Mál nr. 167/2012
Fimmtudaginn 20. nóvember 2014
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.
Þann 29. ágúst 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 7. ágúst 2012 þar sem umsókn kæranda um greiðsluaðlögun var synjað.
Með bréfi 11. september 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 29. október 2012. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 1. nóvember 2013 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 15. mars 2013. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.
I. Málsatvik
Kærandi er fæddur 1980. Hann býr ásamt sambýliskonu og fjórum börnum í fasteign sambýliskonunnar að B götu nr. 17 í sveitarfélaginu C.
Kærandi er hárgreiðslumeistari og starfar á hárgreiðslustofu. Mánaðarlega fær hann útborgaðar að meðaltali 250.981 krónu. Að auki fær kærandi 15.212 krónur í barnabætur. Alls nema mánaðarlegar ráðstöfunartekjur kæranda því 266.193 krónum.
Að mati kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til tekjulækkunar, ábyrgðarskuldbindinga og vankunnáttu í fjármálum. Kærandi kveðst hafa keypt sig inn í hárgreiðslustofu árið 2007 og tekið til þess erlent lán ásamt þremur öðrum mönnum. Reksturinn hafi dregist mjög saman í kjölfar efnahagshrunsins og skuldbindingar hafi hækkað. Kærandi hafi einnig stofnað ferðaþjónustufyrirtæki ásamt föður sínum og það hafi gengið vel þar til efnahagshrunið varð. Reksturinn hafi verið fjármagnaður með lánum og hafi kærandi ásamt móður sinni og frænda verið í ábyrgð vegna lánanna. Fyrirtækið hafi hætt rekstri árið 2009.
Heildarskuldir kæranda samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru 2.260.614 krónur og falla allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins nema ábyrgðarskuldbindingar kæranda 18.220.247 krónum. Til helstu ábyrgðarskuldbindinga var stofnað á árunum 2005 til 2008.
Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 23. júní 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 7. ágúst 2012 var umsókn hans hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en skilja verður málatilbúnað hans þannig að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.
Kærandi telur rangt það mat umboðsmanns skuldara að hann hafi tekið fjárhagslega áhættu með því að gangast undir ábyrgðir fyrir félög sem hann tengdist. Fjárhagsstaða kæranda og þeirra félaga sem hann hafi gengist í ábyrgðir fyrir hafi verið með þeim hætti að c-liður 2. mgr. 6. gr. lge. eigi ekki við í málinu.
Kærandi hafi gengist í ábyrgðir fyrir félögin X ehf., Y ehf. og Z ehf. á árunum 2005 til 2009. Þegar litið sé til þess hvort skuldbinding verði talin óhæfileg fjárhagsleg áhætta þurfi að taka tillit til allra aðstæðna á þeim tíma er til skuldbindingarinnar var stofnað, eignastöðu og tekna, bæði kæranda og nefndra félaga.
Félagið X ehf. hafi nú hætt eiginlegum rekstri. Á árunum 2005 til 2007 hafi kærandi gengist í ábyrgðarskuldbindingar fyrir félagið að fjárhæð 12.336.278 krónur. Þegar til skuldbindinganna hafi verið stofnað hafi eignastaða félagsins verið góð eins og ársreikningar sýni. Eignastaðan hafi verið neikvæð um 1.169.000 krónur árið 2005 en jákvæð um 1.274.000 krónur árið 2007, þegar til síðustu ábyrgðarskuldbindingarinnar hafi verið stofnað. Eignir félagsins hefðu því við eðlilegar aðstæður átt að standa undir skuldum. Á þessum tíma hafi kærandi átt eignir umfram skuldir á bilinu 1.550.298 krónur til 4.170.664 króna. Því sé ljóst að staða hans á þessum tíma hafi alls ekki verið slæm, en auk kæranda hafi móðir hans og móðurbróðir verið ábyrgðarmenn in solidum með honum. Í þessu ljósi verði ekki komist að annarri niðurstöðu en þeirri að ólíklegt væri að ábyrgðarskuldbindingarnar myndu falla á kæranda. Því hafi ekki verið fólgin veruleg fjárhagsleg áhætta í ábyrgðarskuldbindingunum. Einnig hafi kærandi átt töluverðar eignir til að standa undir ábyrgðum sem kynnu að falla á hann. Flestar ábyrgðarskuldanna hafi verið í erlendri mynt og hafi hækkað í aðdraganda hrunsins árið 2008 þannig að eignastaða X ehf. hafi orðið neikvæð. Eftir hrunið hafi félagið verið mjög illa sett vegna hækkandi greiðslubyrði af lánum sem það hafi ekki getað staðið undir. Að mati kæranda sé ekki hægt að gera kröfu um að hann sæi efnahagshrunið fyrir þegar hvorki stjórnvöld, fjármálafyrirtæki né eftirlitsstofnanir hafi gert það.
Í kjölfar rekstrarerfiðleika X ehf. hafi faðir kæranda stofnað félagið Z ehf. utan um sambærilegan rekstur og hafi kærandi gengist í nokkrar ábyrgðir fyrir það félag á árinu 2008. Rekstur Z ehf. gangi mjög vel og séu allar skuldbindingar þess í skilum auk þess sem eignir félagsins standi að mestu leyti eða öllu undir skuldum þess. Á árinu 2008 hafi persónuleg staða kæranda auk þess verið góð en hann hafi átt rúmlega 5.000.000 króna eignir umfram skuldir og framfærslutekjur hans hafi verið nokkuð yfir neysluviðmiðum.
Kærandi hafi ákveðið að stofna hárgreiðslustofu ásamt öðrum í nafni félagsins Y ehf. Til að fjármagna stofnun félagsins hafi þeir tekist á hendur ábyrgð in solidum fyrir skuld félagsins að fjárhæð 7.000.000 króna. Hafi lánið verið tekið í erlendri mynt og hafi það því hækkað mikið auk þess sem reksturinn hafi gengið illa. Að mati kæranda beri bæði að líta til þess að hann hafi ekki staðið einn að ábyrgð á skuldum félagsins og þess að á þeim tíma sem til ábyrgðarinnar var stofnað hafi félagið verið í ágætum rekstri þrátt fyrir að fljótlega hafi hallað undan fæti með veikingu krónunnar og minnkandi viðskiptum. Hefði staða kæranda á þessum tíma verið með miklum ágætum og því hefði hann átt að geta staðið undir fjórðungi skuldarinnar, eða 1.750.000 krónum, hefði ábyrgðin fallið á hann.
Í ljósi alls þessa telur kærandi að hann hafi ekki tekið óhóflega fjárhagslega áhættu.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í greinargerð með frumvarpi til lge. segi að ákvæði 6. gr. geti girt fyrir að einstaklingur í atvinnurekstri fái greiðsluaðlögun hafi hann hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans eða tekið á sig fjárskuldbindingar sem hann var greinilega ófær um að standa við. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana.
Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.
Samkvæmt gögnum málsins séu ábyrgðarskuldbindingar kæranda vegna þátttöku í félögunum X ehf., Y ehf. og Z ehf. Samkvæmt upplýsingum úr hlutafélagaskrá sé kærandi stjórnarmaður og prókúruhafi fyrir X ehf. Kærandi hafi stofnað til ábyrgðarskuldbindinganna árin 2003 og 2005 til 2008.
Fjárhagur kæranda hafi verið eftirfarandi í krónum árin 2005 til 2008:
Tekjuár | 2005 | 2006 | 2007 | 2008 |
Meðaltekjur kæranda á mánuði | 28.250 | 69.881 | 176.554 | 272.951 |
Framfærslukostnaður kæranda* | 92.264 | 98.527 | 102.010 | 115.004 |
Greiðslugeta á mánuði | -64.014 | -28.646 | 74.544 | 157.947 |
Áætlaðar afborganir af skuldum | 2.009 | 6.980 | 20.804 | 36.850 |
Greiðslustaða eftir afborganir af skuldum | -66.023 | -35.626 | 53.740 | 121.097 |
Eignir kæranda | 4.745.000 | 5.001.600 | 6.174.190 | 12.439.159 |
Skuldir kæranda | 574.336 | 1.745.164 | 4.623.892 | 7.370.159 |
Nettó eignastaða kæranda | 4.170.664 | 3.256.436 | 1.550.298 | 5.069.000 |
*Áætlaður mánaðarlegur framfærslukostnaður miðað við neysluviðmið umboðsmanns skuldara.
Árið 2005 hafi kærandi gengist í ábyrgð fyrir lánum X ehf. fyrir samtals 6.600.000 krónur. Samkvæmt ársreikningi þess árs fyrir félagið hafi eignastaða þess verið neikvæð um 1.169.000 krónur og engar tekjur hafi verið af aðalstarfsemi félagsins.
Árið 2006 hafi kærandi gengist í ábyrgð fyrir láni X ehf. að fjárhæð 2.300.000 krónur. Ekki sé hægt að meta stöðu félagsins þar sem ekki sé að finna efnahagsreikning í ársreikningi félagsins frá 2006.
Á árinu 2007 hafi kærandi gengist í ábyrgð fyrir lánum alls að fjárhæð 12.136.278 krónur, þar af hafi 3.436.278 krónur verið vegna X ehf. Eignastaða félagsins það ár hafi verið jákvæð um 1.274.000 krónur og tekjur af aðalstarfsemi hafi numið 28.278.000 krónum. Tap að fjárhæð 437.000 krónur hafi orðið af rekstrinum. Þá hafi kærandi gengist í ábyrgðir að fjárhæð 7.000.000 króna fyrir Y ehf. en það félag hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2007 hafi eignastaða félagsins verið neikvæð um 18.906.000 krónur og tap af rekstrinum 10.827.000 krónur. Á árinu 2007 hafi kærandi einnig gengist í ábyrgð fyrir E vegna skuldar að fjárhæð 1.700.000 krónur.
Árið 2008 hafi kærandi gengist í ábyrgð fyrir bílaláni Z ehf., upphaflega að fjárhæð 6.666.667 krónur. Ekki hafi verið skilað ársreikningi fyrir félagið vegna ársins 2008.
Við mat á því hvort áhætta felist í því að takast á hendur ábyrgð fyrir þriðja aðila verði að meta áhættuna í hverju tilviki fyrir sig enda verði ábyrgðarmaður að gera ráð fyrir þeim möguleika að kröfum vegna ábyrgðanna verði beint að honum. Ekki verði séð að kærandi hafi haft greiðslugetu til að standa skil á þeim skuldum sem hann ábyrgðist á árunum 2005 til 2008 kæmi til þess að hann þyrfti að greiða þær. Þrátt fyrir að eignastaða hans hafi verið jákvæð sé ljóst af gögnum málsins að tekjur kæranda hafi verið lágar og nægðu ekki fyrir framfærslukostnaði og persónulegri greiðslubyrði hans á árunum 2005 og 2006. Persónulegar skuldir kæranda séu ekki háar og verði að telja að fjárhagserfiðleikar hans séu að mestu leyti vegna framangreindra ábyrgðarskuldbindinga sem allar séu vegna rekstrar.
Í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi kæranda verið tilkynnt að á grundvelli c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. væri umboðsmanni skuldara heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar eða skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til fjárskuldbindinga var stofnað. Hafi kæranda verið veittur 15 daga frestur til andmæla. Í svari kæranda komi fram að hann telji sig ekki hafa tekið fjárhagslega áhættu þegar hann gekkst í nefndar ábyrgðarskuldbindingar. Hafi kærandi afhent ársreikninga fyrir félögin en umboðsmaður telji þá ekki styðja fullyrðingar kæranda um að hann hafi ekki tekið fjárhagslega áhættu.
Einnig komi fram hjá kæranda að flestar ábyrgðarskuldbindingar hans séu í erlendri mynt og hafi hækkað í aðdraganda hrunsins árið 2008 með þeim afleiðingum að eignastaða þeirra félaga sem hann hafi ábyrgst hafi orðið neikvæð. Samkvæmt niðurstöðu kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 18/2011 hafi staða kæranda þá og í framtíðinni ekki skipt máli við mat á því hvort ákvæði b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. ættu við enda hafi þar verið miðað við háttsemi og stöðu einstaklings á þeim tíma er til skulda var stofnað.
Einnig sé vísað til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 19/2011. Þar segi að þrátt fyrir að ekki sé hægt að leggja ábyrgðarskuldbindingar vegna þriðja aðila að jöfnu við beinar fjárhagslegar skuldbindingar við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar, verði vissulega að gera ráð fyrir þeim möguleika að kröfum vegna þeirra verði beint að honum að hluta eða í heild þrátt fyrir að ekki verði gengið svo langt að gera þá kröfu til ábyrgðaraðila að hann gangi fortakslaust út frá því að hann muni á endanum þurfa að greiða þær. Því verði að meta áhættuna í hverju tilviki fyrir sig.
Með tilliti til þess er að ofan greinir sé það mat umboðsmanns skuldara að kærandi hafi gengist í sjálfskuldarábyrgðir á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa undir kostnaði vegna eigin framfærslu og greiðslubyrði þeirra lána sem hann hafði skuldbundið sig til að greiða. Þyki kærandi þannig hafa tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í neinu samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til skuldbindinganna var stofnað.
Með hliðsjón af því sem komið hefur fram og með vísan til c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. sé það heildstætt mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar.
Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun byggist á c-lið 2. mgr. 6. gr. lge.
Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.
Af gögnum málsins verður ráðið að skuldir kæranda séu eftirtaldar í krónum:
Kröfuhafi | Ár | Tegund | Upphafleg | Staða | Vanskil |
fjárhæð | frá | ||||
Aðrir | 2007 | Reikningar | 1.530 | 6.579 | 2007 |
Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda | 2009 | Launatengd gjöld | 360.000 | 827.180 | 2009 |
Landsbankinn | 2010 | Yfirdráttur | 1.051.353 | 1.251.728 | 2010 |
Tollstjóri | 2011 | Opinber gjöld | 66.764 | 83.670 | 2011 |
Alls | 1.479.647 | 2.169.157 |
Á því tímabili sem hér er til skoðunar voru ábyrgðarskuldbindingar kæranda og tekjur hans, eignir og skuldir samkvæmt skattframtölum þessar í krónum:
2005* | 2006 | 2007 | 2008 | 2009 | 2010 | 2011 | |
Meðaltekjur á mán. (nettó) | 259.467 | 69.881 | 176.554 | 272.951 | 295.820 | 281.521 | 326.292 |
Eignir alls | 4.745.000 | 5.017.468 | 6.567.436 | 13.130.576 | 12.221.117 | 5.339.263 | 5.320.618 |
· Fasteignir | 3.484.000 | 3.823.000 | 4.575.000 | 4.122.000 | 3.919.000 | 3.909.000 | 4.289.000 |
· Ökutæki | 761.000 | 678.600 | 1.099.190 | 7.817.159 | 7.075.643 | 402.000 | 15.000 |
· Hlutir í félögum o.fl. | 500.000 | 500.000 | 892.674 | 1.097.749 | 500.000 | 1.000.000 | 1.000.000 |
· Bankainnstæður o.fl. | 15.868 | 572 | 93.668 | 726.474 | 28.263 | 16.618 | |
Skuldir | 2.009.523 | 1.943.982 | 4.623.892 | 7.370.159 | 9.097.478 | 2.296.159 | 196.626 |
Nettó eignastaða | 2.735.477 | 3.073.486 | 1.943.544 | 5.760.417 | 3.123.639 | 3.043.104 | 5.123.992 |
Höfuðstóll ábyrgðarskuldbindinga | 6.600.000 | 8.900.000 | 13.900.000 | 20.529.216 | 20.719.216 | 20.719.216 | 20.719.216 |
*Rétt þykir að miða við launafjárhæð á álagningarseðli þar sem sú tala er endanleg niðurstaða um skattskil kæranda. Umboðsmaður skuldara miðar við launafjárhæð af skattframtali.
Ábyrgðarskuldbindingar kæranda samkvæmt gögnum málsins eru þessar í krónum:
Kröfuhafi | Útgefið | Skuldari | Tegund | Trygging | Upphafleg | Fjárhæð |
auk ábyrgðar | fjárhæð | 2012 | ||||
Landsbankinn | 2005 | X ehf. | Skuldabréf | Alls 2 ábm. | 2.700.000 | 2.310.628 |
Landsbankinn | 2005 | X ehf. | Yfirdráttur | Alls 2 ábm. | 3.100.000 | 4.035.413 |
Landsbankinn | 2005 | X ehf. | Yfirdráttur | Engin | 800.000 | 1.024.205 |
Landsbankinn | 2006 | X ehf. | Skuldabréf | Alls 3 ábm. | 2.300.000 | 3.121.291 |
Landsbankinn | 2007 | Y ehf. | Erlent lán | Alls 4 ábm. | 5.000.000 | 2.502.905 |
Landsbankinn | 2009 | X ehf. | Víxill | Alls 2 ábm. | 190.000 | 360.184 |
Landsbankinn | 2010 | Z ehf. | Bílalán | Bíll | 6.629.216 | 4.865.621 |
Alls | 20.719.216 | 18.220.247 |
Samkvæmt fyrirliggjandi ársreikningum X ehf. voru lykiltölur í rekstri félagsins þessar í krónum árin 2005 til 2007, en kærandi hefur verið stjórnarmaður í félaginu frá 2003:
X ehf. | Ársreikningur | X ehf. | Ársreikningur | X ehf. | Ársreikningur | ||
2005 | 2006 | 2007 | |||||
Tekjur | - | Tekjur | 28.152.369 | Tekjur | 28.358.159 | ||
Hagnaður/tap | -2.010.185 | Hagnaður/tap | 2.879.483 | Hagnaður/tap | -436.439 | ||
Eignir | 9.608.885 | Eignir | - | Eignir | 25.864.036 | ||
Skuldir | 10.777.988 | Skuldir | - | Skuldir | 24.590.095 | ||
Eigið fé | -1.169.103 | Eigið fé | 1.710.380 | Eigið fé | 1.273.941 |
Ársreikningi fyrir Y ehf., sem síðar fékk nafnið Rauðhetta og úlfurinn ehf., vegna ársins 2008 var ekki skilað en hér má sjá rekstrartölur félagsins fyrir árin 2006 og 2007 í krónum:
Y ehf. | Ársreikningur | Y ehf. | Ársreikningur | |
2006 | 2007 | |||
Tekjur | - | Tekjur | - | |
Hagnaður/tap | 1.366.996 | Hagnaður/tap | -10.827.422 | |
Eignir | 11.507.540 | Eignir | 13.144.580 | |
Skuldir | 19.585.674 | Skuldir | 32.050.136 | |
Eigið fé | -8.078.134 | Eigið fé | -18.905.556 |
Ekki liggur fyrir ársreikningur Z ehf. fyrir árið 2008 er kærandi ábyrgðist bílalán félagsins þá að fjárhæð ríflega 6.600.000 króna.
Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana. Í lagaákvæðinu eru taldar upp ástæður sem eiga það sameiginlegt að ekki getur verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi að lge. Í framhaldinu eru í sjö liðum rakin atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Meðal þeirra atriða er c-liður 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir en umboðsmaður skuldara hafnaði kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þess ákvæðis.
Í lok árs 2005 voru eignir kæranda rúmar 2.700.000 króna umfram skuldir. Tekjur hans voru 259.467 krónur á mánuði að meðaltali. Sé tekið mið af þáverandi ógreiddum opinberum gjöldum kæranda námu heildarskuldir hans 2.009.523 krónum. Að teknu tilliti til framfærslu var greiðslugeta hans 167.203 krónur á mánuði. Mánaðarlegar skattgreiðslur kæranda ágúst til desember 2005 voru um 278.000 krónur. Hafði kærandi því ekki tekjur til að greiða bæði mánaðarlegan framfærslukostnað og skattskuld. Í janúar, júlí og ágúst 2005 tókst kærandi á hendur sjálfskuldarábyrgðir fyrir X ehf. samtals að fjárhæð 6.600.000 króna. Á þeim tíma var félagið rekið með tapi og eigið fé þess var neikvætt. Kæranda, sem stjórnarmanni í félaginu, getur því ekki hafa dulist að félagið myndi eiga erfitt með að greiða af skuldum. Kærandi tókst engu að síður á hendur nefndar ábyrgðarskuldbindingar en í ljósi fjárhagsstöðu félagsins hlaut honum þó að vera ljóst að fjárhagsleg áhætta fólst í ábyrgðunum og líkur voru á að á ábyrgðirnar myndi reyna.
Á árinu 2006 tókst kærandi á hendur nýja sjálfskuldarábyrgð að fjárhæð 2.300.000 króna fyrir X ehf. Var þá heildarfjárhæð ábyrgðarskuldbindinga hans orðin 8.900.000 króna. Á þessum tíma var eignastaða kæranda jákvæð um rúmlega 3.000.000 króna en meðaltekjur hans aðeins 69.881 króna á mánuði. Fjárhagsstaða X ehf. var betri árið 2006 en hún var árið 2005 en eigið fé félagsins árið 2006 var 1.710.380 krónur og hagnaður af starfseminni 2.879.483 krónur. Þó gáfu hvorki eignastaða kæranda né tekjur hans tilefni til að ætla að hann gæti staðið undir þeim skuldum sem hann hafði ábyrgst fyrir félagið en þær voru ríflega fimm sinnum hærri en eigið fé félagsins. Í því ljósi telur kærunefndin að kærandi hafi tekið umtalsverða áhættu með því að takast á hendur framangreinda sjálfskuldarábyrgð árið 2006.
Árið 2007 tókst kærandi enn á hendur nýjar ábyrgðarskuldbindingar. Hann gekkst í 5.000.000 króna sjálfskuldarábyrgð vegna Y ehf., en rekstur þess félags gekk illa. Með þessu var höfuðstóll ábyrgðarskuldbindinga hans orðinn 13.900.000 krónur. Greiðslugeta kæranda árið 2007 var að meðaltali 74.544 krónur og eignir voru 1.550.298 krónur umfram skuldir. Á árinu 2007 veðsetti kærandi eign sína fyrir 3.500.000 króna skuld X ehf. en í lok árs 2007 var eigið fé félagsins 1.273.941 króna. Jók þetta enn á fjárhagslega áhættu kæranda en fjárhagsleg áhætta hans vegna X ehf. var þá orðin 12.400.000 króna eða sem svaraði 9,7 sinnum eigið fé félagsins. Þá er það mat kærunefndarinnar að kærandi hafi tekið verulega fjárhagslega áhættu vegna ábyrgðarskuldar fyrir Y ehf., jafnvel þó að þrír aðrir ábyrgðarmenn væru á skuldinni en ábyrgðarskuldbindingar kæranda voru á þeim tíma orðnar svo miklar að engar líkur voru á því að hann gæti greitt þær, myndi á þær reyna.
Árið 2010 tókst kærandi á hendur ábyrgðarskuldbindingu vegna bílaláns Z ehf., þá að fjárhæð 6.629.216 krónur. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var kærandi sjálfur greiðandi bílasamningsins frá 30. júní 2008 og til þess tíma er Z ehf. tók hann yfir. Verður því ekki talið að með sjálfskuldarábyrgðinni hafi kærandi tekist á hendur auknar skuldbindingar eða tekið fjárhagslega áhættu umfram það sem hann hafði áður tekið.
Ábyrgðarskuldbindingar er ekki alltaf hægt að leggja að jöfnu við beinar fjárhagslegar skuldbindingar við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar í skilningi 2. mgr. 6. gr. lge. Sá einstaklingur sem gengst undir ábyrgðarskuldbindingar þarf þó að gera ráð fyrir þeim möguleika að kröfum vegna þeirra verði beint að honum að hluta til eða í heild. Þótt ekki verði gengið fortakslaust út frá því að ábyrgðaraðili muni þurfa að greiða allar þær skuldbindingar sem hann hefur ábyrgst efndir á verður engu að síður að meta áhættuna í hverju tilviki fyrir sig.
Þær tölulegu upplýsingar sem gerð er grein fyrir hér að framan bera skýrt með sér að kærandi tókst á hendur ábyrgðarskuldbindingar langt umfram greiðslugetu á árunum 2005 til 2007. Eignastaða kæranda gaf honum heldur ekki tilefni til að takast á hendur þessar skuldbindingar eins og rakið hefur verið. Verður þannig vart séð að kærandi hafi bæði getað framfleytt sér og haldið eigin skuldbindingum í skilum hvað þá tekið á sig greiðslu ábyrgðarskuldbindinganna ef á reyndi.
Að því er varðar c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. má vísa til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 198/2010 en þar skýrði rétturinn ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 sem er sambærilegt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í því máli voru 81% heildarskulda vegna ábyrgðarskuldbindinga sem fallið höfðu á skuldara og á sama tíma og þegar til skuldbindinganna var stofnað voru tekjur skuldara litlar sem engar. Hæstiréttur leit einnig til þess hvernig eignastöðu var háttað þegar til skuldbindinganna var stofnað og hafnaði heimild til greiðsluaðlögunar og taldi ljóst að skuldari hefði tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma þegar til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað.
Við mat á því hvort beita skuli c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. ber að líta til samspils tekna og skuldasöfnunar á því tímabili sem til skoðunar er, sbr. það sem greinir hér að ofan. Í máli þessu eru 88,9% skulda kæranda vegna sjálfskuldarábyrgða. Með hliðsjón af öllu framangreindu er það mat kærunefndarinnar að skuldbindingar þær sem kærandi ábyrgðist á árunum 2005 til 2007 hafi verið svo miklar að líta verði svo á að þær hafi verið í ósamræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til þeirra var stofnað.
Þegar allt framanritað er virt telur kærunefndin að með skuldasöfnun sinni hafi kærandi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Þá verður einnig að líta til þess að allar ábyrgðarskuldbindingar kæranda eru skuldir vegna atvinnurekstrar. Samkvæmt núgildandi lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga girða skuldir vegna atvinnurekstrar ekki fyrir heimild til greiðsluaðlögunar en takmörkun af því tagi var í 2. mgr. 63. gr. a laga um gjaldþrotaskipti o.fl. sem felld var úr gildi með lögum nr. 101/2010. Þar kom fram að ákvæði laganna um nauðasamning til greiðsluaðlögunar næði ekki til einstaklinga sem undangengin þrjú ár hefðu borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hefðu lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra, nema því aðeins að atvinnurekstri hefði verið hætt og þær skuldir sem stöfuðu frá atvinnurekstrinum væru tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum þeirra. Þó bendir umfjöllun í greinargerð með frumvarpi til núgildandi laga til þess að tilgangur þess að fella slíkar takmarkanir úr gildi hafi fyrst og fremst verið sá að greiða fyrir greiðsluaðlögun þeirra einstaklinga sem eru með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri. Segir í greinargerð með lögunum að það sé ekki ætlun löggjafans að þeir sem eigi í greiðsluerfiðleikum fyrst og fremst vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði og jafnframt bent á að líta megi til ákvæða í 2. mgr. 6. gr. lge. varðandi fjárhagslega áhættu í þessu sambandi.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Eggert Óskarsson
Lára Sverrisdóttir