Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 62/2022 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 62/2022

Mánudaginn 11. apríl 2022

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 12. janúar 2022, sem barst úrskurðarnefnd velferðarmála 26. janúar 2022 og var póstsett til úrskurðarnefndar velferðarmála 24. janúar 2022, kærði A, úrskurð Barnaverndarnefndar B, dags. 23. nóvember 2021, varðandi umgengni hans við börn hans, C og D.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan, C , er X ára gömul og drengurinn, D, er X ára gamall. Móðir barnanna afsalaði sér forsjá þeirra með dómsátt fyrir Héraðsdómi B þann 6. febrúar 2018. Kærandi, sem er kynfaðir barnanna, hefur ekki farið með forsjá þeirra. Börnin lúta forsjá Barnaverndarnefndar B.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að kærandi hafi óskað eftir að eiga jafna umgengni við börnin og móðir þeirra, það er fjórum sinnum á ári. Starfsmenn Barnaverndar B hafi lagt til að umgengni væri óbreytt, það er tvisvar sinnum á ári. Þar sem ekki náðist samkomulag við kæranda um umgengni var málið lagt fyrir Barnaverndarnefnd B.

Barnaverndarnefnd B kvað upp úrskurð varðandi umgengni á fundi nefndarinnar þann 23. nóvember 2021.

Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem bent er á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

Barnaverndarnefnd B ákveður að C  og D, hafi umgengni við föður sinn, A, tvisvar sinnum á ári, í tvær klukkustundir í senn. Umgengni verði undir eftirliti og í húsnæði Barnaverndar B. Skilyrði umgengni er að faðir sé edrú og í andlegu jafnvægi að mati eftirlitsaðila og faðir mæti 15 mínutum fyrir umgengni svo unnt sé að meta ástand hans.“

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála með bréfi 26. janúar 2022. Í kæru kemur meðal annars fram að kærandi fari fram á að hitta börn sín fjórum sinnum á ári eins og móðir þeirra. Kærandi hafi ekki haft forsjá þeirra og engin gögn séu um að hann hafi vanrækt þau. Kærandi gerir athugasemdir við að börnin hafi ekki aðgang að farsímum og spjaldtölvum. Kærandi kveðst […]. Þótt hann sé í […] eigi hann samt rétt á að hitta börnin þannig að gætt sé að því að þau þekki uppruna sinn. Kærandi gerir athugasemdir við að hann hafi ekki fengið sömu meðferð og móðir barnanna. Þá bendir kærandi á að börnin eigi rétt á talsmanni og að ræða við hann, án þess að fósturforeldrar séu viðstaddir.

Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 10. mars 2022, var óskað eftir skýringum kæranda á því hvers vegna kæra hafi borist að kærufresti liðnum með vísan til 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Svar kæranda barst með tölvupósti, dags. 12. mars 2022. Í svari kæranda komu ekki fram skýringar hvers vegna kæra barst að kærufresti liðnum.

Frekari gagna var ekki aflað vegna kærunnar.

II.  Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 51. gr. bvl. geta aðilar barnaverndarmáls skotið úrskurði eða ákvörðun samkvæmt 6. gr. laganna til úrskurðarnefndar velferðarmála innan fjögurra vikna frá því að viðkomandi var tilkynnt um úrskurð eða ákvörðun. Þessi lagaákvæði eiga við um hinn kærða úrskurð. Þegar kæra berst að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. lagaákvæðisins, eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul. þess.

Úrskurður Barnaverndarnefndar B var sendur lögmanni kæranda, E, með Signet transfer þann 27. nóvember 2021. Kæran barst úrskurðarnefndinni með bréfpósti 26. janúar 2022, póststimpill 24. janúar 2022. Samkvæmt framangreindu byrjaði kærufrestur að líða 28. nóvember og lauk honum 27. desember 2021. Líkt og fram hefur komið var póststimpill kæru 24. janúar 2021 og barst kæran því nefndinni eftir að kærufestur var liðinn. Að því er varðar 1. tölulið 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, þ.e. að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, hefur kærandi engar skýringar veitt.

Samkvæmt því, sem rakið er hér að framan, hafa engar nægilegar haldbærar skýringar komið fram á því hvers vegna kæran barst úrskurðarnefndinni að liðnum kærufresti og ekkert í gögnum málsins gefur til kynna að afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr. Önnur atvik málsins þykja ekki leiða til þess að veigamiklar ástæður mæli með því að málið verði tekið til meðferðar á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Af þessum sökum er máli þessu vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, vegna úrskurðar Barnaverndarnefndar B 23. nóvember 2021 varðandi umgengni hans við, C, og D, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta