Mál nr. 21/2014. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:
Úrskurður kærunefndar útboðsmála 22. desember 2014
í máli nr. 21/2014:
Öryggismiðstöð Íslands hf.
gegn
Ríkiskaupum og
innanríkisráðuneytinu
Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 7. nóvember 2014 kærði Öryggismiðstöð Íslands ehf. útboð varnaraðila nr. 15705 auðkennt „Fangelsi á Hólmsheiði. Samskiptakerfi (kallkerfi)“. Kærandi krefst þess aðallega að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun varnaraðila um val á tilboði í útboðinu, en til vara að varnaraðilum verði gert að bjóða út innkaupin í heild sinni að nýju og að nefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila. Auk þess er krafist málskostnaðar.
Varnaraðilum var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Með greinargerð 11. nóvember 2014 kröfðust varnaraðilar þess að öllum kröfum kærenda yrði hafnað. Voru þær kröfur ítrekaðar í síðari greinargerð varnaraðila sem var móttekin hjá kærunefnd 26. nóvember sama ár. Athugasemdir Securitas hf., sem átti það tilboð sem valið var í útboðinu, bárust nefndinni 13. nóvember 2014.
Með ákvörðun 20. nóvember 2014 hafnaði kærunefnd útboðsmála kröfu varnaraðila þess efnis að sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar yrði aflétt.
I
Mál þetta lýtur að fyrrgreindu útboði um kaup á samskiptakerfi með uppsetningu og viðhaldsþjónustu til allt að fimm ára vegna byggingar fangelsis á Hólmsheiði, sem auglýst var innanlands 13. september 2014. Í grein 2.3 í útboðsskilmálum kom fram að við val á tilboði skyldi gengið út frá hagkvæmasta boði, en hagkvæmasta boð væri það boð sem væri lægst að fjárhæð. Í grein 2.4 sagði jafnframt að frávikstilboð væru ekki heimil. Í grein 4.4.1 var að finna eftirfarandi ákvæði:
„4.4.1 Klefastöðvar og aðrar stöðvar
Klefastöð skal staðsetja á vegg við inngang inn á salerni í hverjum klefa. [...] Í klefastöð skal vera hnappur með gaumljósi til að kalla á hjálp, ásamt hnappi til að afturkalla boð og hnappi fyrir fangavörð að óska eftir aðstoð og hnappi til að kvitta fyrir að hafa sinnt boði.“
Þá sagði jafnframt í greinum 4.4.2 og 4.4.3 í útboðsskilmálum:
„4.4.2 Ljósgjafar (utan við klefa)
Ljósgjafi (gaumljós) skal vera staðsett fyrir framan hvern fangaklefa til að sýna með rauðu ljósi að fangi hefur óskað eftir aðstoð með því að ýta á hnapp í gegnum samskiptakerfið. Ljósgjafi skal plana við veginn (e:flush) þ.a. ekki sé hægt að skemma hann á nokkurn hátt. Hægt verður að kvitta fyrir móttöku frá klefastoð og frá aðalvarðstofu. Gert er ráð fyrir að ljósgjafa sé komið fyrir í rofadós en sé þess ekki kostur skal verktaki tryggja að búnaðurinn sé varinn gagnvart skemmdum og fikti (vandalpoof with tamper).
[...]
„4.4.3 Kvittunarhnappar (utan við klefa)
Gera skal ráð fyrir að hnappi til að kvitta fyrir að hafa sinnt boði, verði komið fyrir utan við klefa. Hnappurinn verður þá staðsettur í hurðum tæknirýma sem eru á milli hverra tveggja klefa. Hnappurinn skal plana við hurðina (e:flush) þ.a. ekki sé hægt að skemma hann á nokkurn hátt.
Ákvörðun um hvort hnappurinn verður settur upp, verður tekin síðar.“
Gögn málsins bera með sér að áður en tilboðum hafi verið skilað hafi fyrirspurn um virkni hnappa samkvæmt grein 4.4.1 í útboðsskilmálum verið gerð. Svar varnaraðila var eftirfarandi:
„Hnappur til að kalla á hjálp er alltaf virkur (nema hann hafi verið gerður tímabundið óvirkur frá stjórnstöð). Hnappur til að afturkalla boð og hnappur til að kvitta fyrir að hafa sinnt boði verða virkir þegar kallað hefur verið á hjálp. Hnappur fyrir fangavörð að kalla á hjálp verður virkur við að kallað hafi verið á hjálp og/eða gerður virkur frá stjórnstöð.“
Fjögur tilboð bárust í útboðinu sem voru opnuð 1. október 2014. Var tilboð kæranda lægst og svaraði til rúmlega 79% af kostnaðaráætlun. Þar sem varnaraðilar töldu að tilboð kæranda kynni að vera óeðlilega lágt var framkvæmdastjóra kæranda gefinn kostur á að koma skýringum á framfæri samkvæmt 73. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup á fundi hinn 7. október 2014. Á fundi þessum var kærandi einnig beðinn um að varpa ljósi á tæknilega útfærslu þess samskiptakerfis sem hann bauð og var þeim fyrirspurnum fylgt eftir með tölvupósti 10. október 2014, auk þess sem kallað var eftir öðrum gögnum til staðfestingar á hæfi kæranda. Var meðal annars óskað nánari skýringa á því hvernig tilboð kæranda uppfyllti ákvæði greina 4.4.1 – 4.4.3 í útboðsskilmálum. Svaraði kærandi fyrirspurn varnaraðila vegna greinar 4.4.1 á eftirfarandi hátt með tölvupósti 14. október sama ár:
„Klefastöðin er með einum tvívirkum hnappi, hægt er að setja fleiri hnappa við stöðuna ef þarf eða óskað er eftir, sá hnappur hefur sama útlit og sá sem fyrir er á einunginni, en í okkar uppsetningu er hnappurinn fyrir utan klefa hugsaður sem hluti af þeirri heild því hann er þræll frá klefastöðinni. Sem heild á ég við að hnappurinn fyrir utan er líka tvívirkur og þar með hægt að framkvæma öll umbeðin boð með þessum tveim hnöppum í stað fjögurra.
Í svari þessu var jafnframt tekið dæmi um notkun hnappanna. Þá var upplýst að tilboð kæranda gerði, hvað varðaði greinar 4.4.2 og 4.4.3, ráð fyrir að lausn með sambyggðum ljósgjafa og kvittunarhnappi yrði notuð.
Með bréfi 27. sama mánaðar var kærandi upplýstur um að ákveðið hefði verið að taka tilboði frá Securitas hf. sem var ríflega 142% af kostnaðaráætlun, en fram kom að tilboð kæranda hefði verið metið ógilt. Í rökstuðningi varnaraðila hinn 28. sama mánaðar kom fram að tilboð kæranda hefði ekki verið í samræmi við óundanþægar lágmarkskröfur útboðsgagna. Kærandi hefði boðið einn tvívirkan hnapp í klefastöð á meðan grein 4.4.1 í útboðsskilmálum hafi gert áskilnað um fjóra hnappa. Þá hafi tilboð kæranda gert ráð fyrir sambyggðum kvittunarhnappi og gaumljósi en samkvæmt greinum 4.4.2 og 4.4.3 hafi átt að taka ákvörðun síðar um hvort kvittunarhnappur fyrir utan klefa yrði settur upp. Þar með væri ekki hægt að sleppa kvittunarhnappinum og það yrði að greiða fyrir hann þótt hann yrði ekki notaður.
II
Kröfur kæranda byggja í meginatriðum á því að varnaraðilar hafi metið tilboð hans með röngum hætti að teknu tilliti til skilmála útboðsgagna og ákvæða laga um opinber innkaup. Rétt mat eigi að leiða til þess að tilboð kæranda sé gilt og hagstæðast samkvæmt valforsendum útboðsins.
Byggir kærandi á því að tilboð hans hafi uppfyllt kröfur greinar 4.4.1 í útboðsskilmálum. Kærandi hafi boðið upp á klefastöð sem geti verið með einum til fjórum hnöppum eftir óskum verkkaupa. Fjöldi hnappa hafi ekki áhrif á virkni klefastöðvarinnar eða verð. Þetta komi skýrt fram í fylgigögnum tilboðsins þar sem sagði meðal annars eftirfarandi: „The Secure system can comprise any combination of intercom points and telephone handsets...“. Einnig hafi verið sýnt dæmi um hvernig klefastöðin gæti virkað í tilboðsgögnum. Af þessu megi vera ljóst að tilboð kæranda hafi ekki verið einskorðað við tvo hnappa heldur hafi margir möguleikar verið í boði. Hafi kærandi skýrt þetta fyrir varnaraðilum á fundum og í skriflegum svörum. Hafi varnaraðilar talið veittar upplýsingar óskýrar, hafi þeim borið að óska eftir frekari upplýsingum samkvæmt grunnreglu 53. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup. Uppsetning kæranda á klefastöð sem lýst hafi verið í tilboði hafi verið í dæmaskyni. Hafi hún gert ráð fyrir að um væri að ræða klefastöð með einum tvívirkum hnappi en hnappurinn fyrir utan klefa væri hugsaður sem hluti af þeirri heild þannig að hann væri einnig tvívirkur og hægt væri að framkvæma öll umbeðin boð, þ.e. að kalla eftir hjálp, afturkalla boð, óska eftir aðstoð og kvitta fyrir aðstoð. Hafa verði í huga að í útboðsskilmálum hafi ekki komið skýrt fram að óskað væri eftir fjórum aðskildum hnöppum. Tilboð kæranda hafi verið skýrt um það að klefastöðvar hafi alla þá virkni sem kröfur eru gerðar um í útboðslýsingu, að hnappar kunni að vera jafn margir og kaupandi óski og að fjöldi hnappa hafi ekki áhrif á verð. Tilboð kæranda hafi því uppfyllt kröfur greinar 4.4.1 í útboðsskilmálum.
Kærandi byggir einnig á því að tilboð hans hafi uppfyllt ákvæði greina 4.4.2 og 4.4.3 í útboðsskilmálum. Óheimilt sé að óska eftir tilboðum í vörur en áskilja sér um leið rétt til að ákveða síðar hvort vörurnar verði yfirhöfuð keyptar. Þá virðist kröfur þessara greina vera í mótsögn við þá kröfu varnaraðila að til staðar skuli vera hnappur til að kvitta fyrir að boði hafi verið sinnt samkvæmt grein 4.4.1. Þá sé það rangur skilningur varnaraðila að það þurfi að greiða fyrir kvittunarhnapp jafnvel þó hann yrði ekki notaður, en jafnvel þótt þessi skilningur væri réttur leiddi sú niðurstaða ein og sér ekki til ógildis tilboðs kæranda. Auk þess hafi tilboð kæranda verið mun lægra en önnur tilboð þannig að jafnvel þótt fyrirkomulagið myndi leiða til aukins kostnaðar sé ljóst að tilboð kæranda hafi ávallt verið langlægst.
Kærandi telur einnig að varnaraðilar hafi ávallt ætlað sér að taka tilboði Securitas hf. og hafna tilboði kæranda. Varnaraðilar hafi stuðst við myndir af búnaði Securitas hf. í útboðsgögnum sínum. Með ósk um gögn er lutu að fjárhagslegum atriðum hafi varnaraðilar viðurkennt að tilboð kæranda væri fullnægjandi um annað en fjárhagsleg atriði. Þrátt fyrir það hafi varnaraðilar óskað frekari upplýsinga um tæknilega eiginleika boðinnar vöru kæranda og fjárhæð tilboðs hans. Rangt hafi verið farið með svör við fyrirspurnum bjóðenda í rökstuðningi varnaraðila frá 28. október 2014.
Í síðari greinargerð kæranda kemur fram að þrátt fyrir að óljóst hafi verið hversu marga hnappa varnaraðili óskaði eftir þá hafi kærandi boðið fjóra hnappa. Tilboð kæranda hafi falið í sér mismunandi útfærslur og hafi sérstaklega verið tiltekið dæmi sem fól í sér tvívirka aðgerðarhnappa. Í tilboði kæranda og svörum hans við fyrirspurnum varnaraðila hafi hins vegar einnig falist sú lausn að um væri að ræða fjóra aðgerðarhnappa án þess að það hefði áhrif á verð. Það að kærandi hafi boðið fjölbreytta útfærslu á fjórum aðgerðum geti ekki valdið ógildi tilboðs hans.
III
Varnaraðilar byggja á því að með grein 4.4.1 í útboðsskilmálum hafi ekki verið kallað eftir neinni fjölbreytni eða úrvali heldur hafi verið óskað eftir nákvæmlega fjórum hnöppum. Þetta skipti miklu máli því að öryggi sé meira ef einn hnappur er fyrir hverja virkni. Annars þurfi notandi að muna, jafnvel á neyðarstundu, hversu margar sekúndur hann eigi að þrýsta á einn hnapp eða tvo til að framkalla þá virkni sem hann óski eftir. Þótt kærandi fengi tækifæri til að staðfesta að tilboð hans fæli í sér fjóra hnappa hafi hann haldið áfram að segja að þetta væri valkvætt og nefna í dæmaskyni hvað hægt væri að gera í stað þess að staðfesta með beinum hætti hversu marga hnappa hans tilboð fæli í sér. Það hefði verið rangt gagnvart öðrum bjóðendum að taka slíku boði. Þá skipti engu máli það ákvæði í fylgigögnum tilboðs sem kærandi vísi til („comprise any combination of intercom points“) því að í útboðsskilmálum sé ekki kallað eftir almennum upplýsingum um hvernig kerfið geti verið samansett heldur beinlínis óskað eftir því að það hafi fjóra hnappa. Tilboð kæranda hafi kallað á samningaviðræður eftir á um fjölda hnappa sem sé ekki heimilt. Þá hafi varnaraðilum ekki borið að kalla eftir frekari upplýsingum á grundvelli 53. gr. laga nr. 84/2007 því ákvæðið eigi aðeins við um gögn sem varða hæfi bjóðanda, en ekki megi kalla eftir frekari upplýsingum um tæknileg atriði á grundvelli ákvæðisins. Þá hafi varnaraðili ekki óskað eftir almennum lýsingum eða dæmum um virkni boðins kerfis og kærandi hafi ekki getað svarað undanbragðalaust þegar kallað hafi verið eftir skýringum á óljósu tilboði hans. Varnaraðilar telja þannig að útboðsskilmálar hafi verið skýrir um að óskað hafi verið eftir fjórum hnöppum og þetta hafi verið ítrekað í svörum við fyrirspurnum á tilboðstíma.
Varnaraðilar byggja jafnframt á því að tilboð kæranda hafi gengið út frá því að gaumljós og kvittunarhnappur fyrir utan klefa væru sambyggð. Þar með hafi valkvæða krafan um kvittunarhnappinn verið orðin innifalin með gaumljósinu þrátt fyrir að skýrlega stæði í grein 4.4.3 í útboðsskilmálum að ákvörðun um hvort kvittunarhnappurinn yrði settur upp yrði tekin síðar. Þar með hafi tilboð kæranda ekki verið í samræmi við útboðsskilmála. Varnaraðilar mótmæla því að þetta fyrirkomulag sé óheimilt. Valkvæðar kröfur séu oft settar fram í útboðum og séu almennt viðurkenndar. Með framsetningu kæranda á sambyggðu gaumljósi og kvittunarhnappi fyrir utan klefa sé ómögulegt að gera sér grein fyrir hvort verð sé innifalið í tilboðinu eða krafið um það síðar. Þar með sé tilboð kæranda ekki samanburðarhæft við önnur tilboð og ekki í samræmi við útboðslýsingu.
Varnaraðilar mótmæla því að þeir hafi ávallt ætlað sér að taka tilboði Securitas hf. og hafna tilboði kæranda. Varnaraðilar hafi ekkert vitað hvaðan sú mynd sem sýnd var í útboðsskilmálum hafi komið en hún hafi fundist við leit á internetinu og verið notuð í dæmaskyni. Þessi mynd hafi ekki tengst því að tilboð kæranda hafi verið metið ógilt. Ekki sé hægt að túlka framkomu varnaraðila sem samþykki á gildi tilboðs kæranda. Þá hafi komið fram í útboðsskilmálum að frávikstilboð væru ekki heimiluð. Niðurstaða varnaraðila hafi verið að tilboð kæranda væri ekki í samræmi við útboðsskilmála og því hafi ekki verið heimilt að taka það til mats.
Í síðari greinargerð varnaraðila er áréttað að með grein 4.4.1 í útboðsskilmálum hafi verið óskað eftir fjórum aðgerðarhnöppum sem hver fæli í sér ákveðna aðgerð. Það sé mikilvægt að hnapparnir séu fjórir og aðskildir vegna öryggis- og hagræðissjónarmiða. Fullur vilji hafi verið til þess að ganga að tilboði kæranda enda tilboð hans langlægst. Hafi því verið leitað allra leiða til þess í samræmi við lög um opinber innkaup. Á skýringarfundi hafi það hins vegar endanlega komið í ljós að tilboð kæranda hafi ekki uppfyllt tæknilegar kröfur útboðsins. Varnaraðilar hafi ekki getað lagt þann skilning í tilboð kæranda að í því hafi falist fjórir hnappar í klefastöð. Í svörum kæranda við fyrirspurn varnaraða hafi skýrt komið fram að sú lausn sem hann bauð hafi falið í sér einn tvívirkan aðgerðarhnapp inn í klefa og annan fyrir utan hann, þrátt fyrir að útboðsskilmálar hafi gert ráð fyrir fjórum hnöppum inni í klefa. Þrátt fyrir fullyrðingar kæranda um að hægt væri að framkvæma allar umbeðnar aðgerðir með tveimur aðgerðarhnöppum í stað fjögurra telja varnaraðilar það ekki skipta máli þar sem gerð var krafa um fjóra aðgerðarhnappa. Kærandi hafi í raun verið að setja fram frávikstilboð sem hafi verið óheimilt samkvæmt útboðsskilmálum.
Varnaraðilar leggja auk þess áherslu á að almannahagsmunir krefjist þess að bygging fangelsisins geti haldið áfram. Vegna stöðvunar útboðsins muni margir verkþættir sem núverandi verktaki vinni að dragast með ófyrirséðum kostnaðarauka og töfum. Hafi verktaki áskilið sér rétt til bóta vegna þess. Þá sé brýn þörf á nýju fangelsi vegna plássleysis í öðrum fangelsum. Þá byggja varnaraðilar á því að ef ákvörðun kærunefndar um að aflétta ekki stöðvun verði látin standa muni það hafa fordæmisgildi varðandi mat á tilboðum í framtíðinni. Ekki verði hægt að hafna tilboðum þó þau feli ekki í sér tilboð um það sem var lýst í útboðsskilmálum ef bjóðandi tekur fram að hægt sé, ef þess verði óskað, að uppfylla kröfur í útboðsskilmálum síðar. Ef þetta verði niðurstaðan kalli það á samningaviðræður við bjóðendur eftir að útboðsferli sé lokið en þá er samkvæmt 4. mgr. 76. gr. laga um opinber innkaup ekki heimilt að breyta grundvallarþáttum tilboðs þannig að samkeppni sé raskað. Ósamræmi við útboðsskilmála í tilboði kæranda felist í því að í staðinn fyrir fjóra aðgerðarhnappa í klefastöð sé þar aðeins einn aðgerðarhnappur og hnappur fyrir utan klefa sem aðeins átti að vera valkvæður möguleiki en er nú allt í einu orðinn fullgildur partur af þessum fjárum hnöppum inni í klefa. Hér standist hvorki umbeðin staðsetning hnappanna né virkni þeirra og fjöldi.
IV
Securitas hf. var gefin kostur á að tjá sig um kæru kærenda og barst umsögn fyrirtækisins kærunefnd með tölvupósti 13. nóvember 2014. Bendir fyrirtækið á að af gögnum málsins megi ekki sjá hvort kerfi það sem kærandi bauð geti uppfyllt þá tengimöguleika við Tetra kerfi sem um er getið í grein 4.1 í útboðsskilmálum.
V
Í lið 4.4.1 í útboðsskilmálum kemur fram að í svokallaðri klefastöð skuli vera hnappur með gaumljósi til að kalla á hjálp, ásamt hnappi til að afturkalla boð og hnappi fyrir fangavörð til að óska eftir aðstoð og hnappi til að kvitta fyrir að hafa sinnt boði. Af svari varnaraðila við fyrirspurn bjóðanda um nánara efni þessa skilmála, áður en tilboð voru lögð fram, verður ráðið að með honum hafi verið óskað eftir fjórum aðskildum hnöppum í klefastöð. Í beiðni varnaraðila um skýringar á tilboði kæranda 10. október sl. kom fram að samkvæmt tilboði kæranda virtist klefastöð einungis vera búin einum hnappi en ekki fjórum. Verður ráðið af þessari fyrirspurn varnaraðila að þeir hafi á þessum tíma ekki talið tilboðið vera í bersýnilegu ósamræmi við útboðsskilmála að þessu leyti. Í svari kæranda við þessari fyrirspurn kom meðal annars fram að klefastöðin væri með einum tvívirkum hnappi. Engu að síður var einnig lögð á það áhersla að hægt væri að setja upp fleiri hnappa við stöðina ef á þyrfti að halda eða ef óskað væri. Verður þessi skýring kæranda ekki skilin á aðra leið en þá að hann hafi með tilboði sínu boðið klefastöð með fjórum hnöppum, í stað tveggja tvívirkra, ef þess væri á annað borð óskað af varnaraðilum og þá jafnframt án þess að það hefði áhrif á fjárhæð tilboðs. Í þessu sambandi er jafnframt horft til þess að í fylgigögnum með tilboði kæranda kom fram að hið boðna samskiptakerfi gæti falið í sér hvers konar samsetningu. Verður því ekki fallist á að tilboð kæranda hafi verið í ósamræmi við útboðsskilmála að þessu leyti.
Í lið 4.4.2 í útboðsskilmálum kemur fram að gert sé ráð fyrir því að ljósgjafa (gaumljósi) sé komið fyrir utan við hvern fangaklefa til að sýna með rauðu ljósi að fangi hafi óskað eftir aðstoð. Ljósinu skal komið fyrir í rofadós en sé þess ekki kostur skal verktaki tryggja að búnaðurinn sé varinn gagnvart skemmdum og fikti. Í lið 4.4.3 í útboðsskilmálum kemur fram að gera skuli ráð fyrir að hnappi, til að kvitta fyrir að hafa sinnt boði, verði komið fyrir utan við klefa en ákvörðun um hvort hnappurinn verði settur upp verði tekin síðar. Varnaraðilar hafa lagt áherslu á að samkvæmt útboðsskilmálum verði ákvörðun um hvort sérstakur kvittunarhnappur verði settur upp tekin síðar. Þar sem kvittunarhnappur og gaumljós sé sambyggt samkvæmt tilboði kæranda þurfi hins vegar að greiða fyrir hnappinn þótt hann verði ekki notaður.
Jafnvel þótt fallist yrði á það með varnaraðilum að þeim sé heimilt að óska eftir leiðréttingu tilboðs á framangreindum grundvelli, þ.e. ef ákveðið yrði að hafa ekki sérstakan kvittunarhnapp, er til þess að líta að lækkun á tilboðum annarra bjóðenda en kæranda myndi ekki hagga því að tilboð hans væri eftir sem áður langlægst. Að þessu virtu verður ekki séð að umrætt atriði í tilboði kæranda sé þess eðlis að það réttlæti að það sé metið ógilt, enda kveður liður 4.4.3 í útboðsskilmálum beinlínis á um að tilboð skuli gera ráð fyrir kvittunarhnappi fyrir utan klefa.
Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða nefndarinnar að brotið hafi verið gegn lögum um opinber innkaup með því að meta tilboð kæranda ógilt. Verður því að fallast á aðalkröfu kæranda og fella úr gildi þá ákvörðun varnaraðila 27. október 2014 að velja tilboð Securitas hf. í hinu kærða útboði, enda liggur fyrir að tilboð kæranda var lægst að fjárhæð.
Með hliðsjón af úrslitum málsins og 3. mgr. 97. gr. laga um opinber innkaup verður varnaraðilum gert að greiða kæranda sameiginlega málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 500.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Úrskurðarorð:
Felld er úr gildi ákvörðun varnaraðila, innanríkisráðuneytisins og Ríkiskaupa, hinn 27. október 2014, um að velja tilboð Securitas hf. í útboði nr. 15705 auðkennt „Fangelsi á Hólmsheiði. Samskiptakerfi (kallkerfi)“.
Varnaraðilar greiði kæranda, Öryggismiðstöð Íslands hf., sameiginlega kr. 500.000 í málskostnað.
Reykjavík, 22. desember 2014.
Skúli Magnússon
Stanley Pálsson
Ásgerður Ragnarsdóttir