um fjölskyldusameining yrði skilað á 18 ára afmælisdegi [...] og áréttar að umsóknin hafi verið lögð fram í eðlilegu framhaldi af veitingu alþjóðlegrar verndar M.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hafi samkvæmt umsókn rétt til að fá hér alþjóðlega vernd. Mælt er fyrir um réttaráhrif alþjóðlegrar verndar í 45. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt 2. mgr. 45. gr. á maki eða sambúðarmaki einstaklings sem nýtur alþjóðlegrar verndar einnig rétt á alþjóðlegri vernd nema sérstakar ástæður mæli því í mót. Í 3. mgr. ákvæðisins kemur fram að njóti barn yngra en 18 ára alþjóðlegrar verndar samkvæmt IV. kafla laga um útlendinga þá eigi foreldrar þess jafnframt rétt til verndar enda þyki sýnt að þeir hafi farið með forsjá barnsins og hyggist búa með barninu hér á landi. Þá er kveðið á um að systkini barnsins sem séu yngri en 18 ára, sem séu án maka og búi hjá foreldrunum eða foreldrinu, njóti einnig þessa réttar.

Umsókn kæranda um fjölskyldusameiningu var synjað af Útlendingastofnun á þeim grundvelli að hún hafi ekki uppfyllt skilyrði 3. mgr. 45. gr. laga um útlendinga þar sem hún hafi verið orðin 18 ára þegar umsóknin hafi borist Útlendingastofnun, en hún hafi náð 18 ára aldri daginn sem hún hafi lagt umsóknina fram. Af hálfu kæranda er byggt á því að við túlkun á ákvæði 3. mgr. 45. gr. laga um útlendinga verði að horfa til aldurs þess sem sameiningin beinist að á þeim degi sem verndin var veitt. Þar sem M hafi verið barn að aldri þegar hann hafi hlotið alþjóðlega vernd hér á landi eigi kærandi rétt á því að sameinast honum þrátt fyrir að umsókn um fjölskyldusameiningu hafi borist Útlendingastofnun á 18 ára afmælisdegi hennar. Hafi umsóknin verið lögð fram innan eðlilegs tíma frá því að M hafi verið veitt alþjóðleg vernd.

Í máli þessu reynir á túlkun á fyrrnefndu ákvæði 3. mgr. 45. gr. laga um útlendinga, sem mælir fyrir um rétt til fjölskyldusameiningar við barn yngra en 18 ára sem nýtur alþjóðlegrar verndar. Að mati kærunefndar ber orðalag ákvæðisins með sér að það geti bæði átt við þær aðstæður þar sem barni, sem kemur með foreldrum eða öðru foreldri sínu til lands, er veitt alþjóðleg vernd, sem og aðstæður þar sem barni, sem kemur hingað til lands fylgdarlaust, er veitt alþjóðleg vernd hér á landi. Ljóst er að M kom hingað til lands einn síns liðs og var umsókn hans afgreidd á þeim grundvelli að hann væri fylgdarlaust barn. Varðar umsókn kæranda því rétt til fjölskyldusameiningar við einstakling sem kom hingað til lands sem fylgdarlaust barn og hafði slíka stöðu við meðferð umsóknar um alþjóðlega vernd. Ljóst er að börn sem koma hingað til lands og sækja um alþjóðlega vernd, án þess að vera í fylgd foreldra sinna eða annarra fjölskyldumeðlima, eru í afar viðkvæmri stöðu og hafa ríka hagsmuni af því geta sameinast fjölskyldu sinni hér á landi ef fallist er á umsókn þeirra um alþjóðlega vernd.

Í athugasemdum við 3. mgr. 45. gr. í frumvarpi til laga um útlendinga kemur fram að systkini, sem eru yngri en 18 ára og búa með foreldrum sínum eða því foreldri sem mun fá alþjóðlega vernd hér á landi, geti einnig átt rétt til verndar hér á landi. Þá hnígi veigamikil rök til þess að heimila börnum sem veitt hefur verið alþjóðleg vernd að sameinast fjölskyldum sínum eins og unnt er. Kærunefnd telur, að teknu tilliti til stöðu M við meðferð máls hans og þeirra hagsmuna sem fylgdarlaus börn hafa af því að sameinast fjölskyldu sinni í framhaldi af veitingu alþjóðlegrar verndar, að túlka beri ákvæði 3. mgr. 45. gr. laga um útlendinga þannig að það veiti þeim sem ákvæðið vísar til rétt til alþjóðlegrar verndar hafi því barni sem um ræðir verið veitt vernd áður en það náði 18 ára aldri. Að mati kærunefndar, og með vísan til orðalags ákvæðisins og þeirra hagsmuna sem mál þetta tekur til, missa þeir einstaklingar sem ákvæðið vísar til ekki þennan rétt þegar sá einstaklingur sem þau byggja rétt sinn á nær 18 ára aldri, svo framarlega sem umsókn um fjölskyldusameiningu samkvæmt ákvæðinu er lögð fram í eðlilegu framhaldi af veitingu alþjóðlegar verndar. Við mat á því hvað telst eðlilegt framhald telur kærunefnd að líta verði til hversu erfitt sé að hafa uppi á foreldrum eða systkinum þess sem hlaut vernd og þess tíma sem það tekur að afla nauðsynlegra gagna til undirbúnings umsóknar.

 Gögn málsins bera með sér að vinna við umsókn kæranda um fjölskyldusameiningu hafi hafist áður en ákvörðun Útlendingastofnunar um að veita M alþjóðlega vernd hér á landi hafi legið fyrir. Liggur einnig fyrir í gögnum málsins að M hafi haft uppi á móður sinni og systkinum, sem búsett eru í heimaríki, og lýst yfir vilja til þess að sækja um fjölskyldusameiningu á meðan mál hans hafi verið í vinnslu hjá Útlendingastofnun. Líkt og að framan greinir telur kærunefnd að þrátt fyrir að kærandi hafi náð 18 ára aldri á umsóknardegi þegar hún lagði fram umsókn um fjölskyldusameiningu skv. 3. mgr. 45. gr. laga um útlendinga verði að líta til aldurs M á þeim degi sem honum var veitt alþjóðleg vernd auk þess sem umsóknin þurfi að vera lögð fram í eðlilegu framhaldi ákvörðunarinnar. Þar sem umsókn kæranda um fjölskyldusameiningu barst Útlendingastofnun einni viku eftir að M fékk birta ákvörðun í máli sínu telst hún hafa verið lögð fram í eðlilegu framhaldi af veitingu alþjóðlegrar verndar. Af þeim sökum á kærandi rétt til fjölskyldusameiningar á grundvelli 3. mgr. 45. gr. laga um útlendinga að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna.

Kærandi hefur lagt fram ýmis gögn í tengslum við umsókn hennar um fjölskyldusameiningu við M. Í ljósi þess að umsókninni var synjað á grundvelli þess að aldursskilyrði 3. mgr. 45. gr. laga um útlendinga væri ekki uppfyllt lagði Útlendingastofnun ekki sjálfstætt mat á framlögð gögn eða hvort skilyrði ákvæðisins fyrir fjölskyldusameiningu væru að öðru leyti uppfyllt. Telur kærunefnd að slíkt mat verði að fara fram á tveimur stjórnsýslustigum. Verður samkvæmt öllu framangreindu að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og leggja fyrir Útlendingastofnun að taka málið til nýrrar meðferðar. Að öðru leyti verður ekki fjallað um aðrar athugasemdir kæranda.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar að nýju.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant‘s case.

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                          Bjarnveig Eiríksdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta