Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 205/2012

Fimmtudaginn 20. nóvember 2014

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 30. október 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 18. október 2012 þar sem umsókn kæranda um greiðsluaðlögun var synjað með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi 7. nóvember 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara. Þann 19. febrúar 2013 bárust kærunefndinni bréf og viðbótargögn kæranda. Með bréfi 28. janúar 2013 var óskað eftir afstöðu umboðsmanns skuldara til athugasemda kæranda. Greinargerð umboðsmann skuldara barst kærunefndinni með bréfi 24. janúar 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 6. febrúar 2013 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1969 og er einhleypur þriggja barna faðir. Hann býr ásamt syni sínum í eigin húsnæði að B götu nr. 42 í sveitarfélaginu C.

Að sögn kæranda má rekja skuldavanda hans til fasteignaverkefna sem hann vann að. Við hrunið 2008 hafi forsendubrestur leitt til vanefnda af hálfu kaupenda og að fjármögnun verkefna fór út um þúfur.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 29. júní 2011. Með bréfi umboðsmanns skuldara 19. mars 2012 var óskað eftir skýringum kæranda á vanskilum opinberra gjalda. Í bréfi embættisins kemur fram að kærandi hafi gegnt stöðu framkvæmdarstjóra í einkahlutafélögunum X ehf., Y ehf. og Z ehf. Stöðu sinnar vegna beri kærandi ábyrgð á vangoldnum virðisaukaskatti umræddra félaga. Skuldir vegna álagningar væru 2.781.567 krónur og vegna áætlana 1.012.305 krónur, samtals 3.793.872 krónur. Þá hvíldi á kæranda skuld að fjárhæð 2.633.210 krónur vegna sektar og sakarkostnaðar. Skuldin væri vegna stöðu kæranda sem framkvæmdarstjóra félags sem ekki stóð skil á opinberum gjöldum. Skuldir kæranda vegna refsingar og skulda sem geti varðað refsingu væru því samtals 5.414.777 krónur. Í bréfinu var tekið fram að á grundvelli d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu. Með bréfi 19. mars 2012 svaraði kærandi bréfi umboðsmanns skuldara.

Með bréfi umboðsmanns skuldara 24. september 2012 var óskað eftir frekari skýringum kæranda. Í bréfinu kemur fram að stóran hluta skulda kæranda megi rekja til atvinnuverkefna. Einnig hafi kærandi gengist í ábyrgðir fyrir háum fjárhæðum hjá félögum sem hann hafi gegnt ábyrgðarstöðum fyrir. Með tilliti til tekna kæranda á þeim tíma er til skuldbindinganna var stofnað óskaði umboðsmaður skuldara eftir gögnum er sýndu fram á að kærandi hefði ekki tekið umtalsverða áhættu með viðskiptum sínum, sbr. c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Varðandi virðisaukaskattskuldir þeirra fyrirtækja sem umboðsmaður skuldara vísaði til í bréfi embættisins 19. mars 2012 þá skuldi þrotabú Z ehf. ekki lengur nein opinber gjöld. Virðisaukaskattskuld Y ehf. hafi verið greidd 9. ágúst 2012 en X ehf. skuldi enn virðisaukaskatt samkvæmt álagningu sem nemi 2.319.449 krónum vegna áranna 2011 og 2012. Jafnframt óskaði umboðsmaður skuldara frekari upplýsinga um atvinnustöðu kæranda, fjárstyrk sem hann fékk frá fjölskyldu sinni og framfærslu barna. Veitti umboðsmaður skuldara kæranda 15 daga frest til að svara bréfinu.

Með ákvörðun 18. október 2012 synjaði umboðsmaður skuldara umsókn kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.  

Með bréfi 20. október 2012 svaraði kærandi bréfi umboðsmanns skuldara frá 24. september 2012.

 

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru eru ekki settar fram sérstakar kröfur, en skilja verður málatilbúnað kæranda þannig að hann krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fram kemur í kæru að kærandi starfi hjá fyrirtækinu V ehf. en einnig hafi hann sinnt verkefnum launalaust fyrir X ehf. sem sé fyrirtæki bróður hans. Kærandi geri ráð fyrir að fara á launaskrá hjá X ehf. í byrjun maí 2012. Einnig hafi kærandi verið að vinna að því að stofna fyrirtæki ásamt fleiri einstaklingum. Kærandi telji því að heildarlaun sín frá 1. maí 2012 verði 550.000 krónur. Varðandi virðisaukaskattskuld X ehf. þá hafi verið gert samkomulag um greiðslu skuldarinnar 11. desember 2012.

Í bréfi kæranda 20. október 2012 til umboðsmanns skuldara kemur fram að laun hans séu 300.000 krónur á mánuði hjá fyrirtækinu V ehf. Þá fái hann styrk frá fjölskyldu sinni sem nemi 50.000 krónum á mánuði en hann falli niður hefji hann launað starf hjá X ehf. Um framfærslu barna upplýsti kærandi að synir hans tveir búi hjá honum. Varðandi virðisaukaskattskuld X ehf. segi kærandi að samið verði um skuldina við Tollstjóra. Kærandi kveðst ætla að senda umboðsmanni skuldara afrit af samkomulaginu þegar það liggi fyrir.

Um áhættu af viðskiptum sínum upplýsir kærandi ítarlega um aðdraganda skuldsetningarinnar og mat sitt á því að hann hafi ekki tekið óþarfa áhættu.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara 18. október 2012 kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara einkum að kanna hvort fyrir liggi ástæður sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge.

Farið hafi verið yfir umsókn kæranda og meðfylgjandi gögn. Ítrekað hafi verið óskað eftir frekari gögnum og upplýsingum. Kæranda hafi fyrst verið sent andmælabréf 19. mars 2012 vegna ábyrgðar hans á greiðslu vörsluskatta fyrir einkahlutafélögin X ehf., Y ehf. og Z ehf. Kæranda hafi verið gefinn 15 daga frestur til að tjá sig skriflega um efni málsins og styðja það gögnum. Kærandi hafi óskað eftir lengri fresti og hafi frestur verið veittur til 1. maí 2012. Svar kæranda hafi borist 3. maí 2012. Kæranda hafi verið sent annað bréf 24. september 2012 þar sem honum hafi verið gefinn 15 daga frestur til að sýna fram á að hann hefði ekki tekið fjárhagslega áhættu með því að stofna til hárra persónulegra skuldbindinga og ábyrgðarskuldbindinga vegna atvinnuverkefna. Einnig hafi verið óskað upplýsinga um vangreiddan virðisaukaskatt X ehf., sem numið hafi 2.319.449 krónum, og vegna þess að enginn samningur væri í gildi um niðurgreiðslu skuldarinnar hjá embætti Tollstjóra. Umboðsmanni skuldara væri því heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Bréf umboðsmanns skuldara 24. september 2012 hafi verið móttekið af kæranda 1. október 2012. Engin svör hafi borist frá honum. Fyrirliggjandi gögn gefi því ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda og/eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Af þeim sökum beri umboðsmanni skuldara að synja umsókn um greiðsluaðlögun á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

Í greinargerð umboðsmanns skuldara 24. janúar 2014 kemur fram að kærandi hafi haft samband við embættið með tölvupósti 19. október 2012 eftir að frestur til að skila andmælum var runninn út. Kærandi hafi óskað eftir fresti til að skila gögnum og andmælum sem hann hafi gert 22. október 2012. Kærandi hafi farið þess á leit að ákvörðun umboðsmanns skuldara yrði endurskoðuð og tekið yrði tillit til andmæla hans. Embættið hafi svarað beiðni kæranda með tölvupósti 25. október 2012 þar sem tilkynnt var að ekki væri ástæða til að taka málið til endurskoðunar. Ákvörðun um synjun hafi verið tekin eftir að frestur til andmæla rann út og það hafi ekki verið fyrr en að þeim tíma liðnum sem kærandi hafði samband við embættið með ósk um framlengingu á þeim fresti.

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að í bréfi embættisins 24. september 2012 hafi verið óskað eftir upplýsingum um atvinnustöðu, fjárstyrk og framfærslu barna. Jafnframt hafi verið vísað til ógreidds virðisaukaskatts í félagi þar sem kærandi hafi verið framkvæmdarstjóri og prókúruhafi. Samkvæmt upplýsingum frá Tollstjóra 19. september 2012 hafi ekki verið til staðar samningur um niðurgreiðslu skulda félagsins hjá embættinu. Að lokum hafi embættið óskað eftir skýringum vegna hugsanlegrar áhættu sem kærandi hafi tekið í viðskiptum en samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins bæru þau með sér að kærandi hefði tekið slíka áhættu.

Umboðsmaður skuldara áréttar að kærandi hefði getað óskað eftir frekari fresti til að svara bréfi embættisins. Kærandi hafi verið í reglulegum samskiptum við starfsmenn embættisins og því ekkert því til fyrirstöðu að óska eftir framlengingu á fresti áður en hann rann út. Verði almennt að gera þá kröfu til umsækjenda að þeir bregðist eins fljótt við og kostur sé í ljósi þess að þeir njóti sérstakrar verndar gegn ráðstöfunum kröfuhafa á meðan umsókn þeirra sé til meðferðar. Rétt sé að árétta að aðeins sé á færi kæranda að leggja fram þau gögn sem óskað hafi verið eftir við vinnslu málsins, sbr. 4. mgr. 4. gr. lge. Þetta hafi meðal annars verið staðfest í úrskurðum kærunefndar greiðsluaðlögunarmála nr. 5/2011 frá 21. júní 2011 og nr. 32/2011 frá 20. nóvember 2012.

Rannsókn á fjárhagsstöðu skuldara hafi þýðingu bæði við mat á því hvort tilefni sé til að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. og varpi jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu skuldara og væntanlega þróun hennar til framtíðar. Við mat á því hvað teljist vera nægjanlega glögg mynd af fjárhag skuldara sé meðal annars rétt að líta til 5. gr. lge. þar sem segi að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn skuldara komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar sem hann telji að geti skipt máli varðandi skuldir, eignir, tekjur og framferði skuldara áður en hann taki ákvörðun um hvort veita skuli heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Í máli þessu liggi fyrir að þær upplýsingar sem óskað hafi verið eftir hafi þótt nauðsynlegar í ljósi hárra skuldbindinga og ábyrgðarskuldbindinga kæranda svo og fyrirliggjandi gagna að öðru leyti. Ekkert hafi komið fram á síðari stigum sem breytt geti þeim forsendum sem synjun á heimild kæranda til greiðsluaðlögunar hafi verið byggð á.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Vísað er til þess að fyrirliggjandi gögn gefi ekki glögga mynd af fjárhag kæranda eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Kærandi hafi ekki svarað bréfi embættisins frá 24. september 2012 innan frests og því beri að staðfesta ákvörðun um að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar.

Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Við mat á því hvað teljist vera nægilega glögg mynd af fjárhag skuldara telur kærunefndin meðal annars rétt að líta til 4. og 5. gr. lge.

Í 4. gr. lge. er gerð grein fyrir umsókn um greiðsluaðlögun. Í 1. mgr. hennar er upptalning í 11 töluliðum á því sem koma skal fram í umsókninni. Í 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. segir að í umsókn um greiðsluaðlögun skuli koma fram hverjar tekjur skuldara séu, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum.

Í athugasemdum með 4. gr. í frumvarpi til lge. kemur fram að gert sé ráð fyrir að skuldari, eftir atvikum með aðstoð umboðsmanns skuldara, leggi mat á hversu háa fjárhæð hann geti greitt mánaðarlega til að standa skil á skuldbindingum sínum. Upptalning 1. mgr. sé ekki tæmandi, enda sé gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en tilgreindar eru í ákvæðinu.

Í 5. gr. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur embættið krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með gögnum. Rannsókn á fjárhagsstöðu skuldara hefur bæði þýðingu við mat á því hvort tilefni sé að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. og varpar jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu skuldara og væntanlega þróun hennar til framtíðar.

Í skýringum við frumvarp til lge. er fjallað um inntak b-liðar 1. mgr. 6. gr. Þar segir að umboðsmanni sé skylt að hafna umsókn þegar fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsleg málefni sín. Hér sé einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum sé unnt að afla eða gefa. Áréttað er að skuldari skuli taka virkan þátt í og sýna viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður. Samkvæmt þessu ber hverjum þeim sem leitar greiðsluaðlögunar að veita umboðsmanni skuldara ítarlegar upplýsingar og gögn. Í þessu felst skylda til að veita allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að greina fjárhagsstöðu viðkomandi til fulls. Með öðru móti verður ekki lagt efnislegt mat á hvort heimilt eða hæfilegt sé að veita skuldara greiðsluaðlögun. Rannsóknarskylda umboðsmanns skuldara leysir umsækjendur um greiðsluaðlögun ekki undan þeirri skyldu.

Í bréfi umboðsmanns skuldara 24. september 2012 var óskað eftir frekari gögnum og/eða upplýsingum um stöðu kæranda. Kærandi hafði þegar svarað bréfi umboðsmanns skuldara frá 19. mars 2012 þar sem óskað var upplýsinga vegna skattskulda félaga sem kærandi bar stöðu sinnar vegna ábyrgð á. Í málinu liggur fyrir að kærandi svaraði bréfi umboðsmanns frá 24. september 2012 eftir að ákvörðun var tekin í málinu. Virðist kærandi hafa svarað öllum spurningum þeim er umboðsmaður skuldara leggur fyrir hann í bréfi sínu. Þá liggur fyrir að kærandi lagði fram frekari gögn með kæru til kærunefndarinnar en þau gögn varpa ljósi á stöðu hans, þar með talið samkomulag við Tollstjóra um greiðslu vangoldins virðisaukaskatts.

Að öllu ofangreindu virtu verður að telja að kærandi hafi nú sinnt þeim lagaskyldum sem vísað var til af hálfu umboðsmanns skuldara um nauðsynlegar upplýsingar og gögn til að fyrir liggi glögg mynd af fjárhag kæranda eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar, svo sem ákvæði b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. áskilur. Eru því ekki lengur fyrir hendi þær forsendur sem leiddu til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður en hinar breyttu forsendur málsins leiða til þess að nauðsynlegt er að láta á það reyna hvort nú verði talin skilyrði til að leita áfram greiðsluaðlögunar.

Í ljósi framangreinds er það mat kærunefndarinnar að óhjákvæmilegt sé að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til greiðsluaðlögunar er felld úr gildi.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta