Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 196/2012

Fimmtudaginn 27. nóvember 2014

 

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 22. október 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 26. september 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 22. október 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 27. nóvember 2012.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 27. nóvember 2012 og var þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 13. mars 2013. Athugasemdir bárust frá kærendum 7. maí 2013.

Með bréfi 8. maí 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir afstöðu umboðsmanns skuldara til athugasemda kærenda. Athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru hjón, fædd 1959 og 1962. Þau búa ásamt þremur börnum sínum í eigin íbúð við C götu nr. 1 í sveitarfélaginu C. Kærandi A starfar sem geislafræðingur á Landsspítala og eru launatekjur hennar að meðaltali 201.262 krónur á mánuði. Kærandi B hefur að eigin sögn yfirleitt verið í stöðu menntunarfræðings hjá X og starfar þar nú í 90% starfshlutfalli. Mánaðarlegar meðaltekjur hans eru 275.088 krónur. Samanlagðar tekjur kærenda eru 537.785 krónur á mánuði en þær eru vegna launa, barnabóta og vaxtaniðurgreiðslu.

Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína til tekjulækkunar og vankunnáttu í fjármálum. Greiðsluerfiðleika þeirra megi rekja allt til ársins 2005 en þeir stafi aðallega af hækkandi afborgunum lána, verðhækkunum og launalækkunum. Staða þeirra hafi enn versnað við efnahagshrunið 2008. Síðar hafi áætlanir opinberra gjalda fallið á kæranda B en það hafi verið vegna starfsemi sem hann hafi hætt árið 2006. Kærandi B hafi haft fasta verkefnavinnu hjá X en mikið tekjutap félagsins hafi leitt til þess að hann hafi starfað þar sem verktaki og því hafi ógreidd opinber gjöld safnast upp.

Samkvæmt gögnum málsins eru skuldir kærenda alls 56.664.791 króna en þær falla allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.), nema skuld að fjárhæð 3.732.674 krónur vegna námsláns. Til helstu skuldbindinga var stofnað vegna fasteignakaupa og framkvæmda við fasteign.

Umsókn kærenda um greiðsluaðlögun barst umboðsmanni skuldara 29. apríl 2011. Umsókn þeirra var synjað með ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 26. september 2012 með vísan til f- og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur fara fram á að umboðsmaður skuldara taki aftur við málinu og aðstoði þau við að semja við kröfuhafa. Verður að skilja það svo að þau fari fram á að ákvörðun umboðsmanns skuldara sé felld úr gildi.

Kærendur kveða skuldir sínar í fyrsta lagi vera vegna íbúðar sem þau hafi keypt tilbúna undir tréverk árið 2000 og framkvæmda á íbúðinni. Í öðru lagi skuldi þau opinber gjöld vegna verkefnavinnu kæranda B en skatta hafi átt að greiða eftir á. Greiðslur fyrir þessa vinnu hafi verið í lágmarki fram til ársins 2007 en það ár hafi ekki alveg tekist að greiða skatta af tekjunum. Ætlunin hafi alltaf verið að greiða þessar skuldir. Stór hluti skattskuldar það ár sé þó vegna áætlana.

Þá hafi kærandi B stofnað einkahlutafélag árið 2008 en vegna efnahagshrunsins hafi rekstrinum verið sjálfhætt. Ekki hafi tekist að innheimta útistandandi skuldir félagsins og sé það nú gjaldþrota. Á árunum 2007 til 2011 hafi hlaðist upp áætlanir opinberra gjalda vegna félagsins sem séu langt umfram það sem umsvif þess hafi gefið tilefni til.

Kærendur hafi ekki stofnað til skuldbindinga síðustu misseri umfram það sem leiði af venjulegum kostnaði við rekstur fimm manna fjölskyldu. Þau hafi ekki haft tekjuafgang til að greiða opinber gjöld af launum eða skattaáætlanir. Tekjur hafi aðeins nægt fyrir nauðsynjum.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að við mat á umsókn um greiðsluaðlögun beri að líta til þeirra aðstæðna sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram heimild til að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana. Við matið skuli taka sérstakt tillit til þeirra aðstæðna sem lýst sé í stafliðum ákvæðisins. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lge. sé tekið fram að þær ástæður sem taldar séu upp í 2. mgr. 6. gr. lge. eigi það sameiginlegt að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verði að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni.

Í f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að umboðsmanni sé heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þyki að veita hana vegna þess að skuldari hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt. Samkvæmt g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé umboðsmanni skuldara heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þyki að veita hana vegna þess að skuldari hafi á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans séu þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra.

Í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 13/2011 hafi framangreindir synjunarliðir komið til skoðunar. Í málinu höfðu umsækjendur um árabil látið undir höfuð leggjast að greiða meðal annars iðgjöld í lífeyrissjóði, bifreiðagjöld, tryggingar og dómsektir en í úrskurðinum segi um þetta: „verður ekki hjá því litið að fjöldi krafna er þess eðlis að líta verður til sjónarmiða að baki ákvæða g-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. þar sem segir að synja megi um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans séu þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra og jafnframt til f-liðar sömu málsgreinar þar sem fjallað er um þau tilvik þegar skuldari hefur ekki staðið í skilum eftir því sem honum framast var unnt. Þessar kröfur eru ýmist opinber gjöld eða greiðsla í sjóði sem ætlaðir eru til samneyslu eða samtryggingar [...]. Ekki verður annað séð en meginhluti þessara krafna hafi stofnast á tímabili þegar þau voru fær um að standa við skuldbindingar sínar eða eftir atvikum að forðast að stofna til þeirra.“ Þá hafi svipaðar aðstæður verið uppi í máli nr. 25/2011 en þar hafi nefndin virt fjárhagsráðstafanir umsækjanda í heild og lagt sérstaka áherslu á að óhófleg skuldasöfnun vegna opinberra gjalda á þeim tíma þegar tekjur umsækjenda voru þokkalegar og jafnvel góðar, gæti orðið til þess að líta yrði til sjónarmiða að baki áðurnefndum f- og g-liðum 2. mgr. 6. gr. lge.

Í greinargerð með umsókn kærenda reki þau greiðsluerfiðleika sína fyrst og fremst til tekjulækkunar en taki jafnframt fram að óuppgerðar áætlanir og ógreidd opinber gjöld hafi fallið á kæranda B vegna verkefnavinnu. Af gögnum málsins megi ráða að fjárhagserfiðleikar kærenda stafi í raun að miklu leyti af vanskilum opinberra og launatengdra gjalda. Samkvæmt meðfylgjandi yfirliti frá tollstjóra hafi staða ógreiddra þing- og sveitarsjóðsgjalda í nafni kæranda B verið 7.676.179 krónur við töku hinnar kærðu ákvörðunar og 393.946 krónur í nafni kæranda A á sama tíma. Þá séu ótalin launatengd gjöld og staðgreiðsla að fjárhæð 1.179.716 krónur. Ógreidd opinber gjöld séu því samtals að fjárhæð 9.249.841 króna.

Á því tímabili sem til stærstu skuldanna var stofnað, þ.e. árin 2006 til 2008, hafi tekjur kæranda B verið nokkuð góðar, eins og fram komi í gögnum málsins. Þá hafi tekjur kæranda A verið stöðugar síðastliðin ár. Í lögum um tekjuskatt nr. 90/2003 sé kveðið á um ábyrgð á skattgreiðslum en samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laganna, sbr. 62. og 80. gr., beri hjón óskipta ábyrgð á greiðslum skatta sem á þau hafi verið lagðir. Geti innheimtumaður ríkissjóðs gengið að hvoru hjóna um sig til greiðslu á sköttum þeirra beggja. Líti embættið því þannig á að kærandi A beri óskipta ábyrgð á þing- og sveitarsjóðsgjöldum kæranda B.

Með hliðsjón af því sem fram hafi komið sé það heildstætt mat umboðsmanns skuldara að kærendur hafi látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eins og þeim var framast unnt með því að greiða ekki opinber gjöld af tekjum sínum og að það sé bersýnilega ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til umræddra skuldbindinga. Af þeim sökum þyki óhæfilegt að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til f- og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Að öllu þessu virtu og með vísan til forsendna, sem fram komi í hinni kærðu ákvörðun og tekin var á grundvelli f- og g-liða 2. mgr. 6. gr. laga nr. 101/2010, fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á f- og g- liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Í f-lið  kemur fram að umboðsmanni sé heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þyki að veita hana vegna þess að skuldari hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt. Samkvæmt g-lið er umboðsmanni skuldara heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þyki að veita hana vegna þess að skuldari hafi á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans séu þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra.

Í skattframtölum kærenda er ekki gerð grein fyrir skattskuldum ef frá er talið skattframtal vegna ársins 2011. Gefa skattframtölin því ekki rétta mynd af eigna- og skuldastöðu þeirra. Ef tekið er tillit til skattskulda voru eignir, skuldir og tekjur kærenda á þessu árabili neðangreindar í krónum:

  2006 2007 2008 2009 2010 2011
Meðaltekjur* á mánuði 467.542 698.839 535.739 407.031 437.003 654.346
Eignir 27.770.784 29.242.800 29.372.250 30.967.207 28.972.097 32.246.156
· Fasteignir 25.212.800 27.942.800 28.028.200 29.802.210 27.800.000 30.631.200
· Ökutæki 1.700.000 1.300.000 1.170.000 853.000 767.700 690.930
· Hlutir  í félögum         200.000 200.000
· Hrein eign skv. efnahagsreikn. 857.984          
· Bankainnstæður o.fl.     174.050 311.997 204.397 724.026
Skattskuldir   919.595 2.979.522 4.095.304 4.791.316 6.673.573
Aðrar skuldir 24.412.306 24.894.445 30.336.797 27.783.361 41.914.133 49.238.870
Nettó eignastaða 3.358.478 3.428.760 -3.944.069 -911.458 -17.733.352 -23.666.287

*Ráðstöfunartekjur.

Helstu skuldir kærenda stafa frá árunum 2005 til 2008 en í neðangreindri töflu má sjá skuldir kærenda samkvæmt skattframtölum og öðrum gögnum málsins í krónum:

Kröfuhafi Lántökuár Upphafleg Fjárhæð Tegund Vanskil
    fjárhæð 2012 láns frá
LÍN 1994   3.732.674 Námslán -
Íbúðalánasjóður 2005 4.100.000 7.302.443 Veðskuldabréf 2009
Landsbankinn 2005 19.700.000 31.798.574 Veðskuldabréf 2010
Landsbankinn 2007   764.330 Yfirdráttur 2007
Tollstjóri 2007 919.595 1.496.261 Þing- og sveitarsjóðsgjöld 2007
Byr 2007 1.900.000 2.721.019 Skuldabréf 2010
Tollstjóri 2008 2.059.927 3.069.507 Þing- og sveitarsjóðsgjöld 2008
Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda 2008 280.200 527.744 Iðgjöld 2008
Tollstjóri 2009 1.115.782 1.439.561 Þing- og sveitarsjóðsgjöld 2009
S24 2010   569.338 Yfirdráttur 2010
Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda 2010 222.952 265.649 Iðgjöld 2010
Tollstjóri 2010 360.227 398.537 Þing- og sveitarsjóðsgjöld 2010
S24 2010   248.899 Greiðslukort 2011
Íslandsbanki 2010   104.015 Greiðslukort 2010
Tollstjóri 2010 335.785 386.023 Staðgreiðsla, trygg.gjald 2010
Vodafone 2011 1.900 2.508 Reikningur 2011
S24 2011   280.379 Greiðslukort 2011
Tollstjóri 2011 1.654.433 1.557.330 Þing- og sveitarsjóðsgjöld 2011
  Samtals 32.650.801 56.664.791    

Af því sem rakið hefur verið hér að framan má sjá að árin 2006 og 2007 var eignastaða kærenda jákvæð. Námu eignir umfram skuldir tæpum 3.400.000 króna árið 2006 en rúmum 3.400.000 króna árið 2007. Frá árinu 2008 hefur eignastaða kærenda verið neikvæð. Á árinu 2006 voru mánaðarlegar meðaltekjur kærenda alls 467.542 krónur, á árinu 2007 voru tekjurnar 698.839 krónur og á árinu 2008 voru tekjurnar 535.739 krónur. Á þessum árum stofnuðu kærendur til skulda vegna opinberra gjalda að fjárhæð tæplega 3.000.000 króna. Á árunum 2009 til 2011 stofnuðu kærendur til enn frekari skulda vegna opinberra gjalda og nam höfuðstóll þessara skulda rúmum 6.400.000 króna í lok árs 2011.

Kærunefndin álítur að með þessu hafi kærendur stofnað til skattskulda með ámælisverðum hætti. Hafi þau ekki staðið í skilum eftir því sem þeim frekast var unnt og ekki verði annað séð en að stór hluti þessara skulda hafi stofnast á tímabili þegar þau hafi verið fær um að standa við skuldbindingar sínar eða eftir atvikum getað forðast að stofna til þeirra. Telur kærunefndin jafnframt að skattskuldir af þeim toga sem hér um ræðir séu þess eðlis að samfélagslega óásættanlegt sé að greiðsluaðlögun nái til þessara skulda kærenda. Af framangreindu virtu er það álit kærunefndarinnar að ákvæði f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. eigi við í tilviki kærenda.

Við mat á því hvort beita skuli g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. telur kærunefndin að líta beri meðal annars til atvika sem skuldari ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með 6. gr. lge. Einnig sé rétt að líta til fjárhæða skuldbindinganna, enda er í lagaákvæðinu vísað til „óhóflegra“ skuldbindinga. Eins og rakið hefur verið hafa kærendur um árabil látið hjá líða að greiða opinber gjöld en vanskilin hafa verið viðvarandi frá árinu 2007. Nema þau nú umtalsverðri fjárhæð. Telur kærunefndin ekki annað fært en að líta til sjónarmiða að baki g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. og í því ljósi verði að telja að kærendur hafi brotið gegn þessu lagaákvæði.

Í ljósi alls þessa sem hér greinir telur kærunefnd greiðsluaðlögunarmála að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að synja B og A um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli f- og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta