Nr. 160/2023 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 23. mars 2023 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 160/2023
í stjórnsýslumálum nr. KNU23010001 og KNU23010002
Kæra [...], [...],
og barna þeirra á ákvörðunum
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 28. desember 2022 kærðu einstaklingar er kveðast heita [...], vera fædd [...]og vera ríkisborgari Íraks (hér eftir K) og [...], vera fæddur [...]og vera ríkisborgari Íraks (hér eftir M) ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 12. og 13. desember 2022, um að taka ekki til efnismeðferðar umsóknir kærenda og barna þeirra, [...], fd. [...] (hér eftir A), [...], fd. [...] (hér eftir B) og [...], fd. [...] (hér eftir C), ríkisborgarar Íraks um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa þeim frá landinu.
Kærendur krefjast þess að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi með vísan til 10. gr. og 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, 42.gr. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Jafnframt vísa kærendur til 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga. Þá krefjast kærendur þess að umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd verði teknar til efnismeðferðar hér á landi aðallega með vísan til 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 37. gr. sömu laga. Til vara krefjast kærendur að þeim verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga.
Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og bárust kærurnar fyrir lok kærufrests.
II. Málsmeðferð
Kærendur lögðu fram umsóknir um alþjóðlega vernd á Íslandi 1. júlí 2022. Við leit að fingraförum kærenda í Eurodac gagnagrunninum, þann sama dag, kom í ljós að fingraför þeirra höfðu m.a. verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Rúmeníu. Hinn 26. október 2022 var upplýsingabeiðni beint til yfirvalda í Rúmeníu, sbr. 34. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá rúmenskum yfirvöldum, dags. 16. og 25. nóvember 2022, kom fram að kærendum hefði verið veitt alþjóðleg vernd í Rúmeníu 30. júlí 2021. Kærendur komu til viðtals hjá Útlendingastofnun 13. september 2022, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað 12. og 13. desember 2022 að taka umsóknir kærenda og barna þeirra um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og að þeim skyldi vísað frá landinu. Ákvarðanirnar voru birtar fyrir kærendum 15. desember 2022 og kærðu kærendur ákvarðanirnar 28. desember 2022 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kærenda barst kærunefnd 16. janúar 2023. Þá bárust frekari gögn 2. febrúar 2023. Frekari upplýsingar bárust frá kærendum 17. mars 2023.
III. Ákvarðanir Útlendingastofnunar
Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að kærendum hafi verið veitt alþjóðleg vernd í Rúmeníu. Umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd yrðu því ekki teknar til efnismeðferðar, sbr. a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kærenda til Rúmeníu ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá taldi Útlendingastofnun að kærendur hefðu ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að þau fengju hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka bæri umsóknir kærenda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærendum var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldu þau flutt til Rúmeníu.
Í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum barnanna kom fram að það væri niðurstaða stofnunarinnar, með vísan til niðurstöðu í máli foreldra þeirra, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, laga um útlendinga og barnaverndarlaga nr. 80/2002, að hagsmunum þeirra væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja foreldrum sínu til Rúmeníu.
IV. Málsástæður og rök kærenda
Í greinargerð kærenda kemur fram að þau hafi flúið heimaríki fyrir sex árum vegna stríðsástands þar en fjölskylda M hafi látið lífið í sprengjuárás. Kærendur hafi upphaflega farið til Kúrdahéraðs í Tyrklandi en þaðan farið til Grikklands þar sem þau hafi lent í miklum hremmingum, m.a. hafi bróðir M framið sjálfsvíg í flóttamannabúðum þar í landi. Kærendum hafi verið synjað um alþjóðlega vernd í Grikklandi. Kærendur hafi komið fótgangandi til Rúmeníu fyrir um ári síðan og verið handtekin þar. A hafi orðið fyrir miklu áfalli við handtökuna og átt erfitt með mál auk þess sem hún stami. Kærendur hafi verið sett í flóttamannabúðir í herbergi með þremur öðrum fjölskyldum. Kærendur hafi svo hlotið alþjóðlega vernd í Rúmeníu án þess að hafa sótt um hana. Aðstæður kærenda hafi ekki breyst þrátt fyrir að hafa hlotið alþjóðlega vernd í Rúmeníu en þeim hafi ekki verið veitt réttindi til atvinnu eða heilbrigðis- og félagsþjónustu. Kærendur hafi dvalið í flóttamannabúðum og enga atvinnu eða húsnæði hafi verið að fá. Kærendur hafi aldrei ætlað sér að sækja um alþjóðlega vernd í Rúmeníu og hafi þau því komið hingað til lands. Kærendur telja sig vera í viðkvæmri stöðu auk þess sem þau séu í þörf fyrir læknisaðstoð, sér í lagi geðlæknisþjónustu. Í Rúmeníu fái þau enga slíka þjónustu og þurfi sjálf að sjá um að greiða allt slíkt. Kærendur telji sig ekki vera örugg í Rúmeníu en þar hafi þau sætt ofsóknum og í tvígang verið hótað að ræna eða kaupa dóttur þeirra. Hafi þau ekki getað leitað aðstoðar lögreglu eða yfirvalda en þau hafi sætt barsmíðum af hálfu lögreglu. Aðstæður kærenda hafi verið óviðunandi og alls ekki boðlegar börnum. Kærendur hafi búið í heilsuspillandi húsnæði og börn þeirra fengið þrálát útbrot. Þá hafi börnum kærenda verið neitað um aðgang að leikskóla. Þá vísa kærendur til þess að ástand í Rúmeníu sé ótryggt vegna stríðsins í Úkraínu. Mikill fjöldi flóttamanna hafi sótt um alþjóðlega vernd þar í landi og því ráði stjórnvöld í Rúmeníu ekki við flóttamannastrauminn. Flóttamenn frá öðrum ríkjum fái því skerta þjónustu og séu aðstæður þar svipaðar og í Grikklandi. Kærendur telja sig vera einstaklinga í viðkvæmri stöðu þar sem þau séu með þrjú ung börn og þar af eitt nýfætt. Kærendur vísa til alþjóðlegrar skýrslu þegar komi að aðstæðum í Rúmeníu.
Kærendur krefjast þess að mál þeirra verði tekin til efnismeðferðar og þeim og börnum þeirra verði veitt alþjóðlega vernd hér á landi. á grundvelli 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 37. gr. sömu laga eða viðbótarvernd, sbr. 2. mgr. 37. gr. laganna. Til vara er gerð krafa um að kærendum og börnum þeirra verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að þeim verði veitt vernd með vísan til 42. gr., sbr. 2. og 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga enda séu kærendur fjölskyldufólk í sérstaklega viðkvæmri stöðu vegna heilsufars þeirra. Jafnframt gera kærendur þá kröfu að sérstaklega verði litið til hagsmuna barnanna og að hagsmunir þeirra verði hafðir að leiðarljósi, sbr. 10. gr. laga um útlendinga og 3. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013. Kærendur vísa til þess að þau hafi átt erfitt uppdráttar í viðtökuríki en alvarleg mismun ríki gagnvart útlendingum en þau séu útilokuð frá menntun, nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu og atvinnuþátttöku. Staða kærenda og barna þeirra verði verulega síðri en staða almennings í landinu.
Kærendur telja að Útlendingastofnun hafi ekki gætt að rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem málið hafi ekki verið nægjanlega upplýst áður en ákvarðanirnar voru teknar. Engin rannsókn hafi farið fram á högum kærenda sjálfra, s.s. heilbrigðisástands en fram hafi komið í viðtölum að þau hafi átt við veikindi að stríða. Kærendur hafi ekki fengið læknisaðstoð eða þá skoðun sem þau séu í þörf fyrir hér á landi. Þá gera kærendur athugasemd við staðhæfingu Útlendingastofnunar um að M hafi ekki lagt fram gögn sem sanni á honum deili. M hafi afhent vegabréf sitt við komuna til landsins en af þeirri ástæðu beri að ógilda hinar kærðu ákvarðanir.
Kærendur fjalla um hagsmuni barna sinna og telja að engin útlistun hafi verið gerð á því hvernig niðurstaða Útlendingastofnunar samræmist barnasáttmálanum, barnaverndarlögum eða ákvæðum laga um útlendinga um að hagsmunir barnsins skuli ávallt hafðir að leiðarljósi við málsmeðferðina. A og B séu nú á íslenskum leikskóla en það þjóni ekki hagsmunum þeirra að rífa þær upp og senda í óvissuna í Rúmeníu. Kærendur telja að gera verði kröfu um úttekt barnaverndaryfirvalda á því hvort leyfilegt sé að vísa börnum frá landinu við þessar aðstæður. Kærendur vísa til barnasáttmálans um að allar ákvarðanir er varði börn skuli byggðar á því sem börnunum sé fyrir bestu en kærendur telji að hinar kærðu ákvarðanir séu ekki í samræmi við það ákvæði sáttmálans.
Kærendur fjalla um 42. gr. laga um útlendinga þar sem kveðið sé á um að óheimilt sé að senda einstaklinga til svæðis þar sem taldar séu líkur á því að þeir verði fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (non-refoulement). Kærendur mótmæla niðurstöðu Útlendingastofnunar hvað þetta varðar og vísa til framlagðra gagna um aðstæður kærenda í Rúmeníu. Kærendur krefjast þess að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Aðstæður kærenda
Samkvæmt gögnum málsins eru kærendur hjón á [...]sem komu hingað til lands ásamt tveimur börnum sínum sem eru [...]og [...]ára. Þá hafi K eignast barn hér á landi [...]Kærendur hafi flúið heimaríki árið 2016 og farið þaðan til Kúrdistan. Kærendur hafi þaðan farið til Tyrklands og svo Grikklands þar sem þau hafi lagt fram umsóknir um alþjóðlega vernd árið 2018 en fengið synjun í apríl 2019. Frá Grikklandi hafi þau haldið til Rúmeníu þar sem kærendum var veitt vernd 30. júlí 2021. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur einnig lagt fram umsóknir um alþjóðlega vernd í Þýskalandi í september 2021. Kærendur hafi ekki farið aftur til Rúmeníu eftir að hafa ferðast til Þýskalands. Kærendur hafi komið hingað til lands í gegnum Holland og lagt fram umsóknir um alþjóðlega vernd 1. júlí 2022. Kærendur hafa greint frá því að hafa ekki haft aðgang að húsnæði, félagslegum úrræðum, atvinnu og heilbrigðisþjónustu í Rúmeníu. Þá hafi kærendur ekki haft aðgang að leikskóla fyrir A og B í Rúmeníu. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi K frá því að vera við góða líkamlega og andlega heilsu. Þá greindi M frá því að líkamleg heilsa hans væri góð en andleg heilsa hans væri ekki góð og hann væri í þörf fyrir að hitta sálfræðing. Af gögnum málsins verður ráðið að börn kærenda séu við góða heilsu.
Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 36. gr. er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hafi umsækjandi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í öðru ríki eða ef hann, eftir að hafa dvalist í ríki þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum, gat óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og, ef hann var talinn flóttamaður, fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins var kærendum veitt viðbótarvernd í Rúmeníu 30. júlí 2021. Að mati kærunefndar telst sú vernd sem kærendur njóta í Rúmeníu virk alþjóðleg vernd í skilningi a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun hefur ekki borist svar frá rúmenskum yfirvöldum við upplýsingabeiðnum sem sendar voru fyrir A og B. Þrátt fyrir það telur kærunefnd að gögn um málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd í Rúmeníu beri með sér að A og B njóti einnig viðbótarverndar í Rúmeníu líkt og kærendur. Kærunefnd telur ljóst af eftirfarandi gögnum að C sem fæddist hér á landi muni einnig geta sótt um dvalarleyfi í Rúmeníu á grundvelli alþjóðlegrar verndar foreldra sinna og öðlast sömu réttindi þar í landi.
Aðstæður í Rúmeníu
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Rúmeníu, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:
- 2022 Country Reports on Human Rights Practices: Romania (United States Department of State, 20. mars 2023);
- Amnesty International Report 2021/22 – The State of the World’s Human Rights (Amnesty International, 29. mars 2022);
- Asylum Information Database, Country Report: Romania (European Council on Refugees and Exiles, 31. maí 2022);
- Concluding observations on the fifth periodic report of Romania (United Nations Human Rights Committee, 11. desember 2017);
- Freedom in the World 2021 – Romania (Freedom House, 13. apríl 2021);
- Human Rights in Europe – Review of 2019 (Amnesty International, 16. apríl 2020);
- Stjórnarskrá Rúmeníu (https://www.wipo.int/edocs/lexdocs/laws/en/ro/ro021en.pdf);
- UNHCR Submission on Romania: 29th UPR session (United Nations High Commissioner for Refugees, janúar 2018);
- Upplýsingasíða um heilbrigðiskerfið í Rúmeníu (https://www.expatfocus.com/romania/health/maternity-care-in-romania-what-the-options-are-and-how-to-decide-on-a-birth-plan, sótt 23. mars 2023);
- Upplýsingar af vefsíðu eftirlitsstofnunar útlendingamála í Rúmeníu (http://www.igi.mai.gov.ro, sótt 23. mars 2023);
- Upplýsingar af vefsíðu Evrópusambandsins (http://www.reopen.europa.eu/, sótt 23. mars 2023);
- Upplýsingasíða Heilbrigðisstofnunar Rúmeníu (http://www.cnscbt.ro, sótt 23. mars 2023);
- Vefsíða rúmensku lögreglunnar (https://www.politiaromana.ro/en/romanian-police, sótt 23. mars 2023) og
- Vefsíða umboðsmanns Rúmeníu (https://avp.ro/index.php/en/, sótt 23. mars 2023).
Rúmenía er eitt af aðildarríkjum Evrópusambandsins og því bundið af reglum sambandsins þegar kemur að málsmeðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd, t.a.m tilskipunum sambandsins er varða meðferð umsókna um alþjóðlega vernd nr. 2013/32/EU, um móttökuaðstæður nr. 2013/33/ EU og um lágmarksviðmið til þess að teljast flóttamaður nr. 2011/95/EU. Þá hefur Rúmenía verið aðili að Evrópuráðinu frá 7. október 1993 og fullgilti mannréttindasáttmála Evrópu 20. júní 1994. Rúmenía gerðist aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri illri og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð 18. desember 1990 og fullgilti samninga Sameinuðu þjóðanna um borgarleg og stjórnmálaleg réttindi og efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1974 og barnasáttmálann árið 1990. Þá gerðist ríkið aðili að Flóttamannasamningnum 7. ágúst 1991.
Í framangreindri skýrslu European Council on Refugees and Exciles (ECRE) kemur fram að einstaklingar sem hljóti réttarstöðu flóttamanns í Rúmeníu fái útgefið dvalaleyfi í landinu til þriggja ára. Þeir einstaklingar sem hljóti viðbótarvernd fái útgefið dvalaleyfi til tveggja ára. Ábyrgð á útgáfu dvalarleyfa liggi hjá útlendingayfirvöldum en til þess að fá útgefið dvalarleyfi, í formi skírteinis, þurfi einstaklingar að sýna fram á löglegt heimilisfang í landinu. Þrátt fyrir að það sé almennt ekki erfiðleikum bundið að fá útgefið dvalarleyfi hafi fulltrúi kirkjufélagsins AIDRom lýst yfir áhyggjum af því að einstaklingar eigi í erfiðleikum með að fá útgefna leigusamninga sem uppfylli skilyrði yfirvalda. Leigusalar vilji ekki lýsa því yfir við yfirvöld að þeir leigi út húsnæði sín. Handhafar alþjóðlegrar verndar geti síðan áður en framangreind þrjú eða tvö ár líða sótt um endurnýjun á dvalarleyfi sínu. Almennt gangi endurnýjun vel en þó hafi einstaklingum verið synjað um endurnýjun vegna þess að þeir hafi ekki getað opnað bankareikninga í landinu.
Samkvæmt framangreindri skýrslu ECRE geta handhafar alþjóðlegrar verndar sótt um aðstoð hjá útlendingayfirvöldum við aðlögun að samfélaginu í Rúmeníu. Slík aðstoð og þjónustu geti verið misjöfn á milli landssvæða en sé þó að mestu leyti sambærileg. Sækja verður um slíka aðstoð innan þriggja mánaða frá því að alþjóðleg vernd var veitt. Þátttaka handhafa alþjóðlegrar verndar í aðlögunarferli á vegum yfirvalda skipti sköpum varðandi aðgengi þeirra að húsnæðisaðstoð og félagslegri þjónustu. Það sem boðið sé upp á í aðlögunarferlinu geti samanstaðið af ráðgjöf, fræðslu um rúmenskt samfélag og tungumálakennslu. Til viðbótar við fyrrgreint aðlögunarferli hafi ýmis verkefni verið sett á laggirnar, sem aðgengileg séu víðsvegar um Rúmeníu, í þeim tilgangi að auðvelda handhöfum alþjóðlegrar verndar og öðrum innflytjendum aðlögun að rúmensku samfélagi. Þá kemur fram í skýrslu ECRE að ákveðnir hópar s.s. fylgdarlaus börn, einstaklingar sem glími við fötlun, einstæðir foreldrar með ung börn og ófrískar konur eigi rétt á fjárhagslegum stuðningi og séu undanskildar reglum um umsókn að aðlögunarferli til að geta hlotið aðstoð yfirvalda.
Í framangreindri skýrslu ECRE kemur fram að einstaklingar geti dvalið áfram í móttökumiðstöðvum á vegum rúmenskra yfirvalda í allt að 12 mánuði frá veitingu alþjóðlegrar verndar. Þetta er þó með þeim skilyrðum að einstaklingar nýti sér úrræði rúmenskra yfirvalda um aðlögun og þeir hafi ekki næg fjárráð til þess að verða sér úti um húsnæði sjálfir. Samkvæmt rúmenskum lögum eiga einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd sama rétt til félagslegs húsnæðis og rúmenskir ríkisborgarar. Staðan sé samt sem áður sú að skortur sé á félagslegu húsnæði og biðlistar eftir húsnæði geti verið langir. Ef rúmensk yfirvöld geti ekki útvegað félagslegt húsnæði eiga handhafar alþjóðlegrar verndar rétt á að leigja húsnæði með fjárhagsstuðningi sem nemi helmingi af leiguverði þar til félagslegt húsnæði finnst, en þetta úrræði gildi að hámarki í eitt ár. Samkvæmt framangreindri skýrslu ECRE hafa handhafar alþjóðlegrar verndar sama aðgang að atvinnumarkaði landsins og ríkisborgarar þess. Atvinnumöguleikar geti þó verið háður efnahagslegum aðstæðum í hverri borg eða á hverju svæði fyrir sig. Erfitt geti reynst að finna atvinnu vegna tungumálaerfiðleika og í einhverjum tilfellum vegna vöntunar á prófskírteinum. Þá eigi handhafar alþjóðlegrar verndar, sem geti ekki framfleytt sér sjálfir, rétt á fjárhagslegum stuðningi frá rúmenskum yfirvöldum í allt að 12 mánuði. Til þess að eiga rétt á fjárhagslegum stuðningi þurfi einstaklingar að hafa skráð sig í fyrrgreint aðlögunarferli hjá rúmenskum yfirvöldum.
Samkvæmt framangreindri skýrslu ECRE hafa einstaklingar sem njóta alþjóðlegrar verndar í Rúmeníu sambærilegan rétt til heilbrigðisþjónustu og rúmenskir ríkisborgarar. Þá eigi einstaklingar sem glími við geðræn vandamál, þ. á m. þolendur pyndinga og einstaklingar sem hafi orðið fyrir sálrænum áföllum, rétt á meðferðarúrræðum á sama grundvelli og ríkisborgarar landsins. Vandamál hafa komið upp vegna vanþekkingar einstaklinga á sjúkratryggingakerfinu og hafa frjáls félagasamtök gegnt lykilhlutverki í að aðstoða handhafa alþjóðlegrar verndar með því að upplýsa þá um réttindi þeirra.
Í skýrslu ECRE kemur fram að börn með alþjóðlega vernd í Rúmeníu eigi sama rétt til þess að ganga í skóla þar í landi og önnur rúmensk börn. Þá geta handhafar alþjóðlegrar verndar sótt um sérstaka ungbarnaleikskóla fyrir börn sín til þriggja ára aldurs auk þess sem börn á aldrinum 3-6 ára geti sótt leikskóla. Aðgangur að menntun sé ókeypis og skilyrðislaus.
Samkvæmt stjórnarskrá Rúmeníu skulu allir einstaklingar vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynþáttar, þjóðernis, tungumáls, trúar, kyns, stjórnmálaskoðana eða stöðu að öðru leyti. Í skýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna fyrir árið 2022 kemur fram innanríkisráðuneytið farið með yfirstjórn löggæslu í Rúmeníu. Löggæsluyfirvöld skiptist í ríkislögreglu, herlögreglu og landamæralögreglu. Þá kemur fram að lögreglumenn og aðrir embættismenn í Rúmeníu hafi orðið uppvísir að spillingu. Í Rúmeníu sé til staðar eftirlitsstofnun (e. Directorate General for Anticorruption) sem hafi það að markmiði að vinna gegn spillingu. Þá kemur fram að ofbeldi gegn konum þ. á m. heimilisofbeldi sé vandamál í Rúmeníu en ekki hafi verið tekið á slíkum brotum á nægilega skilvirkan hátt. Jafnframt kemur fram að samkvæmt rúmenskum lögum skuli jafnrétti kynjanna vera tryggt. Konur hafi þó upplifað mismunun á ýmsum sviðum m.a. á atvinnumarkaði, húsnæðismarkaði og í menntakerfinu. Samkvæmt rúmenskum lögum er mismunun á grundvelli þjóðernis refsiverð. Þá starfar í landinu landsráð gegn mismunun (e. National Council for combating Discrimination) sem beri ábyrgð á að beita innlendri og Evrópusambands löggjöf um bann við mismunun. Hafi starf ráðsins almennt vera talið óháð og skilvirkt. Þá kemur fram að hjálparsamtök og fjölmiðlar hafi greint frá tilvikum þar sem flótta- og farandfólk í Rúmeníu hafi sætt áreiti og verið þolendur glæpa. Ekki hafi öll slík atvik verið tilkynnt sökum ótta þolenda, skorts á upplýsingum og ófullnægjandi stuðningsþjónustu. Þá hafi hjálparsamtök greint frá ofbeldi á hendur flóttafólki af hálfu lögreglu, m.a. óhóflegu valdi. Lögreglumenn hafi verið ákærðir fyrir ofbeldi í starfi og spillingu en skort hafi á skilvirkni innan réttarvörslukerfisins auk þess sem tafir á málsmeðferð hafi leitt til þess að slík mál hafi endað með sýknudómi. Rúmensk yfirvöld hafi unnið með Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og öðrum hjálparsamtökum við að aðstoða og vernda flóttamenn, umsækjendur um alþjóðlega vernd, ríkisfangslausa einstaklinga og aðra einstaklinga sem mögulega þarfnast alþjóðlegrar verndar. Jafnframt kemur fram á vefsíðu lögreglunnar í Rúmeníu að lögreglan skiptist í sérhæfðar deildir sem rannsaki brot eftir viðfangsefni, s.s. sakamál og skipulagða glæpastarfsemi. Hægt sé að tilkynna um brot símleiðis eða í eigin persónu. Af framangreindum upplýsingum sem kærunefnd hefur kynnt sér má ráða að löggæsluyfirvöldum sé stjórnað með skilvirkum hætti og borgarar landsins geti leitað til lögreglunnar telji þeir brotið á sér.
Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga
Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skuli taka hana til efnismeðferðar. Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga verður því aðeins beitt ef stjórnvöld telja, á grundvelli hlutlægra og trúverðugra upplýsinga sem eru nægilega nákvæmar og uppfærðar eftir því sem við á, að skilyrði þess séu uppfyllt. Ákvæði 2. mgr. 36. gr. er til viðbótar þeirri vernd sem 3. mgr. 36. gr. veitir umsækjendum um alþjóðlega vernd.
Á grundvelli 4. mgr. 36. gr. laga um útlendinga setti ráðherra reglugerð nr. 276/2018 um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, en með henni bættust tvær greinar, 32. gr. a og 32. gr. b, við reglugerðina. Í 32. gr. a reglugerðarinnar kemur fram að með sérstökum ástæðum samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga sé átt við einstaklingsbundnar ástæður er varða umsækjanda sjálfan. Þá eru í ákvæðinu jafnframt talin upp viðmið í dæmaskyni sem leggja skuli til grundvallar við mat á því hvort sérstakar ástæður séu fyrir hendi en þau viðmið varða aðallega alvarlega mismunun eða alvarleg veikindi. Þar sem tilvikin eru talin upp í dæmaskyni geta aðrar aðstæður, sambærilegar í eðli sínu og af svipuðu alvarleikastigi, haft vægi við ákvörðun um hvort sérstakar ástæður séu til að taka mál umsækjanda til efnismeðferðar hér á landi, svo framarlega sem slíkar aðstæður séu ekki sérstaklega undanskildar, sbr. 3. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar.
Samkvæmt 2. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar skal líta til þess hvort umsækjandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, svo sem ef ríkið útilokar viðkomandi frá menntun, nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, nauðsynlegri þjónustu vegna fötlunar, eða atvinnuþátttöku á grundvelli kynhneigðar, kynþáttar eða kyns eða ef umsækjandi getur vænst þess að staða hans, í ljósi framangreindra ástæðna, verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki. Kærunefnd telur að orðalagið „muni eiga“ feli ekki í sér kröfu um afdráttarlausa sönnun þess að umsækjandi verði fyrir alvarlegri mismunun sem leiði til þess að hann muni eiga erfitt uppdráttar. Orðalagið gerir þó kröfu um að tilteknar líkur verði að vera á alvarlegri mismunun, þ.e. að sýna verður fram á að umsækjandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir mismunun af þeim toga, með þeim afleiðingum, og af því alvarleikastigi sem ákvæðið lýsir en að ekki sé nægilegt að aðeins sé um að ræða möguleika á slíkri mismunun. Af því leiðir að þó svo að dæmi séu um að einstaklingar í sambærilegri stöðu og umsækjandi í viðtökuríki hafi orðið fyrir alvarlegri mismunun af þeim toga sem 32. gr. a reglugerðar um útlendinga mælir fyrir um telst umsækjandi ekki sjálfkrafa eiga slíkt á hættu heldur þarf að sýna fram á að verulegar ástæður séu til að ætla að umsækjandi, eða einstaklingur í sambærilegri stöðu og umsækjandi, verði fyrir slíkri meðferð.
Þá skal líta til þess hvort umsækjandi glími við mikil og alvarleg veikindi, s.s. skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm og meðferð við honum er aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki. Í reglugerðinni kemur fram að meðferð teljist, að öllu jöfnu, ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur sé átt við þau tilvik þar sem meðferð er til í viðtökuríkinu en umsækjanda muni ekki standa hún til boða. Þá skuli líta til þess, í tilviki þungunar, hvort umsækjanda standi til boða fullnægjandi fæðingaraðstoð í viðtökuríki. Við mat á því hvort umsækjandi glími við mikil og alvarleg veikindi lítur kærunefnd m.a. til heilsufarsgagna málsins og hlutlægra og trúverðugra gagna um hvort sú heilbrigðisþjónusta sem hann þarfnast sé honum aðgengileg í viðtökuríki.
Samkvæmt 3. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar hefur heilsufar umsækjanda takmarkað vægi umfram það sem leiðir af 2. mgr. 32. gr. a, nema það teljist til ástæðna sem séu svo einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki verði fram hjá þeim litið. Þá tekur 3. mgr. 32. gr. a af tvímæli um það að efnahagslegar ástæður geta ekki talist til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Slíkar aðstæður gætu þó fallið undir 3. mgr. 36. gr. nái þær því alvarleikastigi sem við á, sbr. umfjöllun hér í framhaldinu.
Kærendur eru hjón á þrítugsaldri sem komu hingað til lands ásamt tveimur börnum sínum sem eru [...]og [...]ára. Þá eignaðist K barn hér á landi [...]. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi K frá því að vera við góða líkamlega heilsu og andleg heilsa hennar væri góð eftir að hún hafi komið til Íslands. Þá greindi K frá því að hafa orðið fyrir líkamlegu og andlegu ofbeldi frá fjölskyldu sinni í heimaríki. Þá greindi M frá því að líkamleg heilsa hans væri góð en andleg heilsa hans væri ekki góð þá sérstaklega minnið vegna áfalla sem hann hefði orðið fyrir. M greindi frá því að hann væri í þörf fyrir að hitta sálfræðing. M greindi frá því að hafa verið stunginn í kvið í heimaríki en það hefði ekki áhrif á hans daglega líf. Samkvæmt gögnum málsins verður ráðið að börn kærenda séu almennt við góða heilsu en A og B hafi glímt við húðsjúkdóm í Rúmeníu. Þá greindi M frá því að A stami í kjölfar þess að fjölskyldan hafi orðið fyrir lögregluofbeldi í Rúmeníu. Þá liggja fyrir læknisvottorð vegna kærenda og barnanna A og B frá Göngudeild sóttvarna, dags. 17. ágúst 2022, þar sem fram kemur að læknisskoðun hafi farið fram í samræmi við ákvæði sóttvarnarlaga.
Kærunefnd tekur fram að kærendum var leiðbeint í viðtali hjá Útlendingastofnun 13. september 2022, um mikilvægi öflunar gagna um heilsufar, sem kærendur telji hafa þýðingu fyrir mál sitt, og um að afla skriflegra upplýsinga og leggja fram við meðferð máls þeirra hjá Útlendingastofnun. Þá var kærendum sem njóta aðstoðar löglærðs talsmanns, jafnframt leiðbeint með tölvubréfi kærunefndar, dags. 2. janúar 2023, um framlagningu frekari gagna í málinu. Engin frekari gögn um heilsufar bárust. Með vísan til fyrrgreindrar málsmeðferðar og þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu telur kærunefnd að mál kærenda sé nægjanlega upplýst hvað varðar heilsufar kærenda og aðra þætti varðandi einstaklingsbundnar aðstæður þeirra. Þá er ekkert sem bendir til þess að frekari gögn um heilsufar þeirra geti haft áhrif á niðurstöðu málsins.
Kærunefnd telur að gögn málsins beri ekki með sér að heilsufar kærenda eða barna þeirra sé með þeim hætti að þau teljist glíma við mikil og alvarleg veikindi, s.s. skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm og meðferð við honum sé aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki, eins og segir í 2. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar. Í því sambandi er sérstaklega vísað til þess að meðferð telst að jafnaði ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana, sbr. 2. mgr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Að mati kærunefndar er heilsufar kærenda ekki þess eðlis að ástæða sé til að víkja frá þessari meginreglu. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður í Rúmeníu verður ráðið að kærendur og börn þeirra hafi aðgang að heilbrigðisþjónustu þar í landi en eins og áður hefur verið rakið eiga einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Rúmeníu að lögum sambærilegan rétt á heilbrigðisþjónustu, þ. á m. geðheilbrigðisþjónustu, og ríkisborgarar Rúmeníu, þó að þeir þurfi í einhverjum tilvikum að yfirstíga ákveðnar hindranir til að nýta rétt sinn. Telur kærunefnd því að aðstæður kærenda og barna þeirra tengdar heilsufari séu ekki þess eðlis að þær teljist til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eða samkvæmt þeim viðmiðum sem talin eru upp í dæmaskyni í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Þá telur nefndin að heilbrigðisaðstæður kærenda og barna þeirra geti ekki talist til ástæðna sem séu svo einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki verði framhjá þeim litið, sbr. 3. mgr. sömu greinar.
Í framangreindum gögnum kemur fram að einstaklingar með alþjóðlega vernd þar í landi eigi rétt á framfærslu í 12 mánuði að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, en þau eru m.a. að sækja þurfi um svokallað aðlögunarferli hjá rúmenskum útlendingayfirvöldum innan þriggja mánaða frá því að alþjóðleg vernd var veitt. Samkvæmt gögnum málsins liggur ekki fyrir hvort kærendur hafi sótt um aðlögunarferlið meðan á dvöl þeirra stóð í Rúmeníu en kærendur kváðust hafa fengið leyfi til að dvelja í úrræði á vegum stjórnvalda eftir að þeim hafði verið veitt vernd og af frásögn þeirra verður ráðið að þau hafi aðeins dvalið í Rúmeníu um fjögurra mánaða skeið. Kærunefnd tekur fram að framangreindar skýrslur og gögn um aðstæður í Rúmeníu bera með sér að einstaklingar með alþjóðlega vernd þar í landi hafi heimild til að stunda atvinnu og hafi aðgang að húsnæðismarkaðnum undir sömu skilyrðum og ríkisborgarar landsins. Þótt skýrslur um aðstæður í Rúmeníu bendi til þess að aðstæður einstaklinga sem njóta alþjóðlegrar verndar þar séu að einhverju leyti lakari en aðstæður þeirra hér á landi, m.a. m.t.t. inntaks félagslegrar aðstoðar og aðgangs að félagslegum húsnæðisúrræðum, er það mat nefndarinnar að almennar aðstæður einstaklinga sem njóta alþjóðlegrar verndar í Rúmeníu séu ekki þess eðlis að þær, einar og sér, teljist til sérstakra ástæðna. Í því sambandi hefur nefndin jafnframt litið til þess sem fram kemur í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga að efnahagslegar ástæður geti ekki talist til sérstakra ástæðna. Þá er það mat kærunefndar að aðstæður kærenda séu ekki slíkar að þau geti ekki borið sig eftir þeirri þjónustu og aðstoð sem þau eiga að lögum rétt á og þurfa á að halda í Rúmeníu.
Kærendur hafa jafnframt borið fyrir sig að hafa orðið fyrir fordómum og mismunun í Rúmeníu. Þá hafi kærendur orðið fyrir barsmíðum af hálfu lögreglu við komuna til Rúmeníu. Jafnframt kváðu kærendur að í Rúmeníu starfi glæpahópar sem fari með kaup og sölu á börnum. Af framangreindum gögnum má ráða að flóttafólk hafi orðið fyrir áreiti í Rúmeníu. Kærunefnd telur ljóst af framangreindum gögnum að kærendur geti leitað ásjár rúmenskra yfirvalda verði þau fyrir mismunun á grundvelli kynþáttar þar í landi. Má jafnframt ráða af fyrirliggjandi gögnum að óttist kærendur um öryggi sitt geti þau leitað til lögregluyfirvalda eða annarra þar til bærra stjórnvalda sökum þess. Líkt og að framan greinir kemur fram á vefsíðu lögreglunnar í Rúmeníu að lögreglan skiptist í sérhæfðar deildir sem rannsaki brot eftir viðfangsefni, s.s. sakamál og skipulagða glæpastarfsemi. Hægt sé að tilkynna um brot símleiðis eða í eigin persónu. Þá geti almenningur leitað til dómstóla vegna brota opinberra starfsmanna á grundvallarréttindum þeirra. Telur kærunefnd að gögn málsins beri ekki með sér að kærendur muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, s.s. ef ríkið útilokar viðkomandi frá menntun, nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, nauðsynlegri þjónustu vegna fötlunar, eða atvinnuþátttöku á grundvelli kynhneigðar, kynþáttar eða kyns eða þau vænst þess að staða þeirra, í ljósi sömu ástæðna, verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Kærendur hafa ekki sýnt fram á að aðstæður þeirra í viðtökuríki séu slíkar að önnur viðmið tengd alvarlegri mismunun, sambærileg þeim sem 32. gr. a reglugerðarinnar lýsir, leiði til þess að taka beri umsóknir þeirra til efnismeðferðar hér á landi.
Í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga koma fram sérviðmið er varða börn og ungmenni. Þar segir m.a. að við mat á því hvort taka skuli umsókn til efnismeðferðar vegna sérstakra ástæðna skuli hagsmunir barnsins hafðir að leiðarljósi. Þá segir að við mat á hagsmunum barns skuli meðal annars að líta til þess hvort flutningur til viðtökuríkis hafi í för með sér hættu á að fjölskyldan aðskiljist eða muni aðskiljast. Líkt og að framan er rakið eru kærendur handhafar alþjóðlegrar verndar í Rúmeníu. Líkt og áður hefur komið fram telur kærunefnd jafnframt að A og B njóti slíkrar verndar og að C sem fæddist hér á landi muni geta sótt um dvalarleyfi í Rúmeníu á grundvelli alþjóðlegrar verndar foreldra sinna og hljóti sömu réttindi þar í landi. Það er mat kærunefndar á grundvelli framangreinda upplýsinga um aðstæður í Rúmeníu og gagna málanna að flutningur kærenda og barna þeirra til Rúmeníu muni ekki hafa í för með sér hættu á að fjölskyldan aðskiljist. Að því er varðar aðgengi barnanna að menntun tekur kærunefnd fram að börn með alþjóðlega vernd í Rúmeníu eiga sama rétt til þess að ganga í skóla þar í landi og önnur rúmensk börn. Þá geta handhafar alþjóðlegrar verndar sótt um sérstaka ungbarnaleikskóla fyrir börn sín til þriggja ára aldurs auk þess sem börn á aldrinum 3-6 ára geti sótt leikskóla. Aðgangur að menntun sé ókeypis og skilyrðislaus.
Að öðru leyti og með vísan til niðurstöðu í máli kærenda og umfjöllunar um aðstæður barna með alþjóðlega vernd í Rúmeníu er það mat kærunefndar að flutningur fjölskyldunnar til Rúmeníu samrýmist hagsmunum barnanna þegar litið er m.a. til öryggis þeirra, velferðar og félagslegs þroska, sbr. 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga.
Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsóknir barna kærenda um alþjóðlega vernd hér á landi með vísan til a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga enda er það niðurstaða nefndarinnar að það sé ekki andstætt réttindum barna kærenda að umsóknir þeirra verði ekki teknar til efnismeðferðar hér á landi.
Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kærenda og barna þeirra á aðstæður þeirra er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæla með því að mál þeirra verði tekin til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Kærendur kváðust í viðtali hjá Útlendingastofnun 13. september 2022 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Að teknu tillit til þess eru ekki forsendur til að telja að kærendur hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í máli kærenda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að þau sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi, en þau lögðu fram umsóknir sínar 1. júlí 2022. Samkvæmt 32. gr. c reglugerðar um útlendinga, eins og henni var breytt með reglugerð nr. 638/2019, er Útlendingastofnun heimilt að taka til efnismeðferðar umsókn barns sem hefur fengið vernd í öðru ríki, séu meira en 10 mánuðir liðnir frá því umsókn barst íslenskum stjórnvöldum.
Ákvæði 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga
Í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því ríki sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Við túlkun á inntaki 42. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd jafnframt að líta verði til þess að ákvörðun um brottvísun eða frávísun sem setur einstakling í raunverulega hættu á að verða fyrir pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu er í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. jafnframt 68. gr. stjórnarskrárinnar.
Við túlkun 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga lítur kærunefnd til dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu varðandi túlkun hans á 3. gr. sáttmálans. Þá hefur kærunefnd talið rétt að hafa hliðsjón af þeim meginreglum sem Evrópudómstóllinn setur fram í dómum sínum að því leyti sem þær eru til skýringar á alþjóðlegum skuldbindingum íslenska ríkisins og eru samhljóma þeim.
Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu er vísað til þeirrar meginreglu að með fyrirvara um alþjóðlegar skuldbindingar hafi ríki rétt til að stjórna hverjir ferðist yfir landamæri þeirra, hverjir dvelji á landsvæði þeirra og hvort útlendingi skuli vísað úr landi, sbr. m.a. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli F.G. gegn Svíþjóð (nr. 43611/11) frá 23. mars 2016, 111. mgr., ákvörðun Samsam Mohammed Hussein o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (nr. 27725/10) frá 2. apríl 2013, 65. mgr., og dóm Üner gegn Hollandi (nr. 46410/99) frá 18. október 2006, 54. mgr. Dómstóllinn hefur engu að síður talið að flutningur einstaklings til annars ríkis geti leitt til brots á 3. gr. mannréttindasáttmálans ef viðkomandi einstaklingur geti á viðhlítandi hátt sýnt fram á að veruleg ástæða sé til að ætla, verði hann fluttur úr landi, að hann sé í raunverulegri hættu á að sæta meðferð sem sé andstæð 3. gr. sáttmálans, sbr. m.a. F.G. gegn Svíþjóð, 111. – 113. mgr. Í dómaframkvæmd dómstólsins er jafnframt byggt á því að annmarkar á meðferð viðtökuríkis á umsækjanda og aðbúnaði hans þurfi að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi (e. „must attain a minimum level of severity“ sbr. m.a. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi (nr. 30696/09) frá 21. janúar 2011, 219. mgr.) til að ákvörðun um brottvísun eða frávísun hans verði talin brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans. Horfa verði til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar auk stöðu einstaklings hverju sinni, svo sem kyns, aldurs og heilsufars, sbr. M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi, 219. mgr.
Mannréttindadómstóll Evrópu hefur talið ómannlega meðferð vera m.a. þá sem beitt er að yfirlögðu ráði, í margar klukkustundir í senn og veldur annað hvort líkamlegu tjóni eða alvarlegum andlegum eða líkamlegum þjáningum, sbr. t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Kudła gegn Póllandi (nr. 30210/96) frá 26. október 2000, 92. mgr., og M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi, 220. mgr. Þá hefur dómstóllinn talið meðferð vera vanvirðandi í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmálans þegar meðferðin niðurlægir eða lítillækkar einstakling, sýnir skort á virðingu fyrir eða gerir lítið úr mannlegri reisn hans, eða skapar ótta, angist eða vanmátt, sem er til þess fallinn að brjóta niður líkamlegt eða andlegt mótstöðuafl viðkomandi, sbr. t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Pretty gegn Bretlandi (nr. 2346/02) frá 29. apríl 2002, 52. mgr., og M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi, 220. mgr. Dómurinn hefur talið að þó að líta verði til þess hvort meðferðin sé veitt af ásetningi sé það ekki að öllu leyti útilokað að hún teljist brot á 3. gr. þó svo hafi ekki verið, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Peers gegn Grikklandi (nr. 28524/95) frá 19. apríl 2001, 74. mgr.
Í ákvörðun Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Samsam Mohammed Hussein o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (nr. 27725/10) frá 2. apríl 2013, 70. mgr., kemur m.a. fram að það eitt að efnahagsstaða einstaklings versni við brottvísun eða frávísun frá aðildarríki nái ekki því alvarleikastigi að teljast vanvirðandi meðferð og brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans. Þá verði greinin ekki túlkuð þannig að í henni felist skylda aðildarríkja til að sjá einstaklingum sem njóti alþjóðlegrar verndar fyrir húsnæði eða fjárhagsaðstoð sem geri þeim kleift að viðhalda ákveðnum lífskjörum. Dómstóllinn áréttaði jafnframt að einstaklingur sem standi til að vísa brott geti ekki gert kröfu um áframhaldandi dvöl í ríki í því skyni að njóta þar heilbrigðis- eða félagsþjónustu. Veruleg skerðing lífsgæða sé ekki nægjanleg til að teljast brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans nema sérstaklega sannfærandi mannúðarástæður mæli gegn endursendingu, sbr. 71. mgr. ákvörðunarinnar. Málið varðaði flutning einstæðrar móður með tvö ung börn sem voru með viðbótarvernd til Ítalíu og komst dómstóllinn einróma að þeirri niðurstöðu að málsástæður hennar um að flutningur til Ítalíu væri brot á 3., 8. og 13. gr. mannréttindasáttmálans væru bersýnilega tilhæfulausar og að mál hennar væri af þeim sökum ekki tækt til meðferðar. Um inntak „sérstaklega sannfærandi mannúðarástæðna“ vísast til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli N. gegn Bretlandi (nr. 26565/05), frá 27. maí 2008, 42. mgr., og Sufi og Elmi gegn Bretlandi (nr. 8319/07 og 11449/07) frá 28. nóvember 2011, 281.-292. mgr., en dómarnir setja háan þröskuld fyrir því að meðferð eða aðstæður teljist brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans.
Samkvæmt dómaframkvæmd Evrópudómstólsins eru lög Evrópusambandsins byggð á þeirri grundvallarforsendu að aðildarríki þess deila þeim sameiginlegu gildum sem Evrópusambandið byggist á. Sú forsenda leggur grunn að gagnkvæmu trausti um að þessi gildi séu viðurkennd, að lög Evrópusambandsins verði virt og að réttarkerfi aðildarríkjanna geti veitt sambærilega og virka vernd þeirra réttinda sem sáttmáli Evrópusambandsins um grundvallarréttindi mælir fyrir um, sbr. dóma Evrópudómstólsins í Jawo, C-163/17, frá 19. mars 2019, 80. mgr., Minister for Justice and Equality (Deficiencies in the system of justice), C-216/18 PPU, frá 25. júlí 2018, 35.-37. mgr., og Ibrahim o.fl. gegn Þýskalandi, C‑297/17, C‑318/17, C‑319/17 og C‑438/17, frá 30. apríl 2019, 83.-85. mgr.
Það er hins vegar ekki útilokað að viðtökuríki kunni að glíma við meiriháttar erfiðleika tengdum aðbúnaði flóttamanna sem gæti skapað verulega hættu á að umsækjandi sæti meðferð sem samrýmist ekki sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi, sbr. t.d. dóm Evrópudómstólsins í máli N. S. o.fl., C-411/10 og C-493/1021, frá 21. desember 2011, 81. mgr. Af þeim sökum verður ekki byggt á því skilyrðislaust að aðildarríki Evrópusambandsins tryggi grundvallarmannréttindi, svo sem samkvæmt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 4. gr. sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi, sbr. N. S. o.fl., 99., 100. og 105. mgr., og Ibrahim o.fl., 87. mgr. Evrópudómstóllinn hefur talið, m.a. í Jawo, 85. mgr., að ekki megi flytja umsækjanda um alþjóðlega vernd til viðtökuríkis ef veigamikil rök standa til þess að raunveruleg hætta sé á að hann sæti þar eða við flutninginn ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í skilningi 4. gr. sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi. Þeir annmarkar sem eru á meðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd verða hins vegar að ná sérstaklega háu alvarleikastigi til að endursending teljist andstæð 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þessu alvarleikastigi er náð þegar sinnuleysi stjórnvalda viðtökuríkis hefur þær afleiðingar að einstaklingur sem að öllu leyti er háður stuðningi ríkisins, t.d. vegna sérstaklega viðkvæmrar stöðu, verður í slíkri stöðu sárafátæktar að hann geti ekki mætt grundvallarþörfum sínum, og sem grefur undan líkamlegri og andlegri heilsu hans eða setur hann í aðstöðu sem er ósamrýmanleg mannlegri reisn, sbr. M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi, 252.-263. mgr., og Jawo, 92. og 95. mgr., og Ibrahim o.fl., 90. mgr.
Til að endursending geti talist brot á 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu þarf að sýna fram á, með vísan til hlutlægra og trúverðugra upplýsinga sem eru nægilega nákvæmar og uppfærðar, að umsækjandi sé í raunverulegri hættu á að sæta meðferð sem sé ósamrýmanleg ákvæðinu, sbr. fyrri umfjöllun. Ekki er nægilegt að aðeins sé um að ræða möguleika á slíkri meðferð, sbr. Vilvarajah o.fl. gegn Bretlandi (mál nr. 13163/87; 13164/87; 13165/87; 13447/87; 13448/87) frá 30. október 1991, 111. mgr., N. gegn Finnlandi (mál nr. 38885/02) frá 26. júlí 2005, 167. mgr., og NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008, 109.-110. mgr.
Með vísan til framangreindra viðmiða, umfjöllunar um aðstæður einstaklinga sem njóta alþjóðlegrar verndar í viðtökuríki og einstaklingsbundinna aðstæðna kærenda er það niðurstaða kærunefndar að ekki hafi verið sýnt fram á að kærendur eigi á hættu meðferð sem gangi gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Synjun á efnismeðferð umsókna kærenda um alþjóðlega vernd hér á landi og flutningur þeirra til viðtökuríkis leiðir því ekki til brots gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þar sem kærendur njóta alþjóðlegrar verndar í viðtökuríki telur kærunefnd jafnframt að tryggt sé að þau verði ekki send áfram til annars ríkis þar sem líf þeirra eða frelsi kann að vera í hættu, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt framangreindum landaupplýsingum eru allar líkur á að gildistími dvalarleyfa kærenda muni renna út í júlí á þessu ári en sú staðreynd hefur að mati kærunefndar ekki áhrif á þessa niðurstöðu enda njóta kærendur áfram viðbótarverndar í Rúmeníu þrátt fyrir að þurfa endurnýja dvalarleyfi sín.
Samkvæmt framansögðu verða mál kærenda og barna þeirra ekki tekin til efnismeðferðar á grundvelli 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Athugasemdir kærenda við hinar kærðu ákvarðanir og reglur stjórnsýsluréttar
Svo sem fram hefur komið gera kærendur athugasemdir við ákvarðanir Útlendingastofnunar, þ. á m. við umfjöllun stofnunarinnar um aðstæður þeirra í Rúmeníu.
Þá telja kærendur að Útlendingastofnun hafi ekki gætt að rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga þar sem málið hafi ekki verið nægjanlega upplýst áður en ákvarðanirnar voru teknar. Engin rannsókn hafi farið fram á högum kærenda sjálfra, s.s. heilbrigðisástands en fram hafi komið í viðtölum að þau hafi átt við veikindi að stríða. Kærendur hafi ekki fengið læknisaðstoð eða þá skoðun sem þau séu í þörf fyrir hér á landi.
Af gögnum málsins má sjá að sérfróðir starfsmenn Útlendingastofnunar hafi lagt mat á málsástæður og stöðu kærenda og barna þeirra. Kærendur komu í viðtal hjá Útlendingastofnun 13. september 2022. Aðspurð kváðust kærendur vera við góða líkamlega heilsu. Þá hafi K greint frá því að andleg heilsa hennar væri góð eftir komuna til Íslands. Jafnframt hafi M greint frá því að andleg heilsa hans væri ekki góð vegna áfalla í lífi hans auk þess sem hann væri í þörf fyrir tíma hjá sálfræðingi. Af endurriti viðtals við kærendur má sjá að fulltrúi Útlendingastofnunar hafi spurt út í andlegt og líkamlegt heilsufar kærenda og barna þeirra , s.s. hvort þau hafi leitað til læknis í viðtökuríki, hvernig þeim hafi liðið undanfarið og hvaða áhrif þeir atburðir sem þau hafi orðið fyrir hafi haft á líf þeirra. Þá var kærendum leiðbeint um að leggja fram frekari gögn í tengslum við heilsufar sitt. Af ákvörðunum Útlendingastofnunar má sjá að mat hafi verið lagt á aðgang handhafa alþjóðlegrar verndar að viðeigandi heilbrigðisþjónustu í Rúmeníu með hliðsjón af þeim heilsufarsvandamálum sem kærendur kváðust glíma við. Með tilliti til heildarmats í máli kærenda og barna þeirra telur kærunefnd ljóst að ítarlegri rannsókn á heilsufari þeirra og framlagning frekari gagna hefði ekki getað haft áhrif á niðurstöðu í máli þeirra enda er ekkert sem bendir til þess að þau glími við mikil og alvarleg veikindi, sbr. viðmið í 2. mgr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Er það mat kærunefndar að málsmeðferð Útlendingastofnunar hafi verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 2. janúar 2023, var kærendum einnig leiðbeint um að leggja fram frekari heilsufarsgögn í málinu, engin frekari heilsufarsgögn bárust. Þá tekur kærunefnd jafnframt fram að í lögum um útlendinga er ekki gerð krafa um aðkomu barnaverndaryfirvalda að mati á aðstæðum í endursendingarríki eða heimaríki umsækjenda um alþjóðlega vernd nema í tilvikum efnislegrar málsmeðferðar umsókna fylgdarlausra barna, sbr. 5. mgr. 37. gr. laganna. Kærunefnd telur að gögn málsins og framangreindar landaupplýsingar um Rúmeníu beri ekki með sér að þörf sé á aðkomu barnaverndaryfirvalda af öðrum ástæðum. Þá er ekkert sem bendir til annars en að kærendur hafi alla burði til að framfleyta börnum sínum, sinna þörfum þeirra og leita eftir þeirri þjónustu og aðstoð sem þau telja nauðsynlega Í Rúmeníu.
Hvað varðar athugasemd kæranda um að hann hafi ekki lagt fram gögn sem sanni á honum deili tekur kærunefnd fram að það hafi ekki þýðingu fyrir niðurstöðu málsins um það hvort taka skuli mál þeirra til efnismeðferðar. Við meðferð málsins hjá íslenskum stjórnvöldum hefur auðkenni kærenda sem þau hafa lagt fram hjá rúmenskum stjórnvöldum verið lagt til grundvallar en kærunefnd telur eðlilegt að stjórnvöld hafi svigrúm til að meta auðkenni viðkomandi sjálfstætt í þeim tilvikum þar sem mál eru tekin til efnismeðferðar. Þá kemur jafnframt fram í hælisbeiðni, dags. 1. júlí 2022, að kærendur hafi greint frá því að hafa eyðilagt öll kennivottorð og skilríki og hent þeim þar sem þau hafi haldið að þeim yrði vísað úr landi ef þau myndu framvísa þeim. Kærunefnd fellst ekki á með kærendum að framangreint leiði til þess að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi.
Vegna umfjöllunar í greinagerð kærenda um mat á sérstaklega viðkvæmri stöðu þeirra, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga, sbr. 25. gr. sömu laga, vill kærunefnd árétta að ákvörðun um hvort umsækjandi sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga lýtur að því hvort þörf sé á sérstökum stuðningi við umsækjanda í gegnum umsóknarferlið og á meðan á dvöl hans stendur hér á landi. Í 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur m.a. fram að við meðferð umsóknar um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun tryggja, eins fljótt og kostur er, að fram fari, með aðstoð viðeigandi sérfræðinga, einstaklingsbundin greining á því hvort umsækjandi teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Sé hann í slíkri stöðu skal stofnunin meta hvort hann hafi einhverjar sérþarfir, t.d. þörf á tiltekinni heilbrigðisþjónustu. Þá er tekið fram í 2. mgr. sama ákvæðis að ákvæði IV., V. og VII. kafla stjórnsýslulaga um andmælarétt, um birtingu ákvörðunar, rökstuðning o.fl. og um stjórnsýslukæru og viðeigandi ákvæði I. og IX. kafla laga um útlendinga gilda ekki um ákvörðun um sérstaklega viðkvæma stöðu samkvæmt 1. mgr. Skilgreining á stöðu samkvæmt 1. mgr. hefur ekki önnur réttaráhrif en þau sem sérstaklega er getið í lögum eða reglugerð. Kærunefnd telur því ljóst að mat samkvæmt 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga sem fram fer hjá Útlendingastofnun, sé ekki kæranlegt til kærunefndar og hafi ekki önnur réttaráhrif en sérstaklega er getið um í lögum eða reglugerð. Kærunefnd leggur þannig áherslu á að ákvörðun um hvort umsækjandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu er annað en mat á einstaklingsbundnum aðstæðum umsækjanda þó svo að þessi hugtök skarist nokkuð. Að því er varðar mat Útlendingastofnunar á einstaklingsbundnum aðstæðum kærenda og barna þeirra tekur kærunefnd fram að kærendum var leiðbeint um framlagningu heilsufarsgagna við málsmeðferð hjá Útlendingastofnun, en í viðtölum var þeim leiðbeint um mikilvægi öflunar gagna um heilsufar, sem þau töldu hafa þýðingu fyrir mál sitt, og um að afla skriflegra upplýsinga og leggja fram við meðferð máls þeirra hjá Útlendingastofnun. Við meðferð málsins hjá kærunefnd hefur kærendum auk þess verið leiðbeint um framlagningu frekari heilsufarsgagna í málinu. Líkt og fram hefur komið benda heimildir til þess að kærendur eigi sama rétt og rúmenskir ríkisborgarar til lögboðinnar heilbrigðisþjónustu þar í landi, þ. á m. geðheilbrigðisþjónustu. Þegar litið er til þeirra viðmiða sem 32. gr. a reglugerðar um útlendinga setur fram er ljóst að þau gögn sem liggja fyrir í málinu benda ekki til þess að frekari gagnaöflun geti haft áhrif á niðurstöðu málsins. Kærunefnd telur ekki ástæðu til að gera athugasemdir við mat Útlendingastofnunar á þeim einstaklingsbundnu aðstæðum kærenda og barna þeirra sem horfa beri til við mat á því hvort rétt sé að taka umsóknir þeirra til efnismeðferðar hér á landi.
Í greinargerð kæranda er því haldið fram að flóttamenn frá öðrum ríkjum verði fyrir skertri þjónustu í Rúmeníu vegna flóttamannastraumsins þar í landi í kjölfar innrásar Rússlandshers í Úkraínu. Kærunefnd tekur fram að þrátt fyrir að flóttamönnum hafi fjölgað í Rúmeníu í kjölfar stríðsins í Úkraínu þá hafa kærendur hlotið alþjóðlega vernd í Rúmeníu og þurfa því ekki að reiða sig á að fá afgreiðslu á umsóknum sínum þar í landi. Er það því mat kærunefndar að kærendur geti sótt sér þá aðstoð sem þau eiga að lögum rétt á og þurfa á að halda í Rúmeníu.
Kærunefnd hefur farið yfir hinar kærðu ákvarðanir og telur ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við þær.
Vegna kröfu um veitingu dvalarleyfis á grundvelli 37. gr. og 74. gr. laga um útlendinga
Í greinargerð krefjast kærendur þess aðallega að þau fái viðurkennda stöðu um alþjóðlega vernd hér á landi á grundvelli 37. gr. laga um útlendinga. Þá er þess krafist til vara að þeim verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga.
Samkvæmt orðalagi fyrrnefndra ákvæða kemur ekki til skoðunar að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli þeirra nema umsókn um alþjóðlega vernd hafi verið tekin til efnismeðferðar. Eins og að framan greinir njóta kærendur virkrar alþjóðlegrar verndar í Rúmeníu í skilningi a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og voru umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd því ekki teknar til efnismeðferðar. Kemur því ekki til skoðun hvort þau uppfylli skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli 37. gr. eða 74. gr. laga um útlendinga.
Frávísun
Samkvæmt gögnum málsins komu kærendur hingað til lands 1. júlí 2022 ásamt A og B og sóttu um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsóknum þeirra um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð og hafa þau því ekki tilskilin leyfi til dvalar. Verður kærendum því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. gr. laganna, enda bendir allt til þess að þau hafi verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsókna þeirra hófst hjá Útlendingastofnun.
Samantekt
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið þykir rétt að staðfesta ákvarðanir Útlendingastofnunar.
Athygli kærenda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd á grundvelli lokamálsliðar 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.
Athygli kærenda er einnig vakin á því að Útlendingastofnun getur frestað framkvæmd ákvörðunar með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga vegna sérstakra aðstæðna útlendings eða vegna þess að ómögulegt sé að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.
Úrskurðarorð:
Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru staðfestar.
The decisions of the Directorate of Immigration are affirmed.
Þorsteinn Gunnarsson
Bjarnveig Eiríksdóttir Sandra Hlíf Ocares