Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 19/2014

Úrskurður

 

 Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 25. nóvember 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 19/2014.

1.      Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 20. nóvember 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar sem fram komi í fyrirliggjandi gögnum að hún hafi þegið atvinnuleysisbætur án þess að eiga rétt til þeirra. Hún hafi starfað sem ljósmyndari í það minnsta frá 19. mars 2013. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur frá 19. mars til 30. september 2013 samtals með 15% álagi 813.760 kr. sem verði innheimtar samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði B, hdl., hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða fyrir hönd kæranda með erindi, dags. 13. febrúar 2014. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði ógilt og málið látið niður falla. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 8. janúar 2013. Í bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 7. nóvember 2013, kom fram að stofnunin hefði undir höndum upplýsingar um að kærandi hefði starfað sjálfstætt sem ljósmyndari samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa tilkynnt það til Vinnumálastofnunar. Kæranda var bent á að skv. 35. gr. a. í lögum um atvinnuleysistryggingar skuli atvinnuleitandi með að minnsta kosti eins dags fyrirvara tilkynna um vinnu sem hann tekur á þeim tíma sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, en stofnuninni hafi ekki borist slík tilkynning. Enn fremur var kæranda bent á að í 3. mgr. 9. gr. laganna kæmi fram að sá sem væri tryggður skyldi upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunni að verða á högum hans á þeim tíma sem hann fái greiddar atvinnuleysisbætur, s.s. um tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan stendur yfir. Kæranda var veittur frestur til að skila inn skýringum og athugasemdum og barst bréf kæranda til Vinnumálastofnunar 11. nóvember 2013. Þar kemur fram að hún hafi tekið myndir, en flest af því hafi verið fyrir vini og ættingja og því verið frítt. Málið var tekið fyrir á fundi Vinnumálastofnunar 19. nóvember 2013 þar sem hin kærða ákvörðun var tekin.

Kærandi sendi frekari skýringar 20. nóvember 2013 þar sem hún tók fram að hún hefði verið að taka myndir frítt en ekki verið að fá full laun. Málið var tekið fyrir að nýju á fundi 4. desember 2013 og kæranda tilkynnt með bréfi, dags. 6. desember 2013, að fyrri ákvörðun stofnunarinnar hefði verið staðfest.

Kærandi óskaði eftir rökstuðningi Vinnumálastofnunar og var hann veittur 8. janúar 2014. Þar kemur m.a. fram að í tölvupósti kæranda til Vinnumálastofnunar frá 11. nóvember 2013 komi fram að hún hafi sinnt einhverjum verkefnum sem ljósmyndari en flest allt sem hún hafi gert hafi verið fyrir vini og ættingja og hafi því miður verið frítt. Af gögnum málsins hafi þótt ljóst að kærandi hafi verið við störf samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta. Þau gögn sem hafi legið fyrir hafi verið færslur af vefsíðunni https://www.facebook.com/C og D. Á ,,facebook“ síðunni sé færsla frá 19. mars 2013 þar sem kærandi tilkynni að heimasíða hennar sé komin í loftið og af því tilefni er boðinn 15% afsláttur af myndatökum sem séu bókaðar fyrir 1. apríl. Í kjölfarið hafi verið birtar reglulega á ,,facebook“ síðu kæranda myndir sem hún hafi tekið. Jafnframt sé á heimsíðu hennar D verðlisti yfir myndatökur. Í bréfi kæranda til Vinnumálastofnunar, dags. 20. nóvember 2013, hafi komið fram að hún hafi vissulega verið að taka myndir frítt til að reyna að auglýsa sig, en hún hafi talið sig vera búna að fara yfir þetta með þjónustufulltrúa á vegum Vinnumálastofnunar hjá VR. Fram kemur af hálfu Vinnumálastofnunar að ekki sé gerður neinn áskilnaður um endurgjald í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar heldur sé einungis tekið fram að hið sama gildi um þann sem starfi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fái greiddar atvinnuleysisbætur. Af orðalagi ákvæðisins, athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er orðið hafi að 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirri skyldu sem hvílir á atvinnuleitanda að tilkynna fyrirfram um alla vinnu til Vinnumálastofnunar, sbr. 20. og 35. gr. a. laga um atvinnuleysistryggingar, sé það mat Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta viðurlögum samkvæmt 60. gr. laganna.

Í kæru kæranda kemur fram að mál þetta snúist um það að kærandi hafi þegið atvinnuleysisbætur yfir tiltekið tímabil samhliða því að hafa reynt að koma sér og starfsemi sinni á framfæri á sama tíma eftir að hafa ráðfært sig sérstaklega um slíka starfsemi við fulltrúa Vinnumálastofnunar hjá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur. Af 1. ml. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar megi ráða að gert sé ráð fyrir ásetningi til brots, sbr. orðalagið ,,Sá sem lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur...“. Kærandi bendir í þessu sambandi á að aldrei hafi verið ásetningur hennar að tilkynna Vinnumálastofnun ekki um breytingar á högum sínum heldur hafi hún beinlínis leitað ráðgjafar hjá fulltrúum stofnunarinnar hjá VR og fengið leiðbeiningar hjá þeim fulltrúum og farið eftir þeim. Það sé því ljóst að framangreindur málsliður lagagreinarinnar eigi ekki við í málinu.

Af 2. ml. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé ljóst að hið sama gildi um þann sem starfi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fái greiddar atvinnuleysisbætur án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Af tilvísun í 2. ml. 60. gr. laganna til 10. gr. laganna sé ljóst að gert sé ráð fyrir að hinn tryggði hafi átt að tilkynna til Vinnumálastofnunar þegar hann hætti virkri atvinnuleit. Af athugasemdum við 10. gr. frumvarps þess er síðar varð að lögum um atvinnuleysistryggingar verði ráðið að hinn tryggði tilkynni það til Vinnumálastofnunar þegar hann hefur hætt atvinnuleit en þá eigi viðkomandi ekki lengur rétt á atvinnuleysisbótum. Um sé að ræða eina tilkynningu í lokin þegar hinn tryggði hefur fengið vinnu eða hætt atvinnuleit af öðrum ástæðum svo sem vegna náms. Af þessu megi ráða að einungis sé gert ráð fyrir slíkri tilkynningu þegar hinn tryggði hefur fengið vinnu eða hætt atvinnuleit af öðrum ástæðum. Hvorugt þessara atriða eigi hins vegar við í tilviki kæranda þar sem ekki hafi verið um að ræða að hún hafi fengið vinnu eða hætt atvinnuleit af öðrum ástæðum.

Fram kemur í kæru að kærandi hafi reynt sem sjálfstætt starfandi einstaklingur að hafa atvinnu af þeim störfum sem hún hafi menntað sig til sbr. b. lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vísað er til skilgreiningar sjálfstætt starfandi einstaklings í lagagreininni og bent á að af gögnum málsins megi sjá að kæranda hafi ekki verið kleift að standa með neinum reglulegum hætti skil á reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi. Vegna þessa fáist ekki séð að kærandi hafi ,,fengið vinnu“.

Kærandi reifar það hvað felist í hugtakinu ,,virkri atvinnuleit“ og bendir á að í athugasemdum við 14. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé tekið fram að sá sem leiti sér sjálfur að starfi með því að sækja um auglýst störf teljist vera í virkri atvinnuleit í skilningi ákvæðisins enda skilyrði að hlutaðeigandi hafi frumkvæði að starfsleit. Kærandi hafi auglýst þjónustu sína sem sjálfstætt starfandi einstaklingur á vefforritinu Facebook og á eigin vefsíðu og hafi þannig átt frumkvæði að starfsleit. Fáist raunar ekki séð að slíkar auglýsingar feli í sér að atvinnuleit sé hætt þar sem raunin sé þvert á móti sú að auglýsingar kæranda á fyrrgreindum netmiðlum hafi einmitt verið settar fram í þeim tilgangi að auglýsa sig og hæfileika sína. Með því hafi hún leitað eftir atvinnu með mjög svo virkum hætti þar sem hún hafi notast við nútímatækni og framsæknar aðferðir sem ekki fáist séð að gangi með nokkru móti gegn ákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar.  

Kærandi bendir á að í 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega tekið fram að láti hinn tryggði hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. laganna, eða um annað það sem kunni að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, skuli hann ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en að tveimur mánuðum liðnum. Kærandi hafi upplýst Vinnumálastofnun með skýrslum um tilfallandi tekjur sem hún hafi haft. Samkvæmt 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og atvika málsins sem Vinnumálastofnun virðist ekki hafa rannsakað nægilega, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, megi telja að í stað ákvörðunar sem byggðist á 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hefði verið eðlilegra með hliðsjón af öllum atvikum og gögnum málsins að beita hóflegri ákvæðum 59. gr. laganna gagnvart kæranda hefði Vinnumálastofnun með einhverjum hætti getað sýnt fram á að kærandi hafi látið hjá líða að veita Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eða um annað það sem kynni að hafa áhrif á rétt kæranda til atvinnuleysisbóta samkvæmt lögunum. Slíkt hafi Vinnumálastofnun þó ekki gert, enda ljóst að stofnunin hafi einungis tekið mál kæranda til athugunar á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem eigi ekki við. Fáist því ekki séð að rannsókn Vinnumálastofnunar á málinu sem einungis hafi byggt á ákvæðum 60. gr. laganna geti orðið grundvöllur rannsóknar á grundvelli 59. gr. laganna. 

Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 25. mars 2014, bendir Vinnumálastofnun á að annar málsliður 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar taki á því þegar atvinnuleitandi starfi á vinnumarkaði, til lengri eða skemmri tíma, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldu sína skv. 10. og 35. gr. a. laga um atvinnuleysistryggingar um að upplýsa Vinnumálastofnun um störf sín. Greint er frá því að fram komi í 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. sömu laga sé að finna nánari útfærslu á því hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Ljóst sé að aðili sem starfar á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu eða í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum í máli þessu hafi kærandi starfað sem ljósmyndari. Því til stuðnings er vísað til útprentana af heimasíðu kæranda, D, útprentana af ,,facebook“síðu kæranda, ,,A ljósmyndari“ og staðfestinga kæranda í báðum skýringarbréfum sínum. Kærandi hafi ekki tilkynnt um starfsemi sína sem ljósmyndari til Vinnumálastofnunar, enda ekki um neina færslu að ræða í samskiptaskrá kæranda hjá Vinnumálastofnun þar sem hún tilkynnir um starf sitt sem ljósmyndari samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Hafi það verið mat Vinnumálastofnunar á grundvelli fyrirliggjandi gagna að kærandi teldist vera sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi b-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun bendir á að ákvæðinu hafi verið breytt með 1. gr. laga nr. 37/2009 og fram hafi komið í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 37/2009 að þeir sem greiði staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingargjald einu sinni á ári teljist sjálfstætt starfandi einstaklingar í skilningi laganna. Af þessum ummælum verði ráðið að jafnvel þeir sem sinni smávægilegum sjálfstæðum rekstri teljist sjálfstætt starfandi einstaklingar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Þrátt fyrir það að ljósmyndastarfsemi kæranda hafi verið smá í sniðum hafi reksturinn verið skattskyldur, sbr. b-lið 7. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003. Hafi kæranda því borið að reikna sér endurgjald, sbr. 58. gr. laga um tekjuskatt og reglur skattyfirvalda um reiknað endurgjald á tekjuárinu 2013, sbr. niðurstöðu úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í máli nr. 62/2012.

Varðandi röksemdir lögmanns kæranda um að kæranda hafi ekki verið kleift að standa með neinum reglulegum hætti skil á reiknuðu endurgjaldi og tryggingargjaldi þá bendir Vinnumálastofnun annars vegar á að í athugasemdum í frumvarpi er varð að 23. gr. laga nr. 134/2009, en með ákvæðinu hafi orðalagi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar verið breytt í þá veru sem það sé í í dag, segi m.a. að ákvæðinu sé ætlað að sporna gegn svartri atvinnustarfsemi. Vinnumálastofnun bendir á úrskurð úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í máli nr. 108/2012 þar sem ákvörðun Vinnumálastofnunar um að kærandi skyldi sæta viðurlögum samkvæmt 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi verið staðfest, en í málinu hafi m.a. legið fyrir að kærandi hafi ekki þegið nein laun fyrir þá vinnu sem hann hafi innt af hendi. Jafnframt bendir Vinnumálastofnun á úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 157/2012 þar sem ákvörðun Vinnumálastofnunar um að kærandi skyldi sæta viðurlögum samkvæmt 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi verið staðfest, en kærandi í málinu hafi starfað sem sjálfstætt starfandi einstaklingur og rekstur hans skilað tapi. Af tilgreindum úrskurðum, orðalagi 2. málsl. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og athugasemda við 23. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 134/2009, sé það ljóst að enginn áskilnaður sé gerður til launa eða að einstaklingur verði að hagnast á vinnu sinni svo hann teljist starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Samkvæmt framansögðu sé það mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi starfað á innlendum vinnumarkaði. Kærandi hafi hvorki tilkynnt um starf sitt við ljósmyndun né heldur að atvinnuleit hennar hafi verið hætt. Telji stofnunin því að staðið hafi verið rétt að ákvörðun í máli kæranda. Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum til að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit sé hætt eða tilkynningu um tekjur, sbr. 10. gr. og 35. gr. a. laga um atvinnuleysistryggingar, verði að telja að kærandi hafi brugðist skyldum sínum við stofnunina og eigi að sæta viðurlögum í samræmi við brot sitt.

Kærandi beri einnig að endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil er hún uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, samtals að fjárhæð 813.760 kr. með 15% álagi, skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. mars 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum til 11. apríl 2014. Úrskurðarnefndinni barst bréf frá E hdl., fyrir hönd kæranda, dags. 2. maí 2014, með frekari athugasemdum hennar. Þar kemur m.a. fram að kærandi sjái sig knúna til að mótmæla fullyrðingu Vinnumálastofnunar um að hún hafi starfað á innlendum vinnumarkaði og vísvitandi látið hjá líða að tilkynna um það að hún tæki að sér ljósmyndaverkefni gegn greiðslu. Enda hafi ætíð verið ætlun hennar að tilkynna slík verkefni til Vinnumálastofnunar. Þannig telji kærandi sig ekki hafa hætt virkri atvinnuleit með því að auglýsa sig sem ljósmyndara heldur þvert á móti telji hún að með því að halda úti Facebook síðunni ,,A Ljósmyndari“ hafi hún verið að ýta undir þá virkni sína og taka að sér tilfallandi verkefni, enda sé slíkt heimilt samkvæmt ákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar. Þá liggi ekkert fyrir um það af hálfu Vinnumálastofnunar að kærandi hafi fengið greitt fyrir verkefni umfram það sem hún hafi tilkynnt til Vinnumálastofnunar á umræddu tímabili. Virðist Vinnumálastofnun þannig ekki byggja ákvörðun sína á neinu öðru en umræddri Facebook síðu kæranda, algjörlega burtséð frá því hvort hún hafi fengið greitt fyrir verkefnin eða ekki. Með því að fallast á ákvörðun Vinnumálastofnunar væri verið að fallast á þá túlkun að markmið atvinnuleysistryggingalöggjafarinnar væri í raun að lama fólk sem sé í atvinnuleit og gera því ókleift að koma sjálfu sér á framfæri. Þannig séu leiddar líkur að því að sýni atvinnuleitandi frumkvæði og reyni að skapa sér verkefni, eins og í tilviki kæranda, sé verið að svindla á kerfinu.

Af hálfu Vinnumálastofnunar sé vísað til niðurstöðu úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í málum nr. 108/2012 og 157/2012. Kærandi hafni því að málsatvik í þeim málum séu sambærileg þeim sem um ræði í máli hennar. Í fyrra málinu hafi legið fyrir að kærandi hafi fengið eitthvað greitt fyrir vinnu sína og í því síðara hafi verið um að ræða ótilkynntar tekjur kæranda sem hafi komið í ljós við samkeyrslu gagnagrunna Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra. Í máli kæranda liggi ekki fyrir að hún hafi fengið greitt fyrir vinnu sína sem ljósmyndari í öðrum tilvikum en þeim sem tilkynnt hafi verið til stofnunarinnar.

Kærandi hafi ekki veitt vísvitandi rangar upplýsingar en það sé skilyrði þess að heimilt sé að beita úrræðum samkvæmt 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Krafa Vinnumálastofnunar um endurgreiðslu atvinnuleysisbóta sé að mati kæranda í hrópandi andstöðu við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem kveði á um að við töku íþyngjandi ákvarðana skuli stjórnvöld beita vægasta úrræði sem völ sé á og sé nægjanlegt til að ná því markmiði sem stefnt sé að.   

2.      Niðurstaða

Mál þetta lýtur að því hvort kærandi hafi aflað atvinnuleysisbóta með sviksamlegum hætti í skilningi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvæðið er svohljóðandi, sbr. 23. gr. laga nr. 134/2009 og 4. gr. laga nr. 103/2011:

„Sá sem lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Í meðförum úrskurðarnefndarinnar hefur ákvæði þetta verið túlkað með þeim hætti að fyrsti málsliður þess eigi við ef atvinnuleitandi hefur með vísvitandi hætti hegðað sér með tilteknum hætti á meðan slíkt huglægt skilyrði á ekki við ef háttsemin fellur undir annan málslið ákvæðisins. Þessi munur stafar af því að annar málsliðurinn tekur á því þegar atvinnuleitandi starfar á vinnumarkaði, til lengri eða skemmri tíma, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldu sína skv. 10. gr. og 35. gr. a. laga um atvinnuleysistryggingar að upplýsa Vinnumálastofnun um þessa atvinnuþátttöku. Fyrri málsliðurinn á við í máli þessu.

Af gögnum þessa máls, svo sem fésbókarfærslum kæranda og framburði hennar, má ráða að hún hafi starfað sem ljósmyndari samhliða töku atvinnuleysisbóta. Af hálfu kæranda kemur fram að það hafi alltaf verið ætlun hennar að tilkynna slík verkefni til Vinnumálastofnunar. Kærandi telji sig ekki hafa hætt virkri atvinnuleit með því að auglýsa sig sem ljósmyndara heldur hafi hún þvert á móti verið að ýta undir virkni sína og taka að sér tilfallandi verkefni enda sé slíkt heimilt samkvæmt ákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði ógilt og málið  látið niður falla.

Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða verður ráðið af fésbókarfærslum kæranda að hún hafi verið við störf sem ljósmyndari á tímabilinu frá 19. mars til 30. september 2013 samhliða töku atvinnuleysisbóta án þess að tilkynna um það til Vinnumálastofnunar eins og henni bar að gera. Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu atvinnuleitanda sem kveðið er á um í 35. gr. a. sömu laga, verður því að telja að kærandi hafi brugðist trúnaðar- og upplýsingaskyldum sínum gagnvart Vinnumálastofnun í ljósi þeirra gagna sem fyrir liggja í málinu og tekin eru af fésbókarfærslum kæranda. Háttsemi kæranda hefur því réttilega verið heimfærð til ákvæðis 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda ber því að sæta viðurlögum þeim sem þar er kveðið á um, enda var hún starfandi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hún þáði atvinnuleysisbætur án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu eða um tekjur. Þá er ákvæði 60. gr. fortakslaust en í því felst að ekki er heimild til að beita vægari úrræðum en ákvæðið kveður á um.

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar þess efnis að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda og að hún skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hún hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði er staðfest. Enn fremur er staðfest sú ákvörðun að  gera kæranda að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 707.617 kr. auk 15% álags eða samtals 813.760 kr.


Úrskurðarorð


Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 20. nóvember 2013 í máli A þess efnis að hún skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði er staðfest. Kærandi endurgreiði enn fremur ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 707.617 kr. auk 15% álags eða samtals 813.760 kr.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta