Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 201/2012

Fimmtudaginn 20. nóvember 2014

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 23. október 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 2. október 2012 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 7. janúar 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 29. janúar 2013.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 6. febrúar 2013 og var þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust frá kærendum.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1977 og 1979 og búa ásamt tveimur börnum sínum í eigin 300 fermetra fasteign að C götu nr. 18 í sveitarfélaginu D.

Samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru heildarskuldir kærenda 102.112.086 krónur og falla þær allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) fyrir utan kröfur að fjárhæð 2.252.283 krónur. Til skuldanna var aðallega stofnað á árunum 2003, 2005 og 2007.

Að sögn kærenda má aðallega rekja fjárhagserfiðleika þeirra til húsbyggingar, náms, atvinnumissis og tekjulækkunar. Árið 2007 keyptu kærendur lóð og hófu byggingu húss. Framkvæmdirnar fjármögnuðu þau með sölu íbúðar og lántöku. Í júní 2008 flutti fjölskyldan til Danmerkur vegna náms kæranda B. Kærandi A vann fjarvinnu frá Íslandi til að byrja með en missti vinnuna í kjölfar hruns bankakerfisins og var atvinnulaus um hríð. Hann var svo í vinnu í Danmörku þar til fjölskyldan flutti heim í janúar 2011 og hóf þá strax störf hjá X. Kærandi B hefur verið atvinnulaus en hóf störf hjá Y árið 2011. Meðan kærendur bjuggu í Danmörku leigðu þau fasteign sína út í tvennu lagi og fengu leigutekjur vegna þess. Eftir að þau fluttu heim hafa þau leigt neðri hæð hússins út og fá 110.000 krónur í leigutekjur á mánuði.

Kærendur lögðu inn umsókn um greiðsluaðlögun 6. janúar 2011. Umsóknin var samþykkt 30. ágúst 2011 og var kærendum skipaður umsjónarmaður í kjölfarið. Í upphaflegri ákvörðun var fjárhagsstaða kærenda rakin auk annarra upplýsinga sem málið varða. Við meðferð málsins hjá umsjónarmanni komu í ljós atvik sem þóttu geta leitt til niðurfellingar á heimild til greiðsluaðlögunar. Því var kærendum sent bréf 1. ágúst 2012 þar sem þeim var boðið að leggja fram frekari gögn í málinu og láta álit sitt í ljós. Svar kærenda barst með bréfi 3. september 2012. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 2. október 2012 voru greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda felldar niður.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur mótmæla ákvörðun umboðsmanns skuldara og óska eftir endurupptöku málsins. Þau krefjast þess að málið verði skoðað nánar út frá svari þeirra við bréfi umsjónarmanns þar sem mælt var með niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana. Skilja verður málatilbúnað kærenda á þann veg að þau krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Í umræddu bréfi kærenda segi þau í fyrsta lagi að meginskilyrði greiðsluaðlögunar sé fullnægt í þeirra tilviki enda séu þau í fyrirsjáanlegri framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Þá telji þau undantekningar eða takmarkanir á því að þau fái að njóta úrræðisins beri samkvæmt ummælum í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 101/2010 að túlka þröngt.

Í öðru lagi geri þau athugasemdir við þær forsendur sem umsjónarmaður hafi lagt til grundvallar við útreikning á greiðslugetu þeirra og hinum áætlaða sparnaði, til að mynda hafi laun þeirra verið ofreiknuð um 54.000 krónur á mánuði. Auk þess hafi brúttó leigutekjur þeirra verið færðar inn sem nettóleigutekjur og þannig ekkert tillit tekið til fjármagnstekjuskatts að fjárhæð 28.000 krónur sem greiddur hafi verið af leigutekjum.

Í þriðja lagi bendi þau á að áskilnaði um vísvitandi frávik frá skyldum hafi ekki verið fullnægt í þeirra tilviki. Ásetningur þeirra hafi aldrei staðið til annars en að standa við skyldur sínar samkvæmt lge. Telji þau að meint brot megi að einhverju leyti rekja til upplýsingaskorts. Umsjónarmaður hafi ekki sérstaklega upplýst þau um að þeim væri óheimilt að greiða af bílasamningi við Lýsingu en hluti af launum kæranda A hafi verið bílastyrkur. Þeim hafi verið nauðsynlegt að halda bifreið vegna vinnu og fjölskylduaðstæðna auk þess sem annað myndi leiða til tekjulækkunar vegna missis bílastyrks. Af þessum ástæðum hafi þau haldið áfram að greiða afborganir af bílasamningi, 55.000 krónur á mánuði. Hafi þeim ekki verið gerð grein fyrir því að slíkt væri brot og á fyrsta fundi þeirra vegna málsins hafi raunar verið rætt um nauðsyn þeirra til að hafa bifreið.

Í fjórða lagi taki umsjónarmaður ekki tillit til kostnaðar sem fallið hafi til vegna búferlaflutninga fjölskyldunnar og kærendur geri grein fyrir í greinargerð sinni. Búferlaflutningarnir hafi verið afar kostnaðarsamir en kostnaður vegna þeirra sé áætlaður rúmlega 680.000 krónur. Mat kærenda hafi verið að hagsmunum kröfuhafa væri betur borgið ef þau myndu flytja. Þau hafi tekið saman sem flesta reikninga og kvittanir vegna þessa og hafi umsjónarmanni verið afhent afrit af þeim. Beiðni um afhendingu frekari gagna hafi ekki borist frá umsjónarmanni.

Þá hafi umsjónarmanni jafnframt verið gerð grein fyrir því að nokkur kostnaður hefði fallið til vegna sálfræðiaðstoðar sem fjölskyldumeðlimir hafi þurft á að halda. Áhyggjur af fjármálum kærenda og fjölskyldu hafi valdið því að hjónaband þeirra hafi verið að liðast í sundur og sonur þeirra hafi þurft á aðstoð að halda þar sem hann hefði verið fórnarlamb eineltis í skóla. Kostnaður af þessari nauðsynlegu aðstoð hafi verið 347.000 krónur. Eðli máls samkvæmt hafi þau talið að kostnaðurinn væri þess eðlis að hann félli undir heimild a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. til að standa straum af kostnaði til að sjá fjölskyldu farborða.

Vegna búferlaflutninga hafi kærendum reynst erfitt að safna saman reikningum og kvittunum. Eins og sjáist af framangreindu geti kærendur útskýrt af hverju þau hafi ekki lagt til hliðar 3.270.000 krónur eins og krafa hafi verið gerð um. Þá taka kærendur fram að þau hafi lagt til hliðar 467.309 krónur og muni sú fjárhæð eflaust hækka nokkuð á meðan tímabili greiðsluaðlögunarumleitana standi verði tillögu umsjónarmanns hafnað.

Kærendur hafi mikla hagsmuni af því að fá tækifæri til að leita samninga við kröfuhafa um uppgjör skulda. Verulegur munur sé á möguleikum þeirra til að afla frekari tekna í framtíðinni eftir því hvort þau fái tækifæri til að koma á frjálsum samningum við kröfuhafa í stað þess að þurfa að sæta því að verða gerð upp eftir harðsvíruðustu reglum skuldaskilaréttarins. Það sé vandséð hvernig það þjóni hagsmunum þeirra, kröfuhafa og samfélagsins í heild að þeim verði meinað að endurskipuleggja fjármál sín samkvæmt leið greiðsluaðlögunar. Verði þau þvinguð til að fara fram á gjaldþrotaskipti sé ljóst að það muni skaða aflahæfi þeirra nokkuð, það muni koma í veg fyrir að kröfuhafar fái nokkuð í sinn hlut og því vandséð að samfélagið njóti góðs af slíkri ráðstöfun. Hér sé einnig til þess að líta að þau séu fjölskyldufólk. Það séu hagsmunir allra, bæði þeirra og kröfuhafa, að þeim verði gert kleift að gera upp við kröfuhafa eftir fremsta megni, því verði leið skuldaskilaréttarins ofan á þýði það einvörðungu að tekjumöguleikar þeirra verði skertir, þau komi til með að eiga í erfiðleikum með að standa undir framfærslukostnaði barna sinna og kröfuhafar muni ekki fá neitt í sinn hlut. Það geti vart talist skynsamleg, sanngjörn og eðlileg niðurstaða, a.m.k. sé það skoðun þeirra að það samræmist ekki tilgangi og markmiði laga um greiðsluaðlögun.

Kærendur geri athugasemdir við verklag og vinnubrögð skipaðs umsjónarmanns þeirra. Telji þau að vinnubrögð hans fullnægi ekki þeim almennu kröfum sem gera megi til vandaðra og góðra vinnubragða umsjónarmanna. Þau hafi aldrei hitt umsjónarmanninn sjálfan. Þau hafi verið boðuð á fund umsjónarmanns, en hann hafi ekki verið viðstaddur heldur aðstoðarmaður hans. Þá hafi þau fengið símtöl frá tveimur mismunandi aðstoðarmönnum umsjónarmannsins. Frekari samskiptum við umsjónarmann hafi ekki verið til að dreifa fyrr en þeim hafi borist áðurnefnt bréf frá umsjónarmanni 30. maí 2012.

Kærendur telji umrædd vinnubrögð umsjónarmanns ámælisverð. Sá umsjónarmaður sem hafi verið skipaður til að aðstoða þau í greiðsluaðlögunarumleitunum hafi engin bein samskipti haft við þau. Þá hafi umsjónarmaður ekki falið neinum einum tilteknum starfsmanni málefni kærenda heldur virtist mál þeirra hafa borist borða á milli, án þess að nokkur starfsmanna umsjónarmanns hefði sett sig sérstaklega inn í mál þeirra. Vinnubrögð þessi hafi ekki verið þess eðlis að kærendur hafi mátt ætla að umsjónarmaður eða starfsmenn hans hefðu hagsmuni kærenda að leiðarljósi við vinnu sína.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Sé þá miðað við að hann geti ekki staðið við eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skulda, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna sinna að öðru leyti, sbr. 1. og 2. mgr. 2. gr. lge. Komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Í 1. mgr. 12. gr. lge. séu tilgreindar skyldur skuldara við greiðsluaðlögun þegar frestun greiðslna stendur yfir. Í a-lið 1. mgr. 12. gr. segi að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari leggja til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Umboðsmaður skuldara bendir sérstaklega á að öllum umsækjendum um greiðsluaðlögun sem nutu frestunar greiðslna hjá embættinu hafi verið sent bréf 8. apríl 2011 þar sem brýndar hafi verið skyldur þeirra samkvæmt 12. gr. lge. Umræddar upplýsingar hafi enn fremur verið að finna á heimasíðu embættisins. Að auki séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og umsækjenda. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. fylgt ákvörðun um samþykki umsóknar kærenda um greiðsluaðlögun 12. maí 2011. Hafi kærendum því mátt vera ljóst að þau skyldu leggja til hliðar þá fjármuni sem þau hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Samkvæmt fyrirliggjandi útreikningum séu útgjöld kærenda um 417.724 krónur á mánuði, sé miðað við framfærsluviðmið septembermánaðar 2012 fyrir tvo fullorðna og tvö börn. Greiðslugeta kærenda sé áætluð um 374.958 krónur á mánuði. Tekið sé mið af tekjum kærenda í júní, júlí og ágúst 2012 en við útreikninga hafi ekki verið tekið tillit til meintra leigutekna að fjárhæð 110.000 króna.

Kærendur hafi borið því við í bréfi sínu til embættis umboðsmanns skuldara að í ljósi þess að þau uppfylli almenn skilyrði 2. gr. lge. um að leita greiðsluaðlögunar vegna ógjaldfærni um fyrirsjáanlega framtíð, standi ekki nauðsyn til að fella niður heimild þeirra til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt 7. gr. lge. þrátt fyrir brot þeirra á skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Þá hafi kærendur vefengt útreikninga umsjónarmanns á greiðslugetu þeirra. Í andmælum kærenda hafi þó ekki verið að finna haldbær gögn sem rennt gætu stoðum undir staðhæfingar þeirra hvað útreikning greiðslugetu varðar.

Þrátt fyrir að kærendur hafi vefengt útreikninga umsjónarmanns liggi þó fyrir að greiðslugeta þeirra hafi verið veruleg áður en ákvörðun var tekin. Ljóst sé að frá því frestun greiðslna hófst í janúar 2011 hafi kærendur haft stöðugar tekjur að frátöldum fyrstu fimm mánuðum ársins 2011 í tilviki kæranda B þar sem hún hafi verið án tekna um skeið.

Fyrir liggi að kærendur hafi fundað með umsjónarmanni sínum 18. janúar 2012 þar sem þeim hafi verið kynntar skyldur sínar samkvæmt 12. gr. lge. Hafi kærendur þó ekki lagt til hliðar fé samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. frá því að umræddur fundur hafi átt sér stað, þrátt fyrir ótvíræða grandsemi um skyldur sínar að því leyti. Þá hafi kærendur hvorki veitt umsjónarmanni né umboðsmanni skuldara fullnægjandi skýringar á því hvers vegna þau hafi ekki lagt fé til hliðar á meðan frestun greiðslna stóð yfir. Kærendur hafi framvísað gögnum um óvænt útgjöld en upphæð útgjaldanna hafi þótt óveruleg. Að mati umboðsmanns skuldara hafi því þótt rétt að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar, sbr. 15. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.  Samkvæmt ákvæðinu er ekki áskilið að skuldari bregðist skyldum sínum af ásetningi. Með bréfi til umboðsmanns skuldara 30. maí 2012 lagði umsjónarmaður kærenda það til að greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra yrðu felldar niður.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærendur hafi ekki lagt til hliðar fjármuni sem voru umfram framfærslu þeirra á sama tíma og þau nutu greiðsluskjóls. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II í lge. hófst tímabundin frestun greiðslna kærenda strax við móttöku umsóknar þeirra um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara 6. janúar 2011. Samkvæmt 5. mgr. sama ákvæðis eiga skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. laganna við þegar umsókn hefur verið móttekin af umboðsmanni skuldara og greiðslum frestað tímabundið í samræmi við ákvæðið.

Samkvæmt gögnum málsins voru kærendur ítarlega upplýst um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt því sem kemur fram í tilkynningu umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 30. maí 2012 um mögulega niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum kærenda hafa kærendur safnað skuldum að fjárhæð 251.537 krónur á meðan þau nutu greiðsluskjóls.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana fylgdi greiðsluáætlun en þar kemur fram að greiðslugeta kærenda hafi verið 374.958 krónur á mánuði. Í fyrrgreindu bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 30. maí 2012 er greiðslugeta kærenda sögð vera 284.489 krónur á mánuði. Þrátt fyrir að kærendur hafi gert athugasemdir við útreikninga á greiðslugetu sinni og að misræmi sé á milli útreikninga umsjónarmanns og umboðsmanns skuldara er ljóst að greiðslugeta kærenda hefur verið umtalsverð á þeim tíma sem þau hafa notið greiðsluskjóls.

Í upphaflegri greiðsluáætlun kærenda kemur fram að greiðslugeta þeirra hafi verið 226.894 krónur á mánuði. Samkvæmt því bar kærendum að leggja til hliðar samtals að minnsta kosti um 3.600.000 krónur frá því umsókn þeirra var móttekin eða í 16 mánuði. Gengið er út frá því í ákvörðun umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekkert lagt fyrir á meðan frestun greiðslna stóð yfir. Kærendur hafa sagt að laun kæranda A hafi verið ofreiknuð um 54.000 krónur á mánuði og að afborganir af bílasamningi hafi numið 55.000 krónum á mánuði en einnig hafa þau tilgreint kostnað vegna sálfræðiaðstoðar að fjárhæð 347.000 krónur og kostnað við flutninga frá Danmörku til Íslands sem var að sögn kærenda 680.000 krónur. Þá segjast kærendur hafa lagt til hliðar 467.309 krónur. Jafnvel þótt tekið yrði tillit til alls þess viðbótarkostnaðar sem kærendur hafa tilgreint en er engum gögnum studdur, hvorki fyrir kærunefndinni né hjá umboðsmanni skuldara samtals að fjárhæð um 2.000.000 krónur, er ljóst að talsvert vantar enn upp á sparnað kærenda eða um 1.700.000 krónur. Er það því mat kærunefndarinnar að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Með vísan til alls framangreinds fellst kærunefndin á það mat umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild kærenda til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta